Bloggfærslur mánaðarins, maí 2009

701 - Fircifrede logaritmetavler og tónleikar í Guðríðarkirkju

logaritmerAf einhverjum ástæðum hefur þessi bók fylgt mér allt síðan ég var á Bifröst í eldgamla daga. Í þá daga voru ekki til handhægar og ódýrar vasatölvur svo notast var við logaritmatöflur af þessu tagi. Í stuttu máli má segja að með því hafi þrælerfiðum margföldunar og deilingardæmum verið breytt í samlagningu og frádrátt. Þessi bók var mikið notuð og við lærðum að nota logritmatöflur, antilogaritmatöflur, vaxtatöflur og allt mögulegt. 

Þarna lærðum við allskyns verslunarreikning þó eflaust þætti hann ekki merkilegur nútildags. Mér er minnisstætt að við Kiddi á Hjarðarbóli vildum gjarnan setja dæmin upp öðruvísi en kennarinn. Við kunnum vel að setja einföld dæmi upp í jöfnu en kennarinn var ekki eins leikinn í því. Gallinn var sá að hann gaf aldrei rétt fyrir á prófum nema útkoman væri nákvæmlega sú sama og hans aðferðir sögðu til um.

Þetta fannst okkur Kidda ekki nógu sniðugt og vildum fá rétt fyrir dæmin ef skilningurinn væri réttur og rétt reiknað. Til fjandans með nákvæmnina. Auðvitað vann kennarinn því nemendur eru alltaf réttlausir.

Fögin sem við lærðum á Bifröst voru margskonar. Þar lærðum við t.d. að vélrita og ég bý að því enn í dag að kunna fingrasetningu. Einnig lærðum við Samvinnusögu, Menningarsögu, verslunarrétt (með z reyndar), ensku, dönsku, þýsku, ensk verslunarbréf, fundarsköp og fundarreglur, íslensku og eflaust eitthvað fleira. Vorum þarna í heimavist í tvo vetur og þóttumst súpergáfaðir eftir stritið. Þarna var ágætis bókasafn, félagslíf með miklum ágætum og í það heila skemmtilegt að vera.

Fór á tónleika seinni partinn í dag laugardag. Það geri ég ekki oft en þetta voru óvenjulegir tónleikar. Það var Landesjugend-Akkordeorchester Bayern sem hélt tónleika í Guðríðarkirkju í Grafarholti. Já það var fræg harmónikkuhljómsveit frá Þýskalandi sem hélt þessa tónleika. Þeir voru frábærir. Það er með ólíkindum sá árangur sem hægt er að ná með einu hljóðfæri. Stjórnandinn Stefan Hippe var líka eftirminnilegur og tök hans á hljómsveitinni ótrúlega góð.

Einleikari með hljómsveitinni var Konstantin Ischenko og var hann frábær. Mikill listamaður með harmónikkuna og hef ég aldrei heyrt annað eins. Líklega hentar þessi kirkja, sem ég held að sé alveg ný, ágætlega til tónleikahalds.

Hljómsveitin heldur aðra tónleika á Ísafirði 2. júní næstkomandi.


700 - Þjóðaratkvæðagreiðsla eða -greiðslur um Evrópusambandsaðild

Best að blogga aðeins um mál málanna. Evrópusambandsaðild kemur til með að skipta þjóðinni í tvær andstæðar fylkingar á svipaðan hátt og NATO-aðildin og hersetan gerði á sínum tíma. Stjórnmálamenn munu reyna að forðast slíkt en svo mikill hiti er í mönnum að líklega er það ekki hægt. 

Þjóðaratkvæðagreiðsla fékkst aldrei um NATO-aðildina og hersetuna en hugsanlegt er að andstæðingar hersetunnar og NATO-aðildarinnar með kommúnista í broddi fylkingar hefðu sigrað í þeirri atkvæðagreiðslu.

Sá munur er einkum á því sem nú er um rætt og kalda stríðinu að nú verður næstum örugglega þjóðaratkvæðagreiðsla. Það er samt ekkert víst að hún lægi öldurnar. Að minnsta kosti ekki ef úrslitin verða ekki mjög sannfærandi. Alls ekki er víst að þeir sem tapa viðurkenni ósigur sinn.

Ýmislegt bendir til að til úrslita dragi í þessu mikla deilumáli strax á þessu ári eða næsta. Viðsjár milli manna munu aukast gríðarlega og engin leið er að spá fyrir hvernig ástandið verður.

Ég er svosem ennþá fylgjandi Evrópusambandsaðild en get ekki með nokkru móti fallist á þann fyrirgang sem í mönnum er. Að mínu mati er það mjög hæpin fullyrðing að allt verði okkur Íslendingum hliðhollara eftir að sótt hefur verið um aðild. Seðlabankar og ríkisstjórnir um allan heim hafa verið að reyna að spila á markaðinn og hugi fólks með svipuðum hætti mánuðum saman með mjög litlum árangri. Manipulering af þessu tagi gengur einfaldlega ekki upp. Ást Svía á okkur Íslendingum er heldur ekki sannfærandi.

Við Íslendingar höfum beðið lengi eftir að sækja um aðild. Vandalaust er með öllu að bíða nokkra mánuði í viðbót. Ég hef áður haldið því fram að tvöföld atkvæðagreiðsla gagnist bara fylgjendum aðildar. Ég er enn sömu skoðunar og tel að atkvæðagreiðsla um að sækja um vinnist auðveldlega af þeim sem það vilja. Þar með verður mun auðveldara að fá fólk til að samþykkja aðild ef sæmilegir samningar nást.

Á sama hátt og vinstri menn vildu umfram allt þjóðaratkvæðagreiðslu um NATO-aðildina og hersetuna munu andstæðingar aðildar að Evrópusambandinu berjast á móti þjóðaratkvæðagreiðslu af öllum kröftum.


699 - Erró, bjór og myndir

Erró er engum líkur. Hann kann að mála. Hefur sérstakan stíl og kann svo sannarlega að auglýsa sig. Einu sinni hét hann Ferró en svo vildi einhver meina að hann hefði einkarétt á því nafni svo hann felldi F-ið niður. Hann heitir víst Guðmundur Guðmundsson og er fæddur í Ólafsvík en alinn upp á Kirkjubæjarklaustri.

Á Hundastapa á Mýrum er rennandi bjór eftir því sem sagt var í sjónvarpinu í kvöld. Ekki veit ég hvað það á að fyrirstilla að vera að gefa nautum bjór en ég man eftir því að einu sinni var vinsælt lag sem hét á ensku „Running bear" eða eitthvað þess háttar. Ég var aldrei viss um hvort verið var að tala um hlaupandi björn eða rennandi bjór. Annars man ég yfirleitt ekki vel eftir dægurlagatextum. Skil þá sjaldnast og finnst þeir yfirleitt ekki skipta miklu máli. Undantekningar eru samt til.

Ef endilega þarf að vera verðtrygging þá er án alls vafa vitlaus vísitala notuð til að hækka lánin. Eðlilegast er að skuldunautar og lánardrottnar skipti verðbólguáhrifunum einhvern vegin á milli sín. Ef verðbólgan er lítil sem engin skiptir þetta auðvitað ekki miklu máli en verðbólgan á það til að rjúka upp eins og dæmin sanna.

Óvenjumargir blogga nú um þingstörfin sín og er það vel. Þetta starf verður manneskjulegra fyrir vikið. Svo er líka oft gaman að fylgjast með Alþingisumræðum í sjónvarpinu. Ágæt gestaþraut er að spá í skammstafanirnar á nöfnunum sem hægt er að sjá á mælendaskránni.

Athyglisverð þverstæða er að nú er líklega fyrst meirihluti á Alþingi fyrir Evrópuaðild en kannski ekki meðal þjóðarinnar. Löngum var því öfugt farið. Líklega fer best á því að láta Alþingi eitt um það næstu vikurnar að þræta fram og aftur um þetta mál.

Og svo eru einar ellefu myndir sem allar eru teknar við Elliðaárnar um daginn.

IMG 2721Þetta er víst fífill að springa út.

IMG 2726Hundasúruplanta berst fyrir lífi sínu.

IMG 2736Vatnið í Elliðaánum.

IMG 2737Séð undir brúna þar.

IMG 2742Meira vatn.

IMG 2744Og enn meira.

IMG 2745Sóleyjar.

IMG 2746Stífla.

IMG 2748Lúpína.

IMG 2754Kríur á steini.

IMG 2757Litið eftir umferðinni.


698 - Fáeinar gamlar myndir og ekkert annað

IMGÞessi bók er um ferðalag höfundarins um „The Appalachian Trail". Bill Bryson er þarna óviðjafnanlegur sem oftar. Einu sinni var ég með mikla dellu fyrir gönguferðum og ekki hefði ég slegið hendinni á móti því að ferðast eftir the Appalachian trail. Eiginlega er þetta nú bara skann-prufa.

IMG 0004Þessi mynd er frá Bifröst í Borgarfirði. Þarna er fólk greinilega á leiðinni í útivist.

IMG 0014Frá Bifröst. Gunnar Hallgrímsson og Kristinn Jón Kristjánsson. Jú, Gunnar var stærri en Kiddi en ekki svona mikið.

IMG 0015Þriðja myndin frá Bifröst. Séra Sveinn Víkingur slúttar hér skólaballi. (skyldi maður ætla) Guðvarður Kjartansson og Jón Illugason úr skólahljómsveitinni sjást í baksýn.

IMG 0006Þetta er gamla Trésmiðjan í Hveragerði.

IMG 0007Þessi mynd er tekin í garðyrkjustöðinni við Garðyrkjuskólann að Reykjum í Ölfusi. (hús númer 7 8 9 og 10 - held ég).

IMG 0018Meistaraflokkur Hveragerðis í knattspyrnu nokkru eftir miðjan sjötta áratug síðustu aldar. Veit ekki hvar myndin er tekin. Alvörumörk með neti (og gati) voru ekki á hverju strái.

IMG 0028Þessi mynd er tekin í Laugaskarði. Það eru Guðmundur Gíslason (til vinstri) og Pétur Kristjánsson (til hægri) sem þarna stinga sér til sunds. Líklega er þessi mynd tekin um miðjan sjötta áratug síðustu aldar eða svo. Landsliðið í sundi kom þá oft til æfinga að Laugaskarði við Hveragerði. Þar var á þeim tím eina 50 metra sundlaug landsins. Erlendis var þó oft keppt í svo stórum laugum. Þessvegna kom landsliðið til æfinga þarna. Um þetta leyti var Guðmundur Gíslason að taka við keflinu af Pétri Kristjánssyni sem besti skriðsundsmaður landsins á styttri vegalengdum. Vel má sjá á myndinni að krafturinn er meiri hjá Guðmundi.

Eins og margir vita er gríðarlegt þol einkenni góðra sundmanna. Jónas Halldórsson þjálfari  landsliðsins setti eitt sinn hundrað króna seðil undir stein á steyptan staur við Barnaskólann (þar sem landsliðið gisti) og sagði að sá, sem fyrstur yrði uppá Reykjafjall og hringinn í kringum ákveðinn klett þar sem blasti við frá skólanum og til baka aftur mætti eiga seðilinn. Hundrað krónur (þó gamlar væru) var talsverður peningur á þessum tíma. Varla þarf að taka fram að Guðmundur Gíslason sigraði auðveldlega í þessari þraut.


697 - Um Robert James Fischer

papers 775789Allskyns dót frá Bobby Fischer er nú boðið upp (sjá mynd) Nánar má lesa um þetta hér.

Þetta leiðir hugann að Fischer sáluga. Minningin um hann lifir enn. Ekkert hefur þó heyrst frá ábyrgum aðilum um erfðamál hans og hver staðan á þeim er um þessar mundir. Ég er þó viss um að margir hafa áhuga á því máli.

Mark Crowther skrifaði ágæta minningargrein um Fischer í blað sitt TWIC. Hún er hér og þar eru einnig hlekkir á ýmislegt um Fischer. Svo er auðvitað hægt að gúgla nafnið hans og óhætt er að segja að ævi hans væri efni í margar bækur.


696 - Um blogg

Ég get ekki að því gert að ég er óskaplegur dellukarl. Um þessar mundir er það bloggið sem slíkt sem ég er með dellu fyrir. Þegar ég uppgötvaði bloggið einhverntíma um 2000 las ég öll blogg sem ég fann, jafnvel erlend líka. Það kvað svo rammt að þessu að eitt sinn, líklega á jólunum 2003, fékk ég í jólagjöf bókina um Salman Pax. Því miður hafði ég lesið flest áður sem í bókinni stóð því ég hafði lesið bloggið hans frá því nokkru fyrir upphaf Íraksstríðsins. 

Stefán Pálsson hefur verið minn aðalgúrú á þessu tímabili þó Salvör Gissurardóttir hafi komið þar við sögu einnig. Einu sinni las ég hvert einasta blogg frá þeim. Lýsingarnar á því þegar maðurinn hennar Salvarar fór til Afghanistan eru mér minnisstæðar. Já og auðvitað las ég bloggið hans líka.

Á tímabilum hef ég líka lesið hvert einasta blogg sem Ágúst Borgþór og Nanna Rögnvaldardóttir hafa skrifað. Lýsingar Nönnu á sauðargærunni eru klassík. Um þessar mundir læt ég ekkert blogg frá Sigurði Þór Guðjónssyni ólesið. Les jafnvel veðurfarslanglokurnar hans þó mér finnist þær hundleiðinlegar. Við Lára Hanna urðum forsíðubloggarar hér á Moggablogginu um sama leyti og ég las öll bloggin hennar lengi vel en er farinn að sleppa þeim stundum nú í seinni tíð.

Nýjasta dellan mín í bloggheimum er svo blogg-gáttin. Þar skráði ég mig fyrir nokkru og fer þangað inn jafn oft og á mitt eigið blogg. Semsagt mjög oft. Blogg-gáttin er ágæt og þar fyrir utan nota ég Google readerinn talsvert. Bloggvinirnir eru því miður orðnir of margir til þess að ég geti almennilega fylgst með þeim.

Baldur Guðmundsson skrifar fasta þætti í DV.is. Hann heldur því fram að flestir hörðustu ESB andstæðingar á blogg-gáttinni noti bókstafinn Z. Þetta hafði mér aldrei dottið í hug en vel getur verið að það sé rétt. Hörður Bragason segir í athugasemd að þeir eigi það líka sameiginlegt að hafa aldrei verið búsettir í öðru Evrópuríki en Íslandi.


695- Samtíningur og sitthvað - afrakstur tiltektar

Nýlega var frá því sagt að prestur hafi keypt hlutabréf í Stoke um árið og sjái nú loksins fram á að endurheimta hugsanlega eitthvað af því fé sem þar fór forgörðum. Ég var einn af þeim vitleysingum sem fylgdist á sínum tíma vel með Stoke ævintýrinu. Sem betur fer lagði ég þó ekki peninga í það. Vest Ham sagan fór víst eitthvað illa líka. Ekki er fullreynt ennþá um þessi mál en knattspyrnuliðin á Bretlandi eru í dýrari kantinum fyrir mig. 

Þetta með prinsinn elgtanaða er merkilegt mál. Vonandi fer þó allt saman vel. Ekki finnst mér líklegt að miklar fjárhæðir endurheimtist eftir allan þennan tíma en það skiptir kannski ekki mestu máli. Aðalmálið er að góma þyrluflugmanninn son Ólafs kaupfélagsstjóra í Borgarnesi.

Netið er stórhættulegt. Þriggja ára keypti skurðgröfu á Netinu. Menn hafa keypt allan fjárann í gegnum síma. Er hann ekki stórhættulegur líka? Og hugsið ykkur allan óþverrann og lestina. Ég fæ bara klígju.

Skottulækningar eru vinsælli en málfar. Eiður Guðnason getur borið vitni um það. Hann réðist um daginn á detox-vitleysuna og lifewave og allt það. Ekki stóð á viðbrögðunum. Hver um aðra þvera ryðjast Jónínurnar fram og vitna um afeitrunina einu og sönnu.

Á toppfm.is er besta útvarpsstöðin á Akranesi samkvæmt topplistanum hans Gunnars Helga Eysteinssonar. Þetta finnst mér alveg magnað. Vissi ekki einu sinni að það væru margar útvarpsstöðvar á Akranesi.

Ég á alltaf dálítið erfitt með mig þegar vitleysur Evrópuandstæðinga ganga úr hófi. Það er ekki nóg með að þessir andskotar í Brussel ætli að ræna okkur sjálfstæðinu og taka traustataki allar okkar auðlindir heldur eru þeir líka útsettir með að eitra fyrir okkur með því að flytja hingað handónýtar landbúnaðarafurðir. Það nýjasta er svo að við Íslendingar verðum að vara okkur mjög á herskyldunni sem áreiðanlega komi í stórríkinu sem verið sé að stofna.

 

694- Málfar í bloggheimum og fjallabíllinn fagurgrænn

Mjög lengi hefur verið deilt um hvort keppa eigi í fegurð. Femínistar hafa reyndar sérstaklega haft dálæti á að traðka niður þetta form á keppni og sagt hana niðurlægjandi fyrir konur og skaði ímynd kvenna að flestu leyti. Samt sem áður þrátt fyrir þessa umræðu tekur fjöldi kvenna þátt í slíkum keppnum og hefur áhuga á þeim tækifærum sem opnast með því.

Svona tekur Stefán Friðrik Stefánsson til orða á blogginu sínu vinsæla. Mér finnst þessi texti bölvað klúður og það finnst mér texti Stefáns oft vera. Kannski skrifar hann of mikið. Sjálfur mundi ég orða þetta einhvern vegin svona:

Lengi hefur verið deilt um hvort keppa eigi í fegurð. Femínistar hafa sérstaklega traðkað niður þetta keppnisform og sagt það niðurlægjandi fyrir konur og skaða ímynd þeirra. Samt tekur fjöldi kvenna þátt í þessu og hefur áhuga á þeim tækifærum sem opnast.

Auðveldara er að gefa heilræðin en halda þau. Kannski skrifa ég einmitt of mikið sjálfur og dett stundum í svona þrugl. Þykist samt vera betur skrifandi en Stefán. Hann kippir sér eflaust ekki upp víð smágagnrýni og því nafngreini ég hann hér. Málfarsgagnrýni verður svo marklaus ef dæmi eru ekki tekin og ekki dugir að taka það allra versta.

Þar að auki skrifaði ég eitt sinn athugasemd á bloggið hans sem hann birti ekki. Það var aðfinnsla um málfar sem Stefán leiðrétti þó.

Málfarsgagnrýni er í tísku í bloggheimum núna. Eiður Guðnason er afkastamikill í henni og tínir margt til. Fleiri láta gjarnan ljós sitt skína og þeirra á meðal ég. Alltaf má gera betur og liðin er sú tíð þegar ekki mátti orðinu halla varðandi málfar þeirra sem skrifuðu á Netið. Ástæðulaust er þó að þegja bara af ótta við að geðjast ekki þeim kröfuhörðustu. Enginn hæstiréttur er til varðandi málfar og stafsetningu.

Af því að þetta er tæpast nógu langt (eftir mínum eigin stöðlum) bætti ég svolitlu við. Svona er það.

Ég þaut niður Kringlumýrarbrautina á mínum fjallabíl og allt að Sæbrautinni. Eftir henni fór ég svo á bílastæðið við Tollhúsið. Það var reyndar fullt en ég fann pláss á gangstétt þar nálægt og þaut á byltingarfundinn. Pottarnir og pönnurnar urðu eftir heima en við því var ekkert að gera. Einmana sleif gægðist þó uppúr frakkavasanum. Ég skundaði á Austurvöll í snatri og þar var Hörður byrjaður að rífa sig.

„Eruð þið á móti ríkisstjórninni?" spurði Hörður.

„Já." Hrópaði mannfjöldinn og hristi sig í kuldanum.

„Eruð þið á móti Davíð Oddssyni?" hrópaði Hörður.

„Já." Hrópaði mannfjöldinn og stappaði niður fótunum.

„Eruð þið á móti öllum?" spurði Hörður.

„Já." Hrópaði mannfjöldinn og lamdi næsta mann með sleif.

„Eruð þið á móti sleifum?" hrópaði Hörður.

„Já." Hrópaði mannfjöldinn og kastaði sleifunum upp í loftið.

Þetta er víst það sem kallað er sleifarlag nútildags og eftir því stjórnar Jóhanna.

Nútíma sleifarlagi fylgir líka að kalla á alþjóðagjaldeyrissjóðinn sér til hjálpar en ekki Guð almáttugan. Svo er að samþykkja allt sem sá brúni segir og klappa fyrir kommissörunum í Brussel. Ef kosið er rétt og Gunnari tryggður áframhaldandi konungdómur í Kópavogi getur þetta ekki klikkað.

 

693- Málfar og fleira í Hveragerði í gamla daga

„Mig stansar á" sagði mamma oft þegar hún varð mikið hissa. Við Ingibjörg systir gerðum mikið grín að þessu og þótti afspyrnuvitlaust. Svo var þó ekki. Mamma talaði líka oft um „kvitteringar". Mér þótti eðlilegara að tala um kvittanir en hitt er víst danska. Mamma bað okkur líka oft um að hætta að mævængja og stígstappa þetta ef henni þótti við vera fyrir. 

Af einhverjum ástæðum set ég þessi orð bæði alltaf í samhengi við bakstur í kolaeldavélinni í gamla skúrnum okkar sem sennilega var víst upphaflega fjós. Að minnsta kosti var norðurendinn þannig að vel var hægt að trúa því að þar hefði belja (eða jafnvel tvær) haldið einhverntíma til. Í suðurendanum man ég vel eftir að eitt sinn voru hænsni. Þegar eggjahljóð, sem pabbi kallaði svo, kom í hænurnar voru þær settar í strigapoka og hengdar upp í loft. Hversvegna vissi ég aldrei.

Það var gaman að tína arfa og allskyns gróður og gefa hænunum. Eitthvað var víst um hana líka en ég man lítið eftir þeim. Þó held ég að það hafi verið hani sem flaug hauslaus út að ruslatunnu sem var talsverður spotti. Hænur voru ekki étnar á þessum tíma heldur fór skrokkurinn af þeim í ruslið.

Bestur þótti hænunum venjulegur haugarfi og þessvegna reyndum við jafnan að finna hann. Gengum þó ekki svo langt að reita arfa með skipulögðum hætti úr kartöflugarðinum. Pabbi jós því tröllamjöli á hann og það þoldi arfinn ekki. Seinna reis svo húsið hans Aage að hluta til í kartöflugarðinum okkar og skúrinn þurfti á endanum að rífa. Fyrst suðurendann sem var víst á lóðinni hans Aage og löngu seinna norðurendann.

Af hverju er ég að rifja þetta upp? Hef ekki hugmynd um það. Sennilega muna samt fáir orðið eftir þessu. Oft þegar ég er að skrifa eitthvað um Hveragerði í gamla daga þá vantar mig að spyrja þær Ingibjörgu og Sigrúnu um ýmislegt. Þegar ég hitti þær svo man ég auðvitað ekkert eftir því.

Ég man eftir ýmsu frá Hveragerði í gamla daga. Bjarni á Bóli rak kýrnar sínar á hverjum degi framhjá Bláfelli og niður í móa hjá réttunum. Við krakkarnir fengum stundum að hjálpa honum við það. Eiríkur og Sigga á hótelinu settu karbít í gufuholuna hjá símstöðinni fyrir ferðafólk sem tvístraðist í allar áttir þegar gufan kom upp með miklum krafti og undirgangi. Væri vindáttin óhagstæð bölvaði mamma Siggu í sand og ösku ef þvotturinn á snúrunum blotnaði í gufunni.

Hulda á Mel sat oft lengi í eldhúsinu hjá mömmu og fór oftast ekki fyrr en í fulla hnefana því mamma gat hæglega tekið til mat og annað og látið dæluna ganga á meðan. Já og Sigga á símstöðinni þurfti stundum að líða fyrir það að ryðgaði tankurinn var rétt fyrir utan stöðina og okkur þótti gaman að lemja í hann og skapa þannig hávaða.

 

692- Reynt að kryfja stórhausamálið til mergjar og tæpt á ýmsu öðru

Brjánn bloggvinur minn Guðjónsson gerir stórhausamálið að umtalsefni í nýlegu bloggi. Mér er ljúft og skylt að skýra hvernig þetta mál horfir við mér.

Forsíðubloggarar eða stórhausar eru nefndir þeir átta bloggarar sem koma á forsíðuna í hvert sinn sem blog.is setrið er heimsótt. Hvernig þessi blogg eru valin hefur oft komið til umræðu. Starfsmenn Moggabloggsins eða Moggabloggsguðirnir sem ég vil kalla velja þá sem þarna eru. Af lista sem mér skilst að á séu um 200 bloggarar velur sérstakt forrit hverja átta skuli birta hverju sinni.

Hvaða skilgreiningar ráða því vali er mér að mestu hulið. Moggabloggsmenn geta þó að sjálfsögðu skýrt þetta allt saman vilji þeir það. Mér finnst að ekki eigi að leyna neinu í þessu sambandi. Annaðhvort eigi að útskýra út í hörgul hvernig þessu vali er varið eða steinhætta þessari stéttaskiptingu. Ef vilji er til að halda þessu áfram tel ég að útskýra þurfi vel af hverju þetta er gert.

Mér finnst mannkynsfrelsarar vaða dálítið uppi á Íslandi í dag. Einkum í silfri Egils, Stöð 2 og útvarpi Sögu. Kannski er þetta einhver ímyndun í mér en ég get ekki gert að því þó mér finnist þetta. Bloggið er svolítið annar handleggur. Vissulega er margt bullið þar en fyrir það er auðvelt að skrúfa. Ekki er nærri eins auðvelt að skrúfa fyrir hina hefðbundnu fjölmiðla því vitundin um það sem maður gæti hafa misst af er sárari en margt annað.

Fjölmiðlarnir hafa áhrif á marga í krafti auðvaldsins og auglýsinganna. Auglýsendur þurfa að ná til margra í einu og með hjálp fjölmiðlanna tekst þeim það. Þar með verða fjölmiðlarnir háðir auglýsendunum þó þeir geri sér kannski ekki grein fyrir því. Auglýsendurnir eru hinir raunverulegu eigendur fjölmiðlanna og ráða í raun hvað birtist þar. Af nógu er að taka og innan um það sem úti frýs er sjálft lýðræðið og frelsið til athafa. Þetta er gömul saga og ný. Án raunverulegrar og frjálsrar fjölmiðlunar er ekkert líf. Án lífs engin fjölmiðlun. Þetta er Catch-22 nútímans og erfitt að breyta.

Um daginn fór ég að bænum Straumi sem stendur skammt frá álverinu í Straumsvík. Ekki fór ég inn heldur lét mér umhverfið nægja. Á heimleiðinni ætlaði ég að skoða nánar hið merka listaverk af Þór sáluga í hafravagninum en listrænn hundur, kolsvartur að lit, sem þarna var á verði kom í veg fyrir það. Um leið og ég snaraðist út úr bílnum kom hann æðandi með gelti, gassalátum og urri en hefur sennilega brugðið eins mikið og mér því líklega hefði hann getað bitið mig áður en ég komst inn í bílinn aftur hafi það verið raunverulegur ásetningur hans. Út úr bílnum þorði ég þó ekki að fara öðru sinni heldur kom mér sem skjótast í burtu.

Svo eru nokkrar myndir.

IMG 2679Þessi er tekin við Straumsvík.

IMG 2682Sömuleiðis þessi.

IMG 2683Það er staðarlegt í Straumi.

IMG 2690Varða með krossi.

IMG 2696Malbik endar.

IMG 2698Sæbarið grjót.

IMG 2699Steinar í sjó fram.

IMG 2703Gengið í sjóinn.

 

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband