Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2015

2296 - Dekkverk

Margt er mannanna bölið

og misjafnt drukkið ölið.

Segir í eldgamalli heimsósómavísu. Eflaust hef ég skrifað um þessa vísu áður, en líklega ekki alveg á sama hátt og núna. Þetta með bjórdrykkjuna hefur alltaf heillað mig svolítið. Ekkert var barist á móti bjórnum í eldgamla daga. Þó er hann allsekki góður. A.m.k. ekki samanborið við dísæt ávaxtavín. Þetta þurftu menn samt að gera sér að góðu í þann tíð og svo eru unglingarnir teknir upp á því aftur. Mjöðurinn frægi var auðvitað einskonar bjór. Að vísu er bjórinn frá ríkinu óheyrilega dýr núna, en minni skammta af áfengi er erfitt að fá. Svo þarf að drekka gríðarlega mikið af þessu sulli til að verða almennilega fullur.

Í nútíma netumhverfi er öll persónuvernd og upplýsingaskylda sífellt að verða flóknari. Ég veit t.d. ekki hvort ég má segja allt sem ég segi. Hugsanlega má ég í rauninni ekki blogga án þess að kynna væntanlegum lesendum mínum lagalega stöðu sína í löngu og ítarlegu máli. Kannski má ekki lesa þetta með lokuð augun. Hvað veit ég? Myndanotkun öll er líka að verða stórhættuleg. Eiginlega verður maður að taka myndirnar sjálfur til að mega gera hvað sem er við þær. Já, það er vandlifað í henni verslu.

Mikið er rætt um bólusetningar þessa dagana og er það engin furða. Hef oft verið undrandi á því hve lítið er rætt um slíkt hérlendis eins og sú umræða er fyrirferðarmikil víða erlendis. Mjög tilfinningaþrungin er hún og margir sem um þetta skrifa seilast langt til áhrifa. Oftast eru líf og dauði í spilinu. Engin ástæða er til að ætla annað en þeir sem á móti bólusetningum eru vilji hið besta, samt er ég hræddur um að þeir vaði í villu og svíma. Bólusetningar hafa útrýmt mörgum hættulegum sjúkdómum og engin ástæða er fyrir þá, sem aldrei hafa kynnst þessum hörmulegu veikindum af eigin raun, til að láta svona og leggja grunn að því að sjúkdómarnir geti náð sér aftur á strik. Þeir liggja flestir í leyni og bíða eftir tækifæri. Samt er það svo að sumt í málflutningi andstæðinga bólusetninga er þess virði að rannsaka nánar. Sú heildsölukennda, öfgafulla og ókeypis bólusetning sem víða fer fram er vissulega athugaverð. Þakka þó guðum (og bólusetningu) fyrir að hafa ekki fengið þá flensu sem nú virðist ganga og vera óvenju slæm, 7-9-13.

Já, margt er mannanna bölið. Það er ekki nóg að forðast bólusetningar og persónuvernd heldur er símarnir og allar þær rafsegulbylgjur sem umlykja okkur (og öll nútímatækni sömuleiðis) víst stórhættulegar líka. Búast má við því að heilastarfsemi allra þeirra sem nálægt þessu koma leggist smám saman af og sækja verði hjálp til frumbyggja hist og her. Það að auki mun hnatthlýnunin sennilega drepa okkur fyrr en varir. Allt er skrifað hjá afkomendum okkar.

Limrur eru ólíkindatól. Aldrei hef ég náð neinum tökum á að yrkja slíkt. Venjulegar ferskeytlur eiga betur við mig. Ég er svo fordómafullur að mér finnst að limrur eigi að vera þannig að eitthvert heiti komi fram í fyrstu ljóðlínunni og að rímið þurfi að vera óvænt. Man samt eftir einni limru sem ég hef gert. Aðdragandinn var sá að ég sá stórt skilti þar sem stóð „Dekkverk“ og hugsaði með sjálfum mér að þarna væri ágætis rímorð. Og innan skamms var vísan (limran) fullgerð:

Það var hann Dóri í Dekkverk
sem dýrindis smíðaði rekkverk.
Svo fór hann á túr
og fékk sér smálúr.
Eftir það ekkert hann fékk verk.

WP 20150128 14 34 42 ProMannfjöldi.


2295 - Um flokkaskipun á Íslandi

Nú heitir hún Birgitta Bergþórudóttir allt í einu Byrgíta. Mér er sama, því hún virðist kunna það sem ég kann ekki (og þarf ekki að kunna.) Nefnilega að breyta um nafn í fésbókinni án þess að breyta nokkru öðru. (Reyndar heiti ég Sæmundur Steinar, en það er nú önnur saga) Einu sinni bloggaði hún líka á Moggablogginu eins og ég. Þekkti mömmu hennar ágætlega og kaus Píratana í síðustu alþingiskosningum mest hennar vegna. Hún er nefnilega mátulega langt frá því að vera dæmigerður þingmaður. Frekar er hún nokkurskonar Björn á Löngumýri.

Mér finnst yrkingarnar á Boðnarmiðinum á fésbókinni fremur lélegar yfirleitt, nema þá helst mínar eigin. Kannski er það eðlilegt. Hverjum þykir sinn fugl fagur og allt það, á sennilega vel við hérna. Annars er ég mest hissa á því hve margir virðast lesa Boðnarmjöðinn. Ef maður slysast til að muna eftir vísu sem maður hefur gert í einhverju bríaríi þá er alveg upplagt að henda henni þangað.

Kannski er ýmislegt á fésbókinni sem maður á eftir að finna. Mér finnst hún samt sjálf vera sífellt að stinga uppá því að maður fari hingað eða þangað. Ofast fer ég samt ekki neitt. Í mesta lagi útúr fésbókinni. Hangi nefnilega ekki þar heilu dagana einsog sumir virðast gera. Jæja, ætli þetta sé ekki nóg um fésbókina. Ekki get ég skrifað eingöngu um hana. Sumir blaðamenn virðast samt ekki gera neitt annað en að lesa fésbókina.

Kaffi er vont á bragðið. Með mjólk og sykri má bæta það svolítið. Áhrifin af kaffinu eru samt ágæt. Líklega er það mest notaða eiturlyfið í heiminum. Ætti maður kannski að stefna að því að hætta að nota það, eftir að manni tókst að vinna bug á eiturlyfinu sykur? Ekki gekk það upp hjá framsóknarmönnum að gera Ísland eiturlyfjalaust, en kannski tekst það á endanum. Nikótínið er t.d. á hröðu undanhaldi. Um önnur eiturlyf veit ég ekki. Kaffið er það a.m.k. ekki og vafamál með sykurinn.

Nokkuð athyglisverð er greining Ómars Ragnarssonar á hlutfallstölum flokkanna fyrr og nú. Löngum var það svo að Sjálfstæðisflokkurinn var stærstur þátttakenda í fjórflokknum. Gjarnan með 40 prósent atkvæða eða svo og hinir með mun minna eða 15 til 25 prósent atkvæða hver. Hann einn gat myndað tveggja flokka stjórn og gerði það óspart. Fjórflokkurinn er talinn hafa samanstaðið af Sjálfstæðisflokknum, Framsóknarflokknum, Samfylkingunni (krötunum) og Vinstri Grænum (kommunum). Fleiri komu við sögu en hurfu jafnan aftur.

Kannski er nú hægt að fara að tala um sexflokkinn. (Björt framtíð og Píratar virðast hafa bæst við) Sjálfstæðisflokkurinn hafi farið í svona 25 prósent og hinir í u.þ.b. 15 prósent hver. Þetta gæti þýtt að Sjálfstæðismenn hafi misst möguleikann á tveggja flokka stjórn og hinir þurfi ekki allir að sameinast til að losna við Sjálfstæðisflokkinn.

Hafnarfjarðar- og persónuverndarmálið verður sífellt óskiljanlegra eftir því sem meira er skrifað um það. Ekki skil ég það með nokkru móti. Veit ekki hvað kom bæjarstjóranum til að fara fram á símtalaskrána frá Vodafone. Heldur ekki hvað kom bæjarfulltrúunum svona á óvart. Ef einhver annar er skráður eigandi símans sem þú ert að tala í af hverju er eðlilegt að þú getir gert ráð fyrir því að enginn komist að því hvert þú hringdir? Skil þetta bara allsekki.

WP 20150128 14 13 33 ProByggingarframkvæmdir.


2294 - Sumar á Sýrlandi

Fyrstu skátaskemmtanirnar sem ég fór á voru haldnar í stóru bröggunum við Snorrabrautina. Nú eru þeir horfnir. Man líka vel eftir því að fyrsti malbikaði spottinn (ósléttur mjög) sem ég ferðaðist eftir var þar sem núna er Bæjarháls. Man einnig vel eftir skiplagslausu hverfi þar sem nú eru Holtin. Þar voru braggar og allskyns kofar út um allt. Sömuleiðis man ég vel eftir Höfðaborginni og Pólunum. Auðvitað er það ekki mikið til að muna eftir. En samt settu þessi fyrirbrigði sinn svip á bæinn og gerðu hann fremur óaðlaðandi. Sem betur fer átti ég heima í Hveragerði á þessum tíma. Strætó gekk alla leið uppað Lögbergi og þaðan var auðvelt að fá far til Hveragerðis. Sömuleiðis þurfti ekki að fara nema niður á þjóðveg frá Hveragerði til að fá far í bæinn. Rútuferðir í bæinn voru þá ekki margar á dag eins og seinna varð. Þar að auki kostaði í þær, en maður ferðaðist ókeypis á puttanum.

Undrast ofbeldið sem beitt er gagnvart þeim sem grunaðir eru um hitt og þetta. Til dæmis heyrði ég í fréttum um einhverja menn sem voru handteknir vegna þess að þeir voru grunaðir um að ætla til Sýrlands. Kannski var þetta bara óheppilegt orðalag, en kannski eitthvað meira. Er ekki bara lögregluríkið að herða tökin? Það finnst mér. Kenningar Krist hélt ég að snerust um það að bjóða hina kinnina ef maður er sleginn á aðra. Að launa illt með góðu hefur stundum hinar undarlegustu afleiðingar.

Pólitíkin er fremur undarleg þessa dagana og sömuleiðis veðrið. Ætli þau séu ekki skyld? Annars finnst mér lognmollan best, næstum því eins og miðjumoðið. Verst hvað menn æsa sig mikið, bæði yfir veðrinu og pólitíkinni. Eiginlega er engin ástæða til þess. Þetta fer alltsaman einhvern vegin. Langbest er að vera áhrifalaus með öllu. Þá ber maður ekki ábyrgð á neinu. Þetta finnst mér a.m.k. Kannski fylgir þetta ellinni. Þegar ég var yngri var ég ekki svona. Þá fannst mér alltaf að ég væri gáfaðastur af öllum.

Þú verður aldrei fullnuma í neinu. Það þýðir ekkert annað en sætta sig við það. Allt sem þú gerir væri hægt að gera betur. Þannig er lífið bara. Þó maður geti sjálfsagt alltaf fundið eitthvað sem maður er betri í en næsti maður, dugar það ekki. Það væri nefnilega alltaf hægt að finna einhvern sem væri ennþá betri. Annars væri maður heimsmeistari. Kannski er það þess vegna sem öll Guinness-metin eru sett. Sama hvað þau eru fáránleg.

Þetta eru einkennilegar hugrenningar. Eiginlega alveg stórfurðulegar. Er ég að verða vitlaus? Ekki held ég það. Kannski með smásnert af Alzheimer. Ekki finnst mér það samt vera mikið. Ólíkt hvað mér þykir það gamla mikið merkilegra en það nýja. Fátt finnst mér ómerkilegra en Evrópusöngvakeppni og Óskarsverðlaun. Get ekki að þessu gert. Veit að sumum finnst þetta merkilegra en flest annað. Telja jafnvel þetta og nýjustu símana skipta meira máli en ástandið í Grikklandi og Úkrainu. Furðulegur þankagangur.

Nú er ég farinn út að ganga. Kannski ég telji hrafna í leiðinni, eða yrki vísu. Kannski tauta ég bara gamla vísu, sem kemur upp í hugann, fyrir munni mér og reyni að sjá fyrir hver vegalengdin verður samkvæmt Caledosinum eftir næsta 5 mínútna tímabil. Sú er mín helsta dægradvöl á röltinu.

WP 20150128 14 04 44 ProFossvogur.


2293 - Ofan gefur snjó á snjó

Margt bendir til að næstu alþingiskosningar hér á landi verði afdrifaríkar. Sú lýðræðisvakning sem hér hefur náð sér á strik eftir Hrunið er fyrst núna að skila sér til alls almennings. Gömlu spilltu stjórnmálaflokkarnir eru á hraðri útleið úr samfélaginu. Andi frjálslyndis fer nú um Vesturlönd. Stórfyrirtækjunum og spilltu stjórnmálamönnunum er nauðsynlegt að segja stríð á hendur. Það er ekki bara hér á Íslandi sem spillingin étur allar framfarir og stórfyrirtækin svífast einskis í nauðgunarviðleitni sinni á náttúrunni. Sama sagan er að gerast allsstaðar. Grikkir eru hugsanlega í forystu eins og er, en önnur ríki munu fljótlega koma á eftir.

Ef ég man rétt, þá minntist ég eitthvað á stóra Seðlabankalánið til Kaupþings í þessu bloggi um daginn. Þó Davíð Oddsson gefi nú í skyn í Morgunblaðinu að hann hafi verið mótfallinn þessu láni þá er það alls ekki rétt. Hann tók það einmitt fram í frægu Kastljósviðtali að hann hefði verið alveg samþykkur því. Það er því óþarfi að vera með læti útaf símtalinu umtalaða milli Davíðs og Geirs. Ábyrgðin er að öllu leyti og algjörlega á Davíðs herðum. Auðvitað er það ansi gott hjá mér að geta afgreitt mál af þessari stærðargráðu í stuttri klausu hér á blogginu. Ég er nefnilega með öllu áhrifalaus, en skilningur almennings á þessum málum fer vaxandi.

Á morgunrölti mínu tauta ég oft fyrir munni mér vísur sem kom upp í hugann. Stundum reyni ég líka að setja saman vísur sjálfur. Um daginn minntist ég vísunnar frægu sem er svona:

Ofan gefur snjó á snjó
snjóum vefur flóató.
Tófa grefur móa mjó
mjóan hefur skó á kló.

Þessi vísa er einstaklega vel gerð og ég þarf ekkert að fjölyrða um það. Í morgun (sunnudag) var austankaldi hér í Kópavoginum og þessvegna tautaði ég eftirfarandi vísu:

Austankaldinn á oss blés
upp skal faldinn draga.
Veltir aldan vargi hlés
við skulum halda á Siglunes.

Reyndar er stundum haft „Skaga“ í staðinn fyrir „Siglunes“, en ég held að Siglunesið sé upprunalegra. Auðvitað getur það samt verið tóm vitleysa hjá mér og ég hef svosem ekkert fyrir mér í því og hef enga hugmynd um hver gerði þessa vísu. Og heldur ekki snjóavísuna.

Í gærmorgun taldi ég eina tólf hrafna við Borgarspítalann. Hversvegna voru þeir þar? Á klukkutímagöngu um nágrennið sá ég enga aðra. Kannski var þetta bara hrafnaþing. En hversvegna voru þeir ekki í betra skjóli, en þarna á bersvæðinu og uppi á hæðinni? Um þessar mundir ber mest á hröfnunum af öllum fuglum. Kannski heyrist stundum í hinum, en þeir láta helst ekki sjá sig.

WP 20150128 13 55 02 ProBrú.


2292 - Stjórnmálaástandið

Nú er að verða greinilegt að það birtir svolítið fyrr en áður. Jafnvel er orðið nokkuð bjart um níuleytið. Náttúran hefur semsagt ekki alveg gleymt okkur þrátt fyrir misheppnaðan náttúrupassa, sem flestir eru búnir að gleyma. Að þurfa að borga fyrir það eitt að horfa á íslenskar náttúruperlur er andstætt eðli okkar. Nær finnst manni vera að skattleggja þá, jafvel ótæpilega, sem undanfarið hafa gert sér íslenska náttúru að féþúfu. Auðvitað hætta þeir þá og þeir sem við taka eru hugsanlega alls ekki jafn sekir, en þeir geta þá reynt að láta túrhestana borga meira. Kannski fælir það þá í burtu, en við því er ekkert að gera. Þeir hætta þessu glápi hvort eð er fyrr eða síðar.

Pólitík. Ríkisstjórnin virðist vera klofin í mörgum afdrifaríkum málum. Kannski endar þetta allt með ósköpum. Ég hef samt trú á því að loðmullan taki völdin, eins og vant er, bæði hér á skerinu og eins hjá ESB. Líklega verður sæst á að fresta málum bæði hér og þar því völdin eru sæt og ekkert kemur í stað þeirra. Það er svolítið bagalegt að ekkert skuli gerast í mikilvægum málum hjá íslensku ríkisstjórninni. Andstæðingar aðildar að ESB eru þó líklega óglaðir, en þeir sem aðildinni eru meðmæltir vita varla hvaðan á þá stendur veðrið. Það hvessir alltaf öðru hvoru, bæði í pólitíkinni og náttúrunni.

Hvers vegna á þjóðarvilji ekki að ráða í kvótamálinu? Einhvers staðar sá ég því haldið fram að þó þjóðaratkvæðagreiðslur sé ágætar til síns brúks þá mætti ekki gera ráð fyrir að sanngjörn niðurstaða fengist í máli þar sem um væri að ræða hagsmuni fremur fárra. Þarna var verið að mæla gegn því að greidd yrðu atkvæði meðal þjóðarinnar um eignarhald og umráðarétt yfir fiskveiðiauðlindinni. Ég tel þetta sjónarmið byggjast á miklum misskilningi. Hugsum okkur að fram kæmi hugmynd um að banna alla skatta. Áreiðanlegt er að mikill meirihluti þjóðarinnar er andvígur sköttum á sig. En er víst að slík hugmynd fengi meirhlutafylgi í þjóðaratkvæðagreiðslu? Það álít ég allsekki. Til að slík hugmynd hefði einhverja möguleika á samþykki, yrði að benda á einhverja aðra tekjuöflun fyrir ríkið. Alls ekki er víst að meirihlutafylgi væri fyrir því að leggja ríkið niður.

Ef þingmenn eru almennt svo skyni skroppnir að halda að þeir standi þjóðinni framar í gáfum, þá er þeim fyrst og fremst vorkunn. Vel mætti losa sig við þá alla og enginn sæi eftir þeim og varla að nokkur tæki eftir því. Að vísu er hægt að ímynda sér þá sem einskonar hemil á vonda ríkisstjórn. Það er þá eini tilgangurinn með tilvist þeirra. Lagasetning þeirra er a.m.k. tóm vitleysa. Og að láta þá ráða hvernig landinu er stjórnað er einfaldlega ofbeldi af hæstu gráðu. Ef ekki væri séð fyrir stjórn ríkisins með öðrum hætti, jafnframt því að losa sig við þá, mundi stjórn ríkisins einfaldlega færast til ríkisstjórnarinnar eins og nú er í reynd. Og ekki væri það betra.

WP 20150128 13 43 04 ProUndirgöng.


2291 - Al Thani

Hvort er tjáningarfrelsið hér á Íslandi fyrir útvalda eða úlvalda? Prentvillur geta verið skemmtilegar, þó held ég að sá sem hér sló á ritvél eða tölvu hafi meint útvalda en ekki úlvalda. Hverjir hafa mest tjáningarfrelsi hér á landi? Eru það stjórnmálamenn? Kannski kalla þeir það tjáningarfrelsi að bulla eitthvað út í loftið og meina ekkert með því. Eru það kannski blaða og fréttamenn, sem hafa mesta tjáningarfrelsið hér á landi? Þeir þurfa sannarlega á því að halda, því stjórnmálamennirnir vilja ólmir kaupa þá og eiga. Eru það kannski bloggararæflar eins og ég, sem hugsanlega eru svo margir að enginn getur keypt þá alla? En hverjir lesa slíkt tjáningarfrelsi?

Sennilega er kosningabaráttan fyrir næstu forsetakosningar hafin. Eitthvað segir mér að Jón Gnarr ætli í alvöru í forsetaframboð. Grein hans um Guð gæti verið upphafsinnleggið í þá baráttu. Kannski var samlíkingin í lokin á greininni óheppileg. Kannski ekki. Sennilega fer Ólafur Ragnar enn einu sinni í framboð. Þó ekki væri nema til að bjarga okkur frá Gnarristum og öðrum trúleysingjum og islamistum, sem sitja um sálarheill okkar. Að vísu væri sú björgun algjörlega samkvæmt hans eigin skilgreiningu og annarra þjóðrembinga. En hugsanlega er svo komið fyrir ÓRG að hann neyðist til að treysta á hægri öfgahópa því varla á hann afturkvæmt í vinstri herbúðirnar þó hann hafi víða farið og sé í raun upprunninn þar.

Eftir því sem mér telst til þá eru næstu forsetakosningar árið 2016. 2017 verða síðan alþingiskosningar og eflaust verður gaman að sjá hverju Sigmundur Davíð finnur uppá þá. Sveitarstjórnarkosningar voru í fyrra ef ég man rétt. Ekki er órökrétt að menn fari að undirbúa sig fyrir forsetakosningarnar á næsta ári. Ég er meðmæltur því að Jón Gnarr bjóði sig fram og mun eflaust kjósa hann. A.m.k. frekar en Ólaf. Óljóst er þó með öllu hverjir verða í framboði. Kannski er ég að þjófstarta með því að tala um forsetakosningar svona löngu áður en það er aktúelt. 

Eiginlega hef ég engum umtalsverðum árangri náð í megruninni síðan á síðasta ári. Enda er um greinilegt samsæri að ræða. Látum nú vera með jólaveislurnar og Bahama-helgina. Á eftir þeim komu svo áramótaveislurnar og allskyns kárínur, svosem þorrablót og þessháttar og nú skellur á manni bolludagur og sprengikvöld. Gott ef það má bara ekki búast við Páskum og Hvítasunnu á næstunni, fyrir sko utan allar helgarnar og fjölskyldusamkomurnar. Og í sumar get ég alveg eins átt von á grillveislum aðra hvora helgi eða svo. Ég bara skil þetta ekki....

Eva Joly klappaði á bakið á sérstökum og hrósaði honum óspart. Sennilega hefur orðspor hans lagast töluvert við dóm hæstaréttar í Al Thani-málinu. Kannski fær hann að halda áfram í stað þess að vera skorinn niður við trog. Ekki er ég neitt undrandi yfir því þó sakborningarnir séu ósáttir við dóminn. Það eiga þeir einmitt að vera.  

WP 20150126 11 18 24 ProPollur.


2290 - Jón Gunnar

Ýmislegt gera menn sér til dundurs þessa dagana. Ef ekki er verið að stofna sjónvarps- eða útvarpsstöð, þá hugsa menn í dagblaðsstærð. Kannski kemur ekkert útúr þessu brölti en þó getur það vel verið. Satt að segja hef ég meiri trú á enska útvarpinu en ýmsu öðru sem hér hefur verið fitjað uppá. Gaman verður að vita hvort einhverju af þessu tekst að slíta barnsskónum.

Í kosningabaráttunni fyrir síðustu kosningar lofaði Eygló Harðardóttir að hækka aftur elli- og örorkubætur enda væri það ekki nema augnabliksverk. Ekki hefur það þó verið gert ennþá og vafasamt mjög að það verði gert í tíð þessarar ríkisstjórnar. Einhverjir hafa þó eflaust trúað þessum fagurgala og kalla þetta svik. Mestu svik stjórnarinnar geta það þó ekki talist. Sumir ganga svo langt að kalla núverandi ríkisstjórn svikastjórnina. Það er fulllangt gengið, því allar ríkisstjórnir gera þetta. Í aðdraganda kosninga er ekki mikið að marka þann loforðaflaum sem að vörum stjórnmálamanna gengur. Þannig er þetta bara.

Trúi eins og nýju neti fullyrðingum um að loftþyngd hafi mikil áhrif. Þegar gömlu konurnar í þjóðsögunum sögðu: „Æ, þar hljóp nú gigtarskömmin í hægri mjöðmina á mér. Það boðar óveður“, trúi ég því alveg að loftþrýstingur hafi valdið gigtinni. Á morgungöngunni hjá mér finn ég stundum fyrir bakverk. Hann kemur af og til eftir svona tuttugu mínútur og stundum allsekki. Þetta gæti verið ágætis veðurspá ef ég tengdi það við eitthvað veðurfarslegt. En Teresía (les veðurstofan) er búin að venja okkur af því.

Las áðan grein Jóns Gnarr um Guð. Nennti samt ekki að lesa kommentin og vona að mér fyrirgefist það. Eitt má fullyrða eftir þennan lestur. Jón gerir sér fulla grein fyrir því að álit hans skiptir máli. Meira að segja heilmiklu máli. Sennilega lýsir hann ágætlega trúarlífi dæmigerðs Íslendings í þessari grein. Flestallt sem í greininni stendur get ég hæglega skrifað uppá. Þó hef ég líklega ekki leitað guðstrúar jafn ákaft og hann. Hræsnin og yfirdrepsskapurinn í hinni opinberu trú varð mér ekki ljós fyrr en eftir fermingu. Já, svona var ég nú seinþroska.

Held að Ásgautsstaðamálið sé að komast á dagskrá aftur. Ekki mun ég samt fylgja því eftir af sama ákafa og í fyrra. En dæmi um yfirgang og ofbeldi yfirvalda er það vissulega. Líklega er kominn nýr sýslumaður til valda á Selfossi, því mér skilst að Lilli sé kominn til Keflavíkur. Sennilega breytir það samt engu.

WP 20150120 13 56 36 ProGrafið innan girðingar.


2289 - Stundarfriður

Mikið er rætt um skattaskjól þessa dagana. Eitt er það þó sem jafnan er lítið rætt um. Það er sú tilhneiging til stofnunar lítilla þjóðríkja sem notið hefur mikillar velvildar til þessa. Mjög lítil ríki og fámenn hafa gjarnan fáar leiðir til tekjuöflunar. Stofnun skattaskjóls hlýtur ávalt að vera ein þeirra. Ef meðlíðan með öðrum og þar með siðferðið nær síðan bara til þeirra sem eru af sama þjóðerni er ekki von á að vel fari. Til stóð, að mínu áliti, að gera Ísland að skattaskjóli og ekki get ég sagt að mér hafi hugnast það. Mér fannst það alltaf vera einn aðalókostur þeirrar fjárhagslegu geðveiki sem tröllreið íslenskri þjóð fyrir Hrun. Að gera ríki viljandi að skattaskjóli er að mínum skilningi afbrot. Auðvitað er ekki hægt að setja þjóðríki í fangelsi frekar en fyrirtæki, en allir ættu samt að forðast samskipti við slíkt ríki.

Að ætla sér að stofna dagblað úr engu er auðvitað geðveiki. Hætt er við að Stundin verði ekki langlíf. Minnstur vandinn er að skrifa fréttir, jafnvel góðar fréttir. Að koma á laggirnar dreifikerfi og öllu öðru sem dagblað þarf á að halda er allt annar handleggur. Að selja á 990 krónur aðgang að daglegri vefútgáfu er ekkert annað en fjárplógsstarfsemi. Að selja á 990 krónur eitt vesælt dagblað er hreinasta okur, jafnvel þó það næsta komi ekki fyrr en eftir mánuð. Ill eru þín fyrstu spor „stundar-gróði“. Meira að segja stuðningur Reynis Traustasonar er hálfvolgur. Prentað fréttatímarit sem kemur út einu sinni í mánuði hefur verið prófað áður. Gekk ekki þá, en hvort kominn sé tími til að reyna aftur veit ég ekki. Öll prentun skilst mér að sé á undanhaldi. Myndir og talað mál er það sem blívur.

Megrun snýst fyrst og fremst um það að borða svolítið minna. Töfrabrögð á því sviði eru fundin upp á hverjum degi. Óþarfi er að trúa slíkri vitleysu. Líkamshreysti er ekki því betri sem hún kostar meira. Ókeypis æfingar er allt sem þarf. Auðvitað er betra að láta annan hugsa fyrir sig. Eigin hugsun sakar þó ekki. Heilasellurnar þurfa ekki síður æfingu en aðrar frumur líkamans. Snjór og kuldi eru bara hressandi. Engin ástæða til að láta slíkt aftra sér frá líkamsæfingum. Myrkrið er þreytandi til lengdar. Vorið kemur samt að lokum. Við eigum ekki lengur allt okkar undir veðurguðunum komið.

EES er ekki eitur í mínum beinum. Helst vildi ég að það samstarf yrði aukið verulega. Hættulegasta eitrið í mínum beinum er japlið í framsóknarmönnum um að nauðsynlegt sé að hætta formlega viðræðunum við ESB. Það er aðallega gert til að ergja sjálfstæðismenn því Bjarni vill helst ekki hlusta á slíkt. Hann hefur samt látið líklega í orði en á borði veit ég að hann hugsar sig tvisvar um áður en hann samþykkir slíka vitleysu.

Já, já ég er að verða búinn. Þegar pólitíkin er svona seint í blogginu er bara svo erfitt að hætta. Alþingi er að ljúka. Sennilega verða engin stórmál þar til lykta leidd. Snjórinn kemur og fer. Þannig mætti sem best snúa þessu öllu uppí veðurumræður og binda þannig enda á pólitíkina.

WP 20150120 13 22 18 ProJólatré.


2288 - "Svokallað" viðtal

Viðtalið „svokallaða“ við Sigurð Einarsson er mikið á milli tannanna á fólki og er það engin furða. Vissulega er hægt að kalla það mistök að hleypa þessu í loftið, en fréttastofan gerði þó það besta úr þessu sem hægt var. Gagnrýni og meðvirkni getur átt rétt á sér, en svo var ekki í þessu tilviki. Samúð á engan rétt á sér hvað þetta snertir. Jafnvel ekki með ættingjum og öðrum sem hugsanlega eru alls ekki sekir um neitt.

Álít að Bogi hafi gert rétt. Sigurður átti sjálfur að skilja að hann var í engu standi til að veita viðtal. Veit að drukknir menn eru sjaldan færir um að meta ástand sitt sjálfir, en aðrir gátu hæglega tekið af honum símann.

Er ég orðinn ofurbloggari? Þá er einu takmarki lífs míns náð. A.m.k. er blogg-talan há. Kannski þarf ég svolítið fleiri lesendur til að geta talist extra-súper-ofur-eitthvað en þeir koma kannski með kalda vatninu. Man að þegar Bjössi fæddist þá vildi ég ekki viðurkenna fyrir lækninum að það hefði verið vatnslaust.

„Fyrir þúsund árum ákvað lögbókin Grágás, að samfélagið bæri ábyrgð á vesalingum, svo sem öryrkjum, gamalmennum, sjúkum og atvinnulausum.“ 

Þetta skrifaði Jónas Kristjánsson fyrrverandi ritstjóri DV. Með leyfi að segja þá er þetta andskotans bull. Ég þarf ekkert að rökstyðja það, því þetta er hverjum manni augljóst. Grágás ákvað hvorki eitt né annað og auk þess eiga atvinnulausir ekkert heima þarna. Orðhákur eins og Jónas ætti að gæta sín betur að skrifa ekki svona vitleysu. Hann skrifar bara fréttatengt blogg og er greinilega vel að sér um margt, en alltof orðljótur og fljótfær til þess að hægt sé að taka mark á honum.

Á sínum tíma var ruslahreinsunin í Hveragerði svolítið fornaldarleg. Tunnunum var snyrtilega raðað á vörubílspall og mannskapurinn alltof mikill við það. Svo kom Bjarni í Kaupfélaginu og bauð í verkið. Græddi sennilega vel á því vegna þess að vinnubrögðin voru betri. Man að ég hjálpaði honum stundum við þetta og þá var sko hlaupið. Nenni ekki að lýsa nákvæmlega hvernig staðið var að því, en man samt vel eftir þessu.

WP 20150120 13 17 25 ProTré.


2287 - Fésbókin, einn ganginn til

Fyrst er það fésbókarhryllingurinn. Hingað til hef ég haft það fyrir reglu að deila helst ekki tilkynningum um týnda ketti og þess háttar. Í staðinn hef ég farið á fésbókarsíðu þess sem upphaflega auglýsir eða tilkynnir. Þar hefur verið hægt að fá upplýsingar um hve oft viðkomandi tilkynningu hefur verið sérað. Nú er það ekki hægt lengur. Hvers kettirnir eiga að gjalda veit ég ekki. Svona er þetta bara.

Í sívaxandi mæli er þjóðin að verða tölvuvædd. Eins og Íslendinga er siður eru hlutirnir teknir með trukki. Aðaltrukkið núna er fésbókin. Hún er tekin með miklu trukki. Enginn er maður með mönnum nema hann eyði svo og svo mörgum klukkutímum á dag á fésbókinni. Aðalstarf flestra blaðamanna virðist vera að lesa fésbókina. Allskyns vísindarannsóknir snúast aðallega um þetta fyrirbrigði. Vírusarnir vaða uppi og klámið er að hertaka hana. Mér finnst hún frekar leiðinleg og hættuleg er hún. Bæði heilsu manna og sálarheill. Þetta er forheimskandi andskoti sem enginn þorir að hallmæla sem vert væri. Þessi fésbókar-reiðilestur ætti að duga í bili. A.m.k. dugar hann mér.

Var í einskonar Þorrapartýi í gærkvöldi, og missti því af Bjarna Ben. og sjálfsréttlætingum hans. Skilst samt á Kjarnanum að hann hafi platað suma uppúr skónum. Að hann hafi kannski ekki beinlínis farið að grenja, en verið á næsta bæ við. Mér er alveg sama hvað aðrir segja ég trúi því ekki ennþá að neitt komi útúr þessu Tortóla-ævintýri, nema þá kannski fælingarmátturinn. Hann er samt út af fyrir sig nokkurs virði. Auðvitað verður það aldrei viðurkennt, en látið sem þetta hafi verið voða sniðugt.

Allir sem ég verð var við að læki t.d. fésbókarmyndir mínar geri ég ráð fyrir að lesi bloggið mitt líka, ásamt hugsanlega ýmsum fleirum. Satt að segja finnst mér ég vera að tala við þá þegar ég skrifa þessi ósköp. Auðvitað veit ég ekkert um það hverjir eru svo langt leiddir í Morgunblaðs-symfóníunni að þeir lesi það sem ég skrifa. Tölurnar frá MoggabloggsGuðunum benda samt til þess að þeir séu þónokkrir. Sagt er að mbl.is sé vinsælasti vefur landsins. (Fyrir utan fésbókina þó væntanlega.) Alveg er ég samt hættur að linka í fréttir þar.

Svo eru það myndirnar. Fæstir gera sér sennilega grein fyrir því en ég plata þá sem lesa bloggið mitt til að skoða myndirnar mínar líka. Afleiðingin er sú að ég er (a.m.k. af sumum) álitinn vera alvöru ljósmyndari. Svo er þó ekki. Aðalmyndvélin mín þessa dagana er í símanum mínum og hún er ekki einu sinni með flassi.

Sé að þetta blogg er aðallega um fésbókina og það verður bara að hafa það. Sennilega er það líka mest umtalaða fyrirbrigðið í þjóðlífinu um þessar mundir. Kannski samt fyrir utan Bjarna Ben. Svo dreymdi mig einhverja skelfilega vitleysu í nótt. M.a. um mannlausa verslun sem samt var hægt að versla í. Keypti m.a. pils á dóttur mína sem var með mér og í mesta lagi 10 ára. Fyrir hverju skyldi það vera? Nú er ég hættur.

WP 20150120 13 15 11 ProBirta.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband