Bloggfærslur mánaðarins, maí 2009
21.5.2009 | 00:07
691- Ágúst Borgþór, Stefán Pálsson, Evrópusambandið og fleira
Alltaf er gaman þegar menn taka stórt upp í sig. Jóhannes Ragnarsson heitir Moggabloggari einn og Ólsari sem stundum tekur hressilega til orða. Innlegg hans les ég sjaldan en þó kemur það fyrir. Sé núna að hann er kominn ofarlega á vinsældalistann á Moggablogginu með því meðal annars að blogga mjög oft og linka í fréttir. Ágúst Borgþór Sverrisson þekki ég að góðu einu. Hann er rithöfundur og vann eitt sinn með mér hjá Stöð 2. Bloggari er hann líka af bestu gerð og í eina tíð var ég reglulegur lesandi að blogginu hans sem þó var að mínu áliti full sjálfmiðað. Það er að segja að hann skrifaði full mikið um persónuleg mál sem ég þekkti afar lítið til. En skrifa kann hann og það mjög svo læsilegan texta. Nýjasta bloggið hans rakst ég á nýlega á blogg-gáttinni og það ber hinn athyglisverða titil Heimskulegasta bloggfærsla allra tíma?" Spurningarmerkið dregur aðeins úr krafti fyrirsagnarinnar en hún er samt nógu athyglisverð til þess að ég kíkti strax á færsluna. Þar finnur hann bloggi frá Jóhannesi Ólsara allt til foráttu. Endilega kíkið á þessi ósköp. Skoðaði komment áðan hjá Ágústi Borgþóri við þessa færslu og verð að segja það að ég vorkenni svolítið þeim fordómafyllstu þar. Slæmt að láta fordómana stjórna því hvað maður les og skoðar. Kannski gerir maður þetta samt sjálfur í einhverjum mæli. Okkur Moggabloggurum er oft legið á hálsi fyrir að vera í húsmennsku hjá svona vanþróuðu og sjálfhverju bloggkerfi. Einn er sá bloggari sem ég fylgist fremur með en öðrum. Það er Stefán Pálsson ofurbloggari og að eigin áliti sá allra fremsti á landinu. Stefán gegnherílandi hefði hann sennilega verið kallaður hér áður og fyrr. Moggabloggsdýrðin er þó betri en Wordpressan ef miðað er við uppitíma. Ef ég miða bara við þann tíma sem Stefán segir að Kaninku-Wordpressan sé biluð þá er Moggabloggið miklu betra að þessu leyti. En það eru auðvitað mörg fleiri atriði en uppitími sem skipta máli varðandi bloggveitur. Flest bendir til að Evrópusambandsmálið verði jafn umdeilt meðal þjóðarinnar og herstöðvarmálið var á sínum tíma. Menn tala gjarnan um að ekki skuli láta mál sem þetta vera á forræði flokksstjórna. Þingmenn eigi að klára það án afskipta foringja sinna. Það er fallega hugsað en ef til vill óraunhæft. Málið er þannig vaxið að grundvöllur flokkaskipunar getur hæglega byggst á því. Það getur einnig skipt þjóðinni í tvo nær jafnstóra hópa. Fráleitt er að láta spursmál um tíma ráða ferðinni í svona máli eins og nú stefnir í. Þegar Jóhanna Sigurðardóttir heldur því fram að allt byggist á því að sækja sem allra fyrst um aðild að Evrópusambandinu er minni Evrópusál nóg boðið. Það er engin goðgá að bíða. Ef tvöföld atkvæðagreiðsla getur sætt menn við orðinn hlut er ástæðulaust að berjast gegn henni. Ef sú aðferð getur betur tryggt eindrægni og samvinnu ber að fara hana jafnvel þó einhverjum finnist nær að fara öðruvísi að. Mér finnst skaði að stórmál eins og Evrópusambandsaðild séu látin bíða von úr viti af þeirri ástæðu einni að erfitt sé að hugsa um tvo hluti í einu. Stjórnmálamenn verða að venja sig af að fresta sífellt stóru málunum og telja ótímabært að ræða þau. Nei annars. Ég er víst hættur að skrifa um stjórnmál. |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
20.5.2009 | 00:10
690- Málfjólur og annað þess háttar ásamt nokkrum myndum
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
19.5.2009 | 01:04
689- Ríkisstjórnin þarf á stuðningi að halda. Það er ekki völ á annarri skárri í bili
Nú er um að gera að vera gáfulegur. Gáfulegast er að segja að ríkisstjórnin hafi enga stefnu. Er bara ekki nógu gáfaður til þess. Búinn að fá leið á stjórnmálum. Þau eru bara stjórnmal. Tómt mal. Kattarmal er betra. Veðrið er líka svo gott. Alveg sama þó Sigurður Þór segi að það sé bara venjulegt. Ef sæmilega hlýtt er úti og ekki rigning þá finnst mér gott veður. Geri ekki meiri kröfur. Las um daginn bókina um flugdrekahlauparann. Hún er nokkuð góð. Æðislega væmin samt en höfundurinn fer vel með það. Umhverfið líka nokkuð óvæmið. Sérstaklega af því maður er ekki vanur því. Væri skelfileg vella ef sögusviðið hefði verið vestrænt. Fór á tvö bókasöfn í dag og allt gekk eins og smurt. Talaði ekki við nokkurn mann. Skilaði mínum bókum og tók nýjar. Afgreiddi mig sjálfur og ekkert vesen. Svoleiðis á það víst að vera. Eina sem maður þarf að segja er hvort maður vill einn eða tvo poka í Bónus og svo að bjóða góðan daginn öðru hvoru. Ekki flókið að lifa. Kannski svolítið leiðinlegt samt. Nú er ísbjarnartíminn að renna upp. Kannski koma ísbirnir í heimsókn. Þegar strákarnir voru litlir þýfguðu þeir mig mikið um líkurnar á því að ísbirnir kæmu á Snæfellsnesið. Ísbjarnarsögurnar í Nonnabókunum eru ógleymanlegar. Ég lifði mig algerlega inn í þær. Man líka vel eftir því þegar Nonni og Manni tóku bátinn og fóru út á fjörðinn. Ég var með þeim í huganum. |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
18.5.2009 | 01:21
688- Ekkiblogg númer þrjú og nokkrar myndir
Í vaxandi mæli er ég farinn að myndablogga. Þegar veðrið er svona gott er líka meira gaman að skjótast út og taka nokkrar myndir en að rembast við að skrifa eitthvað skynsamlegt.
Ekki vissi ég að Selfoss væri þarna.
Þilfar á báti við Geldinganes.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
17.5.2009 | 01:43
687- Gutenberg og Netútgáfan
Gutenberg bók las ég eitt sinn þar sem ferð Amundsens til Suðurskautsins var lýst. Að sumu leyti voru þeir félagar að sjálfsögðu í keppni við Scott og Co. Amundsen fór þó allt öðru vísi að og lykillinn að árangri hans var að hann skyldi nota hundana á þann hátt sem hann gerði.
Amundsen fór styttri leið á skautið en Scott og notaði hundana þannig að maturinn sem hundarnir fengu á heimleiðinni voru hundar sem drepnir voru því hægt var að notast við færri hunda til að draga hundasleðana eftir því sem matarbirgðir minnkuðu.
Hræddur er ég um að heyrast mundi í einhverjum dýraverndunarsinnum ef svipað þessu ætti sér stað nú um stundir. Á þessum tíma þótti þetta ekkert merkilegt og alls ekkert dyrplageri.
Aðra bók frá Gutenberg las ég líka og hún fjallaði um svissneska konu sem tókst á hendur ferð til Íslands. Þetta var mikil svaðilför og lýsingarnar á landinu margar eftirminnilegar. Best man ég eftir því að konan sagðist helst aldrei hafa viljað fara inn í bæina og alls ekki sofa þar þó henni væri oft boðið það. Svaf miklu fremur í kirkjum og var fyrir bragðið álitin svolítið skrítin.
Sjóferðin til landsins var líka sláandi lýsing hjá henni því hún var hundveik af sjóveiki allan tímann á leiðinni hingað til lands og ferðin tók langan tíma. Hún ferðaðist ein og keypti sér far eftir þörfum því nóga peninga átti hún.
Netútgáfan var að sjálfsögðu stæling á Gutenberg og við lögðum áherslu á það sem íslenskt var. Ferðalög útlendra auðkýfinga voru ekki þar á meðal.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.5.2009 | 00:50
686- Alvörublogg með myndum
Mest virðist lesendum fjölga hjá mér ef ég leyfi mér að skrifa um dauðarefsingar eða sportveiðar. Gott að vita það. Þetta eru samt ekki mín helstu áhugamál. Mest er auðvitað gaman að skrifa um allt og ekkert.
Það er að segja Alla og Eggert. Ég man vel eftir Alla Steindórs. Vann með honum í heilt sumar og kynntist honum vel. Hann var skemmtilegur. Eggert á Sunnuhvoli þekkti ég líka. En ekki eins vel. Nú er hún Snorrabúð stekkur. Það er að segja það er víst búið að rífa öll gróðurhúsin í Álfafelli og íbúðarhúsið líka. Svo er mér sagt. Hef ekki gengið úr skugga um það sjálfur.
Nú byrjar ballið á Alþingi. Þar verður mikið jagast í sumar. Klukkan verður kannski svo margt áður en menn átta sig að ekki þýðir annað en að drífa sig í sumarfrí. Svo byrjar sama sagan aftur í haust. Búsáhaldabyltingin verður ekki endurtekin.
Utarlega á Kársnesinu í Kópavoginum er fiskbúðin Freyja. Það er ein af fáum alvöru fiskbúðum hér um slóðir. Fiskurinn þar er bæði glænýr og ódýr.
Í Elliðaárdal er gott að vera.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
15.5.2009 | 13:39
685- Ég veit ekki hvað ég á að kalla þetta rugl
Sé ekki betur en besta leiðin til skárri blogga sé að blogga sjaldnar. Hver er bættari með að blogga tíu sinnum á dag? Allir venjulegir menn eru þurrausnir á minna magni. Gerlegt er auðvitað að blogga hálfa setningu í hvert skipti en gallinn er sá að tíu blogg á dag þurfa að vera um hitt og þetta svo hálfar setningar duga ekki.
Sigurður Þór reynir sífellt að æsa menn upp. Hefur gaman af þrasi. Reynir núna æsingar útaf hælisleitanda í hungurverkfalli. Ég reyni að hafa ekki skoðun á því máli. Það er samt erfitt. Blogga frekar um eitthvað annað. Helst ekki neitt.
Um að gera að æsa sig ekki eins og Pétur Gunnlaugsson. Betra að vera rólegur eins og Gunnar í Krossinum. Er hræddur um að ég æsist allur upp eins og Pétur ef minnst er á Evrópu. Best að gera það ekki. Nær að þegja.
Nú er Jón Valur Jensson að æsa sig útaf Evrópusambandinu í útvarpinu. (Já, á útvarpi Sögu) Meðan öfgamenn eins og hann hamast á móti Evrópubandalaginu fjölgar stuðningmönnum þess jafnt og þétt. Það er ég sannfærður um.
Sólin skín og nú er vorið áreiðanlega komið í alvöru. Myndabloggunum er að fjölga einhver ósköp hjá mér og er það vel.
Á morgun tryllast þeir Toyota menn fyrir utan gluggann hjá mér. Best væri náttúrlega að koma sér í burtu. En hvert?
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
14.5.2009 | 23:27
684- Ekkiblogg 2 með fáeinum myndum
Ekkiblogg með myndum er nokkuð góð uppfinning. Nú hefur mér í allan dag tekist að skrifa ekkert af viti svo ég reyni bara að nota þessa aðferð aftur.
Ekki veit ég hvað þessi heitir en fallegur er hann ekki.
Þetta hús er rétt hjá Digraneskirkju í Kópavogi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.5.2009 | 20:22
683- Ekkiblogg með myndum
Og fimm myndir. Já, það er komið vor og ekki víst að það verði mikill friður fyrir myndum frá mér úr þessu.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
12.5.2009 | 17:58
682- Um Evrópusambandið og ýmislegt fleira
Það kemur mér á óvart hve æstir menn verða við skrif um ESB. Um daginn las ég greinar eftir Jón Baldvin Hannibalsson annarsvegar og Egil Jóhannsson í Brimborg hinsvegar og báðir eru nokkuð ofstopafullir. Reyna samt að vera stilltir og málefnalegir.
Almenningur getur rætt þessi mál æsingalaust. Elítan jafnt sem einangrunarsinnar. Þeir sem hæst hafa um þessi mál eru eflaust að vona að þeir geti haft áhrif á pöpulinn. Þau áhrif eru mjög óbein. Flestir eru búnir að mynda sér skoðanir um þetta og aukin umræða sem þó getur verið skemmtileg bætir litlu við.
Evrópuandstæðingar hafa hátt um að verið sé að blekkja fólk með því að tala um viðræður um aðild. Þetta er í besta falli orðhengilsháttur. Þó sótt sé um aðild (með skilyrðum) er ekki þar með sagt að ekki sé hægt að hætta við. Það hafa Norðmenn gert í tvígang sem frægt er.
Sumir eru alltaf æstir þegar þeir ræða þessi mál.
Evrópuandstæðingar hafa hátt um massívan áróður fyrir aðild. Einhver nefndi að Fréttablaðið agiteraði daglega á þann hátt. Ég les Fréttablaðið afar sjaldan. Mun oftar lít ég í Morgunblaðið eða DV. Í sambandi við mál af þessu tagi held ég að áhrif hefðbundinna fjölmiðla séu lítil.
Ég hef verið þeirrar skoðunar síðan 1972 að við munum fyrr eða síðar enda í Evrópubandalaginu. Það er ekkert hættulegt að vera aðili að því. Fannst Ragnari Arnalds vefjast tunga um höfuð þegar hann átti að útskýra hvað væri svona hættulegt við viðræður um aðild.
Ætlaði ekki að ræða pólitísk mál á blogginu mínu. Það er bara svo erfitt að stilla sig og svo eru öll mál pólitísk ef út í það er farið.
Merkilegt hvað ég er orðinn marktækur. Menn eru bara farnir að skattyrðast við mig. Þó þetta sé bara í athugasemdum í bloggi sem fáir sjá þá finnst mér þetta athyglisvert. Ómerkingurinn ég er bara farinn að rífast við ókunnuga.
Á sigmund.is eru tíu þúsund skopmyndir eftir Sigmund. Sjáið bara. Á blogg.gattin.is er líka flesta daga að finna myndasögu eftir Henry Þór. Þær eru oft ekkert slor.
Sameinuð svínfuglaflensa
Líklega endar þetta með því að flensuskrattinn kemur hingað. Kannski verður hún ekkert verri en venjuleg flensa. Mig minnir hún geti verið slæm.
Um daginn minntist einhver á í sjónvarpsumræðum að skynsamlegra væri að ganga í NAFTA samtökin amerísku en Evrópusambandið. Þessu er ég algerlega ósammála. Ísland er Evrópuþjóð bæði menningarlega og sögulega. Við erum búin að mæna of lengi í vesturátt ef eitthvað er. Miklu nær er að við þokumst nær Evrópu en Ameríku.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)