Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2018

2689 - Tinni og Tolkien

Ég er svolítið hissa á því hverskonar hreðjataki þeir hafa sýnilega náð á öllum íslenskum fjölmiðlum, sem álíta teiknimyndasögur og Tolkien moðsuður úr miðaldabókum merkilegustu bókmenntir sem skrifaðar hafa verið síðustu árþúsundin. Væntanlega eru þeir sárafáir en það afsakar ekki neitt. Ég er satt að segja búinn að fá leið á þessum Tinna-sérfræðingum og Hringadróttins-helgislepju-menntamönnum, sem vaða uppi allsstaðar og ekki síst í útvarpi og sjónvarpi allra landsmanna.

Mitt sjónarmið er að þetta séu í mesta lagi miðlungsbókmenntir. Því er samt ekki að leyna að vinsældir þessara bóka hafa leitt marga til betri og fullkomnari bókmennta. Svipað er að segja um Harry greyið Potter. Vinsældir hans hafa orðið til þess að fleiri og fleiri hafa farið að lesa alvöru-bókmenntir. Þessvegna má segja að þessar vinsældabækur séu jákvæðs eðlis. Hversvegna að berjast þá gegn þeim? Eiginlega er ég allsekki að gera það. Eða það finnst mér ekki. Mér finnst þeim bara of mikið hampað á kostnað annarra bókmennta.

Mikið er fjargviðrast útaf umskurði þessa dagana. Mig minnir að ég hafi í síðasta bloggi mælt með því að leyfa slíka ósvinnu. Á margan hátt er ég búinn að skipta um skoðum á þessu. Mér finnst að frumvarpið mætti að ósekju samþykkja. Á hinn bóginn finnst mér að þó erlendir aðilar skipti sér af þessu máli þá skipti það óskaplega litlu máli. Samt sem áður finnst mér rétt að gera þetta. Auðvitað er þetta fyrst og fremst auglýsing fyrir Ísland, enda er þetta ekkert vandamál hér, og Alþingi veitir alls ekki af auglýsingu.

Bókaútgáfan Sæmundur hefur stofnað til bókaklúbbs að mér skilst. Hafdís dóttir mín hefur gerst þar meðlimur og ég fékk lánaða bókina „Mörður“ eftir frænda minn Bjarna Harðarson hjá henni. Þó skömm sé frá að segja hef ég ekki lesið þá bók áður. Hélt reyndar að hún væri stærri, þykkari og torlesnari en reyndin var. Hún er fljótlesin, auðskilin og athyglisverð. Fjallar að sjálfsögðu einkum um Njálu og segja má að hún varpi nýju ljósi á söguþráð þeirrar bókar allan og satt að segja varð mér hugsað við lesturinn að mér veitti ekki af að lesa Njálu einu sinni enn. Satt að segja las ég ættartölurnar, sem þar eru, með lítilli athygli á sínum tíma, en vera má að þar sé fólginn einn athyglisverðasti hluti þessarar frægu sögu.

Eiginlega ætti ég að skrifa svosem eins og eina klausu í viðbót hér, til þess að hafa þetta nógu langt, en ég nenni því bara ekki og læt þetta duga. Enda er nokkuð langt síðan ég hef bloggað.

IMG 8315Einhver mynd.

 


2688 - Umskurður o.fl.

Sífellt er verið að breyta þáttöku sjúklinga í heilbrigðiskostnaði. Einkum er þetta áberandi í sambandi við lyfjakostnað. Mikil áhersla er lögð á að hafa allar reglur þar að lútandi sem flóknastar og illskiljanlegastar. Svo þegar afleiðingarnar eru teknar saman verða allir og þar á meðal þeir sem áttu að fylgjast vel með þessu, steinhissa á að hlutur þeirra sem yfirlýst var að ættu að græða á þessu, hefur versnað mjög. Auðvitað eru þeir sem þessu ráða að vona að svo verði ekki, en sú virðist niðurstaðan vera samt sem áður. Voru þeir sem áttu að fylgjast með þessu blekktir líka?

Eitt illviðrið enn virðist vera á leiðinni. Mér finnst vera nóg komið af þessháttar lægðum. Getum við Íslendingar ekki fundið upp einhverskonar lægðastoppara. Sennilega eru hæðir það og hver veit nema við gætum búið til eitthvað slíkt ef við einbeittum okkur að því.

Svo virðist sem Dr. Gunni hafi hætt að blogga í október síðastliðnum. Það er mikill skaði því annar eins snilldarbloggari er áreiðanlega vandfundinn. Kannski hann byrji aftur ef nógu margir skora á hann. Ég geri það semsagt hérmeð.

Umskurður drengja virðist vera mál málanna þessi dægrin. Mér finnst slíkt koma til mála með einhverjum (ströngum?) skilyrðum. Refsiákvæðið í lagafrumvarpi því sem rifist er um finnst mér þó vera of strangt. Að útlendingar skuli vera að skipta sér af frumvarpinu á þessu stigi finnst mér óboðlegt og ekkert minna en afskipti af innanríkismálum. Kári Stefánsson tekur sér fyrir hendur í Fréttablaðinu í dag að verja umskurðinn. Ekkert er við því að segja. Hann hefur oft rétt fyrir sér um læknisfræðileg málefni, en ekki að þessu sinni. Þó hann telji umskurð vera minniháttar veit hann ekki hundaskít um það. Sennilega tóku Þjóðverjar rétta afstöðu í þessu máli fyrir nokkru þegar þeir leyfðu umskurð en þó með skilyrðum. Ekki veit ég hvernig þau skilyrði voru, en væntanlega hafa þau verið skynsamleg enda eru þeir viðkvæmir fyrir ásökunum um Gyðingahatur.

Góða fólkið á fésbók hefur tekið afstöðu gegn Sigríði Andersen, Katrínu Jakobsdóttir og einnig umskurði drengja. Ekki er hægt annað en vera í stórum dráttum sammála þeim. Er ég þá kannski soldið góður? Mér finnst að Sigríður ætti að segja af sér, ekki sé komin nægleg reynsla á Katrínu og leyfa megi umskuðinn með skilyrðum.

Kunna Reykvíkingar og önnur dusilmenni ekki að keyra í snjó? Þetta virðist vera samdóma álit landsbyggðarfólks. Ég er ekki sammála þessu. Kunnátta á þessu sviði lærist smám saman og skiptir þá engu máli hvort um er að ræða Reykvíkinga eða aðra. Snjóleysi bæði hér og annars staðar veldur því samt að kunnátta á þessu sviði er á niðurleið.

IMG 8318Einhver mynd.


2687 - Eru alþingismenn búnir að afneita kjararáði?

Fyrir nokkru síðan úrskurðaði svonefnt kjararáð að laun alþingismanna skyldu hækka afturvirkt um svo og svo marga prósentutugi. Allir alþingismenn og flestir aðrir sögðu að þetta væri alltof mikið. Forsetinn vildi ekki einu sinni taka við þessu. Hefur þetta þá ekki gengið til baka? Ekki aldeilis. Þetta var bara valdið og samtryggingin að hrista sig. Einhverri hungurlús skiluðu þingmennirnir, en ekki miklu. Héldu eftir því sem þeim þótti sanngjart. Og það var heilmikið. Almenningur hneykslast í dag yfir því hvað biskupinn leigir stórhýsi fyrir lítið og á morgun yfir því hvað Ásmundur fær mikinn aksturkostnað greiddan, en samtryggingin blívur. Ekki stendur til að afnema nokkurn skapaðan hlut. Kannski verður einhverju breytt til að rugla þá í ríminu sem vilja fylgjast með. Eiginlega ræður enginn neinu. Mikilvægast er að flækja málin og finna einhvern annan til að kenna um.

Þessa klausu hér á undan setti ég á fésbókina, því mér virðist allur vindur vinstrisinna um þessar mundir fara í að hneykslast á dómsmálum, húsaleigu, eða ferðakostnaði. Alltaf er nýtt og nýtt heykslunarefni að finna. Gott ef kjararáð og aðrir svindlarar treysta ekki á það. Annars er þetta eiginlega orðið úrelt. Ný hneykslunarefni eru alltaf að koma upp

Það hlýtur að vera einhver ástæða fyrir því að fjöldamorð í skólum og á vinnustöðum eru algengari í Bandaríkjunum en annarsstaðar. Eða eru þau það ekki? Hugsanlegt er að svo sé ekki. Samt er ég og örugglega margir aðrir þessarar skoðunar. Getur verið að það sé vegna þess að fjölmiðlar geri meira úr svona löguðu ef það á sér stað í USA. Ekki held ég að svo sé. Samt væri e.t.v. ástæða til að kanna það. Til þess finnst mér rannsóknarblaðamenn vera. Er hugsanlegt að byssulöggjöf hafi hérna áhrif. Margir virðast halda það. Svo getur vel verið. Held að Bandaríkjamenn hafi alltof frjálslega byssulöggjöf. Gera jafnvel ráð fyrir að yfirvöld geri ekki neitt og geti ekkert gert, ef eitthvað verulega alvarlegt gerist. Treysta jafnvel sjálfum sér best allra. Ekki er sennilega hægt að breyta byssulöggjöf svona allt í einu. Sennilega gerist það bara hægt og hægt. T.d. er mér sagt að meirihluti fólks þar vilji þær breytingar, en peningarnir ekki. Eins og venjulega ráða peningarnir samt öllu.

Ein lægð á dag, kemur veðurstofunni í lag. Sennilega verður hún þá í ólagi fram yfir helgi. Neita bara alveg að trúa því að svona lagað sé nauðsynlegt. Vel getur verið að við Íslendingar séum misheppnaðri en aðrir. Samt ætti ekki að þurfa að hegna okkur með öðrum eins látum og verið hafa.
Ofan gefur lægð á lægð
lágir menn þá kveina.
Mér er ekki í þrautum þægð
þetta vil ég meina.

Þetta kom eiginlega alveg óforvarendis. Ekki er ég vanur að vera talandi skáld, en gott ef þetta er ekki vísukorn.

Eiginlega er ég að hugsa um að setja þetta bara út í eterinn, annars fer ég líklega að krukka í þetta og stytta það. Er ekki mest um vert það sem manni dettur fyrst í hug?

IMG 8352Einhver mynd.


2686 - Ofan gefur snjó á snjó

Mundi álíta að það sé útaf einhverju sem stjórnarandstaðan virðist hafa sameinast um að koma Sigríði Andersen frá völdum. Kannski er það ekki bara útaf augljósum afglöpum hennar. Átti ekki von á að BB mundi sætta sig við að hafa hana áfram. Sennilega hefur Bjarni ákveðið að það væri besta ráðið til þess að halda Katrínu á mottunni. Ekki fer á milli mála að miðað við óbreytt ástand þessara mála er um leiðtogabaráttu að ræða milli Katrínar og Bjarna Ben. Ef stjórnarandstöðunni tekst að koma Sigríði frá, þá er það sigur fyrir Katrínu.

Annars finnst mér stjórnmálabaráttan hér á Íslandi vera fremur ómerkileg og fyrirsjáanleg. Eins og vel má sjá á bæði Sigríði Andersen og Gulla Þórðar þá er vel hægt að komast í ráðherraembætti hér um slóðir án þess að hafa nokkra sérstaka hæfileika. Bara viðist þurfa að komast í þá aðstöðu að geta flaggað réttum flokki á réttum tíma og vera skár til þess fallinn en aðrir í þingflokknum. Afar sjaldan eru ráðherrar sóttir út fyrir hann, enda þykjast þingmenn eiga embættin. Mest er það vegna smæðar þjóðarinnar sem ráðherrar og þingmenn eru svona misheppnaðir. Ef Íslendingar væru svona 5 milljónir væri þetta öðruvísi og margt mundi breytast. Flest til batnaðar en kannski ekki alveg allt.

Nöfn þeirra sem veðurfregnir lesa eru merkileg. T.d. heitir einn Bjarki Kaldalón Friis og annar Einar Hjörleifsson. (þó ekki Kvaran að ég held) Gæti þó sem best verið afkomandi Einars Kvaran. Hvað veit ég?

Bandaríkin eru þjóð innflytjenda. Á því er enginn vafi. Idíánarnir sem þar voru fyrir eiga sér miklu lengri sögu en þeir sem öllu ráð nú um stundir. Samt sem áður ætlar Trump bandaríkjaforseti að loka að mestu fyrir straum innflytjenda. Auðvitað hafa innflytjendurnir verið mismunandi lengi í landinu. Ef loka á alveg fyrir þann straum kalla ég það einangrunarstefnu, hvað sem aðrir gera. Á endanum getur það orðið landinu og fylkjunum dýrt spaug, en sé litið til stutts tíma kann það að vera fjárhagslega hagkvæmt.

Við Íslendingar viljum teljast þjóð með þjóðum þó við séum fámenn. Með markvissri einangrunarstefnu er líklega hægt að benda á einhvern fjárhagslegan ávinning af fámenninu, en sjálfstæði okkar og lífskjör yrðu betri og auðveldari ef við værum svolítið (eða miklu) fleiri.

Nú er svo komið að ég fer helst ekki út að ganga nema þegar bjart er orðið. Mest er það vegna myndavélarmótmæla. Mig minnir að einu sinni hafi snjóað hér í fyrravetur en sennilega er um forstakaflamet að ræða núna. Ekki er þó um mikill snjór hér og sennilega engin leið að festa sig á bíl held ég. Kannski má þó leita uppi skafla til þess.

IMG 8356Einhver mynd.


2685 - AT, PCT og CDT

Nú er ég semsagt kominn í þann gírinn að ég blogga næstum á hverjum degi. Um daginn var ég eitthvað að tala um Keith Foskett og gott ef ég lofaði ekki að halda svolítið áfram með hann.

Ekki veit ég hvort það eru margir af lesendum mínum sem kannast við skammstafanirnar AT, PCT og CDT. En þær þýða a.m.k. í mínum huga. Appalachian Trail, Pacific Crest Trail og Continental Divide Trail. Allir þessir göngustígar eru í Bandaríkjunum og þar að auki gríðarlega langir.

Skemmst er frá því að segja að Keith Foskett er göngugarpur mikill, auk þess að vera prýðilegur rithöfundur. Í mörg ár hef ég haft mikinn áhuga á að lesa bækur um AT. Þangað til fyrir stuttu síðan hafði ég mest álit á bók Bill Bryson um það efni, sem mig minnir að hann kalli „Walking in the Woods“. Nú hefur Keith Foskett tekið við því sæti því í dvöl minni á Gran Canary um daginn las ég bók hans um AT og hafði áður lesið bók hans um PCT.

Bók Fosketts um PCT er mér ofarlega í minni. Ekki veit ég til þess að hann hafi farið eftir CDT enda er það fremur fáfarin leið a.m.k. miðað við hinar. Hins vegar hefur hann farið ýmsar leiðir á Bretlandi, en hann er enskur og hefur m.a. einnig farið um El Camino de Santiago sem er víst gönguleið á Spáni.

Trailmagic, trailangel, trailname og thru-hiker eru hugtök sem AT-farar þekkja mjög vel. Trailmagic er það kallað þegar fyrrverandi AT-farar fylla bíla sína af allskyns matvörum og ýmsu dóti, sem þeir vita af reynslu að göngumenn hafa áhuga á. Þessu dreifa þeir ókeypis með öllu til AT-fara og hafa ánægju af. Trailangels er þeir kallaðir sem fyrir slíku standa. Thru-hikers eru þeir kallaðir sem ætla sér að fara allar tvö til þrjú þúsund mílurnar sem AT nær yfir. Allar götur frá Georgiu í suðri til Maine í norðri. Einnig fara margir styttri vegalengdir eftir þessum stíg. Hann er vinsæll mjög. Trailname fá allir thru-hikers og jafnvel fleiri. T.d. er Foskett kallaður Fozzie. Sjálfir þurfa þeir að samþykkja nafnið en annars geta allir nefnt alla og úthlutað þannig trailnames.

Fjölyrði ég svo ekki meira um þetta að sinni en þetta gæti verið nóg efni í blogginnlegg. Ekki nenni ég að skrifa um fréttir dagsins enda þykja mér þær heldur ómerkilegar. T.d. er það greinilega óvinsælt hjá blaðamönnum að skrifa bakþankana í Fréttablaðið. Virðast vilja að Óttar Guðmundsson skrifi þá sem oftast því hann á það til að vera stórorður mjög.

Ráðherrar bera enga ábyrgð á neinu. Er ekki óþarfi að vera að borga þeim milljónir á mánuði í laun, þegar lágmarkslaun væru kappnóg fyrir þá? Reyndar má alveg halda því fram að þeir séu óþarfir með öllu. Væri ekki alveg nóg að ráðuneytisstjórar stjórnuðu ráðuneytunum? Forsætisráðherra er kannski ekki með öllu óþarfur, því einhver þarf að geta rekið ráðuneytisstjórana ef þeir reynast ómögulegir með öllu.

motorcycleEinhver mynd.


2684 - Keith Foskett

Árásir Trumps bandaríkjaforseta á dómsmálaráðuneytið og alríkislögregluna bandarísku gætu komið sér illa fyrir hann, þó síðar verði. Látum vera þó honum sé illa við fjölmiðla og flóttamenn. Slík andstaða nýtur mikils fylgis í USA. Orðspor Bandaríkjanna í veröldinni yfirleitt hefur beðið talsverðan hnekki. Stefna hans í málefnum sem snerta USA sérstaklega, án þess að koma fylkjunum og bandaríska þinginu beinlínis við, hefur valdið þar mestu. Ef repúblikanaflokkurinn á þingi snýst gegn honum gæti verið fokið í flest skjól fyrir hann. Þannig verða þær kosningar til bandaríska þingsins sem fram fara í nóvember næstkomandi (fyrsta þriðjudag eftir fyrsta mánudag í þeim mánuði) eflaust nokkuð spennandi.

Það er háttur minn að vaða úr einu í annað í blogginu sem ég sendi öðru hvoru frá mér. Ég hef alls ekki í huga að hætta því. Þess vegna er það sem ég skrifa ekki meira að þessu sinni um bandarísk (af hverju ætli ég skrifi bandarískur ætíð með litlum staf, varla mundi ég skrifa Íslenskur með jafnlitlum staf – en þetta var útúrdúr) stjórnmál þó þau séu aftur orðin mitt helsta áhugamál.

Einu sinni var ég áskrifandi að tímaritinu „Time“ og þá var það sem ég fékk talsverðan áhuga á bandarískum stjórnmálum. Satt að segja eimir svolítið eftir af þeirri þekkingu sem ég aflaði mér með því að pæla vikulega í gegnum þetta tímarit. Minnist þess að í því voru margar myndir og þegar ég henti því safni sem orðið var næstum mannhæðarhátt hneyksluðust sumir. Man t.d. eftir því að Finnur í Strympu gerði það – þegar hann tæmdi ruslatunnurnar hjá okkur á Vegamótum. En nú er ég búinn að vera andvaka all-lengi og dembi mér semsagt í dúninn – eða fiðrið.

Þegar við vorum á Gran Canary fyrir skemmstu eignaðist ég eiginlega nýjan uppáhaldsrithöfund. Sá heitir Keith Foskett og ég er næstum viss um að ég er eini aðdáandi hans hér í Íslandi. Þannig var að ég tók kyndilinn minn með mér í þessa ferð. Ekki nennti ég samt að tengja hann við Vi-Fi-ið sem ég hafði að sjálfsögðu frían og frjálsan aðgang að á því fína hóteli sem við dvöldum á. Hafði aðgang á þessari spjaldtölvu að a.m.k. nokkrum þúsundum bóka sem ég hafði valið úr hópi ókeypisbóka hjá Amazon-útgáfunni. Sýnishorn hafði ég einnig af fjöldamörgum sölubókum hjá þeim. Einnig gat ég hlustað á allmargar hljóðbækur í símanum mínum. Þannig er tæknin orðin í dag. Með því verða langar og leiðinlegar flugferðir þolanlegri.

Nú ég ætti semsagt að segja nánar frá þessum Foskett, en á kyndilinum mínum hafði ég þrjár bækur eftir hann.

Framhald í næsta bloggi. (Þetta var nokkuð góð hugmynd hjá mér.)

Sennilega hefur Ofurskálarleikurinn verið í nótt. Mér er eiginlega nokk sama hvernig hann hefur farið. Eflaust hefur annað liðið unnið. Jafntefli er eitur í beinum Bandaríkjamanna.

IMG 0342Einhver mynd.


2683 - Austurland að Glettingi

Kári Kaldalóns Frýs segir nú veðurfregnir: Appelsínurauð viðvörun er í gildi um allt land vegna þess að búast má við illviðri þar sem bæði verður snjókoma og svo hvasst að gera má ráð fyrir að bílar og annað lauslegt muni fjúka út um allar trissur. Einnig verður talsvert frost einkum í innsveitum og á botni stöðuvatna.

Kannski eru þetta svolítlar ýkjur hjá mér. Mér finnst samt að nóg sé komið af snjó og frosti í bili. Skil ekkert í Veðurstofunni að láta svona. Alveg finnst mér koma til greina að ákalla hnatthlýnunina svolítið. Þýðir hún kannski að kaldara verður hér á norðurhjaranum meðan það verður hlýrra allsstaðar annarsstaðar? Ég bara spyr.

Að mörgu leyti er það mikilsverðast í Sigríðarmálinu að það traust milli þings og þjóðar, sem ÓRG talaði svo fjálglega um virðist jafnvel fara breikkandi og einkum vera á milli framkvæmdvalds og löggjafarvalds. Þrjár stoðir má segja að séu á þeim völdum sem þjóðin hefur í reynd afsalað sér. Þar er um að ræða dómsvald, framkvæmdavald og löggjafarvald. Ekki er þó hægt að spyrja þjóðina ráða í öllum málum. Sú venja hefur skapast í flestum lýðræðisríkjum að gera slíkt aðeins á fjögurra ára fresti. Fram að þessu hefur það verið þannig hér á landi að framkvæmdavaldið hefur viljað yfirgnæfa hin tvö. Það er ekki gott. Vitanlega er best að þessar stoðir eigi gott samstarf og ekki þurfi að koma til deilna á milli þeirra. Slíkt er þó aldrei hægt að koma í veg fyrir með öllu. Mikilvægt er samt að koma sér saman um hverig hægt er að setja slíkar deilur niður. Kannski forsetinn sé heppilegur til slíkra verka.

Borgarlínan svonefnda er mál málanna í dag að mörgu leyti. Sjálfum finnst mér það undarlegt að ekki skuli enn hafa tekist að koma almenningssamgöngum sæmilega á rekspöl hér á höfuðborgarsvæðinu. Mörg tilhlaup hafa samt verið gerð til þess. Borgarlínan er það nýjasta. Ekki þarf að deila um að þar er um að ræða byltingarkenndustu og kostnaðarsömustu lausnina. Samt er allsekki hægt að ganga út frá því að hún takist betur en hinar. Vonandi er samt svo. Ekki er nefnilega annað að sjá en að ráðist verði í það verkefni. Kannski verður það eilífðarverkefni eins og Sundabrauin virðist ætla að verða og Miklabrautin var einu sinni álitin vera.

Það eina góða sem ég held að geti komið útúr einangrunarstefnu Trumps bandaríkjaforseta er það að áhrif bandaríkjamanna á heimsmálin muni fara minnkandi. Já, ég held að það gæti orðið til bóta vegna þess að þeir (bandaríkjamenn) virðast flestir halda að með því að vinna kalda stríðið hafi þeim orðið allir vegir færir. Svo er þó ekki, því ekki er hægt að sjá að heimurinn hafi batnað fyrir áhrif þeirra. Auðvitað er það ekki óumdeilt að heimurinn muni batna ef áhrif bandaríkjamanna minnka. Sumir eru beinlínis öndverðrar skoðunar. Engin leið er að skera úr um hvor skoðunin er réttari. Alheimsstjórn gæti verið svarið en hugsanlegt er að slíkt mundi hafa óþekktar hættur í för með sér.

IMG 0346Einhver mynd.


2682 - Trump og Katrín

 

Yfirleitt hef ég treyst allvel upplýsingum þeim sem mbl.is veitir notendum sínum varðandi heimsóknir og þess háttar. Kannski verð ég að hætta því. Um daginn skrifað ég blogg þar sem mbl.is heldur fram að gestir hafi verið 414 en IP-tölur 120 þann daginn eða 30. janúar. Þetta finnst mér að geti ekki staðist. Oftast nær eru þessar tölur ákaflega líkar af eðlilegum ástæðum. Sennilega eru þetta bara einfaldlega mistök sem engin ástæða er til að álíta að endurtaki sig. Tölvur eiga samt ekki að gera mistök, svona yfirleitt, og kannski er eftirlitið með þeim í slakara lagi.

Trump bandaríkjaforseti hélt sína fyrstu stefnuræðu í fyrrinótt. Ekki er hægt að neita því að efnahagslega virðist flest ganga bandaríkjamönnum í haginn. Sumt af því er áreiðanlega Trump að þakka. Sömuleiðis er alls ekki hægt að neita því að Trump er með allra óvinsælustu forsetum bandaríkjanna utan þeirra bandaríkja sem hann stjórnar að miklu leyti. Að mínu áliti er hann ákaflega einangrunarsinnaður og á endanum gæti það komið sér mjög illa fyrir bandaríkjamenn. Kosningar til fulltrúadeildarinnar verða í haust í bandaríkjunum og þá kemur í ljós hvernig sambandi hans við republikanaflokkinn verður háttað á næstunni. Ekki á ég von á að neitt sem varði embætti Trumps komi útúr rannsókn Muellers á sambandinu við rússa. Flest bendir til að kosningarnar 2020 verði ákaflega spennandi. Fremur en hitt á ég von á að Trump leiti eftir endurkosningu.

Af því að sjónin er svolítið að daprast hjá mér les ég yfirleitt ekki (a.m.k. ekki vandlega) dagblöðin og Moggasnepilinn allsekki. Styrmir stormsveipur, sem áður var ritstjóri hjá þessum margnefnda snepli, segir frá því í bloggi sínu að Oddi h/f hafi sagt heilmörgum upp starfi hjá sér. Þetta gefur honum tilefni til að fjölyrða um stjórnvöld þau sem allt eru að eyðileggja. Ekki er ég neinn sérstakur stuðningsmaður þeirra en mér finnst að Katrín eigi alveg eftir að sanna sig. Að minnsta kosti er hún ekki nærri eins glaðhlakkaleg og vanalega. Kannski er hún hreinasta guðsgjöf núna á þessum síðustu og verstu tímum. Eru þeir síðustu ekki ævinlega þeir verstu líka?

Sigríður Andersen þarf áreiðanlega fyrr eða síðar að segja af sér sem ráðherra. Sennilega gerir hún það samt ekki fyrr en Bjarni Benediksson fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins segir henni að gera það. Eiginlega er aðalspurningin sú af hverju hann er ekki búinn að því. Varla gerir hann ráð fyrir því að hún standi spillingarásakanirnar af sér. Auðvitað kann að vera að hann vilji að hún reyni það. Hanna Birna reyndi lengi en varð á endanum að játa sig sigraða. Þessi mál eru samt talsvert ólík. Lík samt að því leyti að stjórnarandstaðan virðist ætla sér að losna við Sigríði. Meðan hún hangir í embætti er engin von til þess að samstarf stjórnvalda og þings batni.

IMG 0348Einhver mynd.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband