Bloggfærslur mánaðarins, júní 2018

2740 - Ég sjálfur

Sagt er að gefið verði frí frá fótboltanum í allan dag. Guð láti gott á vita. Ekki er þó víst að veðurguðirnir geri það. Það er nú meiri rigningin sem hefur verið hérna á þéttbýlasta horninu að undanförnu. Maður er strax farinn að æfa sig í að segja „Já, rigningarsumarið mikla 2018, það var sannarlega eftirminnilegt.“ Mér er líka sagt að flestir veðurspámenn hafi farið í felur. Þó víst ekki Páll Bergþórsson, enda passar hann sig á að spá illa.

Um 1980 gerði ég mér grein fyrir mætti tölvunnar og tölvusamskipta. Ekki gerði ég mér þó í hugarlund að áhrifin yrðu jafn gagntæk og virðist vera. T.d. sá ég Internetið fyrir mér sem risastórt bókasafn sem væri öllum opið án nokkurs endurgjalds. Sem betur fer er Netið að talsverðu leyti þannig ennþá. Vel er hægt að tengjast Netinu fyrir lítinn pening með ódýrum tölvum. Fæstir gera sig samt ánægða með það. Mikill vill alltaf meira.

Hvort skyldi vera mikilvægara að þú getir aukið hraðann á Internetinu svolítið eða að 10 til 100 manns fái að kynnast upphringimódemi í fyrsta sinn? Ég bara spyr. Auðvitað geri ég mér fulla grein fyrir því að svangur og klæðlaus maður mundi hafa meiri áhuga á mat og fatnaði en ókeypis Interneti. Auk þess er dýrt að dreifa Netsendingum um heiminn og margt er brýnna en það.

Kannski er það hugsanlegt að sumir lesenda minna vilji fá að vita meira um mig. Í þessu og næstu bloggum ætla ég þessvegna að byrja á svolítilli sjálfsævisögu. Kannski misvirða það sumir við mig en það verður bara að hafa það. Semsagt þá mun ég á næstunni breyta þessu bloggi að hluta í einskonar dagbók eða sjálfsævisögu. Vinsamlega búist samt ekki við of miklu. Kannski klikka ég alveg á þessu.

Um þessar mundir er ég 75 ára og flestir morgnar byrja á því að ég fer út að ganga um sjöleytið. Þessi tímasetning er þó alls ekkert heilög í mínum huga. Stundum fer ég fyrr og stundum mun seinna af stað. Þegar ég legg á stað set ég venjulega Fitbit-ið af stað í símanum mínum. Þá get ég með því að líta á hann séð hve langt ég hef farið og hve lengi ég hef gengið. Einnig get ég fengið upplýsingar um peisið eða meðalhraðann sem ég er á. Þegar ég stoppa til að hvíla mig, en það geri ég stöku sinnum, þá þarf ég bara að pota á ákveðinn stað á skjánum og þá stöðvast allt og fer ekki af stað aftur fyrr en ég ýti á takkann aftur. Hve lengi ég er smatals búinn að vera útivið get ég að sjálfsögðu fengið upplýsingar um hjá úrinu mínu.

Þó að rigni hefur það engin áhrif á mig að öðru leyti en því að þá þarf ég að fara í regnföt. Venjulega fer ég hringferð útfyrir Höfða og allt að listaverkinu Himnaríki. Sú leið er u.þ.b. 4 kílómetrar og ég er svona uppundir klukkutima að fara þann hring. Oft fer ég eitthvað annað og stundum mun styttra. Það fer mest eftir veðri. Vitanlega gæti ég í þessu bloggi mínu sagt eitthvað frá þessum gönguferðum mínum og e.t.v. geri ég það.

Ætli ég láti þetta ekki nægja að sinni. Þetta með sjálfsævisöguna og dagbókina er allsekki víst að ég standi á nokkurn hátt við. Hef undanfarið verið að velta fyrir mér hvort t.d. einhverjir afkomendur mínir mundu skilja það sem ég skrifa eftir svona áratugi eða aldir. Kannski einhver slysist til að lesa þetta þá. Búast má við að þetta geti orðið aðgengilegt lengi enn.

IMG 8014Einhver mynd.


2739 - Fótbolti og heimspólitík

Að sumu leyti er Suðrið að minna á sig. Varkárlegar er ekki hægt að taka til orða. Við stöndum nú e.t.v. andspænis mikilli ógn. Hún er hugsanlega sú að þeir sem hafa það verulega slæmt eru nú loksins að innheimta hjá okkur Vesturlandabúum það sem við í hinum vestræna heimi skuldum þeim í raun og veru. Hugsanlega er millistéttin á vesturlöndum alls ekki tilbúin til að ganga til skuldajöfnunar við þriðja heiminnn núna. Einhverntíma kemur samt að því. Einangrunarstefna sú sem Trump og hans lið stendur fyrir getur leitt til mikilla hörmunga. Ekki er ég svosem að spá þriðju heimsstyrjöldinni, en þróunin í heiminum gæti bent í þá átt. A.m.k. má búast við miklum átökum í heimspólitíkinni. Tollamál og flóttamannamál eru bara yfirborðið.

Er annars hægt að skrifa um annað en fótbolta núna. Að mörgu leyti er ég sammála þeim sem haldið hafa því fram að það að hafa tekið Emil Hallvarðsson út úr liðinu hafi verið afdrifaríkustu mistökin sem gerð voru á HM í Rússlandi. Stjórnendur liða segja oft að það eigi aldrei að breyta sigurliði. Að flestu leyti má líta á jafnteflið við Argentínumenn sem sigur. Annars stóðu sig eiginlega allir vel í þessu mikla ævintýri. Og vitanlega er hálfósanngjarnt að kenna Heimi Hallgrímssyni um að okkur tókst ekki að komast áfram. Vitanlega hefði það verið gaman.

Nú er semsagt hægt að fara að hugsa um annað en fótbolta og væntanlega verður það gert. Þó má eflaust margt skrifa um hann. Endalaust er hægt að segja ef og hefði. Samt er þetta búið að þessu sinni. Óþarfi með öllu er samt að leggja árar í bát. Þetta lið hefur gert góða hluti og getur vel haldið því áfram. Vel gæti verið ástæða til að leyfa leikmönnunum að fylgjast með HM-keppninni til loka. KSÍ hefur oft eytt peningum í meiri vitleysu.

Trump bandaríkjaforseti er líklega að lenda í meiri vandræðum en áður útaf flóttamannamálum. Dómari einn hefur skipað honum að sameina fjölskyldur strax. Sennilega verður hann að gera það eða Republikanaflokkurinn tapar eftirminnilega í kosningunum í haust. Bandaríkjamenn láta ekki fara með sig eins og borðtuskur.

Þó ég hafi lítið álit á íslenskri pólitík (en þykist vita ýmislegt um alþjóðastjórnmál) er því ekki að leyna að vegur sósíalista er vaxandi hér í Evrópu. Trump bandaríkjaforseti reynir að synda móti straumnum, en hræddur er ég um að hann verði fyrr eða síðar að gefast upp. Sú vinstri sveifla sem nú er að flæða um heiminn mun vonandi bjarga honum. Öfgahægrið er sífellt að verða einangraðra og öfgafyllra. Unga fólkið í dag er von heimsins.

IMG 8025Einhver mynd.


2738 - Himstrakeppnin í fótbolta

Hverju man maður síst eftir. Eigin afglöpum sennilega. Hugsanlega eigin mismælum einnig. Eru mismæli annars afglöp. Ekki veit ég það, en ég man af einhverjum ástæðum eftir mínnisstæðum mismælum sem ég gerði mig sekan um.

Þannig var að við vorum nokkrir unglingar (já, ég tilheyrði einu sinni slíkum hópi.) að hamast eitthvað á túninu við Reyki í Ölfusi. Þar var ég að vinna eitt sinn, en man þó ekki hvort svo var að þessu sinni. Páll, sem ég held endilega að hafi verið Sigurðsson og var kenndur við Kröggólfsstaði, átti eða nytjaði a.m.k. túnið sem var hinum megin við girðinguna sem við vorum nærri. Krakkarnir hentu eða settu einhvers konar rusl, sennilega heyleifar, yfir girðinguna í því að ég kom aðvífandi. Þá datt mér í hug að nota orðið skemmileggja og átti það víst að vera voða fyndið. Ég sagði semsagt við krakkana: „Þið megið ekki skemmileggja pálið hans Túns.“

Af einhverjum lítt kunnum ástæðum hefur þetta mismæli mitt setið í mér allar götur síðan. Sennilega hef ég ekki sagt frá þessu áður. Ekki veit ég hversvegna, en ég minnist þess að ég átti afar gott með að skilja og vera fljótur að fatta brandarann um hann Ísmann í Kristshúsinu eftir þetta.  

Hvað er það sem einkennir yfirstandandi heimsmeistarakeppni í fótbolta? Eflaust eru allmargir sem spyrja sig þessarar spurningar. Mér finnst mest áberandi hvað Ameríkufótboltinn hefur dalað. Asíu og Afríkuboltinn er á uppleið. Evrópa heldur nokkurnvegin sínu. Rússland fær töluverða athygli og stórþjóðirnar í þessari keppni er alveg úti að skíta. Nema þá helst Spánverjar, Portúgalir og Englendingar. Sama er að segja um stórstjörnurnar eins og Neymar og Messi. Það er helst að Ronaldo blakti svolítið, þrátt fyrir allt sitt mont.

Það eru ekki bara Argentínumenn sem geta lítið í fótbolta nú um stundir. Svipað má segja um marga fleiri. T.d. bæði um Frakka og Þjóðverja ekki síður en Brasilíumenn. Hvað hafa íþróttir að gera með grenjandi smábörn einsog Neymar? Auðvitað reyna allir að brjóta á honum. Aðrir eru þó ekki sívælandi.

Þátttaka Íslendinga er kapítuli út af fyrir sig. Vitanlega fylgist maður mest með keppninni í þeim riðli sem Ísland er. Þar eru Króatar greinilega langbestir og kemur það ekki á óvart. Einhverjir hefðu kannski búist við að Argentínumenn gætu eitthvað, en Messi er víst í hálfgerðu messi og engin von er til þess að þeir komist áfram. Líklega verða það Nígeríumenn sem fylgja Króötum í úrslitin. Gætu samt orðið Íslendingar.

Fjölmiðlaumfjöllunin um þessa himstrakeppni er yfirþyrmandi. Hvernig dettur sjónvarpstöð eins og þeirri Íslensku í hug að færa fréttatímann til um tvo og hálfan klukkutíma bara útaf einni andskotans fótboltakeppni? Jú, eina afsökunin er að í fyrsta (og sennilega eina) skiptið hefur íslenska landsliðinu tekist að fá þátttökurétt á þessari jólahátíð íþróttamanna. Allar þjóðir fá þó rétt til að taka þátt í Ólympíuleikunum en þarna eru fáeinir útvaldir sem fá að taka þátt. Kannski verður þátttökuþjóðunum í þessari keppni fjölgað svo um munar á næstunni.

Á sinn hátt eru fjölmiðlar búnir að gera þessa keppni að allsherjar sirkusi og jafnvel vinsælli en sjálfa Ólympíuleikana. Kannski væri ráð að gera þennan sirkus að árlegum viðburði. Þá mundu sumir fá nóg og fara jafnvel að fjalla um eitthvað sem skiptir máli.

IMG 8032Einhver mynd.


2737 - Þorvaldur Gylfason

2737 – Þorvaldur Gylfason

Það var óneitanlega nokkuð gott hjá Þorvaldi Gylfasyni að líkja aðferðum bandaríkjastjórnar við fráfærur. Aðferðir þessarar stjórnar við flóttamenn á landamærum Mexíkós og Bandaríkjanna eru með þeim hætti að allir viðkomandi með snefil af réttlætiskennd hljóta að fordæma þær. Trump reyndi lengi vel að verja þessar aðgerðir en sneri að lokum við blaðinu og gerði sjálfan sig að þeim ómerkingi sem hann hefur oft gert áður. Sennilega hafa samt fleiri snúið við honum baki nú en oftast áður. Auðvitað hafa margir orðið til þess á undan mér að úttala sig um Trump fyrir þetta og þessvegna ætla ég að láta þetta duga að sinni.

Heimsmeistarakeppnin í fótbolta heldur áfram. Ekki er útséð um það ennþá hvort Íslendingar komast upp úr sínum riðli eða ekki. Líkurnar eru þó sæmilegar eftir hið fræga jafntefli við Argentínumenn. Spámaður er ég enginn og þessvegna ætla ég að láta öðrum slíkt eftir en minni bara á að ýmislegt er enn eftir sem aflaga getur farið.

Eitthvað minntist ég á að láta getið þeirra viðbragða sem ég fékk á sínum tíma við þessu tilskrifi mínum um Ásgautsstaðamálið. Hér eru þau:

 

Sem erfingjar hljóta þau að geta krafist skipta á jörðinni.  Eða eru einhverjar kvaðir sem hindra það?  Ef ekki er eining um hvernig skipta skuli búi þá ber sýslumanni að skipa skiptaráðanda..

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 10.12.2013 kl. 13:49

Sæll Sæmundur - sem jafnan og fyrri !

Það er þér - til hinnar mestu sæmdar að hefja máls á þessu óhreina máli sem legið hefir í þagnargildi áratugunum saman.

Svo vill til - að ég og systkini mín 11 núlifandi eigum þarna hlut að máli einnig að því leytinu til að hvorki sveitarfélögin Stokkseyrarhreppur að og með árinu 1998 og hin svokallaða Árborg í dag - né Árnessýsla hafa nokkurn tíma boðið okkur skaðabætur af neinu tagi fyrir skjalafalsanir sínar - svo einnig komi fram og ég vil ítreka að stimplar Stokkseyrarhrepps og Árnessýslu voru á lofti hafðir án nokkurrar minnstu vitundar móður minnar Jónínu Aldísar (d.7. Desember 1999)og í fullkomnum blóra við hana og okkur erfingja hennar.

Móðurafi minn - Þórður Árnason (1890 - 1933) á Hólmi í Stokkseyrarhreppi var einn stofnenda Ásgautsstaða félagsins / voru þau 4 sytkinin - móðir mín auk annarra þriggja en svo bar við / og liggur raunar í landi enn að flest þeirra 3ja hunzuðu ávallt lögmæta aðkomu móður minnar að þessum Ásgautsstaða erfðum og gera sum afkomenda þeirra það enn þann dag - í dag.

Ég styð eindregið - alla þá málafylgju sem kona þín og fjöl skylda viljið fram hafa til áframhalds réttlætis úrlausnar þessarra mála Sæmundur og er netfang mitt : ohh1@isl.is svo og Gsm: sími minn 618 5748 kysir þú að hafa nánar samband við mig þessu skelfilega máli til framvindu.

2009 - 2010 fóru fram erfðaskipti á hlut Þórðar Árnasonar en spurning er / hvort ekki þurfi að endurupptaka þau í ljósi margfaldra skjalafalsana hinna opinberu aðila síðuhafi góður ?

Með beztu kveðjum /

Óskar Helgi Helgason 10.12.2013 kl. 14:02

Jóhannes, mér skilst að löfræðingur þeirra systkina hafi sagt að fyrst þyrfti að fá botn í fölsunarmálið, áður en rétt væri að krefjast skipta. Bætur fyrir ólöglega nýtingu landsins hefur Árborg ekki viljað semja um.

Sæmundur Bjarnason, 10.12.2013 kl. 15:00

Sæmundur, þið verðið að fá ykkur grimmari lögfræðing.  Í svona málum þarf að stefna mönnum sem ekki vilja semja fyrir dóm.  Það er það eina sem virkar.

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 10.12.2013 kl. 15:15

Óskar Helgi, ég býst við að Þór Benediktsson hafi samband við þig fljótlega eða þá kona mín Áslaug systir hans. Ég þekki málið alls ekki út í hörgul.

Þakka þér samt fyrir góðar undirtektir.

Sæmundur Bjarnason, 10.12.2013 kl. 15:29

Jóhannes, þetta með lögfræðinginn er í stöðugri athugun að ég held.

Sæmundur Bjarnason, 10.12.2013 kl. 15:30

Gakktu bara fyrst úr skugga um að lögfæðingur sem þú hyggst ráða hafi engin tengsl við gagnaðilann. hvorki hann sjálfan eða lögfræðinginn eða embættið sem um ræðir.  Sýslumannsembætti Ólafs Helga í þessu tilviki.  Lögfræðingar eru nefnilega flestir tengdir kunningja, vina eða hagsmunaböndum og þar eru dómarar ekki undanskildir.

Jóhannes Laxdal Baldvinsson, 10.12.2013 kl. 15:36 [Innskráning]

IMG 8036Einhver mynd.


2736 - Úr gömlu bloggi

Er ég farinn að flýta mér einum of mikið við þetta blogg mitt? Kannski. Held að ég hafi gleymt að setja mynd með síðasta bloggi. Kannski ég gái bara að þessu. Gott ef ég gleymdi ekki einhverju fleiru.

Við Íslendingar erum stórskrítnir. Einu sinni vorum við handboltaþjóð, nú erum við knattspyrnuþjóð. Umfram allt erum við þó lítil þjóð, sem sífellt er að setja heimsmet miðað við fólksfjölda. Það gerðum við jafnvel Sigmundarlaus. Eftir að hann kom til skjalanna fjölgaði heimsmetunum að sjálfsögðu. Stundum voru það reyndar heimsmet sem engir aðrir vildu setja, en heimsmet samt.

Svo verða held ég alveg sérstakir Íslandsvinir allir sem láta svo lítið að taka eftir okkur. Það verður enginn frægur hér á landi nema einhverjir útlendingar kannist við hann. Þannig er það bara og hefur alltaf verið.

Í desember árið 2013 skrifaði ég eftirfarandi í bloggið mitt. Kannski er kominn tími til að endurtaka það:

Það var síðastliðið sumar sem um það var rætt að gera Ásgautsstaðamálið opinbert. Ekki svo að skilja að ekki hafi verið rætt um það fyrr. Aldrei hefur samt orðið neitt úr því að opinberlega væri um málið fjallað. Bloggið mitt er í þeim skilningi opinbert að þónokkuð margir eru vanir að lesa það. Jafnvel væri hægt að kalla það fjölmiðil af einhverju tagi, ef löngun væri til.

Eftir talsverðar rökræður var mér falið að kanna hvort fjölmiðlar hefðu e.t.v. áhuga á málinu. Meðal annars sendi ég fyrrverandi vinnufélaga mínum bréf um þetta. Svarið frá honum var á þá leið að þó helstu fjölmiðlar hefðu hugsanlega ekki áhuga á þessu væri tvímælalaust rétt að gera það opinbert. Þetta var í júlí í sumar. Af ýmsum ástæðum varð ekki úr neinum framkvæmdum þá. Ég tók samt saman helstu staðreyndir málisins í örstuttu máli.

Konan mín og systkini hennar eru erfingjar að níunda hluta jarðarinnar Ásgautsstaðir við Stokkseyri. Lögfræðingur í Reykjavík hefur verið með mál í gangi í mörg ár útaf misnotkun sveitarfélagsins Árborgar (og áður Stokkseyrar) á jörðinni. Fulltrúar sveitarfélagsins virðast leggja áherslu á að tefja þetta mál eftir megni. Það er ekki útaf vantrausti á lögfræðingnum sem ég birti þetta. Þarna er um sakamál að ræða sem á sér langa sögu og tengist húsbyggingum á Stokkseyri, sýslumannsembættinu á Selfossi og Bæjarstjórn Árborgar. Um er að ræða óheimila notkun lands, ólöglegar byggingar, skjalafals og hugsanlega ýmislegt annað.

Lögfræðingurinn hefur kært þetta mál til sérstaks saksóknara en mér skilst að hann telji þetta vera einkamál. Ég tel hinsvegar að skjalafals opinbers embættismanns geti ekki verið það.

Þau systkinin vilja gjarnan fá að vita hvers vegna sýslumaðurinn á Selfossi svarar ekki bréfum sem til hans eru sannanlega send. Þarna á ég við bréf sem lögfræðingur meginhluta erfingjanna að jörðinni hefur sent honum. Svo virðist sem málið sé strand hjá sýslumanni núna og hafi verið það alllengi.

Álit mitt á lesendum þessa bloggs er mikið og ein af helstu ástæðum þess að ég skrifa um málið hér og nú er sú að ég vil gjarnan fá ráðleggingar um æskilegt framhald þess. Allar þær fullyrðingar sem fram koma í þessari bloggfærslu er hægt að færa fullkomnar sönnur á með ljósritum og staðfestum afritum úr embættisbókum.

 

Þetta skrifaði ég semsagt fyrir bráðum fimm árum. Kannski er sumt eða allt af þessu fyrnt en af því ég var um daginn að lesa gömul blogg sem ég hef skrifað datt mér í hug að birta þetta aftur.

Engan bið ég afsökunar á þessu og á næstunni mun ég e.t.v. geta eitthvað um þau viðbrögð sem ég fékk við þessu.

IMG 8053Einhver mynd.


2735 - Leikrit í einum þætti

 2735 – Leikrit í einum þætti

 -    Sá sem skrifar eitthvað sem annar les, eignast um leið einhvað í honum.

 -    Nú, á ég þá eitthvað í honum Steina Briem?

 -    Af hverju segirðu það?

-     Nú, hann er sá eini sem ég veit með vissu að les alltaf bloggin mín.

-     Hvernig veistu það?

-     Hann yrkir alltaf vísu í lokin á hverju bloggi.

-     Getur ekki verið að hann þurfi bara að losna við þessar vísur?

 -     En þær eru alltaf um eitthvað sem ég hef skrifað í því bloggi.

-      Nú.

-     Já, það er bara svoleiðis.

 -    Jæja, annars átti þetta að vera upphafið að heimspekilegum samræðum. Ertu kannski of fínn fyrir svoleiðis?

 -    Nei, nei. Ég bara vissi það ekki.

 -    Eins og ég sagði þá eignast þú eitthvern örlítinn hluta af þeim sem les eitthvað sem þú skrifar. Auðvitað gildir það sama um hvað sem er. Hvort sem um er að ræða ljósmyndir, kvikmyndir, leikrit eða eitthvað annað. Það bara dreifist á fleiri hendur.

 -    Ég skil þetta nú ekki almennilega. En við skulum bara gera ráð fyrir að þetta sér rétt. Hvar er annars heimspekin í þessu?

 -    Jú, með því að neyða hann til að lesa það sem þú skrifar, eignast þú örlítinn hluta af hans lífi.

 -    Já, en ég neyði aldrei neinn til neins.

 -    Það skiptir engu máli.

 -    Af hverju ekki?

 -    Af því að þegar þú skrifar eitthvað og setur engar takmarkanir á hverjir geta lesið það þá veistu ekki hve margir lesa það.

 -    Nú, er það?

 -    Já, já.

 -    Það vissi ég ekki.

 -     Þá veistu það núna. Og ef þú skrifar of langt mál missirðu þetta tak.

 -     Hvaða tak?

 -     Nú á þeim sem lesa það sem þú skrifar.

 -     Já, svoleiðis.

-      Þetta á ekki síður við blogg en annað.

-      Einmitt.

-      Og svo máttu ekki skrifa of oft.

 -     Ég skal muna það.   

 Einhver mynd.


2734 - Knattspyrna og Trump

Nú er það eiginlega orðið svo að mér finnst ég þurfa að blogga. Það er vissulega heimsfrétt að „strákunum okkar“ skuli hafa tekist að halda jöfnu við Argentínumenn á fótboltamótinu í Rússlandi. Verst að nú ætlast flestir til þess að þetta lið sigri Nígeríumenn auðveldlega. Ég er ekki að tala um svokallaða sparkspekinga heldur almenning, sem í rauninni öllu ræður. Svo mega þeir eiginlega alls ekki tapa fyrir Króötum í lokaleiknum. Kannski komast þeir bara uppúr riðlinum eftir allt saman. Leiðinlegt verður að tapa fyrir Dönum eftir það, en kannski er bara kominn tími til að hefna sín á fyrrverandi herraþjóð. Látum allt maðkaða mjölið og aðra niðurlægingu verða okkar lokaorð á þessari sýningu.

Að fótboltanum afgreiddum má ég eiginlega til með að sinna svolítið Trump-blætinu mínu. Fyrrverandi kosningastjóri hans, sem Manafort heitir, situr núna í fangelsi. Sennilega er alltof langt mál að útskýra hversvegna það er. Scott Pruitt forstjóri EPA (environmental protection agency) sem segja má að sé einskonar umhverfismálaráðherra í Trump-stjórninni lætur ekkert tækifæri ónotað til þess að sleikja sig upp við Trump eftir því sem Washington Post segir. Svo á víst Cohen, fyrrverandi einkalögfræðingur Trumps, í einhverjum vandræðum við saksóknara sem auk þess að hafa lagt hald á allar hans eigur hafa meira að segja límt saman skjöl beint úr pappírstætara hans.

Ekki blandast mér hugur um að hluti af vandræðum Trumps stafar af stríði hans við fjölmiðla flesta. Í rauninni er ekkert einkennilegt þó hægri sinnaðir Bandaríkjamenn séu honum hliðhollir. Margt hefur hann gert fyrir þá. Flestir stærstu fjölmiðlar heims eru talsvert vinstri sinnaðir. Þeir sem halda því fram að hægri og vinstri séu með öllu ótæk og alveg merkingarlaus hugtök í nútíma pólitík eru bara að reyna að rugla fólk. Hægri stefna er einangrunarstefna og vinstri stefna er opingáttarstefna. Hvort er meira út úr kú að aðhyllast er ómögulegt að segja. Bil beggja er líka vandfundið.

Ekki ætla ég mér þá dul að ákveða hvort knattspyrnunni sjálfri fer betur að vera hægri eða vinstri sinnuð. Hverjum þykir sinn fugl fagur og kannski sameinast þjóðin ekki almennilega nema geta varpað allri pólitík út í hafsauga.

Hvort skyldi vera íslenskara að tala um fótbolta eða knattspyrnu. Sjálfum finnst mér ágætt að hafa tvö orð um sama fyrirbrigðið. Knattspyrna er svolítið fínna og fótbolti svolítið yfirlætislegt. Stundum er líka ágætt að finna ný og ný orð yfir það sem verið er að tala um. Það þarf þó að skiljast og ekki má það vera hlægilegt eða nokkurs konar tátólogía. T.d. væri með öllu óboðlegt að tala um fótspyrnu eða knattbolta.

Í dag er 17. júní og það er víst þjóðhátíðardagur okkar Íslendinga. Veðrið er alveg sæmilegt núna enda sunnudagur og ekki verjandi fyrir Veðurstofuna að vera með einhvern hryssing. Hátíðahöld verða áreiðanlega einhver hérna á Akranesi en ólíklegt er að ég taki nokkurn þátt í þeim. Einu sinni var ég þó skáti og meira að segja fánaberi á slíkri stundu í Hveragerði.

IMG 8054Einhver mynd.


2733 - Fótbolti

Fjölmiðlalega séð þá er þetta heimsmeistaramót í Rússlandi mun verra en venjulega. Ég vorkenni þeim sem engan áhuga hafa á fótbolta og geta ekki töfrað hann fram. Þetta er eiginlega verra en nokkrar kosningar. Sumir eiga það þó til að verða æstir yfir þeim. Allir íslenskir fjölmiðlar eru undirlagðir. Ekki er fjallað um neitt annað en fótbolta. Ef einhver slysast til að tala um eitthvað annað þá er reynt að finna einhverja fótboltatengingu. Eiginlega er svolítið barnalegt að láta svona. Þó getur maður varla annað en hrifist með.

Auðvitað er það talsvert sögulegt að svona fámenn þjóð, eins og við Íslendingar erum, skuli hafa komist á þetta heimsmeistaramót. Látum samt ekki óskhyggjuna alveg blinda okkur. Þó okkur hafi tekist að komast upp úr okkar riðli á síðasta Evrópumeistaramóti og meira að segja að slá út Englendinga, þá er fremur ólíklegt að okkur takist að vinna svipað afrek aftur. En vitanlega er allt hægt. Einkum vegna þess að margar góðar knattspyrnuþjóðir og knattspyrnumenn leggja meiri áherslu á deildakeppni liða en landsliðin sem slík. Samhæfingin er hugsanlega ekki eins góð þessvegna.

Ef Íslendingum gengur ekki eins vel í knattspyrnunni í Rússlandi einsog æstustu stuðningsmenn vilja, þá verður væntanlega fljótt að fenna yfir þennan atburð hjá flestum. Heimsóknin til Rússlands mun þó væntanlega skapa ágætis minningar hjá mörgum.

Flestir virðast eiga smartfón-farsíma. Spurningin er bara hve vel þeir kunna á hann og hvort þeir nota hann mikið. Þegar fólk er annars hugar og potandi í símann sinn úti á götu er það kannski bara að spekúlera í hvernig þetta apparat virkar. Svo fer þetta líka dálítið eftir aldri. Það er t.d. talsvert skref fyrir gamlan hund eins og mig að hætta að nota tölvuna til að flækjast um Internetið og fara þess í stað að nota farsímann. Fyrir utan það að letrið í símanum er sannkallað lúsaletur. Svo er líka nokkuð algengt að fólk sé í hrókasamræðum á stöðum þar sem manni hefði ekki dottið í hug að tala á áður fyrr. Man enn hvað ég varð hissa þegar ég var í stórverslun og sá þar mann sem talaði bæði hátt og mikið. Við sjálfan sig virtist mér a.m.k.

Já, það er þetta með fótboltann. Nú er ég búinn að sjá nokkra leiki í sjónvarpinu og það eru fyrst og fremst Spánverjarnir sem hafa heillað mig. Kannski ég spái þeim bara sigri og heimsmeistaratign. Íslendingar tapa næstum áreiðanlega fyrir Argentínumönnum á eftir. Allt minna en 3:0 ósigur er eiginlega sigur hjá þeim. Verst að líklega komast þeir ekki uppúr riðlinum.

Þetta innlegg er í styttra lagi hjá mér, en það verður bara að hafa það.

IMG 8057Einhver mynd.


2732 - Hugleiðingar um ýmislegt

Nú sneri ég á Steina Briem. Er búinn að blogga tvívegis án þess að honum hafi gefist tóm til að koma með vísu. Kannski yrkir hann bara TVÆR að þessu sinni. Ekki gerði hann það. Heldur gerði hann bara vísu við seinna innleggið mitt, enda lentu þau bæði á sama deginum. En af hverju hét Steini Óliver Twist á tímabili? Þ.e.a.s á fésbókinni. Fjarri er það samt mér að efast um að hann sé til. Það er bara þetta með hann Steina Briem aka Oliver Twist, sem ég skil eiginlega alls ekki þó ég sé allur af vilja gerður.

Eitt er það sem Trump bandaríkjaforseti getur ekki losnað við, þó hann feginn vildi, a.m.k. stundum. Það er hin ákafa og á stundum gagrýna fjölmiðlaumfjöllun um allt sem hann gerir og um embættið sem hann gegnir. Í sjálfu sér er það kannski ekkert einkennilegra en hin gagnrýnislausa og ríkisrekna umfjöllun sem einræðisherrann úr Norðri nýtur á sínum heimaslóðum. T.d. hefur það komið fram að Norður-Kóreumenn hafi átt erfitt með að skilja af hverju Trump gæti bara ekki einfaldlega sagt hinu vestræna fjömiðlageri að fara heim og láta sig í friði.

Að sumu leyti er hér greinilega um að ræða meðfædda konunghollustu flestra Bandaríkjamanna. Þeir vilja greinilega hafa sinn konung eða keisara, en öfugt við flestar Vestur-Evrópuþjóðir þá hafa þeir engan annan sem þeir geta hengt sína föðurlandsást og annað þessháttar á. Að mörgu leyti var Singapore fundurinn næstum því eins og hvert annað raunveruleikasjónvarp. Líklega er Trump fastur í þessháttar vitleysu.

Oft er gaman að lesa gömul blogg. Einkum eftir sjálfan sig. Datt í það um daginn að lesa slíkt. Þó ekki eftir mig sjálfan. Heldur eftir Salvöru Kristjönu Gissurardóttur. Á margan hátt er hún misskilinn framsóknarmaður sem gæti átt talsverða framtíð fyrir sér á stórnmálasviðinu. Bróðir hennar heitir Hannes Hólmsteinn og það er ekki laust við að hann flækist fyrir henni að þessu leyti. Á sama hátt er það óneitanlega dálitið einkennilegt að Ómar Ragnarsson skuli engan frama fá innan Samfylkingarinnar. Enginn vafi er um vinsældir hans meðal þjóðarinnar, en kannski þykir hann of ákafur og einstrengingslegur náttúruverndarsinni til þess að til þess að eiga uppá pallborðið hjá þeim flokki. Svipað má raunar segja um Jónas Kristjánsson fyrrum ritstjóra og Píratana.

Undarlegt má það heita að blogg mín skuli fá mesta athygli ef ég minnist á einhverja aðra en sjálfan mig. Hugsanlega finnst einhverjum af föstum lesendum mínum (þeir eru áreiðanlega einhverjir) að ég ætti að skrifa meira um sjálfan mig. Það er bara ekki minn háttur. Vel skil ég að fésbókin skuli einkum vera notuð þannig, en mér finnst bara að blogg eigi ekki að vera svoleiðis. Allra best þykir mér að skrifa þannig að allir geti séð mín skrif, sem á annað borð kæra sig um það. Þannig álít ég að bloggið sé. Allsekki er hægt að álíta að öllum henti slík skrif. Þau eiga bara vel við mig. Og að sumu leyti er hægt að segja að þau séu einskonar forystugreinaskrif.

IMG 8065Einhver mynd.


2731 - Singapore fundurinn

Því er ekki að neita að hugsanlegt er að Trump bandaríkjaforseti virki nokkuð sannfærandi á suma. Lyginn og ómerkilegur er hann þó. Samt efast ég ekkert um að hann á sínar góðu hliðar. Og vel gefinn er hann greinilega. Hæfileikar hans í ræðumennsku og sannfæringarkrafti eru samt ekkert einstakir. Sjálfhælni hans ekki heldur. Sennilega er alltof mikið lagt uppúr ræðumannshæfileikum bæði hér á Íslandi og mjög víða annarsstaðar á kostnað annarra hæfileika þegar menn eru kosnir til ábyrgðarstarfa.

Ekki verður það af Trump greyinu skafið að hann hefur breytt forsetaembættinu töluvert. Ekki er líklegt að framtíðarforsetar bandaríkjanna verði kurteisir og elskulegir við sína landsmenn í framtíðinni. Ennþá frekar á þetta við um framkomuna við útlendinga, enda er mjög líklegt að Bandaríkjamenn einangrist mikið í framtíðinni og verði þar með afar hættulegir.

Nú er það að koma í ljós að Norður-Kóreumenn og Bandaríkjamenn líta mjög mismunandi augum á fundinn í Singapore. Auðvitað þykist Trump alltaf hafa rétt fyrir sér eins og venjulega. Ekkert einkennilegt við það. Kim Jong-un hefur þó sennilega grætt mun meira en Trump á þessum fundi. Núorðið er hann viðurkenndur og þekktur um allan heim, þrátt fyrir sín grimmdarverk og mannréttindabrot. Eflaust líður ekki á löngu áður en hann eignast sína stuðningsmenn víða um veröldina. Flestir eru eflaust orðnir hundleiðir á Putin og eiga eins og ég í erfiðleikum með að muna hvað kínverski forsetinn heitir.

Kínverjar eru þó það afl sem án alls efa verður ríkjandi í framtíðinni. Hvenær þeir fara framúr bandaríkjunum í hernaðarmætti og hvernig sambúð þessara risavelda verður í framtíðinni er alls ekki hægt að spá um. Þegar frá líður og rykið hefur sest eftir Singapore fundinn, þá sér Trump sennilega að hann hefur gengið of langt í að vinna gegn sínum nágrönnum og Vestur-Evrópskum vinum og of langt í þjónkum sinni við Asíuþjóðir. Ekki er hægt að komast hjá því að kenna Trump um að Kim Jong-un nýtur nú alþjóðlegrar viðurkenningar.

Eftirmál Singapore fundarins eiga þó að miklu leyti eftir að koma í ljós. Og mér finnst á flestan hátt skynsamlegt að bíða. Á meðan við bíðum herðir Kim Jong-un vafalaust tökin heimafyrir. En hvaða rétt höfum við, sem tilheyrum Vestur-Evrópu eða réttara sagt Alþjóðasamfélaginu til að krefjast þess af öðrum að þeir hagi sér eins og okkur líkar. Lýðræðisfyrirkomulagið hefur sýnt sig að vera meingallað. Er samt alls ekki að mæla bót einræðisfyrirkomulagi eins og virðist vera í Norður-Kóreu.

Er svosem alveg að verða búinn að fylla kvótann minn með hjali um fundinn sem allir eru að tala um þessa dagana. Og enn styttist í fótboltann.

IMG 8071Einhver mynd.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband