Bloggfærslur mánaðarins, september 2021

3106 - Einn af pöplinum

Þeim er víst eitthvað að fækka sem lesa bloggið mitt. Veit svosem af hverju það er. Ekki dettur mér í hug að halda að mín skrif séu eitthvað ómerkilegri en annarra hér. Held að þetta sé vegna þess að ég skrifa ekki eins oft og vera þyrfti.

Eftir því sem ég les meira í bókinni hans Guðmundar, sem ég minntist á í síðasta bloggi, verð ég þakklátari forsjóninni fyrir að ég skuli vera alveg ættlaus maður. Skyldi forsjónin annars hafa haft hönd í bagga með þetta? Áður fyrr að minnsta kosti var það álitið fremur fínt að geta flaggað ættarnafni. Nú hefur þetta eiginlega snúist við eins og svo margt annað. Nú vilja allir tilheyra pöplinum.

Kosningar voru víst um síðustu helgi. Jafnvel ég tók þátt í þeim. Kaus píratann og hyggst gera það aftur ef uppkosningar verða. Eiginlega er varla hægt að segja að þetta hafi engin áhrif haft. Samt er ég að hugsa um að fresta því að hneykslast á þessu. Allir gera mistök. Sumir viðurkenna það alls ekki, en aðrir reyna að hlaupa í hefðarskjólið. Það er stundum erfitt að viðurkenna eigin ófullkomleika. Svona er þetta bara. Að halda því fram að kosningaóregla sé bundin við Vesturland er fráleitt. Kannski kemur allt þetta Akurnesingum til góða á endanum.

Alltaf eru bloggin hjá mér að styttast. Það kann að vera best.

IMG 4225Einhver mynd.


3105 - Ættarveldi

Það lá að. Ekki mátti ég segja svolítið frá Jóni Ólafssyni ritstjóra og skáldi fyrr en athugasemdum fjölgaði markvert hjá mér. Tveir afkomenda hans voru á meðal athugsemdaranna og ekki lasta ég það. Öðrum Jóni Ólafssyni kynntist ég lítillega þegar ég vann á Stöð 2. Sá Jón Ólafsson var um sumt líkur ævintýramanninum sjálfum. Umdeildur nokkuð og flýði meira að segja land eins og hann. En tölum ekki meira um það.

En hverjir eru þessir dönsku Íslendingar sem Jón Ólafsson (eldri) talar um í Íslendingabrag sínum? Til að reyna að komast að því fór ég að lesa bók Guðmundar Magnússonar sem hann nefnir „Íslensku ættarveldin“ Undirtitill þeirrar bókar er „Frá Oddaverjum til Engeyinga“ þar er meðal annars rætt um Stefánunga, Briemsætt, Thorsara og ýmsa aðra. Ekki ætla ég mér þá dul að segja að meðal þessara manna og ætta séu danskir Íslendingar. Þó er það hugsanlegt.

Ég er rétt að byrja á þessari bók og vel kann að vera að ég segi nánar seinna frá einhverju sem ég kemst að þar.

Mig minnir að ég hafi einhverntíma í bloggi eða svari við athugasemd þar minnst á „King of SÍS“. Þessu var ég alveg búinn að gleyma. Þessa sögu rekur Guðmundur Magnússon skilmerkilega í bók sinni. Þarna mun hafa verið átt við Erlend Einarsson, sem gerði það að gamni sínu eitt sinn að láta útbúa ættartré sem sýndi skyldleika hans við ýmsa fyrirmenn og kóngafólk. Margir eru snoknir fyrir slíku.

Kannski er best að hafa þetta blogg verulega stutt. Hugsanlega lesa það fleiri þá.

IMG 4240Einhver mynd.


3104 - Íslendingabragur

Árið 1867 (Semsagt fyrir meira en 150 árum) hóf 17 ára piltur að gefa út tímaritið „Baldur“. Piltur þessi var ættaður frá Fáskrúðsfirði og 3 árum síðar birtist í blaði þessu kvæði eftir hann sem nefnt var Íslendingabragur. Óhætt er að segja að kvæði þetta hafi komið sem sprengja yfir Reykjavík, sem á þessum tíma taldi um 2000 manns. Af þremur erindum kvæðisins hefur það í miðjunni orðið einna frægast og hljóðar þannig:

En þeir fólar, sem frelsi vort svíkja
og flýja í lið með níðingafans,
sem af útlendum upphefð sér sníkja,
eru svívirða og pest föðurlands.
Bölvi þeim ættjörð á deyjanda degi,
daprasta formæling ýli þeim strá,
en brimrót fossar, fjöllin há
veiti frið stundar-langan þeim eigi.
Frjáls því að Íslands þjóð
hún þekkir heims um slóð
ei djöfullegra dáðlaust þing
en danskan Íslending.

Höfðað var mál gegn höfundinum og hann flýði land í kjölfarið. Tímaritið „Baldur“ hætti að sjálfsögðu að koma út. Landsyfirvöld sáu til þess. Piltur þessi hét Jón Ólafsson og af honum er löng og merkileg saga, sem ekki verður sögð hér. Kvæðið varð hinsvegar samstundis landsfrægt og er það á margan hátt enn, enda stóryrt í meira lagi, þó það þyki ekki sérlega svívirðilegt í dag.

Þetta er allsekki ein af mínum örsögum. Hvert eitt og einasta orð í þessari samantekt er sannleikanum samkvæmt.

IMG 4255Einhver mynd.


3103 - Nábrækurnar

Nú er ég semsagt kominn á bragðið aftur í örsögunum. Þær mega mín vegna fjalla um hvað sem er. Bara að þær fari ekki á meira en eina word-blaðsíðu því þá nennir enginn að lesa þær.

Einu sinni í fyrndinni var bóndi sem kunni sitthvað fyrir sér. Eins og sagt var. Eiginlega þýddi þetta það að hann var pínulítið göldróttur. Ekki samt neitt líkur Harry Potter enda hafði hann aldrei í galdraskóla komið. Lítið kver átti hann þó þar sem nokkur galdrabrögð voru kennd. Einhverju sinni komst konan hans að því að hann var að glugga í þetta kver og við lá að hún kjaftaði frá. Honum tókst þó að telja hana á að segja ekki frá þessu. Á þessum tíma var nefnilega harðbannað að eiga galdrakver og áttu menn á hættu að týna lífinu ef upp um þá komst.

Bóndi þessi hét Jón og var Jónsson og bjó að Jónsstöðum í Jónshreppi. Með öðrum orðum ég vil ekki segja nein deili á honum enda skipta þau engu máli.

Í þessu galdrakveri hans Jóns bónda á Jónsstöðum var meðal annars kennt að búa sér til nábrækur. Þær mátti að sögn nota til margra hluta. Grafa þurfti upp lík og fletta húðinni af fótum líksins og allt upp að nafla og urðu þá til þessar fínu nábrækur. Ekki mátti gera þetta nema á fullu tungli og keypti Jón því Almanak hins íslenska þjóðvinafélags. En svo komst Jón bóndi að því að tunglskin þyrfi að vera þegar þetta væri gert.

Fram eftir öllum vetri var ævinlega skýjað þegar fullt tungl var samkvæmt Almanakinu. Seinni part Einmánaðar skeði það hinsvegar að léttskýjaö var þegar tungl var fullt. Jón bóndi hugsaði sér gott til glóðarinnar af þessu tilefni. Þá vildi svo illa til að í marga mánuði hafði ekki nokkur maður verið jarðsunginn í Hjallakirkju og ekki gat Jón hugsað sér að grafa upp rotnað eða hálfrotnað lík. Hann brá sér þessvegna uppað Kotströnd, en þar hafði einmitt gamall karlskröggur verið jarðaður fyrir fáeinum dögum.

Ekki eru tök á því að lýsa í smáatriðum hvernig Jón fór að en nábrækurnar eignaðist hann eftir talsverða fyrirhöfn. Þegar hann fór í brækurnar voru skálmarnar að vísu í styttra lagi en Jón taldi sér trú um að það væri í lagi.

Ekki vildi betur til en svo að hann vissi ekkert og ekki var frá því skýrt í galdrakverinu til hvers ætti að nota brækurnar. Endirinn varð því sá að Jón notaði brækurnar ekkert og þegar fór að slá í þær og lyktin að versna henti hann þeim í fjóshauginn og notaði þær ekkert. Lýkur svo þessari sögu og vel getur verið að hún sé uppspuni frá rótum.

IMG 4265Einhver mynd.


3102 - Guttormur dúllari

Nú hef ég ekki skrifað örsögur óralengi. Sennilega er best að byrja á því að æfa sig svolítið. Ég hef nú ekki mikið að segja en það hindrar mig ekkert í þessu. Get nefnilega skrifað um hvað sem ég vil. Vil bara skrifa.

Einu sinni fyrir óralöngu var maður einn hér á Íslandi sem Guttormur hét. Ekki er almennilega vitað hvers son hann var, en á sínum tíma fæddist hann að sjálfsögðu. Það var semsagt áður en hann lagðist í flakk. Móðir hans, sem var vinnukona á bæ þeim í Hópi sem Moldbrekka hét var fákunnandi mjög og talin smáskrítin. Hún kenndi krógann Sigurði nokkrum, sem var vinnumaður í sveitinni. Almannarómur var samt sá að óléttan væri bóndanum á bænum að kenna. Hann hét Skúli og var Einarsson. Hvort heldur sem Guttormur þessi var Sigurðsson eða Skúlason var svo komið fyrir honum um þrítugsaldurinn að hann var orðinn með þekktustu umrenningum á landinu.

Þar er fyrst til að taka að Guttormur þessi var þekktur fyrir að girða niður um sig og sýna á sér tittlinginn. Einkum hylltist hann til að gera þetta fyrir framan stelpukrakka sem sumar að minnsta kosti höfðu aldrei á æfinni mannstittling séð. Eins og allir vita eru mannstittlingar allt öðruvísi en barnstittlingar. Bæði stærri og loðnari. Tala nú ekki um ef þeir eru vel stífir og stórir. En þetta átti nú ekki að verða neim klámsaga svo það er best að hættta hér.

Útaf þessu voru menn dálítið á varðbergi gagnvart Guttormi. Þó nú sé vaninn að stinga svona afbrigðilegum mönnum í Steininn var ekki gerður mikill reki að því á þessum tíma. Enda Steinarnir fáir og umsetnir.

Annað sem Guttormur var þekktur fyrir var að hann kunni að dúlla. Gvendur Dúllari var nefnilega ekki sá einu sem kunni þessa list. Guttormur dúllari gerði þetta aldrei á mannamótum, heldur dúllaði hann aðallega í einrúmi. Menn höfðu þó fyrir satt að hann dúllaði jafnvel betur en Gvendur Dúllari. Stundum heyrðist dúllið í honum þegar hann nálgaðist bæina og brugðu bændur þá gjarnan á það ráð að loka stelpukrakka inni svo þær spilltust síður af tittlingnum stóra.

Það þriðja sem Guttormur þessi var frægur fyrir var að hann þvoði sér aldrei og var þar að auki nauðasköllóttur á höfðinu. Þetta gerði hann ókræsilegan nokkuð, en hann lét sér það í léttu rúmi liggja. Gvendur Dúllari var með hár niður á herðar og þessvegna þekktust þeim mætavel í sundur. Jafnvel að þeim sem ekki gerðu nokkurn greinarmun á dúllinu.

Þessi inngangur er orðinn nokkuð langur, en þó ekki of langur því ekki er mikið að segja af Guttormi þessum, sem lést langt um aldur fram og var einn af síðustu umrenningunum á landi hér. Af þeim er annars löng og merkileg saga sem ekki verður sögð hér.

IMG 4273Einhver mynd.


3101 - Fimbulfamb

Er að hugsa um að setja þessi ósköp á bloggið mitt. Fann þetta á tölvunni hjá mér. Sennilega hef ég einhverntíma verið að hugsa um að blogga svona. Hef samt ekki hugmynd um hvenær þetta er skrifað. Ætli það sé ekki bættur skaðinn. Þetta eru ekki merkileg skrif. Læt þetta samt flakka og lofa að skrifa eitthvað bitastæðara næst.

Ég man vel eftir því þegar ég stóð á einni tá í fyrsta sinn. Því miður var það ekki mín eigin tá því þá hefði ég fundið til. Einhvern vegin hafði ég þó komist upp á þess tá. Nú veit ég, þetta var tá á stórri styttu og ég stóð uppá henni og komst ekki lengra. Kannski verður þetta saga og kannski ekki. Ég hef ekki hugmynd um það. Skrifa bara jafnóðum það sem mér dettur í hug. Ég sem var nýbúinn að taka til í bakhöfðinu. Ótrúlegur andskoti að ég skyldi lenda í þessu. Ekki hefði mig grunað það þegar ég kíkti ofan í líkkistuna. En svona er þetta. Enginn veit sína ævina fyrr en öll er. Og nú er ég semsagt dauður. Hvað skyldi koma næst? Alveg er ég viss um að enginn mun trúa mér þegar ég fer að segja frá þessu.

Svona get ég fimbulfambað endalaust. Spurningin er bara hvort nokkur nennir að lesa það. „Minningar með morgunkaffinu“ eru miklu skárri en þetta. Samt eru það eflaust fáir sem nenna að lesa svona minningar nema þeir tengist atburðunum með einhverjum hætti. Hveragerði er örugglega betra en Garðsauki hvað það snertir. Gæti samt skrifað miklu meira um Garðsauka og geri kannski í næsta bloggi eða svo.

Stundum ligg ég á því lúalagi að fimbulfamba fjandann ráðalausan í byrjun bloggs. Á þessu sem hér fer á eftir er hvorki upphaf né endir.

Kannski væri best að byrja samt á byrjuninni. Þetta með tána er engin vitleysa. Ég get svo guðsvarið það að þessi eina tá var á við margar venjulegar.

Svo kom í ljós að geirfuglinn hafði jafn mikið vænghaf og Geir sjálfur. Það var svosem engin furða, því veðrið fór ört kólnandi. Enginn nennti lengur að spila matador enda voru  peningarnir greinilega falsaðir.

Þetta með geirfuglinn er heldur ekki nein lygi. Þó geirfuglar geti ekki flogið þá geta þeir haft heilmikið vænghaf. Þeir eru heldur ekki útdauðir ef mann dreymir þá.

Svo komu bankaræningjarnir þjótandi með byssurnar spenntar og hrópuðu: „Við tökum enga fanga. Athugið það. Alls enga fanga.“ En það var of seint því Jórsalafarinn var kominn í keng. Honum var svo mikið mál að pissa.

Þegar kemur að bankaræningjunum versnar málið. Ég veit eiginlega ekkert hvað er á seyði. Þekki líka fáa Jórsalafara. Þarna er víst um að ræða Jerúsalem og kannski er hægt að kalla alla sem þangað hafa komið Jórsalafara.

Nú er ég kominn á grafarbakkann svo það er eiginlega ekki seinna vænna að byrja á ævisögunni. Verst ef mér tekst ekki að klára hana.

IMG 4275Einhver mynd.

 


3100 - Kvikmyndir o.fl.

Þetta blogg virðist vera númer þrjú þúsund og eitt hundrað. Kannski ég fari að hætta þessum ósköpum. Það er varla nokkrum bjóðandi að pæla í gegnum þetta allt. Að minnsta kosti treysti ég mér ekki til þess. Hvað skyldi ég annars einkum hafa skrifað um? Gaman væri að vita það. Mest finnst mér að ég hafi skrifað um alþjóðamál. Tilgangurinn hefur sennilega verið að sýnast voða gáfaður. A.m.k. hef ég ekki verið að fræða lesendur mikið. Í mesta lagi að ég hafi vakið einhvern sagnfræðilega áhuga hjá þeim sumum hverjum.

Þegar ég fór í hjartaþræðingu á Landsspítalanum í síðustu viku, var mér skipað að taka af mér giftingarhringinn. Þessari ósvinnu hafði ég ekki orðið fyrir í marga áratugi. Sennilega bara alveg síðan ég gifti mig. Mér tókst þetta samt eftir talsverða fyrirhöfn með kremi og sápu sem mér var útvegað á staðnum. Þræðingin sjálf gekk vandræðalaust fyrir sig og þar sem ég mátti ekki keyra var ég ferjaður til og frá Akranesi.

Fyrir all-löngu sá myndina „Afinn“ með Sigurð Sigurjónsson í aðalhlutverki. Þessi mynd var sæmilega góð. Vel leikin að minnsta kosti. Áður fyrr á árunum var það mjög til siðs hjá mér og sennilega mörgum öðrum að sjá allar íslenskar kvikmyndir. Til dæmis sá ég á sínum tíma bæði „Síðasta bæinn í dalnum“ og „Reykjavíkurævintýri Bakkabræðra“ ásamt „Nýju hlutverki“. Í seinni tíð er ég alveg hættur þessu og læt nægja að horfa á íslenskar kvikmyndir, (sem eru ótrúlega margar) í sjónvarpinu. Það er að segja oftast nær og ef þær eru sýndar á kristilegum tíma. Held ég hafi hætt þessu um það leyti sem kvikmyndin „Húsið“ var auglýst sem mest. Sú mynd fannst mér ekki hafa nokkurn tilgang. Íslenskar sjónvarpsseríur finnst mér fremur lélegar. Til dæmis treysti ég mér ómögulega til að horfa á „Kötlu“ til loka. Það var nú ljóta hringavitleysan.

IMG 4298Einhver mynd.


3099 - Gengilbeinur aflagðar

Næsta stig í sjáfvirkni (eftir pokasvæðið alræmda) verður liklega að gengilbeinur verða með öllu aflagðar og þjónar jafnvel líka. Reyndar hefur það lengi tíðkast á ódýrari veitingastöðum að láta viðskiptavinina (les: þrælana) ná í matinn sinn sjálfir og borga hann jafnvel fyrirfram. Hvers vegna skyldu aðrir veitingastaðir ekki taka upp á þessu sama. Er nokkur hemja að vera að borga þeim laun sem gera lítið.

Las um daginn söguna Kórvilla á Vestfjörðum sem ku vera eftir Halldór Kiljan Laxness. Sennilega hef ég lesið hana fyrir ævatöngu, en ekki skilið hana almennilega þá. Satt að segja er þessi saga algjör snilld og hægt að segja að hann lýsi vel ruglinu í gamalli kerlingu. Það er engin tilviljun að hún skuli vera eftir sjálft Nóbelsskáldið. Hef löngum haft horn í síðu Halldórs Laxness. Það er að segja mér hefur fundist stóru skáldsögurnar hans virkilega góðar en það sem hann hefur skrifað eftir Brekkukotsannál vera óttalegt bull og sjálfsupphafning. Einkum hefur mér fundist leikritin hans afspyrnu léleg. Og kristihald undir Jökli mestan part óttalegt bull.

Hver er munurinn á Sunni og Shia? Þessu hef ég velt fyrir mér dálítið að undanförnu án þess að komast að niðurstöðu. Mín helsta niðurstaða er sú að þegar trúarbrögð (tala nú ekki um öfgafull trúarbrögð) hafa mikil áhrif á stjónarfar séu þau alltaf til bölvunar. Alveg sama hvort um er að ræða Sunni, Shia, Kaþólsku eða Mótmælendatrú. Best hlýtur að vera að láta iðkendur trúarbragða sem mest í friði. Að minnsta kosti meðan þeir drepa ekki hvern annan.

IMG 4324Einhver mynd.


3098 - USA og EBE

Ég er stuðningsmaður aðildar Íslands að Efnahagsbandalagi Evrópu. Andstæðingar þeirrar aðildar hafa mikið að segja um ættjarðarást og þessháttar, sem ég er að mestu leyti ósammála.

Í þessu stutta bloggi ætla ég samt ekki að gera það að umtalsefni, heldur ætla ég að gera, að gefnu tilefni samanburð á Bandaríkjum Norður-Ameríku og Efnahagsbandalaginu hvað sumt annað áhrærir eins og það kemur mér fyrir sjónir nákvæmlega í dag.

Andstæðingar aðildar hafa mjög haldið því á lofti að Efnahagsbandalagið stefni ákveðið að stórríki og stórveldi á sama eða svipaðan hátt og tíðkast í Bandaríkjunum. Þetta er rangt eins og ég mun leitast við að sýna hér á eftir.

Þó löggjöf ríkja í USA varðandi þungunarrof eða fóstureyðingarmál og ýmislegt fleira sé ákaflega mismunandi í þar og í Efnahagsbandalaginu er ekki þar með sagt að þau stefni að samskonar markmiðum.

Utanríkismál eru alfarið á könnu alríkissjórnarinnar i USA, auk þess sem sameiginleg lögregla þar er afar valdamikil. Sömuleiðis er Hæstiréttur Bandaríkjanna æðri öðrum dómstólum þar. Svo er ekki í EBE.

Þá er ég kominn að því efni sem einkum aðskilur Efnahagsbandalagið og USA, en það eru ákvæðin um úrsögn. Í USA geta ríkin yfirleitt allsekki sagt skilið við alríkið og er Þrælastriðið sem sumir nefna svo, en aðrir allt annað, gleggsta dæmið um slíkt. Brexit sem svo hefur verið kallað og flestir eru orðnir hundleiðir á, sannar svo ekki verður um villst að þessu er ekki eins varið í Efnahagsbandalaginu. Sameiginlegt tungumál gerir þennan mismun eðlilegan í USA en miklu síður í Evrópu.

IMG 4331Einhver mynd.


3097 - Kosningar

Í dag telst mér til að sextíu og þrjú á séu síðan Íslendinar færðu landhelgi sína út í tólf mílur. (Af hverju er miðað við mílur en ekki kílómetra?) Ég hef væntanlega verið sextán ára gamall þá. Man eftir að þegar þetta var, þá var ég að vinna hjá Gunnari í Álfafelli. Var sennilega að þvo kalkskyggingu af heima- og elstu gróðurhúsablokkinni hjá honum. Eftirminnilegur dagur. Íslendingar æstir úr hófi fram og miklir Bretaandstæðingar.

Þó ég muni eftir ýmsu úr landhelgisstríðunum er ekki ástæða til að fjölyrða um það hér og nú. Knattspyrna sem alltaf var kölluð fótbolti í denn, virðist vera mál málanna nú um þessar mundir. Mér finnst fótboltinn ekki einu sinni vera merkilegasta íþróttin á Íslandi. Útbreidd er hún að vísu. Því er ekki nokkur leið að mótmæla.

Fylgdist svolítið með stjórnmálaumræðunum í gærkvöldi. Finnst leiðtogar flokkanna forðast of mikil að tala um vinstri og hægri stefnur í þessu sambandi. Margir kjósa í samræmi við þau stefnumál. Of mikil einföldum felst í því að gera ráð fyrir að þeir merkimiðar tákni eingöngu mikil eða lítil ríkisafskipti. Margt fleira getur falist í þessum stefnuskilgreiningum. Kjósendur gerðu kannski réttast í því að skilgreina með sjálfum sér hvort stefna tiltekinna flokka er meira hægri eða vinstri sinnuð. Talsmenn þeirra vita það greinilega ekki og kjósendur upp og ofan hafa mun meira vit á þessu en þeir.

Sjálfur hneigist ég meira til vinstri, að því er mér finnst, og mun meðal annars líklega kjósa Píratana þess vegna. – Já, en þeir eru ekki vitund vinstri sinnaðir kynni einhver að segja. Því er til að svara að hver og einn ætti að ákveða hvort honum finnst flokkur vera hægri eða vinstri-sinnaður. Jafvel er hægt að ímynda sér að einhverjir álíti Sjálfstæðisflokkinn vinstri sinnaðan.

IMG 4337Einhver mynd.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband