Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2017

2638 - Trump-blæti

Sennilega er ég með einskonar Trump-blæti. Jafnvel er ég ekki einn um það. Að einu leyti er ég hugsanlega líkur honum. Hann er eins og kunnugt er Twitter-óður. Lætur allt flakka í Twitter-færslum sínum og leitast við að koma hugsun sinni á framfæri í sem fæstum orðum. Aftur á móti er ég sennilega Moggabloggs-óður og vil gjarnan líka koma hugsun minni á framfæri í sem fæstum orðum. Það hef ég lært af Jónasi Kristjánssyni og Páli Vilhjálmssyni. Sennilega er Trump líka á aldur við mig, en það finnst mér ekki skipta máli. Tölur og dagsetningar hafa aldrei verið mín sterka hlið. Minnið er líka ákaflega „selektíft“.

Ekki fer hjá því að margir hafi tekið eftir því að Trump hefur ánægju af því að reka eða segja fólki og samtökum upp. Stórblaðið Washington Post hefur stungið uppá því að hann segi Repúblikanaflokknum bara upp og bjóði sig fram utanflokka árið 2020. Með því mundi hann áreiðanlega lama eða ganga frá Repúblikanaflokknum. Og það sem kannski er verra frá hans sjónarmiði a.m.k.; hann mundi með því næstum tryggja Demókrötum sigur. Annars er Trump mesta ólíkindatól og erfitt að spá svona langt fram í tímann.

Þó McGregor hafi staðið sig betur en sumir áttu von á í bardaganum við Mayweather og hann gæti jafnvel átt talsverða framtíð fyrir sér í hnefaleikageiranum er ekki víst að hann eigi eftir að berjast aftur. A.m.k. er ekki líklegt að hann fari hefðbundnar leiðir í vali sínu á mótherjum. Þó hann hafi með tapi sínu komið svolitlu óorði á MMA-íþróttina, ef íþrótt skyldi kalla, virðist hún vera á góðri leið með að verða vinsælli en hnefaleikarnir. Mest held ég að það sé vegna þess að öll stjórnun þar virðist vera betur heppnuð og áhorfendur betur með á nótunum. Auk þess er hún blóðugri og átakameiri en boxið. Hnefaleikarnir hafa liðið fyrir það að þar eru alltof mörg sambönd og margir meistarar. Meiðslahættuna skulum við svo ekkert tala um. Sjálfshól og hávaði McGregors hefur sannarlega ekki hjálpað MMA eða UFC.

Á sínum tíma var ég Guðslifandi feginn þegar setan var afnumin. Ég átti nefnilega bágt með að tileinka mér z-reglurnar. Og í stafsetningarprófum var leitast við að leggja sjaldgæfar gildrur fyrir próftaka. Aftur á móti átti ég í litlum vandræðum með að skilja vel og tileinka mér y-reglur. Mín vegna mætti þó alveg afnema ypsilonið, en skelfing held ég að mér mundi þykja vel rituð íslenska ankannaleg ef svo væri gert. Greinarmerki, litla og stóra stafi, eitt eða tvö orð og ýmislegt þessháttar hef ég stundum átt í erfiðleikum með. Oftast er þó auðvelt að komast framhjá þess háttar hlutum. Sumir vilja láta framburð alveg ráða stafsetningu en það finnst mér of langt gengið.

Sennilega hef ég ekkert skrifað um uppreisn æru í lagalegum skilningi. Og heldur ekki um alþingismenn sem nenna ekki að sitja þar. Hvað æruna snertir finnst mér vel koma til greina að afnema öll ákvæði í lögum varðandi slíkt. Leyndarhjúpur sá sem umlukið hefur þessi mál er óásættanlegur. Þetta með að alþingismenn geti prófað í stuttan tíma hvernig það er að vera á þingi finnst mér líka óásættanlegt. Þá eru það líklega bara flóðin í Texas og hryðjuverkastarfsemi sem ég á eftir að skrifa um af því sem efst er á baugi núna.

IMG 1117Einhver mynd.


2637 - Arpaio, Mayweather og Harvey

Leiða má líkur að því að Trump Bandaríkjaforseti hafi viljað nota tækifærið þegar hugsanlegt var að fólk tæki síður eftir náðuninni á Arpaio vegna fellbylsins, helgarinnar og boxbardagans. A.m.k. flýtti hann sér í felur og montaði sig ekkert af þessu síðasta afsreksverki sínu.

Minna varð úr fellibylnum en útlit var fyrir og boxbardaginn fór nokkurnvegin eins og flestir höfðu spáð. Alveg er það samt furðulegt að hægt skuli vera að auglýsa þriðja eða fimmta flokks boxbardaga svona upp og að eins miklir peningar, og virðist vera, hafi verið í spilinu.

Auðvitað eru kjósendur í Bandaríkjunum af ýmsu sauðahúsi og allavega á litinn. Hafa alist upp á mismunandi hátt. Sumir hafa meira að segja upphaflega komið á ólöglegan hátt til landsins. Um það þarf ekki að fjölyrða. Á undan hvítu þjóðernissinnunum í Suðurríkjunum voru þar Rauðskinnar eða Indjánar er manni fortalið. Vandséð er hverjir hafa mestan rétt til að vera þar.

Trump forseti eykur eftir mætti óvild milli hópa. Kennir fjölmiðlum um flest sem aflaga fer. Mér finnst þó alvarlegast að þetta mun á endanum verða til þess að Bandaríkin einangrast. Þannig fer illa fyrir öllum eða langflestum „þúsundáraríkjum“. Þannig fór fyrir Rómverjum. Þannig fór fyrir Hitlers-Þýskalandi. Þannig fór fyrir Sovétríkjunum sálugu o.s.frv. Á ýmsan hátt er samt sá suðupottur ólíkra hópa, sem Bandaríkin óneitanlega eru, ólíkur hinum, en örlögin geta orðið svipuð.

Forðum daga var manni kennt að skilningarvitin væru fimm: Sjón, heyrn, ilman, smekkur og tilfinning var romsan sem maður lærði í skóla. Sennilega eru skilningarvitin miklu fleiri en þetta. Í málinu er samt talað um sjötta skilningarvitið og fáir eða engir hafa skilgreint það að nokkru gagni. Fróðlegt er að fylgjast með því hjá dýrum, hve skilningarvitin fimm hafa þróast misjafnlega hjá þeim. Hegðun þeirra er oftast hægt að skýra með skilningarvitunum fimm, en allsekki alltaf. Sumt í hegðun þeirra er alls ekki á mannlegu valdi að skýra til fullnustu.

Um daginn sá ég einhversstaðar að reynt væri að fá Palla Magg til að bjóða sig fram í leiðtogahlutverkið hjá Sjálfstæðisflokknum í borgarstjórnarkosningum á næsta ári. Ég kannast svolítið við Pál Magnússon frá því að ég vann uppá Stöð 2. Á margan hátt er hann mannasættir og gæti plumað sig ágætlega sem leiðtogi Sjálfstæðismanna. Hélt reyndar lengi vel að hann væri krati, eins og pabbi hans var, en hann kaus að fara í framboð fyrir Sjálfstæðisflokkinn og er ekkert verri fyrir það. Kannski er hann þó fullmikil gufa og aðsópslítill til þess að verða leiðtogi í Sjálfgræðisflokknum. Á hinum endanum finnst mér Brynjar Nielsson vera þó hann tilheyri sama flokki. Hann beinlínis gerir í því að æsa menn upp. Þykist auk þess vera afskaplega fyndinn.

IMG 1130Einhver mynd.


2636 - Druslur o.fl.

Ég vildi að sjórinn yrði að mjólk,
og undirdjúp að skyri. (framb. skeri),
Fjöll og hálsar flot og tólg. (framb. tólk),
Frón að kúasmjeri.
Uppfyllist óskin mín.
Öll vötn í brennivín.
Holland að heitum graut.
Helvíti gamalt naut.
Og Grikkland að grárri meri.

Áður fyrr. Í eldgamla daga. Semsagt fyrir mitt minni, og jafnvel löngu fyrr, sungu menn sálma í kirkjum og þurftu þessvegna að æfa sig í sálmalögum. Ekki þótti við hæfi að syngja sálmana sjálfa hvar sem er og því voru oft samdir textar um veraldleg og stundum óskáldleg efni til að syngja við sálmalögin. Þessar vísur voru oftast kallaðar druslur og samsetningurinn hér að ofan er af því tagi. Amma eða mamma hafa sennilega kennt mér þessa vísu þegar ég var lítill. Og svo heyrði ég farið með hana í útvarpinu um daginn og þá rifjaðist hún upp fyrir mér. Önnur drusla er einhvern vegin svona:

Framandi kom ég fyrst að Grund
fallegur er sá staður
stóð þar úti, þýður í lund
Jón bóndi, berrassaður,
hann bauð mér inn til sín
og gaf mér brennivín
hann sýndi mér dæturnar
þær glenntu út fæturnar,
líkaminn gjörðist graður.

Man eftir því að m.a. Baldur Óskarsson bekkjarfélagi minn að Bifröst og margir fleiri sungu þetta með mikilli tilfinningu ef farið var í rútu. Einkum man ég vel eftir fyrri hluta þessarar druslu.

 

Fyrir einhverja slysni hlustaði ég á útsendingu í útvarpinu um daginn þar sem þeir Sigurjón Kjartansson og Jón Gnarr voru að tala saman. Mér fannst það satt að segja endemis kjaftavaðall, en vonandi hafa einhverjir samt haft gaman af því. Mér fannst það ekki einu sinni fyndið. Mér finnst það áberandi að það séu kallaðir þættir í útvarpinu þó ekki sé gert annað en spila plötur og kjafta svolítið inn á milli. Í hæsta lagi að einhverju rusli sem aðallega eru aðgöngumiðar eða happdrættismiðar sé dreift á þá sem hringja inn. Auðvitað eru á þessu undantekningar og menn eru misjafnir. Svei mér ef innhringiþættirnir á útvarpi Sögu eru ekki skárri en sumt af þessu. Þar hafa menn þó skoðanir þó ekki sé annað.

 

Það er þetta með stytturnar. Hvítir þjóðernissinnar, Ku Klux Klanarar, Nýnasistar og annar óþjóðalýður virðist vera allfjölmennur hópur innan Bandaríkjanna og nær undantekningalaust kusu þeir Tromparann í síðustu forsetakosningum. Stytturnar minna á þrælastríðið sem Suðurríkjamenn töpuðu og þessvegna er svona mikill hávaði í kringum Trump. Sennilega kusu hann allmargir aðrir, því hann náði því að verða frambjóðandi Repúblikanaflokksins. Á margan hátt hefur hann skerpt áherslur og valdið mikilli úlfúð innan ríkjasambandsins því borgarastyrjöldin, sem lauk fyrir meira en hundraðogfimmtíu árum, situr enn í fólki. Það var síðan ekki fyrr en eftir miðja síðustu öld sem blökkumenn náðu lagalegum réttindum að fullu þar og enn er víða litið niður á fólk sem ekki er hvítt.

2012 07 26 17.35.03Einhver mynd.


2635 - Stjórnmál

Eiginlega ætti alveg að vera hægt að blogga fjandann ráðalausan án þess að minnast á pólitík, hvað þá flokkspólitík. Samt er það svo að öll mál má gera pólitísk. Þar að auki hef ég a.m.k. um þessar mundir mikinn áhuga á bandarískri pólitík. Sérstaklega þó ýmsu sem snertir Trump hinn ógurlega. Auk þess á ég auðvelt með að telja sjálfum mér trú um að stjórnmál séu mikilvægustu mál allra tíma. Hversvegna það er á ég ekki gott með að útskýra. Þannig er það bara.

Ýmislegt sem snertir nýjustu tækni, bókmenntir, sagnfræði, fréttir, heimspeki, listir, verslun, skák, íþróttir og ýmislegt annað getur samt hæglega vakið áhuga minn, en það er samt í minna mæli en oft áður og á tónlist hef ég engan áhuga. Þessi áhugi minn á heimsstjórnmálum og þó sérlega bandarískum er ekki nýtilkominn. Man eftir því að á tímabili var ég áskrifandi að „Time“ og hugsaði mikið um þessi mál. Íslensk stjórnmál hafa aldrei vakið áhuga minn á sama hátt. Helst af öllu vil ég sjá fyrir viðbrögð stjórnmálamanna og spá fyrir, með sjálfum mér, um þróun allskonar.

Ekki er þessi áhugi minn til vinsælda fallinn. Vinsældir nútildags hjá blaðamönnum og bloggurum allskonar koma einkum til ef menn eru nægilega stórorðir eða deila einkum því sem til vinsælda er fallið á fésbókarfjáranum. Séranir allskonar og læk finnst mér helsti gallinn á fésbókinni auk sífelldra breytinga. Þó er það um leið einn af helstu kostum hennar og með sérunum fær maður oft að vita um hluti sem annars færu framhjá manni. Stjórnmálaafskipti hverskonar leiða oft til nokkurra vinsælda. Einkum framboða allskonar. Sennilega er stærra hlutfall þjóðarinnar íslensku í framboði fyrir hina ýmsu flokka en gerist og gengur. Kannski eigum við Íslendingar enn eitt heimsmetið þar. Annað heimsmetið gæti verið í fjölda flokka. Allt er þetta miðað við fólksfjölda enda getum við sökum mannfæðar varla sett önnur heimsmet.

Kannski er ég með betri bloggurum hér á Íslandi í mínum aldursflokki. A.m.k. vex kíkjendafjöldi verulega hjá mér ef ég skrifa einhverja bölvaða dellu á vefinn hérna. Aldrei skipta þeir samt þúsundum sem leggjast svo lágt að lesa það sem ég skrifa. Ánægður er ég samt með mitt hlutskipti á þessum markaði. Ég tel mig hafa fundið upp þá aðferð að númera í áframhaldandi röð mín blogginnlegg og hef haldið því lengi áfram hér á Moggablogginu. Aðrir bloggarar eru sífellt að skipta um vettvang, en ekki hann ég. Auðvitað er þetta íhaldssemi og kannski eitthvað þaðan af verra, en ég er bara svona.

Af hverju eru allir hægri sinnar Breivikar og allir vinstri sinnar Múhameðstrúar? Ég bara spyr. Á vissan hátt er þetta flokkapólitíkin í dag. Ef þú samþykkir ekki allt sem ég segi ertu á móti mér. Og svo blandast trúmál og siðir í þetta á ófyrirséðan hátt. Best væri að vera laus við þetta alltsaman.

IMG 1285Einhver mynd.


2634 - Antifa

Eiginlega er dálitið erfitt að blogga núna án þess að minnast á Barcelona. Bergur Ebbi hefur þó sagt nóg um það mál fyrir mína parta í Fréttablaðinu í dag. Það hræðilega mál er varla hægt að minnast ógrátandi á.

Hvað er antifa? Veit það ekki nákvæmlega. Held að það séu einhverskonar samtök. Þó ekki skipulögð. Íslenska orðið sem e.t.v. nær þessu nokkurnvegin er „aðgerðarsinni“. Einkum eru það hægrisinnar sem nota þetta og kalla flesta sem þeim er illa við „antifa“. Held að það sé myndað úr orðunum anti og fascist. Semsagt einskonar andfasisti. Líklega er það mest notað í Bandaríkjunum. Kannski það sé það sem Trump kallar alt-left. Ekki eru allir þjóðernissinnar rasistar og ekki eru allir alþjóðasinnar antifa. Flestir alþjóðasinnar held ég aftur á móti að séu vinstrisinnar. Kannski væri réttara að kalla þessar andstæðu fylkingar einangrunarsinna og opingáttarmenn. Hægrimenn virðast flestir vera þjóðernissinnar og opingáttarmenn rekast illa í stjórnmálaflokkum. En nú er ég kominn út í pólitískar útskýringar og þar er ég ekki nógu sleipur.

Í USA er allt að verða vitlaust útaf einhverri styttu sem átti að taka niður. Hér á ísa köldu landi er aftur á móti rifist af miklum móð útaf einhverjum vegg sem var málaður. Er þetta sambærilegt? Kannski. Ríkisstjórnin eða a.m.k. BB er alltaf að reynda að líkjast stóra frænda fyrir vestan. Við erum samt, hvað mannfjölda snertir, aðeins um þúsundasti partur af  bandaríska ríkjasambandinu.

Forystumenn Sjálfstæðisflokksins virðast álíta eða hafa álitið hingað til að þeir ættu meira sameiginlegt með Repúblikönum í Bandaríkjunum en Demókrötum. Svo er samt alls ekki. Samanborið við Evrópu eru Bandaríkjamenn til hægri við næstum allt í pólitík. Nasistar eru kannski til hægri við þá í sumu.

OK, Trump er a.m.k. mjög umdeildur forseti. Hvort það sé rétt að kalla hann öfgasinna eða jafnvel rasista leyfi ég öðrum að dæma um. Hægri sinnaður er hann. Á því er enginn vafi. Og kannski selebritysinnaður. Úr því að Trump gat unnið Hillary hefði sennilega hvaða repúblikani sem er getað það. Ekki var hægt að hrófla við henni frá vinstri. Það reyndi Sanders. Forseta Bandaríkjanna verður ekki komið frá nema með málsókn. Það tókst með Nixon, en mistókst með Clinton. Kannski verður það reynt núna. Efast samt um það.

Mér er sagt að Trump Bandaríkjaforseti sé að verða um það bil jafnóvinsæll í skoðanakönnunum og íslenska ríkisstjórnin. Er þá langt til jafnað. Held samt að pokinn margfrægi verði kyrr á sínum stað. Altsvo að enginn taki hann.

Verðlag á knattspyrnumönnum er hlægilegt og laun þeirra jafnvel líka. Annars eru þetta bara tölur á blaði og á meðan sauðheimskur almúginn heldur áfram að álíta fótbolta mikilvægari en allt annað þá er ástæðulaust að búast við breytingu. „Brauð og leika“ sögðu Rómverjar forðum og höfðu sennilega rétt fyrir sér. Hér hættum við antisportistar, en á Bifröst forðum var ég talinn til þeirra.

2012 08 03 13.41.57Einhver mynd.


2633 - Veipvöllurinn og annar óþarfi

Yfiburðir hvíta kynstofnsins sem Páll Vilhjálmsson segir að séu sennilega umdeilanlegir eru ekki bara það heldur að mestu eða öllu leyti ímyndaðir.

Einhver var að spyrja eftir Trump og þá var hann bara spurður hvort hann vildi ekki tala við Bannon sjálfan. Trump þótti þetta ekkert fyndið og sennilega rekur hann Bannon fljótlega fyrir að skyggja á sig.

Nasistar, fasistar, rasistar, kommúnistar, öfgamenn allskonar, kynþátthatarar, aðskilnaðarsinnar o.s.frv. styðja Trump og hann er kannski ekkert verri fyrir það. Slíkir eru samt hugsanlega fjölmennir í Bandaríkjunum ekki síður en annarsstaðar og núverandi forseti þar um slóðir fúlsar ekki við atkvæðum þeirra. Gætir þess jafnvel að styggja þá ekki um of.

Stundum bera bakþankarnir í Fréttablaðinu þess greinilega merki að blaðamenn eru meira og minna skikkaðir til að skrifa þá. Semsagt að mestu marklausir. Í blaðinu í dag (mánudag) er talað um Veipvöllinn og þeir þankar eru alls ekki marklausir, finnst mér. Sennilega er veipið svar tóbaksframleiðanda við þeirri almennu skoðun að reykingar séu hættlegar heilsu fólks. Til að tryggja að veiparar ánetjist tóbaki reyna þeir að ná til unglinganna á sem hættulausastan hátt. Nikótínið og reyndar koffínið og sykurinn einnig eru eiturlyf og þau ber að varast. Varðandi veipið og nikótínið er kannski rétt að það drepur ekki, en veldur vana sem getur orðið erfitt að losna við. Sjálfsagt er samt fyrir stórrekingamenn að nota veipið til að hjálpa sér til að hætta, ef þeir vilja það.

Á vissan hátt er það galli að geta ekki eða vilja ekki setja þessar hugleiðingar á fésbókina, því hraðinn á öllum samskiptum manna er orðinn slíkur að best er að láta hugsanir sínar sem fyrst frá sér. Kannski verða þær orðnar úreltar eftir örfáa klukkutíma. Þ.e.a.s ef þær fjalla um pólitík eins þær gera stundum frá mér.

2012 08 03 13.50.17Einhver mynd.


2632 - Geltandi hundar bíta ekki

Þrátt fyrir hávaðann í Trump forseta Bandaríkjanna og einræðisherranum í Norður-Kóreu eru líkindin á stríði þar fremur lítil. Þó vill Trump, ekki síður en hinn vitleysingurinn, öllu ráða ef hann mögulega getur. Bandaríkin eru bara alls ekki tilbúin til að fara í stríð á þessu slóðum. Þessvegna held ég að ekki verði af neinum aðgerðum að þessu sinni. Það breytir þó engu um það að ástandið þarna er afar eldfimt. Líkurnar á því að stríð brjótist út, þó engir vilji það í raun og veru, eru þónokkrar. Að fara í nýtt Kóreustríð þegar stríðinu í Sýrlandi er hugsanlega um það bil að ljúka er ekki sniðugt. Læt ég svo útrætt um Trump & Co. að sinni. Kannski er ástandið í Venezúela það hættulegasta um þessar mundir.

Vignir, Bjössi og Sigrún komu í heimsókn í gær og ég held að sú heimsókn hafi heppnast ágætlega. Gaman að ræða við þau. Takk, takk.

Einhverra hluta vegna er commentum að fjölga hjá mér hér á blogginu. Kannski eru sumir að verða leiðir á fésbókarfjáranum, sem á það til að vera hundleiðinlegur og snúa sér þessvegna aftur að Moggablogginu. Áreiðanlega eru ekki margir búnir að vera hér lengur en ég. Er að því leyti orðinn einhverfulegri með aldrinum, að ég hata allar breytingar. Var það ekki Þorsteinn Antonsson rithöfundur sem greindi sjálfan sig með Asberger-heilkenni? Hef alltaf haldið að einhverfa og Asberger væru náskyld. Og flestir væru með einhver vott af einhverfu. A.m.k. þeir sem eru „introvert“ eins og ég. Annars er fésbókin svosem ágæt. Fer alltaf þangað fyrst af öllu ef ég á annað borð sinni tölvuskrattanum eitthvað. Skil samt ekki nærri allt sem þar fer fram. Sumt af því er áreiðalega mesta vitleysa. Jafnvel verra en þetta þvaður i mér.

Mér finnst ég ekki geta sett þetta á bloggið mitt nema lengja það aðeins. Nú man ég að ég ætlaði samt fyrst að athuga hver margir hafa slysast inn á þetta blogg síðan í gær. Þeir voru 34.

Air Iceland Connect og airicelandconnect.is/umsokn. Eru virkilega einhverjir sem efast ennþá um hvað þetta er miklu fallegra og hljómmeira en hið útjaskaða og forníslenska eða jafnvel norskættaða Flugfélag Íslands? Já, ég bara spyr. Núna rétt áðan sá ég heilsíðuauglýsingu frá þessu þjóðþrifafyrirtæki. Dettur einhverjum í hug að tapfélagið og gamaldags höndlunarfyrirtækið Flugfélag Íslands mundi tíma slíku. Ekki mér a.m.k. Þessi síðasta klásúla er hugsuð í öfugmælastíl. Eins og t.d. „Fiskurinn hefur fjögur hljóð“.  J

IMG 1360Einhver mynd.


2631 - Stríðsógnin

Kannski er stríðsógnin meiri núna en oft áður. Afstaða Trumps til þessara mála er svolítið barnaleg. Hvað er það sem Kim einræðisherra í Norður-Kóreu raunverulega vill? Held að hann vilji umfram allt halda völdum sínum og koma þjóðinni í kjarnorkuklúbbinn. Held að Bandaríkjamenn og Suður-Kóreumenn, eða stjórnendur þar, vilji einkum koma í veg fyrir útbreitt stríð og halda völdum sínum.

Auðvitað snýst þetta líka um hugmyndafræði. Viljum við opið eða lokað samféleg? Kannski snýst þetta ekki aðallega um kapítalisma og sósíalisma. Ef einhvern tíma tekst að komast í samband við viti gæddar verur annarsstaðar í alheiminum kemur alveg ný vídd í málið. Annars eru hnattræn stjórnmál svo flókin að mannlegur skilningur nær því ekki. Þó er hugsanlegt að skoðanir fólks stjórnist af sáraeinföldum sannindum. Það er bara að finna þau.

Charmaine, mamma hennar Tinnu, komst í fréttirnar um daginn í „Stundinni“. Ekki er samt við hæfi að ég tjái mig um þau mál hér. Atli frændi gerði það samt sem fyrrverandi skólameistari Fjölbrautaskólans hér og er ég honum þakklátur fyrir það. Almennt má segja um menntamál í víðum skilning að þau tengist á sinn hátt innflytjandamálum, flóttamannamálum, trúmálum og ýmsu fleiru sem mikið er deilt um hér að landi sem annars staðar. Vegna þess að hér er opið samfélag mundi okkur þó eflaust seint koma til hugar að drepa hvort annað vegna málefnaágreinings.

Ekki er annað að sjá en nýliðin verslunarmannahelgi hafi gengið stórslysalaust fyrir sig. Slys og nauðganir ekki verið fleiri en búast mátti við. Eflaust hefur samt rignt einhversstaðar, en ekki var orð á því gerandi a.m.k. hér um slóðir.

Spurning er hvort tunglið sé náttúrufyrirbrigði eða ekki, en um daginn var það blindfullt og talsvert áberandi. Norðurljósin tilheyra samt örugglega náttúrunni. Um það geta túrhestar af öllu tagi borið vitni. Man hvað mér þótti einkennilegt að sjá tunglið beint fyrir ofan mig og snúa þar að auki vitlaust einhverntíma þegar ég var staddur erlendis.

Blogginnleggin hjá mér eru sífellt að styttast. Kannski er það bara til góðs. „Attention span“ fólks er líka að styttast, finnst mér. Sumir lesa bara fyrirsagnir og innganga. Kannski er það alveg nóg.

IMG 1362Einhver mynd.


2630 - Zú

Eitthvert dularfyllsta mál sem um þessar mundir veltist í dómskerfinu er mál Zúistanna. Ekki ætla ég mér þá dul að kveða neinskonar dóm yfir því félagi eða þeim sem lagt hafa því lið. Ekki er gott að segja hver afdrif málsins verða, en augljóst er að afskipti ríkisins af trúmálum eru að verulegu leyti komin undir því. Trúmál valda jafnan deilum, sem í sumum tilfellum geta orðið hatrammar mjög. Á heimasíðu Zúista á Íslandi er fátt um dagsetningar. Úr daglegri umræðu virðast þeir líka hafa fallið á fésbókinni. Dagblöðin (réttara sagt Fréttablaðið) eru samt að byrja að sinna þessu. Sennilega er það næsta stóra málið. Þeir sem deilum unna laðast mjög að málum sem þessu. Ég er ekki þannig og þagna því per samstundis.

Heimsmálin og Verslunmannahelgarmálin virðast á réttri leið. Rússar hafa að vísu verið að tala við bæði Írani og Tyrki um Sýrlandsmálin, en það mega þeir helst ekki nema með leyfi frá USA og helst vilja þeir auðvitað vera memm. Það er að segja Bandaríkjamenn. Ekki er heldur víst að nauðgunum fjölgi að neinu ráði í Vestmannaeyjum um þessa verslunarmannahelgi. Lögregluyfirvöld þar passa vel að tala ekki af sér. Annars eru þetta óttaleg smámál miðað við ýmislegt annað.

Mæðradagur og feðradagur eru hátíðlegir haldnir víða í Bandaríkjum Norður-Ameríku. Gott ef ekki á að reyna að troða þeim hátíðisdögum upp á okkur saklausa Íslendinga líka eins og ýmsu Costcolegu af öðru tagi. Þó eigum við bæði bóndadag og konudag, en þeir dagar eru dálítið gamaldags orðnir og þar að auki um hávetur. Kannski vita það fáir en hinn alþjóðlegi systradagur var í gær 6. ágúst. Frægasta systraparið um þessar mundir er auðvitað Pippa og Kate Middleton. Svo veit ég eiginlega ekki hve margar þær Kardashian-systur eru. Bræðradagur og systkinadagur veit ég ekki með vissu hvenær á að halda hátíðlega, en það hlýtur að vera einhverntíma.

Kannski ég fari bara á blogga á fésbókinni eins og sumir gera. Ef ég hefði verið spurður að því um það leyti sem minna íhaldssamir bloggarar en ég fluttu sig og sínar hugleiðingar frá Mogganum og eitthvert annað hefði ég sennilega sagt að Morgunblaðið mundi lifa lengur en fésbókarvitleysan. Nú er ég farinn að efast. Að vísu er fésbókin ekki í neinu sérstöku uppáhaldi hjá ungu kynslóðinni og auðvitað er Trump Twitteróður svo kannski lognast fésbókin útaf í fyllingu tímans. Eins og Tíminn.

IMG 1366Einhver mynd.


2629 - Æsingsóráðsheilkenni

Þetta er greinilega orð dagsins. Ég treysti mér varla til að skrifa það aftur. Æsingsóráðsheilkenni. Þegar stjórnvöld eru komin út í horn finna þau bara upp nýtt orð. Halda greinilega að það útskýri allt. Aldrei hef ég heyrt þetta orð fyrr og því er greinilega slengt fram til þess að rugla fólk í ríminu. Kannski er þetta viðurkennt orð í einhverjum fræðum, en mér er alveg sama. Þetta útskýrir ekki neitt. Dómstóll götunnar er það sem gildir. Stjórnvöld vilja greinilega deila og drottna. Eiginlega er þetta dálítið Trumplegt orð.

Þessi áhugi minn á Trump er óheilbrigður. Eiginlega er mér alveg sama um hann. Heimsfriðurinn veltur kannski dálítið á honum, en allsekki á mér. Auðvitað hagar hann sér stundum furðulega og segir kjánalegustu hluti en eitt er alveg rétt hjá honum. Pressan (og þá á ég við fjölmiðlana í víðum skilningi) er á móti honum og satt að segja er það engin furða. Hann hagar sér allsekki eins og forsetar eru vanir að gera. Sennilega álítur pressan að þannig eigi allir forsetar að vera. Að umbætur á stjórnkerfinu skuli koma frá hægri er snöggtum meira en við Evrópubúar getum almennilega sætt okkur við. Umbætur eiga að koma frá vinstri. Bandaríkjamenn eru bara svo skrítnir. Þeir virðast halda að ríkið megi allsekki skipta sér af nokkrum hlut. Auðvitað verður það til þess að þeir sem ríkastir eru ráða því sem þeir vilja.

Alltaf er það eitthvað sem maður á ógert og vill þó gjarnan koma í verk. Röðin á því sem maður vill þó gera skiptir líka töluverðu máli og furðulegustu hlutir geta haft áhrif á hvernig maður vill hafa þá röð. Það sem maður gerir eða gerir ekki og í hvaða röð maður gerir það sem maður þó gerir, hefur sömuleiðis mikil áhrif á samband manns við annað fólk. Útfrá því dæma margir aðra. Fólk er þó furðulega líkt, en á sama tíma einkennilega ólíkt hvert öðru.

Bjarni fór í ferðalag í gær með fjölskylduna. Lék sennilega túrista og fór víða um Suðurland. Líklega hefur margt í því ferðalagi komið Tinnu á óvart og sömuleiðis kannski Charmaine líka. Bjarni sjálfur er Íslendingur á besta aldri og eflaust hafa hlutirnir ekki komið honum jafnmikið á óvart. Safnið á Skógum skoðuðu þau m.a. og eflaust hafa þau hrifist af því eins og fleiri.

Annars er sennilega best að koma þessu frá sér sem fyrst. Annars gæti ég fengið æsingsóráðsheilkenni. Þykkvabæjarheilkenni talaði Atli frændi einu sinni um, en það er víst alltöðruvísi.

IMG 1379Einhver mynd.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband