Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2008

264. - Meira matmeira, sagði Jeppi á Fjalli

 

Bloggið er verkfæri andskotans

og ég tek þátt í því.

 

Bloggið er bölvuð árátta

og ég ræð ekki við mig.

 

Bloggið er fyrir sjúka fasista

og mig.

 

Bloggið tekur aldrei enda

frekar en önnur vitleysa.

 

Að skrifa blogg sökkar feitt

en ég geri það samt.

 

Bloggið bætir heiminn

halda sumir.

 

Bloggið er fjölmiðill

og miðlar fjölum.

 

Bloggið er að leggja undir sig heiminn

og Írak jafnvel líka.

 

Bloggið er upphaf og endir alls.

Trúlegur fjandi.

 

Bloggið er komið til að vera.

Hvert ætti það svosem að fara?


263. - Um stóra þvagleggsmálið og undarlega skilgreiningu á spilafíklum

Salvör Gissurardóttir framsóknarmaður og ofurbloggari atyrðir Bjarna Harðarson fyrir skrýtin ummæli um fíkla.

Ég sendi Bjarna líka athugasemd um þetta mál við blogg hans um pókerspil Birkis Jóns, en það var fremur seint og vel getur það hafa farið framhjá honum.

Bjarni sagði eitthvað á þá leið að spilafíklar væru einkum þeir sem stunduðu spilakassa í óhófi og væru andfélagslegir. Þetta vildum við Salvör meina að væri hin mesta vitleysa. Spilafíklar eru alveg eins og annað fólk. Það eru hreinir fordómar að halda annað.

Athugasemdir þurfa bloggarar að skoða. Auðvitað er það samt svo að vinsælir bloggarar sem fá mikinn fjölda athugasemda geta misst af því sem stendur í einhverjum þeirra. Það fara ekki allir í fötin hans Sigurðar Þórs Guðjónssonar hvað þetta snertir. Hann á það til að svara ótölulegum fjölda athugasemda, en verður stundum ögn pirraður við þá iðju.

Sigurður Þór heldur áfram að ræða um stóra þvagleggsmálið. Mér finnst einkennilegt hve margir af þeim, sem skrifa athugasemdir við færslur hans um það, eiga erfitt með að skilja að þetta eru tvö aðskilin mál og sú ákvörðun að meðhöndla þau sitt í hvoru lagi er örugglega frá valdstjórninni komin.

Varðandi mótþróann við valdstjórnina hefur málum verið hraðað sem mest og auðvitað er það rétt að óhlýðni við eðlilegar fyrirskipanir valdstjórnarinnar er alvarlegt mál. En ef ætlunin er, að draga málið sem snýr að konunni og ofbeldinu sem hún var beitt, sem mest á langinn, þá þarf að gera mönnum ljóst að það er ekki hægt.

Ómótmælt er að brotið var á rétti konunnar. Kannski er landlæknir ekki rétti aðilinn til að ákveða framhald málsins. Hann er af eðlilegum ástæðum undir hæl valdstjórnarinnar, en algjörlega óháður aðili þyrfti að fjalla um þetta.

Úr því sem komið er held ég að vonir okkar sem álítum að þetta sé mannréttindamál hljóti að beinast að úrskuði umboðsmanns Alþingis, sem mér skilst að sé væntanlegur. Verst er að stjórnvöld hafa stundað það af hafa úrskurði hans að engu. Ráðherrar vita alltaf allt best eins og Árni Mathiesen veit.


262. - Moggabloggari vinnur meiðyrðamál gegn öðrum Moggabloggara og lyfleysa tekur lyfjum fram

Það eru hugsanlega vatnaskil að bloggari skuli dæmdur fyrir ummæli um annan bloggara og það á bloggi sínu.

Að því leyti er þetta sigur fyrir bloggið og bloggnáttúru manna sem orðin er ansi mikil hjá sumum. Að þetta skuli svo hafa verið Moggabloggarar er bara ennþá betra.

Hvorugur þessara manna er bloggvinur minn og það þýðir að ég les ekki bloggin þeirra reglulega. Þar af leiðandi veit ég alls ekki nógu mikið um þetta mál. Samt ætla ég að hætta mér út í að leggja útaf því.

Gaukur Úlfarsson mun vera sonur Úlfars Þormóðssonar sem frægur varð fyrir ritstjórn sína á Speglinum sáluga og margt fleira. Gaukur átti að sagt er mikinn þátt í því að gera Sylvíu Nótt að því fyrirbrigði sem hún varð. Ómar R. Valdimarsson var fjölmiðlafulltrúi Impreglio og er kannski enn. Hann var áður eitthvað í blaðamennsku ef ég man rétt.

Í mínum huga hefur Ómar R. Valdimarsson lengi verið sérlegur fulltrúi Impreglio á Moggablogginu á sama hátt og ég lít á Vilhjálm Örn Vilhjálmsson sem sérlegan fulltrúa Ísraelsstjórnar hér. Þetta þarf alls ekki að vera neitt slæmt. Væntanlega tryggir það að mismunandi skoðanir um mörg málefni eiga greiðari leið til Moggabloggara en annars væri.

Eftir því sem mér sýnist um tilvitnaðar klausur og dóminn í heild þá sýnist mér hann vera ansi harður, en vissulega má segja að tími hafi verið til kominn að dæmt yrði útaf ummælum á bloggi. Það er óþolandi að fjöldi bloggara skuli halda að hægt sé að komast upp með hvað sem er bara ef það er á bloggi.

Sumir segja að hér sé vegið að málfrelsinu svokallaða en ég get ekki samþykkt það. Í augum sumra er leyfilegt að segja hvað sem er svo framarlega sem menn eru tilbúnir að standa við sitt mál. Ábyrgð þeirra sem reka blogg eins og Moggabloggið er svo sér kapítuli. Vel má halda því fram að þeir ættu að bera ábyrgð á sínum gestum. Það gæti þó orðið ansi snúið í framkvæmd og ókeypisblogg gætu með öllu lagst af.

Svo er bara að bíða eftir úrslitum í þvagleggsmálinu og stóra Lúkasarmálinu. Allt að gerast í bloggheimum. Kjötheimar eru að verða eins og sýndarheimur við hliðina á bloggheimum.

Rannsóknir leiða í ljós að mörg geðlyf gagnast ekkert betur en lyfleysa flestum þeirra sem taldir eru þurfa þeirra með. Ef þau gagnast samt finnst mér sjálfsagt að halda áfram að gefa þau. Lyfleysan er þó eflaust ódýrari svo líklega væri betra að halla sér að henni. Þetta hlýtur þó alltaf að verða úrskurðarefni lækna sem sérhæft hafa sig í þessum fræðum. Skottulæknum hef ég enga samúð með.


261. - DV, lofthræðsla og skordýr

Hvernig skyldi vera best að byrja á þessu bloggi.

Það þarf helst að vera eitthvað krassandi svo það vekji athygli. Mér dettur bara ekkert í hug, svo ég reyni að byrja ekki fyrr en í miðju bloggi hvernig sem það gengur.

Undarlegt er það með DV að þar skuli áhersla lögð á að dagsetningin sé með svo miklu lúsaletri að helst ekki sé hægt að lesa hana. Ég nenni ómögulega að lesa DV á hverjum degi en föstudagsblaðið er þó að minnsta kosti oftast þess virði að fletta því. Einfaldast væri að skoða bara dagsetninguna en það er stjórnendum blaðsins greinilega illa við að gert sé. Beats me why.

Með árunum hefur lofthræðsla mín ágerst. Nú get ég helst ekki litið fram af háum svölum án þess að fá verk í hnén. Áður fyrr man ég eftir að ég átti ekki í neinum vandræðum með að horfa fram af háum stöðum. Eitt sinn fórum við nokkur saman upp í sjónvarpsturn í Rotterdam. Einhvers konar lyfta var í kringum nálina efst og hægt að sitja þar með hnén við glerrúðu og þaðan voru þrjú eða eða fjögur hundruð metrar niður á jörð. Ekki var mjög mikið að gera hjá lyftustjóranum þegar þetta var og þegar við komum niður bauð hann okkur að fara aðra ferð án aukagjalds. Ég hneykslaði víst einhverja af samferðamönnum mínu með því að hafa mikinn áhuga á tilboðinu. Ekki varð úr aukaferðinni.

Mér verður líka sífellt verr og verr við kóngulær og skordýr öll eftir þvi sem tímar líða. Ég segi ekki að ég hafi étið þau í gamla daga en mér fannst mjög lítið mál að taka þau upp með puttunum. Nú get ég varla komið nálægt svona kvikindum nema með því að leggja fyrst bréf yfir þau. Feitar og frekar hunangsflugudrottningar sem mikið er af á vissum tíma á vorin eru alltaf dálítið erfiðar. Þær sækja öðrum kvikindum frekar í húsaskjól og ólmast og láta öllum illum látum undir bréfinu og ekki vil ég fyrir neinn mun meiða greyin því þær eru svo stórar. Lítil dýr eins og kóngulær og þessháttar sem ekkert heyrist í, hika ég hinsvegar ekkert við að kremja í bréfinu og fleygja í klósettið.

Geitungar eru eitt vandamálið enn. Einu sinni henti ég einhverju óvart í ruslatunnuna og þurfti að fara og ná í það aftur. Þegar ég lyfti lokinu á tunnunni var brjálaður geitungur ofan í henni svo ég flýtti mér að skella lokinu á aftur. Síðan var ég nokkra stund að safna kjarki til að kíka ofan í tunnuna á ný, en þar var allt við það sama. Ég gerði síðan nokkrar tilraunir til að komast að því sem var í tunnunni og stóð töluverða stund við hana, en að lokum tókst mér að hrifsa það til mín sem ég ætlaði að ná í án þess að geitungsfjandinn kæmist upp úr.

Ég býð ekki í það hvað fólk sem hugsanlega hefur horft á mig úr nærliggjandi húsum hefur haldið.


260. - Um blogg, Mogga, gjaldmiðil fátæka mannsins og þess háttar dót

Hvernig blogg þykir mér skemmtilegast að lesa?

Þessu er erfitt að svara. Þau þurfa að vera vel skrifuð og áhugaverð. Hvað útlitið snertir vil ég gjarnan að þau líkist mínu. Mér er þó alveg sama þó miklu meira sé af myndum í þeim en venjulega er í mínum. Vídeómyndir nenni ég sjaldnast að horfa á. Mér leiðast mjög langar línur og litlir fontar. Hvítt letur á svörtum grunni get ég alls ekki lesið og þegar ég rekst á slík blogg fer ég venjulega beina leið út aftur.

Þó ég hafi haldið því fram að þjónustan á Moggablogginu sé prýðileg er Morgunblaðið óttalegur dragbítur á aðra þróun á Netinu. Meðan hægt er að nálgast á netinu, einum degi seinna eða svo, það sem skrifað er í ókeypisblöðin þá virðast þeir Moggamenn enn halda að hægt sé að gera sér pening úr gömlum skrifum. Jú, þeir hafa staðið að því með myndarbrag ásamt öðrum að hægt er að skoða eldgömul blöð á Netinu.

En þegar kemur að blaðinu frá í gær eru þeir afturhaldssamari en andskotinn. Mér dettur ekki í hug að vera áskrifandi að Moggadruslunni þegar með öllu er vandalaust að fá nóg lesefni ókeypis eða því sem næst. Samt er það öðru hvoru svo að maður heyrir um áhugaverðar greinar sem hvergi birtast annars staðar en í Morgunblaðinu. Og svo eru það náttúrulega minningargreinarnar sem maður mundi stundum vilja lesa án þess að nokkuð gerði til þó þær væru nokkurra daga gamlar.   

Víðast hvar erlendis held ég að blöð séu búin að komast að því að ekkert er úreltara en dagblaðið frá í gær. Þetta er þeim Morgunblaðsmönnum þó með öllu hulið.

Lára Hanna virðist hafa fengið áhuga á áttulistanum og kommentar um þau skrif mín frá því um daginn. Eitt er það sem ég held að við höfum ekki rætt um og það er að sumir sem eru á áttulistanum sem ég hef nefnt svo eru líka Eyjabloggarar. Þetta er alveg stórskrýtið því ég hélt að eyjan.is væri óvinum Moggabloggsins númer eitt.

Í silfri Egils í gær sagði einhver að krónan væri gjaldmiðill fátæka mannsins. Þetta er alveg rétt. Þó okkur pöplinum sé stundum boðið að taka einhvers konar myntkörfulán og þess háttar er erlenda gjaldmiðils aðallinn passasamur með að tryggja að enn sé hægt að arðræna þá sem eru svo vitlausir að spara af sínum litlu tekjum eða kaupa sér einhvern óþarfa. Annars á þessi hlutafélagabóla sennilega eftir að springa með miklum hávaða áður en yfir lýkur.


259. - Um tölvur, Internet og skák

Fyrir utan að lesa blogg (og stundum Baggalút) er mín besta skemmtun á Netinu að tefla bréfskákir.

Ég er alveg hættur að nenna að vanda mig eins og ég gerði fyrst þegar ég byrjaði á þessu. Nú tefli ég bara fyrir skemmtunina. Stundum tefli ég líka „live" og nota þá gjarnan hraðskákreglur og vil helst hafa umhugsunartímann 15 mínútur. Þegar ég var ungur og talsvert fljótari að hugsa þótti mér 5 mínútur kappnógur tími á hraðskákir og tefldi slíkar gjarnan. Nú þykir mér mjög hæfilegt að hafa þetta meiri tíma, enda lendi ég aldrei í tímahraki.

Að tefla bréfskákir á Netinu er alveg afskaplega þægilegt. Bestu vefsetrin eru með sérstök borð fyrir önnulísur sem kallaðar eru (analysis) og það er afskaplega þægilegt. Þá getur maður leikið fram og aftur í skákinni og séð hvaða áhrif tilteknir leikir hafa án þess að þurfa að gera neitt annað en að ýta á einn músahnapp.

Vefsetrin sem ég nota mest um þessar mundir eru: Chesshere.com, Chessmaniac.com, Chessclan.com og playchess.de. Öll er þau að finna í linkunum hér til vinstri, enda þarf ég að nota þann aðgang þegar ég er í vinnunni því þar er ekki leyft að búa sér til bókmerki (bookmarks). Á hverju vefsetranna tefli ég svona 15 til 20 skákir samtímis og það hentar mér ágætlega því ég þarf ekki að hugsa neitt að ráði um hvern leik þegar ég vanda mig lítið.

Reyndar vanda ég mig svolítið mismikið eftir vefsetrum og sést það á stigunum sem ég er með þar. Öll eru setrin nefnilega þannig að þau reikna út ELO-stig eftir hverja skák. Teflendur eru þarna yfirleitt það margir að vandræðalaust er fyrir hvern sem er að finna sér andstæðing við hæfi. Svo er þetta ókeypis.

Um þessar mundir eru hérna á heimilinu fjórar tölvur. Þrjár fartölvur og ein borðtölva sem er tengd tveimur skjáum. Einum túbuskjá og einum flatskjá. Mér finnst athyglisvert að sjá hve miklu betri og skýrari myndin er í flatskjánum. Það er afskaplega þægilegt að hafa tvo skjái, þá getur maður fylgst með fleiru í einu og byrjað að gera eitthvað annað ef manni leiðist að bíða eftir tölvunni.

Þó tölvurnar séu fjórar hérna er heimilisfólkið einum færra. Bjarni er hér núna meðan hann er að bíða eftir að Charmaine komi frá Bahamaeyjum, en það verður held ég 28. febrúar.

Það er eflaust skrítið að sjá allt heimilisfólkið niðursokkið í sínar tölvur og sitt Internet. ADSL-ið er sem betur fer þráðlaust og við getum hæglega verið öll á því samtímis. Meðan við grúfum okkur niður í tölvurnar spýr sjónvarpið úr sér einhverjum leiðindum sem enginn fylgist með og dagblöðin liggja eins og hráviði út um allt og enginn nennir að lesa þau.


258. - Fjallgöngur og stéttaskiptingin á Moggablogginu enn og aftur

Ég stundaði fjallgöngur af svo miklum ákafa í eina tíð að ég var hálf eyðilagður maður ef nýtt fjall bættist ekki við í mitt fjallasafn í hverjum sumarmánuði.

Sem betur fer stóð þetta ekki nema í fáein ár og ég byrjaði seint á þessu.

Einu fjöllin hér í nágrenninu sem ég man ekki eftir að hafa klifið eru Skarðsheiðin og Lyklafellið. Ég held að Skarðsheiðin sé mjög skemmtilegt fjall, en Lyklafellið er bara þarna og varla nema svona tíu mínútna gangur uppá það býst ég við, þegar maður er kominn að því. Í seinni tíð hefur þessi fjallasótt runnið af mér og auðvitað er ástæðan sú að ég á ekki eins gott með að steðja upp brattar hlíðar.

Ég gekk líka nokkrum sinnum milli Hveragerðis og Reykjavíkur og oft hef ég ferðast bæði einn og með öðrum fram og aftur um Helgilssvæðið allt og þekki þar vel til.

Um daginn var ég að blogga um stéttaskiptingu hér á Moggablogginu. Þá taldi ég það vísi að stéttaskiptingu að menn gætu séð hverjir eru tilbúnir að borga fyrir þau forréttindi að með þeirra bloggum birtast ekki auglýsingar til hægri við bloggið.

Það er reyndar önnur stéttaskipting í gangi hérna en hún er sú að nöfn 50 - 60 bloggara eru í einhvers konar úrvalsflokki sem mér er alveg hulin ráðgáta hvernig valið er í. Átta af þessum bloggum birtast efst og stór þegar farið er beint á Moggabloggið. Á eftir þessum átta koma síðan rúmlega 20 nýjustu bloggin.

Þessi úrvalsflokkur fær þannig talsvert meiri kynningu en þeir lægra settu og einstakir bloggarar í þessum flokki virðast einnig birtast mismunandi oft meðal þessara átta sem efstir eru. Ekki veit ég þó eftir hverju það fer.

Ég er ekki að segja að mig langi í þennan flokk en það væri gaman að vita hvernig valið er í hann. Kannski vita einhverjir sem í honum eru eitthvað um það. Meðal þessara 50 til 60 bloggara eru þónokkrir af bloggvinum mínum og þar á meðal nokkrir sem ég hef ástæðu til að ætla að lesi bloggið mitt nokkuð reglulega.

Svo ég dragi þetta saman þá eru a.m.k. þrír flokkar bloggara á Moggablogginu.

   1. Áttuklúbburinn (50 - 60 manns)

   2. Greiðandi bloggarar. Eflaust nokkrir tugir, en erfitt að segja til um það nákvæmlega.    Bloggstjórnendur gætu það þó að sjálfsögðu.

   3. Venjulegir almennir bloggarar sem sætta sig við auglýsingar.

Þeir sem eru í fyrsta flokki eru síðan alltaf líka annaðhvort í öðrum eða þriðja flokki.

Án þess að ég viti það gætu svo verið fleiri flokkar. Til dæmis gætu sumir bloggarar fengið greitt fyrir sín blogg, þó mér þyki það ótrúlegt.


257. - Samtíningur um vísnagerð og sitthvað fleira

Sú saga er sögð að einhvern tíma hafi verið prestur nokkur í Arnarbæli í Ölfusi og hjá honum vikapiltur einn.

Ekki langt frá Arnarbæli er klettur sem Arnarsetur heitir og er annaðhvort í eða við Ölfusá sem rennur þarna skammt frá. Prestur á einhvern tíma að hafa kastað þessari vísu fram við stráksa:

Drengur minn þú deyrð í vetur.

Dettur fyrir Arnarsetur.

Kríuskítur og kamrafretur.

Kveddu á móti ef þú getur.

   Strákur var ekki seinn til svars og mælti fram þessa vísu:

Þú ert prestur sómasæll,

syngur hátt í messu.

En vesalmenni og vinnuþræll,

verðurðu upp frá þessu.

   Sagt er að hvorttveggja hafi ræst.

Já, ég hef gaman af vísum og hef stundum reynt að gera þær sjálfur en er sjaldan ánægður með þær.

   Einhverju sinni reyndi ég að gera hringhendu. Hún var svona:

Nú skal hendu fríða hring

hugsun venda að semja.

Andans lendur allt um kring

æfðri hendi temja.

Þetta er svosem alveg rétt ort hringhenda, en mér finnst hún ekki nógu lipur. Vísa er hringhenda ef innrím í öllum fjórum ljóðlínum rímar saman.

Ég hef tekið eftir því að sumir sem greinilega hafa gaman af að setja saman vísur virðast lítið vita um stuðlasetningu og þessháttar. Reglur eru náttúrulega bara til að brjóta þær, en samt er nauðsynlegt að kannast við þær, því ekki er sama hvernig þær eru brotnar. Þeir sem vilja fást við vísnagerð ættu að kynna sér helstu bragfræðireglur. Það er auðvelt að gera það á Netinu t.d. hefur Jón Ingvar Jónsson sett upp ágæta síðu um bragfræði og fleira á heimskringla.net enda er hann frábær hagyrðingur sjálfur. Menn mega bara ekki láta hugfallast þó þetta virðist flókið í fyrstu. Réttast er að byrja bara að setja eitthvað saman og reyna svo að sjá til hvort það er ekki rétt gert og muna að æfingin skapar meistarann jafnt í þessu sem öðru.

Ekki veit ég hvernig ég kem öðrum fyrir sjónir sem bloggari. Mér finnst langskemmtilegast að vaða úr einu í annað. Það er afar sjaldan sem ég blogga um eitthvert eitt afmarkað efni. Sem er mjög gott, eins og þar stendur.

Lesendum mínum er heldur að fjölga. Ekki veit ég hvernig á því stendur. Kannksi er það vegna þess að bloggvinum mínum fer einnig svolítið fjölgandi. Mest er það fyrir minn eigin tilverknað. Það er að segja að það eru ekki margir sem biðja mig að fyrra bragði um að vera bloggvinur sinn. Þeir eru líka afar fáir sem neita að gerast bloggvinir mínir, þegar ég bið þá um það.

Og við grein mína frá því í fyrradag komu heil tólf komment. Það held ég að sé algjört met. Þó ég hafi skrifað tvö eða þrjú þeirra sjálfur er þetta fjári gott.

Var að enda við að klára að lesa öskuna eftir Yrsu Sigurðardóttur. Mér finnst fléttan dálítið bláþráðótt á köflum en haglega ofin samt. Frásögnin er ágæt og spennan helst prýðilega í bókinni, einkum þó um miðbikið. Byrjun og endir eru heldur lakari, en alveg í lagi samt. Góð bók.

Það var gaman að sjá Jens Guð í Kastljósinu í gærkvöldi. Ég les nú ekki bloggið hans reglulega, en þó alltaf öðru hvoru. Mér finnst hann slakastur þegar hann er að leika alltvitandi blaðamann enda gerir hann flestar vitleysurnar þá. Ég verð líka að segja að ég hef ekki mikið vit á sumu sem hann skrifar um tónlist, þó ég lesi það stundum. Hann var talsvert öðruvísi en ég hélt. Skeggið úfnara og málfarið meira hikandi, en samt var ágætt að geta virt hann fyrir sér.


256. - Daðrað við dauðann og leisure suit Larry

Um daginn sagði ég frá því að ég væri búinn að lesa bókina Harðskafa.

Líklega minntist ég ekki í því sambandi á kvikmyndina „Flatliners" sem gerð var árið 1990 og Kiefer Sutherland, Julia Roberts og Kevin Bacon léku í. Ég man að mér varð hugsað til þess þegar ég las bókina að Arnaldur hlyti að hafa séð þá kvikmynd. Bókin fjallar nefnilega um svipað efni og hún. Vel væri hægt að kalla það efni: „Daðrað við dauðann."

Margt minnisstætt gerist í Kastljósinu í Sjónvarpi allra landsmanna. Ég man til dæmis vel eftir konunni sem fékk viðtal við sig og var að kynna einhverja nýja tegund af heilun. Hún sagði meðal annars frá því að hún talaði reglulega við stofnfrumuna sína. Einhver sálfræðingur hafði verið fenginn til að andmæla vitleysunni í henni, en hann gerði þau mistök frá upphafi að taka þetta alvarlega.

Kastljósfólkið (þau voru tvö - man þó ekki alveg hver) leit hvort á annað þegar konan fór að tala um stofnfrumuna og úr svip þeirra mátti lesa: „Hvað höfum við nú komið okkur í?" Heilarinn sjálfur virtist njóta sín best þarna. Átti í erfiðleikum með að bæla niðri í sér hláturinn, en fór þó að vorkenna sálfræðingnum og Kastljósfólkinu að lokum og bað þau um að taka þetta ekki svona alvarlega. Óborganlegur þáttur.

Það er líka eftirminnilegur þáttur þegar Kristján Jóhannsson reiddist og varð dónalegur og glataði við það að minnsta kosti um tíma vinsældum sínum meðal þjóðarinnar. Kannski er hann að ná þeim aftur. Þetta með heimsfrægðina lætur þó svolítið á sér standa.

Ég sá í þættinum hjá Evu Maríu á sunnudaginn endursýnt úr fréttum það fræga innslag þegar Halldór Blöndal sem þá var samgönguráðherra sagði við herbergisþernuna í Rússlandi: „Sæl vertu, Sigurjóna!" Ég man að ég orti vísu um þetta á sínum tíma, en get ómögulega munað hana núna. Ógleymanlegt atvik samt.

Það er mjög áhugavert að skoða bloggin hjá þeim Austurlanda-agli og Söru ferðalöngu. Svo er ekki síður áhugavert að skoða síðuna hjá „Leisure suit Larry", sem þau skötuhjúin vísa í. Hann minnist líka á þau og birtir meðal annars myndir frá Doha í Qatar þar sem íslenski fáninn blaktir víða. Merkilegt.

Myndirnar hjá Larry eru margar stórskemmtilegar. Sérstakt yndi virðist hann hafa af því að taka myndir af alls kyns skiltum og vissulega eru þau mörg hver ansi fróðleg. Í heildina er þessi blogg og ferðasíða Larrys með þeim bestu slíkum sem ég hef séð.


255. - Um stéttaskiptingu á Moggablogginu og fleira

Geir harði vill veita Villa greyinu tilfinningalegt svigrúm.

Geir sér greinilega eftir því að hafa bundið trúss sitt við hann, en neyðist til að sætta sig við að hann hætti. Samkvæmt nýjustu fréttum vill Davíð þó að Villi þrauki enn um sinn. Þetta virðist ætla að verða athyglisvert drama í Sjálfstæðisflokknum. Ekki held ég samt að hann klofni. Stórir flokkar gera það yfirleitt ekki.

Þegar ég var innan við tvítugt var ég öldungis viss um tvennt. Að ég mundi deyja ungur og að ég ætti eftir að verða frægur rithöfundur. Hvorttveggja þarfnast greinilega endurskoðunar. Ungur dey ég varla úr þessu og til að verða rithöfundur (tala nú ekki um frægur) held ég að tvennt þurfi að koma til. Gott vald á málinu og að hafa frá einhverju að segja. Ég tel mig hafa allgott vald á íslenskunni (loksins), en því miður hef ég ekki frá neinu að segja.

Ég hef eiginlega aldrei lent í neinu. Ekki framhjáhaldi, ekki skilnaði, ekki stórfelldum skattsvikum. (Jú, ég smurði alltaf svolítið á allan kostnað og vexti hérna áður fyrr, en hver gerði það ekki?) Ekki hef ég lent í dópi og drykkju. Ekki einu sinni í andlegum mótbyr eins og nú er í tísku. Að minnsta kosti ekki alvarlegum.

Ekki hef ég lent í bílslysi, ekki í neinum afbrotum, sem orð er á gerandi. Einu sinni var ég þó kærður fyrir að hafa lagt bíl ólöglega, en þegar til átti að taka og ég ætlaði að mótmæla hástöfum þá var kæran týnd.

Auðvitað er hægt að ljúga öllu mögulegu í skáldsögu, en ég held  að það verði aldrei sennilegt ef maður hefur ekki lent í neinu sjálfur. Jú, ég gæti líklega orðið alkóhólisti ennþá ef ég vandaði mig, en trúlega er margt af þessu sem ég taldi upp að verða of seint fyrir mig, en með einbeittum brotavilja er þó margt hægt.

Já, og nú geta menn keypt sig frá auglýsingum og meira að segja þannig að aðrir sem fara á bloggið manns þurfi ekki að horfa á þær. Eins og ég sagði á kommenti í gær eða í dag þá þýðir þetta náttúrlega að allir geta séð hvort maður tímir að borga 300 kall á mánuði til að vera með aðlinum eða heldur bara áfram að vera sá nískupúki sem maður hefur verið hingað til.

Eins og Gunnar Helgi Dennason segir réttilega á sínu bloggi þá er þetta að sjálfsögðu byrjunin á stéttaskiptingu hér á Moggablogginu. Þó ég sé síst af öllu einhver NOVA stuðningsmaður þá held ég að ég haldi áfram að tilheyra pöplinum. Sjái að minnsta kosti til hvernig þessi auglýsingamál arta sig.

Og ég sé ekki betur en Guðbjörg Hildur sætti sig ennþá við NOVA auglýsinguna. Skyldi hún ekki ætla að fara að drífa sig í að borga þrjúhundruðkallinn? Ég læt nú aðallega svona útí hana af því að hún leyfir ekki komment á sínu bloggi. (Það er líka smávísir að stéttaskiptingu) Það gerir þó Sigurður Þór og er meira að segja ótrúlega duglegur við að svara misgáfulegum kommentum.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband