Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2009

588. - "Forseti, segðu af þér" segir Agnes Bragadóttir

Agnes Bragadóttir skrifar pistil í Morgunblaðið í dag (föstudag) sem heitir: "Forseti, segðu af þér". Þar skorar hún á Ólaf Ragnar Grímsson að segja af sér sem forseti og segir meðal annars: "Fyrirgefðu Ólafur! Það er ekkert eðlilegt að við séum upplýst um þinn vilja í efnum sem þér koma einfaldlega ekki við. Þú átt að hafa vit á því að halda þig á mottunni og láta stjórnmálamönnum eftir að rækja sitt hlutverk."

Ég kaus Ólaf Ragnar á sínum tíma og þó mér leiðist oft rausið í honum og útrásarvíkingarnir hafi platað hann þá vil ég ekki að Agnes Bragadóttir ráði því hvað honum kemur við. Hana hef ég aldrei kosið til neins.

Reyndar er ég ekki heldur vanur að lesa Morgunblaðið en líklega hefur fleirum en mér fundist þessi pistill hennar athyglisverður því ég rakst á hann ljósritaðan áður en ég fletti honum upp í Mogganum. Þar er hann við hliðina á forystugreinunum í miðopnu blaðsins.

Þetta með hvalveiðarnar hjá honum Einari Guðfinns er bara fíflalegt. Svona haga ráðherrar sér ekki. Eflaust finnst honum þetta snjallt. Margir verða fegnir að geta stundað hvalveiðar, en Einar gerði þetta einkum til að spilla fyrir stjórnarmyndunarviðræðum. Ég er stuðningsmaður hvalveiða en get ekki lokað augunum fyrir áliti umheimsins. Ástandið í stjórnarmyndunarviðræðunum er þannig núna að Sigmundur Davíð er í örvæntingu að reyna að bjarga andlitinu.

Þegar ég vann hjá Heildverlsun Hannesar Þorsteinssonar var til stofnun sem hét Gjaldeyrisdeild bankanna. Ingólfur í gjaldeyrisdeildinni komst oft á fyllerí útá það eitt að vinna þar. Auglýsingar í Stefni sáust aldrei. Voru samt dýrar og heildsalar og margir fleiri máttu gjöra svo vel að borga. Allir vissu að þetta var bara gjald sem þurfti að greiða í flokkssjóðinn eina og sanna.

Einhverju sinni fórum við í skólanum í Hveragerði í Þjóðleikhúsið að sjá leikritið um Don Camillo. Don Camillo var kaþólskur prestur í ítölskum smábæ og sögur af honum mjög vinsælar um þetta leyti. Mér hefur aldrei brugðið annað eins í leikhúsi og þegar allt í einu var skotið á Don Camillo þar sem hann var í mesta sakleysi að mála húsið sitt.

En svona er mafían. Sumum bregður ekki bara. Þeir týna lífinu. Svo eru fleiri en mafíósar afbrotamenn. Þeir sem stela eyri ekkjunnar til að geta frílistað sig í útlöndum eru verri en mafíósar. Þeir eru útrásarvíkingar.

 

587. - Stjórnlagaþing er skynsamlegt

Þetta verður stutt hjá mér því ég er að prófa að blogga beint.

Það er skynsamlegt hjá Sigmundi Gunnlaugssyni að krefjast stjórnlagaþings. Ég er samt svo svartsýnn að eðlisfari að ég held að málin muni klúðrast og ekkert verði úr neinu.

Í byrjun stjórnarmyndunarviðræðna var það ljóst að Jóhanna Sigurðardóttir átti að vera forsætisráðherra en samt tók hún ekki þátt í viðræðunum.

"Ha?"

"Já, hún var með svo slæmt Jóhönnusig."

"Nú. Var það?"

"Já og  svo komst hvalablástur í þetta."

"Hvað segirðu?"

"Já, ég veit ekki hvar þetta endar."

"Endilega hættu þá þessari endaleysu."

PS. Þetta með Jóhönnusigið er stolið frá Gísla Ásgeirssyni.


586. - Fjórflokkurinn blívur

Fjórflokkurinn er Sjálfstæðisflokkur, Kratar, Kommar og Framsókn. K-flokkarnir eru þó sífellt að skipta um nöfn. Fljótlega verður mynduð ný ríkisstjórn. Kosningar verða svo líklega strax í vor. Fjórflokkurinn mun fá meirihluta aðkvæða eins og venjulega. Talsverðar breytingar verða. Þær verða þó einkum innan flokkanna. Eins máls flokkar munu eiga erfitt uppdráttar eins og venjulega. Stjórnlagaþing verður ekki nema meirihluti þingmanna samþykki það. Það gera þeir ekki ótilneyddir. Allskyns grasrótarsamtök munu auka áhrif sín. Vald ráðherra mun minnka en að öðru leyti mun flest verða við það sama stjórnskipulega séð. 

Djöfullinn sjálfur. Nú komst upp um strákinn Tuma. Við fengum okkur flatskjá í fyrra og erum þessvegna í hópnum sem leiddi landið í glötun. Ekki segja frá þessu. Ég skal reyna að fá mér öðruvísi sjónvarp. Fást þau annars einhvers staðar? 

Sjálfstæðismönnum er vorkunn. Geir skolaði uppí formannssætið án nokkurra verðleika. Hann verður í minningunni á pari við Geir Hallgrímsson  og Jóhann Hafstein. Fyrir næsta formann er verkefnið að endurheimta fylgið. Hvað sem um Davíð má segja var hann Sjálfstæðismönnum ágætur leiðtogi. Þekkti ekki sinn vitjunartíma og fór í Seðlabankann. Öfugt við Steingrím Hermannsson lét hann þar eins og naut í flagi og geldur þess nú.

Moggabloggsmenn hafa margt fyrir bloggið gert. Meðal annars gert það svo vinsælt að til vandræða horfir.

Það er hætt við að þegar um hægist útaf bankahruninu muni aðild að Evrópubandalaginu valda eins mikilli úlfúð með þjóðinni og vera Bandaríkjahers hér á landi olli á sínum tíma. Slíkt ber að forðast. Ef það kostar að fresta þurfi aðild að sambandinu um nokkur ár er það ekki hátt gjald fyrir samstöðu um svo mikilsvert mál. Annars eru vangaveltur um þetta ekki tímabærar.

 

585. - Farið aftur í pólitísku skotgrafirnar sem sumir höfðu álpast uppúr

Nú eru flestir, bæði bloggarar og aðrir, á hraðri leið í pólitísku skotgrafirnar. Bankahrunið lendir að mestu leyti hjá pólitíkinni eins og alltaf var líklegast. Þó er meiri áhugi nú en oft áður á raunverulegum umbótum á stjórnarfari og kosningafyrirkomulagi. Ef til vill er fyrst núna að skapast grundvöllur fyrir margar af hugmyndum Vilmundar Gylfasonar. Hæpið er þó að nokkuð af þeim komist til framkvæmda. Flokkarnir sjá um sína.

Má ekki vera að því að flækjast á málfundum. Hef verk að vinna. Sagði Ingibjörg Sólrún á Bessastöðum. Gott hjá henni. Steingrímur eins og hver annar kjölturakki.

Neyðarlegt ef neyðarstjórn kvenna vill nýta sinn neyðarrétt til að koma í veg fyrir að Jóhanna verði forsætis.

Ábyrgðarleysið er ágætt. Mér finnst ég ekki bera ábyrgð á neinu. Ekki þarf ég að axla ábyrgð vegna bankahrunsins. Ekki þarf ég að passa mig á að tala ekki af mér á blogginu. Systkini mín taka af mér ómakið við að muna eftir stórafmælum í fjölskyldunni. Konan mín sér um jólagjafirnar og jólakortin. Já, ég ber eiginlega ekki ábyrgð á neinu lengur og get því gasprað hér eins og mér sýnist.

Nú fer að styttast í að ég verði löggilt gamalmenni og hætti að vinna. Þá verður líklega enginn friður fyrir mér hér á blogginu. Veð um allt með kommentum og alls kyns væli. Fer jafnvel að linka í mbl.is fréttir. Svo getur verið að bloggið sé bara della sem rennur af mér einn góðan veðurdag. Hvað ætti ég þá að taka mér fyrir hendur? Jú, það er ein önnur della sem ég hef um þessar mundir. Mér líður illa ef ég er ekki að tefla svona 30 til 50 bréfskákir á hverjum tíma. Þetta er svo auðvelt og einfalt á Netinu að það tekur engu tali. Svo er mér næstum orðið sama hvort ég tapa eða vinn.

Ég er búinn að blogga svo lengi að ég er alveg orðinn ruglaður í því varðandi endurminningar hvað ég er búinn að blogga um. Kannski væri réttast að fara að skoða gömul blogg. Svo á ég líka einhvers staðar gamlar dagbækur.

 

584. - Rafeindaheilar og rándýrar reiknivélar

Það er tóm vitleysa að vera að burðast við að blogga daglega um stjórnmálaástandið þegar svona stendur á. Það eru svo margir sem vilja láta ljós sitt skína. Mér finnst skinið hjá sumum þó í daufara lagi en vissulega skína aðrir skært. Áhrif bloggheima sem heildar eru talsverð. Gömlu fjölmiðlarnir eru að verða jafnótrúverðugir og stjórnmálaflokkarnir. Þeir eru samt misjafnir. Stundum jafnvel nauðsynlegir.

Fyrstu kynni mín af tölvum voru þau að við Bifröstungar fórum í kynnisferð til Reykjavíkur árið 1959. Þar komum við meðal annars í Sambandshúsið við Sölvhólsgötu. Þar var vél sem flokkaði gataspjöld með ótrúlegum hraða í svona 30 til 40 hólf. Með því að götin gátu verið mismunandi mörg og á ýmsum stöðum mátti líkja eftir mörgu sem einkennir tölvur í dag.

Auðvitað var þetta samt ekki raunverulegt tölva. Um svipað leyti og þetta var þá fékk Háskóli Íslands sinn fyrsta rafeindaheila og var nokkuð skrifað um það í blöð. Aldrei varð ég þó svo frægur að sjá það fyrirbrigði. Á næstu árum fóru System tölvur frá IBM að koma í stærstu fyrirtæki hérlendis. Ekki var fyrir hvern sem er að stjórna þeim skrýmslum og þurfti dýra sérþekkingu til. Með réttum vinnubrögðum voru þessar tölvur þó til mikils léttis við bókhald allt.

Rándýrar reiknivélar komu svo á margar skrifstofur nokkrum árum seinna. Þær kunnu að meðhöndla tölur. Gátu til dæmis margfaldað og deilt án vandræða.

Það var svo ekki fyrr en um 1980 sem heimilistölvur fóru að koma til landsins. Um svipað leyti var stofnað til vídeókerfisins í Borgarnesi sem ég veitti forstöðu. Til að senda dagskrá og þess háttar út á kerfið fengum við Sinclair ZX 81 tölvu. Slíkar tölvur voru þá nýkomnar í sölu hjá Heimilistækjum en það fyrirtæki hannaði fyrir okkur videókerfið og seldi okkur allt efni í það.

Sonum mínum þótti mikið þing að geta fiktað í þessari tölvu þegar hún var ekki upptekin við annað. Þessi tölva hafði fremur ómerkilegt lyklaborð, engan skjá og engan harðan disk. Kostaði heldur ekki mikið eða tólfhundruð og eitthvað nýkrónur. Hægt var að tengja tölvuna við sjónvarp og senda henni forrit með venjulegu segulbandi. Minnið var 1 kílóbæt en hægt var að fá kubb til að tengja við hana sem var heil 16 kílóbæt að stærð. Bara til upplýsingar má nefna að 1000 slík þarf í Megabætið.

 

583. - Stjórnarslit í beinni

Fylgdist í dag með stjórnarslitum í beinni. Mest horfði ég á Ríkissjónvarpið en þessutan fylgdist ég með Netinu og helstu útvarpsstöðvum. Ætla ekki að spá um framhaldið en það sem uppúr stendur eftir daginn er í mínum huga að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir er áberandi snjallari stjórnmálamaður en Geir Haarde.

Segi ekki meir en blogga kannski aftur seinna eins og ég er vanur. 

 
 

582. - Nú er allt á fleygiferð í stjórnmálunum

Það er erfitt að blogga ekki núna. Hlutirnir gerast svo hratt að maður hefur varla við. Veit ekki hvað gerist næst. Það má ekki persónugera vandann og helst ekki ríkisstjórnargera hann heldur. Ríkisstjórnarflokkunum verður varla bjargað úr þessu. Afhroð þeirra í næstu kosningum verður hrikalegt. Ekki fer allt fylgið á vinstri græna. Nýir flokkar munu rísa.

Krafan um nýtt lýðveldi er góðra gjalda verð en því miður alveg óraunhæf. Stjórnlagaþingi verður ekki komið á bara sisvona. Við núverandi aðstæður ætti samt að vera hægt að koma ýmsum endurbótum í stjórnmálum og á kosningafyrirkomulagi í gegn.

Einhverntíma kom það til umræðu vegna spurningar í spurningaþætti að þónokkur hluti fólks virðist standa í þeirri meiningu að Ísland hafi orðið sjálfstætt ríki við lýðveldisstofnunina árið 1944. Þetta er að mínum dómi hin mesta firra.

Ísland er búið að vera sjálfstætt ríki frá fyrsta desember 1918. Í fyrstunni fóru Danir með utanríkismál fyrir Íslendinga og löndin höfðu sameiginlegan konung. Þetta samkomulag átti að endurskoða eftir 25 ár. Í heimsstyrjöldinni 1939 - 1945 fór þetta samkomulag út um þúfur. Sveinn Björnsson var skipaður ríkisstjóri árið 1941 og fór einkum með vald það sem konungur hafði áður haft. Hann skipaði utanþingsstjórn árið 1942 og árið 1944 var lýðveldi stofnað að Þingvöllum 17. júní. Þar var Sveinn kjörinn forseti landsins og sat sem slíkur til 1952. Þá var Ásgeir Ásgeirsson kjörinn forseti eftir harða baráttu við séra Bjarna Jónsson vígslubiskup. Árið 1968 sigraði Kristján Eldjárn tengdason Ásgeirs Gunnar Thoroddsen og árið 1980 var Vigdís Finnbogadóttir kjörin forseti og Ólafur Ragnar Grímsson síðan árið 1996.


581. - Búsáhaldabyltingin heldur áfram

Fór á Austurvöll í dag. Vor í lofti. Á leiðinni var samt kaldur næðingur en skjól og fínt veður á vellinum sjálfum. Hef ekki séð annan eins fjölda fólks þar á mótmælafundi áður. Ræðurnar voru góðar. Sú besta síðast. Guðmundur Andri var verulega góður. 

Það er vandratað meðalhófið og ómögulegt að segja hvernig mál þróast hér næstu vikurnar. Nú fyrst hefur maður á tilfinningunni að farið sé að hlusta á mótmælendur. Þó hávaði sé í lagi mæli ég ekki grjótkasti né piparúða bót. Von er til þess að ástandið fari batnandi.

Mér finnst gott að svona margir hafi mætt á mótmælin í dag. Ummæli Harðar Torfasonar um Geir Haarde voru óheppileg. Þeir sem eru á móti þessum samkomum reyndu eftir mætti að ófrægja Hörð fyrir þetta og fá sem flesta til að hætta við að mæta. Það tókst ekki.

Ég man þá tíð að fjölmiðlar allir hér á landi studdu Ísraela í baráttu þeirra við vonda múslima. Nú styðja allir fjölmiðlar aumingja Palestínumennina og er það að vonum. Ferðamálafrömuður einn opnaði augu margra fyrir því að Palestínumenn kynnu að hafa eitthvað til síns máls í gagnrýni sinni á Ísraela. Þá flutti hann útvarpserindi sem margir tóku eftir. Kannski var þetta í upphafi sex daga stríðsins eða einhvers annars stríðs. Fram að þeim tíma höfðu fjölmiðlar hér á landi ávallt tekið málstað Ísraela.

Svona breytast viðmiðin. Davíð Ben Guríon kom hingað í heimsókn einhverju sinni og sagði eitthvað ljótt um Jesú Krist og allt ætlaði vitlaust að verða. Á þessum tíma þótti plakat eitt af Goldu Meir rosalega fyndið. Þar stóð uppá ensku: "Yes, but can she type?"

Að einhverju leyti held ég að ástandið fyrir botni Miðjarðarhafs sé bæði Palestínumönnum og Ísraelum að kenna. Hegðun Ísraela á Gasa-svæðinu núna er þó ekki í neinu samræmi við tilefnið. Ekki ætla ég mér þá dul að segja til um hvernig á að leysa þetta mál. Það er alltof einfalt að skipa sér bara í aðra fylkinguna og gera hróp að þeim sem eru á annarri skoðun.


580. - Hallgrímur barði bílinn

Fræg undirskrift á jólakort var svohljóðandi „Ásta, Barði, Börnin." Nú má segja: „Hallgrímur barði bílinn." Já, það er sagt að hann hafi danglað í rúðuna hjá Geir um daginn. Pólitísk tíðindi gerast nú svo hratt að það er næstum tilgangslaust að blogga um þau. Ég var að hugsa um að fara á Austurvöll á morgun (laugardag) en veit ekki hvað verður úr því. Hvers verður krafist? Verða kröfur ekki strax úreltar? Hallgrímur Helgason er að verða aðaltalsmaður mótmælenda og taka völdin af Herði. Hvar endar þetta eiginlega?

Kosningar eru á döfinni. Flokkarnir í uppnámi. Allt í hers höndum. Ómögulegt er að segja til um fylgi flokka fyrr en framboðslistar liggja fyrir. Gömlu þingmönnunum verður flestum hafnað. Þeir flokkar sem ekki skynja breytta tíma verða skildir eftir. Og ríkisstjórnin. Situr hún áfram? Er hún ekki löngu orðin ónýt með öllu?

Nýr ósiður er að ryðja sér til rúms hér á Moggablogginu. Það er ofnotkun á skilaboðakerfinu. Það er óþarfi að senda öllum sínum bloggvinum tilkynningu um að ný bloggfærsla hafi verið gerð. Til þess er bloggvinakerfið. Nýlegar blogg-greinar eiga að vísu til að birtast þar aftur og aftur að tilefnislausu. Veit ekki af hverju. Það ættu blogg-guðirnir að athuga. Mér finnst skilaboðakerfið eiga að vera til að senda bloggvinum sínum orðsendingu ef ástæða er til. Núna er engin leið að sjá hvort skilaboðin eru einstök eða í heildsölu.

Ég er alltaf að reyna að hætta að blogga um tíðindi dagsins. Hér er uppfærsla á listanum um afbökuð orðtök. (nokkur ný)

Hann kom eins og þjófur úr heiðskíru lofti.
Hann lenti milli steins og steggja.
Róm var ekki byggð á einni nóttu.
Það er ekki hundur í hættunni.
Betra er að hafa vaðið fyrir ofan sig.
Þar kom horn úr hljóði.
Þegar í harðfennið slær.
Þetta er nú ekkert til að hlaupa húrra yfir.
Þið eruð eitthvað svo spænskir á svipinn.
Ekki fyrr en eftir djúpan disk.
Láttu ekki slá um þig. Þú gætir forskalast.
Hann steig ekki feilnótu í leiknum.
Það þýðir ekkert að efna og efna, en lofa svo aldrei neinu.
Að hellast úr lestinni.
Svo lengist lærið sem lífið.
Að bera í blindfullan lækinn.
Að slá tvö högg með einni flugu.
Hann sendi mér augntotur.
Sjaldan launar kálfur ofbeldið.
Að slá sjö flugur í sama höfuðið.
Fyrir neðan allan þjófabálk.


579. - Er allt að fara til fjandans?

Stjórnmálin eru að yfirtaka bankahrunið. Það er farið að skipta miklu máli hvernig mótmælendur haga sér. Hvort sótt verður um aðild að Evrópusambandinu fljótt, nú eða strax. Hvenær landsfundir verða og þess háttar. 

Svo er verið að nota sér fyrirlitninguna á útrásarvíkingum og stjórnvöldum til að koma á löngu tímabærum lagfæringum á stjórnskipulagi. Sem er hið besta mál. Gæti samt orðið stjórnmálunum að bráð. Stjórnmálaskoðanir skipta mestu máli. Flokkarnir vilja endilega halda sínu. Siðbót er samt að verða í stjórnmálum. Fylgi á eftir að breytast verulega. Breytingar á hugarfari eru miklar. Fólk er hætt að láta teyma sig eins og lömb til slátrunar.

Hvar endar þetta eiginlega með útsölurnar? Ég þori helst ekki að kaupa nokkurn skapaðan hlut nema hann sé að minnsta kosti með 80 prósent afslætti.

Bloggskrif eru ekki samkeppni um að hafa sem hæst og vera sem orðljótastur. Þetta hef ég reynt að hafa að leiðarljósi í mínum skrifum. Líka reyni ég að hafa skrif mín ekki óþarflega löng.

Í mannkynssöguprófi hjá Séra Helga Sveinssyni átti ég eitt sinn að endursegja efni Ódysseifskviðu og talaði meðal annars um að Ódysseifur hefði komist heim fyrir rest. Rest fannst Séra Helga gott orð í þessu sambandi og skrifaði neðst á prófblaðið:

Heim er komst hann fyrir rest
konan hafði hjá sér gest.

Einu sinni var Ólafur Ragar Grímsson ungur og beittur. Ég man vel eftir bankaþættinum hans í sjónvarpinu. Þar ræddi hann með tveimur hrútshornum við bankastjóra þess tíma. Flestir urðu þeir fýldir við og svöruðu litlu. Jónas Haralz tók þó mælgina í ÓRG alvarlega og reyndi að kenna honum svolitla hagfræði. Þáttur þessi hlýtur að vera til í safni sjónvarpsins og gaman væri að sjá hann aftur eða hluta úr honum.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband