Bloggfærslur mánaðarins, maí 2017

2611 - Sundabraut o.fl.

Alveg síðan 1984 hafa alþingismenn, borgarstjórnarfólk og fleiri sem þykjast eiga eitthvað undir sér ráðslagað fram og aftur um Sundabrautina svokölluðu. Ekkert bendir þó til að hún sé nokkuð nær því að verða að veruleika nú, en árið 1984. Sjálfum finnst mér að þessi framkvæmd yrði alveg gagnslaus ef ekki væri hægt með henni að losna við hringtorgin óteljandi í Mosfellssveitinni og við hana. Ef hugmyndirnar núna snúast einkum um það að koma sér sem allra fyrst aftur á hringtorgin (sem nóg er af) finnst mér verr af stað farið en heima setið.

Alltaf harðnar á dalnum hjá Trump greyinu. Nú er því haldið fram að Jared Kushner tengdasonur hans hafi viljað fá að hafa beint samband við Kreml frá Rússneska sendiráðinu í Bandaríkjunum. Þetta rússadekur hjá Trump virðist verða æ alvarlegra eftir því sem á líður. Helst er að sjá að stórblöðin Washington Post og New York Times séu í einhvers konar keppni um það að flytja fréttir af öllu mögulegu sem kemur Trump illa og lekamálin blandast óneitanlega inn í þetta.

Í gær eða fyrradag voru 26 eða 28 egyptar myrtir í rútu sem skotið var á. 25 held ég að hafi komist undan á flótta. Fjölmiðlar og ýmsir fleiri segja lítt frá þessari frétt, enda uppteknir af öðru. Kannski eru fjöldamorð og hermdarverk allskonar að aukast. Hvað veit ég? Get varla sagt frá öðru en því sem fjölmiðlar halda að mér. Auðvitað legg ég minn skilning í allt sem ég les. Líka það sem Björn Birgisson í Grindavík skrifar. Les oft það sem hann lætur frá sér fara, þó ég læki það sjaldan.

Annars virðist veðrið ætla að verða nokkuð gott um land allt þessa helgina, svo kannski er bara best að koma þessu frá sér sem fyrst og hvetja þá sem álpast hafa til þess að lesa þetta til að gera eitthvað þarfara og láta tölvuna eiga sig.

001Einhver mynd.


2610 - Costco (hvað annað?)

Lögreglan í Manchesterborg kvartar undan því að fá ekki að stjórna upplýsingagjöf frá hermarverki því sem framið var þar í borg síðastliðið mánudagskvöld. Skiljanlegur er pirringur lögreglunnar yfir því að t.d. nafni hermdarverkamannsins var lekið til Bandarískra fréttamiðla löngu fyrr en Manchesterlögreglan hefði viljað. Samt er það svo að erfitt er að stjórna félagslegu miðlunum og nöfn fórnarlamba og ýmsar upplýsingar um þennan mikla glæp hljóta að dreifast með öðrum hætti en lögreglan vill. Við engan er að sakast hvað það snertir.

Sjaldan lýgur almannarómur. Segir máltækið. Eftirminnilega sannaðist þetta þegar Costco fór að selja bensín. Löngu áður en sú sala byrjaði voru upplýsingar um væntanlegt verð farnar í dreifingu meðal almennings. Ekki varð það samt til þess að einokunaraðilarnir leiðréttu verðið og þeir segjast ekki ætla að gera það. Auglýsingaherferð fer sennilega í gang fljótlega þar sem mikil áhersla verður lögð á ímyndaða og raunverulega þjónustu olíu(okur)félaganna. Gott ef hún er ekki þegar hafin.

Sumir foreldrar segja að þeir eigi erfitt með að afbera að geta ekki veitt barni sínu það sama og nágrannarnir. Mín skoðun er sú (og ég er að verða 75 ára) að efnahagur foreldra skipti börn sáralitlu máli. Þau skilji vel að ríkidæmi fólks er misjafnt. Hinsvegar má búast við að snobb, fordómar og einelti skipti börnin miklu meira máli þó þau eigi hugsanlega mun verr með að koma því í orð.

 „Fötin skapa manninn“, segir máltækið. Held reyndar að það sé hin mesta vitleysa. Hefðirnar skapa fötin og fötin skapa hefðirnar. Mikið er reynt að lesa í það að eiginkona Trumps bandaríkjaforseta hafi verið með slæðu og svartklædd þegar hún hitti páfann en ekkert slíkt þegar hún heilsaði uppá kóginn í Saudi Arabíu. Ég leyfi mér að halda því fram að ekkert sé hægt að lesa í þetta. Páfinn var að sjálfsögðu í hvítum skósíðum kjól, en ég man ekki hvernig kóngurinn var til fara á þeim myndum sem ég hef séð frá þessum merka atburði. Eflaust þó sérkennilega á okkar bandaríska mælikvarða.

Mjög er nú í tísku að hallmæla Costco og þeim sem eru svo vitlausir að fara þangað. Bæði á þetta sér stað á Fésbókinni og víðar. Jón Trausti Reynisson skrifar t.d. óvenju vitlausa grein í þessa veru á Stundina sem ekki er annað en samsafn af ofnotuðum klisjum. Hann á það þó til að skrifa ágætar greinar. Ef fólk vill endilega borga meira en minna fyrir vörur svona almennt, þá finnst mér ekki ástæða til að amast við því. Sá sparnaður sem hugsanlega er fólginn í því að versla við Costco kann þó að vera ofmentinn í mörgum tilfellum.

002Einhver mynd.


2609 - Pythagoras

„Mikil er trú þín, kona“. Var einhverju sinni sagt. Nú ætlar Trump sjálfur að koma á friði í Miðausturlöndum með vinstri hendinni. Ekki hef ég trú á að það takist. Samt er ekki bannað að vona. Annars eru andstæðingar Trumps þegar farnir að ásaka hann (ef til vill með réttu) um að vera með þessu flandri að flýja vandræðin heima fyrir. Gott ef hann er ekki önnum kafinn við að safna glóðum elds að höfði sér. Nú er Trumpkaflanum lokið hjá mér.

Og þá tekur Pythagoras við. Pythagorasarreglan er yfileitt fyrsta (og jafnvel eina) formúlan sem skólakrakkar þurfa að læra. Sagt er að Pythagoras hafi fengið þessa formúlu að láni frá Kínverjum en um það veit ég ekkert. Hún er samt kennd við hann.

Þó sumum skólakrökkum hafi gengið hálfilla að tileinka sér Pythagorasregluna þá er hún ósköp einföld og auðskilin. Iðnaðarmenn allflestir þurfa að læra hana til þess að geta fundið út rétt horn eða nákvæmlega 90 gráður. Kannski kalla þeir hana og hugsa um hana sem 3-4-5 regluna enda vill svo heppilega til að ef þær tölur eru notaðar er auðvelt að finna rétt horn.

Í sinni einföldustu mynd er reglan þannig: Í rétthyrndum þríhyrningi gefur það sömu töluna ef langhliðin er sett i annað veldi og ef skammhliðarnar báðar eru hafðar í öðru veldi og lagðar saman. Pythagorasi fannst þetta að sjálfsögðu afar einfalt og vildi helst hafa allt í náttúrunnar ríki jafneinfalt. Arkimedes var aftur á móti á annarri skoðun og vildi ekki binda sig við þessa þrískiptingu alls. Hegel með sínar tesur antitesur og syntesur hefur e.t.v. verið undir áhrifum frá Pythagorasi. Þetta síðasta er frá mér sjálfum komið og kannski tóm vitleysa.

Um þetta alltsaman var einu sinni gerð vísa. Við Miðskólann í Hveragerði var það haft fyrir satt að hún væri eftir Hvergerðing:

Ef spurningin skyldi skella á mér
skeð gæti verið ég teldi.
Langhlið í öðru jafnt skammhliða skver
og skammhlið í öðru veldi.

Sagt er að yfir 2000 milljónir manna skoði Fésbókina í hverjum mánuði. Nýlega kynnti Sykurbergur sjálfur og aðstoðarfólk hans nýtt app sem hengt er á Fésbókina til að senda videómyndir úr símanum sínum beint á Fésbókina. Sjálfsmorð í beinni eru að verða vinsæl meðal amerískra unglinga að sumra sögn.

Ríkisstjórnarflokkarnir vilja umfram allt binda hendur þingsins sem alltaf lætur illa þegar fjárlög eru til umræðu. Þessvegna er það sem fjárhagsáætlun til 5 ára er kynnt núna. Stjórnarandstöðunni finnst það vera skylda sín að vera sem mest á móti þessu og talar og talar. Stjórnarþingmenn þegja hins vegar þunnu hljóði. Liðsskiptingin sem er við lýði á alþingi Íslendinga er versti dragbítur á alla starfsemi þess. Ríkisstjórnin hrifsar sífellt til sín meiri og meiri völd. Alþingi á samt að ráða ýmsu. T.d. fjárveitingum öllum. Mér finnst samt að ráðuneytin og ráðuneytisstjórarnir ráði flestu. En Guðni vill engu ráða.

IMG 1626Einhver mynd.


2608 - Hvaða þjóðir eru í kjarnorkuklúbbnum?

Þegar síðari heimsstyrjöldinni lauk voru Bandaríkjamenn þeir einu sem höfðu yfir kjarnorkuvopnum að ráða. Rússar eða nánar tiltekið Sovétmenn komu sér samt upp slíkum vopnum fljótlega og við tók svokallað „ógnarjafnvægi“. Hvorugt heimsveldið vildi styggja hitt svo mikið að það færi að beita kjarorkuvopnum. Menn hræddust kjarnorkuvopnin mjög í kalda stríðinu svokallaða.

En svo hrundu Sovétríkin innanfrá og eftir það hafa Bandaríkjamenn litið á sig sem nokkurs konar alheimslögreglu. Donald Trump, þó siðblindur sé, er e.t.v. treystandi til þess að beita ekki vopnum af þessu tagi, en í framtíðinni er næstum áreiðanlegt að kjarorkuógnin mun mæta mannkyninu.

Auðvitað hefði eftirlit með smíði kjarnorkuvopna orðið einfaldara ef Sameinuðu Þjóðirnar hefðu haft slíkt eftirlit með höndum. Skipan öryggisráðsins hefur því miður tryggt að svo er ekki.  

Nú til dags held ég að 8 þjóðir séu í kjarnorkuklúbbnum: Bandaríkjamenn, Rússar, Bretar, Frakkar, Ísraelar, Indverjar, Pakistanir og Kínverjar. Held endilega að Þjóðverjar og Japanir kæri sig ekki hót um slík vopn. Ekki er ég þó viss um þetta því yfirleitt er lítið talað um þessi mál opinberlega.

Samfara aukinni almennri þekkingu og fjölgun mannkyns er næstum áreiðanlegt að í framtíðinni mun þessum ríkjum fjölga. Satt að segja held ég að Úkraínumenn og Hvítrússar kunni nú þegar að ráða yfir kjarnorkuvopnum vegna fyrrverandi stöðu sinnar innan Sovétríkjanna og efalaust er það rétt sem sagt er að Íran og Norður-Kórea vilji fyrir hvern mun komast yfir vopn af þessu tagi. Séu þau fáanleg á svörtum markaði er ég næsta viss um að Saudi Arabía mundi líka vilja kaupa.

Ef litið er hlutlaust á málið er ekki hægt að komast hjá því að álíta að úr því engin alheimsstjórn af nokkru tagi er til hljóti öll ríki að eiga jafnan rétt á því að verja sig fyrir árás og þá t.d. með kjarnorkuvopnum. Að vísu er stundum talað um alþjóðasamfélag, en ég veit ekki til þess að til sé óumdeilanleg skilgreining á því hvernig það er myndað. Ef allar þjóðir sameinast gegn einni á þessu sviði er samt vart hægt að afneita því.

Eftir að Bandaríkjamenn undir forystu Obama sömdu við Írani má segja að helsta ógnin af þessu tagi stafi frá Norður-Kóreu. Ekki yrði ég hissa þó Bandaríkin réðust á það land. Áður yrði þeir þó að tryggja að Kínverjar og Rússar færu ekki að skipta sér af málum þarna. Hvort KIM JONG UN mundi þá beita margumtöluðum vopnum er engin leið að segja.

IMG 1628Einhver mynd.


2607 - Er grasið grænna hinum megin?

Á margan hátt stöndum við Jarðarbúar (eða a.m.k. Vesturlandabúar og í sívaxandi mæli aðrir) á þröskuldi nýrrar tækni. Tölvubyltingin er rétt að byrja. Fyrir einum mannsaldri voru tölvur næstum óþekkt fyrirbrigði. Á þeim næsta og sennilega miklu fyrr má búast við því að tölvur og samskipti þeirra á milli muni stjórna lífi flestra. Einhverjum mun þó takast að skjóta tölvum heimsins ref fyrir rass, en þeir verða ekki margir. Flestir verða meira og minna háðir þeim stórfyrirtækjum sem tekist hefur best upp í því að gera tölvurnar sér háðar. Auðæfi Bill Gates munu verða eins og krækiber í Helvíti samanborið við ríkidæmi Sykurbergja þeirra sem enn eiga eftir að láta ljós sitt skína. Tæknin og tölvurnar munu snúast sífellt hraðar og hraðar og þeir sem ekki fylgja þeim hraða munu verða útskúfaðir.

Við dauðlegir menn munum flestir snúa okkur að íþróttum og þess háttar eins og við höfum lengi gert. Auðvelt virðist vera að telja mönnum trú um að íþróttir og þó einkum boltaleikir allskonar skipti meira máli en flest annað. Í sífellt auknum mæli munu sjálfvirk tæki sjá um allt sem máli skiptir. Þetta er svosem ekkert nýtt og lengi hafa menn haft þessa trú. Áhersla manna á mat og hverskonar hollustu mun og aukast og flestir starfa við eitthvað sem því eða tölvum tengist.

Allir eru uppfullir af sögum um hve íslenskir kaupmenn séu miklir svindlarar. En er grasið nokkuð grænna hinum megin? Vissulega er matarverð hátt hér á landi. Sumt er samt ódýrara og einfaldara hér í frostinu. T.d. getur veðrið líka verið slæmt í útlandinu. Jafnvel kunna að leynast þar svindlarar og glæpamenn. Sennilega er ég orðinn of gamall til að flýja land. Mér var nefnilega sagt í fyrndinni að hér drypi smjör af hverju strái. Að vera svona „fjarri heimsins vígaslóð“ er nefnilega að sumu leyti ómetanlegt. Þó Jónar Ásgeirar og Ólafar Ólafssynir séu helst til margir hér um slóðir eru þeir ekki vitund hættulegir. Taka í mesta lagi frá okkur peninga (sem við erum kannski hætt að nota). Nú hef ég líklega sagt of mikið. Vinstri slagsíðan kann áreiðanlega ekki að meta þetta. Kannski er bara best að hætta.

Brúðkaup í Bretlandi eru spennandi fyrir þær sakir að þau snúast yfirleitt um það hverjum tekst að vera með sérkennilegasta og asnalegasta hattinn. Venjulega eru þau líka haldin í smáþorpi og þátttakendurnir þykjast vera að fela sig fyrir fjölmiðlum en vilja þó ekkert frekar en að þeir fylgist sem best með öllu.

Nú er búið að útbúa leikvöll fyrir kartöflusjúka Akurnesinga og við fórum þangað áðan og erum búin að mæla fyrir beðum o.þ.h. Eigum bara eftir að stinga útsæðinu niður. Og síðan tekur arfareytingin við. Vitum ekki ennþá hvernig útsæðið plumar sig og ekki heldur hvernig það dugar. Hér innanhúss er tómatræktun o.þ.h. komin á fullt.

Skil ekki almennilega hvernig mönnum sem sáu um sýninguna í Laugardalshöll núna um helgina datt í hug að nefna hana ensku nafni en ekki íslensku. Sem þó hefði verið vandalaust. Kannski er ég bara svona gamall og úreltur, en ég get ekki að þessu gert.

IMG 1634Einhver mynd.


2606 - Trump og skák

Er nýkominn heim eftir vikudvöl í sumarhúsi við Flúðir. Enginn vírus og ekki neitt í tölvunni. Því hafði ég samt alveg eins búist við eins og fréttirnar eru búnar að vera. Allt við það sama semsagt. Auðvitað hef ég ekki skrifað eða bloggað neitt á þessu tímabili. Er að fylgjast með sólsetrinu núna. Sólin sest næstum (eða alveg) í norðri og kemur svo upp nokkru seinna þegar hún er farin að nálgast austrið. Annars var ég hálfruglaður í áttunum í sumarhúsinu. Vildi helst láta stofugluggann snúa í suður en hann sneri víst nokkurnvegin í norður. Venjulega á ég eða átti auðvelt með að rata í útlendum borgum. Nú er sú gáfa víst að yfirgefa mig eins og svo margt annað.

Trump greyið er í mestu vandræðum. Kannski getur hann samt klórað sig frammúr þessu. Þetta sem hann hélt fram um Obama og símahleranirnar gæti hafa verið misskilningur. Óútskýrt er þó af hverju hann beið svona lengi með að reka Flynn. Brottrekstur hans á Comey gæti átt eftir að koma honum í koll. Pressan (svotil öll) er á móti honum og virðist bíða eftir því að hann geri sem mestar bommertur í þeirri ferð sem hann var að leggja af stað í. Á flestan hátt er Trump með öllu óhefðbundinn forseti og það vill Pressan ekki sjá. Forsetar eiga að vera sem fyrirsjáanlegastir. Þá er nefnilega svo auðvelt að spá í framtíðina og þykjast vera voða gáfaður.

Á Flúðum er garðyrkjustöð sem Melar heitir. Þar er hægt að fá gúrkur, tómata og ýmislegt fleira án þess að þar sé nokkur við afgreiðslu. Menn treysta einfaldlega á það að langflestir séu nógu heiðarlegir til að setja rétta upphæð í baukinn sem þar er til taks. Svo er eflaust, en þeir sem reka staðinn ættu þá að vera nógu heiðarlegir sjálfir til að gæta þess að setja ekki gamalt og skemmt grænmeti saman við það nýlega. Svo er þó ekki. Einn tómatur sem ég keypti þar á fullu verði var farinn að mygla og því býst maður ekki við á svona stað.

Venjulega hef ég svona 10 til 12 bréfskákir í gangi hverju sinni. Sinni þeim meðfram öðru Internetbrölti eins og hverjum öðrum hraðskákum en þegar ég fer í frí tapa ég þeim auðvitað öllum. Gæti samt sennilega beðið um einskonar sumarfrí þar en nenni því ekki. Þessvegna eru ELÓ-stigin ekki sérstaklega mörg hjá mér. Já, já. Auðvitað er þetta einskonar afsökun hjá mér vegna þess að á Chess.com eru líklega margir skákmenn og sumir þeirra kannast kannski við mig og finnst ég með óeðlilega fá ELÓ-stig. Þetta er semsagt skýringin. Ég þykist með öðrum orðum vera betri en þetta.

IMG 1635Einhver mynd.


2605 - Þorsteinn Dalasýslumaður og bókasafnari

Við erum summan af meðfæddum hæfileikum okkar ásamt því sem við kunnum, vitum og getum. Þessvegna er það sem hundar geta til dæmis ekki lesið eða keyrt bíl. Þetta er ákaflega spakleg hugsum. Næstum því spakmæli.

Nú þegar hafa langt yfir 13 séð kvikmyndina. Hún var frumsýnd á Frakkastígnum þann átjánda janúar síðastliðinn og verður frumsýnd fyrir austan fjall á fimmtudaginn. Við ætlum síðan að bjóða hana víðar og búast má við heimsfrumsýningu í haust og jafnvel Íslandsfrumsýningu ef vel gengur. Frumsýningar gætu alls orðið svona 15. Satt að segja látum við okkur ekki dreyma um meira. Almennar sýningar eru alveg útúr myndinni. Þessi mynd fjallar um árekstra sem verða milli rútubílstjóra og járnabindingamanns úr Gnúpverjahreppi og er satt að segja mjög athyglisverð. Hið listræna gildi myndarinnar hefur ekki verið dregið í efa og þó e.t.v. sé vart hægt að búast við því að kostendur hennar endurheimti með vöxtum framlag sitt, hefur henni verið afskaplega vel tekið af áhorfendum.

Auðvitað er ég með þessu að gera grín að mörgum fréttatilkynningum. Oft fjalla þær einkanlega um það sem einhverjir ætla að gera. Ekki svo mikið um það sem gert hefur verið. Auðvitað gerist ekkert nema fólk ætli sér það. Stundum verður samt minna úr fyrirætlunum en efni standa til. Fréttaefni ætti þó að vera nóg þó fyrirætlanir séu látnar í friði. Oft er þetta vegna þess að fréttafólki finnst of mikið af neikvæðum fréttum. Ætlanir eru oftast jákvæðar og þess vegna rata þær sennilega oft í fréttir hjá fjölmiðlum.

Ofsalegt er á mér stuð
sem ei er þörf að lýsa.
Ekkert minnsta agnar puð
er mér þessi vísa.

Þessi samsetningur kom mér af einhverjum ástæðum í hug rétt áðan. Og það sem meira er, ég held endilega að hún sé eftir mig sjálfan. Já, það kemur alveg fyrir að ég geri ágætar vísur. Til að vísa nái flugi þarf samt eitthvað meira til, en að hún sé sæmilega gerð. Veit ekki hvað það er, en ekki fer það eftir því hver hefur samið hana. Samt getur það orðið til hjálpar. T.d. hef ég ekki hugmynd um eftir hvern þessi vísa er:

Fallega Þorsteinn flugið tók
fór um himna kliður.
En lykla-Pétur lífsins bók
læsti í skyndi niður.

Þetta var mér sagt að hefði verið ort um Þorstein Dalasýslumann þegar hann dó. Sagt var um hann að hann skilaði sjaldan bókum sem hann hefði fengið lánaðar. Þó ég hafi enga hugmynd um hver hafi ort þetta held ég að þessi vísa hafi verið á flestra vörum afar fljótlega. Sjálfur hef ég yfirleitt lítinn áhuga á að vita eftir hvern vísur eru, en sumir vilja umfram allt vita það.

IMG 1639Einhver mynd.


2604 - Væpandi vælukjóar

Var búinn að semja algjört tímamótainnslag og það átti að heita þetta. Það man ég þó. Týndi því bara sisvona. Veit ekki hvert það hefur farið ef það hefur farið eitthvað en ég kann greinilega ekki nógu vel á Word til þess að finna það aftur. Man ekkert hvað ég skrifaði í þessu úrvals bloggi mínu.

Þetta með væpandi vælukjóa er samt áreiðanlega eitthvað sem ég hef skrifað um rafrettur. Sennilega hefur það verið afskaplega gáfulegt. Mig minnir að það hafi verið eitthvað um það að e.t.v. sé sú hætta fyrir hendi að það þyki fínt að væpa. Rafretturnar munu þá breiðast út með örskotshraða. Annars er ég löngu hættur að reykja og sé ekki eftir því. Næst verður það sennilega kaffið. Finnst endilega að ég þurfi ekkert á því að halda.

Einnig skrifaði ég eitthvað um Berg Ebba Benediktsson, en hann hef ég víst skrifað um áður útaf greinum hans í Fréttablaðinu. Nú er hann að ég held búinn að skrifa bók og gott ef hún heitir ekki „Stofuhiti“. Þarf endilega að lesa þá bók.

Annað hefur kannski ekki verið neitt ákaflega merkilegt. A.m.k. man ég ekki eftir því. Sennilega hef ég bara verið með einhverjar lítt gáfulegar athugasemdir um veðrið og tíðarfarið. Veðrið er annars ágætt núna þó spáð sé að heldur fari kólnandi.

Með sigri Macrons í frönsku forsetakosningunum má segja að sókn þjóðernissinnaðra hægri afla í hinum vestræna heimi hafi verið stöðvuð. A.m.k. í bili. Macron verður samt að standa sig vel og standa við eitthvað af sínum kosningloforðum ef það á að haldast. Næsta prófraun fyrir hann eru þingkosningar í Frakklandi í júní næstkomandi. Og fyrir þann tíma þarf hann að koma saman ríkisstjórn. Fyrirkomulagið þarna er líkt því í USA. Forsetinn ræður miklu en verður samt að hafa samráð við þingið um ýmis mál. Hollande var óvinsæll og Fillon lenti í hneykslismáli.

Kannski ég drífi mig í að koma þessu út í eterinn áður en það týnist. Íslendingar eru enn á lífi í handboltanum eftir nauman sigur á Makedóníumönnum.

IMG 1644Einhver mynd.


2603 - Munnapar

Var ekki allt betra í gamla daga? Eiginlega er ég ekki þeirrar skoðunar þó ég sé kominn á efri ár. Þetta sífellda nöldur útí allt og alla er að drepa allar framfarir. Samt finnst mér að sú endurbót sem orðið hefur skili sér fremur illa í kosningum. Ekki finnst mér samt undarlegt þó fylgi Sjálfstæðisflokksins sé talsvert mikið. Spurningin er bara hvað við köllum mikið. Að sumu leyti er hann sá flokkur sem leitast mest við að aðlaga sig skoðunum fjöldans. Það gera hinir flokkarnir miklu síður. Þeir reyna að aðlaga fjöldann að sínum skoðunum. T.d. er ég viss um að Bjarni Benediktsson er í hjarta sínu ESB-sinni þó ekki sé vert að flíka því að sinni. Sömuleiðis er Katrín Jakobsdóttir í hjarta sínu andvíg kommúnisma, a.m.k. eins og hann birtist okkur í Sovétríkjunum sálugu. Vinstri grænir hafa þó aldrei getað þvegið að fullu af sér kommúnistastimpilinn.

Alþjóðlegi hurðarhúnsdagurinn var einhverntíma í gær. Sennilega um þrjúleytið GMT. Dagarnir í árinu eru nefnilega orðnir allof fáir. Hugsanlega verður að fjölga þeim verulega. Verðbólgan sem víðast hvar grasserar hefur nefnilega ekki ennþá náð til dagatalsins. Sennilega verður skipuð nefnd (eða starfshópur) fljótlega til að rannsaka þetta mál út í hörgul.

Kvikmyndin um skagfirsku mótmælasveitina (söngsveitina) sýndi svo ekki verður um villst að máttur hreyfimyndarinnar getur verið mikill þegar um áróðursgildi er að ræða. Margt er hægt að segja um klippingar, props, tímalínu, sviðsmyndir og þess háttar í myndinni og þó forstjóri Landsnets reyndi að malda eitthvað í móinn í Kastljósi daginn eftir var það alveg máttlaust í samanburðinum. Orð, greinar og þess háttar á fésbókinni og víðar falla líka alveg í skuggann. Það jákvæðasta sem hægt er að segja um mótmælin er að þau hafa tafið allar framkvæmdir og stjórnendur Landsnet virðast vera farnir að hugsa aðeins öðruvísi en áður. Fjandskapurinn við Akureyri og Akureyringa getur tekið á sig ýmsar myndir.

Reiðarekskenningin. Sumir eru fyrir að láta allt reka á reiðanum. Treysta að þeim leggist eitthvað til áður en í mikið óefni er komið. Viðurkenni alveg að ég er hallur undir þetta sjónarmið. Reyni samt að reagera a.m.k. stundum í tæka tíð. Skylt þessu er hinn svokallaði valkvíði. Það að geta helst ekki tekið neinar ákvarðanir meðan hugsanlegt er að eitthvað verði til þess að ákvörðunin taki sig sjálf eða einhverjir aðrir geri það. Stundum er ekki nóg að allir aðrir bíði eftir að þessi ákvörðun sé tekin það er bara ómögulegt að taka hana. Þessi veikleiki getur verið á hvaða sviði sem er og fræðimönnum kemur sennilega fátt á óvart í því efni.

Var áðan að hlusta á umræður á alþingi. Heyrðist einhver vera að tala um mannapa. Kannski var það vitleysa. Í framhaldi af því fór ég að hugsa um Sult eftir Knud Hamsun. Þá bók las ég fyrir margt löngu. Söguhetjan þar fann upp nýtt orð. Orðið var „kúbúá“. Þá átti hann bara eftir að finna merkinguna. Man ekki hver hún var. Kannski kom það ekki fram í bókinni. Þó ég sé alls ekki að líkja sjálfum mér við Hamsun vildi svo til að hugsun mín fór afturábak og í staðinn fyrir mannapi fann ég upp nýtt orð og merkinguna líka. Þetta er orðið „munnapi“ reyndar veit ég ekkert um hvort það hefur komið fram áður og hvað merkinguna snertir ætla ég að sleppa því að minnast á hana hér.

IMG 1661Einhver mynd.


2602 - Proppé

Einhvern vegin er það svo að maður les aldrei nógu mikið. Hvort sem það er á netinu eða utan þess. Að mestu leyti er ég hættur að lesa bækur. Nema þær sem ókeypis eru á kyndlinum. Annars fer ég reglulega á bókasafnið. Svo er ég ekki nærri nógu fljótlesinn. Ég er t.d. að lesa einhverja ógnarlanga kyndilbók þessa dagana um Titanic. Mest er það nú reyndar um smíðina og þessháttar á þessu ógnarstóra skipi sem frægt varð fyrir það einkum að sökkva í jómfrúarferð sinni árið 1912.

Kannski veitir Viðreisn Sjálfstæðisflokknum eitthvert aðhald, ég veit það ekki, en um íhaldssemi þess flokks þarf ekki að efast. Björt framtíð hefur með hjónabandi sínu við Viðreisn kannski aukið áhrif sín. Trúverðugleiki og traust hefur samt minnkað eins og skoðanakannanir bera með sér. Framsóknarflokkurinn er alls ekki sá flokkur sem hann hefur stundum verið. Ef til vill verður Lilja Alfreðsdóttir bjargvættur flokksins. A.m.k. eru engar líkur til þess að Sigurður eða Sigmundur verði það. Samfylkingin mun hugsanlega lagast eitthvað, en áfram má búast við flokkadráttum á vinstri vængnum.

Enn hef ég þá trú að Óttar Proppé vilji gera vel. Hann á sennilega í höggi við þá starfsmenn heilbrigðisráðuneytisins sem öllu vilja ráða. Ég er allsekki viss um að hann vilji endilega hafa heilbrigðismálin eins og verið hefur. Sennilega hefur hann engin úrslitaáhrif í þessum efnum. Hinsvegar ætti hann að geta haft áhrif á ríkisstjórnina. Einhvern vegin treysti ég honum betur en fjármálaráðherra til að standa uppí hárinu á Bjarna Benediktssyni. Sjálfstætt starfandi sérfræðingar í heilbrigðisgeiranum virðast geta tekið útúr ríkiskassanum næstum því það sem þeir vilja, þó Landsspítalinn fái næstum ekkert. Sennilega er það tómur aumingjaskapur hjá þeim að vera ekki fyrir löngu búnir að stofna ríkra manna spítala.

Þegar eru skriðnir uppí til Tromparans einræðisherrarnir Duterte á Filippseyjum, Xi í Kína og Sísí í Egyptalandi. Kannski eru á leiðinni þangað Putin í Rússlandi og Assad í Sýrlandi. Sömuleiðis hefur hann hrósað Jong-un í Norður-Kóreu mikið fyrir gáfur. Jafnvel hans nánustu samstarfsmenn eru hættir að verða hissa á Donaldi sínum. Aðaltap Bandaríkjanna á þessu er að bandamenn þeirra hætta alveg að treysta þeim. Aftur á móti gengur Trump afleitlega í samskiptum sínum við þingið. Sumt hefur honum þó tekist alveg bærilega og Bandaríkjamenn bera mikla virðingu fyrir forseta sínum. Þó hef ég þá trú að hann verði aðeins 4 ár í embætti.

Man vel eftir því að þegar Steingrímur Hermannsson var forsætisráðherra (man samt ekki nákvæmlega árið) sagði hann einhvertíma í ræðu að hann gerði sér vel ljóst að ójöfnuður væri að aukast á Íslandi. Satt að segja var ég dálítið ósáttur við að hann skyldi næstum ekkert gera til að breyta þessu. Þeir stjórnmálamenn sem mestu ráða í dag eru miklu fremur í því að auka þennan mismun. Sagt er að EES-samningurinn sé 25 ára um þessar mundir. Hann hefur valdið miklum breytingum á þjóðlífinu öllu þó hann væri allsekki óumdeildur a.m.k ekki í fyrstunni.

Kannski ég lesi þetta bara aðeins yfir og fleygi því síðan út í eterinn. A.m.k. er þetta orðið nógu langt að ég held.

IMG 1676Einhver mynd.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband