Bloggfærslur mánaðarins, september 2008

464, - Blogghugleiðingar enn og aftur. Svolítið um málfar líka

Það er ósköp auðvelt að hafa allt á hornum sér. Greinilega er allt að fara til fjandans. Jákvæðni er hins vegar erfið á þessum síðustu og verstu tímum. Er samt ekki bara best að trúa því að allt fari vel að lokum? Ég held það.

Þegar bankar riða til falls og jörðin skelfur finnst mér að við bloggarar megum okkur lítils. Þessvegna sendi ég í gær bara vísur og þessháttar þó mér væri að sjálfsögðu annað efst í huga.

Ekki dugir samt að stinga höfðinu í sandinn. Mér finnst að besservisserarnir séu orðnið ansi margir. Bæði hér á blogginu og víðar. Þeim líður vel hjá Agli í silfrinu en hann er talsverður besservisser sjálfur og hló jafnan í kampinn þegar Hafliði Húsvíkingur talaði í ungmennafélagsstíl.

Svo fór Geir Haarde greyið að reyna að koma vitinu fyrir menn og brosti flírulega. Var sennilega að hugsa um sætustu stelpuna á ballinu.

Svo ég rövli nú aðeins þá var eftirfarandi inngangur að frétt á mbl.is í morgun og er þar kannski enn:

Lögreglan á Suðurnesjum handtók í dag karlmann á fertugsaldri, með aðstoð sérsveitar ríkislögreglustjóra, sem hafði látið ófriðlega og verið með hótanir á dvalarstað hælisleitenda í Reykjanesbæ.

Mér finnst þetta vera ágætt dæmi um lélegt málfar. Samkvæmt þessu gæti sá sem ekki er vel verseraður í þessum málum haldið að það hafi verið sérsveitin sem lét ófriðlega. Svo hefur þó líklega ekki verið. Kannski skiptir þetta engu máli. Kannski er þetta bara útúrsnúningur hjá mér.


463. - Nýr vísnaþáttur. Smáhvíld frá vandræðum á öllum öðrum sviðum

Ég er að hugsa um að setja hér nokkrar vísur sem allar eru því markinu brenndar að ég hefði að óreyndu reiknað með að næstum allir kynnu þær. Reynsla mín segir hinsvegar að allsekki sé víst að svo sé og þessvegna koma þær hér. 

Ferskeytlan er Frónbúans
fyrsta barnaglingur.
En verður seinna í höndum hans
hvöss sem byssustingur.

Mér var einhverntíma sagt að höfundur þessarar vísu héti Andrés Björnsson og væri kenndur við Síðumúla. Ég tók það sem Síðumúla í Borgarfirðinun en verið getur að svo sé ekki. Góð er vísan samt.

Í skólanum í gamla daga máttum við gjöra svo vel að læra vísur og kvæði utanað í stórum stíl. Þeirra á meðal voru heilræðavísur Hallgríms Péturssonar. Ég man allmargar þeirra enn þann dag í dag.

Ungum er það allra best
að óttast Guð sinn herra.
þeim mun virðing veitast mest
og virðing aldrei þverra.

Hugsaðu um það helst og fremst
sem heiður þinn má næra.
Aldrei sá til æru kemst
sem ekkert gott vill læra.

Hafðu hvorki háð né spott
hugsa um ræðu mína.
Elska Guð og gjörðu gott
geym vel æru þína.

Foreldrum þínum þéna af dyggð,
það mun gæfu veita.
Varastu þeim að veita styggð
viljirðu gott barn heita.

Víst ávalt þeim vana halt.
Vinna lesa og iðja.
En umfram allt þú ætið skalt
elska Guð og biðja.

Lærður er í lyndi glaður,
lof ber hann hjá þjóðum.
Hinn er ei nema hálfur maður
sem hafnar siðum góðum.

Hallgrímur var ótrúlegur. Sagt er hann hafi verið þriggja eða fimm ára (man ekki hvort) þegar hann orti eftirfarandi vísu:

Í huganum var ég hikandi
af hræðslu nærri fallinn.
Kattarrófan kvikandi
kom þar uppá pallinn.

Næstu sex vísur kannast áreiðanlega flestir við:

Bí, bí og blaka
álftirnar kvaka.
Ég læt sem ég sofi
en samt mun ég vaka.

Ég held að Jóhannes úr Kötlum hafi nefnt ljóðabækur eftir ljóðlínunum í þessari þekktu vísu. (um Jóhannes má fræðast á johannes.is)

Bíum bíum bamba.
Börnin litlu ramba.
Fram á fjallakamba
að leita sér lamba.

Vel getur verið að eitthvað hafi skolast til í þessari vísu hjá mér enda er hún óttalegt bull.

Yfir kaldan eyðisand
einn um nótt ég sveima.
Nú er horfið Norðurland.
Nú á ég hvergi heima.

Einu sinni átti ég hest
ofturlítið skjóttan.
Það var sem mér þótti verst
þegar dauðinn sótti hann.

Þar sem enginn þekkir mann
þar er gott að vera.
Því að allan andskotann
er þar hægt að gera.

Nú er úti veður vott
verður allt að klessu.
Ekki fær hann Grímur gott
að gifta sig í þessu.

Þessar þrjár eru líka alþekktar.

Litla Jörp með lipran fót
labbar götu þvera.
Hún mun seinna á mannamót
mig í söðli bera.

Afi minn og amma mín
úti á Bakka búa.
Þau eru bæði flott og fín.
Þangað vil ég fljúga.

Allt fram streymir endalaust
ár og dagar líða.
Nú er komið hrímkalt haust
horfin sumarblíða.

En þó vísur séu alkunnar er ekki þar með sagt að ekki megi blogga um þær. Vísurnar hér eru nær allar mjög vel þekktar og ég er ansi hræddur um að mörgum vísnavininum þyki þetta þunnur þrettándi, en ég skal reyna að gera betur næst.

 

462. - Lítið eitt um Naustið og ýmislegt fleira

Ekki virðist mega minnast á trúmál eða útlendinga án þess að einhverjir umhverfist. Óralangir svarhalar verða gjarnan hálfmarklausir. Bloggvinur minn Svanur Gísli Þorkelsson lenti í þessu um daginn. Þá var hann að finna að því að Óskar Arnórsson hefði læst blogginu sínu. Því hafði þá víst verið lokað. En áður en við yrði litið var svarhalinn orðinn svo ógnarlangur að það var varla nokkrum ætlandi að lesa hann.

Helga Guðrún fyrrum Moggabloggari og aðrir brottreknir bloggarar og fleiri blogga nú sem mest þau mega á blekpennar.com og skora á aðra að gera það sama. Segjast ætla að veita Moggablogginu verðuga samkeppni. Ég á nú eftir að sjá það.

Annars er ágætt að vita að maður yrði líklega velkominn annars staðar ef manni yrði úthýst hérna. Ætla samt að halda áfram hér, takk fyrir. Hér er ágætt að vera. Ég er líka svo meinlaus að enginn nennir að ráðast á mig. Ég hef ekki einu sinni döngun í mér til að óskapast útaf málfari sem þó væri auðvelt.

Það var Villi í Kaupmannahöfn sem hafði orð á því í kommenti að síðan mín væri þjóðleg. Ekki veit ég það en það minnti mig á einhverja þjóðlegustu stofnum á Íslandi sem hér var haldið úti þangað til ekki alls fyrir löngu. En nú er hún Snorrabúð stekkur.

Inni á Nausti aldrei þverr
ánægjunnar sjóður.
Þorramatur þykir mér
þjóðlegur og góður.

Já, svona auglýstu þeir Naustverjar lengi vel. Ekki fundu þeir samt upp Þorramatinn en mér er nær að halda að þeir hafi blásið nýju lífi í Þorrablótin sem grasseruðu um allt land að minnsta kosti þangað til jólaglöggið kom til sögunnar.

Naustið var miklu frekar stofnun og fyrirbrigði en veitingastaður. Eins og öll almennileg fyrirtæki fór Naustið samt að lokum á hausinn. Þar reis einhver afskaplega fínn og flottur kínverskur veitingastaður sem ég varð aldrei svo frægur að komast á. Svo fór hann á hausinn líka og líklega verða húsin rifin fljótlega enda bara gamalt drasl.

Margt hefur samt gerst á Naustinu og mætti eflaust skrifa um það margar þykkar bækur. Ég þekki sögu þess samt alls ekki vel og ætla ekkert að reyna að rifja hana upp. Auðvitað kom ég samt þangað nokkrum sinnum eins og margir fleiri.

Það þykir við hæfi að allir sem komnir eru á efri ár lofsyngi Þorramat. Mér þótti hann samt alltaf frekar vondur. Þorrablót voru samt oft skemmtileg. Þar var venjulega allt fljótandi í brennivíni og menn kátir og fjörugir. Þegar ég fór á Þorrablót át ég venjulega mest af harðfiski og hangikjöti. Annað borðaði ég einkum að gamni mínu og til bragðbætis. Til dæmis er alveg í lagi að fá sér einn og einn bita af skyrhákarli en sem matur held ég að hann sé nauðaómerkilegur. Líklega á borð við kæsta skötu sem ég hef aldrei látið inn fyrir mínar varir.

Eiður Guðnason (kannski fyrrverandi alþingismaður og sendiherra) segir í kommenti hjá mér að vísan um Ingólfskaffi sé eftir Leif Haraldsson. Það held ég að sé alveg rétt. Ég las einhverntíma bók um lífskúnstnerinn Leif Haraldsson. Hann var merkilegur maður sem átti mikil og góð samskipti við skáld og listamenn af ýmsu tagi um miðja síðustu öld en samdi ekki mikið sjálfur. Hann var jafnvel ekki álitinn sérlega skáldmæltur en leyndi talsvert á sér.

 

461. - Að skíta í austur

Friðrik Þór Guðmundsson kann að spila á Moggabloggið enda fjölmiðlamenntaður. Núna lofsyngur hann til dæmis gömlu krónuna sem er svo sem allt í lagi. Ég man bara að þegar núllin tvö voru strikuð út var ég að vinna hjá Kaupfélagi Borgfirðinga í Borgarnesi og launin voru eitthvað að nálgast milljónina á mánuði.

Eitt er það sem Friðrik notar mikið og það eru skoðanakannanirnar. Þetta er fúnksjón hjá Moggablogginu sem vert væri að nota meira. Mig minnir að ég hafi gert þetta einu sinni og kannski geri ég það fljótlega aftur.

Ég sá líka hjá Friðriki (af því að ég les yfirleitt ekki blöðin) að vistrýmum fyrir aldraða fer fækkandi. Þetta finnst mér vera í ósamræmi við það sem ríkisstjórnin og ríkisstjórnarflokkarnir hrósa sér af. Ástæðan er ef til vill sú að sjaldgæfara er að verða en áður að margir aldraðir kúldrist saman í herbergi. Einhvern tíma var sagt að menningarstig þjóða mætti sjá á því hvernig komið væri fram við gamalt fólk. Samkvæmt því skora Íslendingar ekki mjög hátt.

Einhverjir voru að fjölyrða um klósett sem sneru í átt frá Mekka. Mér er eiginlega skítsama en minni á að áttir geta skipt máli í trúmálum. Ég hafði ekki gert mér grein fyrir þessu fyrr en ég las (og lærði jafnvel líka) kvæðið um Jón hrak eftir Stephan G. Stephanson. Í kvæðinu stendur:

Kalt er við kórbak,
kúrir þar Jón hrak.
Ýtar snúa austur og vestur.
Allir nema Jón hrak

Það er víst eitthvað til í þessu. Ég held svei mér þá að grafir séu alltaf teknar með þetta í huga. Líka eru kirkjur víst alltaf látnar snúa á vissan hátt. Man bara ekki hvern.

Sagt er að þegar hola átti Jóni ofan í jörðina hafi hún verið gaddfreðin og grafararnir ákveðið að láta hann bara snúa út og suður þó það mætti eiginlega ekki. Ástæðan var meðal annars sú að....

Kirkjubækur þar um þegja.
Þó er fyrst af Jóni að segja
hann skaust inn í ættir landsins
utanveltu hjónabandsins

og þótti alls ekki merkilegur pappír. Það getur vel verið að sumum múslimum þyki það ekki gott til afspurnar að skíta í klósett sem snýr ekki rétt. Hvað veit ég.

Ungu skáldin yrkja kvæði
án þess að geta það.
Í Ingólfskaffi er ég í fæði
án þess að éta það.

Þegar ég heyrði þessa vísu fyrst er ég viss um að með fylgdi hver hefði ort þetta og af hvaða tilefni. Jafnvel útskýring á ýmsu í vísunni. Þessu er ég öllu búinn að gleyma. Veit þó vel hvar Ingólfskaffi var og að kostgangarar voru þar einhvern tíma. Vísan er samt góð finnst mér og stendur alveg fyrir sínu.

Hugsað get ég um himinn og jörð
en hvougt smíðað.
Vantar líka efnið í það.

Mér finnst eins og ég hafi einhverntíma heyrt Tómasi Sæmundssyni eignað þetta, en er þó allsekki viss.

Svo var mikill Satans kraftur
að saltaðir þorskar gengu aftur.

Þetta er eftir Grím Thomsen og úr miklu lengra kvæði. Margt kraftmikið kom úr penna Gríms.

Sá fyrir skemmstu DV frá 1992. Þar var sagt frá því að í útvarpshúsinu við Efstaleiti grasseraði hermannaveiki. Spýttist yfir mannskapinn með einu sérlega vönduðu loftræstikerfi. Einnig að Héðinn Steingrímsson hefði fallið í yfirlið í síðustu umferð skákmóts í Kaupmannahöfn. Þar var hitabylgja, engin loftræsting í skáksalnum og í ofanálag leyft að reykja þar inni. Fyrir bragðið tapaði Héðinn skákinni og missti af því að verða Alþjóðlegur meistari í það skiptið.

Á Bifröst stunduðu menn það að þykjast vera veikir þó þeir væru það ekki í rauninni. Þannig mun þetta hafa verið víðar. Skólastjóri nokkur var orðinn svo hvekktur á þessu að hann fór jafnan sjálfur og athugaði málið. Einn illa fárveikur rétti honum rasshitamæli til sannindamerkis um hann væri við dauðans dyr. Stjóri hummaði nokkuð. Leit á mælinn. Gekk út að glugga og skoðaði mælinn vandlega. Sagði síðan: "Það mætti ef til vill segja að það örlaði fyrir ofurlitlum hitavotti."

Bráðskemmtileg er frásögn Kristjönu frá Stakkhamri af ferð til gömlu Sovétríkjanna. Þangað hefur mig alltaf langað til að fara. Bjöggi bróðir fór einhvern tíma í ferðalag þangað austur og mér er minnisstætt að hann sagði frá því að hann og fleiri fóru yfir eitthvert strik á flugvellinum og allt varð vitlaust.

 

460. - Að bulla, þrugla og ströggla + myndir frá Kaupmannahöfn

Aðalkosturinn við að blogga er að það er ókeypis.

Hinn aðalkosturinn er hvað þetta tekur fljótt af. Þegar búið er að senda efnið útí rafeindaiðuna á Internetinu er hægt að snúa sér að öðru.

Bækur eru að mörgu leyti að verða úrelt þing. Spurning hvort ekki sé kominn markaður fyrir léttar og handhægar fartölvur sem hægt er að hafa með sér í rúmið. Hugsið ykkur bara hvað það væri þægilegt að sofna útfrá endalausum blogglestri.

Hæg er leið til helvítis, hallar undan fæti. Þangað hefur mig alltaf langað að fara. Veit bara ekki hvernig ég kemst upp aftur.

Með autt Word-skjal í tölvu fyrir framan mig er ég óstöðvandi. Það segja Rebus og Rankin. Eða mundu segja ef þeir vissu eitthvað í sinn haus.

Andy Murrey nýja tennisstjarnan þeirra Bretanna á að hafa svarað þegar honum var sagt að hann hefði unnið eina milljón dollara með því að verða annar í US Open:

"Já, eru það ekki ein tíu pund?" Greinilega brandarakarl hinn mesti. Henman var alltaf svo alvarlegur.

Líklega verður Lára Hanna í öðru sæti á listanum hjá Ómari Ragnarssyni í næstu alþingiskosningum og ég gæti jafnvel trúað að ég exi bara við þau skötuhjúin. Munið að þið sáuð þetta fyrst hérna.

"Nei, nei, nei, nei, nei, nei. Ég er bara framliðinn," sagði Ómar Ragnarsson þegar það var borið uppá hann að hann væri dauður. Er mér sagt.

Þegar bókin hennar Jónu Á. Gísladóttur kemur út er ég að hugsa um að kaupa hana ekki. Mér finnst Jóna oft vera svolítið væmin en hún skrifar vel, það má hún eiga. Meðan ég fæ að lesa bloggið hennar ókeypis og get hugsanlega fengið bókina á bókasafninu fer ég ekki að eyða peningum í þetta.

Það er erfitt að þurfa alltaf að þykjast vera gáfaður og eiga svör við öllu en vera samt frekar vitlaus. Þetta hef ég lengi þurft að búa við.

Nú duga ekki mega-vikur lengur hjá Dominós. Giga-vikur skulu það vera. Tera-vikur koma víst eftir áramótin. Hvað svo tekur við veit ég ekki.

Við Íslendingar erum í hópi þeirra þjóða sem mest leyfum af tollalausum matvælainnflutningi segir Bjarni Harðarson þingmaður framsóknarflokksins. Það liggur við að ég trúi þessu.

Mér finnst Bjarni langskemmtilegastur þegar hann skrifar um eitthvað annað en pólitík. Til dæmis ættfræði eða mótorhjólaferðir.

Sú hugsun er farin að ásækja mig þegar ég blogga endurminnngar að ég hafi kannski minnst á þetta áður. Best að athuga betur leitarfúnksjónina á Moggablogginu.

Þetta er að verða langhundur hinn mesti og þar að auki ein allsherjar langavitleysa. Best að hætta áður en höfuðið verður bitið af skömminni. Gott ef þetta fer ekki beint á okursíðuna hans Dr. Gunna.

Enn get ég nýtt Kaupmannahafnarmyndirnar enda tók ég þær ansi margar. Hér koma nokkrar myndir af kirkjum, turnum og ýmsum byggingum. Ég sleppi því alveg að útlista hvað er hvað. Það gæti verið tóm vitleysa hjá mér.

 
Picture 320Picture 513Picture 538Picture 543Picture 555Picture 560Picture 568Picture 569Picture 612Picture 634

459. - Ellismellur, Leirlistinn, vísur, gosdrykkir og fleira

Nú fer hringurinn um Ellismellinn að þrengjast. Ég þóttist viss um það fyrir nokkru að hann hefði verið með mér á Bifröst. Nú kemur í ljós að hann var líka og er jafnvel ennþá á Leirlistanum. Leirlistinn var reyndar nokkuð skemmtilegur. Kannski ég fari að skoða hann aftur. Bloggið er samt skemmtilegra og fjölbreyttara held ég.

Ég orti ekki oft á Leirlistann en þó kom það fyrir. Einhverju sinni var mál eitt mikið til umræðu. Upplýst var að fiskifræðingar við Hafrannsóknarstofnum hefðu misreiknað sig og jafnvel týnt um milljón tonnum af þorski. Þá gerði ég þessa vísu sem vel getur verið að ég hafi birt áður hér á blogginu. Biðst afsökunar ef svo er.

Hér var 1.000.000 tonnum týnt
í torráðinni gátu.
Þjóðinni var svarið sýnt.
Sægreifarnir átu.

Ólína Þorvarðardóttir spyr um höfunda nokkurra lausavísna sem hún tilgreinir. Í einu af svörunum er bent á vísnasafn Héraðsskjalasafns Skagfirðinga. Þetta safn er ágætt og ég hef nokkrum sinnum komið þangað (sendur af Google - líklega) Mér finnst samt ómaksins vert að setja í bloggið sitt góðar vísur ef mann langar. Gjarnan má reyna að feðra þær og ekki sakar að fá fram afbrigði. Ég veit ekki hvernig safnið hjá Skagfirðingum er hvað afbrigði varðar. Annars finnst mér feðrun lausavísna vera sérmál og ekki mjög áhugavert.

Þetta er búið að vera erfitt og þakkarvert að ég skuli ekki hafa hrokkið uppaf sagði Bragi Ásgeirsson í Kastljósinu. Ég man alltaf hvað mér þótti hræðilegt á sínum tíma að sjá dúkkuhausana hjá honum. Bragi er samt án vafa meðal merkustu listamanna okkar og að hann skuli hafa yfirunnið heyrnarleysið er ekkert minna en kraftaverk.

Það er ekkert ýkja langt síðan gosdrykkir fóru að fást í plastflöskum. Lengi vel var til dæmis einungis hægt að fá Coca Cola í 18 sentilítra flöskum sem nú til dags væri kallað lítil kók. Svo komu stórar kók (1/3 úr lítra að mig minnir) Enn seinna komu svo líters kók sem þóttu geysistórar. Þá varð til brandarinn: "Kaupa glerið eða drekka hérna?" sem þótti meinfyndinn. Núna hugsa ég að hálfs líters kók í plastflöskum sé vinsælast. Kannski er kók ekki það vinsælasta samt. Í gamla daga fékkst bara kók, appelsín, malt, pilsner og í hæsta lagi Sinalco, spur og Canada dry. Ef farið var til Akureyrar var samt hægt að fá Valash, Cream sóda, Jolly Cola og kannski eitthvað fleira.

 

458. - Dálítið um bloggið hér og meira af Kaupmannahafnarmyndum

Ég hef fengið það svolítið á tilfinninguna að sumir sem hingað koma séu því fegnir að hér eru ekki miklar bollaleggingar um fréttir dagsins og stjórnmálin fá að mestu frí. Lítið er minnst á Baugsmál, Hafskipsmál, virkjanamál og þess háttar. Þó hef ég skoðanir á þessu öllu. Gallinn er að þær eru breytilegar svo best er að þegja.

Samt er um nóg að skrifa. Þegar ekki vill betur þá blogga ég hiklaust um blogg eins og bloggrýnirinn sællar minningar virtist alveg hafa gert sér grein fyrir.

Bloggið er fjölmiðill og ég er orðinn háður því. Tveir aðrir fjölmiðlar sem ég gæti alveg orðið háður eru Útvarp Saga og Ínn sjónvarpsstöðin sem Ingvi Hrafn kom á fót.

Þó hef ég ýmislegt við alla þessa fjölmiðla að athuga. Það er engin leið að komast yfir allt sem máli skiptir í Blogginu og margt er þar afar ómerkilegt. Arnþrúður á Sögu stjórnar þar öllu með harðri hendi og mér hugnast fremur illa sú stjórnmálaskoðun sem þar birtist.

Ínnið hans Ingva Hrafns hef ég lítið horft á. Hluta af samtali við Helga Magnússon sá ég þó í dag. Þar var aðallega rætt um Hafskipsmálið og margt áhugavert kom þar fram. Ingvi Hrafn stjórnaði því viðtali og fór vaðallinn í honum greinilega oft í taugarnar á Helga. Hugsanlega er þessi fjölmiðill þó allar athygli verður.

Ég get ekki að því gert að mér dettur oft í hug fyrrverandi bloggvinur minn Þjóðarsálin með hundshausinn. Þó ég meini eiginlega allt sem ég skrifa á mitt blogg þá meinar hann greinilega fátt af því sem hann skrifar en verður svo öskureiður ef hann er ekki tekinn alvarlega þegar það á við og lokar fyrir athugasemdir ef þær eru ekki nógu margar að hans dómi. Líka þurrkar hann út bloggfærslur eftirá og linkar í allar mbl.is fréttir sem hann mögulega getur.

Eiginlega hagar hann sér á allan hátt öfugt við mig en auðvitað er það hans mál en ekki mitt og ekkert athugavert við það. Það er ekki ég sem ræð hérna. Hann er oft bráðfyndinn og elja hans er mikil. Svo er hann með afbrigðum fundvís á skemmtilegar myndir. Ég er aftur á móti bara gamall og ruglaður kall sem skrifa einu sinni á dag um það sem mér dettur í hug í það og það skiptið og linka ekki í fréttir. Skrifin verða samt oft í lengra lagi ekki neita ég því.

Og svo eru það myndirnar:

Picture 314Þetta er inngangurinn í Tívolí og að sjálfsögðu þröng á þingi.

Picture 324Aðaljárnbrautarstöðin við Vesterbrogade. Heldur óhrjálegt umhverfi í miðri stórborg.

Picture 325Litskrúðugt hús en mér er ekki með öllu ljóst hvað þarna fer fram.

Picture 329Þjóðleikhúsið danska - að ég held.

Picture 341Ruslatunna sem styður motorhjól. Musikandagtin er sennilega vegna þess að hjólið er ekki í gangi!

Picture 354Nýhöfnin í öllu sínu veldi.

Picture 370Komið úr skoðunarferð. Allir dasaðir.

Picture 386Undirgangur að Strikinu. Hér má ekki leggja reiðhjólum.

Picture 394Hér er allur akstur bannaður eins og eðlilegt er.

Picture 407Ef þú tekur mynd af mér þá skal ég jafna um þig.

Picture 410Eitt vinsælasta farartækið á göngugötunni Strikinu.

Picture 486En samt er þetta nú hálfgert hundalíf.

 

457. - Árshátíð í útlandinu. Myndir frá kóngsins Köbenhavn

Já, ég var í Kaupmannahöfn um helgina. Fór þangað á árshátíð. Hef aldrei fyrr farið til útlanda á árshátíð en einhverntíma verður allt fyrst. Reyndar síðast líka en það tekur því ekki að hugsa of mikið um það.

Mér finnst árshátíðin sem slík ekki vera efni í blogg. Kaupmannahöfn er það eiginlega ekki heldur. Rölti samt dálítið um borgina og hafði myndavélina með mér. Kannski set ég eitthvað af myndum þaðan í lok þessa bloggs. Ég finn það nefnilega að ég er ekki alveg kominn í blogg-gírinn aftur eftir þetta smáhlé.

Merkilegt hve margir hafa áhuga á þessu bloggi. Ég er alltaf að hitta einhverja sem segjast lesa þetta að minnsta kosti öðru hvoru. Annars veit ég lítið um hve margir gera það. Dæmi áhugann einkum eftir fjölda athugasemda. Fjöldatölurnar sem Mogginn gefur upp segja ekki mikið. Vel getur verið að margir þeirra sem komast í þá talningu séu ekki að lesa þetta af neinum áhuga.

Hitti Skúla Guðmundsson fyrrverandi skólafélaga minn frá Bifröst í dag. Hann var alveg evru-heilbrigður og spáði því að krónan færi að hressast fljótlega. Gaman að hitta gamla skólafélaga. Einkum þá sem maður þekkti nokkuð vel á sínum tíma.

Nú er sagt að nóttin sé orðin lengri en dagurinn. Þannig verður það víst þangað til í mars á næsta ári. Alveg skelfilegt.

Og þá eru það myndirnar:

Picture 326Hér skellur fólksflaumurinn af Strikinu á Ráðhústorginu.

Picture 344Litskrúðugt fólk á Strikinu.

Picture 409Bangsímon á Strikinu.

Picture 411Hundleiðinlegt hundalíf.

Picture 414Þetta er söluturn.

Picture 390Vinsælir leigubílar á góðviðrisdögum.

Picture 469Svona er víst komið fyrir Nyhedsavisen.

Picture 535Konungsskipið Dannebrog.

Picture 544Nýja Óperuhúsið í Kaupmannahöfn.

Picture 606Vinsæll ferðamáti.

Picture 611Hattinum bjargað úr Nýhöfninni.

 

456. - Minningar úr Hveragerði. Álfafell, Aðalsteinn Steindórsson, svört girðingarrolla og fleira

Ég held að ég hafi minnst á það áður í bloggi að ég vann einu sinni hjá Gunnari Björnssyni í Álfafelli. Gunnar seldi okkur Vigni fyrsta bílinn sem ég eignaðist sem var fólksvagn módel 1959 en það er önnur saga. Ætli það hafi ekki verið árið 1958 sem ég vann í Álfafelli. Samkvæmt því mun ég hafa orðið 16 ára um haustið þegar þetta var og það finnst mér passa. Mig rámar í landhelgisumræðu mikla um það leyti sem ég vann þar.

Margt af eftirminnilegu fólki vann með mér í Álfafelli en fáir eru mér samt eins minnisstæðir og Aðalsteinn Steindórsson eða Alli Steindórs eins og hann var jafnan kallaður. Alli var mun eldri en ég og oft vorum við saman við ýmis verk og þá var ég auðvitað fyrst og fremst í því að aðstoða hann.

Meðal annars var það verkefni okkar Alla að sjá um að rolluskjátur væru ekki að flækjast á Álfafellslóðinni. Ef kindur höfðu komist þangað var það okkar verk að koma þeim útfyrir og lappa nægilega uppá girðinguna til að þær kæmust ekki aftur innfyrir.

Einu sinni komum við að nokkrum nokkrum kindum á lóðinni. Mér tókst að ná í hornið á einum lambhrút og við fórum að mjaka skjátunum útfyrir. Þetta var í brattri hraunskriðu og allt í einu tók hrúturinn undir sig stökk og við duttum báðir ég og hrúturinn og ultum niður skriðuna en varð þó ekki meint af því en ég man að ég sleppti ekki horninu á hrússa í veltingnum og Alli hrósaði mér fyrir ákveðnina.

Ein svört rolla komst mjög oft inná lóðina og virtist sama hve vel við gengum frá girðingum á svæðinu. Við töldum þessa rollu vera frá Friðastöðum og einnig að hún stæði fyrir einskonar girðingarskóla og kenndi öðrum rollum hvernig ætti að komast innfyrir Álfafellsgirðingarnar. Stykki jafnvel yfir þær. Seinna þegar ég vann á Reykjum sá ég rolluhóp vera að æfa sig í að stökkva yfir rörahlið. Ég trúði varla eigin augum en svona er þetta.

Einu sinni komum við að svörtu rollunni og nokkrum fleiri á ólöglegum stað og ákváðum að kenna þeim lexíu og lokuðum þær inni í gamalli laukageymslu uppi í Hlíðarhaga. Það var svo allmörgum dögum eða vikum seinna sem Alli sagði allt í einu við mig.

„Heyrðu, hleyptum við rollunum nokkurn tíma út úr laukageymslunni um daginn?"

Ekki mundi ég til þess.

„Þú verður að fara og athuga það."

Ég þorði ekki annað en hlýða þessu en óaði þó við að koma ef til vill að rollunum dauðum eða hálfdauðum. Auðvitað var búið að hleypa þeim út. Alli hefur líklega gert það sjálfur.

Við Alli byggðum eða settum þak á lítið gróðurhús niðri í kvosinni hjá ánni. Þá þurftum við að saga til sprossana og Alli hafði það að orðtaki þegar sögunin tókst bærilega að segja.

„Já, þetta passar alveg uppá klofið kuntuhár."

Annars fór ég til Kaupmannahafnar á föstudaginn var og er nýkominn þaðan. Þessvegna þetta bloggleysi undanfarna daga. Ofanritaða frásögn átti ég að mestu tilbúna og skutla henni semsagt inn núna en nenni ekki að gera meira.


455. - Ég fer um borð og borða um borð fyrst borðað er um borð á annað borð

Oft er gaman að endurtekningarbulli. Það sem hér fer á eftir gátum við að minnsta kosti oft notað þegar við fórum í siglinguna með Gullfossi forðum daga:

Ég fer um borð
og borða um borð.
fyrst borðað er um borð
á annað borð.

Ef þetta er sagt hratt er það ljómandi áheyrilegt.

Mamma kenndi mér það sem hér fer á eftir en það er til í ótal afbrigðum. Svona vil ég samt hafa það:

Ef sumir væru við suma
eins og sumir eru við suma
þegar sumir eru frá

Væru sumir betri við suma
en sumir eru við suma
þegar sumir eru hjá.

Svo var eitthvað með Skota úti í skoti sem líklega var þar í roti en ég man ekki með vissu hvernig það alltsaman var. Líka held ég að Þórarinn Eldjárn hafi einhvern tíma gert einslags vísu eða kvæði um að sleppa í sloppinn og vera ekki skyni skroppinn eða eitthvað þannig.

Margir virðast vanda sig heilmikið við bloggin sín. Eiginlega er magnað hve mikil vinna er lögð í þetta. Það er greinilega mikill fjöldi efnilegra blaðamanna þarna úti. Og svo gerir fólk þetta fyrir ekki neitt. Sumir taka bloggið mjög alvarlega og meina allt sem þeir segja. Þeirra á meðal er ég. Sumir meina bara sumt af því sem þeir segja en ætlast svo til að aðrir taki mark á þeim þegar þeim sjálfum finnst að taka eigi mark á sér.

Það er alveg rétt sem Malína sagði í kommenti hjá mér um daginn. Hann er undarlegur þessi bloggveiturígur. Það er heldur barnalegt að segja "hann byrjaði" en í mínum huga var það Stefán Pálsson sem byrjaði á þessari endemis vitleysu.

Ég les yfirleitt ekki dagblöð núorðið. Tel sjálfum mér trú um að það sé vegna þess að ég vil ekki láta mata mig á því sem aðrir álíta að ég þurfi að vita. Horfi samt á sjónvarpsfréttir þar sem ekki er minni mötun. Svo má líka halda því fram að það sé ekkert annað en mötun að lesa sí og æ þessi blogg. Allavega ef sömu bloggin eru lesin dag eftir dag. Og hver nennir að vera alltaf að skifta um uppáhaldsblogg? Ekki ég.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband