Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2017

2668 - Myndir og röðun þeirra

Í Bandaríkjunum er það jafnvel til umræðu að banna skotvopn í kirkjum og skólum. Ekki sel ég þetta dýrara en ég keypti. Finnst þetta eiginlega hálfótrúlegt. Eiga menn þá að vera varnarlausir með öllu þar? Jón Væni og fleiri NRA-menn gætu vel fundið uppá því að taka svona til orða, en ekki hann ég, nema ég hefði orðið fyrir algjörum heilaþvotti.

Þegar maður hefur komist yfir andstyggðina á sjálfum sér, er mikið unnið. Kannski finnst flestum að þeir sjálfir séu allsekki neitt augnayndi. Samt kann það að vera. Óþarfi er líklega að vera á móti öllum myndatökum af sjálfum sér. Aðrir verða bara að passa sig.

Hvaða áhrif skyldi annars sú ógnarlega símamyndataka sem tíðkast um þessar mundir, hafa til langframa. Ekki öfunda ég sagnfræðinga framtíðarinnar af langri og ítarlegri ljósmyndaskoðun sinni. Og svo eru ljósmyndirnar farnar að ljúga. Einu sinni gerðu þær það ekki. Ég öfunda þá heldur ekki af allri minnismiðaleitinni og bloggunum og fésbókar- og twitterstatusunum, sem þeir þurfa hugsanlega að fara í gegnum.

Patríarkinn í rússnesku rétttrúnaðarkirkjunni, Kirill held ég að hann heiti, er nú farinn að spá heimsendi, eftir því sem Fréttastofan Novosti segir. Ef menn væru nógu jákvæðir væri kannski hægt að komst hjá þessu. „Passið ykkur bara á því að rugga bátnum ekki of mikið“, segir hann hinn brattasti og brosir til Putíns um leið. Því miður get ég ekki birt mynd af þessum tímamótaviðburði, vegna þess að ég hef ekki til þess leyfi.

Þetta með stjórnarmyndunarviðræðurnar ætlar að verða jafnmikil komedía og síðast. Munurinn er einkum sá að Guðni fær ekki að vera memm. Hann reyndi samt að láta líta svo út að formlegt stjórnarmyndunarumboð skipti einhverju máli. Nú er endanlega komið í ljós að svo er ekki. Þó hann verði ekki eins afskiptasamur og mikill fyrir sér og Ólafur Ragnar held ég að hann verði farsæll forseti. Auðvitað er ekki hægt að búast við því að hann fari að öllu leyti í fötin hans Ólafs, enda held ég að það væri ekki heppilegt fyrir hann.

Er ekki gáfulegra að eyða sinni Þórðargleði á mistök og þessháttar hjá Trump Bandaríkjaforseta en á meira og minna saklaust fólk eins og Katrínu Jakobsdóttur. Hver og einn ætti að svara þessu. Ekki bara útpældir vinsrisinnar sem framað þessu hafa kosið Vinstri græna, útá nafnið aðallega, geri ég ráð fyrir. Heldur líka þeir sem kannski gera sér grein fyrir þvi að með þessu er hún aðallega að halda Sigmundi Davíð frá kjötkötlunum. Spurningin er semsagt þessi: Er Bjarni Ben. skárri en Sigmundur Davíð? Hverju svarar véfréttin Jakob Bjarnar Grétarsson þessu? Hefur hann kannski verið ásakaður um kynferðislegt áreiti. Hver er aftur munurinn á kynferðislegu áreiti og kynferðislegri áreitni? Ég er allsekki viss um að allir skynji hann á sama hátt og ég.

Jæja, nú er þetta að verða nógu langt til að senda út í eterinn. Furðulegt hvernig sakleysislegir orðaleppar geta orðið svona útbreiddir, þó þeir séu rangir. Annars hef ég ekki í hyggju að fara að rökræða um eter og þessháttar. Hvað þá um kosmológíu þau hún eigi heima á næsta bæ.

IMG 0413Einhver mynd.


2667 - Netútgáfan III og káfið í karlpeningnum

Nú er komið að síðasta kaflanum í umfjölluninni um Netútgáfuna. Eiginlega sýnist mér þetta vera bein þýðing á einhverri eldgamalli auglýsingu og ég mundi ekki misvirða það við neinn þó þessum kafla yrði einfaldlega sleppt. Ekki hafa allir áhuga á að lesa gamlar auglýsingar. Ath.: Þetta er skrifað fyrir næstum 10 árum síðan.

Þetta sífellda káf í karlpeningnum sem tröllríður öllum fréttum um þessar mundir er hálfþreytandi. Einkum virðast það vera svolítið frægur karlpeningur sem gerir þetta. A.m.k. er það helst að skilja á fréttum af þessum ósköpum. Einnig verða frægar kvenpersónur fremur fyrir þessu en ófrægar a.m.k er svo að skilja á fréttum.

Annars er ég bara venjulegt karlrembusvín og skil alls ekki svonalagað. Kannski er þetta bara venjulegt hvolpavit sem ekki getur yfirgefið fræga karlmenn. Hvað veit ég? Mér finnst það samt skaði að ekkert annað sé í fréttum dag eftir dag en kynferðisleg áreitni. Ekki virðist mega líta á sumt kvenfólk svo ég tali nú ekki um að snerta það, án þess að vera dæmdur óalandi og óferjandi vegna kynferðislegarar áreitni.

Reyndar er það ekkert skrýtið þó konur hrökkvi við þegar káfað er á þeim á óviðurkvæmilegan hátt á opinberum eða hálfopinberum stöðum, og þegar þær eiga síst von á því. Vel getur verið að þær fari alveg úr stuði við þetta og það sé ein aðferðin enn til þess fyrir karlmenn að halda yfirburðum sínum. Völd þeirra hafa lengi verið mun meiri en kvenfólks og þó okkur karlvesalingunum finnist kvenréttindi af öllu tagi hafa snarbatnað á síðustu áratugum er ekki víst að kvenfólki finnist það hafa gengið nógu hratt fyrir sig.

Nú á síðustu árum hefur tæknin þó gert það svo einfalt og  þægilegt að gefa út bækur að  nýjasta fyrirbrigðið á þessu sviði sem kallað er Print  on demand eða publish on demand hefur unnið nokkuð á einkum í Bandaríkunum.

Ég ætla að fara hérna nokkrum orðum um það hvernig svona  nokkuð gengur fyrir sig.  Það eru þónokkur fyrirtæki sem taka að sér  að prenta og gefa út bækur fyrir tiltölulega lágar upphæðir.

Þetta er gert með sérstökum vélum sem  ekki þarf að stilla sérstaklega eða breyta á neinn hátt þó prentaðar séu mismunandi bækur. Verðlagningu er þannig háttað að sama verð er á hvert eintak hvort heldur sem prentað er eitt eintak eða tíuþúsund.

Það eru einkum lítil útgáfufyrirtæki sem njóta góðs af þessari þróun og svo höfundar sem vilja af einhverjum ástæðum gefa út bækur sínar sjálfir, hvort sem það er af einhvers konar metnaði (það fyrirbrigði er gjarnan kallað “vanity publishing” á ensku) eða  þá að þeir telja sig einfaldlega geta haft meiri tekjur af skrifum sínum með þessu móti.

Fyrirtæki sem nefnist Bookstand publishing býður viðskipavinum sínum að gefa út fyrir þá bók með eftirtöldum skilyrðum:

(að sjálfsögðu er hér um að ræða pappírskilju svokallaða)

Höfundurinn borgar 449 dollara (svona um 30 þúsund krónur)

Útgáfan tekur 5 vikur

30 % af útsöluverði fær höfundurinn í sinn hlut en afganginn fær útgáfufyrirtækið

Kápa í litum fylgir með í verðinu. Að vísu verður að velja úr stöðluðum kápumyndum þar sem aðeins er hægt að breyta um texta og því settar nokkuð þröngar skorður hvernig hann má vera, annars hækkar verðið.

Í bókinni sjálfri geta eingöngu verið svart hvítar myndir.

Engin takmörk eru þó á því hve mikið af myndum eða töflum geta verið í bókinni.

Stærð bókarinna eru einnig að sjálfsögðu sett einhver takmörk.

52 eintök af bókinni fær höfundurinn. Einnig fær hann:

ISBN skráningarnúmer

Strikamerki

Skráningu í gagnagrunn um nýjar bækur

Heimasíðu til kynningar á bókinni á Netinu.

Próförk

Höfundur heldur öllum sínum réttindum.

Hægt að fá .pdf skrá til að selja bókina þannig.

Upplýsingar um kynningu á Netinu.

Skráningu í gagnagrunn Barnes og Noble. (eða væntanlega Amazon vilji höfundur það fremur)

Prentunarkostnaður á hvert eintak fram yfir þau 52 sem upphaflega fylgja er síðan ef ég man  rétt um 3 dollarar.

Við hefðbundna prentun er ætíð eitthvað startgjald og þannig lækkar verðið eftir því sem fleiri eintök eru prentuð. Einhvers staðar sá ég gjaldskrá frá prentsmiðju þar sem fyrstu 200 eintökin kostuðu um 6 dollara, 500 eintök 4 og hálfan dollar og við 10 þúsund eintök var verðið pr eintak komið niður fyrir einn dollar.

 Að sjálfsögðu er svo hægt að fá litprentaðar bækur og harðspjaldabækur með aukakostnaði en lykillinn að lágu verði felst auðvitað í því að staðla sem flest í sambandi við bókina.

Fyrirtækið sem tekur að sér að gefa bókina út selur einnig útgáfubækur sínar og býður hvers konar aðstoð við kynningu og sölu. Oftast nær er útsöluverðið ákveðið og prentað á bókina, en sölulaunin ákveðin með afslætti frá útsöluverði bókarinnar. Vegna þess hve bandarískt þjóðfélag er ólíkt því íslenska er ekki líklegt að hugsanlegir íslenskir aðilar mundu nýta sér aðstoð við sölu og kynningu. Hinsvegar er prentunarkostnaðurinn oftast svo hár hérlendis að vel gæti komið til greina fyrir íslenska aðila að láta prenta bækur fyrir sig með þessum hætti.

Það skiptir afskaplega miklu máli hvað bókin heitir, í hvaða flokk hún fer, hvaða lykilorð um efni hennar eru í þeim gagnagrunnum sem hún er skráð í og hvernig henni er lýst í örstuttri lýsingu sem væntanlegir kaupendur, t.d. hjá Barnes og Noble eða t.d. Amazon fá að sjá.

Ekkert af þessu er þó óyfirstíganlegt og af þessu má sjá að það er orðið miklu auðveldara en áður var fyrir rithöfunda og aðra þá sem vilja koma bókum frá sér að gera það. Auðvitað heldur kynningarstarf af öllu tagi áfram að skipta höfuðmáli ef um það er að ræða að selja bók í stóru upplagi. En það er samt líklegt að bækur sem gefnar eru út í litlum upplögum komi til með að skipta meira máli einfaldlega vegna þess að með því móti koma ennþá fleiri bækur út. Í vaxandi mæli má gera ráð fyrir að bókasala færist meira í það horf að kaupendur leyti að bókum sem gagnast þeirra áhugamáli sem mest en láti ekki umfjallanir annarra fjölmiðla skipta mestu máli. Hér á Íslandi hafa bækur löngum verið einkum notaðar til gjafa. Í framtíðinni má búast við að þetta breytist.

En hvernig tengist þetta bókasöfnum? Ég veit það satt að segja ekki. Mér er samt ekki grunlaust um að hér á Íslandi hafi það löngum verið stefna bókasafna að kaupa allar þær bækur sem út hafa verið gefnar á íslensku ár hvert. Erlendis er þessu án efa alls ekki svo farið. Þar er á stórum málsvæðum gefinn út þvílíkur fjöldi bóka að afar fá bókasöfn hafa nokkurn möguleika á því að eignast allar bækur sem gefnar eru út á tilteknu tungumáli.

Með auknum fjölda bóka sem gefnar eru út hlýtur sú aðferð bókasafna að kaupa inn þær bækur sem spurt er um að verða sífellt mikilvægari. Við leit á Netinu geta viðskipavinir bókasafna aflað sér upplýsinga um hvaða bækur eru til og ef hægt er að fá bókasöfn til að kaupa inn þær bækur sem þannig fást upplýsingar um mundi margur grúskarinn verða feginn. Samkvæmt þeirri aðferð við bókaútgáfu sem ég lýsti hér á undan er nefnilega ekki hægt að gera ráð fyrir því að bækur lækki neitt verulega í verði.

IMG 0436Einhver mynd.


2666 - Netútgáfan II

Jæja, þá er komið að öðrum kaflanum um Netútgáfuna. Ég lofa því alveg að hafa þá ekki nema í mesta lagi þrjá og eitthvað hef ég hugsað mér að skrifa umfram þá, þó ég hafi fundið þetta erindi á tölvunni hjá mér.

Margir virðast velta mikið fyrir sér nafngiftum á ríkisstjórnir. Mér finnst það mesti óþarfi. Ríkisstjórnir fá nöfn sín yfirleitt eftir á ef þurfa þykir. T.d. er nútildags oft talað um Jóhönnustjórnina. Á sama eða svipaðan hátt gæti ég trúað að ef sú stjórn sem nú virðist vera í burðarliðnum þarf á nafni að halda í framtíðinni þá verði hún kölluð Katrínarstjórnin. Annars eru þessar spekúlasjónir til marks um algjört tilgangsleysi svona vangaveltna og bera aðallega vott um fáfengileika fjölmiðla.

Til að spara mér fyrirhöfnina, meðan aðrir fjölmiðlar (já, ég álít sjálfan mig einskonar fjölmiðil) eru uppteknir við þá iðju að fylgjast vandlega með því sem stjórnmálamenn eða biskupar láta hafa eftir sér, er ég að hugsa um að halda bara áfram með Netútgáfusönginn:

Það var síðan haustið 2001, sem Netútgáfan hætti að gefa út nýtt efni. Ástæðan fyrir því var einfaldlega sú að við gátum ekki lengur séð af öllum þeim tíma sem í þetta fór. Allan þann tíma sem Netútgáfan starfaði fékk hún aldrei eyrisvirði í styrk þó eftir honum væri leitað, ef frá er talinn sá stuðingur sem fólst í því að Snerpa ehf. á Ísafirði veitti okkur ókeypis aðgang að Netinu og gerir enn.

Þau ár sem við stunduðum útgáfu á Netinu kom okkur mjög á óvart tregða rithöfunda á að setja gömul verk sín á Netið til kynningar.  Okkur fannst það blasa við að hjá langflestum rithöfundum væri höfundarréttur að gömlum útgefnum verkum harla lítils virði. Það kann þó að vera að þeir hafi haft eitthvað til síns máls og tækniþróun verði til  þess að gömul verk geti skilað tekjum, samanber fyrirbærið print on demand, sem ég mun gera svolítil skil hér á eftir.

Ég hef nokkrum sinnum reynt að stuðla að því að endurvekja Netútgáfuna í svipuðu formi og hún var. Nægilegt efni er til þó ekki sé hugsað til þess að gefa út annað efni en það sem höfundarréttur er runninn út á. Netútgáfan hefur unnið sér nokkurn sess einkum meðal skólafólks og ef haldið yrði áfram á svipaðri braut og gert hefur verið mundi það aðeins auka veg hennar. Nauðsynlegt er þó að bæta á allan hátt útlit vefsins, koma upp leitarvél og gera ýmislegt fleira. Gæta þarf þess þó eins og við höfum alltaf gert, að aðgangur blindra og sjónskertra að efni útgáfunnar versni ekki.

Netútgáfan er að mörgu leyti einstakt framtak og ég er dálítið hissa á því að ekki skuli hafa komið fram neitt hliðstætt framtak á þeim 5 árum sem Netútgáfan hefur ekki starfað.

Ekkert er því til fyrirstöðu að endurvekja starfsemi útgáfunnar. Það eina sem þarf er tryggt fjármagn eða að einhverjir einstaklingar eða hópar séu tilbúnir til að leggja fram þá vinnu sem til þarf.

En allt er þetta nú bara sagnfræði, kynni einhver að segja, og satt er það, þó saga Netútgáfunnar sé merkileg í sumra augum þá bendir hún svosem ekki á neinn hátt til framtíðar. Það er mála sannast að víða um lönd eru á Internetinu söfn þjóðlegra bókmennta sem komin eru úr vernd höfundarlaga. Einnig hafa margar tilraunir verið gerðar til þess víða um lönd að selja bækur á lágu verði sem tölvuskrár en þær tilraunir hafa ekki tekist ýkja vel. Það er ekki nóg að hafa yfir merkilegu efni að ráða, ef fáir eða engir vita af því.

Kynningarmálin hafa oftast nær verið erfiðast hjallinn hjá þeim sem vilja hasla sér völl án þess að leita til hinna hefðbundnu bókaforlaga. Einnig er það óneitanlega svo að enn þykir flestum betra að lesa sér til skemmtunar á bók heldur en á tölvuskjá  og ef prenta á út þær tölvuskrár sem keyptar eru er sparnaðurinn enginn orðinn hjá neytendunum. Einnig hefur tilfærsla fjármuna á Netinu alltaf verið dálitlum erfiðleikum háð og mörgum finnst enn eins og á árdögum Netsins að þar eigi allt að vera ókeypis.

Á þeim árum sem Netútgáfan var að hefja starfsemi sína var sú trú ríkjandi meðal margra að bókaútgáfa með hefðbundnum  hætti mundi lognast fljótlega útaf með mikilli útbreiðslu Netsins. Svo fór þó alls ekki og bækur eru auðvitað enn við lýði og vinsælar sem aldrei fyrr.

IMG 0457Einhver mynd.


2665 - Netútgáfan

Margir eru þeir sem keppast við að halda því fram að hugtökin „vinstri“ og „hægri“ eigi ekki við um stjórnmál dagsins í dag. Í mínum huga er skiptingin í grundvallaratriðum þannig að þeir sem vinstrisinnaðir eru vilja oftast meiri ríkisafskipti af ýmsu tagi, en þeir sem hægrisinnaðir eru. Auðvitað blandast þetta á ýmsan hátt saman og þessi skipting hefur allsekki jafnsafdráttarlausa merkingu og áður fyrr.

Einnig mætti sem best skipta stjórmálaflokkum í opingáttarmenn og einangrunarsinna eins og mig minnir að einhver hafi gert. Sumir halda því meira að segja fram að allir séu í rauninni Framsóknarmenn. En það er nú önnur saga.

Varðandi stjórnarmyndunartilraunir þær sem nú standa yfir vil ég einkum segja það að Siguður Ingi hefur sennilega frá upphafi gert sér grein fyrir því að Framsóknarflokkuinn gæti haft einskonar úrslitavald þegar að stjórnarmyndun kæmi.

Ég er ekki endilega að segja að hann hafi tekið þátt í upphaflegum viðræðum af óheilindum. Heldur að hann vilji a.m.k. núna heldur hafa íhaldssma og hægri sinnaða einangrunarsinna við stjórnvölinn með þægilegan þingmeirihluta á bak við sig en vinstrisinnaða opingáttarmenn með tæpan meirihluta.

Ef Katrín Jakobsdóttir getur tryggt hæfilegt taumhald á hægrisinnuðum einangrunarsinnum í Sjálfstæðisflokknum þá hef ég svosem ekkert sérstakt að athuga við þá ríkisstjórn sem verið er að rembast við að mynda núna. Áreiðanlega mun sú ríkisstjórn samt ekki standa fyrir neinum umtalsverðum breytingum, enda gáfu kosningaúrslitin ekki tilefni til þess. Breytingamenn höfðu þó mun hærra en hinir, þó þeim hafi ekki tekist að breyta því í kosningasigur.

Eitt sinn var ég fenginn til að flytja fyrirlestur um Netútgáfuna svokölluðu á ráðstefnu á Selfossi og af því ég hef fremur lítið að segja núna vegna þess að allt er á öðrum endanum útaf stjórnarmyndunartilraunum sem mér finnst hálfleiðinlegar ætla ég að setja hingað upphaf þessa fyrirlesturs eða ég held að svo sé. Fann þetta semsagt á tölvunni.

Öfugt við það sem margir virðast álíta þá er það síður en svo nein nýjung að gefa út bækur á Netinu.

Það var árið 1971 sem Project Gutenberg hóf starfsemi sína og þó hægt hafi gengið til að byrja með er það magn bóka sem nú er gefið út á vegum Gutenberg gríðarmikið.

Við hjá Netútgáfunni höfum frá upphafi haft Gutenberg sem fyrirmynd. Á sama hátt og þeir sem þar stjórna hefur það verið meginreglan hjá okkur að gefa aðeins út efni þar sem höfundarrétturinn er útrunninn. Einu undantekningarnar eru að í fáeinum tilfellum hafa viðkomandi höfundar gefið okkur rétt til að gefa út efni þeirra á sama hátt og höfundarrétturinn sé útrunninn.

Uppruna Netútgáfunnar má má rekja til ársins 1990, en þá ákvað sonur minn að slá inn á tölvuna sína Bandamannasögu. Þetta gerði hann einkum til að æfa sig í fingrasetningu. Bandamannasögu var síðan dreift með efni sem við dreifðum á vegum PC-tölvuklúbbsins. Þar var einkum um að ræða Shareware tölvuforrit og ýmislegt þessháttar.

Árið 1992 tók vefsetrið Runeberg til starfa og einbeitti sér að útgáfu norrænna rita með svipuðum hætti og Gutenberg gaf út enska texta. Fljótlega sendi ég Bandamannasögu til Runeberg og nokkru seinna sló dóttir mín Grænlendingasögu og Grænlendingaþátt inn á tölvu og þær sögur voru einnig sendar til Runeberg.

Á árunum um 1990 og þar á eftir  stjórnaði ég BBS-i á Stöð 2 sem var einkum ætlað þýðendum til að senda þýðingar sínar en einnig notaði ég það sem venjulegt BBS. Á árunum 1993 og 1994 gaf ég út tímaritið Rafritið sem var einkum merkilegt fyrir þá sök að það var næstum aldrei prentað út, heldur aðeins dreift sem tölvuskrá. Rit þetta er að sjálfsögðu að finna á vef Netútgáfunnar.

Á árunum 1994 til 1996 að  mig minnir undirbjuggum við starfsemi Netútgáfunnar nokkuð og hugmynd  okkar var sú að koma  henni á fót í samstarfi við Ísmennt, sem  var eitt af allra  fyrstu Internetfyrirtækjum á Íslandi. Þá var ákveðið að sú breyting  yrði á rekstri fyrirtækisins að Ísmennt yrði eingöngu fyrir skóla landsins og aðrir fengju ekki þar inni með eitt eða neitt.

Það var svo ekki fyrr en í janúar 1997 sem við settum Netútgáfuna formlega af stað. Internetfyrirtækið Snerpa á Ísafirði sem Björn Davíðsson rak þá, veitti okkur netaðgang og netpláss eftir þörfum án endurgjalds. Nútildags þykir ekki mikið að hafa aðgang að nokkrum tugum megabæta á Netinu en á þessum tíma var það nokkurs virði.

12. janúar 1997 tók Netútgáfan til starfa. Þá áttum við orðið í fórum okkar 4 íslendingasögur, Bandamannasögu, Bárðar sögu Snæfellsáss, Grænlendingasögu og Grænlendingaþátt. Þess utan 5 fornaldarsögur Norðurlanda, fornkvæði eins og hávamál, Rafritið allt, stjórnarskrá lýðveldisins Íslands sem þarna kom í fyrsta skipti í heillegri mynd fyrir almenningssjónir og einar 8 þjóðsögur.

Allan þann tíma sem Netútgáfan starfaði, þ.e. til hausts árið 2001 gáfum við ætíð út eitthvert efni um hver mánaðamót. Stundum meira og stundum minna eins  og gefur að skilja. Meðal verka sem komu út á þessu tímabili má nefna: Biblíuna (í samstarfi við hið íslenska biblíufélag) Njáls sögu og mikinn fjölda  íslendingasagna og ýmissa  fornrita, Pilt og Stúlku og Mann og Konu efir Jón Thoroddsen, Höllu og Heiðarbýlið og raunar mikið af verkum Jóns Trausta, en hann dó eins og kunnugt er, langt um aldur fram í spænsku veikinni árið 1918. Passíusálmana, Ljóðasafn Jónasar Hallgrímssonar og svo mætti lengi upp telja.

IMG 0502Einhver mynd.


2664 - Hvað er að vera ríkur?

Hvað er að vera ríkur? Ef það að þurfa ekki að hafa miklar fjárhagsáhyggjur af hversdagslegum hlutum er það, þá er ég það kannski. Ég og konan mín lifum það sparlega að ellilaunin okkar og eftirlaunin duga sæmilega fyrir nauðþurftum okkar. Þó eigum við bíl. Ástæðan fyrir þessu er fyrst og fremst sú að við eigum að mestu leyti íbúðina sem við búum í, þó hún sé um 100 fermetrar og við þurfum ekki að borga af lánum sem á henni hvíla nema svona 50 þúsund á mánuði. Þ.e.a.s. meðan verðbólgan fer ekki af stað. Auðvitað á þetta alls ekki við um alla. Ég vorkenni bókstaflega einstaklinum sem þurfa að borga himinháa húsaleigu til viðbótar við allt annað og hafa kannski ekkert sérstaklega há laun eða eftirlaun.

Skil ekki hvernig verkalýðsforingjar og fleiri fá það út að með því að afnema verðtrygginguna þá hljóti vextir bankanna að lækka verulega. Ef því er haldið fram að bankarnir sjálfir eða bankaráðin ráði vaxtastiginu held ég að vextirnir lækki ekki nema nauðsyn beri til frá þeirra sjónarmiði. Ég er heldur ekki hagfræðingur og skil þetta kannski ekki þessvegna. Skilst að nóg sé til af peningum í þjóðfélaginu. Samt lækka vextirnir ekki verulega. Er það kannski vegna þess að þeir súperríku sogi allt til sín? Kannski. En mundu þeir hætta því ef verðtryggingin hyrfi? Mundu þeir ekki bara finna upp einhverja nýja aðferð við peningasogið? Nei, æðri peningamál eru fyrir ofan minn skilning. Hagfræðingur verð ég sennilega ekki úr þessu. Enda kominn yfir 75 ára þröskuldinn.

Í gær var Þórhallur Hróðmarsson jarðsunginn. Hann var bekkjarbróðir minn og næstum alveg jafngamall mér. Hvað er að jarðsyngja? Er það að syngja einhvern ofaní jörðina? Man að pabbi Þórhalls kenndi söng í eina tíð. Hann dæmdi mig vitalaglausan og hefur sennilega haft alveg rétt fyrir sér í því. Ég hef nefnilega fremur lítið álit og litla þekkingu á allri tónlist og hún hefur allsengin áhrif á mig.

Ég mætti í jarðarför Þórhalls og í erfidrykkjunni hitti ég Atla Stefánsson. Hróðmar var á sínum tíma ekki alveg eins harður við hann, ef ég man rétt. Held samt að hann hafi sloppið við söngtímana einsog ég og fleiri. Okkur Þórhalli kom ágætlega saman þó hann hafi haft tónlistina með sér í liði.

Hróðmar féll líka frá mjög skyndilega og þar sem hann lá andaður milli Kaupfélagsins og Mjólkursamlagshússins sá ég lík í fyrsta skipti á ævinni.

Hvað er að deyja? Er það að verða á einu andartaki að einhverju sem þarf að losa sig við? Auðvitað er það ekki gert serimóníulaust. Skárra væri það nú. Oftast má hugsa sér að einhverjir vilji helst að viðkomandi hefði ekki dáið. Lífið væri í rauninni ekkert merkilegt ef dauðinn væri ekki til. Ekkert er samt skrýtið við það að menn velti því fyrir sér hvað taki við að lífinu loknu. Mér finnst það ekkert óbærileg tilhugsun að ekkert taki við. Sú er hin sanna nútímalega og vísindalega hugsun. Ekki eru samt allir þessarar skoðunar. Og það ber að virða.

IMG 0507Einhver mynd.


2663 - Um dauðann o.m.fl.

Einhver læknir var að skrifa í Fréttablaðið um daginn um ótímabær dauðsföll. Held að hann hafi verið að tala um bráðkveddu, hjartaslag og þessháttar. Ekki er ég að gagnrýna hann, en þetta orðalag hlýtur að þýða að sum dauðsföll séu tímabær. Sjálfur er ég efalaust að nálgast þau tímamót að dauðsfall mitt sé tímabært. Svolítið er það samt óhugnanlegt.

Skelfingar viðkvæmni er þetta, kynni einhver að hugsa og jafnvel segja. Dauðinn og allt sem honum tilheyrir er algjört tabú hér á Íslandi. Ekki held ég að svo sé allsstaðar. Einhvern staðar las ég að u.þ.b. 200 þúsund manns deyji á hverjum degi í heiminum og ekki sé mikið þó 50 milljónir manna láti lífið í einni smáheimsstyrjöld.

„Skelfing deyr af fólkinu eftir að útvarpið kom“, var haft eftir einhverjum sem ekki fylgdist vel með. Kannski það hafi verið sá sami og sagði um lætin í síðari heimsstyrjaldarinni þegar sífellt var talað um það í útvarpinu og annars staðar að svo og svo margir hefðu fallið. „Það veit ég, að þetta endar með því að þeir drepa einhvern“.  

Hér er lítið dæmi um hve miklu smávægilegur misskilningur getur valdið. Í Passíusálmunum er mér fortalið að standi einhversstaðar:

Sálin má ei fyrir utan kross,
öðlast á himnum dýrðarhnoss.

Ekki er ætlun mín að véfengja þetta, en sagt er að sveitarlimur einn hafi orðið óður og uppvægur þegar ráðgert var að flytja hann á annan bæ sem var víst utar í sveitinni en bærinn Kross. Utanbókar kunni hann mestalla Passíusálmana.

Í Bandaríkjunum, og kannski víðar, er til myndefni af mörgum fjöldamorðum sem tekin eru upp af öryggismyndavélum. Hart er nú deilt um hvort gera skuli myndbönd þessi aðgengileg almenningi og eru sjónarmiðin mörg. Sumir vilja t.d. eyða þeim með öllu, ef ekki þarf á þeim að halda núna. Ekki síst á þetta við um fjöldamorðin sem framin voru í kirkju í smábæ í Texas nýlega. Sá atburður í heild sinni er til á myndbandi. Til stendur jafnvel að rífa kirkjuna þar sem þetta átti sér stað og reisa í staðinn minnismerki um þá sem létu líf sitt þennan örlagaríka dag.

Fremur dapurlegt er þetta innlegg mitt að verða og biðst ég afsökunar á því. Við því er þó ekkert að gera. Svona hugsa ég bara.

Deila má um hvort fólk sé kattafólk eða hunda. Sjálfur er ég hallari að köttum. Kettirnir hugsa fyrst og fremst um eigin hag, held ég. Hundarnir virðast aftur á móti hugsa mjög um hag yfirhundsins, hvort sem það er manneskja eða ekki. Einnig hugsa þeir oft vel um þá sem minni máttar eru. Vel má líka hugsa sér að vilja hafa báðar tegundirnar í kringum sig eða hvoruga. Hávaði og hreinlæti getur skipt miklu í því sambandi.

IMG 0594Einhver mynd.


2662 - Stjórnarmyndun o.fl.

Á mbl.is eða einhverju blaði las ég eitthvað um neflokk. Auðvitað las ég það fyrst sem nef-flokk. Sennilega er maður svona stjórnmálaflokks-stilltur útaf núverandi stjórnarmyndunarviðræðum. Sniðugt hjá þeim sem að þessu stóðu að láta þær fara fram uppi í sveit. Í byrjun a.m.k. Nú hefur stólaleikurinn staðið nokkuð lengi og mörgum finnst að Framsóknarforinginn hafi ekki sýnt sérstök heilindi. Ekki get ég sagt að ég sé yfir mig spenntur yfir því hver talar við hvern af stjórnmálaforingjunum. Kannski tekur nokkrar vikur að komast að niðurstöðu. Held að hún skipti í reynd fremur litlu máli. Auðséð er að leyndarhyggju- landbúnaðar- sjávarútvegs- og íhaldsflokkarnir halda sínu.

Hvernig kemst ég hjá því að minnast á sjálfan mig eða fjölskylduna í þessum álnarlöngu eða afar löngu bloggskrifum mínum? Einfalt mál. Bara að tala eða skrifa um einskisverð málefni eða mál sem maður hefur ekkert vit á. Einsog t.d. heimsmálin. Sumir skribentar þykjast vita allt. Gúgli karlinn veit þó ansi margt. Um að gera að spyrja hann, ef maður er í vafa. Svo er líka ansi gaman að láta mata sig á allskyns vitleysu einsog ég fíla svo vel. Altsvo að mata aðra, ekki hitt. Um að gera að reyna að láta lesandann halda að hann sé mun gáfaðri, en maður sjálfur.

Sumir sagnfræðingar virðast vita næstum allt. Nefni engin nöfn, það er hættulegt. Er með tvo eða tvö í huga og hef nefnt nöfnin þeirra í gömlum bloggum. Nú fara allir að lesa gömlu bloggin mín. Nei annars, ég er ekki svona innbilskur og veit vel að engir nema ég sjálfur lesa gömul blogg eftir mig. Annars er það mesta furða hvað þeir, sem einbeita sér að því, komast yfir að lesa mikið. Eftir því sem aldurinn færist yfir mig les ég minna og minna, en skrifa þeim mun meira. Einu sinni lagði ég áherslu á að skrifa daglega. Reyndar er ég steinhættur því.

Um daginn þegar ég fór í morgungönguna mína óð tunglið í skýjum. Þá datt mér náttúrlega í hug þessi vísa:

Týnd er æra, töpuð sál.
Tungl veður í skýjum.
Sunnefunnar sýpur skál
sýslumaður Wium.

Kannski er þetta eitthvað vitlaust munað hjá mér, en það gerir ekkert til. Mér finnst (þrátt fyrir augljós gæði vísunnar) að önnur ljóðlínan sé ágætt dæmi um hortitt. Það kemur í sjálfu sér ekkert málinu við hvort tunglið hafi vaðið í skýjum. Það minnir samt á rok og myrkur og þannig var einmitt ástatt á þessari morgungöngu minni.

IMG 0661Einhver mynd.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband