692- Reynt að kryfja stórhausamálið til mergjar og tæpt á ýmsu öðru

Brjánn bloggvinur minn Guðjónsson gerir stórhausamálið að umtalsefni í nýlegu bloggi. Mér er ljúft og skylt að skýra hvernig þetta mál horfir við mér.

Forsíðubloggarar eða stórhausar eru nefndir þeir átta bloggarar sem koma á forsíðuna í hvert sinn sem blog.is setrið er heimsótt. Hvernig þessi blogg eru valin hefur oft komið til umræðu. Starfsmenn Moggabloggsins eða Moggabloggsguðirnir sem ég vil kalla velja þá sem þarna eru. Af lista sem mér skilst að á séu um 200 bloggarar velur sérstakt forrit hverja átta skuli birta hverju sinni.

Hvaða skilgreiningar ráða því vali er mér að mestu hulið. Moggabloggsmenn geta þó að sjálfsögðu skýrt þetta allt saman vilji þeir það. Mér finnst að ekki eigi að leyna neinu í þessu sambandi. Annaðhvort eigi að útskýra út í hörgul hvernig þessu vali er varið eða steinhætta þessari stéttaskiptingu. Ef vilji er til að halda þessu áfram tel ég að útskýra þurfi vel af hverju þetta er gert.

Mér finnst mannkynsfrelsarar vaða dálítið uppi á Íslandi í dag. Einkum í silfri Egils, Stöð 2 og útvarpi Sögu. Kannski er þetta einhver ímyndun í mér en ég get ekki gert að því þó mér finnist þetta. Bloggið er svolítið annar handleggur. Vissulega er margt bullið þar en fyrir það er auðvelt að skrúfa. Ekki er nærri eins auðvelt að skrúfa fyrir hina hefðbundnu fjölmiðla því vitundin um það sem maður gæti hafa misst af er sárari en margt annað.

Fjölmiðlarnir hafa áhrif á marga í krafti auðvaldsins og auglýsinganna. Auglýsendur þurfa að ná til margra í einu og með hjálp fjölmiðlanna tekst þeim það. Þar með verða fjölmiðlarnir háðir auglýsendunum þó þeir geri sér kannski ekki grein fyrir því. Auglýsendurnir eru hinir raunverulegu eigendur fjölmiðlanna og ráða í raun hvað birtist þar. Af nógu er að taka og innan um það sem úti frýs er sjálft lýðræðið og frelsið til athafa. Þetta er gömul saga og ný. Án raunverulegrar og frjálsrar fjölmiðlunar er ekkert líf. Án lífs engin fjölmiðlun. Þetta er Catch-22 nútímans og erfitt að breyta.

Um daginn fór ég að bænum Straumi sem stendur skammt frá álverinu í Straumsvík. Ekki fór ég inn heldur lét mér umhverfið nægja. Á heimleiðinni ætlaði ég að skoða nánar hið merka listaverk af Þór sáluga í hafravagninum en listrænn hundur, kolsvartur að lit, sem þarna var á verði kom í veg fyrir það. Um leið og ég snaraðist út úr bílnum kom hann æðandi með gelti, gassalátum og urri en hefur sennilega brugðið eins mikið og mér því líklega hefði hann getað bitið mig áður en ég komst inn í bílinn aftur hafi það verið raunverulegur ásetningur hans. Út úr bílnum þorði ég þó ekki að fara öðru sinni heldur kom mér sem skjótast í burtu.

Svo eru nokkrar myndir.

IMG 2679Þessi er tekin við Straumsvík.

IMG 2682Sömuleiðis þessi.

IMG 2683Það er staðarlegt í Straumi.

IMG 2690Varða með krossi.

IMG 2696Malbik endar.

IMG 2698Sæbarið grjót.

IMG 2699Steinar í sjó fram.

IMG 2703Gengið í sjóinn.

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Grétar Guðmundsson

Þetta er mjög athyglisverður pistill hjá þér. Það er ekki langt síðan ég fór að blogga en það hefur undrað mig hve þröngur hópur það er sem kemst í þennan útvalda hóp að verða forsíðubloggarar. Ég bloggaði nýlega um það að fjölmiðlar, hvaða nafni sem þeir nefnast, séu hlutdrægir í vali sínu á viðmælendum og benti á að í Kastljósi og Silfri Egils væru stöðugt á ferðinni "afturgöngur" mér sýnist  það sama vera upp á teningum hvað varðar val forsíðubloggara (Líklega er ég hér með búinn að eyðileggja um alla framtíða möguleika mína að komast í þennan útvalda hóp)

Sigurður Grétar Guðmundsson, 22.5.2009 kl. 09:20

2 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Já Sigurður. Þetta forsíðubloggaramál er einkennilegt og ég skil ekki tilganginn með því. Mér finnst að reglurnar sem þessu ráða þyrftu að vera auðskiljanlegar og aðgengilegar. Það er að segja ef þetta er nauðsynlegt.

Sæmundur Bjarnason, 22.5.2009 kl. 13:53

3 Smámynd: Ben.Ax. (Benedikt  Jóhannes Axelsson)

Mér finnst gott að vera í skugganum af stórmennunum.

Ben.Ax. (Benedikt Jóhannes Axelsson), 22.5.2009 kl. 19:26

4 identicon

Best að vera bara þverhaus og sníkjublogga hjá stórhausunum.

Malína 22.5.2009 kl. 20:20

5 identicon

Ég vil ekki vera ´alvörubloggari´.  Heldur bara skipta mér af mönnum og músum.

EE elle 25.5.2009 kl. 23:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband