Bloggfærslur mánaðarins, maí 2012

1681 - Óli og Þóra

x13Þessi mynd er frá Garðyrkjustöð Garðyrkjuskólans á Reykjum í Ölfusi. Þarna er horft í gegnum tvö gróðurhús og vinnuskúrinn sem var áfastur þeim. (8 og 9) (líklega eru þá 10 og 11 til hægri).

42 % vilja leigja Huang Nubo segir í stríðsletursfyrirsögn í Fréttablaðinu. Sennilega er þetta alveg rétt. Ég hugsa að ég mundi vilja taka hann á leigu ef leigan væri ekki of há. Ætli hann sé örugglega til leigu? Ég hef nefnilega mjög gaman af að snúa útúr fyrirsögnum. Þeir sem þær semja hugsa oft ekki mikið. A.m.k. ekki um hvernig misskilja megi þær. Það finnst mér samt vera næstum aðalatriðið. Það er nefnilega ekki nóg að muna hvernig „krydsild“ á dönsku varð að kryddsíld á íslensku, heldur er oft fróðlegt að reyna að setja sig í fótspor þeirra sem bara lesa fyrirsagnir.

Leðjuslagurinn milli Óla og Þóru heldur áfram. Hann kallaði hana „puntudúkku“ eða eitthvað í þá áttina og núna segir hún að hann sé helsta vandamálið í íslenskum stjórnmálum. Það er nú óþarfi að láta svona. Trúi því ekki að margir taki mark á svonalöguðu. Frá mínum bæjardyrum séð vill Ólafur breyta íslensku stjórnarfari á þann veg að forsetinn ráði sem mestu. Þóra vill aftur á móti að fólk muni eftir Kristjáni Eldjárn og Vigdísi Finnbogadóttur og afskiptaleysi þeirra. Um það finnst mér málið snúast. Þó Alþingi Íslendinga sé ákaflega misheppnað um þessar mundir, er ekki þar með sagt að þingræði eigi að vera úr sögunni. Beint lýðræði getur ekki þrifist í nútímaþjóðfélagi. Þá er fulltrúalýðræðið skárra. Forsetinn á að vera öryggisventill, en aðallega þó til skrauts.

Aðstoðarmaðurinn (sem kann á Akraneseldavélina) er ekki ánægður með að vera bara kallaður aðstoðarmaður, enda svosem engin furða því hann (hún) ber ábyrgð á flestöllu sem ég læt ofan í mig og þar með líka á því að ég skuli enn vera lifandi þrátt fyrir háan aldur. Þetta datt mér í hug áðan þegar ég sat í bílnum (okkar) og maulaði kartöfluflögur sem ég  hafði keypt (í leyfisleysi).

Svo var mikill Satans kraftur
að saltaðir þorskar gengu aftur.

Þetta skilst mér að Grímur Thomsen hafi ort. Kannski hann hafi búið á Bessastöðum þá. Krafturinn á Bessastöðum virðist vera mikill. Margir vilja a.m.k. komast þangað. Þegar Valbjörn stökk á stöng, þá var ei til Bessastaða leiðin löng. Var það annars Sveinbjörn en ekki Valbjörn sem stökk á stöng? Man það ekki með vissu, en held endilega að Þórarinn Eldjárn hafi ort eitthvað um þetta og líka Möve-kvæðið. Þar var margt vel sagt.

Sem ég var farinn að halda að ég hefði sérhæfileika til bloggskrifta fékk ég orðsendingu frá Þóru Arnórsdóttur um að hún samþykkti vinarbeiðni mína á fésbók. Man samt ekki eftir að hafa óskað eftir fésbókarvináttu hennar. Hef lent nokkrum sinnum í svipuðu undanfarið en er fyrir löngu hættur að safna fésbókarvinum. Sennilega ætti ég frekar að safna fésbókaróvinum. Ha ha, þessi var nokkuð góður. Sukkerberg væri varla ánægður með mig nema þá helst fyrir sykurneysluna. Hún er oft ótæpileg.

Jæja, þetta er nú orðið gott. Búinn að sofa á þessu öllu eins og vera ber. Förum sennilega til borgar óttans í dag og þá auðvitað í gegnum rörið. Annars eru miðarnir í það að verða búnir og Hvalfjörðurinn fallegur í blíðunni.

IMG 8302Skógrækt á Íslandi.


1680 - Stillnoct

x11Gamla myndin.
Þetta sýnast mér vera þeir Jósef Skaftason, Jóhannes Finnur Skaftason og Jóhann Ragnarsson á Grund. Myndin er líklega tekin einhversstaðr nálægt Ingólfsfjalli.

Úr því ég er snarvaknaður þýðir víst ekkert annað en taka hálfa svefntöflu (stillnoct) til að sofna aftur. Auðvitað er ég bæði að venja sjálfan mig og líkamann á þennan ósið með þessu og þar auki að auka gróða samviskulauss og stórhættulegs alþjóðafyrirtækis en fram hjá því verður ekki horft að bévítans töflurnar hafa áhrif. Maður finnur alveg hvernig maður sekkur í meðvitundarleysið með hjálp þeirra og meðan maður gætir þess að stækka ekki skammtinn og venja sig á að nota þetta hverja einustu nótt ætti öllu að vera óhætt.

Ég er að mestu sammála Jónasi Kristjánssyni um að stjórnmálamenn þeir sem stóðu að Hruninu eigi allir að víkja. Allir sem einn. Hver einn og einasti. Það er lengi hægt að deila um sekt hvers og eins en ekki verður hjá því komist að viðurkenna að þetta gerðist á þeirra vakt. Best er að hreinsa alveg út og losa sig við þessi ósköp. Hægt var að fallast með semingi á að Jóhanna Sigurðardóttir og Steingrímur Jóhann yrðu áfram til að tryggja lágmarkskunnáttu í stjórnarstörfum og starfsháttum alþingis. Nú er tími þeirra hins vegar á þrotum og engin ástæða til að þau eða aðrir sem tilheyra samskonar stjórnmálaheimspeki verði við völd áfram.

Svo sannarlega er Ólafur Ragnar Grímsson þar með talinn. Forsetaskriflið sem auglýsti útrásarskrílinn þindarlaust meðan þeir sem þar fóru fremstir í flokki þóttust vera snillingar á heimsmælikvarða. Þó ekki væri nema fyrir það eitt er augljóst að hans tími er liðinn. Óþarfi er að skammast sín fyrir að láta hefnigirnina ná tökum á sér í komandi forsetakosningum. Þjóðin hefur hingað til verið sæmilega heppin með forseta sína og þó rétt sé að víkja Ólafi til hliðar núna má vel muna að hann nýtti embættið nokkuð vel undir lokin og breytti því. Þóra Arnórsdóttir virðist ekki vera slæmur kostur í staðinn, en þó er hún að mestu óreynd. Það er ágætt og engin ástæða til að ætla annað en hún standi sig vel.

Nú er komið sumar og enn halda þingmenn áfram að rífast. Best væri að mínu áliti að læsa þá inni í Alþingishúsinu og hleypa þeim ekki út fyrr en í haust. Ef þeir verða ekki allir rifnir í tætlur þegar þangað er komið er kannski von að einhverjir væru nothæfir til undaneldis ef ekki vill betur

Kannski væri bara best að henda þessum hugleiðingum á Moggabloggið núna strax og vera þar með laus við þessar hættulegu hugsanir og snúa sér alfarið að hinu hættulega stillnocti.

IMG 8294Fjallakofinn.


1679 - Akranes

x10Gamla myndin.
Hér er Bjössi að hjóla í Löngubrekku í Kópavogi.

Sé að bestu bloggararnir blogga bara öðru hvoru. Ég er á leiðinni í þeirra hóp. Þessvegna blogga ég svona sjaldan. Á ekki von á að margir sakni bloggleysisins og sumir gætu jafnvel verið fegnir að þurfa ekki að lesa þvæluna úr mér. Annars vorkenni ég þeim ekki neitt. Ef þeir leggja það á sig að lesa það sem ég skrifa eru þeir svo vel læsir að þeir lesa eflaust allan fjárann annan og ekki er einu sinni víst að mitt efni sé það lakasta.

Er búinn að hafa það ágætt hér á Akranesi undanfarna daga. Þó kann ég ekki á grillið en kemst alveg af án þess. Sjónvarpið, kaffivélin, ísskápurinn og örbylgjuofninn hafa allir lotið í lægra haldi fyrir mér. Svo er ég með aðstoðarmann með mér sem kann á eldavélina svo mér eru flestir vegir færir. Búinn að mæla Langasand fram og aftur enda er komið sólskin og vindurinn að mestu dottinn niður. Kannski ég fari bara heim á leið.

Annars eru víst flestir að hugsa um forsetakosningarnar núna að Evróvisíón genginni. Þær hafa það þó sér til að ágætis að nokkuð öruggt er að Íslendingur vinnur. Ekki veit ég þó hvort Óli eða Þóra sigra en held þó með Þóru og krakkaskaranum. Óli greyið hefur ekki komið nærri öllu í verk sem ég vonaðist til þegar ég kaus hann á síðustu öld svo rétt er að prófa eitthvað nýtt. Svo er hann líka sífellt að skipta sér af og pirra þá sem ráða. Búinn að breyta embættinu og jafnvel til góðs. Aumingja Sjálfstæðismennirnir sem þora ekki annað en styðja hann því hann líkist Doddssyni svo mikið. Gæti samt trúað að hann snerist gegn þeim fljótlega ef hann ynni.

Tinna kom í heimsókn og sá kónguló í hverju horni. Kettirnir fengu líka lítinn frið. Sættu sig þó furðanlega við meðferðina. Fésbókin er á sínum stað og samkomulagið við tölvur heimilisins er bara nokkuð gott.

IMG 0113Eru vélarnar á námskeiði?


1678 - Hvítasunna

x9Þessi mynd gæti verið frá Seyðisfirði. Tvíbytna sýnist mér þetta vera.

Eiginlega ætti ég að reyna að takmarka mig eitthvað. Það gengur ekki að skrifa bara svona um allt mögulegt. Kannski væri réttara að takmarka sig svolítið og skrifa bara um eitthvað ákveðið. T.d. bækur. En þó ég skrifaði um þær í orði kveðnu þá væri vel hægt að skrifa í rauninni um hvað sem er þó útgangspunkurinn væri kannski bækur. Eru ekki öll skrif þannig að þau eru eiginlega um allt mögulegt þó látið sé í veðri vaka að þau séu um eitthvað ákveðið efni. Jú, ég gæti svosem skrifað um blogg. Er það ekki einmitt það sem ég hef alltaf þótst vera að gera?

Foringjadýrkun heltekur þjóðina. Steingrímur og Jóhanna valda þessari foringjaþörf ekki nógu vel. Þeir sem núna eru að safna undirskriftum til að fá Jóhönnu til að segja af sér (sem hún gerir ekki) eða ÓRG til að gera uppreisn og setja ríkisstjórnina af (sem hann passar sig á að gera ekki, en reynir að fá atkvæði útá hugmyndina) eru í rauninni að vonast eftir því að Davíð Oddsson komist til valda aftur. Kannski vonast hann til þess sjálfur líka og reynir að styðja þessa undirskriftasöfnun, sem varla margir aðrir munu gera.

Fylgdist dálítið með atkvæðagreiðslunum á alþingi í dag (fimmtudag). Ekki þótti mér mikið til þeirra koma og allt fara á þann veg sem búist var við. Lokaorð Vigdísar Hauksdóttur hræddu mig samt svolítið. Ekki var annað að skilja á henni en að hún reiknaði með að komast aftur á þing eftir næstu kosningar. Það vona ég að verði ekki.

Nú er Hvítasunnan víst framundan og einnig má búast við að veður fari hlýnandi. Næstu daga mun ég að líkindum dvelja einkum á Akranesi og alls ekki er víst að ég verði eins mikið bloggskrifandi og undanfarið.

IMG 0112Bátur á siglingu II.


1677 - Urriðafoss og umhverfi

x8Gamla myndin.
Sennilega er þetta nýja (gamla) brúin á Glúfurá í Borgarfirði.

Nú er ég nýbúinn að setja upp blogg. Þessvegna er engin ástæða fyrir mig til að fara strax að byrja á því næsta. Get bara ekki stillt mig. Horfði á lokin á söngvakeppninni í sjónvarpinu í gærkvöldi. Þetta var eiginlega ekkert spennandi. Ísland kom svo snemma úr hattinum. Var farinn að halda að samkomulag væri komið á um að draga Ísland út síðast. Annað sem pirrar mig gegndarlaust hjá rúvinu er að þar er fullyrt í dagskrárkynningu að Evrópukeppnin í fótbolta sé haldin á RUV. Auðvitað þarf ákveðinn skammt af útúrsnúningi til að skilja þetta þannig, en ég er nú bara þannig gerður.

Seinna. Já, mun seinna. Um síðustu helgi skoðaði ég Urriðafoss og nýju Þjórsárbrúna. Ég hef nokkrum sinnum keyrt yfir þá brú og maður verður varla var við það. Sér þó gömlu brúna og ég man vel eftir því þegar ég sá hana fyrst. Hélt þá jafnvel að keyra ætti eftir boganum. En nóg um það.

Af þessum fyrirbrigðum tók ég nokkrar myndir og má sjá þær hér: (8 talsins)

IMG 0342Skilti.

IMG 0346Gufan úr fossinum.

IMG 0348Brú I

IMG 0350Brú II

IMG 0363Brú III

IMG 0372Foss I

IMG 0375Foss II

IMG 0376Foss III

Ekki er mikið um þessar myndir að segja. Fossinn er vatnsmikill og eftirtektarverður. Svo nálægt nýju brúnni er hann að gufan frá honum sést þaðan ef vel er að gáð.

Á Eyjunni er stungið uppá því (sem aðferð til að láta útlendinga trúa okkur) að gera Vigdísi Hauksdóttur að forsætisráðherra. Ef ég ætti að velja milli Jóhönnu Sigurðardóttir og hennar í þetta hlutverk mundi ég nú velja Jóhönnu. Auðvitað er líklegt að Vigdís yrði ekki forsætis nema örfáa daga en hugsanlegt er samt að hún gæti eyðilagt heilmikið. Eins og nú er eyðileggur hún einkum framsóknarflokkinn og það er í lagi mín vegna.

Var á Akranesi og þar í nágrenni mestallan miðvikudaginn og þar var bálhvass. Það sem ég kalla bálhvassan vind, kalla sumir (t.d. Sigurður Þór) kannski bara golu. Þegar ég var á Vegamótum á Snæfellsnesi og þurfi gjarnan að svara daglega mörgum tugum fyrirspurna um færð á heiðunum komst ég að því að ekki er gott til árangurs að trúa öllu. Helst þurfi maður að þekkja þá vel sem farið höfðu yfir heiðarnar. Man að ég treysti rútubílsjórunum alltaf best.

IMG 0112Bátur á siglingu II.


1676 - Blogg um blogg

x7Gamla myndin.
Hef ekki hugmynd um hvaða bær þetta er.

Þeim til upplýsingar og uppörvunar sem gaman hafa af bloggskrifum og spekúlera dálítið í þeim get ég sagt að þegar ég skrifa ekki neitt koma samt um 35 til 40 heimsóknir á síðuna mína daglega. Ef ég skrifa eitthvað (næstum sama hvað) fjölgar heimsóknunum verulega og fara gjarnan í svona 100 til 150. Ef ég reyni svo að skrifa um eitthvað merkilegt sem mikið er í fréttum þann daginn og hef fyrirsögnina krassandi (eða nafn sem mikið er í fréttum) geta heimsóknirnar vel farið í svona 3 til 4 hundruð eða jafnvel meira. Hef ekki athugað hvaða áhrif linkanir í fréttir og það að skrifa oft á dag hafa, en þau gætu verið einhver.

Eitt helsta einkennið á mínu bloggi er kannski það að ég birti alltaf núorðið tvær myndir. (Já,og númerin auðvitað) Aðra myndina hef ég ætíð gamla og hina nýlega. Gömlu myndirnar sem ég birti eru svosem úr mínum fórum en ekkert endilega teknar af mér. (Þó flestar séu það) Nýlegu myndirnar eru hinsvegar allar teknar af mér og lélegar eftir því. Kannski hafa myndirnar einhver áhrif á heimsóknafjöldann.

Ég skrifa sjaldan frásagnir af einhverju heldur yfirleitt hugleiðingar um allan skollann. Segi oft frá bókum sem ég hef nýlega lesið eða hinu og þessu öðru og reyni af öllum mætti að festast ekki í einhverjum ákveðnum skorðum. Samt væri það eflaust miklu auðveldara. Hugleiðingar um fréttir dagsins væru það t.d. , en vafalaust yrðu þær oft úreltar því ég nenni ekki að vera síhlaupandi í tölvuna og bloggandi oft á dag. Finnst það ekki viðeigandi. Þegar svolítið er beðið með birtingu er oft hægt að þurrka ýmsan óþarfa út.

Helvísis læti eru í klukkuni. Hún er að verða hálfellefu. Þetta endar sennilega með því að maður verður að fara á fætur. Klukkan á bakarofninum (sem er mikið notuð hér) ruglaðist í rafmagnsleysinu um daginn og svo ruglaði ég hana enn meir þegar ég fór að reyna að laga hana.

Fór út að labba áðan og datt þetta m.a. í hug:

Reykingar minnka markvert
mjög er á hjólum þeyst.
Strætóinn stoppar bráðum
og allt er í heiminum trist.

Kannski hefði þetta vel getað orðið vísa ef ég hefði lagt mig eftir rími og stuðlum. Stundum eru samt slík hjálpartæki samt bara til trafala. Man að ég gerði fyrstu ljóðlínuna (ef hægt er að tala um slíkt) þegar ég sat á bekk og sá sígarettustubb á gangstígnum.

Það er ekki mitt að ákveða að fólk eigi að hugsa öðruvísi en það gerir. Var að enda við að lesa hverju ÓRG forseti svaraði á beinni línu hjá DV. Hann er ansi sleipur að svara fyrir sig. Sum svörin voru þó hvorki fugl né fiskur. (Jafnvel hártoganir og skreytni). Á þeim spretti sem eftir er fram að forsetakosningum óttast ég meira að Þóra Arnórsdóttir leiki illilega af sér en að gamli refurinn ÓRG geri það. Samt býst ég frekar við að styðja Þóru. Sérstaklega ef hún kemst klakklaust í gegnum þann hildarleik sem framundan er.

IMG 0111Bátur á siglingu I.


1675 - Speglasjónir

xGamla myndin.
Reykjavíkurtjörn. Ekki merkileg mynd en áreiðanlega gömul.

Nú hef ég ekkert farið á tölvu (og þar af leiðandi ekki séð Fésbókina) í næstum tvo daga og lítið sem ekkert hlustað eða horft á fréttir í jafnlangan tíma. Það er ekki laust við að ég fái þá tilfinningu þegar ég skruna yfir fésbókarstaglið að ég hafi misst af einhverju og þar sé margt merkilegt að finna. Er þetta eðlilegt? Ég held ekki. Eiginlega má þetta tölvurugl alveg missa sig. Ég ætla ekki að nota tíma minn til að sökkva mér niður í eitthvað sem í rauninni er úrelt orðið. Samt er það svo að á netinu gerast hlutirnir. Þeir tefja líka fyrir fólki að gera eitthvað að gagni. Það er sífellt að leita að einhverju svakalega merkilegu og má aldrei vera að því að horfa á litlu hlutina sem aðrir hafa engan áhuga á af því að þeir eru sífellt að leita að þessu svakalega merkilega.

Ef ég kemst að þeirri niðurstöðu sjálfur og einn að ég hafi rithöfundarhæfileika þá hef ég þá. Engu máli skiptir hvað öðrum finnst. Með þá hæfileika (séu þeir til staðar) gildir það sama og með aðra. Til þess að þeir komi að einhverju gagni þarf stöðuga og mikla ástundum. Af sjálfu leiðir að hún getur vel orðið til þess að annað sitji á hakanum. Þessvegna eru flestir svona skrýtnir. Þeir hafa nefnilega hæfileika til einhvers en oft verður eitthvað utanaðkomandi til þess að trufla ástundunina. Þá er áherslan semsagt lögð á það sem heldur viðkomandi frá því að sinna sínu hugðarefni og þannig fer mikið magn ónýttra hæfileika til spillis. En af hverju er þetta svona. Veit það ekki. Best að hugsa svolítið um það.

Bloggið er sú leið sem ég hef fundið fyrir það sem mér finnst vera mínir aðalhæfileikar. Þörf mín til að gera eitthvað enn stærra og merkilegra en blogga hefur í áranna rás verið trufluð af mörgu. Tíunda það ekki hér. Hvað þarf sá sem sískrifandi er að hafa til brunns að bera. Nú, hann þarf einkum að fá aðra til að trúa því að hann sé afburðasnjall. Það verður hann ekki nema með mikilli ástundun eins og fyrr er skrifað. Sumir eru svo heppnir að sérhæfileikar þeirra uppgötvast fljótt (einkum af þeim sjálfum) og þeir búa þá jafnfram við þannig aðstæður að sérgáfa þeirra nýtur mikillar athygli og stuðnings.

Er þá ef til vill hægt að rækta trú barna og unglinga á það að þau geti gert eitthvað merkilegt og eiginlega hvað sem er? Það er margt sem bendir til að svo sé og frásögnin af þeim Polgar systrum ungversku sýnir að hugsanlega er þetta alveg hægt.

IMG 0090Slípaðir steinar.


1674 - Alþingi og ÓRG

030Gamla myndin.
Bifrastarmynd. Á leið í útivist. Hugsanlega er það Árni Reynisson sem er fánaberi þarna og á eftir honum gætu verið Birgir Marínósson, Arngrímur Arngrímsson og Jón Eðvald Alfreðsson. Annars eru menn heldur kuldalegir þarna.

Oft er ég nokkuð ánægður með það sem ég set á bloggið mitt. Enda er það eins gott. Nokkrum sinnum hef ég samt verið hundóánægður með það. Sem betur fer hafa lesendur orðið fáir í þau skipti. Á margan hátt er ég nokkuð ánægður með það sem ég var að enda við að setja þangað núna.

Sem betur fer hef ég lítið lent í því að kommentakerfið mitt hafi verið tekið yfir af einhverjum sem þykir óskaplega gaman að rífast. Það hef ég þó séð hjá öðrum í einhverjum mæli. Hugsanlega hefur það samt minnkað í seinni tíð. Kannski eru rifrildisseggirnir allir farnir á fésbókina. Þar geta menn rifist eins og rófulausir hundar án þess að nokkur taki eftir því. Sumir vilja líka umfram allt lesa slík skrif og gera það líklega og eru því hættir að hanga á blogginu.

Því vil ég spyrja:

1.      Er bloggið að hreinsast?

2.      Er hættulegt að vera með vinstrisinnaðar skoðanir hér á sjálfu Moggablogginu?

3.      Er bloggrúnturinn að breytast hjá mörgum?

4.      Hvernig er best að fylgjast með þeim sem maður vill þó fylgjast með?

5.      Er best að nota fésbókina til að fylgjast með ættingum og skyldmennum?

Kannski eru þessar spurningar litaðar af því sem mér sjálfum finnst. Við því er lítið að gera. Kannski velti ég þessum málum alltof mikið fyrir mér og e.t.v. er bara best að haga sér eins og manni dettur í hug í það og það skiptið.

Það er fyrst og fremst asnaskapur hjá þingmönnum að láta svona í sambandi við málþófið. Meðan svona er látið hrynur valdið frá þinginu, þessari gömlu og virðulegu stofnun. Það eru fyrst og frems stjórnvöld (mismunandi heimsk) og forsetaembættið sem tína upp molana sem þingið kastar frá sér. Jóhönnu og Steingrími hefur mistekist með öllu að gera sig gildandi. Þau virðast enn halda að valdið sé hjá þinginu. Svo er bara alls ekki. Vald fjölmiðla og kjaftæðisins á netinu er allt of mikið. Alþingi þarf að endurreisa. Forseti þingsins og formenn stjórnmálaflokkanna geta það, en vilja ekki. Getur verið að þau hafi einhverja hagsmuni af niðurlægingu þess? Eða skilja þau alls ekki eðli málsins?

Ég verð að álíta Ólaf Ragnar Grímsson vera fulltrúa gamla tímans í komandi forsetakosningum. Er gamli tíminn verri en sá nýji? Ekki endilega, en með því að hleypa ekki því nýja að er verið að tryggja stöðnun. Flokkspólitík ræður alls ekki öllu í forsetakosningum. Heldur ekki hvað búið er að gerast undanfarin ár. Horfa skal fram á veginn og ímynda sér að hlutirnir fari batnandi. Breytingarnar sem ÓRG er búinn að gera á forsetaembættinu fara ekkert, en hann gæti þvælst fyrir ef hann vill stjórna öllu.

Sagt er að giftir karlar lifi lengur en þeir ógiftu. Þessu get ég vel trúað. En hvað með giftar konur? Getur verið að þær lifi líka lengur? Mínar rannsóknir benda til að ungt fólk lifi lengur en það sem gamalt er. Samt má reikna með að það drepist á endanum. Frásagnir af öllum þessum rannsóknum þreyta mig. Aldrei fær maður að vita allt sem máli skiptir. Nýjasta forsetakosningakönnunin skilst mér t.d. að hafi verið þeim annmarka háð að aðeins fólk á aldrinum 18 – 67 ára var spurt. Hvers eigum við gamlingjarnir að gjalda?

Einu sinni á sjöunda áratugnum fórum við Hvergerðingarnir til Hafnarfjarðar til að keppa í fótbolta. Ég var í makinu í fyrri hálfleik. Eftir hann var staðan 8:0 Hafnfirðingum í vil. Þá var Sigurjón Skúlason settur í markið fyrir mig. Leikurinn tapaðist samt 14:0. Það þykir víst ekkert mikið, nú til dags. Samt er þetta áreiðanlega stærsta tap sem ég hef tekið þátt í.

IMG 0086Eins og fjólubláir draumar.


1673 - 42

029Gamla myndin.
Margrét Sigvaldadóttir.

Munurinn á núverandi ríkisstjórn og þeim sem á undan hafa verið er sá að sú núverandi kemur ekki sínum uppáhaldsmálum í gegnum alþingi. (Kattasmölun ehf.) Fyrri ríkisstjórnir gátu næstum treyst því að koma hvaða vitleysu sem er þar í gegn. (Íraksstríðið t.d.) Núverandi ríkisstjórn á við margskonar vanda að stríða. Stjórnarandstaðan einbeitir sér einkum að því að koma henni frá. Vinsældirnar fara hraðminnkandi og það er ekki nóg með að fyrrum stuðningsmenn séu orðnir á móti henni heldur er Ólafur Ragnar stöðugt að pota í hana. Á endanum er maður næstum farinn að vorkenna henni.

Seinna meir mun áranna eftir síðustu aldamót verða minnst vegna stjórnmálalegrar ólgu. Ekki ólíkra fyrstu árum tuttugustu aldarinnar. Segja má að uppkastið þá og samningarnir við Dani hafi valdið svipaðri ólgu og hrunið núna. Kreppan mikla eftir 1930 og heimsstyrjöldin og hernámið ollu einnig verulegum breytingum hér á landi. Að líkja hruninu sem varð árið 2008 við borgarastríðið sem segja má hafi geysað hér á þrettándu öld eða móðuharðindin á þeirri átjándu er fjarri öllu lagi og sýnir bara fáfræði þeirra sem halda öðru eins fram.

Mín tilfinning er sú að með hruninu hafi lífskjör öll á landinu og efnahagslíf færst afturábak um sex til tíu ár og munar svo sannarlega um minna. Stjórnmálalegar afleiðingar hrunsins eru samt alls ekki allar komnar fram. Vel má búast við að stjórnarfarið allt ásamt flokkakerfinu breytist verulega á næstu árum.

Ég held ég hafi sagt það áður að í raun er einungis um tvenns konar þróun að ræða. Annaðhvort í átt til Evrópu eða Norður-Ameríku. Einangrunarstefna er ekki kostur og getur aðeins ríkt hér í stuttan tíma eftir að við Íslendingar höfum kynnst frelsinu. Sameining við eða náin samvinna við fjarlæg ríki eða ríkjasambönd getur aldrei þrifist til lengdar. Til þess erum við Íslendingar of fáir og hagsmunirnir of ólíkir.

Hætt er við að reynt verði að lesa alltof mikið í úrslit væntanlegra forsetakosninga. Fjölmiðlastríð mikið er að skella á þar og reynt verður að gera úrslitin sem jöfnust og mest spennandi. Á meðan fjölmiðlar og fleiri verða uppteknir við þær kosningar eru auðvitað mörg önnur mál sem brýnt er að ráða framúr. 

En sleppum því. Vorið er á leiðinni og nú er sennilega ekkert sem getur stöðvað það. Hvort það verður hlýtt, kalt, þurrt eða vætusamt á samt eftir að koma í ljós. Ekkert getur komið í veg fyrir að sumarið fylgi í kjölfarið og best er að hafa áhyggjur af einhverju öðru en pólitík. Eða bara engar áhyggjur.

Allir eru í afneitun og fýlu segir Jónas Kristjánsson og hefur einkennilega rétt fyrir sér þar. Stjórnmálaástandið situr ótrúlega mikið í mönnum og það er ekkert gaman að vera Íslendingur lengur. Eins og landið er nú skemmtilega gert. Man að ég var alltaf dálítið ósáttur við að Slartibartfast skyldi fá verðlaun fyrir firðina í Noregi en að ekki væri minnst á Íslandið góða. Kannski skapaði hann það bara ekki.

IMG 0079Þröngt mega sáttir sitja. (Og ósáttir troða sér.)


1672 - ÓRG bætir við sig störfum

027Gamla myndin.
Hef ekki hugmynd um hver þetta eru en myndin er áreiðanlega frá Bifröst.

Einkennilegt að vera kominn með snert af mótorhjólabakteríu án þess að hafa nokkurntíma komið á mótorhjól. Ef ég man rétt er ég búinn að skrifa tvisvar um slík mál og hér kemur líklega enn eitt skiptið. Mér finnst þetta skárra en forsetakosningarnar sem allir eru að hamast við að skilgreina þessa daganana.

Nú er ég semsagt að lesa í kyndlinum mínum (Harpa notar ekki upsilon þegar hún öfundast útí kyndilinn hans Atla og er það áhugavert réttritunaratriði.) bókina um gamla manninn sem fór á pizzuhjólinu sínu frá syðsta odda Suður-Ameríku til New York.

Reyndar gengur honum fremur hægt í byrjun. Lenti í snjó og hálku, varð fyrir flutningabíl og fótbraut sig og skemmdi hjólið. Nú er hann á leiðinni hjóllaus með ferju til einhvers bæjar í Chile sennilega til fundar við hjólið. Veit ekki hvað ég kem til með að tíunda nákvæmlega efni bókarinnar hér á blogginu, en hún er ágætlega skrifuð.

Því skyldi ég vera svona síbloggandi eins og ég er? Jú, ég skal segja ykkur það. Þetta er nefnilega enginn vandi og bara gaman þegar maður er búinn að venja sig á það. Sennilega er fátt af því sem ég geri meira útvortis en þetta. Finnst ekki einu sinni neitt sérlega gaman að tala lengur. Einu sinni var ég samt mikið fyrir það og talaði hátt.

Les stundum molana hans Eiðs Guðnasonar og verð að segja að stundum finnst mér þeir vera ósköp langir, leiðinlegir og fjalla um lítilvæg efni. Auðvitað er ekki auðvelt að ná til þeirra sem nota málið sem vinnutæki en þýðingarlaust er að vera sífellt að skammast í þeim. Fjölbreytnin er það sem blívur. Svo breytist málið í sífellu og þó Eiði hugnist ekki allt sem hann sér og heyrir er öruggt að sumar af uppáhaldsvitleysunum hans eiga eftir að verða fyrirmyndarmál.

Einu sinni hafði ég rosalega gaman af palindrómum. Minnir að þeir séu kallaðir samhverfur á íslensku og gott ef þeir baggalútsmenn voru ekki einu sinni að safna þeim. Verst að þeir eru oft sniðugri á útlendum málum. Man eftir þessum:

Anna panna.

En af dem der tit red med fane.

Madam Adam.

A man, a plan, a canal. Panama.

Líka hef ég auðvitað lesið skýringar á -Sator arepo tenet opera rotas- og sennilega var það sá fyrsti sem ég heyrði um.

Svo voru það (og eru) allar skammstafanirnar. T.d. sá ég eitt sinn í danski bók að auðvitað þýddi APOTHEK í rauninni: Alle piger og töse har en kusse!!

Hingað til hefur það tíðkast að fólki hefur með „nöd og næppe“ og langri og farsælli ástundum lítilsmetinna starfa tekist að verða einn af „handhöfum forsetavalds“. Nú hefur verið ákveðið að breyta þessu. Forsetinn tekur yfir störf handhafanna og hefur lítið fyrir því. Upphafsmaður þessarar nýjungar er Ólafur Ragnar Grímsson og mun hann hefja þessi störf sín um næstu áramót. Mikill sparnaður ætti að verða af þessu. M.a. þarf ekki að greiða Ólafi eftirlaun þó hann sé kominn á eftirlaunaaldur. Veit ekki með Jóhönnu en í hæstarétti eru menn teknir að gamlast nokkuð.

Það er kannski rétt að taka fram að þetta er ekki sagt í alvöru. Sumum finnst að aðrir eigi alltaf að sjá hvenær manni er alvara og hvenær ekki. Þannig er það bara ekki. Það er smámöguleiki (þó hann sé ákaflega lítill) að einhver trúi því sem hér að ofan er sagt um ÓRG. Þessvegna þetta.

IMG 0078Höfdi house og umhverfi.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband