Bloggfærslur mánaðarins, mars 2015

2307 - Ragnheiður Elín

Ein tegund sjálfsmorða snýst um það að taka aðra með sér í dauðann. Þekkt er sú ósk sumra að vilja helst deyja í heimsenda. Þá mundu allir deyja um leið. Þessa ósk er ómögulegt að uppfylla, þó hamast menn við að spá heimsenda. Viðurkennt er að sum dauðaslys í bifreiðum kunna að eiga sér stað með vilja einhverra. Hví þá ekki í flugvélum? Sú hræðsla manna sem eitt sinn var bundin flugránum er hugsanlega að koma í bakið á þeim sem vildu forðast þau. Fjölyrðum svo ekki meira um þennan vesalings flugmann, sem e.t.v. hefur annað hvort verið kristinn eða múslimi, þó hæpið sé að það skipti nokkru máli.

Ragnheiður Elín Árnadóttir ráðherra safnar greinilega glóðum elds að höfði sér. Matorkusamningurinn er fáránlega augljós spilling og náttúrupassinn verður aldrei barn í brók. Hún þarf sennilega ekki nema ein augljós mistök í viðbót, þá verður hún sennilega flæmd úr embætti. Eygló er sennilega örlítið gáfaðri því hún passar sig á að gera nákvæmlega ekki neitt.

Á morgunrölti mínu áðan varð mér þessi vísa á munni. Kannski er ekki einu sinni hægt að kalla þetta vísu. Óhefðbundin er hún a.m.k.

Sólin sandinn hitar
sandurinn bræðir snjóinn.
Með tímanum malbikið molnar
og molarnir fara í sjóinn.

Sumarið kemur seinna
sjáumst bara þá.

Upphaflega var þetta um færið á gangstígunum, svo kom ástandið á gatnakerfinu og eilífðin inn í málið og því lauk með heimspekilegum hugleiðingum um vorkomuna o.þ.h. Nenni ekki að fjölyrða meira um þetta. Ómerkilegur skáldskapur raunar.

Ég er eiginlega orðinn uppiskroppa með myndir svo ég reyni að vinda að því bráðan bug að lagfæra það.

Rockbottom concleshell kom allt í einu upp í hugann áðan. Hef ekki hugmynd um af hverju. Skil þetta ekki einu sinni almennilega.

WP 20150309 09 12 10 ProGöng.


2306 - Um auglýsingar

Kannski finnst þingmönnum sjálfum að alþingi sé virðingarverður vinnustaður. Líklega finnst samt fáum öðrum það. Eiginlega ætti á alþingi að vera úrval þjóðarinnar, en svo er allsekki. Ekki þarf nema að hlusta á eina til tvær beinar sjónvarpsútsendingar þaðan til að sannfærast um að þar er illa unnið. Þó þingforseti hamist við að hringja inn mæta þingmenn illa. Sumir mæta bara stöku sinnum. Ekki er fráleitt að álíta að ráðherrar séu þar verstir. Sinni þeir starfi sínu vel mega þeir heldur ekki vera að því. Samt er hangið í því að nauðsynlegt sé að þeir séu jafnframt þingmenn. Í orði eru þó ýmsir mótfallnir því, en þegar á hólminn er komið vilja menn alltaf eiga kökuna auk þess að éta hana. Já, spillingin grasserar á þinginu jafnvel umfram það sem er annars staðar.

„Viltu vinna miða fyrir tvo á landsleik Þjóðverja og Frakka á De Gaulle-vellinum í París þann 15. apríl næstkomandi. Það eina sem þú þarft að gera er að standa á höndum, reka við í austur, taka vídeómynd af þessari hetjudáð og senda hana á netfangið prump@prump.is og þú ert kominn í pottinn.“

Kannski er auglýsingin sem ég er að herma eftir ekki akkúrat svona, en hérumbil þó. Eiginlega er ádeilan sú að auglýsendur eru í vaxandi mæli farnir að gera ráð fyrir að „neytendur eða lesendur“ hagi sér eins og fífl til þess eins að „vera dregnir út“ (öskrandi og vælandi ef því er að skipta). Veit ekki hvar þetta endar, en líklega lætur happdrættishugsun Íslendinga þetta takast vel.

Á föstudögum er ráðlegt að vanda bloggin sín meira en venjulega. Þessi dagur er náttúrulega undanfari helgarinnar. Flestum leiðist í vinnunni og hlakkar þessvegna alveg ósköpin öll til helgarinnar, því þá geta þeir látið eins og þeim sýnist. Jafnvel lesið fleiri blogg en venjulega. Sjálfur reyni ég oftast að láta hittast svo á að ég bloggi á föstudögum umfram aðra daga. Stundum reyni ég jafnvel að vera fyndinn, þó það takist misjafnlega. Blogg um blogg eru samt mínar ær og kýr.

Auðvitað er þetta blogg í styttra lagi, en af því það er föstudagur (segir tölvan) þá er ég að hugsa um að láta þetta flakka.

Hver er annars munurinn á Moggabloggi og fésbókarskrifum? Mér virðist hann lítill sem enginn vera. Stundum skrifa ég það sama á báða staðina og stundum dreifi ég bara vírusum. (Óvart þó.) Vírusvarnir virðast vera (tóm vöff) í góðu lagi á báðum stöðunum.

WP 20150303 09 46 10 ProGata.


2305 - Kosningar og þ.h.

Hvað var það merkilegasta sem gerðist í kosningunum vorið 2013? Jú, auðvitað var það merkilegt hve framsóknarmönnum tókst vel að ljúga að fólki. Annað sem gerðist þar og ef til vill sætir enn meiri tíðindum í framtíðinni er að Sjálfstæðisflokkurinn festist í svona fjórðungsfylgi. Ekki er víst að hann nái sér nokkurntíma uppúr því aftur. Kannski er fjórflokkurinn að líða undir lok. En hvernig er hugsanlegt að það verði, flokkakerfið sem líklega er að verða til núna.

Ég er sammála Eiríki Bergmann um það að vel má kalla Pírata utangarðsflokk. Hið mikla fylgi hans í skoðanakönnunum er eflaust tilkomið vegna andstöðu hans við hefðbundna stjórnmálastarfsemi og getur áreiðanlega ekki haldist. Aftur á móti er ég ekki sammála Vilhjálmi Bjarnasyni um að þeir kenni sig við skipulagða glæpastarfsemi. Hélt satt að segja að Villi væri ekki svona þunnur.

Sennilega eru Píratar komnir til að vera. Nafnbreyting gæti þó orðið þar. Enn ein sameining gæti orðið vinstra megin. Samfylkingin og Framsóknarflokkurinn líða sennilega undir lok. Nýr fjórflokkur gæti tekið við þar sem hver flokkur væri með u.þ.b. fjórðungsfylgi. Sjálfstæðisflokkur, Píratar, Græningjar og ESB-flokkur. Einhver af þessum flokkum mundi fá þjóðrembu og innflytjendahatursfylgið. Veit ekki hver þeirra.

Eitt er víst og það er að mikil losarabragur er á íslenska flokkakerfinu um þessar mundir. Ómögulegt er að spá um hver niðurstaðan verður. Líklegt er þó að ró komist á eftir næstu kosningar og tuttugasta og fyrsta öldin verði lík þeirri tuttugustu  hvað kerfisflokka áhrærir. Stjórnmálin gætu þó orðið verulega ólík.

Einhver mesta breytingin sem orðið hefur á þessum vetri er sú að núorðið treystir fólk sennilega mun betur Veðurstofunni en áður. Snjóléttur hefur veturinn verið en fremur umhleypingasamur. Veðurfarið hefur allsekki verið slæmt og ef vorið verður sæmilegt þurfa sennilega fáir að kvarta. Gatnakerfið hér á höfuðborgarsvæðinu er þó afleitt enda hefur viðhald verið trassað allt frá hruni.

Einu sinni sá ég stórt skilti sem á stóð „Dekkverk“. Man að ég hugsaði með mér að þetta væri eiginlega ágætis rímorð og fór í huganum yfir hvernig ætti að ríma þetta. Áður en varði var ég búinn að gera limru sem var svona:

Það var hann Dóri í Dekkverk,
sem dýrindis smíðaði rekkverk.
Svo fór hann á túr
og fékk sér einn lúr
og eftir það hann ekki fékk verk.

Að ríma saman Dekkverk, rekkverk og fékk verk finnst mér nokkuð gott. Eiginlega er þessi limra nokkurnvegin einsog ég vil hafa þær. Mannsnafn eða staðarnafn í byrjun og rímorðin fremur óvænt. Sennilega hefur einhver löngu dauður limrusérfræðingur ort þetta í gegnum mig. Ekki er limran neitt lakari fyrir það. Kannski má segja að í stuttu línunum séu stuðlarnir ekki vel greinilegir. Finnst samt að ekki þurfi að fara eftir ströngustu bragfræðireglum úr rímnaháttum þar.

WP 20150228 09 50 44 ProFossvogur.


2304 - Skák og mát

Hundómerkileg eru norðurljósin. Ómerkilegri eru þó sólmyrvarnir, nema um almyrkva sé að ræða. Ómerkilegast alls eru samt tunglmyrkvarnir því þeir sjást varla. Man samt vel eftir sólmyrkvanum 1954, því þá var maður svo undirlagður af fjölmiðlaáróðrinum að maður þorði ekki að horfa í áttina að sólinni. Horfði samt á þann myrkva i gegnum sótað gler, en fannst hann allsekkert merkilegur. Man líka hve undrandi og heillaður ég var þegar ég sá fyrst tunglin í kringum Júpíter í venjulegum sjónauka. Sem betur fer er fólk ólíkt, bæði hvað þetta snertir og annað.

Sjái maður eitthvað á fésbókinni sem væri e.t.v. þess virði að læka er réttast að gera það strax því annars er hætt við að maður missi af því í öllu fésbókarkraðakinu. Held að það sé sífellt að aukast. Verstir eru þeir sem eru sífellt með heimskulegar hugleiðingar og eiga mjög marga fésbókarvini. Veit ekki betur en það fari til þeirra allra. Annars er ég enginn séfræðingur í fésbókarfræðum og vil ekki vera það.

Er verðbólgugrýlan í þágu ríka fólksins? Undarlegt með þessa verðbólgu. Ekki er talað um hana þegar hækka þarf sum laun, en svo verður hún stórhættuleg og yfirvofandi ef hækka á önnur. Það er ekki einu sinni eins og fylgni sé með verðbólguhættunni og fjölda þeirra starfa sem um er rætt. Þó hefði vel verið hægt að gera ráð fyrir því. Annars eru þessar svokölluðu samningaviðræður um kaup og kjör hinn mesti þykjustuleikur. Úrslit mála eru ráðin á fámennum fundum og svo setjast menn ofaná samninganefndarmenn og fá þá til að samþykkja allan fjandann.

Bloggumræður um veðrið skila litlu. Ef mér dettur slíkt í hug þá er það venjulega alltof seint í rassinn gripið. Því ég safna oftast eftir því sem ég get í sarpinn og hefst gjarnan handa fljótlega eftir að ég hef sett eitt blogg upp. Annars er þetta bloggstand á mér ekki að valda mér neinu hugarangri því ég set slíkt bara frá mér þegar mér dettur í hug. Til dæmis sé ég núna (á mánudagsmorgni) út um glugganna að það hefur snjóað dálítið í nótt. Dagurinn er samt orðinn svo langur að vel getur munað um sólbráðina ef hún verður einhver. Annars er ég að hugsa um að fara út í góða veðrið núna fljótlega.

Um helgina var seinni hluti Íslandsmóts skákfélaga og þar tefldi ég svolítið í b-liði UMSB og endaði á fyrsta borði þar. A-sveitn komst uppí aðra deild og var það nokkuð vel af sér vikið af henni. Fjölyrða vil ég ekki mikið um þá keppni hér. Skemmtileg var hún samt.

WP 20150219 10 01 59 ProKlakar.


2303 - Þjóðaratkvæðagreiðslur o.fl.

Sá árangur sem mældur er í peningum og völdum næst best með frekju, tillitsleysi og dugnaði, en andlegt heilbrigði er fólgið í því að blanda góðvild og víðsýni hæfilega með leti og kæruleysi.

Nú (á miðvikudegi) er aftur farið að snjóa. Ég sem hélt að það væri búið að samþykkja að nú loksins væri vorið á næsta leiti. Auðvitað má reikna með smápáskahreti, en það þarf ekki að vera alvarlegt. Vel er hægt að vona að sá snjór sem úr þessu fellur verði ekki lengi til staðar. Vorið hlýtur að koma einhverntíma.

Að skoðanakannanir sýni að meirihluti Íslendinga vilji þjóðaratkvæði um umsóknina um aðildina að ESB, þó meirhluti þeirra sé áreiðanlega andsnúinn aðild,  er engin mótsögn í sjálfu sér. Hvað þá pólitískur ómöguleiki eins og reynt er að telja fólki trú um. Óskin um þjóðaratkvæði um umsóknina er í rauninni ósk um að meira mark verði tekið á þjóðinni en hingað til og að ýmis atriði í nýju stjórnarskránni verði tekin upp. Þorri fólks veit vel að hefðbundnir stjórnmálamenn munu aldrei samþykkja verulegar breytingar á stjórnarskránni, einfaldlega vegna þess að með því mundu völd þeirra minnka. Þess vegna er upplagt að krefjast hennar núna því henni hefur verið lofað. Svik á kosningaloforðum þykja hinsvegar svo sjálfsögð að ekki er víst að af þessu verði.

Ekki hefur mikið af mínu skyldfólki flutt til Noregs í atvinnuskyni. Þá er um einhverja að ræða. Ekki yrði ég hissa þó ný bylgja af því tagi sé að ríða yfir núna. Ég held að Noregur sé á margan hátt líkur Íslandi auk nálægðarinnar og þessvegna sé það ekki mjög mikið átak að flytjast þangað. Sennilega er þó allt talsvert stærra í sniðum þar en hér og tungumálið ætti ekki að vera mikil hindrun. Man vel eftir því að Norðmenn dáðust mikið af öllu sem íslenskt var þegar ég kom í stutta heimsókn þangað. Vissulega þótti mér sumt af því dálítið gervilegt en svo hefur hugsanlega ekki verið.

Hef tekið eftir því að myndirnar sem ég set ævinlega með blogginu mínu batna verulega ef klikkað er á þær og stækkun fengin. Þær eru nefnilega alls ekki eins lélegar og þær sýnast vera. Sérstaklega á þetta við um myndirnar sem teknar eru á símann minn og umfram allt um þær myndir sem eru „portret-orienteraðar“, en ekki eftir „landscape-teoríunni“.

Lélegt er það hjá Sjónvarpi allra landsmanna að sýna ekki beint sólmyrkvann á morgun (föstudag). Þetta gæti einmitt orðið ágæt æfing fyrir myndatökumenn sjónvarpsins. Ekki er víst að allir nenni út og svo er víst hættulegra að horfa beint á myrkvann en varla á sjónvarpið. Ekki er von að bein útsending hafi verið árið 1954, enda sjónvarpsútseningar ekki hafnar þá. Kannski á bara að bíða til 2026 eða hvenær það var sem sá næsti á að vera hér á landi.

Sennilega flytjumst við til Akraness í vor eða sumar, enda erum við búin að vera alllengi hér í Auðbrekkunni. Auðvitað eigum við samt eftir að pakka og flytja og gera má ráð fyrir að það sé þeim mun meira verk sem aldurinn færist meira yfir okkur. Samt ætlum við að láta slag standa.

WP 20150208 11 05 20 ProDraumabíllinn.


2302 - Blessuð pólitíkin

Get ekki vorkennt núverandi stjórnarflokkum þó þeir lendi um þessar mundir í talsverðum vandræðum vegna Evrópustefnunnar eða stefnuleysisins. Stuðningsmenn núverandi ríkisstjórnar keppast um það hver um annan þveran að lýsa yfir andstöðu sinni við inngöngu Íslands í sambandið.

Af hverju í ósköpunum notuðu þeir þá ekki tækifærið strax eða fljótlega eftir kosningar 2013 til að ganga milli bols og höfuðs á ESB-nautinu? Þá voru stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar jafnvel þónokkuð margir.

Eina afsökunin sem utanríkisráðherrann hefur fyrir hegðun sinni nú er óttinn við að stjórnarandstaðan taki málið „í gíslingu“ eins og hann orðar það. Auðvelt er að losna úr þeirri „gíslingu“ eins og ráðherrann veit mætavel. Samt þorir hann ekki að fara með málið þangað sem það á augljóslega heima. Eina haldbæra skýringin á þessu öllu er sú að stjórnin sé logandi hrædd við embættismannaveldið í Brussel, eða eigin þingmenn.

Líklegast er að ekkert stórvægilegt gerist í sambandi við þetta mál. Kannski verður svolítið málþóf, en trúlega verða allir búnir að gleyma þessu í næstu kosningum. Sjálfstæðisflokkurinn kann að klofna útaf þessu og kannski verða það stærstu tíðindin.Auðvitað hefur hann klofnað áður en þetta gæti orðið alvarlegri og langvinnari klofningur.

Fór ekki á Austurvöll í gær. Fannst stjórnarandstaðan ekki þurf a á mér að halda. Endurskoða kannski þessa skoðun ef fundurinn verður endurtekinn. Líklega verða smálæti á alþingi í dag. Held að það eigi að vera þingfundur klukkan þrjú. Hægt er að vona að þá verði þingmenn glaðvaknaðir.

Æ, þetta er nú nóg um pólitíkina. Hún er vitlausari nú um stundir en venjulega. Samt virðast pólitíkusarnir halda að einhver taki mark á þeim. Svo getur þó varla verið.

Í asahlákunni sem núna er tekur snjóinn óðfluga upp. Kannski óða flugan taki líka upp framsóknarfylgið. Sigmundur ætti að fara að drífa sig í að finna upp nýja Barbabrellu til að skella fram fyrir næstu kosningar. Sem hugsanlega eru á næsta leiti. Ég get eiginlega ekki varist þeirri hugsun að mögulega hefði Vigdís verið betri utanríkisráðherrakostur en Gunnar Bragi. A.m.k. lifa sum gullkornin hennar sínu eigin lífi. Er á margan hátt Barbabrellan sjálf.

Ósköp er þetta pólitískt blogg. Ég get bara ekki að mér gert. Kannski er pólitíkin líka tíðindasamari en venjulega. Mér finnst að frá aldamótum höfum við lifað merkilega tíma pólitískt séð. Ég hef að vísu ekki langan samanburð en finnst þó að minna hafi gengið á seinni hluta tuttugustu aldarinnar.

WP 20150208 10 37 16 ProHentugt fyrir hundaskít.


2301 - ESB

Ef ríkisstjórnin ætlar í raun og veru að ganga framhjá alþingi í ESB-málinu er hún skyni skroppnari en gera mátti ráð fyrir. Með því að gera það, er ESB-veldinu í sjálfsvald sett hvort það líti svo á að stjórnin sé marktæk. Annað hvort er hér þingbundin stjórn eða ekki. Að ríkisstjórnin stjórni bara með tilskipunum er ekki í boði. Ekki hér á Íslandi á tuttugustu og fyrstu öldinni. Getur ríkisstjórnin ógilt ákvörðum alþingis? Er þá ekki næst að afturkalla lýðveldisstofnunina og færa okkur aftur undir Dani? Er ríkisstjórnin kannski á móti því?

Sé ekki betur en ráðherrarnir sem opnað hafa á sér þverrifuna að undanförnu keppist um að gera allt sem snertir ESB-umsóknina sem flóknast og illskiljanlegast. Einna verst er að þeir skilja málið alls ekki sjálfir. Kannski er það ekki von því fræðimenn virðast eiga í vandræðum með það líka. Síðasta ríkisstjórn gerði sömuleiðis sitt til að flækja þetta alltsaman. Nú er svo komið að tiltölulega einfalt mál er orðið rammflókið. Þessu eru stjórnmálamenn góðir í.

Stjórnmál gærdagsins eru gengin sér til húðar. Stjórnmálaflokkarnir hafa reynt að skipta um nöfn (nema Sjálfstæðisflokkurinn – sem þó er ósjálfstæðastur allra) en það virðist hafa lítil áhrif. Enda er ekki við því að búast að umbúðir, skammstafanir og nöfn breyti miklu. Fólk vill þjóðaratkvæðagreiðslur um hin ólíklegustu mál. Jafnvel um aðildina að ESB, sem auðvitað er smámál eins og formaður utaríkismálanefndar alþingis heldur fram.

Ef lítið snjóar næstu daga eru allar líkur á þessi vetur verði óvenju snjóléttur. Tíðarfarið hefur samt verið hálfleiðinlegt síðan í byrjun desember. Þó kuldinn hafi ekki verið mikill þá hafa umhleypingarnir verið með meira móti. Blessunarlega (fyrir mig a.m.k.) hafa morgnarnir þó oftast verið skaplegir.

Með vorinu má kannski búast við víðtækum verkföllum. Þó efast ég um það. Þótt verkalýðsrekendur tali digurbarkalega, gæti ég trúað að verulega sljákki í þeim þegar til samninganna kemur.

Kannski er betra að hafa bloggin mörg (einsog sést á fyrirsögninni) en að hafa þau sem lengst. Þau gætu farið að líkjast Reykjavíkurbréfum þá og ekki var það ætlunin. Ekki ætlar Gnarrinn í forsetann þó hann hefði líklega verið kosinn þar. Vel gæti ég samt hugsað mér hann sem forseta alþingis. Það veitir ekki af nýjum vendi þar, fremur en aflóga pólitíkusi.

Í skrautklæðum.WP 20150207 11 51 17 Pro


2300 - Á éljapilsi síðu

Mér sýnist hún Góa ganga um á éljapilsi síðu um þessar mundir, eins og segir í einhverju ljóði um hana. Kannski Einmánuður komi með vorið. Allavega Harpa. Henni má treysta. Snjórinn sem fallið hefur í nótt (skrifað á sunnudagsmorgni) er með meira móti. Ef hvessir má búast við talsverðu fjúki á fjallvegum. Eiginlega finnst mér alveg nóg komið af snjó í vetur. Mín vegna má fara að vora. En mér skilst að enn eitt óveðrið sé á leiðinni. Kannski einhverjir láti sér þá segjast. Hverjum skyldi þetta annars vera að kenna nema ríkisstjórninni.

JVJ hneykslast á því að ég skuli skora á aðra að kjósa Pírata eins og ég geri. Mér er slétt sama. Hann hneykslast á svo mörgu og ég hneykslast á flestu sem hann segir. Finnst hann hálfgerður öfgamaður. Þetta með að drífa sig í að segja sig formlega frá umsókninni að ESB finnst mér vera skemmdarverk. Ef menn vilja ekki ganga í ESB þá bara fella þeir þann samning sem hugsanlega næst. (Svo er alveg hugsanlegt að halda áfram samningaumleitunum en ná alls ekki samningum.) Sé ekki að það geti valdið neinum skaða að hafa umsóknina opna. Og að Bjarni Ben. skuli skikkaður til að standa við það sem hann sagði, finnst mér bara sjálfsagt og eðlilegt og ekki orð um það meir.

Mér finnst Egill Helgason vera orðinn fremur afkastalítill bloggari. Kiljan er hinsvegar nokkuð góð hjá honum.

Horfði á Kastljós á þriðjudagskvöldið þar sem rætt var við forstjóra Ísavia og þar var Helgi Seljan af einhverjum ástæðum eins og mús undir fjalaketti. Lét forstjórann kaffæra sig með kjaftæði. Hann er ekki vanur að vera svona. Komst samt betur frá þættinum en forstjórinn sem greinilega hafði lélegan málstað að verja. Honum hefði verið nær að mæta ekki.

Alltaf er dálítið gaman að fylgjast með krökkunum í Gettu betur. Furða hvað þau vita margt. Sennilega eru þessi mál tekin fastari tökum í MR en í öðrum skólum.

Öll ljóð eru texti. En eru allir textar ljóð? Um það má efast. Veðurfræði Eyfellings var athyglisverðasta bókin sem minnst var á í Kiljunni áðan. Annars var þessi þáttur Kiljunnar óvenju lélegur.

WP 20150203 10 34 16 ProVá, maður.


2299 - Komst hann eða komst hann ekki

Mikið er nú rætt um hvort Sigmundur Davíð hafi verið í einhverju Morfís-liði eða ekki. Allsstaðar þykist SDG hafa verið. Var hann ekki einu sinni laumukommi. Það hlýtur að vera. Það er svo flott. Annars er hann alveg sæmilega að sér í Morfís-stælum. A.m.k. er hann lunkinn við að snúa útúr.

Setti einhverja útgáfu af þessari klausu á fésbókina og hélt satt að segja að ég hefði fundið upp nýtt orð. Túristaveiðar. Er þá ekki verið að veiða (eða reyna að veiða) túrista eins og Íslendingar virðast standa sig svo grimmilega vel í um þessar mundir? Þannig skil ég orðið a.m.k., en ekki sýnist mér að allir skilji það þannig. Eða hvað?

Ekki hefur lánasjóðurinn enn haft samband við mig. Þó gæti vel verið að ég skuldaði einhvers staðar nokkur hundruð milljarða án þess að vita það. Það er fátt sem hundstungan finnur ekki.

Finnst sjálfsagt að almenningur fái að kjósa sýslumenn og lögreglustjóra. Jafnvel hverskonar dómara einnig. Þó ekki knattspyrnudómara. Annars er hverskyns lýðræði eitur í beinum yfirstéttarinnar. Alþingismenn, sem eru lýðræðislega kjörnir (eða ættu að vera það) geta þó breytt þessu í einu hendingskasti. Sennilega kæra þeir sig samt ekki um að gera það.

Mikið er nú rætt um það hvort félag múslima eigi að þiggja peninga sem sagt er að Saudi-Arabar vilji gefa þeim til moskubyggingar. Eiginlega finnst mér að allir ættu að geta þegið alla þá peninga sem hægt er fá, hvort sem þeir koma frá fasistaríkjum eða ekki. Ekki vitum við í raun hvaðan sá gróði kemur sem kallaður er góðir peningar. Auðvitað er ekki sama í hvað peningarnir eru notaðir og ekki heldur hvort einhver skilyrði fylgja þeim. Annars getur vel verið að þetta sé óvenju heitt efni. Gott ef svínakjötið er það ekki líka.

Hef fengið fyrirspurnir í fésbókartölvupósti varðandi vírus sem dreift er í mínu nafni. Ég er samt enginn upphafsmaður að því að hann virðist hafa verið endurvakinn. Líklega er þetta sami vírusinn og ég setti óvart af stað fyrir allmörgum mánuðum. Hann hefur sennilega sofið greyið. Hugsanlega hafa fleiri orðið fyrir barðinu á þessu.

Nú er ég orðinn svo mikið heilsufrík að ég er að velta því fyrir mér hvort ég eigi næst að hætta við kaffið eða fésbókina. Óhætt er að segja að hvorttveggja skipi óhóflega stóra rullu í mínu lífi.

Bjarni Ben. varar fólk við að trúa því sem hann sagði fyrir kosningar. Nær sé að hlusta á það sem hann segir núna. Þetta finnst mér heldur þunnur þrettándi hjá honum. Er ekki hægt að ætlast til þess að formaður stjórnmálaflokks segi það sem hann meinar? Auðvitað hafa aðstæður breyst, en loforð er loforð.

WP 20150201 10 51 26 ProKringlumýrargata.


2298 - Kjósum Pírata

Hef lengi haft það á tilfinningunni að ég sé einn af síðustu Móhíkönunum hérna. Tók mig því til um daginn (alveg nýlega samt) og taldi alla þá Moggabloggsvini mína sem bloggað hafa á þessu ári (2015). Þeir reyndust vera 35 og var það mun hærri tala en ég átti von á. Samt er það svo að ég reikna ekki með að það séu margir sem hafa bloggað jafnlengi og jafnmikið og ég hér á Moggablogginu. Ég er ekkert stoltur af þessu, því þetta er einkum vegna leti. Það er fínt að láta aðra sjá um öll vandamálin en þurfa ekkert að gera sjálfur.

Ef ég á að reyna að lesa í pólitísku spilin þá held ég að núverandi ríkisstjórn sé einhver sú versta sem hér hefur setið. Sama er að segja um alþingi. Mig grunar að aldrei hafi slíkt samansafn minnipokamanna verið þar. Ekki get ég fengið mig til þess að reyna að muna eftir þeim öllum. Er þetta ekki alltaf sagt? Mest fer þetta að sjálfsögðu eftir skoðunum þess sem lætur þetta í ljós. Það er líka til siðs að ríkisstjórnir hafi lítið fylgi í skoðanakönnunum og lítið að marka það. Við þessu er ekkert að gera. Ábyrgðin er þeirra sem kusu þá flokka sem ríkisstjórnina mynda.

Góð útkoma Pírata í síðustu skoðanakönnun er alls ekki óvænt. Á margan hátt hagar sá flokkur sér eins og nýtt og ferskt afl. Þó hefur lítið reynt á samstöðuna í flokknum. Hinir þingflokkarnir eru meira og minna fastir í gamla skotgrafahernaðinum. Vinstri flokkarnir, Samfylkingin og Vinstri grænir, eru bara alveg að hverfa og forsætisráðherrann stjórnar minnsta flokknum.

Mér finnst froststillurnar sem verið hafa undafarna daga ekki sem verstar. Ágætt er að fá nokkra daga í röð sem eru líkir hver öðrum hvað veðurfar snertir. Auðvitað verður frostið og íshrönglið leiðigjarnt til lengdar. Vonandi kemur vorið bara hægt og rólega úr þessu. Eiginlega er ég alveg búinn að fá nóg af umhleypingunum í veðrinu.

Kannski eru fésbókarvírusar að verða þeir vinsælustu allra. Varla líður sá dagur að ekki fari einhverjir á kreik. Sennilega er þetta gert til þess að sem flestir verði afhuga fésbókinni. Sjálfur er ég u.þ.b. að gefast upp á henni. Dulbúningar vírusanna eru sífellt að verða betri og betri sýnist mér. Á endanum kann þetta að verða til þess að fésbókin leggist alveg á hliðina. Hvað veit ég. Hættulegast af öllu er líklega að gera eitthvað sem maður er ekki alveg viss um hvaða áhrif hefur. En hvenær er maður viss um það?

Mér finnst það óttalegur aumingjaskapur hjá bönkunum að geta ekki falið ofsagróðann betur. Eiglega er það alveg furðulegt að þeir skuli láta þetta sjást svona vel. Þó fjölmiðlarnir séu misheppnaðir að mörgu leyti þá hefur þeim tekist vel í því efni að gera fjármálafyrirtækin, og þarmeð bankana, að óvinsælustu fyrirtækjum landsins. Bankarnir eru sannkölluð einokunarfyrirtæki og keppast við að gera starfsemi sína sem óskiljanlegasta. Ef ég hefði önnnur úrræði mundi ég að sjálfsögðu geyma þessa litlu peninga sem ég á og fæ mánaðarlega frá lífeyrissjóðum og ríkinu annarsstaðar en hjá bankamafíunni. Bankastarfsemi og túristaveiðar, tvær mestu svindlgreinar landsins, eru jafnframt þær umsvifamestu. Eða það hefur mér fundist. Læt svo útrætt um þetta mikla mál.

Allskyns hjálækningar eru mikið í tísku núna. Auðvitað þykjist ég vera voðalega vísindalega sinnaður en get samt ekki neitað því, að sumt af því sem boðið er framhjá hefðbundnum lækningum verðskuldar vissulega nánari skoðun. Annars er þetta svo hættulegt umfjöllunarefni að sennilega er skást að halda sér saman.

WP 20150131 12 24 43 ProSký.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband