Bloggfærslur mánaðarins, desember 2012

1838 - Endurunnin blogg

Nú er ég að lesa bókina „Under The Dome“, eftir Stephen King. Hún var á tilboði á Amazon. Kostaði 1 eða 2 dollara. „Reykjavíkurnætur“ Arnaldar las ég nokkru fyrir jól. Fékk hana á bókasafninu. Ég er bara þannig settur að ég get ekki eytt stórfé í að svala lestrarfýsn minni. Kaupi semsagt helst ekki bækur, nema þær séu mjög ódýrar og ætlast jafnvel ekki til að fá þær í jólagjöf. Bókasafnið og kyndillinn duga mér og svo má alltaf panta bækur á bókasafninu.

Mér finnst pólitísk orðræða alltof illskeytt og óvægin. Menn virðast varla geta talað um andstæðinga sína í stjórnmálum án þess að velja þeim hin verstu hrakyrði eða hæða þá eins og mögulegt er, sé það hægt. Vil gjarnan álíta sjálfan mig betri en marga aðra að þessu leyti. Held að þetta hafi breyst þegar mun fleiri en áður fóru að láta álit sitt í ljós bæði í athugasemdum og bloggum. Nú er það fésbókin sem langflestir láta ljós sitt skína á, og ekki batnar ástandið við það. Held reyndar að engu máli skipti hvaða forrit eru notuð, menn virðast halda að allt sé leyfilegt sé það á Internetinu.

Eitt það versta sem þetta getur valdið er að andstæðingar fullkomins málfrelsis á netinu fá með þessu ástæðu til að krefjast eftirlits og ýmissa banna. Ég á fyllilega von á því að stærstu þjóðirnar (undir forystu Kína og Bandaríkjanna) muni sameinast um það innan fárra ára að gera Internetið háð alþjóðlegu eftirliti.

Ég er þess líka fullviss að fyrr eða síðar (fremur fyrr þó) mun Sjálfstæðisflokkurinn berjast fyrir ESB-aðild. Framsóknarflokkurinn gerir það nú þegar (nema formaðurinn og Vigga). Ég er búinn að vera þessarar skoðunar síðan 1972 og þó útlitið sé núna þannig að við förum ekki inn alveg í bráð, þá er ég viss um að mál enda þannig.

Ég er alltaf jafnundrandi á því athæfi sumra bloggara að bjóða fólki uppá sín gömlu blogg eins og ný séu. Man ekki eftir að ég hafi stundað slíkt nema í örfáum tilvikum og þá hef ég jafnan varað fólk sérstaklega við. Þó finnst mér sjálfum að ég hafi stundum (oft) komist ágætlega að orði. Fólk getur alveg vandræðalaust fundið gömul blogg sjálft. (Líka má sem best linka i þau.) Oft er það sem boðið er uppá með þessum hætti ómerkilegar fréttaskýringar eða frásagnir af fréttnæmum atburðum. Væri ég að birta slíkar fréttaskýringar á mínu bloggi aftur og aftur hlyti ég að vera þeirrar skoðunar að ekki væri hægt að segja betur frá. Svo er ekki.

IMG 2267Hús og bílar.


1837 - Setjum lesvörn á fésbókina

Veit svosem ekki hvað ég á að skrifa um. Er nýbúinn að setja eitthvert þrugl á bloggið og þá er ég oft í bestu stuði til að skrifa. Hvernig skyldi standa á því? Ekki veit ég hvað ég ætti af mér að gera ef ég hefði ekki bloggið. Ekki gæti ég verið endalaust að velta fyrir mér næsta leik í einhverri bréfskákinni. Og þó, nógu eru þær margar. Eða lesið villt og galið í kyndlinum mínum og skoðað bækur þar. Þetta tvennt nota ég þó oft til tímajöfnunar og velti þá vöngum eftir þörfum.

Eftir að ég komst á þennan ágæta aldur (70 ár) er gott að vera laus við að þurfa að mæta í vinnu. Nóg er að gera samt.

Lesvörn sú sem sett er á íslenskar rafbækur veldur miklum vandræðum eins og búast mátti við. Útgefndur hér kenna Amazon um, en það er ekki að öllu leyti sanngjarnt. Þeir ættu að geta treyst kaupendum sínum til að dreifa bókunum ekki. Miðað við verðið á þeim ætti það ekki að vera erfitt. Á meðan verð ég að láta mér nægja að fá ekki íslenskar rafbækur, a.m.k. ekki þær vinsælustu í kyndilinn minn. Hinsvegar er mikið um tilboð og ókeypis rafbækur í kynningarskyni á Amazon og það er þægilegt að geta fengið þær beint í kyndilinn. Þetta er bara VHS og Betamax stríðið uppá nýtt. Spurningin er hve langur tími líður þar til eitt formattið verður ofaná. Mesta tjónið sem útgefendur valda með þessu er að fæla fólk frá bókum á íslensku og að erlendum málum og er það illa gert.

Því er haldið fram í þessu bloggi http://www.washingtonsblog.com/2012/12/facebook-purges-political-activists.html að Facebook ritskoði þar efni sem þangað er sett. Ef til vill er of mikið gert úr þessu en reynsla er fyrir því að stórfyrirtæki hagi sér með vafasömum hætti.

Óveðrið sem geysað hefur í dag sneiðir greinilega hjá höfuðborgarsvæðinu. Ekki veit ég hvers vegna það er, en snjórinn er samt óþarflega mikill hér um slóðir. Þungur er hann líka og í sjónvarpsfréttum var sagt að hann hefði brotið tré.

Ég er sammála Jónasi Kristjánssyni um það að ótækt sé að enn skuli rifist um það, fjórum árum eftir Hrun, hvort feðgar séu lagatæknilega séð tengdir aðilar. Ef dæma má eftir frétt RUV um PWC-málið gætu 100 milljarðar oltið á þeirri skilgreiningu. Ekki er þó víst að þessi skilgreining sé það eina sem deilt er um.

IMG 2264Gangstéttar eru stundum svona í Kópavogi. Mjóar og mosavaxnar.

1836 - Kaffisopinn indæll er, og kemur manni í gang

„Ég er vaknaður og búinn að fá mér kaffibolla.“

„Í gær var mikið að gera í vinnunni og verður það kannski líka í dag.“

„Það hefur snjóað smávegis í nótt og ég þarf að fara að klæða mig.“

Einhvernvegin svona nota margir fésbókina og í rauninni er það bara eðlilegt. Því ekki að skrifa það sem manni dettur í hug, þegar manni dettur það í hug? Ekki þarf það að vera merkilegt. Enginn neyðir aðra til að lesa þetta.

Á blogginu er ég alltaf að rembast við að skrifa eitthvað sem öðrum gæti hugsanlega þótt merkilegt. Af hverju skyldi það vera? Veit það ekki sjálfur. Nenni ekki að fésbókast nema öðru hvoru. Les samt ýmislegt þar og á fjölda fésbókarvina. Þónokkrir fylgjast með því sem ég blogga. Sumir þeirra skrifa stundum sjálfir eitthvað. Og athugasemdir lika stundum. Þannig veit ég af þeim. Aðrir skrifa aldrei. Sama er mér. Suma veit ég ekkert um en held samt að lesi bloggið mitt oft. Sumir sem ég hitti segjast gera það. Ég skrifa stundum eitthvað um pólitík. Ætlast ekki einu sinni til að neinir séu mér sammála. Samt finnst mér þess virði að skrifa um það. Því má þá ekki skrifa um það sem mér finnst ómerkilegt? Eru stjórnmál eitthvað merkileg?

Þeir bloggarar sem ég fylgist langbest með eru Jónas Kristjánsson og Egill Helgason og reyndar Ómar Ragnarsson líka þó erfiðara sé að fylgjast með honum og ekki hægt að ganga að honum vísum á sama hátt. Báðir eru mjög kommentaglaðir um fréttir og finnst sennilega að þeir þurfi endilega að láta ljós sitt skína. Það er reyndar stundum bjart því þeir vita ýmislegt og eru alls ekki að liggja á því. Hissa varð ég þegar Jónas komst ekki að í stjórnlagaþingskosningunum þó hann byði sig fram. Egill gerði það hinsvegar ekki.

Það er ósniðugt að éta bara það sem manni þykir gott. Ef maður borðaði ekki stundum líka ýmislegt sem manni þykir ekki nærri eins gott, yrði maður sennilega mun feitari en maður þó er. Annars leiðast mér þessar sífelldu matarleiðbeiningar. Mín aðalregla er sú að það sem er gott er fitandi og að maginn og þarmarnir geti dundað sér við sína meltingu meðan maður sefur. Það er svo margt annað merkilegra en matur til að hugsa um svona dagligdags.

IMG 0976   CopyGluggar í Kaupmannahöfn.

1835 Sandy Hook og atburðirnir þar

Einhver byssuglaður bandaríkjamaður hélt því fram nýlega að eina ráðið til að koma í veg fyrir atburði eins og þann sem varð í Sandy Hook skólanum fyrir skemmstu (20 börn og 6 fullorðnir létust, að mig minnir) væri að hafa vopnaða verði í hverjum einasta skóla. Mér finnst þetta þvílík tröllheimska að engin orð ná yfir það og er viss um að margir bandaríkjamenn er sammála því sjónarmiði. Samt er ekki líklegt að dregið verði úr sölu á sjálfvirkum skammbyssum og árásarvopnum eins og margir vilja. Til stendur að reka frá bandaríkjunum frægan breskan þáttastjórnanda úr sjónvarpi sem varð það á að kalla þann mann heimskan sem hélt fram svipuðum skoðunum og lýst er hér efst.

Hugsanlega er netið að missa eitthvað af sjarma sínum. Það breytir því ekki að dagblöðin eru löngu hætt að segja fréttir og allt prent er smátt og smátt að úreldast. Það er ekki einu sinni almennilegt til geymslu því lítið sem ekkert er hægt að leita í því. Bækur hafa samt verið þekktar fyrir að endast vel miðað við annað. Tölvurnar taka samt yfir og gera þær óþarfar. Aðeins það sem merkilegast þykir verður flutt milli formgerða (hefði ég átt að segja formatta?) Hugsanlega er bókin ekki lengur trygging fyrir eilífðartilveru, þó hún lifi lengur en mannfólkið.

Sennilega hefur Jóhanna Sigurðardóttir tak á sjálfstæðismönnum í þinginu og fær þá kannski að lokum til að fallast á sín sjónarmið í stjórnarskrármálinu. Þ.e.a.s ef LÍÚ telur sig geta snúið sig útúr kvótaákvæðum þar. Nú eru sjálfstæðismenn farnir að biðja um stjórnarskrárbreytingar og ætla örugglega að hafa þann möguleika opinn að breytast einn góðan veðurdag, á næsta kjörtímabili, í ESB-flokk. Fylgi við inngöngu er talsvert í flokknum og ef það kemur Samfylkingunni illa finnst þeim áreiðanlega þess virði að snúast í ESB-málinu. Ætli endirinn verði ekki bara eins og síðast að VG þykji góður kostur fyrir and-ESB-sinna. Þeir tóku smáhliðarhopp til að komast í ríkisstjórnina. Annað var það nú ekki.

Eiginlega ætti ég að hætta sem mest þessum sífelldu bloggskrifum. Þó mér þyki sjálfum allt merkilegt sem ég set á blað er ekki víst að öðrum finnist það. Betra er samt, að ég held, að skrifa oft og lítið en sjaldan og mikið. Já, ég er alltaf að stæla Jónas Kristjánsson þó ég deili ekki algerlega með honum áhugamálum. Mér finnst hann vera allur í fréttatengingunum og megruninni. Kannski er það samt ímyndun í mér að ég sé eitthvað fjölbreyttari en hann. Skrifa ég ekki aðallega um stjórnmál og blogg? Kannski smávegis stundum um bækur.

IMG 2259Blokkir í Kópavogi


1834 - Talmál, ritmál og myndmál

Það er ekkert skrýtið að það séu bara stærstu fyrirtækin sem borgi taxtalaun en minni fyrirtækin yfirborgi. Þannig vinnur markaðurinn og hefur alltaf gert. Getur tæplega öðruvísi verið. Það sem öllu máli skiptir er hve yfirborgunin er mikil. Auðvitað er hún misjöfn. Bæði milli fyrirtækja og tímabila. Mín tilfinning er að hún sé ekki mikil núna, en hafi verið mjög mikil þegar Hrunið varð. Það kom síðan einhverjum launþegum á óvart að yfirborgunin hyrfi að mestu leyti þá og verkalýðsfélögunum var kennt um. Það er hinsvegar ósanngjarnt því auðvitað semja þau ekki um yfirborganir. Ýmis réttindi sem samið hafði verið um og þóttu litlu máli skipta í hámarki þenslunnar fóru allt í einu að skipta máli.

Ég er líka stuðningsmaður lífeyrissjóðanna, þó afskipti ríkisvaldsins hafi alltaf verið mikil af þeim og stjórnun þeirra á margan hátt misheppnuð. Verðtryggingin er líka tilkomin til þess að tryggja hag húsbyggjenda og minnka völd stjórnmálamanna. Vanrækt hefur þó verið að lagfæra hana og færa að breyttum aðstæðum. Vixlverkun kaupgjalds og verðlags sem var mikið vandamál einu sinni er það ekki lengur. Gjaldeyrishöftin og fleira bjóða þó heim hættunni á óðaverðbólgu eins og hér var einu sinni.

Mér er minnisstætt að ég hjálpaði einu sinni Vilborgu Davíðsdóttur við að prenta út söguna um Korku. Þá var hún að vinna á Stöð 2 og sú saga hélt ekki Korkunafninu við útgáfuna en kallaðist þá „Við Urðarbrunn“, minnir mig. Síðan hef ég fylgst nokkur með ferli Vilborgar og hún er greinilega mikill sérfræðingur um tímabilið við landnám og frameftir öldum. Man að ég var dálítið ósáttur fyrir hennar hönd þegar Korkusagan var kölluð unglingasaga. Mér fannst það eina sem var pínulítið frumstætt við söguna vera tímaásinn. Hann var þráðbeinn og það líkar gagnrýnendum ekki. Þeir vilja hafa hann sem mest hlykkjóttan.

Það er nokkuð sameiginlegt vandamál hjá rithöfundum að vilja endilega gera „trílógíu“ úr bókum sem heppnast sæmilega vel. Um þetta eru til mörg dæmi. Bók númer tvö heppnast oft nokkuð sæmilega en í þriðju bókinni rennur oftast allt út í sandinn. Sú trílógía sem mér er minniststæðast að hafi heppnast vel hefur reyndar inni að halda fjórar bækur. Þær eru eftir Douglas Adams sem er nýdáinn og fyrsta bókin hét „Hitchhikers guide to the galaxy“ eða eitthvað þess háttar. ( Þetta er reyndar allt eftir minni og ég nenni ekki að gúgla þetta.) En það er allt önnur saga og ég ætla ekki að fara að rekja hana hér.

Mér sýnist að verið sé að eyðileggja fésbókina, sem eðlilegt er. Bara þeir sem nenna að uplóda stanslaust myndum frá (og af) sjálfum sér og miðla myndum frá öðrum (stanslaust og án afláts - án þess að gera nokkuð annað  - nema skrifa örstuttar setningar – helst um myndirnar) verða bráðum einir eftir þar. Auðvitað eru svo einhverjir sem vilja horfa á ósköpin og hugsanlegt er að þeim fari fjölgandi í bili.

Bloggið er hinsvegar upplagt fyrir þá sem sífellt vilja predika yfir öðrum og þykjast þeim betri a.m.k. til þess. Ekki held ég samt að myndmálið sé að taka bókstafina yfir alveg á næstunni. Þróunin er samt þannig. Skilin á milli talmáls, ritmáls og myndmáls eru einmitt alltaf að verða skýrari. Talmálið og myndmálið klemma ritmálið sífellt á milli sín og að lokum verður það óþarft með öllu. Fáir munu nenna að sinna því (tala bara við tölvuna ef ekki vill betur) og það verður einhverntíma aðeins fjarlæg minning fyrir fjöldann. Einhverjir sérvitringar munu auðvitað sinna því áfram og finnast fátt merkilegra.

Þetta segi ég aðallega vegna þess að ég er orðinn gamall og get fátt annað en skrifað. Lítil framtíð er í því enda verð ég og mínir líkar ekki að þvælast fyrir neinum þegar fram líða stundir.

Hver eru eðlustu skrifin um þessar mundir? Nú er hægt að fá ókeypis með öllu stanslausan straum bóka. A.m.k. svona 10 til 20 titla á dag. Hvernig eiga þeir sem skrifa fyrir þannig markað að komast af? Íslendingar geta það ekki. Ameríkanar, Rússar og Kínverjar kannski. Hætt er samt við að eitt tungumál verði ofaná. Vonandi verður það enskan. Það er eina tunguálið sem ég skil til einhverrar hlýtar að íslensku undanskilinni. Jú, mér finnst eðlustu skrifin vera bloggið um þessar mundir. Það er ekki bara vegna þess að ég kann næstum ekkert annað en að blogga. Grunur minn er sá að orðið láti undan síga hvað líður. Fyrst breytist fésbókin í næstum eintómar myndir. Svo Internetið allt. Prentuðum bókum á eftir að fækka mjög og blaðaútgáfa að leggjast alveg af.  

Mér finnst jólasagan um Matthías Mána aðallega hafa snúist um það að lögreglan og Magga hafi verið að réttlæta sig.

Hversvegna að vera að svona svartagallsrausi á Jóladag? Kannski lesa það fleiri það þá og svo er ég laus við það úr systeminu. 

Er verið að reyna að útrýma framsóknarflokknum, eða hvað? Datt það bara svona í hug.

IMG 2256Sólskin.


1833 - Fésbókin og fleira

 

Galdurinn við fésbókina er að hafa mátulega marga vini skilgreinda sem nána vini (og auðvitað þá réttu). Mér er sagt að þeir geti ekki komist að því. Þá fær maður alltaf tilkynningar þegar þeir skrifa eitthvað og getur fylgst með öllum þeirra skrifum. Annars skrunar allt svo hratt framhjá að engin leið er að fylgjast með. Þ.e.a.s.ef maður er með marga fésbókarvini. Ég var einu sinni að safna slíkum og er með næstum 500 stykki.

Mikið er fjasað um kæsta skötu þessa dagana. Hef reyndar aldrei smakkað hana en lyktin er ferleg og kalla ég þó ekki allt ömmu mína í þeim efnum. Saltfiskur var alltaf á borðum í foreldrahúsum á laugardögum. Hann var ágætur, ef maður gat valið sér stykki. Sum voru þó fremur vond. Ný ýsa var ódýrasti matur sem hægt var að fá. Svona u.þ.b. þriðjungur til helmingur af kjötfarsverði. Yfirleitt bara skorin í stykki og soðin þannig. Þessvegna var sporðurinn bestur því einfaldast var að ná beinunum úr honum.

Ef kæst skata er raunverulega það góðgæti sem sumir segja, af hverju er hún þá ekki borðuð oftar? Veitingahús sem sérhæfðu sig í kæstri skötu mundu stórgræða. Aðalgallinn við hamsatólgina (þó góð væri) var alltaf hve fljótt hún storknaði. Og þá var hún fremur vond.

Já, líklega vill meirihlutinn fá 2007-ástandið aftur. Halda að það sé í lagi að selja allt sem seljanlegt er og skulda sem allra mest. Það er samt flest sem bendir til að það geti ómögulega verið viðvarandi ástand. Það kemur alltaf að skuldadögunum. Spurningin er bara hve snemma það verður. Hrunið 2008 var óþyrmilegt. Kannski var það líka óhjákvæmilegt. Þó uppgjör þess fari alls ekki eftir því sem flestir vilja, þá er óhugsandi annað en að sætta sig við breytta heimsmynd og taka því sem nú er, sem því sem koma skal. Er það ekki skárra en óvissan eða að steypa sér aftur útí vitleysuna? Ég veit það ekki, en held það.

Bloggið mitt er með daufasta og pólitískasta móti núna. Ekki er það heimsendaleysinu að kenna og ekki þeirri firru að rétta ráðið til að koma í veg fyrir fleiri Sandy Hook atburði sé að hafa vopnaða verði í hverjum einasta skóla. Frekar er það útaf því hvað dagurinn er stuttur og að 9 gráðu hæð sólarinnar á himninum náist ekki fyrr en 1. febrúar. Gott að vera laus við snjóinn hérna á Stór-Kópavogssvæðinu, en á móti kemur að myrkrið er hálfu svartara fyrir vikið.

IMG 2247Brúin yfir Kringlumýrarbraut.


1832 - Jól

Það er svo mikið skrifað á fésbókina, bloggið, tístið og hvað þetta allt saman heitir að það er mesta furða að nokkuð annað skuli gert. Jólin eru samt á leiðinni og þó margir vilji eiga þau eiga þau sig eiginlega bara sjálf.

Þó desember sé dimmur
þá dýrðleg á hann jól.
Með honum endar árið
og aftur hækkar sól.

Var kveðið í gamla daga. Merkilegt að sumir þeirra sem reyna að hnoða saman vísum virðast engan skilning hafa né þekkingu á neinu nema rími í sambandi við vísnagerð. Lærði bragfræði í miðskóla og fannst hún einföld og auðskilin. Annars er neikvæðnin og besservisserahátturinn að ganga af blogginu dauðu. Gott ef fésbókin er ekki í hættu líka.

Í sambandi við pólitíkina og frammistöðu alþingismanna er reyndar erfitt að vera jákvæður. Það eru fáir sem kunna tollskrána utanbókar og óþarfi að eyða dýrmætum tíma í ræðustól alþingis til að ræða um slíkt. Man bara að ég vann einu sinni við útfyllingu tollskjala og þótti alltaf skrýtið að 80% tollur skyldi vera á postulínsklósettum. Þau voru ekki slíkur lúxus þá, þó þau hafi verið það fyrir rúmum 100 árum þegar Thor Jensen var uppá sitt besta.

Vísan hér á undan er gamall húsgangur. Ég dundaði mér þó einu sinni (og kannski oftar) við að gera jólavísu. Hún er svona og ég get ekkert gert að því þó hún sé sex ljóðlínur:

Nú er jólin að ganga í garð
gaman er núna að lifa.
Af einhverjum lítt kunnum ástæðum varð
enginn mér fyrri að skrifa
þetta sem kalla má svolítinn sálm
sumum þó finnist það vera tómt fálm.

Með útúrdúrum og allskyns fettum og brettum er mér nú búið að takast að mestu leyti að halda mig við eitt efni í heilt blogg svo það er kannski best að hætta bara hér.

IMG 2246Birta og trjágreinar.


1831 - Nýja stjórnarskráin og inngangan í ESB

Sennilega er það til marks um hve gífurlega íhaldssamur ég er að ég skuli ennþá blogga á Moggablogginu. Mér finnst ég samt ekkert vera hallur undir Sjáfstæðisflokkinn og hef t.d. aldrei kosið hann. Finnst ég raunar ekki vera hallur undir neitt nema þá helst mínar eigin ómældu gáfur.

Málþófinu er lokið, samt á ekki að greiða atkvæði um það sem rifist var um fyrr en einhverntíma í janúar. Hvern er verið að reyna að plata? Stjórn og stjórnarandstaða virðist vera sammála um það eitt að kjósendur séu bölvaðir asnar. Stjórnin vill ekki umræður um viðkvæm mál. Hefur ekki öruggan þingmeirihluta fyrir neinu. Þrjóskast samt við að sitja. Lúffar fyrir útgerðarauðvaldinu og svíkur öll sín loforð varðandi kvótann. Stjórnarflokkarnir eru að verða jafnókjósanlegir og stjórnarandstaðan.

Sennilega eiga útgerðarmennirnir fiskinn í sjónum. Bæði veiddan og óveiddan, fæddan og ófæddan, ímyndaðan og raunverulegan. Þeir segja það a.m.k. sjálfir og líklega styður fjórflokkurinn það sjónarmið. Örugglega eru dómstólarnir og ríkisstjórnin þeirrar skoðunar. Sennilega dugar það sýnishorn af málþófsmætti stjórnarandstöðunnar sem sýnt var á alþingi til að slökkva þann kvótaeld sem kviknaði í brjóstum fáeinna þingmanna. Kannski eru kjósendur ekki allir sama sinnis, en hverju skiptir það? Enginn nennir að gera neitt í málinu. 

Nú eru hæstmóðins deilur um nýju stjórnarskrána. Allir hafa sinn uppáhaldspunkt sem þeir leggja ríka áherslu á og er það vel skiljanlegt. Sjálfur vil ég einkum að ef nýrri stjórnarskrá verður komið á, þá verði það gert í samræmi við ákvæði þeirrar gömlu. Það er að segja að hún taki ekki gildi nema vera samþykkt óbreytt á tveimur þingum með kosningum á milli. Þjóðaratkvæðagreiðsla skiptir minna máli því gamla stjórnarskráin gerir ekki ráð fyrir henni.

Sumir segja að inngangan í ESB skipti máli þarna, en mér finnst svo ekki vera. Að ganga í ESB án þjóðaratkvæðagreiðslu kemur alls ekki til greina. Á heldur ekki von á að ríkisstjórn af neinu tagi muni láta sér detta það í hug. Í mínum huga eru þetta algjörlega aðskilin mál. Þó útilokað sé, að bestu manna áliti, að ganga í ESB án breytinga á stjórnarskránni, má segja að líka sé útilokað að ganga í ESB án þjóðaratkvæðagreiðslu einfaldlega vegna ákvæðisins um neitunarvald forsetans.

IMG 2243Vetrarmynd.


1830 - Heimsendir eða heim-sendir

Höfundarréttur er margslungið fyrirbæri. Aðallega er hann notaður til að halda almenningi niðri. Hann er reyndar eitt af fjölmörgum ráðum til þess. Þeir sem peningana eiga reyna ávallt að halda í þá og láta þá gína yfir öllu sem hugsanlega er hægt að breyta í verðmæti. Það liggur bara í hlutarins eðli. Best af öllu er að eiga fyrirtæki. Þau má láta ljúga og svíkja og þykjast afar góður sjálfur. Ef einhver bendir svo á að fyrirtækið geri þetta eða hitt veit eigandinn auðvitað ekkert af því.

Höfundarréttur er orðinn svo samgróinn þjóðlífi okkar öllu að útilokað er að afnema hann alfarið. Hann er þó í eðli sínu ekkert sjálfsagður. Einkaleyfi ekki heldur. Í hinum fullkomnasta heimi af öllum heimum væri hann alveg óþarfur. Eignarrétturinn reyndar líka. En þá erum við svosem komin að pólitískum og heimspekilegum spurningum, sem réttast er að láta í friði.

Það er ágætt að blogga stundum um eitthvað sem hátt ber í fréttum. Af ýmsum ástæðum er það hinsvegar stundum dálitlum erfiðleikum bundið. Ég reyni að fylgjast með sjónvarpsfréttum, lít stundum á veffréttir og svo er það fésbókin. Þangað fer ég yfirleitt oft á dag. Þó umfjöllun mín beri það ekki nærri alltaf með sér þarf ég oft að hugsa mig vel og lengi um áður en ég set hlutina á bloggið. Það er nefnilega ákveðinn persónuleiki sem ég vil láta skína í gegn í blogginu mínu. Það er ekkert víst að hann líkist mér sérstaklega mikið, svo það er vissara að vanda sig áður en bloggað er og stytta mál sitt eins mikið og mögulegt er. Helst að lesa það oft yfir, því fólk vill ekki lesa langlokur. Það er ágætt að vera þar sem ég er vanalega á vinsældalista Moggabloggsins, því þá er ég ekkert frægur og heldur ekki alveg gleymdur.

Sagt er að yfirstéttarkonur í Ho Chi Minh borg sem áður hér Saigon stundi það talsvert að fara í fatagarma og fá sér leigt kornabarn til að hafa á handleggnum, gefa því svefntöflu svo það sé rólegra og fara síðan með það í betl-ferð. Auðvitað eru það þeir sem tíma ekki að gefa betlurum sem búa til svona sögur.

Sumt bendir til þess að heimsendirinn sem á að verða um næstu vetrarsólstöður (21. des.) sé með merkilegri heimsendum sem skollið hafa á undanfarið. Minnist þess t.d. ekki að Geimferðastofnun Bandaríkjanna (NASA) hafi gert sér séstakt ómak til að ganga milli bols og höfuðs á heimsendahugmyndum. Það hefur stofnunin samt gert nú: http://science.nasa.gov/science-news/science-at-nasa/2012/14dec_yesterday/ ekki finnst mér heimsendinn neitt trúlegri fyrir vikið, en svona er þetta bara. Sumir trúa þessu víst.

IMG 2229Bónus í stað Toyota.


1829 - Vafningur

Las örsöguna eftir Eirík Rögnvaldsson á fésbókinni. Já, það er rétt að maður forðast yfirleitt orðalag sem maður hefur ekki sæmilega á valdi sínu. Oft má forðast orð og beygingar sem hugsanlega eru ekki réttar hjá manni. Þetta held ég að margir geti skrifað uppá. A.m.k. geri ég það. Miðað við árangur í Miðskóla Hveragerðis er ég samt ágætur í stafsetningu. Allsherjartrúin á hana finnst mér ekki vera nærri eins mikil og áður var. Stafsetning er bara eins og hvert annað handverk. Æfist með tímanum og ekkert meira um það að segja. Að málið haldist óbreytt um aldir hefur auðvitað sína kosti, en líka ókosti og þá ekki litla. 

Álit mitt á Íslandssögunni er í sem allra stystu máli þannig: Þegar þrettándu öldinni lauk færðist mikill doði yfir þjóðlífið, enda minnkaði þá mikið sambandið við útlönd, og þó eftir væri að skrifa nokkrar Íslendingasögur lauk því niðurlægingarskeiði sem þá hófst eiginlega ekki fyrr en undir lok nítjándu aldar. Þá hófust svolitlar framfarir eftir talsverða hungursneyð sem varð til þess að allstór hluti þjóðarinnar fluttist til Vesturheims og nefndist Vestur-Íslendingar og eru þeir að mestu úr sögunni. Þessar framfarir stöðvast síðan svotil alveg við kreppuna miklu uppúr 1930. Gósentíð okkar Íslendinga hefst síðan þegar blessað stríðið kemur og Ísland er hernumið. Hún stendur síðan framyfir aldamótin 2000 en skömmu eftir að ameríski herinn fer ríður bankakreppan yfir og sér ekki fyrir endann á henni enn. Lífskjörin eru þó ennþá nokkuð góð, en ekki alveg eins góð og í nágrannalöndunum.

Dómurinn í Vafningsmálinu sem væntanlegur er rétt fyrir næstu áramót gæti táknað vatnaskil í Hrunmálum. Nái sérstakur saksóknari ekki árangri þar er ólíklegt að meira verði úr slíkum málum fyrir dómstólum. Stjórnmálin eru að taka yfir og mestar líkur eru á að kosningarnar í vor snúist bara um röðina við kjötkatlana. Spillingin heldur áfram, hefur kannski hægar um sig fyrst í stað en síðan verður næsta hrun eða a.m.k. gengisfelling með tilheyrandi verðbólgu. Þannig er bara Ísland í dag.

IMG 2223Trjádrumbur.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband