Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2021

3051 - Engisprettur

Kannski ég ætti að fara aftur að reyna að blogga daglega. Einu sinni gerði ég það. Veit samt ekki hvað mér tókst að halda það út lengi. Það er sennilega alltaf hægt að finna eitthvað til að blogga um. Nú þegar Trump er horfinn að sjónarsviðinu ætti að vera óhætt að blogga um eitthvað annað. Ekki sýnist mér Biden vera af því sauðahúsi að hægt sé að blogga um hann daglega. Trump var meira þannig.

Halldór Jónsson sagði að um væri að gera að blogga nógu oft og lítið í einu til að ná verulegum vinsældum. Ómar Ragnarsson bloggar jafnvel oft á dag, en er samt ekki nærri eins vinsæll og PalliVill. Hver er eiginlega galdurinn hjá honum? Jú, Davíð Oddsson hrósaði honum einhverntíma (í Staksteinum held ég) og svo skrifar hann næstum údelúkkende um stjórnmál og svo er hann hægrisinnaður mjög. Það hjálpar (altsvo að vera hægrisinnaður) Ef ég á að blogga daglega, eða því sem næst, áskil ég mér rétt til þess að blogga um hitt og þetta.

Ekki er nóg með að Afríkuþjóðir hafi þurft að berjast við kórónuveirufaraldurinn heldur hafa engisprettufaraldrar grasserað þar í óvenjumiklum mæli árið 2020. Að vísu hafa engispretturnar ekki valdið tjóni um alla álfuna enda er hún stór. En þar sem sá faraldur hefur náð sér sem mest á strik er veirufaraldurinn ekki sérlega afdrifaríkur. Vonandi kemur aldrei til þess að við íslendingar þurfum að hafa áhyggjur af engisprettum.

Jæja, kannski ég fari eftir því að hafa bloggin nógu stutt.

IMG 5054Einhver mynd.


3050 - Íslenskur handbolti

Vitanlega finnst mér mest gaman að skrifa um heimsmálin. Jafnvel að mér finnist svolítið ómerkilegt að tala um íslenska landsliðið í handbolta. Samt hef ég alveg skoðanir á því. Deila þeirra „handboltaspekinga RUV“ og Guðmundar Guðmundssonar landsliðsþjálfara yfirskyggir nú flest annað í íslenskum fjölmiðlum. Ekki fer á milli mála að Arnar Pétursson og Logi Geirsson eru „handboltaspekingar RUV“ Kannski ætti Kristjana Arnarsdóttir að teljast með í þeim hópi, en þó ekki. Hún er ekki hið minnsta spekingsleg en ber samt vissa ábyrgð á þeim.

Þó þeir þykist stundum vita mun betur en Guðmundur Guðmundsson og leikmenn liðsins skemma þeir ekki hið minnsta upplifun mína af leiknum. Sífelldar aðfinnslur lýsanda leiksins í garð dómaranna gera það hinsvegar ósjaldan. Ég efast ekkert um að þeir geri yfirleitt sitt besta og aðfinnslur hans eru stundum útúr kú. Auðvitað gera þeir mistök eins og aðrir, þeir eru bara mannlegir.

Arnar og Logi taka oft ansi mikið uppí sig, einkum Logi. Það er eiginlega bara gaman að þeim. Allt þykjast þeir vita og vita ansi margt. Óþarfi hinn mesti finnst mér af Guðmundi að láta svona. Samt hefur hann rétt fyrir sér að miklu leyti. Landsliðið hefur staðið sig nokkuð vel þrátt fyrir töpin. Danir fóru að vísu illa með Guðmund á sínum tíma, en það er óþarfi að láta það bitna á Arnari og Loga. Bless í bili.

IMG 5062Einhver mynd.


3049 - Impeachment or not

Enginn vafi er á því að fulltrúadeildin ætlar að lögsækja Trump fyrir þrettándaóeirðirnar. Hugsanlega verða réttarhöldin í öldungdeildinni samt ekki fyrr en í seinni hluta febrúarmánaðar. Mikið er að gera og ekki fyrirséð með öllu hvernig málum verði hagað þar þótt meirihluti demókrata sé tryggður. Vörn Trumps verður einkum fólgin í því að ekki sé hægt að lögsækja með þessum hætti forseta sem ekki er lengur forseti. Afglöp hans í sambandi við þrettándaóeirðirnar eru öllum ljós og líklega er þetta eina færa leiðin til að koma í veg fyrir hugsanlegt framboð hans árið 2024 og þarmeð að losa tök hans á repúblikanaflokknum. Lögsóknin tekst ekki nema tveir þriðju hlutar öldungadeildarinnar samþykki það. Til þess þurfa 17 repúblikanar þar að snúast gegn honum.                                                            

Enginn vafi er á því að Donald Trump hefur unnið þeirri hreyfingu sem berst við stofnanavaldið miklum skaða. Með lygum sínum og ómerkilegheitum ásamt sérgæsku sinni fyrir sína hönd og ættmenna sinna hefur hann gert það að verkum að erfiðara verður en nokkru sinni fyrr að koma sjónarmiðum almennings til skila. Þetta munu menn sjá vel á næstu mánuðum. Honum var fengið það mikilsverða hlutverk í lífinu að koma sjónarmiðum hins almenna manns til skila. Hann brást á því sviði eins og svo mörgum öðrum og ljóst er að vald það sem sérfræðingar og allskyns afætulýður hefur með langri þjálfun tekist að koma sér upp, mun á næstunni fara vaxandi.

Ég ætla ekki að fjölyrða meira um þetta að sinni, en ljóst er að þessi breyting mun verða áberandi á næstunni. Áreiðanlega munu gefast tækifæri til að ræða þetta nánar á næstu mánuðum. Biden bandaríkjaforseti mun leytast við að auka og endurbæta stofnanavaldið eftir föngum og víst er að Trump hefur að mörgu leyti auðveldað honum það verk.

Stöð 2 hefur læst aðgangi sínum að fréttum. Með því móti hyggst stöðin græða peninga. Þetta held ég að sé alveg öfugt í rassinn gripið. Ætlunin virðist vera að þeir sem hafa undanfarið horft á fréttirnar hjá þeim, af því þær voru ókeypis, sjái svo mikið eftir þeim að þeir gerist áskrifendur að stöðinni per samstundis. Þetta held ég að sé mesta vitleysa og fólk sé að miklu leyti hætt að leita að fréttum hér á Íslandi og láti fréttir í staðinn leita að sér. Stöðin muni þessvegna frekar tapa á þessu en hitt. Ástæða er samt til að vona að tapið verði ekki mikið.

IMG 5064Einhver mynd.


3048 - Navalny

Sagt er að Navalny muni snúa aftur til Rússlands næstkomandi sunnudag. Þetta er dálítið vandræðalegt fyrir Putin sem þarf að fara í gegnum kosningar í sumar og má hugsanlega ekki við miklu. Ég held nú samt að hann láti handtaka Navalny og setja í nægilega langt fangelsi til þess að hann geti ekki farið í framboð. Líklega hefur Putin vonað að hann kæmi ekkert aftur. Fróðlegt verður að sjá hvernig þetta fer.

Flestir virðast vera mjög uppteknir af því hvað muni gerast í bandaríkjunum á miðvikudaginn kemur. Þá er víst sá tuttugasti og Biden verður settur í embætti þá. Mitt hald er að þá gerist hreint ekki neitt, nema náttúrulega það sem allir vita að muni gerast. Þessa dagana virðist lítið heyrast frá Trump. Hann er sennilega að velta enn fyrir sér náðunum og þessháttar. Svo er hann vís til þess að setja auknar takmarkanir á Íran og líklegt verður að telja að Biden eigi í erfiðleikum með að afturkalla þær. Atburðir þeir sem gerst hafa undanfarna daga í bandaríkjunum verða varla til að auðvelda Biden embættisstörf sín. Þó árásin á þinghúsið komi Trump eflaust illa er ekki víst að Biden græði neitt á henni.

Sumir virðast halda að Trump hafi bara tapað í forsetakosningunum vegna kórónuveirunnar. Þetta er alrangt. Hver og einn af þeim sem til greina komu í kapphlaupinu um útnefningu demókrataflokksins hefði leikið sér að því að sigra Trump. Með eða án kórónuveirunnar. Sumir í stjórn Demókrataflokksins héldu þó að Biden hefði meiri möguleika en Sanders. Sjö eða átta milljónum fleiri atkvæði fékk hann vissulega og kannski höfðu þeir rétt fyrir sér. Bernie Sanders var manna ólíklegastur til að sigra Trump. Hann var og er hugsanlega of vinstri sinnaður fyrir almenning í þessari heimsálfu. Af hverju segi ég að engin furða sé þó Trump hafi tapað? Jú, ekki er með neinu móti hægt að gera ráð fyrir því að hann hefði fengið fleiri atkvæði þó mótframbjóðandi hans hefði verið annar. Ekki er líklegt að aðrir hefðu kosið hann en brjálaðir Trumpistar og nokkuð margir Repúblikanar. Athuga verður að þeir eru samkvæmt öllum skoðanakönnunum miklu færri en Demókratar í bandaríkjunum.

Þó bloggin hjá mér séu sífellt að styttast er það ekki vegna þess að ég sé orðinn skoðanalaus. Því fer fjarri. Á bara dálítið erfitt með að söðla um og hætta að skrifa um fréttir. Sennilega er ég einn af þeim fáu sem enn horfi á línulega dagskrá í sjónvarpinu. Að vísu horfi ég aðallega á fréttir, Kiljuna og Gísla Martein. Horfði á sínum tíma líka á Útsvar. Spurningaþættir hverskona höfða svolítið til mín. Til dæmis horfði ég á þáttinn sem Bragi Valdimar Skúlason stjórnaði ásamt einhverri konu sem ég kann nú ekki nafnið á. Kannski ætti ég að taka upp einskonar sjónvarpsgagnrýni hér á blogginu. Þó ég hafi unnið all-lengi á Stöð 2 er ég ekki áskrifandi að þeirri stöð og horfi aldrei á hana. Kannski væri það fulllítið að skrifa bara um þá fáu þætti sem mér þóknast að horfa á á ríkisstöðinni.

IMG 5073Einhver mynd.


3047 - Um Þórberg Þórðarson (og Trump)

Einhvers staðar sá ég minnst á fataherbergi. Það minnir mig á Þórberg Þórðarson. Þetta þarf ég væntanlega að útskýra nánar. Eitt sinn var ég nefnilega verslunarstjóri í Silla&Valda búð á Hringbrautinni. Í sama húsi bjó Þórbergur. Í bókum sínum talar hann oft um umskiptingastofuna. Það hefur sennilega verið herbergi sem var notað af honum, og hugsanlega Möggu líka, sem einskonar fataherbergi. Fékk nokkurskonar hugljómum um þetta núna rétt áðan. Kannski hefur þetta komið fram áður. Ég veit ekkert um það. Hef ekki einu sinni lesið bækurnar sem Pétur Gunnarsson skrifaði um Þórberg. Svo hef ég ekki einu sinni komið á Þórbergssetrið á Hala í Suðursveit. Man bara eftir þvi að Lilla Hegga kom eitt sinn í heimsókn til Birnu systur sinnar þegar ég var á Bifröst.

Enn get ég ekki annað en minnst á Trump. Upphaflega taldi ég að ekki gæti orðið af kæru fyrir embættisglöp (impeachment). Einkum taldi ég það vera vegna tímaskorts og að ekki væri ástæða til að efna til aukinnar úlfúðar í þjóðfélaginu. Nýlega sá ég því haldið fram að Mitch McConnell væri að snúast gegn honum. Í bréfi sem hann sendi nýlega til kollega sinna í repúblikanaflokknum kveðst hann munu ef til vill greiða atkvæði með sakfellingu Trumps. Ef svipaður bilbugur kemur í ljós hjá Kellyanne Conway og Söru Sanders er ég tilbúinn til að endurskoða þessa afstöðu mína og breyta henni. Steve Bannon finnst mér ekki skipta máli. Hann er eins og Trump sjálfur upptekinn af eigin skinni.

Konurnar tvær og McConnell munu einkum gera þetta með heill repúblikanaflokksins í huga og sú röksemd er þung að með því megi koma í veg fyrir að hann bjóði sig fram árið 2024. Þannig megi koma í veg fyrir að það hreðjatak sem hann óneitanlega hefur á flokknum, verði til þess að koma í veg fyrir að góður og gegn flokksmaður komist í framboð það ár.

Alltaf styttast bloggin hjá mér. Þetta er ég samt að hugsa um láta duga að þessu sinni.

IMG 5091Einhver mynd.


3046 - Ameríka

Einn er sá maður sem mér finnst nota bloggformið af listfengi miklu. Mér finnst hann samt skrifa of mikið um Færeyjar, fáfengilegar myndir af internetiu og fjölbreytt tónlistarlíf. Þetta getum við hæglega kallað effin þrjú og ég fyrir mína parta minnist sjaldan á þessi mál. Þar að auki bloggar þessi maður alltof sjaldan.

Jú, jú þetta er Jens Guð. Og þó ég taki mér hann til fyrirmyndar í mörgu og núorðið sé hann orðinn sá bloggari sem ég les hvað oftast, erum við, að ég held, ekkert líkir í bloggskrifum okkar. Við erum báðir farnir að eldast nokkuð og höfum lengi skrifað á Moggabloggið, en að öðru leyti held ég að við séum ekkert líkir.

Mér finnst samt ekkert Guðlegt við hann þó hann kalli sig Jens Guð. Mogginn þykist samt eiga bæði Guð og Sjálfstæðisflokkinn. Þarna er strax kominn í ljós heilmikill munur á okkur. Jens mundi aldrei láta það henda sig að skrifa um pólitísk mál. Auðvitað er Guð ekkert pólitískur, en Mogginn er það kannski og Sjálfstæðisflokkurinn áreiðanlega. Hugsanlega er Jens líka áskrifandi að Mogganum. Það er ég ekki, en les samt mbl.is öðru hvoru.

Flestir sem á Moggabloggið skrifa er hægri sinnaðir mjög. Ekki þó Jens. Hann heldur sínum stíl. Áfram skal Færeyjadýrkunin, sögurnar af Lollu frænku, tónlistarfræðslan og útúrrugluðu smásögurnar og myndirnar sem safnað er saman af Internetinu, í fólkið. Kannski kýs hann Sjálfstæðisflokkinn þegar hann getur en þó hefur hann ekki predikað um það mér vitanlega. Nei, Jens er fyrirmyndarbloggari í alla staði og ég reyni svo sannarlega að líkjast honum.

Nú get ég ekki annað en minnst á Trump, þó hann sé við það að verða úreltur. Stuðningsmenn hans eru mjög hægri sinnaðir pólitískt séð. Þar að auki eru þeir ótrúlega sannfærðir um að hafa rétt fyrir sér. Hvað eru þeir raunverulega margir? Hugsanlega klofnar repúblikanaflokkurinn fyrir tilverknað Trumps. Þó Trump hafi fengið allmörg atkvæði í nýafstöðnu forsetakjöri er alls ekki víst að harðkjarnastuðingsmenn hans sé sérlega margir. Pence varaforseti er sá af stuðningsmönnum hans sem hefur vaxið svolítið á áliti hjá mér. Og svo má ekki gleyma Mitch McConnell.

Sennilega er mesti munurinn á Evrópu og USA sá að uppreisnin af fólksins hálfu kom frá hægri í USA en í Evrópu er frekar við henni að búast frá vinstri. Auðvitað er þessi skipting í vinstri og hægri að mestu leyti úrelt. Getur samt hjálpað til skilnings á ýmsu. Ef litið er á bandaríkin sem heila heimsálfu, finnst mér það hjálpa svolítið til skilnings á stjórnmálum þar. Tungumálið og menningaraldurinn hefur sitt að segja. Menntunin hugsanlega líka. Veit það samt ekki. Að talsverður hluti bandaríkjamanna skuli nærast andlega einkum á selebum og samsæriskenningum finnst mér segja ýmislegt um þessa sömu bandaríkjamenn.

Kannski er það aldurinn (menningaraldurinn) sem skiptir mestu máli. Það er að segja ef ekkert er gamalt ef það er ekki að minnsta kosti 200 ára. Bandaríkin voru einu sinni kölluð nýji heimurinn, sennilega þó ekki lengur. Evrópa væri þá gamli heimurinn. Mér finnst að við Íslendingar tilheyrum Evrópu fremur en Ameríku.

IMG 5106Einhver mynd.


3045 - Trump, Trump og Trump

Trump dominerar fréttir eins og oft áður. Sennilega er þetta samt í síðasta sinn sem hann gerir það. Umræður um að koma honum frá eru fyrirferðarmikilar og er það lítil furða. Samt sem áður held ég að ástæðulaust sé að óttast að hann geri eitthvað óafturkræft og hættulegt heimsfriðnum á sínum síðsustu dögum í embætti. Vissulega gæti hann það sem æðsti yfirmaður öflugasta herveldis heimsins. Hann er þó umkringdur mönnum með fullu viti og þó hann færi sjálfur endanlega af hjörunum, er alveg ástæðulaust að óttast að hann grípi til einhverra örþrifaráða. Leyndardómur mikill hvílir yfir því hvað hann hyggist taka sér fyrir hendur að forsetatíðinni lokinni. Mér segir svo hugur um að hann muni á sínum síðustu dögun í embætti einkum huga að slíku. Dómsmál hverskonar munu honum sjálfsagt verða ofarlega í huga og þó hann geti ómögulega séð allt fyrir í þeim efnum getur hann vafalaust undirbúið þau á ýmsan hátt.

Annars er margt að gerast í heiminum annað en að Trumpast og nú þegar veiran virðist, að minnsta kosti sums staðar, vera á undanhaldi er kannski hægt að fara að tala um loftslagsvána og annað aðkallandi. Ef við getum lagt að baki Trump, veiruna og árið 2020 er kannski smávon til þess að við getum farið að ræða aftur um pólitík, loftlagsmál og önnur smáatriði.

Undarlegt er hve margir lesa þetta blogg. Eins og ég vanda mig við að segja sem allra minnst. Eiginlega er þetta ekki um neitt. Mér finnst allt sem ég minnist á vera svo sjálfsagt að í rauninni taki því varla að tala um það. Öðrum finnst það kannski ekki. Fjölbreytileikinn er það sem ætti að vera takmark sem flestra. Læt ég svo þessu auma bloggi lokið að sinni.

IMG 5113Einhver mynd.

 


3044 - Um Assange, Fischer o.fl.

Gleymdi víst að setja mynd með mínu síðasta bloggi. Þetta ætti ekki að koma fyrir aftur. Reyni að muna eftir þessu næst.

Hve langan tíma tekur að eyðileggja einn mann? Stjórnvöld og ýmsir aðrir, alls staðar í heiminum, stunda það að eyðileggja fólk, ef getan leyfir. Oftast er þetta fólk talið ógna þeim hagsmunum sem staðið er fyrir.

Ekki tók nema um það bil sjö ár að eyðileggja Assange. Nú er hann ekki nema flak af manni, eftir að hafa verið í u.þ.b. sjö ár í sendiráði í London. Voru það stjórnvöld í Bandaríkjunum sem eyðilögðu hann? Fyrir því má færa ýmis rök.

Sömuleiðis má finna ýmis rök fyrir því að þessi sömu stjórnvöld hafi, að minnsta kosti reynt, að eyðileggja Bobby Fischer á sínum tíma. Jafnvel að þeim hafi tekist það að einhverju leyti.

Við Íslendingar ættum að kannast mætavel við Fischer-málið. Mál Assange er mjög svipað að þessu leyti.

Auðvitað eru á þessum málum báðum margar hliðar. Og ég þekki þær allsekki allar. Eftir því sem þeir aðilar sem beita þessu eru öflugri er meiri hætta á þessu.

Veirufjárinn sem allir mega víst hallmæla (Var það ekki Helgi Hóseasson sem spurði hvort Guð hefði skapað veirur?) er hugsanlega á undanhaldi. Ekki er trúlegt að við Íslendingar förum verr útúr þessu vírusævintýri en aðrir. Víða er reynt að nota mál tengd þessu í pólitísku skyni og sumsstaðar virðist það hafa tekist.

Um er að gera að hafa bloggin sem styst. Þá eru þau frekar lesin.

IMG 5114Einhver mynd.


3043 - Trump er víst ekki dauður úr öllum æðum enn

Sagði víst í síðasta bloggi að fésbókin væri leiðinleg. Ofan af því fer ég ekki. Það jákvæða við hana er þó að með yfirlegu er hægt að stjórna því sjálfur hve leiðinleg hún er. Sem myndbirtir og samakiptatæki er hún samt óviðjafnanleg. Helsti galli hennar er hve gífurlegur tímaþjófur hún er. Fólki hættir líka til aö líta á hana sem upphaf og endi alls. Tölvulæsi fólks almennt hefur hún aukið verulega og þarmeð samskipti öll og auðveldað þau.

Lengi hefur bókinni (ég á við almennt en ekki fés-) verið spáð dauða en þó er hún enn sprelllifandi. Lengi hafa bækur hér á Íslandi verið óhóflega dýrar. Svo er enn. Þó hafa þær ekki hækkað eins mikið í verði og margt annað. Útgáfa þeirra hefur með aukinni tækni og sérhæfinu orðið mun einfaldari með árunum og nokkurra ára gamlar hrapa þær oft mjög í verði. Er jafnvel hent í stórum stíl. Lestur er jafnmikilvægur núna á þessum tæknitímum og hann hefur alltaf verið. Allt annað er bara viðbót.

Það eru greinilega sérvitringar miklir sem skrifa hér á Moggabloggið að staðaldri. Þá sem lesa þessi ösköp er þó varla hægt að kalla sérvitringa. Kannsi lesa þeir líka einhver ósköp á fésbókinni. Mikið er held ég skrifað þar. Stór hluti af því held ég að sé bölvað stagl. Ekki þar fyrir að ég er viss um að sama eða svipað er hægt að segja um bloggið sem virðist vera út um allar trissur.

Nú er nýja árið komið og bóluefnið með. Óljóst er þó með dagsetningar. Hef séð það eftir Kára Stefánssyni haft að ESB hafi leikið af sér og fái bóluefni seinna en aðrir. Sennilega eru Íslendingar í slagtogi við ESB hvað þetta snertir.

Undarlegar eru þær fréttir sem berast af Trump og kosningasvindlkenningum hans. Útlit er fyrir að a.m.k. einir 10 öldungardeildarþingmenn repúblikana muni gera athugasemdir þegar þingið á að staðfesta 6. janúar n.k., það sem kjörmannaráðstefnan svokallaða hefur ákveðið og fara fram á að þingnefnd verði skipuð og kosningar í sumum fylkjum athugaðar nánar. Hingað til hefur þetta einungis verið málamyndagerningur og erfitt er að sjá annað en þetta sé gert eingöngu til að gera Biden erfiðara fyrir. Aukakosningarnar í Georgíu eru síðan 9. janúar að ég held. Þar gæti meirihlutinn í öldungadeildinni verið í húfi. Það getur semsagt dregið til einhverra tíðinda í sjórnmálum í bandaríkjunum á næstunni.

Einhver mynd.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband