Bloggfærslur mánaðarins, desember 2011

1575 - Lesvélar, stjörnufræði og ný ríkisstjórn

Scan139Gamla myndin.
Í grind af vinnuskúr í Laugarási. Bjarni Sæmundsson (eldri) og Sigurbjörn Bjarnason.

Sé ekki betur en lesvélar séu það sem koma skal í bókahorninu, en mikið ósköp eru þær búnar að vera lengi á leiðinni. Rithöfundum gengur svolítið illa að skilja þessi mál en það lagast líklega með tímanum. Áður en langt um líður munu þeir gefa sjálfir út sínar bækur og hafa lítið fyrir því. Auðvitað munu bara bækur sumra höfunda seljast og aðrir lepja dauðann úr skel. Þannig hefur það alltaf verið. Skrifarar hafa samt löngum verið þannig að þeir vilja umfram allt lifa á vinnu annarra.

Þegar ég var ungur fékk ég eitt sinn óstjórnlegan áhuga á stjörnufræði. Ég er nefnilega og hef alltaf verið dellukarl hinn mesti. Ekki var auðvelt verk að útvega sér fróðleik um þessi mál og smám saman rénaði áhuginn. Man samt eftir glímu minni við Kepler og dagatalið. Lögmál Keplers voru mér að sjálfsögðu hugleikin Eins og flestir vita fjalla þau m.a. um sporbauga í stað hringa. Ítarlega lýsingu fann ég einhversstaðar á því hvernig hann fann það út að pláneturnar gengju í sporbaugum umhverfis sólu en ekki hringjum.

Niðurstaðan úr þeim pælingum var að Jörðin færi mishratt á sporbaug sínum. Í framhaldi af því datt mér í hug án allrar aðstoðar að hægt væri að ganga úr skugga um þetta með því að telja dagana milli jafndægra á vori og jafndægra á hausti annars vegar og jafndægra á hausti og jafndægra á vori hinsvegar. Ef það bil væri ekki jafnlangt væri skilningur minn á þessu máli réttur. Ég reiknaði þetta því út í æsingi miklum og komst að raun um það mér til mikillar ánægju að þar er einmitt þannig. Á þessari uppgötvun lifði ég lengi, en fann þó aldrei neinn sem deildi þessum óslökkvandi áhuga á stjörnufræði með mér.

Þetta með ríkisstjórnina virðist ætla að rætast. Ég er sérstaklega ánægður með að losna við Jón Bjarnason. Ekki er það samt útaf Evrópumálunum heldur kvótanum og flestu sem honum tengist. Sé ekki betur en ríkisstjórnin ætli að spila á hann í næstu kosningum, enda er þar um vinsælt mál að ræða. Aðildin að ESB gengur aldrei í gegn fyrir næstu kosningar. Þessvegna er þetta eðlileg niðurstaða. E.t.v. reynir Jóhanna að flýta kosningum eitthvað ef vel gengur í sambandi við kvótann. Meirihluti stjórnarinnar í sumum málum kann að sjálfsögðu að vera í hættu en slíkt er engin nýjung og þarf ekki að verða henni til trafala.

IMG 7593Háhýsahverfið í Kópavogi. Rauða ljósið er líklega aðvörunarljós fyrir flugvélar. Veit ekki af hverju farið er.


1574 - Eldkyndillinn, framhald II

Scan138Gamla myndin.
Vinnuskúr í smíðum í Laugarási. Hörður V. Sigurðsson og Vignir Bjarnason.

Það eru margir kostir við að taka kyndilinn með sér í rúmið í staðinn fyrir bækur.

1.      Maður getur tekið einar 6000 bækur með sér, minnir mig.

2.      Þarf engar áhyggjur að hafa af ljósinu. Það kemur að innan.

3.      Jafnvel gleraugnategundin er aukaatriði, því hægt er að stækka letrið.

4.      Ef bækurnar eru allar leiðinlegar er hægt að skreppa á netið.

5.      Hundseyrum sparast því tölvan man alla skapaða hluti.

6.      Hægt er að halda apparatinu hvernig sem manni sýnist.

7.      Það er ekki þyngra en flestar bækur.

8.      Og ekki stærra, nema síður sé.

9.      Gefur aðvörun ef rafmagnið er að klárast á batteríinu.

Fyrir svo utan allt hitt sem ég man ekki eftir. Nei, sannleikurinn er sá að það er ákaflega þægilegt að hafa Kindle fire tölvuna með sér þegar maður er að fara að sofa. Auðvitað er ekki gott að missa hana á gólfið geri ég ráð fyrir og eflaust ekki heldur að liggja á henni, en það ætti að vera hægt að vara sig á því.

Kannski fáum við nýja eða endurnýjaða ríkisstjórn í Nýársgjöf. Mér finnst sniðugt að hræra svolítið í þessu ráðherraliði öðru hvoru, sniðugast væri samt að losna við Jóhönnu. Stjórnarandstaðan er eins og tannlaus hundur eða biluð plata það er hægt að velja á milli. Auðvitað er stjórnin alls ekki gallalaus en að Hreyfingin ætli að fara að stjórna stjórninni það líst mér illa á. Held að þetta sé allt einhver loftbólutaktík og stjórnin komi standandi niður, hún er vön því.

Þó ég bloggi næstum daglega segi ég svosem aldrei neitt. Eða ekki finnst mér það. Reyni samt að raða orðunum þannig saman að útkoman verði sæmilega læsileg. Skoðanir hef ég á sumum málum og læt þær stundum í ljósi, en ekki nema mér finnist þörf á því. Skrifa ekki bara til að fá útrás fyrir einhverja reiði, en mér finnst sumir gera það. Stundum beinist þessi reiði að ákveðnu fólki t.d. pólitíkusum og þá fer fólk gjarnan framúr sjálfu sér og segir hluti sem það sér eftir. Ég sé oft eftir því sem ég skrifa en yfirleitt vegna þess að mér finnst lesendur misskilja mig, en ekki vegna þess að ég segi hluti sem ég hefði átt að láta ósagða.

IMG 7552Kópavogur.


1573 - Bíbí og Dabbi

Scan105Gamla myndin.
Guðmundur Bjarni Björgvinsson.

Heyrði einhvers staðar sagt frá klukkustundarlöngu sjónvarpssamtali Davíðs Oddssonar og Björns Bjarnasonar. Mér fannst ég vel geta verið án þess að hlusta á slíkt samtal og finnst enn. Las samt frásögn DV af þessu samtali. (eða eintali eins og helst var á DV að skilja)

Ég veit að ég hef sagt það áður en mér finnst það blasa við að Davíð Oddsson ber með sér einhverjar De Gólískar væntingar og virðist eiga von á að til sín verði leitað með að stjórna landinu. Munurinn er einkum sá að De Gaulle stóð fyrir ýmsum breytingum í frönsku þjóðlífi þegar hann komst til valda, en Davíð er íhaldssamari en andskotinn og mundi fara með íslenskt þjóðlíf rakleiðis til miðalda ef hann fengi einhverju ráðið.

Allmargir frægir menn hafa látið svo lítið að kommenta á bloggið mitt. Eflaust lesa það miklu fleiri. Jafnvel reglulega og sleppa engu sem ég læt mér um blogg fara. Hannes Hólmsteinn Gissurarson er líklega einn sá allra frægasti sem kommentað hefur hjá mér. Það gerðist 5. júní 2010 (sko það má hafa not af Gúgla frænda (Hannes spakmæli site:saemi7.blog.is)) og ég var auðvitað upprifinn allan þann dag. Minnir að hann hafi verið að biðja um leyfi til að nota spakmæli sem ég tók uppúr Rafritinu.

Man eftir Unu á Gaul. Henni fannst hún þurfa að borga sníkju-gíróseðlana sem bárust henni í miklu magni um það leyti sem ég tók við á Vegamótum og varð fegin þegar ég sagði henni að hún gæti sem best sett þá í ruslið. Una var kjarnakona og kom upp stórum barnahóp. Á sínum tíma þekkti ég held ég alla bæi á sunnarverðu Snæfellsnesi. Er ekki viss um að ég léki það eftir núna. Þegar ég vann í pantanadeildinni hjá Helga Ágústsyni kannaðisti ég líka við flesta bæi í Árnes- og Rangárvallasýslum og jafnvel víðar á Suðurlandi. Mörg nöfnin voru sérkennileg. Man t.d. vel eftir nafni Mensalders Mensalderssonar að Húsum.

Nú er allt að fara á kaf í snjó. Það hefur aðeins einu sinni áður verðið svona mikill snjór í Kópavogi síðan ég flutti hingað, sem var á síðustu öld. Metasögurnar gef ég ekki mikið fyrir. Einu sinni hef ég vitað um almennilegan byl hér á Reykjavíkursvæðinu. Held að Akurnesingar þekki ekki slíkt.

IMG 7548Sjaldan er gíll fyrir góðu nema úlfur á eftir renni.


1572 - Alveg merkilegt

Scan101Gamla myndin.
Margrét í Dalsmynni.

Það er undarlegur andskoti að uppgötva það þegar maður er að verða sjötugur að maður hefur verið að gera tóma vitleysu allt sitt líf. Auðvitað hefði ég átt að byrja að blogga þegar ég var fimmtán ára eða svo. Það er nánast það eina sem ég er góður í. Hugsið ykkur hvað lægi eftir mig núna. Það væri hægt að gefa út eina bók á ári með úrvalsbloggum. Það þyrfti bara að leggja það á sig að velja þau. Ekki mundi ég treysta mér til þess. Bloggin væru sennilega 22 til 23 þúsund talsins. Hugsa sér. Auðvitað er það ágætis afsökun að ekki hafi verið búið að finna bloggið upp á árunum fyrir 1960. En það dugar skammt. Pappírinn var búið að finna upp og ég hefði vel getað bloggað á bréf þangað til Moggabloggið kom til sögunnar. Ekki má rugla þessu saman við venjuleg dagbókarskrif því bloggið er miklu merkilegra.

Merkilegt hve mikið er til af merkilegum mönnum útum allar jarðir. Sjálfmenntaðir bændahöfðingjar á annarri hverri þúfu eins og flestir voru á söguöld Þingeyinga. Svo var manni a.m.k. fortalið í Samvinnusögunni forðum daga. Ja, kannski er það ekkert merkilegt. Bara merkilegt að mér skuli finnast það merkilegt. Alveg er ég að týna mér í merkilegheitum núna, svo það er líklega best að hætta þessu.

Og nú er Helgi Ingólfsson sjálfur farinn að skrifa athugasemdir við bloggið mitt. Ég næ þessu bara ekki. En þetta sýnir hvað ég er merkilegur bloggari og margir merkilegir menn sem lesa bloggið mitt. En auðvitað er það ekkert merkilegt. Ég er nefnilega farinn að halda sjálfur að bloggið mitt sé eitthvað merkilegt. En nú er ég steinhættur þessu.

IMG 7546Ekki er að sjá að þetta skilti sé í sérstökum hávegum haft.


1571- IKEA

Scan94Gamla myndin.
Í Langholtsrétt. Hafursfell í baksýn. Þekki bara Guðbjart á Hjarðarfelli þarna.

Nú er jólin liðin og ekki annað að gera en bíða eftir áramótunum. Ég hef aldrei verið mikill sprengjukall svo ég er ekki vanur að eyða miklu í flugelda, blys og þ.h.

Þegar áramótin eru búin þá er ekki um annað að gera en bíða eftir vorinu. Það kemur á endanum þó hægt fari. Spurningin er bara hvort það vorar seint eða snemma. Líka hvort það kemur páskahret, sýslufundarhret eða eitthvað slíkt. Hitastigið ætti að fara eitthvað hækkandi og birtan að aukast. Ég reyni að fylgjast með þessu svo vorið komi ekki alveg aftan að manni.

Sýnist veðrið bjóða uppá að maður fari út að labba. Snjór er talsverður svo hálkan er kannski minimal. Auk þess er ekkert víst að það sé í rauninni nokkuð kalt. A.m.k. er ekki mikill vindur.

ikeaSumar myndir beinlínis kalla á að þeim sé stolið. Þannig er því t.d. varið með þessa mynd. Þetta er greinilega IKEA-auglýsing og örugglega gerð í því eina augnamiði að henni sé stolið og hún fari sem víðast. Hérmeð er það framkvæmt.

Ég er ekkert neyddur til að trúa því að öll sú orka sem sagt var í E-númeraþættinum að væri fólgin í einni teskeið að sykri sé endilega rétt. Hún gæti hæglega verið fólgin í sprengiefninu sem sett var saman við. Kannski er bara best að fara að leika eldspúandi dreka!! Saltpétri og sykri blandaði maður saman í gamla daga og ef kveikt var í blöndunni fékk maður heilmikinn reyk.

IMG 7538Haustmorgunn í Kópavogi.


1570 - Falleraðir fuglar (eða englar)

Scan90Gamla myndin.
Allir að teikna. Ingólfur Gísli Garðarsson, Gerður Garðarsdóttir, Bjarni Sæmundsson og Benedikt Sæmundsson.

Enn er fjallað um stóra Vantrúarmálið. Egill Helga er nú kominn í það og ekki geri ég ráð fyrir að sérfræðingum fækki við það. Hingað til finnst mér að sérfræðingar um kennslu með glærum hafi látið ljós sitt skína á kostnað sérfræðinga um notkun siðanefnda við háskóla heimsins. Undirskriftasafnanir hafa gengið á víxl og áreiðanlega eru þeir ekki margir landsmennirnir sem með öllu eru ókunnugir þessu máli. Niðurstaða í það fæst varla úr þessu. Hver étur úr sínum poka og þykist hafa að langmestu leyti rétt fyrir sér.

Auðvitað er ekkert að marka sumt sem ég skrifa. T.d. eru fuglarnir vitlausir í það sem þeim er boðið og enginn köttur í nágrenninu. Svo er líka mestallt sem ég skrifaði um Kindle fire öfugt og snúið. Sumt er svosem satt og rétt en þeir sem ekki geta greint þar á milli verða bara að sætta sig við að kannski er eitthvað fært í stílinn einsog þetta með fugla himinsins. Það hljómaði einfaldlega betur að hafa það þannig. Villi í Köben ætlast til að allir sjái hvenær hann meinar ekki það sem hann segir og skrifar. Mér er ekkert vandara um en honum. Ari fróði segir að hafa skuli það sem sannara reynist. Hann hélt líka að hann væri að skrifa sagnfræði og trúði öllu sem hann setti á blað. (Nú, eða skinn.)

Með þessu sífellda bloggstússi er ég smám saman að verða ónæmur fyrir því að láta allan fjandann flakka bara ef það hljómar sæmilega. Mér er nær að vera búinn að venja mig á að blogga svona mikið.

Mér leiðist líka að vera algerlega hefðbundinn. Kannski er ég það samt. Enginn veit sín skrif fyrr en á blað eru komin. Þá er líka erfitt að koma þeim í burtu. Nema henda þeim fyrir fullt og fast. Það er ekki minn stíll. Frekar fimbulfamba ég eitthvað óskiljanlegt en ekki neitt.

Nú er ég aftur kominn í þann ham að skrifa endalaust. Verð samt að hætta einhverntíma. Það töpuðust nokkrir blaðsíðumetrar hjá mér undanfarna daga svo ég verð að reyna að vinna það upp. Engan hvet ég þó til að hlaupa yfir þá speki sem hér verður væntanlega sett á blað.

Nei, það mistókst. Veðrið er svo vont. Get ekki skrifað neina speki í svona veðri. Það er skítkalt og snjór útum allt.

IMG 7522Drungalegur haustmorgun í Kópavogi.


1569 - Eldkyndillinn, framhald

Gamla myndin.
Scan86Bjarni Þór Ólafsson. Rámar í að hafa beðið Bjarna um að hafa skeiðina í vinstri hendi svo betra væri að taka myndina.

Jú, mér tókst að kveikja á henni. En nú ætla ég að halda mönnum í talsverðri spennu og ekki segja frá því strax hvernig mér gekk að slökkva á henni aftur og hlaða batteríið og þess háttar. Auðvitað er allt slíkt algjört grundvallaratriði þegar um spjaldtölvu af þessari gerð er að ræða.

Já, hún er svört, tæpur sentimetri á þykkt giska ég á og á stærð við ofvaxna ljósmynd sem kölluð er 10x15. Satt að segja er hún u.þ.b. sentimetri á þykkt stærðin er 12x19 sentimetrar og ég held að hún sé uppundir hálft kíló að þyngd.

En nú segi ég ekki meira um hana nema mér verði mútað til þess. Sjáumst í næsta bloggi.

Konan mín er búin að starfa að því óslitið frá fyrstu snjóum að lokka til sín fugla himinsins með allskyns matargjöfum og eplaskrælingi en þeir láta ekki blekkjast. Stöku sinnum sjást þeir þó hoppa grein af grein i garðinum og kallar það á mikinn æsing. Skyldu þeir nú láta fallerast og taka til matar síns? Nei, er þá ekki köttur nágrannans kominn á kreik líka og því sjálfhætt við allar matmálstilraunir.

Lægi líf mitt við og ég ætti að búa til lista yfir alla þá staði þar sem ég hef átt heima þá yrði hann víst einhvernvegin svona:

Bláfell.
Breiðamörk eitthvað (hjá Steinu og Tedda.).
Heiðmörk hjá Sigmundi og Kristínu.
Frumskógar 1.
Hveramörk 6.
Bifröst í Borgarfirði – herbergi 219.
Bifröst í Borgarfirði – herbergi 205.
Breiðamörk 25 Hveragerði.
Smáratún 9 Selfossi.
Hjarðarhagi 54 Reykjvík.
Lynghagi 17 Reykjavík.
Hávallagata 44 Reykjavík.
Vegamót Snæfellsnesi.
Valbjarnarvelli í Borgarhrepp.
Helgugata 8 Borgarnesi.
Þorsteinsgata 15 Borgarnesi.
Hrafnaklettur 6 Borgarnesi.
Þórufell 8 Reykjavík.
Borgarhraun 2 Hveragerði.
Álftamýri 12 Reykjavík.
Tungusel 9 Reykjavík.
Vífilsgata 22 Reykjavík.
Auðbrekka 29 Kópavogi.

Af gefnu tilefni tek ég fram að ekki er öruggt að þessi listi sé í réttri tímaröð. Fyrir því er þó engin sérstök ástæða.

Þennan langa lista fann ég í skjali á tölvunni minni. Bjó hann semsagt ekki til núna. Athyglisvert er hve dvöl mín á hverjum stað lengist sífellt. Þetta endar sennilega með ósköpum.

Jú, ég held að ég sé að ná mér af ritstíflunni. Einhversstaðar endar þetta þó alltsaman. Í síðasta lagi hætti ég að skrifa þegar ég drepst. Þetta var mikil speki. Jafnvel spekileki.

Heimskautanóttin er löng. Hún er öllum erfið. Þó hefur lífið sigrað hana. Svarið felst í dvalanum. Allt, eða næstum því allt, stöðvast. Dvalinn er næsti bær við dauðann og hefur jafnmarga bókstafi. A.m.k. á íslensku. Þessvegna er íslenskan fullkomnari öðrum tungumálum. Heimskautanóttin er innbyggð í hana. Tölum svo ekki meira um heimskautadauðann fyrr en við vöknum. Einbeitum okkur að því að þreyja Þorrann og Góuna.

Já, það er kalt, en ekki svo kalt að ekki sé hægt að viðhalda blóðhitanum ef réttum aðferðum er beitt. Kætumst meðan hægt er. Étum okkar jólamat, förum jafnvel á jólafyllirí, en gætum okkar umfram allt á heimskautanóttinni. Hún liggur í leyni og reynir að yfirbuga okkur. Sjaldan tekst henni það því við erum svo snjöll. Samansöfnuð vineskja kynslóðanna hjálpar okkur. Við bætum meira að segja við hana. Jafnvel án þess að vita það. Bíðum bara eftir vorinu og reynum að gera eitthvað skemmtilegt á meðan. Nú er sagt að sólin sé tekin að hækka aftur á himninum. Hægt gengur það, en hefst þó áreiðanlega.

IMG 7495Veðurstofa Íslands. Kofinn í forgrunninum er ansi veðurlegur.


1568 - Kindle fire

Scan86 (2)Gamla myndin.
Anna Einarsdóttir og Þorgeir bróðir hennar ásamt bræðrunum Bjarna og Benna.

Ekki veit ég af hverju þessi rasti kom í bloggið hjá mér um daginn. (Eða þaráður) Eiginlega er ég kominn með hálfgerða blogg-ritstíflu og þessvegna var það sem ég þóttist leysa málið með því að setja hingað gamalt blogg. Samt er ég búinn að fá nýtt leikfang, sem er Kindle fire tölva með snertiskjá, lit, vefaðgang o.s.frv. Kannski ritstíflan stafi bara af því. Ég er eiginlega búinn að bíða eftir henni lengi og kannski er hún komin núna (þ.e. stíflan, ekki spjaldtölvan)

Kannski er þetta bara tiltölulega meinlaus jólaritstífla sem rjátlast af mér með jólasteikinni. Ég veit svosem ekki af hverju þetta stafar því venjulega hef ég svo gaman af að skrifa að ég á erfitt með að hætta.

Mér er sagt að þetta séu spjaldtölvujólin miklu. Þessvegna fjárfesti ég í Kindle fire einsog áður er getið. Hún kostaði 199 dollara og ef einhverjir eru tilbúnir til að borga á annað hundrað þúsund fyrir þá er eflaust hægt að finna einhverja sem þiggja það.

Ætli það verði ekki næst á dagskrá hjá mér að birta dóm um þetta fyrirbæri. Þ.e.a.s. ef mér tekst að kveikja á henni.

Sagt er að Aðfangadagur sé að skella á með brauki og bramli. Það er annars orðið langt síðan maður hefur fengið almennilegt illviðri á Aðfangadag.

IMG 7484Borgarspítalinn.


1567 - Gamalt blogg

Scan85Gamla myndin.
Gunnar Kristjánsson frá Miðhrauni.

Ekki er víst að allir kunni að meta það, en ég er í vaxandi mæli farinn að lesa gömul blogg eftir sjálfan mig. Af einhverjum ástæðum er mér það minnisstætt að fyrir nokkrum árum skrifaði ég smápistil á bloggið mitt um ömmu. Núna áðan var ég að lesa þett blogg yfir og sé að mér hefur alls ekki farið fram við skriftirnar, því miður. Satt að segja er þetta bara nokkuð gott hjá mér. Ég hef ekkert fellt niður og engu bætt við. Þennan pistil kallaði ég: Um Jórunni Jónsdóttur sem fæddist þann 26. júlí 1872.

Ég er sennilega skástur við endurminningarnar. Auðvitað er samt gaman að þykjast gáfaður og setja fram skynsamlegar skoðanir um allt mögulegt, en besservisserarnir meðal bloggara eru bara svo fjári margir. Ég man eftir nokkrum sögum af ömmu og vel getur verið að ég reyni að aðlaga þær Gvendarkotsvefnum, ef Atli kærir sig um það.

Já, Jórunn var amma mín og ég hef verið á fimmtánda ári þegar hún dó. Auðvitað man ég greinilega eftir henni. Hún hafði þann sið þegar gott var veður að fara út og rölta um lóðina. Ekki tók hún samt skupluna af sér og ekki lagði hún frá sér prjónana. Ég man vel að hún gat auðveldlega farið allra sinna ferða og talað við fólk sem hún hitti, án þess að það hefði nokkur áhrif á prjónaskapinn. Ef hún var ekki að prjóna var hún yfirleitt að spinna á rokkinn sinn.

Að breyta lopa eða ull í band með rokknum og tvinna saman ólíkar bandtegundir var henni leikur einn. Til að snúa böndin saman notaði hún að sjálfsögðu snældu. Með sérstöku og snöggu átaki þar sem snælduleggurinn var hafður milli læris og hægri lófa var snældan síðan látin snúast eftir þörfum og bandið sem snúðurinn kom á síðan vafið um snælduhalann.

Stundum fengum við krakkarnir að prófa að snúa snældunni og gekk það oft bærilega, ef vel var fylgst með okkur. Stundum lét hún okkur líka halda á hespum, meðan hún vatt bandið í hnykla. Og þvílíkir hnyklar. Þeir voru svo mátulega þéttir og svo hæfilega oft skipt um legu bandsins að engin hætta var á að þeir röknuðu upp. Ég man ekki eftir að hafa séð betur undna hnykla. Í miðjan hnykilinn setti hún jafnan samanbrotið dagblaðssnifsi eða eitthvað þess háttar. Stundum reyndi hún að kenna okkur að vinda band í hnykla, en það gekk brösuglega

Amma dvaldi jafnan til skiptis hjá dætrum sínum þeim Ingu í Nóatúni og mömmu. Á ættarmótinu á Laugum í Sælingsdal vorum við Eysteinn sonur Ingu af einhverjum ástæðum að tala um ömmu. Honum fannst að hún hefði oftast verið hjá þeim, en mér fannst hún oftast hafa verið hjá okkur.

Þegar amma var að búa sig undir að fara eitthvað (sennilega til Ingu í Nóatúninu - sem þá átti ef til vill heima á Víðimelnum) var hún tilbúin að fara, komin í kápuna og allt, löngu áður en rútan (kannski Gardínu-Palli) átti að fara. Þá settist hún á rúmið sitt og beið eftir að tíminn liði. Stundvísi held ég að sé flestum afkomendum hennar í blóð borin.

Amma hafði gaman af að gefa. Hún gaf til dæmis systrum mínum öllum kommóðu og eitt sinn þegar komið var með kommóðu heim á Hveramörk 6 var ég eiginlega búinn að reikna það út að ég ætti að fá hana. En reyndin var sú, að það var komið að henni sjálfri.

Af því að mamma var úr Þykkvabænum og þekkti alla þar, fórum við stundum þangað. Ég man eftir að hafa verið með mömmu í þar um það leyti sem Geysir fórst á Bárðarbungu. Þá var okkur krökkunum stranglega bannað að hafa hátt meðan fréttir voru lesnar. Líklega höfum við verið í Búð, en þó er ég ekki viss.

Sennilega hefur það verið í þessari ferð (1950) sem við Vignir vorum eitt sinn eitthvað að bardúsa úti á túni. Þar þurftum við af einhverjum ástæðum að fara yfir skurð, þar sem var smálækur í botninum. Ég fór léttilega yfir og beið eftir Vigni, sem ekki treysti sér til að hoppa yfir lækinn.

Þá var það sem kúahópur sem var á túninu veitti því athygli að eitthvað var um að vera hjá okkur. Forystukýrin í hópnum rak halann upp í loftið og baulaði eitthvað óskiljanlegt og síðan komu allar beljurnar steðjandi í áttina til okkar. Mér fannst þær hlaupa og vera til alls líklegar og Vigni hefur eflaust fundist það líka, því nú brá svo við að hann stökk yfir lækinn eins og ekkert væri. Ég man að mamma og líklega einhverjir fleiri hlógu mikið, þegar við sögðum frá þessu.

IMG 7483Já, veggurinn þarna er hálfsubbulegur.


1566 - Jólabækurnar og ýmislegt fleira

Scan79Gamla myndin.
Talið frá vinstri: Bjarni, Benni, Kristín Þóra og Bjarni Harðarson. Allir strákarnir eru í eins peysum. Ætli mamma hafi ekki prjónað þær. Myndin er eflaust tekin á Vegamótum.

Einu sinni las ég oft jólabækurnar í desember. Ekki núna. Þá var ég verslunarstjóri á Vegamótum á Snæfellsnesi og ásamt mörgu öðru seldum við jólabækurnar að sjálfsögðu þar. Ég stundaði það að lesa eitthvað af bókunum strax og þær komu út, en gætti þess að sjálfsögðu að sellófanpappírinn skemmdist ekki og að ekki sæist neitt á bókunum. Þessu varð ég vitanlega að hætta þegar ég flutti frá Vegamótum og sá ekkert eftir því. Bókasöfnin hef ég stundað grimmt undanfarin ár. Auðvitað er ekki hægt að fá jólabækurnar þar strax í desember en það gerir ekki mikið til. Helstu gjafabækurnar og þær sem mest eru auglýstar eru hvort eð er oft ómerkilegustu bækurnar. Núorðið eru bækur gefnar út allt árið og oft er það svo að útkoma merkustu bókanna fer alveg framhjá manni.

Hæfileikar stjórnmálamanna hér á Íslandi virðast helst miðast við frammistöðuna í hálftíma hálfvitanna svokallaða. A.m.k. hefur ræðumennska og orðhengilsháttur þeirra afgerandi áhrif á vinsældirnar. Þannig er þetta víða. T.d. er það augljóst að til að ná árangri sem leiðtogi í Bretlandi þarf að hafa hæfileika til að tala í fyrirsögnum og skammast með miklum hávaða. Litlu máli skiptir hvað sagt er. Ef ritstjórar helstu blaðanna þar finna í því sem leiðtogarnir segja bærilegt fyrirsagnarefni er deginum bjargað.

Ekki er skipulagið á Moggablogginu uppá marga fiska. Sá um daginn að einhver bloggvinur minn hafði læst blogginu sínu til að aðrir væru ekki að hnýsast í það. Slíkt er í hæsta máta skiljanlegt. Engin ástæða er til að láta alla vera að lesa það sem maður skrifar ef maður kærir sig ekki um það. En í upphafi bloggsins sem birtist til vinstri á stjórnborðinu var byrjunina á blogginu samt að finna. Þessu þyrfti að ráða bót á.

Sé að ég hef af einhverjum ástæðum dottið útaf vinalista Vilhjálms Arnar Vilhjálmssonar á Moggablogginu. Hann hefur líklega hent mér út (aldrei hendi ég neinum út) og eflaust hefur honum ekki fundist það vera að ástæðulausu. Oft hef ég leyft mér að gagnrýna hann og í mörgum efnum verið hjartanlega ósammála honum. Fór líka framá að vingast við hann í gegnum Fornleif en hann hefur ekki sinnt því. Veit ósköp vel að Jón Valur Jensson hefur hent mér útaf vinalista sínum hér á Moggablogginu en mér er alveg sama um það. Vilhjálmur Örn á það hinsvegar til að vera ansi hugmyndaríkur í vali sínu á bloggefni. Í hina röndina er hann samt öfgamaður mikill.

IMG 7479Hvað er þetta eiginlega?


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband