Bloggfærslur mánaðarins, september 2019

2880 - Lögreglan og Trump

Alltaf eru menn að bollaleggja um líf eða menn á öðrum hnöttum. Eiginlega er þetta ómarktæk spurning. Spurningin er miklu fremur sú hvernig í ósköpunm ættu þeir að gera vart við sig, ef þeir eru til, og hversvegna ættu þeir að gera það. Vel getur verið að þrátt fyrir alla okkar tækni og vísindi séum við eins og hver annar vírus í óravíddum geimsins. Hugsanlega er öll okkar þekking og vísindastarfsemi einn allsherjar misskilingur. Jafnvel rangur misskilningur. Vel getur verið að það sem við köllum alheim sé bara einskonar blaðra á væng lúsmýs einhvers annars heims sem við þekkjum ekki rassgat. Spurningin um líf og dauða er svo verkefni trúarbragðadeilda allra heimsins háskóla. Hver einasti maður er heill alheimur útaf fyrir sig, ef útí það er farið. Stundum gleymum við þessu og höldum að sumar mannverur séu merkilegri en aðrar. Að ég nú tali ekki um aðrar lífverur. Svo er þó allsekki.

Þegar ég álpast til þess að skrifa blogg, eða blogga eins og sagt er á góðri íslensku, fer ég kannski oft á dag (ja, oftar en einu sinni allavega) á mbl.is alveg sérstaklega til þess að athuga hve margir hafa farið inná síðuna mína. Er þetta ekki önnur hlið á læk-sóttinni, sem sagt er að herji á marga og fari illa með þá? Svo held ég líka (og tek ekkert mark á þeim sem segja annað) að Gúgli sjálfur hafi mun meiri áhuga á bloggi en fésbók og geymi öll innlegg sem þangað rata en hafi fyrir löngu gefist upp á fésbókinni og kjaftavaðlinum þar.

Að fullfrískt fólk skuli sætta sig við að sitja klukkutímum saman á hverjum degi í bíl til þess eins að komast fárra kílómetra leið er gjörsamlega ofvaxið mínum skilningi. Að vísu mótast sá skilningur af mun færri bílum og malarvegum um allt. Ekki létum við það samt aftra okkur frá því að sitja í rútu alllengi og hristast á malarvegum verulega langa vegalengd, til þess að komast á sveitaböll, sem þrátt fyrir troðinginn og hávaðann voru eftirminnilegustu og skemmtilegustu stundirnar á margan hátt.

Ég held nefnilega að um það bil sem allir eða flestir sem eru á léttasta skeiði og búa í borgum verði búnir að gefast upp á bílunum og farnir að fara flestra sinna ferða ýmist fótgangandi eða á rafmagnshlaupahjólum, (lestir koma vissulega til greina og jafnvel ódýrir leigubílar) þá verði þau vinsæl hér á Íslandi. Veðrið þarf ekki að vera mikill Þrándur í Götu við það, því kuldann er alltaf hægt að klæða af sér, en það er verra með hitann. Það er ekki einu sinni víst að menn (og konur) þurfi að eiga þessa fararskjóta. Vel getur verið að hægt verði að fá þá leigða og skila þeim hvar sem er.

Mér finnst gaman að skrifa og lesa (þó ekki krimma eða of langar skáldsögur). Þess vegna blogga ég svona mikið. Svo get ég oftast nær svarað fyrir mig, ef ljóðað er á mig eða skammast á annan hátt. Sennilega er ég þó ekki nærri alltaf nógu jákvæður í þessháttar svörum, en það gerir ekkert til. Ég er bara svona. Margt af því sem reynt er að halda að okkur pöplinum í fjölmiðlum og á alþingi hugnast mér allsekki og er greinilega hin mesta vitleysa. Venjulega þykist ég vera yfir allt slíkt hafinn en svo er allsekki. Líklega er þetta einskonar minnimáttarkennd, en kannski eitthvað allt annað.

Er alþingi annars fjölmiðill? Fyrir því má svosem færa ýmis rök. Þingmenn vilja margir hertaka ræðustólinn eins lengi og hægt er og þeir virðast halda að margir horfi á sjónvarpið þaðan og að það hafi mikil áhrif. Hefur það annars verið rannsakað? Flokksræðið er svotil algjört á þinginu. Einstaka sinnum rísa þingmenn þó gegn því. Helst samt í málum sem litlu máli skipta fyrir flokksformennina. Auðvitað leika menn stundum af sér. T.d. var greinilegt að BB var ekki búinn að samþykkja um daginn það sem Sigurður ráðherra sagði um Borgarlínuna.

Sennilega er nú að draga til tíðinda í mörgum málum. Varðandi ríkislögreglustjórann er líklegt að það verði látið danka eitthvað áfram. Loksins virðast Demókratar á bandaríkjaþingi ætla að taka á sig rögg og ákæra Trump til embættismissis. Og svo er það Brexit. Fáir held ég að skilji það mál. Samt bíðum við spennt eftir nýjustu vendingum þar. Þó hugsa ég að margir utan Bretlands séu orðnir leiðir á þessum sífelldu Brexit fréttum.

IMG 6789Einhver mynd.


2879 - Heimshlýnun o.þ.h.

Uppreisnarmenn í Yemen segjast hafa kveikt í olíu í Saudi-Arabíu. Af því tilefni hafa Bandaríkjamenn í hótunum við Írani. Sumum kann að virðast þetta einkennilegt, en svo er ekki. Drónarnir sem notaðir voru við íkveikjuna voru áreiðanlega smíðaðir í Íran og Bandaríkjamenn vilja umfram allt vernda Saudi-Araba (auk Ísraela), þó flestir sem stóðu að árásinni á tvíburaturnana á sínum tíma hafi verið þaðan. (Altsvo frá Saudi-Arabíu.)

Óveðrið á Bahamaeyjum hefur verið óvenjumikið. Nú held ég að liðnar séu þrjár vikur síðan „Dorian“ reið þar yfir. Eyðileggingin þar er geigvænleg og mörg ár munu líða áður en menn hafa jafnað sig á þessum ósköpum.

Þó Trump hafi rekið Bolton, sem vildi ráðast á allt og alla, er ekki þar með sagt að Trump sé sérlega friðelskandi. Einu sinni kallaði hann Kim-Jong-il „Little rocket man“ en nú smjaðrar hann óspart fyrir honum. Og þó æðsti maður Saudi-Arabíu hafi svo gott sem játað að hafa staðið fyrir morðinu á blaðamanninum í Tyrklandi, vill Trump ekki styggja hann því hann kaupir svo mikið af vopnum af Bandaríkjamönnum. Kannski verður Ukrainumálið honum endanlega að falli. Þó er eins og hann hafi allmörg líf, einsog kötturinn.

Nei, það er ekki gott að skilja heimspólitíkina. Ekki frekar en stjórnmálin hér á landi. Sennilega er best að láta allt afskiptalaust. Hugsa má þó um sitt eigið skinn og það gera flestir svikalaust. Kannski tekur unga kynslóðin til í þessu öllu saman þegar ekki verður aftur snúið í loftslagsmálunum. Ef þriðja heimsstyrjöldin skyldi einhvertíma skella á verður það örugglega til þess að útrýma öllum öðrum styrjöldum. Leyfilegt er þó að vona að mannkynið hafi vitkast örlítið á þessari öld.

Kannski er of mikið gert úr heimshlýnuninni og kannski ekki. Öruggara er að vera meðmæltur vísindamönnum og fleirum í þessu efni, þó ekki sé líklegt að þessi mannlega ógn gerist eins hratt og sumir vilja vera láta. Hinsvegar er Trump og hans lið í afneitun að þessu leyti og þessvegna er líklegast að hann skíttapi í kosningunum á næsta ári. Jafnvel er hugsanlegt að hann verði kærður til embættismissis (impeached) á næstunni.

Það er sennilega það sem hann vonast eftir. Hugsanlega er það hans eina von um um sigur í forsetakosningunum á næsta ári. Þ.e.a.s. að meirihluti repúblikana í öldungadeildinni haldi og allir verði hundleiðir á þessu ósamkomulagi forseta og þings og kjósi þessvegna Trump eins og síðast.

Næsta hrun hér á Íslandi kann hugsanlega að vera á leiðinni. Ekki er líklegt að það verði eins hrikalega umfangsmikið og síðast (2008), en slæmt samt. Nýjustu fréttir frá Bretlandi eru aldrei slíku vant and-Brexit-iskar, en sagt er að Thomas Cook & Co. séu gjaldþrota.

IMG 6617Einhver mynd.


2878 - Ofbeldi internetsins

Um daginn var ég í mesta sakleysi að horfa á menningarþáttinn á eftir Kastljósinu í sjónvarpinu Þá sá ég altíeinu, og alveg að ástæðulausu, mynd af sjálfum mér. Þetta var stutt innslag og greinilega tekið af Youtube, en þangað hefur verið látið mikið af efni sem Hölli tók í Borgarnesi á sínum tíma.

Þetta fékk mig til að hugsa um störf sagnfræðinga framtíðarinnar og allt það efni sem internetið hefur að geyma. Tölvur framtíðarinnar koma til með að vita miklu meira um okkur en við sjálf. Sumu getum við hugsanlega haldið leyndu, en sennilega gera fáir sér grein fyrir því að allt efni sem sett er á Netið eða tölvum trúað fyrir verður þar um alla eilífð og aðgengilegt öllum. Í framtíðinni gæti klósetthegðun okkar og jafnvel hugsun orðið aðgegnileg öllum sem áhuga hafa. Um kynferðislegar athafnir ræði ég ekki.

Sennilega er Internetið meiri bylting en nokkur getur gert sér í hugarlund. Allt í einu geta allir varpað hugsun sinni um alheim allan. Tölvubyltingin er á margan hátt gagntækari en allar þær byltingar sem áður hafa séð dagsins ljós. Þó erum við bara við upphaf hennar. Kannski rætast einhverjar þeirra vísindaskáldsagna sem skrifaðar hafa verið, en eflaust verður framtíðin alltöðruvísi en við höfum ímyndað okkur.

Ein minnisstæðasta dystópía sem ég hef lesið fjallaði um lítinn hóp fólks í Bandaríkjunum sem ferðaðist fótgangandi í norðurátt og gat bara gengið á nóttinni því sólin á daginn var svo heit að hún drap allt kvikt. Gluggar voru stórhættulegir. Kjallarar bestir. Rottur mikið sælgæti.

Tvennt er það sem ég hef lítinn sem engan áhuga fyrir. Það eru matargerð og tónlist. Þetta eru þó þau efni sem tröllríða öllu. Allir miðlar eru uppfullir af þessu og smáatriðum sem tengjast því. Snobbið sem þessu fylgir er geigvænlegt. Sjálf heimshlýnunin bliknar við hliðina. Vonir okkar sem eldri erum er að sú kynslóð sem tekur við af okkur verði betri á allan hátt. Við megum síst af öllu hræða krakkana of mikið. Fjölgun mannkyns veldur þó miklum skaða á náttúrunni.

Nú er ég semsagt andvaka og því eyði ég tímanum í tilgangslausar skriftir. Satt að segja öfunda ég þá sem geta sífellt spýtt frá sér skrýtum örsögum í tugatali eins og Jens Guð. Kannski ætti ég að reyna það. Mér finnst samt erfitt að yfirgefa staðreyndirnar með öllu. Oft geta þær samt verið alveg sérlega lygilegar.

IMG 6658Einhver mynd.


2877 - Bahama

Enn er ég með hugann við Bahama eyjar. Það land hefur nokkurn vegin svipaðan íbúafjölda og Ísland. Þegar fellibylurinn Dorian fór þar yfir fyrir rúmri viku voru það meiri náttúruhamfarir en við Íslendingar getum í fljótu bragði ímyndað okkur. Samkvæmt opinberum tölum nú í morgun hafa 50 til 100 látið lífið í þessum hörmungum. Það gætu samt alveg verið allmörg þúsund. Sennilega hafa á milli 70 og 80 þúsund manns misst heimili sín. Samt hefur varla verið minnst á þetta í fréttum hér á Íslandi og Trump Bandaríkjaforseti hefur fyrirskipað að flóttamenn þaðan skuli reknir í burtu hafi þeir ekki pappíra sína í lagi. (Bahama eyjar eru skammt frá Florida.)

Þó ég hafi einhverntíma í fyrndinni verið sæmilega góður í landafræði, er ég það sennilega ekki lengur. Man vel eftir því að Ingibjörg systir var einhvern tíma að skrifast á við einhvern í Kuwait og lenti í rifrildi við Siggu á stöðinni (sameinað pósthús og símstöð), en hún vildi ekki viðurkenna að þetta land væri til.

Sennilega er ég ekki einn um það að þegar talað er um Abu Dhabi, Dubai, Doha, UAE, Qatar, Bahrain o.s.frv. fer allt að snúast í hringi í heilanum á mér og ég veit ekki hvað er í hverju. Til að skilja Mið-Austurlönd þarf samt að þekkja þetta allt og eftir að hafa lesið bók Magnúsar Þorkels Bernharðssonar er ég að byrja að botna í þessu. Það er semsagt ekki nóg að vita nokkurvegin hvar Saudi-Arabía, Sameinuðu arabisku furstadæmin og Yemen eru.

Um að gera að hafa bloggin í styttri kantinum. Kannski fleiri lesi þau þá. Svo er líka hægt að blogga oft á dag. Aðalkosturinn við bloggið umfram fésbókina er að þar getur maður haldið orðinu endalaust. Hraðinn er semsagt ekki sá sami og kjaftavaðallinn hugsanlega minni.

IMG 6663Einhver mynd.


2876 - Mið-Austurlönd

Fyrir þá sem fylgjast með bandarískum stjórnmálum er ekki neitt spennandi við það að velta fyrir sér hver verði í framboði fyrir repúblikana við forsetakosningarnar á næsta ári. Auðvitað verður það Trump. Hinsvegar er um auðugri garð að gresja ef litið er til demókrata. Þó má segja að það séu einkum þrír sem hafa skorið sig úr þar hingað til. Það eru: Joe Biden, fyrrverandi varaforseti og öldungardeildarþingmaður, Elizabeth Warren öldunardeildarþingmaður og lagaprófessor ásamt Bernie gamla Sanders sem tókst á við Clinton sællar minningar árið 2016.

Biden þorði ekki að berjast við Hillary þá og eftir því sem haldið er fram í einhverjum miðlum langaði hann til þess og var e.t.v. að hugsa um Warren sem varaforsetaefni. Ég á von á því að baráttan komi til með að standa á milli Biden og Warren og þó ég hafi fyrir nokkru spáð Biden sigri, er ég meira og meira farinn að hallast að sigri Warren. Segja má þó að hún standi meira til vinstri en Biden sem er fulltrúi miðjunnar í flokknum. Kannski eru bandaríkjamenn ekki tilbúnir til þeirrar vinstri stefnu sem Warren er fulltrúi fyrir. Sú stefna yrði samt sögð ansi hægrisinnuð hérna á Íslandi. Lítill vafi er þó talinn á því að unga fólkið muni vilja frjálslyndi á borð við það sem tíðkast í Evrópu.

Auðvitað mundi ég kjósa demókrata ef ég væri bandaríkjamaður, þó allar kosningar þar séu alfarið á valdi peningaaflanna. Þess vegna er ég viss um að fráleitt eru allir mér sammála um þessa skoðun. Bandaríkjamönnum hefur tekist furðanlega að halda í tveggja flokka kerfið. Vissulega hefur það kerfi ýmsa kosti, en jafnframt talsverða galla. Sú öfgapólitík sem þar ríður húsum er að miklu leyti tilkomin vegna þessa óeðlilega kerfis. Guðstrúin og kapítalisminn spillir þar fyrir ýmsu.

Hef undanfarið verið að lesa bókina um Mið-Austurlönd eftir Magnús Þorkel Bernharðsson. Margt athyglisvert kemur fram í þeirri bók. Ég er samt ekki nærri búinn með hana. Þar er meðal annars rætt ítarlega um Palestínuvandamálið. Vissulega er Magnús hlynntur Palestínumönnum, enda hafa síonistar farið mjög halloka að undanförnu í áróðurstríðinu, sem ég leyfi mér að kalla svo. Pólitískt landslag er mjög að breytast um þessar mundir. Lítið þýðir að tala um hægri og vinstri. Mun árangursríkara er að tala um flóttamenn og hælisleitendur. Nú eða feminista og feðraveldi. Ágreiningsefni má alltaf finna.

Ljótustu orð í íslensku eru kannski þjóðernishyggja og heimsvaldastefna. Meðal annars þessvegna má segja að sjálfstæðisbarátta Katalóníumanna eigi sér stað á vitlausum tíma. Við íslendingar fengum okkar sjálfstæði árið 1918, hvað sem kjötfars og súpur segja. Þetta gerðist í lok fyrri heimsstyrjaldar en segja má að vandræðin í Mið-Austurlöndum hefjist einmitt um það leyti. Það var svo í lok seinni heimsstyrjaldarinnar sem við stofnuðum lýðveldi hér á landi með stuðningi USA.

IMG 6688Einhver mynd.


2875 - Dorian

Trump er kannski ekki sá alversti af bandarískum forsetum, en hann er örugglega meðal þeirra verstu. Í bandarískum fjölmiðlum er aðalmálið Trump um þessar mundir og hvað hann og bandarískar veðurstofur hafi sagt og spáð um fellibylinn Dorian. Íslenskir fjölmiðlar draga einkum dám af bandarískum og þýða eða reyna að þýða mest krassandi fréttir þaðan. Oft eru þær hundgamlar og að engu hafandi. Einu sinni voru „fréttir“ af þessu tagi einkum fluttar í mánaðarlega útgefnum sorpritum.

Fellibylurinn Dorian hefur valdið miklu tjóni á Bahamaeyjum. Samt hefur afar lítið verið fjallað um hann í íslenskum fjölmiðlum. Ruv-ið er bara eins og það er og flytur næstum einungis amerískar fréttir. Þegar Pence-fíflið kom hingað um daginn var ekki hægt að koma neinum öðrum fréttum að, þar á bæ. Þó hann hafi bæði logið og reynt að blekkja, fylgdi RUV ekki einu sinni bandarískum fréttum hvað hann snerti. Þar var mest gert úr því að hann og fylgdarliðið hafi gist á hóteli sem Trump átti, þó það væri langt frá Dublin. Já, stríð Trumps við fjölmiðlana tekur á sig ýmsar myndir. Enginn hafði nokkurn áhuga á því sem Pence sagði, enda er aldrei tekið neitt mark á honum. A.m.k. gera stóru Bandarísku fjölmiðlarir það ekki.

Eyðileggingin af völdum fellibylsins Dorians á Bahamaeyjum er alveg gífurleg og kannski kemst sú eyðilegging í fréttirnar á RUV í næstu viku eða svo. Málið er mér kannski skyldara en ella vegna þess að önnur tengdadóttir mín er þaðan. Um Indland gegnir alltöðru máli.

Indverjar sendu eldflaug á loft í júlí síðastliðnum með geimstöð og tunglfar innanborðs og núna um daginn reyndu þeir að lenda tunglfarinu mjúklega á tunglinu, en mistókst það. Ísraelar reyndu það sama fyrir skemmstu, en mistókst einnig. Á sínum tíma mistókust margar ómannaðar geimferðir Bandaríkjamanna. Mannaðar geimferðir eru ekki í mikilli tísku núna þó töluvert sé umliðið síðan Bandaríkjamenn sprönguðu um á tunglinu. Allavega er það ekki mikið í fréttum þó ýmislegt gerist á því sviði. Áhugavert er að fylgjast með ýmsu í sambandi við stjörnufræði og geimferðir. Einkum nú að undanförnu.

Horfði í gærkvöldi á nýjan spurningaþátt á RUV. Ekki er hægt að neita því að hann virðist vera allhraður og skemmtilegur, þó líka sé hægt að halda því fram, að hann sé heldur ómerkilegur. Vel tókst til að skeyta saman vinsæla leiki eins og Hangman og fleiri, án þess að mikið bæri á því.

Hver segir að bloggskrif þurfi að vera af ákveðinni lengd? Ég er mest að hugsa um að láta þetta duga í bili. Ekki virðist mikill áhugi á svona almennum skrifum eins og ég stunda.

IMG 6689Einhver mynd.


2874 - Introvert

Vissulega er viskiptastríð Kína og Bandaríkjanna að harðna. Allir munu tapa á því stríði. Bandaríkin þó örugglega meiru en Kínverjar. Það er af þeirri einföldu meginástæðu að þeir hafa meiri stjórn á sínu fólki einmitt í krafti kommúnismans. Vestrænar þjóðir eru u.þ.b. að tapa viðskiptastríði sínu við Rússland og þessvegna er ekki ástæða til að fara einnig í samskonar eða svipað stríð við Kína. Á þá að láta Kínverja bara vaða yfir okkur? Svo er allsekki, okkur vantar sárlega skárri forseta yfir öflugasta viðskiptaveldi hins vestræan heims, en Trump ræfilinn. Hann veður bara áfram og hugsar mest um eigin hag. Kannski endrum og eins um hag Repúblikanaflokksins, en um vestrænt lýðræði og mannréttindi er honum skítsama. Annars ætti ég kannski ekki að vera að úttala mig um alheimsstjórnmál, en ég get bara ekki hamið mig þegar Trump gerir mestu vitleysurnar.

Sennilega er ég introvert eins og það er kallað á fræðimannajargoni. Mér finnst ég oft hugsa eftir alltöðrum brautum, ef svo má segja, en annað fólk. Með öðrum orðum: ég er ekkert skrítinn haldur bara allir hinir. En hvað er að vera introvert? Samkvæmt mínum skilningi er það að vera einrænn og sjáfum sér nógur. Samt er ekki hægt að komast hjá því að álykta að það sé samband manns við aðrar manneskjur, sem mestu máli skiptir í lífinu. „Enginn er eyland“ er stundum sagt og sennilega er mikill sannleikur fólginn í því. Annars er þetta efni sem er margflókið og erfitt að komast að nokkurri niðurstöðu.

Það er ekki þannig að mér sé að detta þetta í hug núna á gamals aldri. Hingað til hef ég þó afar lítið skrifað um þetta. Kannski er ég bara að verða skrítnari núna en ég hef áður verið. Hvernig er það hægt? Kynni einhver að segja. Mér finnst álit annarra afar litlu máli skipta. Samt sem áður kemur þetta afskiptaleysi mitt oft þannig út að ég sé að eðlisfari feiminnn. Það held ég samt að sé ekki rétt. Ég þoli samt illa margmenni og finnst annað fólk oftast standa mér að baki í flestum efnum. Svo getur þó varla verið því ekki hef ég náð neinum árangri sem talandi er um í neinu efni.

Mér leiðast skáldsögur og þó sérstaklega krimmar. Í fornöld hefði þetta verið kallað lygisögur eða Fornaldarsögur Norðurlanda. Það er ekki laust við að einhver fótur sé fyrir ýmsu í Íslendingasögunum. Sturlunga er hins vegar fræðirit. Eða a.m.k. hugsuð þannig af höfundunum, sem sennilega eru fjölmargir. Annars ætti ég ekki að vera að spekúlera í þessu því ég er enginn Íslenskufræðingur. Komst ekki einu sinni í Menntaskóla á sínum tíma. Kristnisögu og ýmis forn guðræknileg rit hef ég allsekki lesið enda ekki ginnkeyptur fyrir svoleiðis löguðu.

Bækur, fræðilegs eðlis, eru oftast þeim annmörkum háðar að venjulega er þar aðeins um að ræða það sem einum (eða í mesta lagi fáeinum) finnst merkilegt. Fjölmargir kunna að vera allt annarrar skoðunar. Mér finnst ég hafa áhuga á fjölmörgu, en öðrum finnst sennilega að ég hafi áhuga á fremur fáu. Sennilega er það vegna þess að ég hef ekki snefil af áhuga á tónlist eða matargerð af neinu tagi og er þar að auki er ég fremur andsnúinn fésbókinni.

IMG 6693Einhver mynd.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband