Bloggfærslur mánaðarins, desember 2014

2267 - Jólafita

Það er spurning hvort maður verður ekki alltof feitur á þessari sykurorgíu sem jólin óneitalega eru að verða. Á maður að sleppa fram af sér beislinu og éta eins og svín um jól og áramót og láta allt aðhald og eftirlit lönd og leið eða telja kalóríur? Þar er efinn.

Er geðleysi þingmanna algert? Og flokkshollusta þeirra ofar öllu? Undarlegt að hægt skuli að telja þeim trú um að með því að skerða atvinnuleysisbætur minnki atvinnuleysi. Þannig geta hlutirnir einfaldlega ekki verið. Jafnvel alþingismenn blindaðir af flokksmeðvirkni hljóta að sjá það. Mjög fáir eru atvinnulausir af því að þeir vilja vera það. Berum við sem betur erum stödd samt ekki ábyrgð á þeim?

Satt að segja er ekki annað að sjá en núverandi ríkisstjórn sé að safna glóðum elds að höfði sér. Samt er hún á margan hátt betri en sú síðasta. Læknaverkfallið gæti vel orðið sá myllusteinn sem sökkvir henni endanlega.

Ég spáði því einhverntíma að fimmti ráðherra þeirra framsóknarmanna yrði aldrei að veruleika. Fjölmiðlar keppast nú við að fræða okkur um að hann verði sýnilegur í síðasta lagi um næstu áramót. Um það get ég ekki sagt annað, en að þá er Bjarni Ben. aumari en ég hugði, ef hann getur ekki komið í veg fyrir það, með öll þessi háspil á hendinni.

Annars er það uppgjörið við föllnu bankana og afleiðingar þess sem mun móta örlög þessarar ríkisstjórnar. Takist þar vel til munu eftirmæli hennar verða nokkuð góð. Ef ekki eða ef þau halda áfram að dragast þá munu þau ekki verða það og jafnvel gæti hún hrökklast frá völdum.

„Hvað boðar nýárs blessuð sól?“ orti Matthías fyrir löngu. Alls ekki vil ég blanda mér í trúarbragðadeilur þær sem nú geysa, en ekki er hægt að neita því að birtutíminn ætti að fara að aukast hægt og hægt. Veturinn getur samt sem áður orðið harður. Janúar, febrúar og mars geta vel orðið kaldir mjög og snjóasamir, en eftir óvenjugóðan nóvember ætti jörð ekki að vera mjög köld og ágætt er að lifa í þeirri trú að vorið verði gott.

Ætti ég kannski að láta aðsóknartölurnar sjást utaná blogginu en ekki hafa þær bara fyrir sjálfan mig eins og að undanförnu? Satt að segja er það nánast það eina sem ég treysti mér til að gera á stjórnborðinu án nokkurra vandræða. Hef tekið eftir því að líklega hefur fésbókarauglýsingin, sem ég set jafnan upp líka, heilmikil áhrif. Allavega eru lesendur (samkvæmt Moggabloggstalningu) ótrúlega margir ef ég skrifa eitthvað bitastætt.

WP 20141228 11 46 00 ProHinar heilögu kýr björgunarsveitanna eru mun heilagri en gangstéttaræflar og bílastæði.


2266 - Skammt frá Kerlingarskarði

Var að enda við að lesa frásögn Ómars Ragnarssonar af því þegar hann flaug á tveimur hjólum framúr öðrum bíl á brú einni. (Dæmi um ranga ákvörðun sem reyndist rétt þegar upp var staðið.) Hef sjálfur lent í svipuðum aðstæðum. Þá var það ekki aðeins mitt líf sem var í spilinu heldur allrar fjölskyldunnar.  Reyni að segja stuttlega frá því hér á eftir:

Þegar þetta var gegndi ég starfi útbússtjóra á Vegamótum á Snæfellsnesi og bíllinn minn var gamall Moskovits. Skelflutningar miklir voru stundaðir á þessum tíma frá Stykkishólmi til Borgarness. Bílstjórinn á skelflutningabílnum sem ég var rétt lentur framan á var kallaður Kiddi. (Veit engin deili á honum önnur, en rauðhærður minnir mig hann væri).

Við höfðum af einhverjum ástæðum skroppið til Stykkishólms og vorum á heimleið. Um mjóan malarveg var að sjálfsögðu að fara. Þegar nálgaðist Kerlingarskarðið var vegurinn hæðóttur mjög. Ég sá að skelflutningabíll var á leiðinni á móti okkur en gleymdi því samstundis aftur, því við hjónin vorum niðursokkin í að ræða eitthvert málefni sem ég man ekki lengur hvert var.

Því miður var ferðin á bílnum alltof mikil miðað við aðstæður (um eða yfir 80 km á klst.) og þegar ég kom á eina hæðarbrúnina var skelflutningabíllinn á miðjum veginum rétt fyrir framan mig. Ég reyndi að bremsa en það var þýðingarlaust með öllu, bíllinn bara rann til. Framhluti flutningabílsins nálgaðist óðfluga og í einhverju skelfingaræði beygði ég snögglega til hægri útaf veginum, og tókst á einhvern hátt að hanga á vegarbrúninni á hjólunum vinstra megin og meira að segja að koma bílnum (í heilu lagi) aftur uppá veginn aftan við flutningabílinn.

Eftir að ég hafði á undraverðan hátt sloppið við að lenda á miklum hraða í stórgrýtisurð var mér skapi næst að halda bara áfram eins og ekkert hefði í skorist. Varð þá litið í baksýnisspegilinn og sá að flutningabíllinn var nánast þversum á veginum og afturhluti pallsins skagaði langt útfyrir veginn sömu megin og ég hafði farið. Kiddi var á leiðinni útúr bílnum og sagðist hafa verið viss um að hafa sett afturenda flutningabílsins í bílinn minn þegar hann snöggbeygði til hægri í tilraun til að forðast árekstur. Meira er ekki um þetta að segja. Við vorum fjögur í Moskovitsinum (Hafdís var ekki fædd) og hefðum örugglega stórslasast eða dáið öll ef við hefðum lent á flutningabílnum. Þarna var ákvörðun tekin á sekúndubroti og reyndist rétt, þó hún hefði litið illa út.

Það er bara heilbrigt að álíta sjálfan sig mestan og bestan. Aðrir þurfa ekkert endilega að vita af því. Ef maður hefur ekki álit á sér sjálfur er engin von til þess að aðrir hafi það. Mér þykir gaman að tala í spakmælum. Auðvitað hafa margir aðrir notað þau á undan mér, en það er samt ágætt að ímynda sér að maður hafi orðið fyrstur til. Frásagnir eru allt annað en hugleiðingar. Í frásögnum þarf einkum að hafa í huga að vera stuttorður og gagnorður. Annars endist enginn til að lesa frásögnina. Uppdiktuð frásögn í bland við gáfulegar hugleiðingar er oft kölluð skáldskapur. Oftast er hún óttalega lítils virði og þjónar einkum höfundinum og kannski höfundarverkinu. En frásögnin hér á undan er sönn í mínum huga, þó upplifun annarra kunni að vera talsvert frábrugðin.

WP 20141212 10 40 10 ProÍ Fossvoginum.


2265 - Jólin 2014

Þingmannsvæflurnar eru bara 63. Hinsvegar er her manna sem telur a.m.k. mörg hundruð manns önnum kafinn við það alla daga að finna glufur á löggjöf þessa fámenna hóps. (Er hann samt ekki óþarflega fjölmennur?) Ef glufurnar eru ekki nógu stórar til að koma öllu sem þarf þar í gegn, má alltaf reyna að nota þær sem skattaskjól. Auðvitað eru embættismenn sem ættu að aðstoða þingmennina en vegna fámennis þjóðarinnar eru þeir ekki nærri eins fjölmennir og hinn herinn.

En lögfræðingaherinn og embættismannaherinn hafa gengið í vanheilagt bandalag. Þess geldur almenningur grimmilega. Alþingismanna-aumingjarnir eru eins og milli steins og sleggju. Ástæðulaust er að efast um að margir þeirra vilja vel, en mega sín lítils. Þetta er auðvelt að heyra í hinum svokallaða hálftíma hálfvitanna. Þá mega þingmennirnir tala án þess að vera tjóðraðir á málefnabás sem þingforseti hefur sjálfdæmi um að setja. Langflestir þingmannanna eru þó annað hvort tjóðraðir á áðurnefndan bás eða þann flokkslega.

Ef þeir hlaupa útundan sér og ganga í berhögg við flokksagann geta þeir búist við hverju sem er. T.d. þeirri steinaldarlegu refsingu að félagar þeirra hætti að tala við þá og horfi bara í gegnum þá. Bitlingarnir fjarlægast líka verulega.

Sú íþrótt sem ég stunda aðallega er að hafa allt á hornum mér. Verst hvað hornin eru orðin slitin. Alltaf er þó hægt að finna eitthvað nýtt til að agnúast útí. Ef maður er alltaf að fjargviðrast útaf því sama verða allir hundleiðir á því. Hér er hinn gullni meðalvegur vandrataður. Pólitík dagsins er yfirleitt hundleiðinleg. Skiptir samt um andlit reglulega.

Fésbókin fjallar aðallega um krúttlega kettlinga, fjölnota brandara og allskyns hrekki. Auðvitað slæðist samt almennilegt efni með og einkum eru það ábendingar um athyglisverða hlekki. Skyldulesningu sinni ég samt aldrei. Í heild sinni er vel hægt að láta netið koma í stað allrar annarrar fjölmiðlunar. Nauðsynlegt er samt að kunna að gúgla.

Bloggið mitt er meira og minna útúr kú, en það gerir ekkert til því athugsemdirnar eru það líka. Satt að segja er ekki við því að búast að nokkur skilji þessar kryptísku pillur sem við hjónakornin sendum hvort öðru. Samt er ég á því að bloggið sé á margan hátt betra en fésbókin. Ég fer ekki ofan af því.

Aðfangadagskvöldinu eyddum við í Hafnarfirði að þessu sinni og Helena var eins og herforingi á bak við vaskinn og eldavélina og heyrði ekkert nema pantanir á matvælum. Afgreiddi hamborgara með hægelduðum ís eins og ekkert væri. Við jólaborðið var aðallega töluð rússneska og íslenska.

Hér sit ég, klukkarn rúmlega sjö að morgni annars jóladags með kaffibolla og hálft laufabrauð og hamast við að blogga. Nú ætti jólaátinu að mestu að vera lokið og þá taka sprengingarnar og gauragangurinn við ef að líkum lætur. Svo kemur enn ein veislan og svo er hægt að taka til við megrunaraðgerðirnar aftur. Þær hafa að sjálfsögðu fokið útí veður og vind í jólatilstandinu öllu.

WP 20141201 10 53 25 ProSkyldi þessi ófreskja vera að kvelja einhvern?


2264 - Greinarmerki geta skipt máli

Vek sérstaka athygli á því að ekki var tvípunktur á eftir spakmælinu í síðasta bloggi mínu þar sem sagt var eitthvað á þá leið að oft væri betra að þegja en segja.

Ágætisdæmi um það sem enskurinn kallar „conversation piece“ eru t.d. Framsóknarflokkurinn og Þorláksmessuskatan. Þetta rann upp fyrir mér núna réttáðan og auðvitað var það skatan sem varð þess valdandi að ég rann á lyktina. Andskotans della eru þessar jólakveðjur í ríkisútvarpinu. Það er ekki nóg með að Þorláksmessan sé undirlögð. Nú er þetta, ásamt skötufjáranum, að leggja undir sig landið (eða jólin) Skyldi nokkur hlusta á þetta? Einu sinni var viðstöðulaust útvarpað jarðarförum. Á endanum urðu þær samt of margar og hugsanlega verða jólakveðjurnar það líka einhverntíma.

Segja má að nauðsynlegt sé að kunna ensku til að geta kynnt sér ýmsa hluti. T.d. er ted.com ágætis vettvangur til að fara á og kynna sér hitt og þetta. Þar er að finna erindi um allt milli himins og jarðar. Þeir sem hvorki kunna ensku né að hafa stjórn á tölvuhræðslunni í sér eru satt að segja dálítið fatlaðir. Spurning hvort þeir ættu að leggja í fötluðu stæðin hjá Bónus.

Sumir fá útrás fyrir jólastressið með því að hlæja við í öðru hverju orði. Sumir fá þessa útrás með því að skamma hundinn sinn og enn aðrir með því að gefa í sífellu bensínið í botn hvort sem bíllinn er kyrrstæður eða ekki. Kannski kemur kynjamunurinn betur fram í jólastressinu en mörgu öðru. Karlmenn hafa varpað sem allra mestri ábyrgð á öllu jólatilstandinu á kvenfólk, sem hefur tekið því fagnandi en fær litlar þakkir fyrir ómakið. Þannig er það a.m.k. hér á heimilinu og víðast þar sem ég þekki til.

Ræðst olíuverð í heiminum og þar með orkuverð virkilega af því hvort einhverjir kallar skrúfa mikið eða lítið frá einhverjum krana? Helst hefur mér skilist það. Fullyrt er að olíuverð fari hríðlækkandi núna af því Saudi Arabar hafi ákveðið að auka olíuframleiðsluna (eða minnka ekki) til að klekkja á einhverjum.

Í gamla daga. Já, ég er sífellt að tala um gamla daga, áttu ekki aðrir myndavélar en þeir sem tilbúnir voru til að henda peningum í svoleiðis drasl. (Og svo náttúrulega alvöru ljósmyndarar.) Aðalvandamálið í sambandi við filmuvélarnar var samt að þurfa að bíða óralengi eftir því að sjá árangurinn. Afar fáir framkölluðu sjálfir. Þetta breyttist allt með tilkomu þeirra stafrænu og nú eru þær orðnar svo ódýrar að hver og einn tekur bara myndir fyrir sjálfan sig og fésbókina. Rosalega held ég að það sé tekið mikið af ljósmyndum í dag. Ég segi ekki að lestur stafa sé úreltur en vægi hans hefur minnkað mikið að undanförnu. Ekki dugir lengur að benda krökkum á óralangar hilluraðir af bókum til að vekja áhuga þeirra á lestri og nýjir siðir verða að sjálfsögðu að þjóna nýjum herrum.

WP 20141125 15 09 09 ProJá, svona er Auðbrekkan. Alveg auð.


2263 - Óhóflega sjálfmiðað blogg

Öll erum við meira og minna sjálfmiðuð. Þessvegna er oft betra að þegja en segja. „Hún/hann heldur bara áfram að tala um það sem er henni/honum er efst í huga þegar hann/hún kemst að, og tekur ekkert eftir því sem ég er að segja.“ Gæsalappafræðingar mundu skilgreina íslensku lappirnar þannig að þær séu 99 og 66. Ef við notum gúglið rétt getur það auðveldað okkur að þykjast vera einsog við viljum vera. Mér þykir ágætt að vaða svona úr einu í annað. Sumir leitast við að skrifa/tala bara um eitthvað ákveðið, en ekki hann ég. Ég hendist bara útum víðan völl.

Einhverntíma var það svo í aðdraganda jólanna að við vorum stödd hér í Reykjavík (bjuggum þá líklega í Borgarnesi) Gistum hjá Kiddý. Hafdís og Rakel voru þá á jólaskóaldrinum. Ekki voru þær nógu fljótar að fara að sofa eða eitthvað svo ákveðið var að þær fengju bara kartöflur í skóna sína. Ég hafði af einhverjum ástæðum litla hugmynd um tákrænuna í sambandi við kartöflurnar. Skógjafirnar voru þá tiltölulega nýlega farnar að tíðkast og voru ekki nærri eins veglegar og núna. Þær tóku þessu mjög illa, og auðvitað sá ég eftir að hafa ekki komið í veg fyrir þetta, og var jafnframt hissa á viðbrögðum þeirra. Mér dettur þetta svona í hug af því að núna bíð ég eftir að Tinna vakni og vitji um skóna sína og kisa liggur á borðinu hjá mér og les þetta jafnóðum.

Þetta er skrifað á mánudagsmorgni fyrir Þorláksmessu. Já, já það er talsvert hálka úti núna. A.m.k. sumsstaðar. Fór í smágönguferð í morgun fyrir birtingu og satt að segja er íshrönglið á gangstéttum og göngustígum ekki fyrir gamalmenni eins og mig.

Nú er ég kominn með nýja áráttu. Áráttuhegðum er mitt líf og yndi. Vigtunarárátta er sú nýjasta. Kosturinn við þá áráttu er að ég vigta mig helst ekki nema fara í bað á undan. Ókosturinn er aftur á móti sá að baðvogin sem ég nota er varla nógu nákvæm og ekki nógu samkvæm sjálfri sér. Ef ég vigta mig tvisvar með svona mínútu millibili getur skakkað mörg hundruð grömmum (segi ekki kílóum). Eiginlega er ómögulegt að segja frá þessari áráttu nema birta nýjustu tölurnar. Þær eru 107,7 kg. Auðvitað ber þetta vott um óhóflega sjálfmiðun, svo best er að hætta.

Segja má að það vanti eina klausu eða málsgrein svo þetta sé frambærilegt sem blogg. Þessvegna skrifa ég þetta, en ekki útaf því að ég hafi neitt að segja. Jú, það er alveg óvíst að mér finnist taka því að skrifa nokkuð meira fyrir jól. En varla er nú hægt að enda árið svona. Jafnvel þó ekki sé búið að bóna þvottahúsgólfið.

WP 20141125 15 06 35 ProArt 11


2262 - Ólafur konungur Tryggvason

Já, ég er í hópi ellilífeyrisþega. Sennilega ekki í hópi þeirra allra verst settu því ef ekkert sérstakt kemur uppá sé ég frammá að komast af. Ríkisstjórnin lofaði að leiðrétta bæturnar frá Tryggingastofnun, sem skammtaðar eru eins og skítur úr hnefa, en hefur ekki gert það. Ef grannt er skoðað hefur þessi ríkisstjórn brugðist á mörgum sviðum. Stefna hennar er þó skýr. Hún er fyrir þá sem meira mega sín, en þessari stjórn er þó ekki alls varnað.  Næstu kosningar skipta öllu máli. Ellilífeyrisþegar eru hreint ekki svo fáir. Hamast er við að útdeila milljörðunum 80 sem sagðir eru vera vegna forsendubrests. Hvaða forsendur brustu varðandi ellilaunin?

Hvort er hagvöxturinn hér á landi hálft prósent eða þrjú prósent. Eitthvað virðist vera þarna málum blandið. Fjölmiðlar ættu að reyna að finna útúr þessu. Held ekki að þetta sé einhver misskilngur hjá mér.

Svo segir í Heimskringlu: (Þetta er tekið af Wikipediu og ég held að ég megi alveg gera það.)

Einar þambarskelfir var á Orminum aftur í krapparúmi. Hann skaut af boga og var allra manna harðskeytastur. Einar skaut að Eiríki jarli og laust í stýrishnakkann fyrir ofan höfuð jarli og gekk allt upp á reyrböndin. Jarl leit til og spurði ef þeir vissu hver þar skaut en jafnskjótt kom önnur ör svo nær jarli að flaug milli síðunnar og handarinnar og svo aftur í höfðafjölina að langt stóð út broddurinn.

Þá mælti jarl við þann mann er sumir nefna Finn en sumir segja að hann væri finnskur, sá var hinn mesti bogmaður: „Skjóttu mann þann hinn mikla í krapparúminu.“

Finnur skaut og kom örin á boga Einars miðjan í því bili er Einar dró hið þriðja sinn bogann. Brast þá boginn í tvo hluti.

Þá mælti Ólafur konungur: „Hvað brast þar svo hátt?“

Einar svarar: „Noregur úr hendi þér konungur.“

„Eigi mun svo mikill brestur orðinn,“ segir konungur, „tak boga minn og skjót af og kastaði boganum til hans.

Einar tók bogann og dró þegar fyrir odd örvarinnar og mælti: „Of veikur, of veikur allvalds bogi“ og kastaði aftur boganum, tók þá skjöld sinn og sverð og barðist.

Þarna er átt við Ólaf konung Tryggvason að ég held og sömuleiðis held ég að setningin „Hvað brast þar svo hátt?“ sé mörgum (þar á meðal mér) mjög hugleikin. Sjálfum hættir mér til að rugla saman Einari þveræingi (sem ekki vildi færa Noregskonungi Grímsey að gjöf) og Einari þambarskelfi. Mér hættir líka til að líkja saman í huganum, ýmsum atburðum Sturlungaaldar og pólitík nútímans. Sennilega er þetta merki þess ég sé farinn að gamlast töluvert.

WP 20141123 14 04 52 ProÍ IKEA. (í KEA?)


2261 - Kilimanjaro

Las nokkrar mjög athyglisverðar greinar í morgun. Það var Hans Kristján Árnason sem benti mér á þær á fésbókinni. Allar fjölluðu þær um mannfjölda á Íslandi. Tvær þeirra voru eftir Þorvald Gylfason, en ein eftir Egil Helgason. Því fer fjarri að þeir Þorvaldur og Egill séu sammála að þessu leyti. Þorvaldur telur Ísland vel geta spjarað sig þrátt fyrir fámennið, en Egill finnur fámenninu satt að segja flest til foráttu. Líklega er sannleikurinn einhversstaðar mitt á milli. Fámennið á Íslandi þarf allsekki að vera okkur neinn fjötur um fót. Staða tungumálsins í þeim fjölbreytta tölvuheimi sem tuttugustu og fyrstu öldinni fylgir er þó verulegt áhyggjuefni að mínu mati. Hætt er við því að við þurfum í framtíðinni að sjá á eftir öðru hvoru; sjálfstæðinu eða tungunni.

Stjórnarfarið á Íslandi er alls ekki eins arfaslakt og sumir vilja vera láta. Að mörgu má samt finna. Fámennið og streð okkar við að halda öllu landinu í byggð ásamt lélegri hagstjórn að mörgu leyti gerir okkur erfitt fyrir. Þó hið dýrmæta tungumál okkar sé mikill kostnaðarauki er það líka mikilvægt uppá samheldni þjóðarinnar til að gera. Þónokkrar krónur gætu hæglega sparast með því að hætta að rembast við að halda öllu landinu í byggð og tungumáli okkar til streitu í hörðum tölvuheimi. Veðurfarið er líka að sumu leyti okkur til trafala en vel væri samt hægt að nota það okkur til framdráttar í ferðaþjónustu allskonar. Efast má einnig um að krónan okkar geti spjarað sig til langrar framtíðar og satt að segja er líklegt að hún hverfi von bráðar.

Mestallt mitt fréttavit (sem ekki er mikið) fæ ég úr Kjarnanum og Eyjunni. Stundum lít ég líka í mbl.is og sömuleiðis fá dv, visir og jonas líka oft að fljóta með og einstaka úrvalsbloggarar einnig. Margt er það líka fréttatengt sem ég fæ fyrst veður af í gegnum fésbókina. Hún er samt með þeim ósköpum gerð að oft er lítið að marka fésbæklingana sjálfa, en linkarnir eru stundum þeim mun meira virði. Já, það má segja að ég hafi eins og fjöldamargir aðrir alveg yfirgefið hið prentaða mál. Netið og sjónvarpið eru næstum því mín eina tenging við raunveruleikann, fyrir utan mína persónulegu reynslu auðvitað.

Eitt af því sem fésbókarfólkið gerir ákaflega vel er að eyða öllum vírusum og ummerkjum um þá. Þetta er alls ekki auðleyst eða einfalt verkefni, heldur er þetta sífelld barátta milli vírushöfunda og þeirra sem ekki vilja hafa þá. Annað sem fésbókarfókið gerir mikið af er að breyta til. Ég er nú svo gamall að ég vil helst hafa allt óbreytt og finnst flestar breytingar gerðar breytinganna vegna. Auðvitað er samt ekki svo. Það verður að taka tillit til margra kynslóða, því það eru ótrúlega margir sem notfæra sér fésbókina. Ekki er ég samt ennþá kominn uppá lag með að nýta mér aðra samfélagsmiðla svosem twitter, instagram, snapchat eða annað.

Bókin um Gunnar á Hjarðarfelli er um margt athyglisverð. Fékk hana á bókasafninu um daginn og er byrjaður að glugga í henni. Man vel eftir Gunnari frá árum mínum á Vegamótum. Skrifa kannski seinna um þessa merku bók. Bókin sem ég er að lesa núna í Kyndlinum mínum fjallar um gönguferð á Kilimanjaro og kostaði ekki neitt á Amazon en þar fékk ég hana fyrir skemmstu. Þessi bók heitir „Kilimanjaro Diaries or, How I Spent a Week Dreaming of Toilets, Drinking Crappy Water, and Making Bad Jokes While Having the Time of My Life.“ og er eftir Evu Melusine Tieme. Ágætis bók og skemmtilega skrifuð. Ferðabækur allskonar og ævisögur þykja mér yfirleitt skemmtilegri en skáldsögur svo ég tali nú ekki um krimma eins og virðast vera mest í tísku núna.

WP 20141123 11 12 20 ProBlokkarbygging undirbúin (sennilega).


2260 - Caledos

Vel er hægt að hugsa sér að fésbókarlæk hafi einhver áhrif. Þau eru samt varla mikil. Til þess eru þau alltof tilviljanakennd. Engin leið er að vita hver meining lækanda er og hve margir hafa séð viðkonandi innlegg. Eru þá allir ólækendur mótfallnir efni innleggsins, eða hvað?

Merkilegt hvað þessi fésbók er mér hugleikin. Sennilega er ég bara svona hræddur um að ég hafi veðjað á rangan hest með því að halda blogginu til streitu, án þess að hafa nokkuð sérstakt til málanna að leggja. Hugleiðingar um hitt og þetta held ég að vel væri hægt að kalla þessi blogg mín. En ég er orðinn háður þessu og get ekki án þess verið. Verst ef þetta taut í mér verður svo sjálfmiðað að enginn nennir að lesa það.

Bæði á fésbók, bloggi og sjálfsagt víðar hættir mönnum mikið til að fara offari. Á margan hátt er það aðalgalli fésbókarinnar. Sömuleiðis finnst mér að við Íslendingar eða réttara sagt fésbókarar lifum fyrir að éta. Matarblogg og uppskriftir allskonar (fyrir nú utan allar auglýsingarnar) eru út um allt. Ekki var þetta svona í mínu ungdæmi. Þá var matur ekki svona mikið aðalatriði eins og mér finnst hann vera núna. Kannski fitnum við óhóflega af því að hugsa svona stöðugt um mat.

Sumir eru sífellt að láta ljós sitt skína á fésbókinni eða annarsstaðar og sumir ekki. Mér finnst ég vera í ekki-hópnum, en kannski finnst ekki öllum það. Fyrir besservissera er ágætt að vera rómsterkur, því þá er alltaf hægt að yfirgnæfa aðra. Mér finnst ég vera hættur að haga mér eins og besservisser.

Vonandi getum við kallað árið 2014 ebóluárið mikla. Mér finnst að fréttir af þeim faraldri hafi tröllriðið heimsbyggðinni. Hvarf MH370 er líka mjög minnisstætt. Vonandi verður ebólufjandinn á hröðu undanhaldi árið 2015. Kannski Holuhraunsgosið og Bárðarbunga haldi áfram að vera í fréttum á næsta ári, en vonandi verður það ekkert alvarlegt. Spámaður er ég enginn, en gerum ráð fyrir að fréttir næsta árs verði jákvæðari fyrir okkur auma Íslendinga en fréttir þess sem er að líða. Að læknadeilan leysist farsællega og hvaðeina.

Maður er sífellt að verða háðari rafhlöðum hverskonar. Mér finnst ég vera alltaf að hlaða farsímann minn og Kyndilinn. Tala nú ekki um önnur og minna notuð raftæki. Eða rafurmagnið sjálft. Einu sinni þótti manni ekkert merkilegt þó rafmagnslaust væri í vikutíma. Nú held ég að maður færi alveg yfirum við slíkar náttúruhamfarir.

Lenti í hálfgerðum vandræðum með Caledosinn (appið sem mælir tíma og vegalengdir) í gær, en núna er hann alveg eðlilegur. Hefur sennilega ekki náð sambandi við gervitunglið. Kvenmaðurinn talar samt sífellt um jarda og mílur núna, en það stafar sennilega af mínu eigin fikti. Mínúturnar eru sem betur fer alveg eins þó annað sé breytt.

WP 20141121 21 29 31 ProKomið við á vinnustofu.


2259 - RUV o.fl.

Baráttan milli einkarekinna útvarpsstöðva og ríkisrekinna hefur lengi verið fyrir hendi. Sú barátta hefur einkum kristallast milli Stöðvar tvö og ríkissjónvarpsins. Almannaútvarp (sjónvarp meðtalið) hefur lengi átt miklu fylgi að fagna hér á Íslandi. Áður hafa verið gerðar tilraunir til að auka vinsældir og stækka fjárhagsgrunn einkastöðva. Í stórum dráttum hafa þær mistekist, því almenningur (sem fáir þekkja) hefur staðið með RUV.

Sú aðför sem nú er gerð að ríkisútvarpinu með lækkum útvarpsgjaldsins mun einnig mistakast. Vinstri halli fréttastofu RUV er að mestu leyti ímyndun. Kannanir hafa hvað eftir annað leitt í ljós að RUV nýtur trausts umfram aðra miðla hér á landi. Internetið og fésbókin njóta að vísu mikilla vinsælda í ákveðnum hópum, en sameinar ekki landsmenn á sama hátt og RUV gerir, hvað sem verður í framtíðinni.

Barátta ríkisvaldsins við lækna og heilbrigðiskerfið er einfaldlega birtingamynd hagvaxtarins, eða hagvaxtarvæntinga. Seðlabankanum og ríkisstjórninni virðist hagvöxturinn vera mikill, öðrum ekki. Hann er ýmist sagður mikill eða lítill. Aumur ég skil ekki neitt í neinu. Svo er verðbólgan bara sögð vera 1%. Það er lygilegt. Landsmenn eiga ekki slíku að venjast. Sú kreppa sem örugglega er á leiðinni verður eflaust frábrugðin þeim sem áður hafa riðið yfir. Verst er að sjá ekki alla hluti fyrir.

Enn spyrst ekkert til Malasísku flugvélarinnar sem týndist í mars. Skyldi vera nýr Bermuda þríhyrningur að myndast þarna í grennd við Ástralíu, eða hvar það nú var? Liggur ekki beinast við að kenna verum frá öðrum hnöttum um allt dularfullt og illútskýranlegt? Annars er þetta mál allt hið undarlegasta og þessar hugleiðingar mínar varpa engu nýju ljósi á atburðinn. Bara í stíl við mína sjálfmiðuðu kaldhæðni.

Á fésbókinni sýnist mér að fjöldi læka fari meira eftir því hjá hverjum lækað er, en gæðum eða athyglisverðleika innleggsins sem lækað er. Þetta er bara það sem mér finnst. Kannski finnst mér bara of lítið lækað hjá mér sjálfum. Hvernig ætli standi annars á þessu? Er hugsanlegt að lækendur fari í manngreinarálit? Skelfilegt hvað ég hugsa mikið um þessa blessaða fésbók, sem sumir vilja alls ekki kalla fésbók heldur fasbók eða bara eitthvað annað, sem enginn skilur. Svo eru sumir sem helst vilja kalla hana Facebook uppá ensku. Kært barn hefur mörg nöfn segir máltækið.

Sumir virðast sjá flest sem liðið er í rósrauðum bjarma. Jafnréttið var ekkert meira í gamla daga. Hlutirnir gengu bara hægar fyrir sig. Spillingin var mikil. Stjórnmálaflokkarnir réðu öllu og vilja enn í dag ráða sem flestu. Breytingin er aðallega fólgin í samskiptum fólks, sem í krafti tæknibyltingarinnar eru orðin miklu auðveldari og meiri en áður var. Mér finnst hraðinn í öllu hafa stóraukist líka, en kannski er það mest vegna þess að ég er tekinn að gamlast nokkuð. Vegna auðveldari og betri samskipta er pólitísk vitund fólks meiri nú en áður var. Ef nauðsynlegt er að vorkenna einhverjum  þessar breytingar má segja að helst beri að líta til stjórnmálaflokkanna. Tök þeirra á kjósendum eru ekki eins mikil og í gamla daga.

Já, ég er gamall blogghundur. Hef talsvert lengi verðið að þessum fjára og breytist ekkert. Talan í upphafi bloggsins breytist þó og hækkar sífellt. Afrek út af fyrir sig sagði einhver kommentari einhverntíma að það væri að halda utanum það. Auðvelt er það samt með þeirri aðferð sem ég hef komið mér upp. Skrifa bloggið mitt semsagt alltaf (eða oftast) í sama Word-skjalið og eitt af því sem fylgir hverri uppsetningu er að hækka töluna um einn á næsta bloggi.

WP 20141111 10 27 21 ProRugguhestur.


2258 - Stjórnarskráin og klukkan

E.t.v. gerði fyrrverandi ríkisstjórn afdrifaríka vitleysu með því að leggja eins mikla áherslu á ESB og hún gerði. Hugsanlega hefði verið hægt að koma í gegn breytingum á fiskveiðistjórninni og jafnvel stjórnarskránni líka ef Vinstri Grænir hefðu ekki verið neyddir til að samþykkja umsóknina að ESB. Þeir vildu það greinilega ekki, enda gekk það í berhögg við stefnu þeirra fyrir kosningarnar. Þetta segi ég þó ég sé stuðningsmaður aðildar, en mér finnst ekki skipta máli um nokkur ár til eða frá. Þar endum við hvort sem okkur líkar betur eða verr. Jóhanna og Steingrímur færðust of mikið í fang. Nær hefði verið að einbeita sér að einhverju einu.

Ekki eru allir á sama máli varðandi stjórnarskrána. Enda eru engin líkindi til að svo verði. Ástæðulaust er samt að tala aðdragandann niður og segja nú að of miklum peningum hafi verðið eytt í undirbúninginn. Núverandi ríkisstjórn mun alls ekki stuðla á neinn hátt að því að umræður verði um stjórnarskrána. Það hentar henni prýðilega að umræðan snúist fyrst og fremst um heilbrigðismál.  

Ég er andvígur því að seinka klukkunni. Tvær röksemdir finnst mér einkum að fylgjendur slíks færi fram. Sú fyrri er að með því fáist bjartari morgnar. Hin er sú að á einhvern hátt sé það æskilegra lýðheilsufræðilega séð að vera í meira samræmi við hnattstöðuna með klukkuna. Hvað fyrra atriðið varðar eru bjartari morgnar dýru verði keyptir, því að sjálfsögðu myndi þá dimma fyrr síðdegis. Hitt atriðið er svo sérfræðilegs eðlis að ég treysti mér varla til að fullyrða mikið um það.

Andstæðingar breytinga á klukkunni færa einkum fram tvenns konar rök einnig. Annars vegar eru venjuleg íhaldsrök og hins vegar að eftir því hvort venjulegur vökutími sé álitinn frá 7 - 23 (seven eleven) eða 8 – 24, þá lengist myrkurtími í vöku yfir árið í heild um 131 til 190 klukkustundir við breytinguna. Þetta segir Gunnlaugur Björnsson stjarneðlisfræðingur og ég hef ekkert við þá útreikninga að athuga.

Á sínum tíma þegar þessi breyting í sumartíma átti sér stað (1968) var það einkum til að losna við hringlið með allskonar tímatöflur og sumartíminn, sem þá var, var valinn vegna aukins birtutíma síðdegis og fylgjendur slíks voru miklu fleiri en andstæðingar. E.t.v. yrði breytingin á tímatöflum auðveldari núna vegna tölvutækni, en samt held ég að þingsályktunartillagan fjalli ekki um upptöku sumartíma.

Þorsteinn Sæmundsson sem eflaust er hægt að kalla einn helsta tímatalsfræðing okkar Íslendinga og Gunnlaugur Björnsson stjarneðlisfræðingur eru báðir á móti þessari breytingu og ég held að hvorki flokkapólitík né aldur ráði þeirri afstöðu.

Detox er svindl segir máltækið. (Og RÚV) Mikið er ég sammála. Megrun og bætt heilsa næst einkum með því að éta minna. Sem er sparnaður en ekki eyðsla. Hvers vegna að borga stórfé fyrir hungur? Nær væri að gera vel við sig í mat. Það er endalaus stúdía hvað hentar manni í sambandi við fæðu. Í því efni eru alls ekki allir eins. Ekki á að einskorða sig við bragðgæði heldur skoða allar hliðar. Sennilega er matvara alltof ódýr og auðvelt að verða feitur. Þetta með verðlagið gætu sjálfstæðismenn líklega skrifað undir. Reyndar er ekkert sem mælir á móti því að matvæli væru hundódýr hér einsog annarsstaðar.

WP 20141121 21 24 00 ProKomið við á vinnustofu.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband