Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2011

1464 - Verðtrygging

Hvorki Guðbjörn Jónsson, Marínó G. Stefánsson, Seðlabankinn, Hagsmunasamtök Heimilanna, Valdimar Bjarnason né aðrir sem tjáð hafa sig um þetta verðtryggingarmál eru fyllilega heiðarlegir. Reikniaðferðirnar er erfitt að skilja svo ekki sé nú talað um túlkanirnar. Allir virðast hugsa meira um sinn eigin hag og það sem áður hefur verið sagt, en það sem mestu máli skiptir. Fólki er almenn alveg sama um hver segir hvað, en ekki um það hve mikið það á að borga. Gera þarf greinarmun á greiðslum og skuld, en skuldina þarf samt einhverntíma að greiða, eða hvað?

Hægt er að túlka lög með ýmsu móti. Lögfræðingar fara létt með að sanna hvaða vitleysu sem er, ef þeir fá að vaða elginn nógu lengi. Getur þetta fólk ekki komið sér saman um neitt? Þetta er eins og versta ríkisstjórn. Óskiljanlegt með öllu. Ef meiningin er að koma óorði á fjármagnseigendur (Lífeyrissjóði) og Íbúðalánasjóð þá er það í þann veginn að takast. Verðtrygginguna sjálfa er fyrir löngu búið að taka af lífi, en samt er hún enn við lýði og líður ágætlega.

Það sem vantar er einhver stofnun sem fólk treystir. Háskólinn er vanhæfur. (Hvaða háskóli?) Þessi stofnun þyrfti að hafa yfir að ráða fólki sem kynni að reikna og koma meiningu sinni óbrjálaðri frá sér. Er hún til?

IMG 6447Eftir því sem tunnurnar tæmast...


1463 - Grímsstaðir á Fjöllum og Stína

vegamótMyndina hér fyrir ofan tók ég af netinu. (Er samt ekki vanur að taka hvað sem er traustataki þar. – Mér þótti myndin bara merkileg og hugsanlega eiga erindi til fleiri en hjólafólks og bið rétthafa hérmeð velvirðingar á bíræfni minni.) Myndin var í einhverri frásögn af hjólaferð um Snæfellsnes. Hún er greinilega tekin við Vegamót á Snæfellsnesi, (sunnan undir vegg) sem er á mótum vegarins yfir Kerlingarskarð (Nú Vatnaleið kölluð) og áfram útá nes. Ástæðan fyrir því að ég set þessa mynd hérna er að þarna var ég eitt sinn útibússtjóri. Þá var að vísu ekki búið að setja þennan glugga á gaflinn og staðurinn var í eigu Kaupfélags Borgfirðinga. Margt gæti ég skrifað um þennan stað en sleppi því núna.

Nú get ég semsagt haft það þannig að skrifa jafnóðum hér í bloggskjalið mitt (sem heitir blogg.docx) það sem mér dettur í hug og sett það síðan á bloggið mitt þegar hæfilegri lengd er náð. Áður fannst mér ég alltaf þurfa að senda upp blogg rétt eftir miðnætti á hverjum degi. Ég er hættur því og það er mikil frelsun.

Þá get ég semsagt eytt meiri tíma en áður í bréfskákirnar mínar. Nú, eða fjölgað þeim. Eða lesið meira af bloggum og netmiðlum. Bókasafnsbækurnar nota ég varla til annars en að fara með í rúmið. Finnst nefnilega stórum betra að geta flakkað um netið eftir þörfum og les yfirleitt ekki neitt þar nema það sem ég hef sérstakan áhuga á. Það þýðir samt ekkert endilega að ég lesi lítið þar.

Fór með Stínuheftið (sem ég fékk á bókasafninu í gær) í rúmið í gærkvöldi og las m.a. smásöguna „Ljós, bjart og kvikt,“ og fannst hún bölvað rugl. Hélt að smásögur í svona merkilegu bókmenntariti ættu að vera voða merkilegar. Prófarkalesturinn var ekki einu sinni almennilegur, efnið bölvuð vitleysa og staðreyndavillur fannst mér vaða uppi. Kannski var ég bara svona syfjaður.

Allir eiga þessa dagana að hafa skoðun á hugsanlegum kaupum kínverja nokkurs á Grímsstöðum á Fjöllum. Ég er bara sammála dóttur hans Svavars um að rétt sé að fara sér rólega og skoða málið vandlega. Annars er ég hræddur um að þetta lendi allt saman fyrir rest hjá Alþingi og verði hugsanlega Bakkaselsmál tuttugustu og fyrstu aldar. A.m.k. er ekki annað að heyra en Ögmundur sé á móti því að gefa undanþágu fyrir þessum kaupum. Það sem greinir þetta mál einkum frá Magma-málinu svonefnda, er að aumingja kínverjinn á víst ekkert skúffufyrirtæki í Svíþjóð.

IMG 6445Vaktmaður á Siglufirði.


1462 - Nýnasistar

DV auglýsir grimmt nýnasistaflokk eða einhver slík samtök hér á Íslandi. Vísar á nánari upplýsingar á fésbókinni. Þær á að vera hægt að finna undir nafninu „Védís ótugt“. Fésbókarvinir 462. Fjölgar kannski eitthvað á næstunni. Sigríður Bryndís Baldvinsdóttir heitir sú sem rætt er við um þetta mál. DV virðist ekki ætla að ganga í þessi samtök og jafnvel ekki útvarp Saga heldur. Fróðlegt er samt að fylgjast með þessu, þó mig langi ekki til að vera bendlaður við það.

Stórhausaumræðan í athugasemdum mínum fyrir skemmstu kann að tengjast þessu með vissum hætti. Kannski lendir maður í nasistaumræðunni ef maður notar of mikið orð einsog þjóðremba, útlendingahatur, öfgar, fordómar, rasistar, þjóðernissinnar og þess háttar. Líklega þarf maður að fara að vara sig.

Fróðlegt er líka að gúgla „nýnasistar á Íslandi“. Það gerði ég og fékk fleiri linka en ég er líklegur til að skoða nokkurntíma.

Tvennt er það sem ég hef lært núna síðasta hálftímann eða svo í þessum nýnasistafræðum og það er að 18 þýðir í raun og veru „Adolf Hitler“ því A og H eru fyrsti og áttundi stafur stafrófsins. Sömuleiðis þýðir 88 þess vegna „Heil Hitler“. Lengra er ég nú ekki kominn í þessum fræðum.

Bókasafnsmál eru áhugaverð. Ágúst Borgþór bloggar skemmtilega um þau hér: http://www.dv.is/blogg/agust-borgthor/2011/8/28/tynd-bokasafnsbok-seinni-hluti/ Annars hef ég ágæta reynslu af bókasöfnum. Bara passa sig að skila aftur bókasafnsbókunum og borga allar sektir strax. Þær eru hvort eð er oftast manni sjálfum að kenna. Viðurkenni alveg að skemmtilegt væri að fá lögheimtubréf út af einni bókasafnsbók. Það hef ég aldrei fengið og það er eiginlega bölvaður klaufaskapur.

Þetta minnir mig náttúrlega á að fara á bókasafnið í dag. Eina bókin sem ég hafði verulegan áhuga á af þeim sem ég fékk síðast að láni er komin í „lesin spjaldanna á milli“ flokkinn en það var seinni bók Péturs Gunnarssonar um ÞÞ. Ákaflega merkileg bók og ekki er síðri greining Péturs á heimsmálunum.

„Föður mínum“ fékk ég hinsvegar heilsað fyrir hans miklu Sveppabók. Þeir stóðu þar í garðskálanum Helgar tveir, handahafar fræðibókaverðlauna 2009 og 2010, doktor í sveppum og doktor í jöklum; fundur sem gat af sér augljósa spurningu: „En er eitthvað til sem heitir jöklasveppir? Helgi Hallgrímsson svaraði um hæl:

„Það fundust nú reyndar sveppir á Bárðarbungu í fyrra. En þeir uxu í hreindýrshræi.

Þessi klausa er úr bókmenntatímaritinu „Stína“ og er úr grein eftir Hallgrím Helgason sem heitir „Bjargvætturinn í þrasinu“. Þetta tímarit fékk ég m.a. lánað á bókasafninu í dag og eflaust er margt merkilegt í því að finna. Ekki spyrja mig af hverju þetta tímarit heitir „Stína“. Ég hef nefnilega ekki hugmynd um það. Vefurinn þeirra sem þetta tímarit gefa út heitir: http://stinastina.is/ og ég get vel ímyndað mér að það stafi af því að stina.is hafi verið frátekið og þessvegna hafi þeir gripið til þess ráðs að nefna hann þetta.

IMG 6432Sumarnótt á Siglufirði.


1461 - Bloggið mitt

Marga bloggfjöruna hef ég sopið um dagana. Ég er svosem enginn byrjandi í þessu þó ég hafi ekki byrjað fyrr en í árslok árið 2006 hér á Moggablogginu. Öll mín bloggskrif eru hér samankomin og vonandi verður þeim ekki fargað því afrit á ég af því fæstu sem þar er og hugsanlega er sumt sögulegt.

Sennilega hefur það verið um aldamótin eða skömmu fyrir þau sem ég fór fyrst að veita blogginu athygli. Samkvæmt fyrirsögn Salvarar Gissurardóttur hóf ég þá lítilsháttar bloggskrif á „pitas.com“, en hætti þeim mjög fljótlega meðal annars vegna þess að enginn vissi af þeim og las þau þar af leiðandi ekki.

Það var svo í desember 2006 sem ég hóf bloggskrif hér á Moggablogginu. Það hafði þá starfað í eitt til tvö ár eða svo og sannarlega breytt blogglandslaginu töluvert. Lára Hanna Einarsdóttir, gamall vinnufélagi minn af Stöð 2 byrjaði að blogga um líkt leyti eða nokkru seinna. Salvör Gissurardóttir, sem um það leyti var Moggabloggari, var líka fljót að veita blogginu frá mér eftirtekt og ég hef alltaf talið hana eina af fremstu bloggurum landsins. Eftir athugasemd frá Láru Hönnu til stjórnenda Moggabloggsins vorum við bæði gerð að stórhausum, en það er nokkurskonar úrvalsflokkur bloggara sem Moggabloggsstjórarnir veita greiðari aðgang að en öðrum bloggurum.

Ekki man ég gjörla hvenær ég byrjaði að blogga daglega en það er ekki alveg nýtilkomið. Upphaflega bloggaði ég bara öðru hvoru og þóttist góður ef 20 til 30 manns kíktu daglega á bloggið mitt eftir að ég var orðinn stórhaus. Áður voru þeir oftast mun færri. Um það leyti þurfti yfir 300 vikuheimsóknir til að komast á lista yfir 400 vinsælustu bloggarana.

Þegar ég var gerður að stórhaus (það var Brjánn Guðjónsson sem ég held að hafi fundið upp þetta orð) vænkaðist hagur minn stórlega og lesendum fjölgaði. Síðan hef ég verið um of upptekinn að því að fjölga daglegum gestum mínum þangað til alveg nú nýlega að ég ákvað að hætta þessu daglega bloggstandi.

Það var einhvers konar listi yfir öll íslensk blogg sem ég fylgdist með í upphafi. Man samt að í gegnum tíðina (dönskusletta) hef ég einkum lesið og dáðst að eftirfarandi bloggurum: Hörpu Hreinsdóttur, Salvöru Gissurardóttur, Stefáni Pálssyni, Ágústi Borgþóri Sverrissyni, Nönnu Rögnvaldardóttur, Dr. Gunna, Láru Hönnu Einarsdóttur, Erlingi Brynjólfssyni, Gísla Ásgeirssyni, Sigurði Þór Guðjónssyni, Önnu K. Kristjánsdóttur og Páli Ásgeiri Ásgeirssyni. Auðvitað hef ég líka oft lesið bloggin hjá Agli Helgasyni og Jónasi Kristjánssyni.

Alþingi kemur væntanlega saman áður en mjög langt um líður. Það sem ég er einna spenntastur fyrir í störfum þess er hvaða afgreiðslu stjórnarskártillagan frá stjórnlagaráði fær þar. Mál þetta er að byrja að koma fram í opinberri umræðu. Þór Saari segir að hugmyndin sé að ræða þetta í einn dag á alþingi og vísa málinu síðan til sérstakrar nefndar. Mín skoðun er sú að þjóðin eigi að fá tækifæri til að segja álit sitt á þessu máli áður en alþingi fer eitthvað að krukka í það. Þetta kemur samt eflaust í ljós fljótlega eftir að alþingi kemur saman.

Það er ekki hægt að fullyrða að stjórnarfarið batni eitthvað þó við fáum nýja stjórnarskrá, en það er hugsanlegt. Sú gamla er orðin ansi ófullkomin, mótsagnakennd og óskýr og það hefur alltaf staðið til að gera nýja. Ekki er nein von til þess að alþingi geti komið sér saman um stjórnarskrá svo best væri að það léti núverandi drög alveg í friði.

Valkvíði er erfið meinsemd. Hvort á ég heldur að fá mér kaffibolla eða fara á klósettið. Margs er að gæta við þessa erfiðu ákvörðun. Ein leið er augljós. Það er að gera hvorttveggja. En jafnvel þó sú flóttaleið sé notuð stendur eftir að ákveða hvort á að gera á undan. Jafnvel kemur til greina að gera hvorugt. Kannski yrði það auðveldast. Það er þó erfitt að fresta þessu með klósettferðina endalaust. Búast má við að þörfin fyrir hana fari að lokum að trufla mig við allt mögulegt. Er þá ekki augljóst að hún er mikilvægari? Jú kannski, en er alveg sjálfsagt að sinna því á undan sem nauðsynlegra er? Þetta þarfnast nákvæmrar íhugunar.

IMG 6430Siglufjarðarfjall í sólskini.


1460 - Þjóðaratkvæðagreiðsla um ESB

Nú er ég hættur í bili að birta gamlar myndir. Vel getur samt verið að ég taki þann sið upp aftur seinna.

Sérkennilegt mjög er hjá fulltrúa bænda að biðja háskólarektor að sparka í prófessorinn sem skrifaði ekki nógu fallega um þá. Bændur þurfa að gæta þess að eftir þessu verða þeir dæmdir. Þegar allt kemur til alls kunna ESB-sinnar að græða á þessu og bændur að tapa meiru en þeir hefðu þurft. Það er ekkert einkennilegt þó bændur séu á móti ESB-aðild. Ef einhverjir græða á henni er rökrétt að álykta að einhverjir aðrir tapi. Og bændur reikna með að tapa. Hvað kemur þeim við þó neytendur allir stórtapi á þvermóðsku þeirra.

Ef atkvæðagreiðslan um ESB-aðild verður í byrjun árs 2013 er líklegt að hún verði fyrir næstu þingkosningar. Vel getur líka farið svo að ekki náist að hafa hana svo snemma og hún verði ekki fyrr en að næstu þingkosningum loknum. Þær þingkosningar kunna þá að gefa fyrirheit um úrslit ESB-kosninga sem væntanlega verða fljótlega á eftir.

Mikið skelfing er gott að þurfa ekki að flýta sér að klára það sem maður er byrjaður að skrifa. Ekkert er lengur sem rekur á eftir mér að klára bloggin mín. Bráðum verð ég kannski eins fljótur að skrifa og JVJ – not. Sem betur fer styðja margir velskrifendur aðild að ESB. Og ég treysti þeim til að halda vel á málum. JVJ virðist aftur á móti halda að andstaðan við aðildina standi og falli með sér.

Aðildarandstæðingar segja sumir að þeir muni aldrei sætta sig við tap. Slíkar firrur auka ekki vinningslíkur þeirra. Þeir sem illa innrættir eru munu kannski styðja aðild einmitt þess vegna. Flestir álíta réttilega að slíkar yfirlýsingar skipti engu máli.

Í gær birti ég svolítið dónalega færslu og fyrirsögnin var það líka. Það var eins og við manninn mælt. Innlitunum fjölgaði einhver ósköp. Flestir forðast samt að gera athugasemdir við þá færslu en halda áfram að gera athugasemdir við færsluna um Útvarp Sögu. Hér með geri ég þeim sem eiga erfitt með að hugsa eða athugasemdast við eitthvað kynferðislegt auðveldara um vik. Gerið svo vel og kommentið hér ef það er ykkar aðferð. Ekki ætla ég að stöðva ykkur. Bendi samt á að mjög langar og ítarlegar athugasemdir eru ekki vinsælt efni

Mikið er skeggrætt um verðbætur, vexti og þessháttar þessa dagana og ég er að hugsa um að leggja orð í belg.

Húsnæðislán eru öll nútildags, að ég held, svokölluð jafngreiðslulán. Þ.e..a.s. greiðslum vaxta og verðbóta er dreift yfir allt tímabilið sem eftir er. Þetta finnst mér að ætti ekki að eiga við um verðbætur. Þær ætti almennt alltaf að greiða strax. Ef það væri gert mundi jafnvel hófleg verðbólga geta valdið mikilli hækkun á afborgunum lána. Einkum nýlegra lána þar sem upphæðin væri há.

Sú staðreynd gæti orðið til þess (meðal margs annars að vísu) að verðbólga yrði viðráðanlegri. Það viðheldur nefnilega verðbólgunni og verðbólguhugsunarhætti á vissan hátt að borga verðtrygginguna bara einhvern tíma seinna.

Líka skiptir miklu máli við hvaða vísitölu verðbæturnar eru miðaðar og hvernig hún er reiknuð. Sumar hækkanir ættu alls ekki að hafa áhrif á vísitöluna sem notuð er. Sú visitala sem nú er notuð hentar nefnilega alls ekki sem lánskjaravísitala.

IMG 6425Götumynd frá Siglufirði.


1459 - Tittlingur í píku

Mér finnst að sumu leyti eins og ég sé laus undan fargi vegna þess að ég er hættur að strekkja við að blogga á hverjum degi. Nú blogga ég bara þegar mér sýnist. Kannski sýnist mér ég þurfa að blogga ansi oft, en það verður þá bara að hafa það. Nú ætla ég að skrifa svolítið um örsögu sem ég gerði um daginn.

Fráfærur eru þannig skilgreindar í Wikipediu:

Fráfærur kallaðist það þegar ær og lömb voru aðskilin á vorin til þess að unnt væri að nytja mjólkina. Þær voru tíðkaðar á hverjum bæ á Íslandi um margar aldir.

Fært var frá í júnímánuði. Fyrst var svonefnd stekktíð, en þá voru lömbin enn með mæðrum sínum en sett í lambakró á stekknum á kvöldin og höfð þar um nóttina en ærnar gengu lausar á meðan og voru svo mjólkaðar að morgni, áður en lömbunum var hleypt út. Þetta var líka kallað að stía lömbin og stóð yfirleitt í um tvær vikur.

Þegar lömbin voru um það bil sex vikna voru þau svo rekin á fjall eða í haga fjarri ánum og látin sjá um sig sjálf en ærnar hafðar heima og mjólkaðar kvölds og morgna. Smalinn sat yfir þeim, að minnsta kosti á daginn. Ær sem fært hafði verið frá og voru mjólkaðar kölluðust kvíaaær. Stundum var setið yfir lömbunum fyrstu vikuna og voru þau þá oft höfð í hafti svo auðveldara væri að halda þeim saman. Sauðamjólkin var mikið notuð til skyrgerðar, ein sér eða blönduð kúamjólk, en einnig var gert úr henni smjör og ostar.

Fráfærur tíðkuðust fram á 20. öldina en lögðust víðast hvar af á árunum 1915-1940, meðal annars vegna mikillar verðhækkunar á lambakjöti á stríðsárunum fyrri, svo að það borgaði sig betur að láta lömbin njóta mjólkurinnar en mjólka ærnar.

Á heimasíðu leikskólans „Teigasel“ fann ég textann um Sigga, sem var úti. Hann er svona:

Siggi var úti
Norskt þjóðlag
Jónas Jónasson

Siggi var úti með ærnar í haga,
allar stukku þær suður í mó.
Smeykur um holtin var hann að vaga,
vissi hann að lágfóta dældirnar smó.
:,: Agg, gagg, gagg sagði tófan á grjóti. :,:
Gráleitum augunum trúi ég hún gjóti.
Greyið hann Siggi, hann þorir ekki heim.

Aumingja Siggi var hreint engin hetja,
hélt hann að lágfóta gerði sér mein,
inn undir bakkann sig vildi hann setja,
svo skreið hann lafhræddur upp undir stein.
:,: Agg, gagg, gagg sagði tófan á grjóti. :,:
Undi svo víða sá ómurinn ljóti
ærnar að stukku sem hundeltar heim.

Þá tók hann Siggi til fóta sem fljótast,
flaug hann sem vindur um urðir og stall.
Tófan var alein þar eftir að skjótast,
ólukku kindin hún þaut upp á fjall.
:,: Agg, gagg, gagg sagði tófan á grjóti. :,:
Trúi ég af augum hans tárperlur hrjóti,
titrandi er kom hann á kvíarnar heim.

Reyndar held ég að oftast sé bara fyrsta erindið sungið. Kannast ekkert við hin, en læt þau samt fljóta með.

Fyrir allmörgum árum kom út á dönsku bókaflokkur sem kallaður var Kærlighed. Í honum voru klámsögur eftir allnokkra rithöfunda. Flokkurinn hafði áður verið gefinn út í Svíþjóð. Ein sagan í þessum flokki fjallaði um Rauðhettu þar sem hún gekk fram og aftur um skóginn og tautaði fyrir munni sér: „Kuken í fittan, kuken í fittan.“

Þetta þrennt: fráfærurnar, söngurinn um hann Sigga og sagan úr Kærlighed varð mér innblástur að eftirfarandi örsögu:

„Tittlingur í píku, tittlingur í píku,“ sönglaði Siggi meðan hann vagaði um holtin. Samt var hann dálítið smeykur. Já, eiginlega alveg skíthræddur. Honum fannst talsverð huggun í því að söngla eitthvað meðan hann var svipaðist um eftir rolluskjátunum. Slæm þessi ansvítans þoka. Sönglið var róandi og hann reyndi að ímynda sér það sem hann sönglaði um. Það gekk fremur illa því allsstaðar gægðist tófan fram. Hún var áreiðanlega að hugsa um að næla sér í eina af rollunum sem Siggi átti að passa.

Siggi var nefnilega látinn vaka yfir ánum alla nóttina. Hann mátti ekki koma of fljótt með þær heim og auðvitað alls ekki týna þeim. Nú hafði hann sofnað á verðinum og skyndilega vaknaði hann við það að komin var hrollköld þoka yfir allt. Siggi hafði fengið að hafa með sér í hjásetuna dýrindis vekjaraklukku og nú sá hann að það var kominn tími til að fara að síga heimleiðis með rollurnar. En hann sá þær hvergi fyrir þokunni.

„Tittlingur í píku, tittlingur í píku, tittlingur í píku,“ sönglaði Siggi með þónokkurri tilfinningu. Þetta var það dónalegasta sem hann kunni og þessvegna sönglaði hann það. Kannski hélt hann að það hjálpaði sér til að hugsa um eitthvað annað en tófuna. Hann vissi nefnilega að tófan var að flækjast í dældunum og átti dálítið erfitt með að hugsa um annað.

Honum gekk illa að sjá tittling í píku fyrir sínum hugskotssjónum. Reyndi þó eins og hann gat. Tófan kom samt  alltaf blaðskellandi og gerði Sigga hræddan. Eða var þetta kannski refur. Skyldi refurinn nokkurn tíma ríða tófunni? Þetta beindi hugsunum Sigga alveg í nýja átt. En skyldi refurinn þá hafa tittling og tófan píku? Það fannst Sigga hálfhinsegin. Refurinn gæti kannski fest tittlinginn í tófunni einsog stundum kom fyrir hunda. Já, eiginlega var rebbi næstum alveg eins og hundur.

Skyldi tófan gjóta með augunum eða bara gjóta augunum í allar áttir? Þetta var atriði sem Siggi var allsekki klár á. Hann hafði heyrt talað um að gjóa augunum, en var hægt að gjóta þeim líka. Trúlegra var það nú, en að óbermið færi að gjóta, kasta eða með öðrum orðum að eignast afkvæmi með augunum. Annars var aldrei hægt að vita með vissu hverju svona óféti tæku uppá.  

Skyndilega heyrði hann gagg í tófu. Hann herti sig því sem mest hann mátti við sönglið, en það kom að litlu haldi. Hann gat ómögulega séð það fyrir sér sem hann sönglaði um en sá hinsvegar sífellt fyrir sér hungraða tófu sem reyndi að læðast að kindunum hans.

Væri ekki skást að fara bara heim? Nei, Siggi þorði ekki fyrir sitt litla líf að fara heim kindalaus. Það yrði gert svo mikið grín að honum að hann mundi aldrei bíða þess bætur. Krakkarnir í skólanum mundu hlæja sig alveg máttlaus þegar þau fréttu af þessu og yfir kaffibollunum mundu konurnar segja frá þessu í hálfum hljóðum og senda hvor annarri þýðingarmikil augnaráð.

„Tittlingur í píku, tittlingur í píku, tittlingur í píku.“ Sönglaði Siggi því með sífellt vaxandi tilfinningu. Hann herti sig sem mest hann mátti. Hljóp og hálfhrópaði orðin að lokum.

Skammaðist sín svo fyrir það, því hugsanlegt var að einhver heyrði til hans. Það væri nú jafnvel verra en að koma heim kindalaus. Tuldraði þetta þá lágt í barm sér og gætti þess vel að tala ekki of hátt.

En það var sama hvað hann hljóp hratt og hvernig hann tuldraði, ekki sá hann rollurnar. Þær höfðu áreiðanlega nýtt sér þokuna til að komast sem lengst í burtu.

Þegar Siggi var alveg að verða úrkula vonar um að finna kindurnar nokkuð, sá hann þær loksins og hóaði þeim saman í flýti.

Hann var hróðugur mjög þegar hann kom heim á kvíabólið nokkru seinna, því kindurnar voru allar og enga vantaði.

IMG 6421Bátur á Siglufirði.


1458 - Útvarp Saga

208Gamla myndin.
Kristinn Jón Kristjánsson og Gunnar Hallgrímsson.

Útvarp Saga reynir umfram allt að auka heiftina í þjóðfélaginu. Elur á öfund eftir mætti. Er á móti sem allra flestu og reynir að ávinna sér vinsældir með því. En hvert eiga þessar vinsældir að fara? Sennilega gerir starfsfólkið þar sér vonir um að vinsældirnar skili sér í auknum auglýsingum og með því tekjum fyrir stöðina.

Óviðunandi er að reyna að loka fyrir svona lagað. Miklu nær er að mæta því með rökum og stillingu. Samt er þeim ekki mætt á þeim vettvangi sem þau skilja. Þ.e. á öldum ljósvakans. Poppgaulið á hinum útvarpsstöðvunum langflestum er forheimskandi mjög.

Óánægjufylgið í stjórnmálum nær oft tíu hundraðshlutum eða svo. Útvarp Saga mun örugglega styðja þjóðremdan ofstækis- og innflytjendahatursflokk ef hann kemur fram. Og mér finnst líklegt að hann komi fram hér á Íslandi eins og víða annarsstaðar.

Frjálslyndi flokkurinn er í sárum en gæti þó gengið aftur og fyllt þetta skarð. Stefnuskrá hans hentar vel fyrir slíkt. Útvarp Saga studdi hann meðan það borgaði sig og gerir kannski enn.

Orrustan milli kapítalisma og kommúnisma stendur ennþá. Að vísu eru nöfnin breytt en kjarninn er sá sami. Hvernig kommúnismanum á Íslandi hefur tekist að samsama sig þjóðrembunni er illskiljanlegt. Mér fyndist miklu eðlilegra að baráttan stæði um fylgi þeirra sem hugsa grænt. Þjóðremban tilheyrir öfgahægrinu.

Á sviði öfgahægrisins keppa þeir nú opinberlega Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður framsóknarflokksins og Bjarni Benediktsson formaður sjálfstæðisflokksins. Sigmundur hefur tekið forystuna eins og er með því að segjast ætla í þjóðrembdan matarkúr. Bjarni er núna að upphugsa svar við því. Hvað það verður veit nú enginn, vandi er um slíkt að spá.

Það fór eins og mig grunaði. Illt er að kenna gömlum hundi að sitja. Ég á greinilega erfitt með að hætta að blogga eða minnka það að ráði. Gömlu myndirnar eru svo lélegar að ég hugsa að ég hætti fljólega að birta þær. Þeim fækkar líka. Tek frekar meira af myndum sjálfur og birti jafnvel tvær eða fleiri með hverju bloggi. Varið ykkur bara.

Þegar Ómar Ragnarsson gengur í flokkin hjá Guðmundi Steingrímssyni mun ég íhuga að kjósa þann flokk. Ef veðurflokkurinn hans Sigurðar Þórs býður einnig fram mun ég lenda í vandræðum.

IMG 6410Úr Héðinsfirði.


1457 - Bloggbreyting (vonandi)

210Gamla myndin.
Þetta er Samvinnuskólinn að Bifröst. Anddyrið og setustofan.

Veit ekki hvernig á því stendur að ég er orðinn svona ákafur bloggari. Ekki get ég séð að þetta sé eitthvað sem beið eftir því að gerast. Stundum finnst manni einmitt fullkomlega eðlilegt að einhver hlutur gerist. Í rauninni er það stórfurðulegt að svo margir sem raun ber vitni skuli lesa þessar hugleiðingar mínar. Afleiðingin er sú að ég er mestallan daginn að hugsa um hvað ég eigi eiginlega að setja á bloggið. Auk þess vanda ég mig yfirleitt talsvert við að hafa orðalagið sæmilegt. Hugsanirnar eru áreiðanlega ekki mjög frumlegar, en ég er orðinn nokkuð leikinn við að koma þeim í orð.

Gömlu myndirnar sem ég set á bloggið eru ákaflega misjafnar. Sumar eru beinlínis lélegar og eiga ekkert erindi þangað. Aðrar eru alveg í lagi og það er hugsanlega vel þess virði fyrir þá sem áhuga hafa á gömlum myndum að skoða myndasöfnin hjá mér hér á blogginu. Ég er að hugsa um að fara að sinna þeim meira og setja skýringar við myndirnar sem þar eru. Oft fylgdu skýringar í bloggunum sem þær fylgdu en þær skýringar hverfa og koma ekki aftur.

Svo eru það nýlegu myndirnar. Eiginlega er ég allsekki viss um gildi þeirra. Sumar þeirra eru eflaust ágætar en þær eru oftast óralangt frá því að vera „arty farty“ eins og Goði Sveinsson orðaði það jafnan. Oft finnst mér ég vera eins og túristi í eigin landi þegar ég er að taka myndir til að setja á bloggið. Tek einkum myndir af því sem mér finnst einkennilegt og einkennandi.

Eftir langa og ítarlega naflaskoðun er ég búinn að ákveða að hætta að blogga daglega. Ég leiddist út í þetta fyrir alllöngu en sé núna að þetta er mesta vitleysa. Mér hefur svosem tekist að klifra svolítið upp eftir vinsældalistanum með þessu, en það er eiginlega það eina sem ég hef haft uppúr því. Aðalmunurinn á mér og öðrum fremur vinsælum bloggurum er að ég er fljótari en þeir að hrapa í heimsóknum þegar ég hætti með öllu að blogga um tíma eins og ég hef gert nokkuð af undanfarin ár. Þetta hlýtur að stafa af því að menn (a.m.k. sumir) kíkja á mitt blogg vegna þess að þeir hafa ekki annað skárra að gera. Ekki vegna þess að þeir hafi sérstakan áhuga á því að lesa það sem ég skrifa.

Þó ég segist ætla að hætta að blogga daglega getur vel verið að það verði erfitt. Þetta bloggstand er eins og hvert annað eiturlyf. Ég ætla a.m.k. að reyna að hætta að blogga um stjórnmál og fréttir. Eiginlega hef ég ósköp lítið að segja um það þó ég hafi auðvitað skoðanir á mörgu. Ég er að hugsa um að halda áfram að blogga um það sem ég lendi sjálfur í og skrá minningar um ýmislegt. (Og jafnvel eitthvað fleira.) En ætla engan vegin að keppast við að blogga á hverjum degi.

Þetta getur hæglega leitt til þess að ég verði aktívari í athugasemdum og jafnvel á fésbókinni líka. Ekkert er athugavert við það.

IMG 6427Af einhverjum ástæðum dettur mér jafnan í hug húsgangurinn kunni:

         Hárin mér á höfði rísa
         hugsi ég um kærleik þinn.
         Þetta er annars ágæt vísa
         einkum seinni parturinn.

Þegar ég sé þessa mynd.


1456 - abcd.is

207Gamla myndin.
Bifrastarmynd. Kristinn Jón Krinstjánsson.

Ómaksins vert er að athuga betur vefsetur lýðræðissetursins (abcd.is). Þar er tekið á mörgum málum og þó ekki sé um algild sannindi að ræða í atkvæðagreiðslu þeirri sem þar er fjallað um, er sú aðferð allar athygli verð. Það er t.d. alls ekki víst að eðlilegt sé að sami munur sé á milli kosta númer 1 og 2 og númer 10 og 11. Allt er þetta undir því komið að áhugi þátttakenda sé nægilega mikill. Vel mætti samt hugsa sér að prófa þessa aðferð t.d. í prófkjöri.

Vel er hægt að spara sér til óbóta. Ef t.d. ís og annað góðgæti (svo ég tali nú ekki um hamborgara og þessháttar) er svo ódýrt að greinilega borgar sig ekki að lifa á öðru, hollur matur er yfirleitt hafður miklu dýrari en annar (eins og hér er) o.s.frv., þá fara menn gjarnan að spara sér til óbóta. Þörfin fyrir að spara sér til óbóta hefur farið minnkandi lengi undanfarið því sá hluti tekna fólks sem til matarkaupa fer hefur farið sífellt minnkandi. Þarfirnar hafa að sjálfsögðu aukist einnig en sumar þeirra eru óttalegar gerviþarfir. Þar verður hver og einn að flokka hluti eftir eigin sannfæringu. Þannig m.a. næst það aukna heilbrigði sem greinilega hefur orðið hér á landi síðustu áratugina. Auðvitað eru fleiri atriði sem þar koma við sögu s.s. heilbrigðisþjónusta sú sem á boðstólum er o.s.frv..

Bjarni Benediktsson formaður sjálfstæðisflokksins virðist hafa skipt um skoðun einu sinni enn varðandi ESB. Nú vill hann hætta viðræðum eins og skot, þó það sé svo heimskulegt að hann ætti að sjá það sjálfur. Sennilega telur hann það samt koma sér betur varðandi áframhaldandi formennsku í flokknum. Við því er lítið að segja, en auðvitað bíða menn í ofvæni eftir næsta snúningi hans. Með þessu sem nú er orðið ljóst kemur hann e.t.v. í veg fyrir mótframboð á landsfundinum í haust.

Sjónvarpið íslenska hamast nú við að sýna gamlar íslenskar kvikmyndir. Sumum þeirra hefur maður alveg gleymt, en það er ekki verra en hvað annað að endurnýja kynnin við sumar. Aðrar eru samt óttalega lélegar og hafa elst illa.

Gjaldeyrismál öll eru óljós um þessar mundir. Íhaldsmenn spá að sterlingspundið yfirtaki evruna, en aðrir algjörri andstæðu þess. Núverandi átök á fjármálamörkuðum gætu vel orðið til þess að önnurhvor myntin tapi sjálfstæði sínu. Sumar myntir (t.d. danska krónan) eru nafnið eitt. Íslenska krónan er því miður ekki nothæf til neins nema halda niðri lífskjörunum hér á landi, þó sumir ímyndi sér annað.

IMG 6404Eystri jarðgangnamunninn í Héðinsfirði og umhverfið þar.


1455 - Menningarnótt

206Gamla myndin.
Bifrastarmynd. Hér eru talið frá vinstri: Gunnlaugur Sigvaldason, Theodór Jónsson, Guðmar Magnússon, Geir Magnússon og Gunnar Magnússon.

Í dag er menningarnótt í Reykjavík og sjálfsagt lesa menn ekki mikið blogg. Ég get samt ekki stillt mig um að skrifa eitthvað og svo þarf ég líka að halda þeirri reglu að blogga á hverjum degi.

Fór að lesa bloggið hans Arnþórs Helgasonar. Þar sá ég hann mæla með svokölluðu raðvali. Þá fór ég og gúglaði það. Það leiddi mig á síðuna abcd.is sem er merkileg vefsíða sem ég á áreiðanlega eftir að skoða mun betur. Setti hana því í „favorites“ hjá mér. Urlið er hér: http://www.abcd.is/ og hún sýnist mér að fjalli einkum um atkvæðagreiðslur og þess háttar. Mjög forvitnileg síða sem ég hvet alla til að kynna sér rækilega. Gallinn er sá að svo margar síður fara í favorites hjá mér að ég hef sjaldnast tíma til að skoða það allt betur þó ég ætli mér það.

Þegar skrifað er um eitthvað sem manni dettur í hug finnst mér skipta mestu að segja það sem segja þarf í sem allra stystu máli. Ef aftur á móti er verið að skrifa blaðagrein um eitthvert mál er eins og greinarhöfundur leitist oft við að lengja mál sitt að þarflausu. Í fræðilegum ritgerðum virðist og vera stefnan að útvatna efnið sem mest og ræða um allar mögulegar hliðar viðkomandi málinu. Þetta er bara það sem mér finnst og kannski ekkert að marka.

Og signaðir kettir sátu eftir.

IMG 6402Úr Héðinsfirði.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband