Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2009

880 - Tinna Bjarnadóttir

Í dag (sunnudag) var Tinna Alexandra Sóley Bjarnadóttir skírð í Hallgrímskirkju í Saurbæ á Hvalfjarðarströnd. Í morgun leit fremur illa út með veður en það lagaðist þegar á daginn leið og nokkuð margir komu í skírnarveisluna. 

Hvort á nafnið Bolunga(r)vík að vera með erri eða errlaust? Í mínum huga er Bolungavík líklega réttara ef málið snýst um hvort vísað sé í einn eða fleiri bolunga hvað sem það nú er. Bolungarvík held ég að sé samt algengara og það nafn prýddi kransaköku þá sem mynd var af á mbl.is í dag í tilefni af gerð jarðganga til Ísafjarðar. Auðvitað eiga íbúar Bolunga(r)víkur að ráða þessu og grunur minn er að endalaust megi um þetta deila.

Vel má líka deila um hvort réttlætanlegt sé að leggja skattpeninga í umferðarmannvirki sem fáum gagnast. Þar lenda menn fljótt í ógöngum ef rætt er um þessi göng sérstaklega því ómögulegt er að verðleggja af skynsemi þægindi og minni slysahættu.

Sjálfur er ég þeirrar skoðunar að skattfé skuli í meginatriðum nota í verkefni til jöfnuðar. Mál sem tengjast samgöngum eru þar oft mikið hitamál og skipta fólki jafnvel í fylkingar eftir landshlutum. Ómögulegt er að skipta vegafé eftir einhverjum reiknistokksaðferðum og þess vegna verða ágreiningsefnin þar mörg.

Ekki er á ósamkomulagið meðal þjóðarinnar bætandi þegar hún er í sárum eftir bankahrunið. Að reyna að hlífa þjóðinni við smærri átökum vegna þess er kannski ein versta brotalömin í kerfinu. Rannsóknum á þjófnaði úrásarvíkinganna miðar grátlega hægt og tilfinning margra er sú að þeir séu aftur að ná fantatökum á þjóðfélaginu. Það er hættulegt. Þjóðin er breytt eftir atburði haustsins 2008.


879 - Traust og vantraust

Hvað er það sem mest skortir í íslensku þjóðfélagi í dag? Mér finnst það ekki vera peningar þó umræður á Alþingi snúist ekki um annað þessa dagana. Fólk treystir ekki ríkisstjórninni, treystir ekki stjórnmálamönnum eða stjórnvöldum, ekki eftirlitsstofnunum, og allra síst bönkum og fjármálastofnunum. Kannski treystir fólk hvert öðru og sínum nánustu en það er ekki nóg. Kemur þó í veg fyrir að borgarastríð skelli á eða blóðug bylting verði en lagar ekki þær meinsemdir sem grassera í þjóðfélaginu. Helsta meinsemdin er vantraustið á öllum sviðum. Andleg heilsa fólks er miklu meira virði en peningar.

Einu sinni vann ég hjá KÁ. Einnig hjá KB. Þá voru kaupfélögin aflið mikla sem allir litu upp til. Svo kom Kaupþing og eyðilagði skammstöfunina KB. Kaupfélögin hurfu (flest). Samvinnusagan er fag sem bara var kennt í Samvinnuskólanum. Mest var þar sagt frá sjálfmenntuðum bændahöfðingjum. Kaupþing hrundi og skipti um nafn. Allt er breytingum undirorpið.

Á bókamarkaði ekki alls fyrir löngu keypti ég bók sem heitir „Baráttan við fjallið." Hún fjallar um sögu Kaupfélags Árnesinga. Ágætt að lesa þá bók því ég kannaðist við flesta sem þar var minnst á. Bókin var samt ekkert sérstaklega vel skrifuð.

Man eftir að eiga einhversstaðar bókarkorn um KB eða Kaupfélag Borgfirðinga. Þar voru meðal annars myndir af glæsilegum bílaflota félagsins. Skúli Ingvarsson tók þær myndir. Man eftir að ég tók líka myndir á videóvélina okkar í ÚSVB af bílunum. Þá var brúin komin og þeir óku útá Seleyri og til baka í einni halarófu.


878 - Bloggið bætir, hressir og kætir

Í vaxandi mæli hef ég á tilfinningunni að ég sé að blogga fyrir þá sem ég veit af ýmsum ástæðum að lesa skrif mín reglulega. Í gegnum samskipti mín í kjötheimum veit ég um suma. Aðrir kommenta öðru hvoru og svo framvegis. Flestir hafa einhver áhrif á hvernig ég skrifa. Líka þeir sem aldrei heyrist frá en þeir hljóta að vera þónokkrir. 

Áhrif þeirra sem kommenta eru stundum augljós. Til dæmis hefur Steini Briem afar góð áhrif á hagyrðingstaugina í mér. Oft má sjá áhrif kommentanna bæði í bloggum og svörum við athugasemdum og þau samskipti eru næstum alltaf á léttu nótunum. Að minnsta kosti svara ég kommentum oftast með því sem mér dettur fyrst í hug. Stundum er það svolítið út úr kú eða jafnvel asnalegt en við því er ekkert að gera.

Freistandi er að halda að því fleiri sem lesendurnir eru samkvæmt Moggabloggsteljaranum því betri séu skrifin. Svo er þó ekki. Það eru fyrirsagnirnar, efnið sem um er fjallað og fyrstu línurnar sem skipta mestu máli. Oft heldur maður að tiltekin skrif veki mikil viðbrögð í teljaramálum en hefur svo eftir allt saman alrangt fyrir sér. Ekki er með neinu móti hægt að sjá þau fyrir.

Ef ég blogga ekki finnst mér eins og ég sé að bregðast mínum föstu lesendum. Kannski eru þeir samt bara fegnir og þessvegna er ég að hugsa um að hætta núna.


877 - Alþingi

Undanfarin kvöld hefur verið opið fyrir sjónvarpsútsendingar frá Alþingi á mínu heimili. Ekki get ég sagt að umræðurnar séu áhugaverðar. Einhver kynni að kalla þetta málþóf en það má víst ekki. Í stjórnarandstöðunni virðist ríkja það lögmál að hver og einn sem á staðnum er sé skyldugur til að nýta allan þann tíma sem þingsköp mögulega leyfa honum. Þetta er slæmt en ekkert við því að gera. Fundarsköp eru nauðsyn og þeir sem nú eru í stjórnaraðstöðu geta lent í því fyrr eða síðar að þurfa að nota þetta. 

Einhver varhugaverðasta þróun í íslensku þjóðlífi er það lögfræðingaveldi sem hér er að skapast. Til lengri tíma litið eru það eingöngu lögfræðingar sem munu hagnast á kreppunni. Þeir gráðugustu þeirra munu missa einhverja spóna úr aski sínum á næstu árum en þeir verða fljótir að koma sér uppúr því. Jafnvel vesælir innheimtulögfræðingar munu hafa nóg að gera. Þeir sem kunna bærilega á skattakerfið og gengismál munu þéna feitt. Viðskiptafræðin er ekki lengur „in" en lögfræðin er það og hefur alltaf verið.

Ekki meira að sinni. Nóg er málæðið í öðrum svo ég fari nú ekki að bæta við það.


876 - Jóhanna vill helst fá hund

Steingrímur með styrkri mund
stýrir burt frá miðju.
En Jóhanna vill helst fá hund
í Helguvíkursmiðju. 

 

Flest bendir til að þeir sem vilja semja við Breta og Hollendinga í Icesave málinu trúi því einlæglega að með því eina móti getum við sannfært umheiminn um að við séum alvörufólk. Orðspor okkar Íslendinga er afspyrnulélegt og hefur kannski alltaf verið það.

Lífskjör hér á landi eru allgóð. Þau munu versna vegna kreppunnar en samt ekki verða sérlega slæm. Ástæðulaust er að láta eins og heimurinn sé að farast. Við bætum ekkert með því. Sjálfsagt hefði verið að fá utanaðkomandi aðila okkur til aðstoðar ef við hefðum viljað komast með hraði uppúr kreppunni. Svo hefur þó ekki verið gert og stjórnvöld vilja helst koma á svipuðu ástandi aftur og hér var.

Það er slæmt því almennur vilji er að hér verði fyrirmyndarríki hvað snertir jöfnuð og gegnsæi. Gallinn er bara sá að stjórnkerfið verður alltaf veikt því það getur ekki orðið trúverðugt. Til þess er fámennið of mikið. Spillingin sker í augun en enginn vill sjá hana. Við erum meistarar í að dylja hana. Gerum grín að útlendingum sem þykjast sjá hana. 

Auk spillingarinnar er mesta hættan, sem við Íslendingar verðum fyrir með daðri okkar við það sem við köllum nútímalega heimsmenningu, sú að unga kynslóðin venst á ofneyslu afþreyingar. Allir vilja skemmta sér til dauðs. Ýmislegt annað en taumlaus neysla er þess virði að lifa fyrir.

Það er engin ný bóla að hverskyns fjárglæfrar séu fjármagnaðir með skammtímalánum eða okurlánum eins og þau voru einu sinni kölluð. Ávísanakeðjur og víxlar með afföllum eru góð dæmi um það. Áður fyrr voru ríkisbankar þó íhaldssamir og fjármögnuðu sig einkum með langtímalánum. Með einkavæðingunni og fjármálabólunni breyttist þetta. Fín nöfn voru fundin upp fyrir það sem áður var litið niður á. Endurfjármögnun skyldi það heita en var auðvitað ekkert annað en það að velta vandanum á undan sér.

Okurlánin eru hlý
en ekki kostur góður.
Kemur núna kannski því
kreppulánasjóður?

Óknattspyrnufróður útlendingur sem mundi kynna sér íslenska menningu og fjölmiðlun kæmist fljótt að raun um að Liverpool og Mancheseter United væru íslensk knattspyrnufélög. Margir Íslendingar vita þó betur. Íþróttafréttamenn samsama sig gjarnan þessum félögum og flytja fréttir af þeim reglulega og gengi þeirra í Evrópukeppnum allskonar er flestu öðru mikilvægara.


875 - Hagar

Það ætlar að fara eins og mig grunaði. Haga-málið verður mál málanna. Rifist verður um það fyrir dómstólum næstu árin og úrslit þess eru engan vegin ljós. Ég vil ekki blanda mér um of í þau mál en bendi bara á að meðan Morgunblaðið og stjórnarandstaðan hamast gegn Jóni Ásgeiri hafa hinir auðmennirnir betri frið.

Fátt nýtt kemur fram um hrunsmál þessa dagana og er eins og allir bíði eftir skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og reynt er að beina athygli allra að henni. Eflaust verður hún merkileg en ég hef enga trú á að hún verði einhver lokapunktur á þessum málum. Fremur verður hún upphafið að nýjum kafla.

Málfar í fjölmiðlum hefur verið nokkuð í umræðunni undanfarið í tilefni af svokölluðum degi íslenskrar tungu. Ég er nokkuð ánægður með þá íslensku sem ég skrifa og eflaust eru flestir sem skrifa eitthvað að ráði ánægðir með sinn hlut. Vandséð er þó hvernig þeir sem verst skrifa komast að þeirri niðurstöðu. Líklega eru skrif þeirra aldrei gagnrýnd. Það er vissulega þörf á að gagnrýna málnotkun margra bloggara en samtök virðast vera um að gera það ekki heldur láta sniðgöngu nægja.

Fjölmiðlar þurfa þó mjög á gagnrýni að halda og sú gagnrýni sem til dæmis Eiður Guðnason heldur uppi er mjög mikilvæg. Margir agnúast út í smámunasemi hans og skapvonsku en það er óþarfi. Engin leið er að gagnrýna málfar fjölmiðla á jákvæðan hátt. Gagnrýni á málfar helstu fjölmiðla er mjög áberandi meðal bloggara og er það engin furða. Fjölmiðlar virðast hættir öllum prófarkalestri og málfar þar versnar stöðugt. Bloggarar verða því að taka upp þráðinn og þar er Eiður langbestur meðal Moggabloggara.

Því fer fjarri að ég skilji allar þær aðsóknartölur sem haldið er að okkur hér á Moggablogginu. Eitt af því sem ég er orðinn útfarinn í að fikta í á blogg-stjórnborðinu er hvort slíkar upplýsingar eru úti eða inni. Einnig að setja inn á bloggið mitt fjölda daga til jóla. Gleymdi reyndar að fjarlægja þær upplýsingar í tíma um síðustu jól.

Nú er ég búinn að finna nýja ástæðu til að hafa þessar upplýsingar útivið. Þar er talan um flettingar frá upphafi mun hærri. Nefnilega 380.658 í stað 304.277. Þarna er um talsverðan mun að ræða og rétt að auglýsa hann.

Horfði svolítið á þingfund í sjónvarpinu áðan. Athyglisvert hve flestir þingmenn nýta vel þann ræðutíma sem þeir hafa. Þó ekki sé nema um einfalda fyrirspurn að ræða sem vel væri hægt að bera fram á fáeinum sekúndum vanda þeir sig mikið við að tala sem mest í kringum hlutina svo ræðutíminn nýtist allur. Skömm að þessu.


874 - Kreppan

Hvort fer mannkyninu fram eður ei? Mér finnst svarið við þeirri spurningu skipta höfuðmáli í sambandi við öll trúarbrögð. Þau trúarbrögð sem ekki leggja áherslu á það góða í mannskepnunni eru einskis nýt. Svartagallsraus gerir ekkert annað en eitra andrúmsloftið. Ef nógu margir trúa því að allt sé að fara til fjandans fer það örugglega þangað. Erfiðleikar sem hellast yfir heila þjóð eru ekkert lamb að leika sér við. Þeir sem gera full mikið úr afleiðingum bankahrunsins eru samt fleiri en þeir sem gera of lítið úr þeim.

Fróðlegt er að reyna að gera sér grein fyrir afleiðingum hrunsins. Efnahagslegu afleiðingarnar verða áreiðanlega ekki eins miklar og margir vilja vera láta. Miklu verra er að gera sér grein fyrir öðrum afleiðingum. Þær geta þó orðið bæði miklar og langvarandi. Næstu áratugi verða allar breytingar taldar stafa af bankahruninu. Stjórnmál og stjórnum öll á landinu mun breytast. Aðild eða ekki aðild að ESB mun skipta miklu máli. Verulegur vafi er á hvernig það mál fer. Hrunið mun valda mikilli vinstrisveiflu í öllu pólitísku lífi. ESB gæti orðið raunhæfur millivegur milli hægri og vinstri.

Yfirleitt er setið lengur yfir tölvunni en æskilegt er. Mest er það vegna þess að maður hefur komið sér upp einhverjum heimskulegum rúnti af bloggum og öðrum óþarfa sem maður telur sér trú um að maður verði endilega að kíkja á. Ætli tölvufrí fari ekki að komast í tísku? Bráðum verður snobbað eins mikið fyrir Internetleysi eins og sjónvarpsleysi áður fyrr.

Mikið er rætt og ritað um fyrirhugað háskólasjúkrahús við Hringbrautina. Þó það hafi hafst í gegn að gera Hringbrautina að því viðundri sem hún er í dag er óþarfi að halda áfram með vitleysuna. Ekki er annað að sjá en til standi einnig að reisa samgöngumiðstöð á flugvellinum, grafa jarðgöng gegnum Öskjuhlíð, láta flugvöllinn vera áfram og stritast við að viðhalda miðbænum í Kvosinni.

Annars staðar í borginni er á sama tíma á undarlegan hátt bruðlað með pláss eins og vel má sjá á myndinni sem Sturla Snorrason birtir á bloggsíðu sinni á midborg.blog.is í blogg-grein sem hann nefnir „Dýrasti útkjálki á Íslandi."


873 - Mauraþúfan

Samfélög dýra þróast. Mauraþúfan bregst við aðstæðum án þess að nokkur sé stjórnandinn og án þess að einstaklingar innan hennar skilji ástæðuna eða hafi hugmynd um hana. Mannskepnan er ólík öðrum skepnum að því leyti að hún vill skilja allt mögulegt og verður jafnvel í öngum sínum ef það tekst ekki. Þetta með maurana kallast Darwinismi og er kannski tómur misskilningur eins og önnur trúarbrögð. Jafnvel rangur misskilningur.

Samfélög manna breytast líka og þróast. Þjóðríkið er líklega á undanhaldi. Sú hugmynd er ekki gömul að þjóðríkið sé einskonar ofur-fjölskylda. Samskipti fólks yfir landamæri aukast stöðugt. Það sem aðskilur fólk er miklu færra og áhrifaminna en það sem sameinar.

Ég vil ekki hætta mér lengra á þessari braut því það gæti kallað á heiftarlegar trúmáladeilur. Þær eru jafnvel verri en ESB-deilur því að þátttakendur finna jafnan sárt til þess að niðurstaða er engin og engum hefur snúist hugur.

Hvernig stendur á því að svona margir vilja lesa það sem ég skrifa? Ég hef enga skýringu fundið á því. Auðvitað finnst mér sjálfum að ég skrifi afar vel og hafi einstaklega heilbrigðar skoðanir. En af hverju ætti öðrum að finnast það líka? Svo er á það að líta að ekki skiptir minna máli um hvað er skrifað heldur en hvernig maður skrifar.

Ég skrifa náttúrulega mest um svonefndan Sæmundarhátt í bloggi. Það er að segja blogg um blogg. Annars reyni ég oftast að skrifa um nokkur efni hverju sinni. Líka blogga ég oftast nær daglega. Reyni að vera ekki mjög orðljótur. Svara oftast nær núorðið athugasemdum og svo framvegis. Auðvitað eru stjórnmálin mér alltaf ofarlega í huga. Reyni þó að láta þau ekki yfirskyggja allt annað. Reyni líka að bergmála ekki um of skoðanir annarra. Birti myndir öðru hvoru. Endurminningar líka þó það sé nú að verða æ sjaldgæfara.  


872 - Þjóðmál

Undanfarið hef ég verið að glugga í 2. hefti 5. árgangs af tímaritinu Þjóðmálum sem ég fékk lánað á bókasafninu um daginn. Já, ég veit að mér væri nær að lesa Herðubreið en ég les bara það sem verður á vegi mínum. Í þessu riti er meðal annars mynd af grein í Morgunblaðinu eftir mjög hárprúðan Davíð Oddsson (öllu verður nú að halda til haga). Já, að sjálfsögðu er það í grein eftir Hannes Hólmstein Gissurarson.

Allskyns hægri sinnaður áróður er mjög áberandi í blaðinu. Áróðurinn er sérlega magnaður í grein einni sem í orði kveðnu er dómur um bók sem kölluð er Múrbrot og er eftir því sem ég best veit úrval greina úr vefriti því sem kallað var Múrinn. Greinin er eftir mann sem heitir Vilhjálmur Eyþórsson og ég veit engin deili á. Niðurlag greinarinnar, sem er einkennandi fyrir hana alla, er svona:

MÚR-félagarnir, jámenn alræðisherra og hryðjuverkahópa, tilheyra síðari hópnum, eins og eyðniveiran. Þeir, án þess að gera sér grein fyrir því sjálfir, nota frelsið til að drepa frelsið.

Einhverntíma í miðri útrásinni tilkynnti Guðni Ágústsson, sem þá var landbúnaðarráðherra, að óvænt hefði rekið á fjörurnar hjá ráðuneyti sínu talsvert fé. Lagði hann til að byggðar yrðu fyrir þá peninga reiðhallir um allt land því þær bráðvantaði öðru fremur. Fyrir mér er þetta eitt eftirminnilegasta dæmið um útrásarbrjálæðið en ég er líka enginn hestamaður. Eflaust koma þessar hallir sér víða vel og hægt er að nota þær í ýmislegt.

Var um daginn að flækjast í köldu og hráslagalegu veðri úti á Álftanesi ekki langt frá Bessastöðum. Ekki get ég samt sagt að sá staður hafi inspírerað mig sérstaklega en af einhverjum ástæðum hljómaði eftirfarandi texti fram og aftur í höfðinu á mér. Mestmegnis er þetta stolið en líklega raðað saman öðru vísi en vanalegast er. „Steini Briem með sitt runurím" kann áreiðanlega að meta þetta:

Ár vas alda
í austan kalda.
Grísir gjalda
gömul svín valda

Aðalvandamálið við jólabólkaflóðið er auglýsingaóhroðinn í sjónvarpinu. Hann er að byrja núna og þó sumar auglýsingarnar séu þannig að skaðlaust sé að horfa á þær einu sinni verða þær fljótt óhemju leiðinlegar.


871 - Ungmennin og atvinnuleysið

Enn er rætt um ungmennin og atvinnuleysisbæturnar. Ég er alls ekki á móti því að gott eftirlit sé haft með því að ekki séu sviknar út bætur. En að ætla sér að taka hluta atvinnuleysisbóta af öllu fólki á vissum aldri er ótæk aðferð. Öðruvísi verður að vinna þetta mál. 

Ég geri dálítið af því að tefla hraðskákir á Netinu. Það er enginn vandi að finna einhverja sem vilja tefla og það er ágætt að dreifa huganum þannig þegar ekkert kallar að. Allir skákserverar gefa stig og ég vil yfirleitt heldur tefla niður fyrir mig í stigum en upp fyrir. Hef hugleitt hvers vegna það er. Aldurinn held ég að skipti mestu máli. Ég er alls ekki að þessu til að bæta mig heldur eingöngu mér til skemmtunar og það er miklu skemmtilegra að vinna en að tapa.

Eru það matsfyrirtækin umtöluðu sem ráða heiminum í dag? Verða allir að sitja og standa eins og þeir fátæku hjá Fitch Moody heimta? Hvaðan kemur þeim allt sitt vald? Eru það kannski bara Íslendingar sem taka mark á þeim? Ég vil gjarnan vita meira um þessi fyrirtæki.

Af Bjarna frænda og fleirum er ég kallaður ESB-sinni. Fyrir mér er það heiðurstitill sem ég er stoltur af. Í skilningi Hegels tel ég ESB vera syntesuna sem til varð við samruna kapítalismans og kommúnismans sem óhætt er að fullyrða að séu báðir dauðir. Bandaríki nútímans eru aftur á móti á glötunarleið því þar virðast stjórnvöld telja að kapítalisminn hafi sigrað kommúnismann og halda beri honum áfram hvað sem það kostar.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband