Bloggfærslur mánaðarins, desember 2007

211. - Áramót og jólasveinar

Allir sem þetta lesa fá bestu óskir um hamingjuríkt nýtt ár og þökk fyrir samskiptin á árinu sem er að líða.

Þetta er fyrsta heila árið sem liðið hefur síðan ég byrjaði að blogga. Mikil er sú speki sem ég hef sent frá mér á þessu ári - eða hittó. Mér finnst ég vera að bregðast svolítið þeim sem þó kíkja reglulega á bloggið mitt með því að skrifa sjaldan. Kannski er það tóm vitleysa. Kannski eru þeir bara fegnir. Ég reyni að hafa þetta frekar stutt núna.

Næsta ár verður vonandi gott bloggár. Ég veit ekki hvort Moggablogginu fer fram eða ekki. Að undanförnu finnst mér svolítið hafa dregið af því. Kannski er það bara útaf hátíðunum. Fólk hefur svo mikið að gera.

Bjarni er með áhugavert blogg sem hann kallar jólasveinablogg. Hér er linkur á það. Ég man eftir þessum jólasveinaleik og ég man líka eftir því að hafa einu sinni leikið jólasvein fyrir þá bræður Atla og Bjarna Harðarsyni þegar þeir voru litlir og áttu heima í Bræðraborg í Hveragerði. Ekki man ég þó hvenær ég hætti sjálfur að trúa á jólasveina. Ég held að við höfum lítið séð af þeim á Bláfelli og áreiðanlega var þessi „draslískó" siður ekki við lýði þá. Helst man ég eftir jólasveinum á jólaböllum og þeir voru bara skrýtir kallar í skrýtnum búningum.

Merkilegt hvað ég er alltaf upptekinn af Sigurði Þór Guðjónssyni. Þó kommenta ég sjaldan á bloggið hans. Sem betur fer er hann byrjaður að blogga aftur. Þó hann hafi mestan áhuga á veðurpælingum þá finnst mér nú annað sem hann skrifar áhugaverðara. Um daginn gerði hann t.d. eftirfarandi jáningu: "Mali er mikill. Og ég er húsbóndi hans." Siggi er þá væntanlega meiri en mikill, en förum ekki nánar út í það.

Svo eru trúmálapælingar hans oft mjög góðar. Um daginn var hann eitthvað að skrifa um grein í Mogganum og æsti menn svo upp að kommentin á þá grein voru komin á annað hundrað síðast þegar ég vissi. Ég nennti nú ekki að lesa öll þau ósköp en las þetta þó með talsverðum áhuga framan af. Jón Valur Jensson hafði skrifað langflest kommentin. Sum alveg óralöng. Ég verð að segja að eftir því sem ég les meira eftir Jón Val Jensson því minna þykir mér til málflutnings hans koma. Framan af þótti mér hann oft vel að sér og rökfastur. Nú finnst mér hann bara leiðinlegur. Andstæðingar hans eru margir skelfing orðljótir og langorðir, en Sigurður Þór finnst mér alltaf standa fyrir sínu. Hann gerði margar tilraunir til að þrengja umræðurnar í kommentunum en árangurslaust. Aðallega fóru menn útum víðan völl eins og oft gerist í trúmálaumræðum.

Ef þetta á að vera stutt verð ég að hætta núna. Skrifa kannski aftur snemma á næsta ári.

Gleðilegt ár.


210. - Bloggfréttir og fréttablogg

Áfram held ég að láta ljós mitt skína.

Meðan einhverjir lesa þetta, er engin ástæða til að hætta. Svolítið er þetta gloppóttara en verið hefur. Samt er nóg til að skrifa um. Fáeinar jólabækur er ég búinn að lesa, en vil ekkert vera að ræða um þær hér, því einhverjir lesendur kunna að eiga eftir að lesa sömu bækur og ekki vil ég eyðileggja fyrir þeim.

Á mbl.is stendur í einhverri frétt að Pervez Musharaf hafi verið að vinna að því að koma á lýðræði í Pakistan í mörg ár. Það er enginn fyrirvari á þessu, þannig að greinilega er þetta skoðun Morgunblaðsins. Musharaf er eflaust sjálfur á sömu skoðun og líklega fáanlegur til að vinna að þessu í nokkra áratugi í viðbót, þannig að þeir Morgunblaðsmenn ættu að geta sofið rólegir. Verst ef það eru margir á annarri skoðun.

Íranir eru sagðir hættir allri úra-nauðgun, svo nú geta úrsmiðir þar verið rólegir. Þetta er svona fimmaurabrandari að hætti Hallgríms Helgasonar og Sverris Stormskers. Þeir hrúga bröndurum af þessu tagi stundum í tugatali á sömu blaðsíðuna, en ekki er ég fær um það.

Nú keppast allir við að lýsa jólagjöfunum sínum og ekki ætla ég að láta mitt eftir liggja í því. Í staðinn fyrir að telja upp hvað ég fékk um þessi jól er ég meira að velta fyrir mér eftir hvaða jólagjöfum ég man frá því í eldgamla daga. Í allmörg ár fékk ég bækur um Tom Swift og Bláu bækurnar svokölluðu. Af þeim síðarnefndu man ég einkum eftir bókum sem hétu „Gunnar og leynifélagið" og „Sigmundur og kappar Karls konungs". Ég man að sú síðarnefnda gerðist í grárri forneskju, því þessi Karl konungur var hinn franski Karlamangús sem uppi var fyrir meira en þúsund árum.

Ég man ekki eftir mörgum jólagjöfum en því betur eftir hlutum sem ég keypti sjálfur fyrir mína peninga, en ef til vill með einhverri hjálp frá öðrum. Þar man ég best eftir reiðhjóli af Royal gerð sem mér þótti afspyrnu flott og miklu betra en Möve druslurnar sem sumir létu sér nægja. Einnig keypti ég safn af fyrstu frímerkjum sem gefin voru út í Ghana sem þá var fyrsta og eina lýðræðisríkið í Afríku og undir stjórn Kwame Nkruma. Nú og svo keypti ég auðvitað seinna í félagi við Vigni bróðir Fólksvagninn X-374 af Gunnari í Álfafelli.

Jólasveinarnir hjá Áslaugu týna nú tölunni jafnt og þétt. Allt eftir forskriftinni. Nú hverfa þeir til fjalla í sömu röð og þeir komu. Og svo er hún farin að blogga a.m.k. svona öðru hvoru.

Einhvern tíma á næstunni ætla ég að blogga um hina mörgu og aðskiljanlegu bloggvini mína og aðra þá bloggara sem ég heimsæki reglulega. Þetta verður mikið prójekt því þegar að blogginu kemur á ég í erfitt með að vera stuttorður. Bloggið sem slíkt er mér endalaus uppspretta allskyns pælinga.


209. - Blogg og aumingja DV-ið

Jæja, þá eru þessi jól liðin að mestu leyti og ekki annað að gera en að bíða eftir áramótunum.

Meira hvað alltaf er til að góðgæti um jólin. Þetta er ekki normal að háma svona í sig allt það sem maður veit að er óhollt og fitandi.

150 þúsund krónur fær sá sem vill kaupa einhvern ákveðinn bíl og taka yfir lánin, sem á honum hvíla og nema semsagt meiru en bílverðinu. Þetta las ég einhvern staðar og trúi eins og nýju neti. Þegar upphæðin sem boðin er á þennan hátt er orðin jafnhá bílaláninu, fer ég að hugsa minn gang.

Alltaf er gaman að gúgla sjálfan sig og ég hvet þá fjölmörgu sem þetta lesa til að prófa það. Áreiðanlega kemur eitthvað á óvart. Kannski gera flestir þetta öðru hvoru og þá er þessi áskorum bara ómark.

Ég er alltaf dálítið upptekinn af því að hafa bloggin mín hæfilega löng. Lengdin skiptir máli. Ég get til dæmis ekki fengið af mér að skrifa langhunda á borð við það sem Hannes Hólmsteinn Gissurarson gerir reglulega. Líklega væri ég heldur ekki fær um það. Nei, ef bloggin mín eru ekki alltof löng, þá ímynda ég mér að fleiri lesi þau, því auðvitað vilja allir bloggarar hafa sem flesta lesendur. Betra er að láta sér detta eitthvað í hug á hverjum degi, en að teygja lopann sem lengst og tyggja það sama upp aftur og aftur með örlítið breyttu orðalagi.

Las nýlega Konungsbókina. Krimmann frá í fyrra eftir Arnald. Mér fannst hann fara ágætlega af stað og efnið er mér nokkuð hugleikið. Því miður fannst mér þessvegna að hann færi óþarflega ítarlega í sjálfsagða og einfalda hluti. Þegar á leið bókina fannst mér hún hins vegar leysast upp í tóma vitleysu. Í lokin var hún farina að minna á lélega ameríska spennumynd þar sem skot hlaupa úr byssum og í réttu mennina. Menn þola ótrúlegustu pínslir með bros á vör og bjargast alltaf á síðustu stundu.

Dómarar þessa lands virðast hafa mikla andúð á DV og dæma þeim í óhag ef þeir mögulega geta. Magnús, sem einu sinni var sjónvarpsstjóri á skjá einum fékk það t.d. dæmt sem meiðyrði að sjá mátti í fyrirsögn í DV sem var við hliðina á mynd af Magnúsi orðin „geðþekkur geðsjúklingur". Hvernig þetta geta verið meiðyrði er mér alveg hulið.


208. - Gleðileg jól, öllsömul

Ekki fá þeir sem lesa bloggið mitt reglulega frið þó nú sé aðfangadagur jóla. En ég reyni kannski að hafa þetta ekki óhóflega langt.

Nú sækir Mars að tunglinu óðfluga, (eins og óð fluga) eða var það tunglið sem sækir að Mars? Það er ekki oft sem maður fær að sjá svona sjónarspil á himninum, yfirleitt rigning og svoleiðis.

Las yfir frásögnina af Bjarna og Teit sem ég skrifaði fyrir nokkrum dögum og sé að ég hef lagt vitlaust saman. Auðvitað gerðist þetta árið 1981 og rigningartíðin núna undanfarið fellur alveg inn í þetta spádómsmunstur. Afsakið.

Horfði á spurningaþátt um daginn þar sem Hveragerði og Garðabær kepptu. Minn gamli fæðingarbær tapaði að vísu en við því er ekkert að gera. Athyglisvert fannst mér að í valflokkunum var eitt valið Matrix og var þar átt við samnefnda kvikmynd eða kvikmyndir. Engir gátu svarað neinum að þeim spurningum sem þar voru í boði og ekki hefði ég getað það. Aumingja spurningahöfundurinn hlýtur að hafa verið farinn að halda að hann væri sá eini sem hefði áhuga á þessari kvikmynd.

Áður fyrr var miklu meira um að vera á Þorláksmessu í Reykjavík. Nú eru menn bara rólegir og keppast við að eyða sem mestum peningum. Ég man t.d. eftir að hafa verðið í Austurstræti fyrir tíð allra Kringlna og Smáralinda. Þá var bílaumferð bönnuð, en samt var allt yfirfullt af fólki í götunni, fyllirí og læti. Sprengjur sprungu (kínverjar og rakettur) og það var eins gott að verða ekki fyrir einhverju slíku. Engir meiddust þó held ég.

Þetta gæti hafa verið um svipað leyti og Þorláksmessuslagurinn var (1968?) eða þegar hent var eggjum og allskyns rusli í rússneska sendiráðið í Garðastræti (Tékkneska vorið - Dubcech og Co). Þá sá ég lögregluþjón missa alveg stjórn á skapi sínu og ráðast að fólki sveiflandi kylfunni af offorsi í kringum sig. Sem betur fer var hann stöðvaður áður en í óefni var komið.


207. - Stafsetning, lesblinda og fleira

Jæja, nú fer daginn að lengja aftur.

Það verður ekki dimmara en þetta og þó daginn lengi afar hægt í byrjun, er vel hægt að fara að láta sig hlakka til vorsins, svona þegar jólaglaumnum linnir.

Skiptir stafsetning í rauninni nokkru máli? spyr Harpa Hreinsdóttir í sínu bloggi um daginn.

Þetta er mikilvæg spurning. Margir telja stafsetningu í rauninni engu máli skipta. Áður fyrr var þetta bara aðferð til greina nemendur í gáfaða nemendur og minna gáfaða. Nemendurnir sjálfir (altsvo þeir gáfuðu) gengust upp í þessu og í skólastarfi var farið að láta þetta skipta meira og meira máli.

Nútildags er þetta farið að valda því að ritað mál er óvinsælla en það þyrfti að vera. Auðvitað fengu þeir nemendur sem voru stimplaðir lélegir í stafsetningu smám saman andúð á því að skrifa, jafnvel minnimáttarkennd, sem auðvitað var hinn leyndi tilgangur með öllu saman.

Annars er þetta minna vandamál í íslensku en til dæmis í ensku. Íslensk stafsetning er ekki flókin. Eftir að setan var afnumin í opinberu máli er þetta eiginlega ósköp einfalt og líkt framburði. Helst að ypsilonið geti þvælst fyrir fólki. Ég er þó svo heppinn að mér hefur alltaf þótt ypsilon reglurnar einfaldar og auðskildar og þar að auki hef ég sæmilegt sjónminni á ritað mál.

Sumir virðast halda að það séu til einhverjar reglur um það hvernig eigi að skrifa. Hvaða réttritun sé sú eina rétta. Það eru alls engar reglur til um þetta. Í rauninni má hver maður stafsetja eins og honum sýnist. Það er bara betra að aðrir skilji hvað átt er við. Til þess er ágætt að hafa einhverjar reglur. Þannig hljóta stafsetningarreglur að vera hugsaðar upphaflega. Að fara síðan að nota þessar reglur til þess greina fólk eftir í mismunandi flokka, er alveg út í hött.

Stafsetning hefur ekkert með blogg að gera. Ég tek eftir því að fólk sem áður fyrr hefði verið stimplað sem mjög fákunnandi í stafsetningu bloggar af krafti. Það að koma hugsun sinni skipulega á framfæri í rituðu máli er allt annað en stafsetning. Stafsetning er bara tækni sem menn hafa mismunandi gott vald á. Skipuleg hugsun er síðan annað mál og skáldleg hugsun enn annað.

Harpa skrifar líka um lesblindu í blogginu sínu. Mér hefur alltaf þótt sú kenning að lesblinda sé ekki til, dálítið athyglisverð, þó hún sé líklega röng. Sagt er að fólki gangi bara misvel að tileinka sér þá tækni sem nota þarf við lestur. Skólinn geri síðan ráð fyrir að allir séu búnir að læra að lesa við ákveðinn aldur. Afleiðingin verði svo sú, að talsverður fjöldi nemenda sem eigi í erfiðleikum með að tileinka sér þessa einu réttu lestrartækni, lendi í sívaxandi erfiðleikum.

Mikið er óskapast útaf troðningi og æsingi í fólki í kringlum, lindum og laugavegum þessa lands núna síðustu dagana fyrir jól. Merkilegt er að það eru ávallt allir hinir sem eru yfir sig stressaðir, en ekki þeir sem um málið skrifa. Mér leiðist þetta tilstand, en reyni að stressa mig svolítið upp, til að falla í hópinn.

Áður fyrr tíðkaðist ekki að fyrirtæki gæfu starfsfólki sínu jólagjafir. Nú er svo komið að kjöt, vín, ostar, kerti, körfur og allskyns dót sem frammámenn fyrirtækja álíta að henti sæmilega að gefa mörgum, eru meðal vinsælustu og útbreiddustu jólagjafa.

Samkvæmt fréttum í kvöld virðist stóra þvagleggsmálið á leiðinni í fréttirnar aftur. Lögreglan á Selfossi er nú tekin við af Lögreglunni á Blönduósi, sem helsti skelfir landsins. Allt er þetta þvagleggsmál hið undarlegasta og það eru svo margir búnir að tjá sig um þetta mál, að vel mætti skrifa um það margar bækur. Ætli ég sé nokkuð að fjölyrða meira um þetta.


206. - Villandi fyrirsögn

Nei, ég á ekki við þessa fyrirsögn heldur þá frá því í gær um dóphausana og morðingjana.

Það var ekki minnst á þá fyrr en í lok færslunnar og þá var það bara þetta venjulega argaþras út í fréttir hjá mér.

Margt er mjög gott í málflutningi feminista. Þeim hættir þó dálítið til að fara yfir strikið og gefa höggstað á sér. Dæmi um það er nýjasta deilumálið. Jólakort eða jólaósk frá þeim var með textanum: "Askasleikir óskar sér að karlar hætti að nauðga". Skelfing klaufalega orðað og jafnvel þó orðalagið hefði  verið skárra þó er þetta lélegur jólaboðskapur.

Og enn eitt dómaraheykslið. Það er eins og reynt sé að láta svona mál  alltaf koma upp rétt fyrir jól. Þá er minni hætta á að menn nenni að rövla mikið. Mál sem snerta samskipti hinna þriggja greina ríkisvaldsins eru og verða alltaf vandmeðfarin. Mest vorkenni ég Þorsteini Davíðssyni að lenda í þessum fjanda. Ég veit það eitt um hann  að hann er ágætur skákmaður og sonur Davíðs Oddssonar.

Ekki veit ég hvort Sirrý Sig nennir að lesa bloggið mitt en nú er hún orðin bloggvinur minn. Upphaflega hreifst ég af sögunni um Jens og Co. og eftir að kaflarnir úr henni fóru að strjálast hef ég ekki lesið bloggið hennar reglulega.

Ég sé nú til hvers má nota færsluflokkana og hef litið á nýjasta kaflann af sögunni um Jens. Þetta gengur bara svo voðalega hægt. Ég er vanur að lesa bækur hægt, en þetta gengur hægar en ég á að venjast. Kannski er sagan bara ekki komin lengra en þetta. Mér finnst þó andrúmsloftið í sögunni vera svo raunverulegt að ég gleypi í mig hvern nýjan kafla.

Og sem ég tala um sögur eftir aðra þá dettur mér í hug að ég gæti sett hér eina sjálfur.

Þetta gerðist í Borgarnesi árið 1982. Bjarni sonur minn sem þá var 17 ára var að vinna við timburflokkun með Teiti gamla sem búinn var að vinna hjá Kaupfélagi Borgfirðinga í marga áratugi.

Sagt var um Teit að hann treysti Kaupfélaginu eins vel og sjálfum sér. Sem dæmi um það var nefnt að hann innleysti aldrei launaávísanir sínar, nema hann þyrfti nauðsynlega á peningunum að halda, sem var sjaldan. Heima hjá honum voru gamlar launaávísanir sagðar á víð og dreif um allt húsið.

Vætusamt var þetta sumar og einhvern tíma voru þeir Bjarni og Teitur að bollaleggja eitthvað um veðrið.

"Þetta er bara næstum því eins og 1968. Var ekki rigingasamt þá?", sagði Bjarni.

Teitur: "1968? Jú, einmitt. Þá rigndi heil ósköp. Var alltaf sífelld rigning. Ég man vel eftir því.

Bjarni: "Já, einmitt. Svo var líka mjög vætusamt sumarið 1955. Var það ekki?

Teitur: "1955? Jú, jú. Það var einmitt rigningarsumarið mikla. Ég held það nú. Það þornaði varla á steini allt sumarið. Ég man vel eftir því. Heyskapur gekk alveg hrikalega illa þetta sumar. Um allt land held ég bara. Já, það rigndi svo sannarlega sumarið 1955.

Bjarni: "Já, var það ekki. Svo rigndi líka mikið sumarið 1942.

Teitur: "1942? Ha? Nú verð ég að hugsa mig aðeins um. Assgoti ert þú minnugur á svonalagað. Ha? Nei, nú er ég svo aldeilis... Þú getur ekkert munað hvernig veðrið var árið 1942. Huh.

Þegar Bjarni sagði frá þessu sagðist hann bara hafa heyrt talað um rigningasumarið 1955 og vegna þess að mismunurinn á 1955 og 1982 var margfeldi af 13 hefði hann bara prófað að draga þá tölu í sífellu frá ártalinu sem talað var um.

Næsta margfeldi af 13 er 2008 svo rigningartíðin núna er einginlega ómark.

Hér er frábær mynd og hún þolir talsverða stækkun, ef fólk hefur áhuga á því. (Bara klikka aftur og aftur) Mynd þessi er ættuð frá Sigga í Fagrahvammi og greinilega tekin þar. Umhverfið virkar mjög kunnuglegt. Ég man vel eftir íbúðarhúsinu í Fagrahvammi sem sést til vinstri á myndinni. Hægra megin glittir líka í Bygginguna uppi á Reykjum. Því miður þekki ég fáa á þessari mynd. Karlmaðurinn í miðjunni fremst er þó greinilega Paul V. Michelsen eða Palli Mikk eins og hann var venjulega kallaður. Mér er sagt að hægra megin við hann sé Inga Wium. Sjálfum finnst mér ekki útilokað að litli strákurinn sem stendur þar sem hraukurinn er hæstur sé Siggi Ingimars. Stelpan sem stendur aftast í röðinni og er með handlegginn beint fyrir ofan Bygginguna á Reykjum finnst mér vel geta verið Tóta systir Sigga. Aðra þekki ég bara ekki og vildi gjarnan vera látinn vita af því í kommentum hér, ef fólk þekkir einhverja þarna.


205. - Dóphausar í Borgarnesi og morðingjar í Keflavík

Mikið er rifist þessa dagana um það hvort rétt sé að leyfa auglýsingar inni í áramótaskaupinu eða ekki. Líklega hefur engin auglýsing á Íslandi hlotið aðra eins auglýsingu fyrirfram!!!

Ég man að á sínum tíma var líka rifist um það hvort kalla ætti skaupið skaup. Þá var þetta fremur sjaldgæft orð og fáir sem þekktu merkingu þess. Það varð þó ofan á að leyfa aðstandendum skaupsins þessa sérvisku.

Spurningin um hvort leyfa skuli auglýsingu inni í skaupinu eða ekki er eiginlega á síðasta snúningi. Áhorfendum að skaupinu fer óðum fækkandi og ekki líður á löngu þar til fáir nenna að horfa á þetta nema í endursýningum eða á Netinu. Þá verður væntanlega auðvelt fyrir þá sem ekki vilja sjá auglýsingarfjandann, að komast hjá því.

Ef auglýsingar pirra hafa þær öfug áhrif og það er engum til góðs að þvinga fólk til að horfa á þær. Ríkisútvarpið er líka annað hvort í samkeppni eða ekki. Vitanlega ætti það ekki að vera á auglýsingamarkaðnum. Það er alltof  fyrirferðarmikið þar.

Fór í dag útá Kleppsveg að ná í jólagjafir frá Bjarna, en hann hafði sent þær með manni sem var á leið til Íslands og kom hingað í morgun. Ég var svoltila stund að finna rétta húsnúmerið, en allt fór þetta vel að lokum.

Mannréttindadómstóll Evrópu hefur komist að þeirri niðurstöðu að Hæstiréttur Íslands hafi kveðið upp rangan dóm í ákveðnu máli. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem slíkt skeður. Flestallt sem áunnist hefur í mannréttindamálum hér á landi undanfarna áratugi hefur komið að utan. Það er grunnt  á fasistiskum tilhneygingum hjá íslenskum stjórnvöldum.

Samkvæmt fréttum á Stöð 2 eru flestir dóphausarnir í Borgarnesi, kynferðisafbrotamennirnir á Akranesi og morðingjarnir í Keflavík. Þetta er samkvæmt einhverri skýrslunefnunni sem fréttafólki þykir svo gaman að skoða.

Lóa Pind, sem flutti þessa frétt, tók reyndar fram að það væri ekkert að marka hana. Eini tilgangur fréttastofunnar með þessu rugli er að fylla uppí eitthvert fyrirfram gefið tímamunstur með efni sem mögulegt er að einhverjir taki alvarlega. Ég fer að halda að fréttastofa Stöðvar 2 sé á síðustu metrunum.

Hér koma tvær myndir sem Siggi í Fagrahvammi lét Bjössa fá til skönnunar.

Þessi mynd er frá Hveragerði. Núpafjall er í baksýn. Myndin er sögð tekin nokkurn vegin frá þeim stað þar sem nú er Grunnskólinn í Hveragerði. Ekki man ég eftir Hveragerði svona útlítandi. Ég man þó eftir að hafa farið með kaffiflösku í sokk til pabba, sem þá var ásamt öðrum að byggja það sem þá var kallað nýji barnaskólinn til aðgreiningar frá gamla barnaskólanum sem var svolítið vestar og nær hótelinu.

 

 

Þetta er gömul mynd af Fagrahvammi. Ég man ekki eftir þeim stað svona, en það fer ekkert á milli mála að þetta er Fagrihvammur. Reykjafjallið og Ingólfsfjallið í baksýn taka af allan vafa um það.


204. - Er Sigurður Þór hættur, eða hættur við að hætta?

Bloggskrif og allt sem þeim tengist er mér hugleikið þessa dagana. Orðræðan þar er mög óvægin. Sumum bregður í brún þegar þeir sjá þar í fyrsta sinn umfjöllun um sjálfa sig eða málefni sem þeir bera fyrir brjósti.

Hvað er sameiginlegt með bloggi og hefðbundnum fjölmiðlum og hvað aðgreinir þessa miðla? Þessu er nauðsynlegt að velta fyrir sér og ekki má láta þessa nýtilkomnu skriftaráráttu verða til bölvunar. Þetta er þvert á móti tækifæri sem sjálfsagt er að nota. Baráttan um lesendurna er þó mjög hörð. En auðvitað er líka lafhægt að skrifa þó engir lesi.

Með tilkomu Moggabloggsins hefur umræðan á blogginu breyst verulega. Áður var þetta einkum menntamannafyrirbæri og besservisserar af ýmsum toga áttu þar góða spretti. Með því að gera bloggskrif eins einföld og að snýta sér, tókst Morgunblaðinu að skapa alveg nýtt fyrirbrigði.

Bloggið er mjög áleitinn miðill. Þeim sem það lesa fjölgar stöðug og skribentar af öllu tagi blogga af miklum krafti. Sumir af litlum efnum og enn minni metnaði, en margir prýðilegir pennar eru þarna innan um og saman við. Ekki ná þó allir mikilli athygli, enda gerir það ekkert til.

Hvatirnar að bloggskrifum eru misjafnar. Sumir eru bara að þessu fyrir nánustu ættingja og einkum til að spara sér að skrifa mörg bréf um sama efni. Aðrir leggja sig fram um að skrifa sem mest og af sem mestri íþrótt. Blogglesendum er nokkur vandi á höndum. Bloggin eru orðin svo mörg að ekki er vinnandi vegur að fylgjast með öllu sem þar er skrifað.

Með kommentakerfum myndast samspil milli bloggara og lesenda og af því getur margt gott komið. Einkahúmor og aulafyndni eiga líka greiðan aðgang bæði að kommentum og bloggum, en vandalaust er að leiða það hjá sér sem manni líkar ekki og ástæðulaust að hneykslast á því sem aðrir skrifa.

Einn er sá maður sem alltaf bloggar nauðugur og hefur margoft lýst því yfir að hann sé hættur þessari vitleysu. Þessi maður er Sigurður Þór Guðjónsson. Ég er einn af þeim sem ævinlega les bloggið hans, ef hann bloggar á annað borð. Hann hefur nokkrum sinnum hætt og einu sinni var hann með bloggóvinalista svona til jafnvægis við alla bloggvinina. Svo er hann að henda mönnum af bloggvinalistanum og taka inn aftur. Já, Sigurður er mikið ólíkindatól, en það er gaman að honum. Nú segist hann vera meira hættur en venjulega, en muni þó blogga eitthvað um veður. Sjáum til.

Hrafn Jökulsson var góðbloggari hér á Moggablogginu fyrir nokkru. Svo flutti hann norður á Strandir og steinhætti að blogga. Ég held nú samt að tölvusamband sé við Árneshrepp þó afskekktur sé. Nú vill Hrafn byggja eina kirkjuna enn í Árneshreppi og eru þó tvær þar fyrir. Fjölmenni er ekki verulegt þarna norður við ysta haf. Sjálfum finnst mér að kirkjum í landinu mætti fremur fækka en fjölga. Einkum svíður mér ef sækja á fé til byggingarinnar í ríkissjóð. Söfnuðum sem sækja í kirkjufjöld ætti auðvitað að leyfast það, ef kostnaðurinn er ekki sóttur í vasa annarra.


203. - Endemis rugl er þetta

Var að enda við að hlusta á fréttirnar á Stöð 2. Þar var meðal annars verið að tala um að musterisriddarar hafi falið fjársjóð á Kili.

Þvílíkt ekkisen rugl. Svo segja þeir fólki að sagt verði frá þessu í Kompási í kvöld. Ja, langt er nú gengið í því að auglýsa einn vesælan sjónvarpsþátt. Og þetta lætur fréttastjórinn yfir sig ganga. Aumur er Simmi eldhúsvaskur.... (þetta gæti verið upphaf að vísu - sjá blogg Kristjönu frá Stakkhamri)

Mikið er talað um að útlendingar frá Schengen svæðinu eigi auðvelt með að fremja afbrot hér og stinga svo af. Einkum er talað um Pólverja og fólk frá Eystrasaltslöndunum í þessu sambandi og býst ég við að þeir sem rekja ættir sínar á þær slóðir séu ákaflega þreyttir á ástandinu. Þetta er því miður bara önnur hliðin á peningnum. Hin hliðin er sú að útlendingar sem ekki, ég endurtek og undirstrika, ekki eru svo heppnir, að eiga heima í svokölluðum Schengen löndum eiga enn erfiðara með að komast til landsins, en áður var. Oft er talað um að Ísland sé galopið fyrir útlendingum af öllu tagi. Þetta er líklega að einhverju leyti rétt, ef þessir útlendingar eru frá Schengen svæðinu. Fyrir alla aðra (nema Bandaríkjamenn) er Ísland eitt af lokuðustu löndum í veröldinni.

fi yuo cna raed tihs, yuo hvae a sgtrane mnid too Cna yuo raed tihs? Olny 55 plepoe out of 100 can. i cdnuolt blveiee taht I cluod aulaclty uesdnatnrd waht I was rdanieg. The phaonmneal pweor of the hmuan mnid, aoccdrnig to a rscheearch at Cmabrigde Uinervtisy, it dseno't mtaetr in waht oerdr the ltteres in a wrod are, the olny iproamtnt tihng is taht the frsit and lsat ltteer be in the rghit pclae. The rset can be a taotl mses and you can sitll raed it whotuit a pboerlm. Tihs is bcuseae the huamn mnid deos not raed ervey lteter by istlef, but the wrod as a wlohe. Azanmig huh? yaeh and I awlyas tghuhot slpeling was ipmorantt! if you can raed tihs forwrad it

Fann þetta einhversstaðar á bloggi og stal því þar, því eftir því sem ég best get séð stendur í lokin, að ef maður geti lesið þetta, eigi maður að senda það áfram.

Fyrirsögnin á þessu bloggi er nokkuð góð hjá mér og ég gæti eflaust sett eitthvert musterisriddararugl hér og líklega yrði það lesið. Eru það fyrirsagnirnar sem leiða okkur um víðáttur Internetsins? Já kannski, og myndir af furðulegum hlutum. Ég nenni bara ekki að kopíera allar þær undarlegu myndir sem ég sé daglega, læt mér nægja gömlu myndirnar. Það eru líka alltaf einhverjir sem hafa áhuga á þeim.

Undarlegt með þessa orkuútrás og Sjálfgræðisflokkinn. Meirihlutinn í borginni er sprengdur en svo þegar samskonar mál kemur upp í sambandi við Landsvirkjun þá er enginn ágreiningur í flokknum um það að fara í þveröfuga átt. Stórir flokkar eiga miklu betra með að breiða yfir ágreining, sérstaklega ef þeir eru í landsstjórninni. Samfylkingin fitnar um þessar mundir eins og púkinn á fjósbitanum.

Hér held ég að séu Ómar Ragnarsson (sonur Unnar) lengst til vinstri, síðan Björgvin og loks Bjössi. Ómar og Bjössi eru að skoða eitthvað merkilegt í trékassanum, en ég veit ekki hvað Bjöggi er að gera.

 

 

 

 

 

Þetta held ég að sé Bjöggi. Líklega er öllum þessum púðum staflað í kringum hann svo hann velti ekki. Í baksýn er prýðileg mynd af Mel eins og hann var á þessum árum.


202. - Að þora eða þora ekki

Kannski ég reyni að blogga smá núna. Reyndar hef ég næsta lítið að segja. Djöfulsins læti í veðrinu einn ganginn enn. Mér leiðist jafnvel meira að hafa þessa eilífu rigningu með rokinu. Svei mér ef það væri ekki bara betra að hafa svolítinn snjó og frost.

Nú eru jólasveinarnir orðnir sjö hjá Áslaugu og ég hvet alla til að líta á síðuna hennar. Sums staðar eru athugasemdir sem allir geta lesið og jafnvel lagt sjálfir orð í belg, ef þeir mega missa eitt og eitt.

Mikið er fjargviðrast yfir því að menn þori ekki að segja skoðanir sínar opinberlega og fundið er að nafnlausum skrifum. Mest finnst mér náttúruverndarsinnar hafa sig í frammi útaf þessu og margir þeirra gefa hiklaust í skyn að flestallir sem ekki fylgja þeim að málum geri það vegna þess að þeir þori ekki að láta skoðanir sínar í ljós. Þetta finnst mér aumur málflutningur og ekki til sóma.

Nafnlaus skrif eru oft til mikillar bölvunar. Þau eru hinsvegar stundum nauðsynleg og alls ekki er hægt að banna þau með öllu. Þeir sem þau leyfa í útbreiddum fjölmiðlum verða þó að gæta mikils hófs. Þegar

Morgunblaðið leyfði ökumanni jeppabifreiðar sem lent hafði í árekstri að skýra sín sjónarmið í nafnlausu bréfi var gengið mjög langt.

Jens Guð sem svo kallar sig á Moggablogginu hafði haldið þvi fram á sínu bloggi að jeppabifreiðin hefði verið að reyna framúrakstur þegar slysið varð. Þetta gerði hann þó undir nafni og ökumaður jeppans hefði átt að svara honum fullum hálsi undir nafni líka.

Mér finnst náttúruverndarfólk oft vera afskaplega einstrengingslegt í skoðunum. Þegar Ómar Ragnarsson hélt því fram síðastliðið sumar, eftir að búið var að reisa Kárahnjúkastífluna, að best væri að hætta við að nota hana og flytja bara orku annars staðar frá til álverksmiðjunnar við Reyðarfjörð, það kostaði næstum ekkert og tæki enga stund, þá hætti ég alveg að hafa trú á skoðunum hans.

Ég man vel þann tíma þegar Svartar fjaðrir Davíðs Stefánssonar komu út. Bókin vakti miklu meiri athygli en ljóðabækur gera yfirleitt. Kannski var þetta reyndar bara einhver endurútgáfa í kiljuformi. Ég man samt vel að margir lásu þetta. Ég las Davíð ekki síður en aðrir. Í seinni tíð hefur mér fundist ljóð hans einkennast af því að hann lætur rímið stundum yrkja fyrir sig. Skáldskapurinn er ekki alltaf merikilegur. Hann má þó eiga það að ljóð hans skilja allir, en ekki er hægt að segja það sama um t.d. Jónas Hallgrímsson sem menn skilja ekki almennilega enn þann dag í dag og misskilja jafnvel stundum.

Þessi mynd er dálítið óskýr. Þarna eru greinilega þrjár skátastúlkur í sínum einkennisbúningum og myndin er tekin í Hveragerði laust eftir miðja síðustu öld. Sigrún Helgadóttir er lengst til vinstri, síðan Ingibjörg og sú til hægri var alltaf kölluð Dúa, en ég man eiginlega engin deili á henni önnur.

 

 

 

 

 

 

 

 

Þetta er Vignir. Einbeittur á svip og með snúinn fót.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband