Bloggfærslur mánaðarins, desember 2013

2096 - Share if you agree

Í mannkynssögutímunum hjá séra Helga Sveinssyni lærðum við í gamla daga að Cato hinn gamli (sem líklega var annaðhvort Rómverji eða Forn-Grikki) hafi jafnan endað allar sínar ræður á setningunni: „Auk þess legg ég til að Karþagó verði lögð í eyði“. Þetta er eitt af því fáa sem ég man úr mannkynssögutímunum í fornöld. Ekki veit ég hvort honum varð að þessari ósk sinni.

Stefán Pálsson, sem útnefndi sig sjálfur ofurbloggara númer eitt á sínum tíma, var mikill andstæðingur Moggabloggsins, þegar það reis upp í öllu sínu veldi, og ákvað af bloggarayfirburðum sínum að hallmæla því í hverjum einasta bloggpistli. Þessu hélt hann áfram lengi vel og að lokum lýsti hann því yfir að Moggabloggið væri dautt og þessvegna gæti hann hætt þessu. Ef sýslumannsnefnan á Selfossi færi allt í einu að svara bréfum sem til hans eru send þá mundi sennilega fara líkt fyrir mér og Stefáni Pálssyni.

Þó ég sé hvorki að líkja mér við Cato eða Stefán þá er ég nefnilega í rauninni dottinn í sama pyttinn. Ég get illa bloggað nema minnast á Ásgautsstaðamálið og því geri ég það hérmeð. Hreppsnefnd Stokkseyrarhrepps og seinna meir Bæjarstjórn Árborgar hafa nýtt og selt sem byggingarland hluta af jörðinni Ásgautsstaðir án þess að hafa til þess nokkurt leyfi. Þetta hefur gerst með vilja og aðstoð allra yfirvalda á svæðinu. Þannig er reyndar alltaf reynt að hafa þá undir sem ekki vilja þýðast með góðu embættismenn á Íslandi. Læt ég svo lokið þessum kafla bloggsins.

Share if you agree. Ef maður sérar semsagt ekki hvaða vitleysu sem er þá er maður ekki sammála ruglinu. Mér finnst öruggara að haga sér þannig. Þá getur maður jafnvel sleppt því að lesa þessi skilti (aðallega á ensku) sem eru vaðandi um allt. Á maður líka að séra nítugasta og fjórða skiltið sem maður fær og er alveg eins og hin 93? Þetta var fésbókarspakmæli dagsins. Og hvar enda öll þessi sér?

Ég ætla mér ekkert að fjalla um kjör íþróttamanns ársins, en get þó ekki látið hjá líða að benda á að þessi árlegi atburður lýsir íþróttafréttamönnum fjölmiðlanna, sem standa fyrir þessum atburði, betur en íþróttamönnunum sjálfum. Þessvegna er því haldið áfram.

Ef bornar eru saman núverandi ríkisstjórn og sú síðasta verður samanburðurinn þeirri núverandi hagstæður að því leyti að betur er stjórnað og stjórnarandstaðan er ekki eins ófyrirleitin og deilurnar milli ríkisstjórnarflokkanna eins hatrammar og áður. Þetta kann þó allt að breytast. Stuðningur almennings við þá núverandi er alls ekki eins mikill og sumir vilja vera láta. Stjórarandstaðan er bara ekki nærri eins skipulögð og svæsin og sú fyrrverandi var.

T.d. fer stuðningur við Evrópusambandið vaxandi og á áreiðanlega eftir að valda núverandi ríkisstjórn vandræðum, einkum vegna þess að hún treysti sér ekki til að taka það mál föstum tökum frá upphafi. Sambandið við nágrannaþjóðirnar skiptir okkur Íslendinga miklu máli. Það á núverandi ríkisstjórn eftir að finna áþreifanlega. Samvinna og allskyns blokkamyndun er einfaldlega krafa dagsins í utanríkismálum. Að láta utanríkisráðherra, sem margir vantreysta, ráða því hvernig rætt er um svo mikilvægt mál sem ESB-aðild er ekki við hæfi. Þjóðaratkvæðagreiðsla um það mál er þjóðarnauðsyn. En um hvað á að spyrja? Ef bara er spurt um hvort halda skuli viðræðunum áfram er kannski verið að segja, ef það verður samþykkt,  að hvað sem er verði samþykkt að lokum. Ekki er það nógu gott. Ef framsókn hefur einhver áhrif haft í ESB-málinu þá hefur hún gert það mun flóknara en það þó var.

Stjórnarskrármálið sem fyrrverandi ríkisstjórn virtist hafa talsverðan áhuga fyrir er sennilega dautt og grafið. Áfram verður samt haldið við ýmsar þæfingar þar og reynt að láta líta svo út að hugur fylgi máli. Ekki er annað að sjá en gamla stjórnarskráin haldi þó áfram gildi sínu. E.t.v. með smálagfæringum.

Jólasnjórinn mætti alveg fara að missa sig. Veðurfarslega eru mestar líkur á asahláku á næstunni þó vissulega sé veðrið hið mesta ólíkindatól. Frost og fannkoma er samt orðin alveg nóg hér á Reykjavíkursvæðinu þó aðrir landsmenn megi mín vegna hafa snjó svolítið lengur.

Ekkert stendur óhaggað að eilífu. Ekki einu sinni eilífðin sjálf. Gott ef hún er ekki sífellt að styttast. Hvað gerðist t.d. fyrir Miklahvell? Bara hugmynd sem vel mætti velta fyrir sér innanum allar ármótasprengingarnar.

Í dag er Þorláksmessa gamlársdags. Þ.e.a.s. aðfangadagur hans. Hann er svo aftur á móti aðfangadagur nýjársdags. Flókið? Ekki finnst mér það, en svona verða krakkar að læra þetta. Svo er ekki einu sinni hægt að halda því fram að þetta sé fróðleikur sem er einhvers virði. Sennilega á ekki að ryksuga þá þó ég hafi neyðst til þess vegna eindreginna óska þar um. Ryksugan lætur nefnilega eins og það sé brjálaður geitungur þar innanborðs. Jæja, látum það vera.

IMG 5435Sýning í ráðhúsinu.


2095 - Þrillerinn sem aldrei var skrifaður

Ekki verður betur séð en þjófarnir á Stokkseyri og Selfossi ætli að reyna að beita þeirri aldagömlu aðferð yfirstéttarinnar á Íslandi að þegja Ásgautsstaðamálið í hel og treysta því að þeir sem brotið hefur verið gegn hasist upp á því að halda fram sínum rétti. Oft er líka dýrt að halda slíku fram og óvíst um árangur. Ég vona bara að jólasteikin hafi staðið í þessu liði. Með tilkomu internetsins og almennri tölvukunnáttu er þessi þöggunaraðferð, sem betur fer, orðin mun erfiðari en áður var. Auðvitað er ekki víst að þó sannleikurinn sé leiddur óyggjandi í ljós að skörð komi í þagnarmúrinn. Dómstólar landsins ættu þó ekki að vera á bandi hinnar fámennu yfirmannaklíku. Dagblöð og Kastljós landsins álíta sig eflaust hafa merkilegri hnöppum að hneppa en sinna málum af þessu tagi. Ef ekki er almennur og illa lyktandi mannasaur eða milljarðafjöldi í spilinu er áhuginn afar lítill. Einfalt er þó að rannsaka þetta mál ítarlega því margir eru flæktir í það og auðvelt að sanna misferli yfirmannaklíkunnar.

Auðvitað er vel hægt að segja að jólasveinasögurnar séu bara ævintýri. Börn ráða því að sjálfsögðu hvort þau trúa þeim eða ekki. En skipulegar lygar eins og þetta með jólasveinana og skóna í gluggunum eru mjög skaðlegar. Það er svosem engin furða þó börn trúi þeim í lengstu lög. Beinn hagnaður getur af því hlotist. Sumir trúa þessum sögum lengur en aðrir og þar er það sem samband foreldra og barna getur verið í hættu. Erfitt er að segja hversvegna þessari skoðun var komið á kreik hér á Íslandi, svo óþörf sem hún er. Vel hefði mátt gleðja börnin á annan hátt í aðdraganda jólanna en með svona lygi. Furðulegt er líka að foreldar flestir taka þátt í þessari blekkingu. Oft hefur þetta eflaust litlar sem engar afleiðingar í för með sér en möguleikinn á slíku er ávallt fyrir hendi.

Læt ég svo þessum vanabundna reiðilestri mínum lokið og reyni að taka upp léttara hjal. Jákvæðni kostar lítið. Í versta falli verður maður að athlægi ef slíkt misheppnast algjörlega en stundum hitti maður naglann á höfðuðið og jákvæðnin hjálpar einhverjum þó maður fái kennski aldrei að vita af því.

Tunglið, rétt fyrir ofan ljósastaurinn og álíka bjart, endurvarpaði sterku skini sólarinnar á snjóinn allt í kringum staurinn og glitraði í blóðinu sem var útum allt. Hermóður tók fastar um rýtinginn sem var í hægri hendi hans og henti líkinu í stóran snjóskafl austan við ljósastaurinn. Að vísu var það bara af lítilli og saklausri rjúpu en blóðið hafði samt verið talsvert mikið. Hann setti rýtinginn varlega í hulstrið og tók upp haglabyssuna. Heppinn hafði hann verið að koma skoti á rjúpuvesalinginn og þó haglasúpan hefði bara rotað hana þá náði hann að grípa hana og aflífa með rýtingnum áður en hún kom til sjálfrar sín aftur.

Auðvitað var þetta með ljósastaurinn ekki til fyrirmyndar og hann hefði gjarnan viljað rekast á rjúpuna án þess að hafa hann sér við hlið. Ástæðulaust var þó að sleppa henni bara vegna þess að hún hafði verið svo að segja inni í miðjum bæ. Henni var nær að vera ekki að flækjast þarna. Kannski hafði skotið vakið einhverja í næsta húsi en hann gat ómögulega gert að því. Betra hefði samt verið að hann hefði rekist á hana svolítið sunnar, en þangað var einmitt för hans heitið að þessu sinni. Hann hafði keypt dýrum dómum af Ágústi frænda sínum leyfi til þess að skjóta fjórar rjúpuskammir í jólamatinn og þetta var sú fyrsta.

Sigurður hrökk upp við skotið. Hann hafði einmitt verið í miðri draumkuntu þegar skotið reið af. Verið að nálgast það að brunda, en ekki fengið frið til þess. Hann krossbölvaði í huganum og kíkti í fljótheitum útum gluggann. Draumkuntan hefði reyndar verið með besta móti og talsvert langt var síðan hann hafði fengið slíkt síðast. Dökkhærð fegurðardís hafði klifrað uppá hann og stungið tittlingnum á honum inn í píkuna á sér. Honum hafði staðið svo illilega að hann verkjaði í tittlinginnn og svo öflug var standpínan að hann sá móta fyrir tittlingnum og gatinu fremst á kóngnum í gegnum kviðinn á konunni. Skotið kom samt í veg fyrir fullnæginguna og þegar hann leit út sá hann blóð útum allt í snjónum í kringum ljósastaurinn.

Skyldi ég hafa séð tittlinginn á mér svona vel í gegnum kviðinn á konunni vegna birtunnar frá ljósastaurnum, hugsaði Sigurður og var ennþá á valdi draumsins. Það hafði einmitt verið eitt aðaleinkennið og það sem gerði þessa draumkuntu frábrugðna öllum öðrum, sem hann hafði fengið, að honum hafði fundist hann vera í sínu eigin rúmi við þessa reið.

Sigurður litaðist um. Já, það var ekki um að villast. Skoti hafði verið hleypt af og það var blóð í snjónum. Einnig var talsvert traðk í kringum staurinn og Sigurður fór strax að hugsa um hvernig í ósköpuum lögreglan færi eiginlega að því að taka mót af fótaförum í snjó.

Þannig byrjaði (eða hefði getað byrjað) þrillerinn sem ég ætlaði að semja fyrir þessi jól, en kom aldrei í verk. Haglabyssuræfilinn fékk ég léðan hjá Steingrími í Múlakoti. Rýtinginn (sem var finnskur) átti ég sjálfur og hafði fengið að gjöf frá Sigurgeiri í Neðra-Nesi fyrir ævalöngu. Reyndar er ekki rétt að segja að ég hefði fengið hann að gjöf því Sigurgeir var svo hjátrúarfullur að hann hafði heimtað tuttuguogfimmaura fyrir rýtinginn samkvæmt einhverri þjóðtrú, sem hann einn kunni skil á, um að ekki mætti gefa eggvopn. Já, þetta var einhvertíma fyrir peningaskiptin og það vildi svo vel til að ég var með tuttuguogfimmeyring í vasanum, sem ég gat borgað rýtinginn með.

Nú, jæja. Ég kom því semsagt aldrei í verk að semja þrillersfjárann og fór bara að blogga í staðinn. Reyndar er ég orðinn nokkuð leikinn í því og fyrsta bloggið mitt er dagsett í desember 2006. Semsagt löngu fyrir hrun. En nú er ég kominn langt útfyrir efnið og man ekki lengur um hvað ég ætlaði að blogga. En það gerir ekkert til. Kannski eru samt einhverjir nógu bilaðir til að lesa þetta. Í þágu sannleikans er kannski rétt að geta þess að rjúpuræfillinn er enn á lífi og þetta var allt uppspuni hjá mér um hann og drauminn.

IMG 5381Ísland í dag.


2094 - Gleðileg jól

Ekki er hægt að búast við að yfirmannalýðurinn í Árborg (á Selfossi) vakni fyrir jól. Ég er samt ekkert hættur að minnast á Ásgautsstaði þó það nafn sé ekki lengur að finna í fyrirsögninni. Já, bæjarstjórn Árborgar og áður hreppsnefnd Stokkseyrar hafa áratugum saman þjófnýtt stóran hluta jarðarinnar Ásgautsstaða vitandi vits. Sennilega hefur þetta verið gert í þeirri trú að engir myndu gera athugasemdir við það háttalag. Það afsakar þó ekki gerðina á nokkurn hátt. Bæta ætti löglegum erfingjum jarðarinnar þessa notkun og hegna brotlegum fyrir skjalafals sem stundað hefur verið til að hylja slóðina. Reistar hafa verið byggingar með ólöglegum hætti á svæðinu. Við skjalafalsið er ekki annað að sjá en til hafi komið aðstoð sýslumannsembættisins. Þeir sem ábyrgð bera á þessu hafa þrjóskast við að svara til saka og lögfræðingur sá sem með þetta mál fer fyrir hönd löglegra erfingja hefur ekki náð neinum árangri.

Það er leiðinlegt að þurfa að vera með svona neikvæðni um jólin en framhjá því verður ekki komist. Þeim sem láta svo lítið að lesa þetta blogg mitt óska ég samt gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári. Ekki er víst að ég bloggi mikið á þeim tíma sem eftir er til áramóta.

Það fer ekki á milli mála að skattbreytingar ríkisstjórnarinnar leiða til aukinnar misskiptingar í þjóðfélaginu. Undrandi er ég á hve margir eru tregir til að viðurkenna þetta. Hve mikil sú aukning verður er umdeilanlegt. Vel er líka hægt að vona að þessi aukning leiði til aukinnar velmegunar vegna þess að hjól atvinnulífsins fari að snúast á auknum hraða. Þar er þó ekkert fast í hendi þó nýgerðir kjarasamningar bendi til þess að margir voni að svo verði.

Fararstjóri og bílstjóri.IMG 5365


mbl.is „Mér er gróflega misboðið“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

2093 - Ásgautsstaðir og ýmislegt fleira

Viðbrögðin sem ég fæ við skrifum mínum um Ásgautsstaðamálið eru svo lítil að ég veit ekki hvort ég endist til að halda áfram að fjalla um það endalaust. Lygi, svik, þjófnaðir, falsanir og allskyns önnur afbrot eru eitthvað sem yfirstéttin þykist geta leyft sér í skjóli frændhyglinnar og spillingarinnar sem er og hefur verið landlæg hér á Íslandi. Enn mun ég þó skirrast við að birta nöfn þeirra manna í Árborg sem harðast hafa gengið fram í ósómanum. Ef skrif mín um þetta mál verða til þess að færri og færri lesi þetta blogg mitt, ja, þá hlýt ég að álykta sem svo að áhrif spilltrar embættismannastéttar séu meiri en ég hafði ætlað. Ennþá hefur samt ekki orðið svo. Ég veit að margir hafa bloggað um mál sem þeim finnst að fleiri ættu að taka alvarlega. Veit ekki með vissu hvað ég er að reyna varðandi þetta mál, en kannski vil ég einmitt að allt sem þetta snertir fái þá athygli sem mér finnst það verðskulda.

Sagt er að jólin séu hátíð barnanna og líklega eru þau það. Fullorðna fólkið og unglingarnir nota þau til að hvíla sig. Lætin og djöfulgangurinn í undirbúningi jólanna bitnar mest á þeim. Eins og segir í eldgömlu mánaðakvæði:

Þó desember sé dimmur
þá dýrleg á hann jól.
Með honum endar árið
og aftur hækkar sól.

Þetta með sólina finnst mér merkilegra en jólin. Þegar jólin og áramótin eru afstaðin með öllu sínu áti, bókum, leikföngum og fylleríi er óhætt að byrja að hlakka til vorsins. Dagurinn fer að lengjast smátt og smátt, fuglasöngur að heyrast o.s.frv. Auðvitað getur tíðarfarið brugðist, en vel má vonast eftir því að bleytan, hálkan og krapið fari minnkandi eftir því sem vorið nálgast meira.

Af hverju allir sameinast um skógluggavitleysuna skil ég ekki. Auðvitað halda krakkarnir áfram að setja skóna út í glugga sem lengst. Áður fyrr var þetta alls ekki svona. Byrjaði seint á síðustu öld. Fram að þeim tíma voru jólasveinar samt víða á flækingi um jólaleytið. Einkum voru þeir iðnir við að mæta á jólaböll þar sem litlir krakkar voru hópum saman. Sumir þeirra trúðu kannski að eitthvað væri til í sögunum af þeim en það sama átti við um svo mörg ævintýri. Með gluggavitleysunni færðist þetta svo inn á heimilin og foreldrar voru nauðbeygðir til að taka þátt í þessum fjára.

Biðin eftir jólunum var mörgum börnum erfið og löng. Sjálfur lagði ég af einhverjum ástæðum mest uppúr teljaranum á útsíðuhorni Moggans sem kom á heimilið á hverjum degi nema mánudögum. Auðvitað þurfi að sækja hann uppí Reykjafoss eftir klukkan 10 en það var ekki löng leið. Músastigar úr krep-pappír voru settir í öll herbergi en ekki var að treysta neinu varðandi tímasetningu á því. Teljarinn í Mogganum var viðmiðið.

Líklegt er að tölvubyltingin og veraldarvefurinn komi til með að valda alveg eins mikilli byltingu í öllu menningarlífi heimsins og prentlistin gerði á sínum tíma. Á margan hátt er það fyrst núna sem mönnum er að verða það ljóst hve gagntæk lausleturstækni Gutenbergs var. Það er einmitt sú tækni sem mun yfirtaka þá fyrri sem gerir mönnum þetta ljóst. Hið alþjóðlega myndmál mun yfirtaka ritmálið á þessari öld. Landamæri munu skipta afar litlu máli í framtíðinni. Hraðinn eykst sífellt. Netvæðingin er enn í barnsskónum.  

Í framsóknarflokknum er mikið af úrvalsfólki. Samt er ég sammála Margréti Tryggvadóttur um að útlendingahatur og gamaldags þjóðremba hefur fengið að leika þar um of lausum hala. Þetta er bara mín skoðun og ekki studd neinum dæmum. Ég efast ekkert um heilindi SDG en hans nánustu ráðgjafar, sem hljóta að vera ráðherrar flokksins, aðstoðarmenn þeirra og formenn alþingisnefnda í umboði flokksins eru oft afar ógætnir í ummælum sínum og efast má um skynsemi sumra þeirra. Undir forystu Halldórs Ásgrímssonar er ekki annað hægt að segja en flokkurinn hafi leitað of mikið til hægri.

Var að enda við að lesa ágæta grein eftir Gunnar Smára Egilsson. Hann kallar greinina millistéttaraulinn. Það er alveg rétt hjá honum að við látum yfirstéttina ráðskast með okkur að vild. Alþingismenn skilja ekki helminginn af þeim tölum sem þeir ausa yfir landslýð. Þeir eru líka millistéttaraular. A.m.k. flestir þeirra. Svonefnt lýðræði er kannski ekkert skárra en einræði.

Hér á Vesturlöndum eru lífskjörin að vísu skárri en í þriðja heiminum. Það er bara vegna þess að víð arðrændum íbúana þar meðan við höfðum aðstöðu til. Um leið og þeir lærðu að ljúga og stela sjálfir var búið með það. Misskipting teknanna er jafnmikil hér og í þriðja heiminum. Talnalygi er annarri lygi verri því það er erfitt að hrekja hana nema maður sé sjálfur leikinn í talnalygi.

Nú er ég kominn á hála braut. Framsóknarflokkurinn leitast við að fá einkarétt á útlendingahatri og þjóðrembu. Þó er margt ágætisfólk þar. Held að ég hafi reyndar verið búinn að nefna það fyrr í þessu bloggbulli.

Hinn sanni lífsflótti er fólginn í því að skara framúr. Gefast upp á öllu lífsgæðakjaftæðinu og stjórnmálunum og einbeita sér að einhverri íþrótt sem maður er sæmilega góður í. Verða smám saman bestur í þorpinu, skólanum, landinu o.s.frv. í þeirri íþrótt sem fyrir valinu varð. Verða kannski í fyllingu tímans bestur af öllum í þessari íþrótt og þá koma lífsgæðin af sjálfu sér. Bara um að gera að fá ekki leið á þessari tilteknu íþrótt. Það er kannski það erfiðasta. Stundum segja menn að þeir hafi svo gaman af vinnunni sinni að það sé bara aukabónus að fá kaup fyrir hana. Auðvitað er það hin mesta vitleysa. Leti og ómennska á best við alla. Ekki fá menn borgað fyrir svoleiðis.

„Anecdotal evidence“, sem ég mundi vilja kalla sannferðugar frásagnir á íslensku, eru oftast nær einskis eða a.m.k. lítils virði ef hægt er að benda á alvöru vísindalegar rannsóknir á sambærilegu sviði. Þó ég sé langt frá því að vera einhver sérfræðingur í þessu er mjög þægilegt að benda á bólusetningar í þessu sambandi. Á grundvelli „anecdotal evidence“ eru þær oft gagnrýndar mjög. Bólusetningar eru til gagnvart mörgum sjúkdómum og vísindalegar rannsóknir á þeim geta verið mjög mismunandi. Bóluefnið sömuleiðis.

Hugsum okkur að eitthvert bóluefni komi að gagni í 99% tilvika. (samkvæmt „vísindalegum“ rannsóknum). Í 1% tilvika komi það að engu gagni eða sé beinlínis skaðlegt. Þessar tölur eru eingöngu frá mér komnar en byggjast ekki á neinum rannsóknum.

„Anecdotal evidence“ mundi að sjálfsögðu sýna undireins að þetta bóluefni væri stórhættulegt eða í besta falli vitagangnslaust. Vísindaleg rannsókn mundi hinsvegar sýna hið gagnstæða eða a.m.k. að rétt væri að rannsaka málið nánar.

Í bloggheimum hentar mér best að setja á langar tölur um hin margvíslegustu efni. Þetta eru einginlega bara athugasemdir í öðru veldi. Nú er orðið svolítið umliðið síðan ég setti síðast upp blogg svo sennilega er best að hætta.

IMG 5297Gullþakið fræga í Innsbruck.


2092 - Ásgautsstaðamálið, blað allra landsmanna o.fl.

Frá því er skýrt í Morgunblaðinu, blaði allra landsmanna, að þjófnaðarmál eitt mikið hafi verið endurupptekið við héraðsdóm Suðurlands á Selfossi, að kröfu ríkissaksóknara. Sagt er að maður einn hafi stolið nokkrum (jafnvel mörgum) kjúklingabringum úr verslun á Selfossi. Ekki fylgir sögunni hvort þær hafi verið étnar eða ekki. Auðvitað er það ekki sambærilegt að þjófnýta eina smájörð áratugum saman og að stela íturvöxnum (jafnvel feitum) kjúklingabringum. Í fyrsta lagi er ekki hægt að éta jörðina og svo skilst mér að slíkt mál heyri ekki undir hinn alltumlykjandi ríkissaksóknara.

Samt sem áður vekur það nokkra athygli sem ég skrifa um Ásgautsstaðamálið. Auðvitað þarf talsvert til svo alvörufjölmiðlar fari að sinna þessu. Sömuleiðis er ekki líklegt að þeir sem tilgreindir hafa verið í þessum blogg-greinum mínum sem lögbrjótar snúi við blaðinu og fari að styðja réttlætið í þessu máli. Ég gæti auðvitað farið að skrifa um einstök mál, sem þessu tengjast, en vil samt heldur að dómstólar fái að fjalla um þetta í friði og valdafólk hætti að tefja það. Sömuleiðis væri ekki ónýtt ef hliðstæð mál yrðu rifjuð upp annarsstaðar á landinu. Ég er nefnilega sannfærður um að þetta mál er ekki einstakt. Yfirvöld og allir embættismenn sem einhverju ráða hafa nefnilega í gegnum tíðina beitt allskonar rangindum við almenning þessa lands. Millistéttin lifi.

DV segir frá því að ríkisstjórnin hafi keypt fyrir 10 milljónir eða meira netbirtingarrétt á útgáfu Íslendingasagnanna á dönsku, norsku og sænsku. Það er líka til vönduð útgáfa af Íslendingasögunum á ensku. Sé vel þýtt er það litlu minna verk en frumskráning. Höfundarréttur Íslendingasagnanna er viðkvæmt mál og áður fyrr voru menn kærðir fyrir að gefa sögurnar út. Frægt er t.d. svokallað Hrafnkötlumál þar sem bæði Halldór Kiljan Laxness og Sigurður Nordal komu við sögu. Ragnar í Smára minnir mig líka.

Á sínum tíma stóð ég ásamt minni fjölskyldu að því að koma þessum sögum og ýmsu fleiru á  netið. Þar er það enn í hýsingu fyrirtækisins Snerpu á Ísafirði og ekki greiddum við neinum höfundarlaun og fengum reyndar ekkert greitt fyrir að gera þetta. Urðum að lokum að hætta eftir að hafa sótt víða árangurslaust um styrki til starfseminnar. Vorum einfaldlega ekki í klíkunni.

Það sem ríkisstjórnin hefur keypt af þessu tagi eru eflaust þýðingarnar en tilgangurinn getur ekki verið annar en að koma í veg fyrir dreifingu á netinu eða stjórna henni a.m.k. með einhverjum hætti.

Svo leit út um tíma að mótmælendur myndu ná árangri varðandi brottrekstrana hjá RUV. Jafnvel að fá einhverja endurráðna þar. Svo verður samt sennilega ekki og til eru þeir sem ekki eru sáttir við hrossakaupin sem búið er að gera svo þingmenn komist í jólafrí. Önnur hindrun mun blasa við ríkisstjórninni í vor þegar hún vill koma þinginu í burtu. En hugsum ekki um það núna. Gleðjumst bara yfir því að kaupunum er lokið og menn þykjast sáttir. Svo er samt ekki og ekki er við öðru að búast en að sama karpið taki við eftir áramótin.

Margir heit-trúaðir kapítalistar sjá miklum ofsjónum yfir peningum sem notaðir eru til þess að greiða listamönnum laun fyrir það eitt að vera listamenn. Með listamennskunni skapa þeir oft á óbeinan hátt miklar tekjur og ég er þeirrar skoðunar, að þó dálítið af vinnu og frægð listamanna sé oft tilkomið af auglýsingum einum saman og þjónkun við ríkjandi skoðanir, þá hafi þeir langoftast og nær alltaf einnig sýnt framá að þeir hafa yfir miklum hæfileikum að búa. Ef alla viðleitni til listsköpunar á að meta eftir peningum eingöngu er hætt við að miklir hæfileikar fari í súginn. Einnig er á það að líta að maðurinn lifir ekki af einu saman brauði.

Ólafur Ragnar Grímsson heyr sitt einkastríð við Gordon Brown sem eitt sinn var forsætisráðherra Bretlands. Því er samt ekki að neita að Íslendingar hafa átt nokkurn þátt í niðulægingu Breta undanfarna áratugi. Fyrst eftir að heimsstyrjöldinni síðari lauk var vegur þeirra samt allmikill í veröldinni. Með löndunarbanninu 1952, ótilteknum fjölda landhelgisstríða á síðustu öld og beitingu hryðjuverkalaga gegn Íslendingum í nýafstaðinni fjármálakreppu hefur vegur þeirra farið mjög þverrandi.

Falklandseyjastríðið bætti samt svolítið úr, en það var tímabundið og lítilfjörlegt. Á margan hátt má líkja því sem þeir kumpánar Gordon Brown og Alexander Darling gerðu Íslendingum í upphafi fjármálakreppunnar við það að sparka í liggjandi mann. Sú framkoma var þeim alls ekki til sóma. En auðvitað hefur margt annað en framkoma þeirra gagnvart Íslendingum stuðlað að miklum samdrætti Breska heimsveldisins og ég hef alls ekki í hyggju að tíunda það hér og kann það reyndar ekki.

IMG 5273Skelfing er þetta leiðinlegt.


mbl.is Þjófnaðarmál endurupptekið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

2091 - Ásgautsstaðir enn og aftur

Kannski verður jörðin Ásgautsstaðir að eilífðarmáli á þessu bloggi hjá mér. Þá er að taka því. Ég get haldið áfram endalaust að telja upp afbrot fyrirmenna á Árborgarsvæðinu. Af nógu er að taka. Aðeins mun ég þó gera það ef ég sjálfur álít sök þeirra ótvíræða. Órökstuddar fullyrðingar og getsakir munu ekki fá inni á þessu bloggi. Hvað hugsanlegar athugasemdir snertir get ég þó lítið fullyrt. Ómótmælt er að Stokkseyrarhreppur og seinna Árborg hefur nýtt land Ásgautsstaðajarðarinnar ólöglega í mörg ár. Leyft þar byggingar á óskiptu landi í skjóli skjalafölsunar og með margskonar blekkingum.

Af hverju skyldi ég vera að búast við því að einhverjir geri eitthvað í framhaldi af skrifum mínum um þetta mál sem kennt er við jörð í Stokkseyrarhreppi? Ekki geri ég neitt þó ýmsum beiðnum sé komið til mín í gegnum fésbókina og ýmsa aðra miðla. Auðvitað vil ég meina að ólíku sé saman að jafna, en er það örugglega svo, þó mér finnist það? Þeir sem mikið eiga undir sér finnst alltaf að þeir eigi að geta beygt lögin undir sinn vilja og hagrætt hlutunum þannig að þeir séu í samræmi við sína hugsun. Er það yfirgangur að vilja láta aðra lúta því sem manni sjálfum finnst réttast? Er ég að réttlæta óréttlætanlegar skoðanir með þessu? Kannski.

Nú er jólastressið að ná hámarki sínu. Jólasnjórinn er mættur. Vonandi verður hann ekki meiri en þetta, því ennþá er vel hægt að sætta sig við snjómagnið hér á höfuðborgarsvæðinu. Hálka er sennilega á fjallvegum en þarflaust ætti að vera fyrir flesta að flækjast þar um. Ég á a.m.k. ekkert erindi í aðra landshluta.

Pólitíkin er söm við sig. Allir sem nálægt alþingi koma eru að farast úr æsingi. Einhvernvegin fer þetta alltsaman. Fjölmiðlar fárast yfir því sem þeir bera fyrir brjósti. Bloggarar líka. E.t.v. er að byrja að fjara undan fésbókinni. Netvæðingin er orðin svo almenn að það er næstum ískyggilegt. Gamalmenni á grafarbakkanum gugta við ipadana sína og börnin hamast á spjaldtölvunum þó þau séu nýskriðin úr móðurkviði. Ég veit ekki hvar þetta endar. Með hreinum meirihluta pírata á alþingi kannski?

Líklegt er að ríkisstjórnin láti undan með jólabónusinn til atvinnulausra. Öllu öðru getur hún sennilega reiknað með að koma fram. Mótmælendur eru nefnilega svo þreyttir. Nú þegar búið er að láta Palla Magg reka sem flesta er hægt að losa sig við hann. Sjáum til hver verður látinn taka við. Á margan hátt sýnir núverandi stjórn meiri stjórnvisku en sú síðasta. Reyndar var hún orðin minnihlutastjórn undir það síðasta.

Er Davíð að hætta á Mogganum. Eiríkur heldur því fram. Kannski er það rétt hjá honum. Dabbi er fæddur í janúar 1948 svo hann er víst farinn að eldast. Eiríkur segir að það sé altalað í Hádegismóum að hann hætti núna um áramótin.

IMG 5267Tveggja hæða strætó.


2090 - Ásgautsstaðir, Al Thani-málið o.fl.

Þó blogg mitt um Ásgautsstaðamálið s.l. þriðjudag  (11. des.) hafi vakið nokkra athygli, a.m.k. í vissum hópum, er ekki hægt að segja að viðbrögðin hafi verið mikil. Einhver hafa þau samt verið. Ég hélt að með því að opinbera ýmsa þætti þessa máls væri kannski unnt að hraða því eitthvað, en ekki er víst að svo sé. Þöggun elítunnar er mikil og sterk. Ef sýslumenn, lögfræðingar, sveitarstjórnir og allir embættismenn eru sammála um að þagga mál niður er ósköp lítið sem ótíndur almenningur getur gert annað en segja sannleikann.

Ef dómurinn yfir Kaupþingsmönnunum verður staðfestur í hæstarétti er þar vissulega um þunga dóma að ræða. Dómari getur að mínum skilningi undir engum kringumstæðum dæmt í þyngri refsingu en saksóknari fer fram á. Vissulega er hægt að benda á að fleiri hafi blekkt og svikið í aðdraganda Hrunsins en þeir Kaupþingsmenn og ekki verið dæmdir. Svo er um alla dóma. Einnig er hægt að benda á að sumsstaðar er þyngri refsing möguleg við brotum af þessu tagi. Með þessum dómi er þó sýnt framá að það að stýra stóru fyrirtæki verndar engan fyrir lögunum. Þau eru líklega helstu skilaboðin sem dómurinn flytur og ef fjölmiðlar útskýra málið fyrir almenningi getur verið að hann hafi áhrif.

Fyrrverandi ríkisstjórn heyktist á því að beita hörku til að koma í veg fyrir augljós skemmdarverk á alþingi. Ekki er víst að núverandi ríkisstjórn geri það. Málþóf er skemmdarverk. Ávalt er þó hægt að réttlæta slíkt fyrir sjálfum sér og pólitískum samherjum en samt er það svo að ef löglega kjörinn meirihluti á alþingi fær ekki að koma fram vilja sínum er verið að trufla eðlilegan gang mála. 

Illugi Jökulsson skrifar grein um stéttskipt stafrófskver og birtir myndir af forsíðum tveggja íslenskra stafrófskvera handa „minni manna börnum og „heldri manna börnum“. Annað þessara kvera er sjáanlega gefið út árið 1853. Greinin hjá Illuga er a.m.k. öðrum þræði gagnrýni á SDG forsætisráðherra. Hann sagði víst um daginn að stéttaskipting væri engin hér á Íslandi.

Ég man að stéttaskiptingin var afar lítil þegar ég var að alast upp. Klíkuskapur og allskyns spilling hefur eflaust verið útbreidd þá líkt og nú og stéttaskipting hefur kannski verið það líka, en hún hefur þá verið vel falin. Minn skilningur er að stéttaskipting hafi verið talsverð hér á landi áður fyrr og einkum farið eftir eignum. Jarðeignum sérstaklega. Stórbændur kúguðu þá minni máttar á ýmsan hátt. Með því að koma í veg fyrir þéttbýlismyndun tókst eignafólki að halda almenningi niðri og hindra framfarir. Með stríðinu rétt fyrir miðja síðustu öld riðlaðist sveitaskipulagið sem hér hafi verið um aldaraðir og fólk flutti unnvörpum á mölina. Þar með rofnaði skarð í þann múr stéttaskiptingar sem verið hafði.

Mér er í fersku minni að Steingrímur Hermannsson sagði, þegar hann var forsætisráðherra, að hann fyndi vel að launamunur í þjóðfélaginu færi vaxandi. Ekkert fannst mér hann þó gera til að hindra það. Kannski var það hans helsti galli. Í ævisögu hans er sagt að ein krísan taki við af annarri hjá æðsta embættismanni þjóðarinnar. Þess vegna er eðlilegt að þróun  öll lendi í undandrætti þegar svo stendur á. Nútíma stéttaskipting (og launamunur) byrjaði að grassera um þetta leyti. Hún fór svo sívaxandi upp frá því. Kannski og vonandi náði sá munur hámarki sínu skömmu fyrir Hrunið (sem skrifa má með stórum staf til áramóta og nefna „svokallað hrun“ eftir það). Nýtt skipulag er að ryðja sér til rúms fyrir sakir tölvubyltingarinnar. Hrun fjármálakerfisins, bæði hér á Íslandi og annarsstaðar, mun flýta fyrir þeirri þróun og það sér alls ekki fyrir endann á henni ennþá. Vægi umhverfismála mun þó vaxa mikið.

Allt reynir DV til að fá fólk til að lesa sig. Fyrirsögn í blaðinu var á þessa leið: „Vísindamaður rannsakaði sköp íslenskra kvenna.“ Þó ég sé ekki (lengur) sérstakur áhugamaður um slíkt man ég vel eftir því að í ævisögu landkönnuðarins Peters Freuchen, sem sennilega kom út 1955 eða svo, var talsvert gert úr því að hann eða einhver sem hann þekkti þyrfti endilega að komast til Kína til að rannsaka hvort píkan á kvenfólki þar væri þversum, eins og honum hefði verið sagt, en ekki langsum eins og hann væri vanastur. 

IMG 5244Meira að segja hundurinn þarf að fylgjast með útsýninu.


2089 - Ásgautsstaðir II

Blogg mitt frá því um daginn um Ásgautsstaðamálið hefur vakið talsverða athygli. Held þó að mál af því tagi séu alls ekki sjaldgæf. Þöggunin í þjóðfélaginu er yfirþyrmandi. Spillingin grasserar á hverri þúfu og þó fólk sé ekki beinlínis svift lífi og limum þá eru því allar bjargir bannaðar. Yfirvöld og allir þeir sem betur mega sín hafa alla tíð reynt eftir megni að þagga niður alla gagnrýni á kerfið. Mun fylgja þessu máli eftir ef nýjar upplýsingar koma fram. Vel getur verið að komið verði á fót vefsetri þar sem hægt verður að fá allar upplýsingar um þetta mál. Jafnvel líka hægt að setja inn upplýsingar um það eða önnur. Bíðið bara.

Það er þetta með hann Borislav Ivanov og táfýluna. Þegar ég var á Bifröst í fyrndinni þýddum við þýska textann: „Der Tau viel stark“, hiklaust sem „táfýlan er sterk“. Ég er samt ekki alveg viss um að sú þýðing sé rétt. Einhverjir antiskákmenn fatta kannski ekki hvað Borislav Ivanov kemur þessu máli við. Þeir sem með skák fylgjast kannast þó eflaust við Búlgarann Borislav Ivanov. Hann nær öðru hvoru (ef hann er í réttum skóm) afburða árangri á skákmótum.

Lyfja- og vopnaeftirlit er víst orðin almenn regla á skákmótum víða um heim. Jafnvel hefur verið talað um það að skákmenn svindli á skákmótum hérlendis og á ég þá ekki við Vodafon-gambítinn svonefnda. Hann felst í því að prófað er að hringja í farsíma viðkomandi skákmanns, því ef farsími í vasa skákmanns hringir meðan mótsskák stendur yfir, er skákin samstundis töpuð.

Nú nú, ég var víst að tala um hann Borislav. Þegar honum gengur sem best á skákmótum (vinnur jafnvel hátt skrifaða stórmeistara unnvörpum) er hann jafnan beðinn um að fara úr skónum. Þetta hefur gerst a.m.k. tvisvar og hann móðgaðist svo í millitíðinni að hann steinhætti að keppa. Nú er hann semsagt kominn af stað aftur og enn eru það skórnir sem eru að þvælast fyrir honum. Hann þverneitar jafnan að fara úr þeim og ber við táfýlu. Jafnvel þó hann verði að hætta þáttöku í skákmótum gefur hann sig ekki hvað skóna varðar.

Það er jafnvel hald einhverra að hann kunni að vera með farsíma í skónum og geti spilað á hann með tánum. Síðan sitji einhver með síma og mati skákforrit á leikjunum í skákinni sem hann er að tefla hverju sinni. Skákforrit eru mörg orðin svakalega góð í að tefla.

Frá mínu sjónarmiði séð er stóri gallinn við stjórnmálavafstur hér á landi sá að of stór hluti þjóðarinnar lítur á sig sem fremur vel stæða millistétt. Íslendingar eru þó fremur fátækir miðað við nágrannaþjóðirnar.  Á mesta niðurlægingartímabili þjóðarinnar urðu þeir þó aldrei fátækari í anda (þ.e.a.s. vitlausari) en nágrannarnir. Guðstrúin hélt fólki mikið í skefjum áður fyrr, en nú er hún þverrandi og falsspámenn vaða uppi. Fólk trúir jafnvel á álfa, drauga og afturgöngur. Ég er heldur ekki frá því að sumir trúi því að smáskammtalækningar (homopatia) og allskyns kukl séu alvörulækningar. Snákaolía virðist annarri olíu betri.

Í bloggheimum saka hverjir aðra um fávitahátt þessa dagana. Jens Guð birti ágæta umfjöllun um Moggabloggið um daginn. Eiginlega ætlaði hann að vera hættur þessu stauti þar, en vinsældir hans eru slíkar að hann gat það ekki.

Eiginlega er allt við það sama á alþingi og verið hefur. Ef orðið málþóf er nefnt rísa menn upp á afturfæturna. Auðvitað hefur ekkert breyst þar frekar en búast mátti við. Það er bara breytt stjórnarmynstur. Þingmenn (og kannski fleiri) virðast samt halda að einhverjar breytingar verði við það að nýir menn taki til við málþóf og dónaskap. Málþófssöngurinn hefst jafnan rétt fyrir jól og svo aftur á vorin. Skyldu menn aldrei fá leið á þessu?

IMG 5224Á einhverjum tindi.


2088 - Ásgautsstaðir

Það var síðastliðið sumar sem um það var rætt að gera Ásgautsstaðamálið opinbert. Ekki svo að skilja að ekki hafi verið rætt um það fyrr. Aldrei hefur samt orðið neitt úr því að opinberlega væri um málið fjallað. Bloggið mitt er í þeim skilningi opinbert að þónokkuð margir eru vanir að lesa það. Jafnvel væri hægt að kalla það fjölmiðil af einhverju tagi, ef löngun væri til.

Eftir talsverðar rökræður var mér falið að kanna hvort fjölmiðlar hefðu e.t.v. áhuga á málinu. Meðal annars sendi ég fyrrverandi vinnufélaga mínum bréf um þetta. Svarið frá honum var á þá leið að þó helstu fjölmiðlar hefðu hugsanlega ekki áhuga á þessu væri tvímælalaust rétt að gera það opinbert. Þetta var í júlí í sumar. Af ýmsum ástæðum varð ekki úr neinum framkvæmdum þá. Ég tók samt saman helstu staðreyndir málisins í örstuttu máli.

Konan mín og systkini hennar eru erfingjar að níunda hluta jarðarinnar Ásgautsstaðir við Stokkseyri. Lögfræðingur í Reykjavík hefur verið með mál í gangi í mörg ár útaf misnotkun sveitarfélagsins Árborgar (og áður Stokkseyrar) á jörðinni. Fulltrúar sveitarfélagsins virðast leggja áherslu á að tefja þetta mál eftir megni. Það er ekki útaf vantrausti á lögfræðingnum sem ég birti þetta. Þarna er um sakamál að ræða sem á sér langa sögu og tengist húsbyggingum á Stokkseyri, sýslumannsembættinu á Selfossi og Bæjarstjórn Árborgar. Um er að ræða óheimila notkun lands, ólöglegar byggingar, skjalafals og hugsanlega ýmislegt annað.

Lögfræðingurinn hefur kært þetta mál til sérstaks saksóknara en mér skilst að hann telji þetta vera einkamál. Ég tel hinsvegar að skjalafals opinbers embættismanns geti ekki verið það.

Þau systkinin vilja gjarnan fá að vita hvers vegna sýslumaðurinn á Selfossi svarar ekki bréfum sem til hans eru sannanlega send. Þarna á ég við bréf sem lögfræðingur meginhluta erfingjanna að jörðinni hefur sent honum. Svo virðist sem málið sé strand hjá sýslumanni núna og hafi verið það alllengi.

Álit mitt á lesendum þessa bloggs er mikið og ein af helstu ástæðum þess að ég skrifa um málið hér og nú er sú að ég vil gjarnan fá ráðleggingar um æskilegt framhald þess.

Allar þær fullyrðingar sem fram koma í þessari bloggfærslu er hægt að færa fullkomnar sönnur á með ljósritum og staðfestum afritum úr embættisbókum.

IMG 5212Austurrísku alparnir.


2087 - Pólitík og lögregluofbeldi

Gera má ráð fyrir að fyrst um sinn a.m.k. muni Framsóknarflokkurinn græða á því að formanni hans skuli hafa tekist að koma með tillögur til lausnar skuldavanda heimilanna enda sýna skoðanakannanir það. Að vísu er upphæðin hjá flestum lægri en búist var við. Tekist hefur þó að gera málið allt fremur illskiljanlegt. Kannski núllast ávinningur flokksins út vegna hissings svokallaðs utanríkisráðherra útaf stöðvun IPA-styrkjanna. Sú uppákoma er sennilega neikvæð fyrir flokkinn.

Samkvæmt skoðanakönnunum sveiflast fylgi flokkanna nokkuð hratt upp og niður. Mér finnst niðurlæging Sjálfstæðisflokksins miklu merkilegri tíðindi en (tímabundin) upphefð Framsóknarflokksins. Tilraunin með Samfylkinguna mistókst einfaldlega og á vinstri vængnum stefnir í svipað ástand og fyrr.

Ef núverandi stjórnarflokkar svíkja þjóðina um allar þjóðaratkvæðagreiðslur á kjörtímabilinu  getur það orðið þeim dýrkeypt. Það er svo margt sem breyst hefur undanfarin ár að menn (eða allmargir þeirra a.m.k.) vilja endilega þjóðaratkvæðagreiðslur. Kannski er alveg sama hvað spurt verður um í slíkri atkvæðagreiðslu.

Hluti af því Bandaríkjadekri sem einkennt hefur hægri menn hér á Íslandi undanfarna áratugi er atlaga þeirra að ríkisútvarpinu. Samt er ástæða til að minnka þá báknmyndun sem þar hefur átt sér stað að undanförnu. Menningarlega eigum við mun meiri samleið með Evrópu en Bandaríkjunum. Allt er þetta mál þó afar vandmeðfarið og sú herferð sem nú er í gangi til að tryggja óbreyttan rekstur ríkisútvarpsins hefur á sér talsverðan pólitískan svip.

„Tveir sérsveitarmenn skotnir í aðgerðunum í Hraunbæ“. Þetta er fyrirsögn úr DV. Almennt hefur orðalagið að vera „skotinn í“ allt aðra merkingu en að verða fyrir skoti. Þetta hefðu fyrirsagnameistarar blaðsins átt að athuga. Hægt hefði verið að orða þetta á margvíslegan annan hátt, ef metnaður hefði verið fyrir hendi. Fyrirsagnir þurfa að vera þannig samdar að erfitt sé að snúa útúr þeim.

Það fer ekkert á milli mála að þau tvö tilfelli lögregluofbeldis sem mest eru milli tannanna á fólki þessa dagana eru atvikin á Laugavegi í sumar og það í Hraunbæ fyrir skemmstu. Ég fer ekki ofan af því að í báðum þeim tilfellum var sýnd of mikil harðneskja. Lögreglan veit það sjálf og einnig að í mörgum (eða flestum) þeim tilfellum þar sem einstaklíngar eru óánægðir með aðgerðir hennar er um bráðnauðsynlegan hlut að ræða.

Óhlýðni gegn valdstjórninni er ekki merkingarlaus frasi heldur er ekki hægt að neita því að flest það sem til framfara heyrir í mannréttindamálum og öðrum skyldum efnum hér á landi hefur til orðið vegna þeirrar óhlýðni. Um leið eru þær valdheimildir sem lögreglan þó hefur lífsnauðsynlegar og tilvera hennar sjálft límið í þjóðskipulaginu.

IMG 5174Skrautlegur steinn.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband