Bloggfærslur mánaðarins, mars 2013

1927 - Spandans (en hvað er hægt að linka við?) Ekkert

Nú, er það í boði?

Nei.

Skelfing er allt eitthvað erfitt í dag.

Nenni ekki út að labba, þó sólskin sé.

Hvað á ég þá að gera?

Éta páskaegg?

Já, en þau eru öll búin.

En páskalambið?

Stökk út hálfétið.

Það var skaði. Það gæti lent undir bíl.

Og grillast betur þar?

Er páskadagur lengri en föstudagurinn langi?

Jafnvel.

Ekki spararðu greinaskilin.

Nei, á líka nóg af þeim.

Klukkan hamast og bráðum er komið hádegi.

Hvernig hádegi? Ekki sýnist mér sólin komin í hádegisstað.

Þetta er greinilega ein bloggleiðin. Setja bara eina setningu út í loftið í hverja málsgrein. Fínt.

Já. Og blaðsíðan að verða búin.

Sem betur fer.

Á að spandéra mynd á þetta?

Já, auðvitað. Þetta er ekki það vitlausasta sem ég hef skrifað.

Nú veit ég af hverju ég skrifa svona oft.

?

Það er til að koma myndunum að. Ha, ha, ha. Þarna sneri ég á þig.

IMG 2917Hringleikahús eða bara venjulegt hús.


1926 - Páskar

Fésbókin hefur nú tekið að mestu við því hlutverki að sýna myndir. Einkum aðstandendum aðdáunarverðra barna myndir af þeim. Jafnvel dæmigerðar fjölskyldumyndir. Og svo auðvitað myndir af krúttlegum kettlingum. Það er algjör sérgrein. Hugsanlega er þetta einmitt fésbókarinar merkasta framlag til tölvulífsins (sem er að verða mikilvægara en allt annað) ásamt kaffinetspjallinu. Líka kemur hún oft að góðu haldi með því að segja frá greinum og ýmsu þessháttar á netinu.

Kannski stuðlar hún með þessu að því að fólk hittist sjaldnar en annars hefði verið. Nú er oft eins og þeim sem líta inn í heimsókn finnist að þeir þurfi endilega að eiga eitthvað erindi. En þetta sama fólk á kannski í engum vandræðum með að setja hvað sem er á vegginn hjá sér.

Skafti Jósefsson garðyrkjumaður í Hveragerði var pípureykingamaður mikill. Ekki var annað að sjá en hann væri alltaf með sömu pípuna. Einhver var að hrósa endingunni á henni og þá sagði Skafti:

„Já, hún er búin að endast mér í mörg ár þessi pípa. Fjórum sinnum held ég samt að ég hafi þurft að skipta um munnstykki á henni og tvisvar um haus.“

Bloggið er aftur á móti mjög gott fyrir þá sem eru illa haldnir af besservisserastælum. Þá geta þeir predikað fjandann ráðalausan og þeir sem villast inná bloggið í leit að einhverju allt öðru, geta forðað sér sem skjótast án þess að nokkur viti.

Allskyns „selvfölgeligheder“ henta líka ágætlega í blogg. T.d. skil ég stundum alls ekki af hverju fólk hugsar ekki eins og ég. (Það er nefnilega langbest) Af hverju skiptir oft meira máli hvernig hlutirnir eru sagðir, en hvað sagt er? Við þykjumst þess umkomin að finnast þeir hlægilegir sem leggja öðruvísi áherslur á mál sitt en okkur finnst við hæfi. Til dæmis þulirnir í Norður-Kóreska sjónvarpinu. Eru áherslur okkar þær einu réttu? Skiptir áherslan eða tóntegundin stundum  meira máli en það sem sagt er? Hvenær þá? Og hvernig og af hverju? Ef ég segi já, meina ég þá örugglega alltaf já? Gæti ég ekki alveg eins meint nei?

Er jákvæðni jákvæð? Eða er hún hugsanlega neikvæð? Neikvæðni er oft jákvæð. Það finnst mér allavega. Er sinnuleysi það sama og afskiptaleysi. Það finnst mér ekki. Sinnuleysi er neikvætt en afskiptaleysi jákvætt? Nú, er afskiptasemi þá neikvæð? Ekki endilega, en getur verið það. Kannski er þetta tómt rugl í mér. A.m.k. er ég orðinn hálfruglaður af þessu.

Læknisráð dagsins: Haldið ykkur eins mikið frá pólitískum áróðri og þið mögulega getið. Langmikilvægast er að svara alls ekki skoðanakönnunum þessa dagana og gæta þess að taka ekki ákvörðum um hvað á að kjósa fyrr en á leiðinni á kjörstað. Ef þið munið ekki útaf hverju þið ætluðuð að kjósa einhvert ákveðið framboð er samt mikilvægara að halda sig við áætlaða kosningahegðun en að fara að reyna að rifja upp ástæðurnar.

IMG 2915Tré.


mbl.is „Lokum ekki hjörtum vorum“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

1925 - Föstudagurinn langi

Það er oft erfitt að átta sig á hinum íslenska stjórnmálaveruleika. Sérstaklega á þetta við um alþjóðahyggjuna og hina þjóðlegu föðurlandsást. Slíkt er notað algerlega eftir hentugleikum og sá flokkur sem er alþjóðlega sinnaður í dag getur verið orðinn einangrunarsinnaður á morgun og öfugt. Sama er að segja um einstök mál. Stjórnmálalega séð getur verið nauðsynlegt að sækja fyrirmyndir t.d. að löggjöf til útlanda en í öðrum tilfellum má það alls ekki. Þetta held ég að útlendingar eigi oft erfiðast með að skilja varðandi íslensk stjórnmál.

Alþjóðahyggja og umverfisvernd hefur ekkert með flokkastjórnmál að gera. Hægri og vinstri lýsa flokkunum betur, en þó ekki vel. Þar er venjulega átt við mikil eða lítil ríkisafskipti en áður var einkum rætt um eign á framleiðslutækjum. Sá kapítalismi sem tekið hefur við á Vesturlöndum eftir að kommúnisminn leið undir lok í Ráðstjórnarríkunum hefur reynst afar gallaður. Á Íslandi er öllu blandað saman. Þar geta fulltrúar fjórflokksins rifist endalaust um „stóriðju“ (óskilgreinda) og  „eitthvað annað“ (óskilgreint).

Allt er þetta háð peningum, bönkum og völdum. Þar hefur fjórflokkurinn allsstaðar komið sér vel fyrir og skammtar peninga og völd (og jafnvel banka líka) eftir flokkshollustu. Auðvitað eiga þeir bágt sem enga slíka hafa og koma þeir sér því oft upp falskri hollustu og skipta svo um þegar þeim finnst henta.

Þetta er ríkisstjórnartillaga Egils Helgasonar að því gefnu að B og D myndi ríkisstjórn og Framsóknarflokkurinn verði stærri:

Forsætisráðherra: Sigmundur Davíð Gunnlaugsson
Utanríkisráðherra: Bjarni Benediktsson
Fjármálaráðherra: Illugi Gunnarsson
Menntamálaráðherra: Hanna Birna Kristjánsdóttir
Atvinnuvegaráðherra: Gunnar Bragi Sveinsson
Umhverfisráðherra: Sigurður Ingi Jóhannsson
Innanríksisráðherra: Ragnheiður Elín Árnadóttir
Velferðarráðherra: Eygló Harðardóttir

(birt án allrar ábyrgðar)

RÚV er vorkunn að þurfa að sinna öllum þessum smáflokkum. Svo er líka hætta á að þeir klóri augun hver úr öðrum. Útvarp Saga er ekki lengur í framboði og ég hef ekki hugmynd um hvern hún styður. Kannski hefur  hún einhver áhrif eða a.m.k. Pétur Gunnlaugsson því bæði er hann mjúkmáll, vel að sér og talar við býsna marga.

Nú fer kosningabaráttan brátt að hefjast. Frí verður samt kannski um páskana, á meðan frambjóðendurnir borða páskaeggin sín, en síðan verður allt vitlaust og enginn friður. Ekki er það meining mín að skrifa um pólitík framað kosningum. Reyni að finna eitthvað skemmtilegra til skrifa um. En svona er Ísland í dag.

Man að í tíma hjá Gunnari Benediktssyni kallaði ég Fenrisúlf einhvern tíma Fernisúlf. Þetta var á þeim tíma sem fernisolíu og þurrkefni þurfti næstum hver maður að eiga. Man líka vel eftir Kristjáni frá Djúpalæk en hann stundaði eimitt húsamálun á þessum árum og hefur eflaust átt fernisolíu. Kristmann vann aldrei neitt á þessum árum minnir mig og Jóhannes úr Kötlum ekki heldur. Hann sat samt stundum yfir í prófum.

Rabb kallaði Emil Hannes þetta hjá mér og líkti við þáttinn um daginn og veginn. Einhver kallaði þetta líka raus. Hvort skyldi vera réttara? Sennilega skrifa ég alltof mikið og um næstum ekki neitt. Gæti svosem endursagt efni einhverra bóka, en hver hefur áhuga á því?

Í dag er föstudagurinn langi. Í gamla daga var sá dagur svakalega langur og þessvegna er ég að hugsa um að hafa þetta blogg í lengra lagi.

Lengd dagsins í gamla daga var mest útaf því að ekkert mátti gera. Ekki fara í fótbolta, leika sét úti eða gera neitt skemmtilegt. Seinna meir voru ferðalög að vísu leyfð, en samt mátti ekki fara hvert sem er. Helst átti manni að líða svolítið illa þennan dag. Jafnvel að pína sjálfan sig aðeins. Páskaeggin og maturinn voru þó svolítil huggun harmi gegn og Páskahátíðin í heild var fremur ánægjuleg.

Einkum var það vegna þess að þá var langt frí í skólanum. Seinna meir varð það að einskonar upplestrarfríi og þá ekki nærri eins spennandi. Auðvitað nennti maður aldrei (eða næstum aldrei) að læra neitt heima en að vera í upplestrarfrí var nóg til þess að samviskubitið nagaði mann. Svo vissi maður ekki nema aðrir tæku þetta alvarlega og væru að læra. Hikaði þess vegna við að fara til krakka og spyrja hvort þau vildu koma út að leika.

Mitt heimili var dálítið guðhrætt. Helst átti maður að minnast veru frelsarans á krossinum og kenna mikið í brjósti um hann. Auðvitað fannst mér þetta sem barni og unglingi vera hin mesta vitleysa og þegar ég fullorðnaðist held ég að ég hafi ekki reynt að sá einhverju um þetta í mína krakka. 

IMG 2893Óhreinn snjór á förum.


mbl.is Páfi þvoði fætur ungra fanga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

1924 - Gerir vonandi ekki mikið af sér fram að kosningum

Dálítið er ég hræddur um að örvænting grípi Samfylkinguna og Sjálfstæðisflokkinn nú á næstu dögum (Hafa nefnilega haldið sig vera aðalflokka landsins.) Engin sérstök ástæða er til að halda að skoðanakannanir séu ómark. Tíðinda gæti því verið að vænta. Báðir flokkarnir eru nánast í frjálsu falli.

Framsóknarflokkurinn má vel við una og gerir það eflaust. Vinstri-grænir hafa alltaf verið smáflokkur og munu líklega verða það áfram. Þeim hefnist áreiðanlega fyrir að svíkja sín helstu stefnumál. Hvort pínulitlu framboðin fái mann eða menn á þing er aðalspurning yfirvofandi kosninga.

Það er með öðrum orðum útlit fyrir að fjórflokkurinn (og varadekkið - BF) haldi áfram að stjórna landinu eins og hingað til. Litlu máli skiptir hvað flokkarnir kallast. Spillingunni og einkavinavæðingunni verður haldið áfram. Hrossakaupin og kjördæmapotið verða áfram talin til dyggða. Stjórnarskrármálið er endanlega úr sögunni. Útgerðarmenn eiga enn fiskinn í sjónum og ríkisstjórnin er greinilega minnihlutastjórn sem semur um að það eitt að fá að tóra í nokkra daga í víðbót. Já, þetta er ógeðslegt.

Þó illa hafi verið stjórnað er ekki hægt að neita því að lífskjörin hafa batnað talsvert á undanförnum áratugum. Eða allt frá heimsstyrjöldinni síðari. Hugsanlega er það ekki nema að litlu leyti okkur sjálfum að þakka. Lengst af höfum við verið undir verndarvæng annarra.

Æ, ég er orðinn leiður á pólitík. Ekki held ég að sjónvarpsútsendingin frá umræðum á alþingi geri neinum gagn. Þó væri eflaust slæmt að missa hana. Þingmenn þreytast aldrei á að fullyrða að þeir séu ekki nærri eins vitlausir og útsendingin gefur til kynna. Starf þeirra sé að mestu unnið í kyrrþei. Ja, svei. Kannski rífast þeir minna á nefndarfunum en samt eru þeir á flestan hátt misheppnaðir og óhæfir. Leiðinlegt að horfa uppá æðstu stofnun þjóðarinnar lúta svona lágt.

En áfram munu Íslendingar láta smána sig og sætta sig við þessi úrhrök. Þræla munu þeir í þágu þeirra ríku og láta láta hirða af sér afrakstur vinnunnar. Ekkert getur hróflað við ofurvaldi peninganna. Bankarnir munu búa þá til með ýmsum ráðum og eftir sínum þörfum og gera það sem þeim sýnist við þá.

IMG 2908Slys.


mbl.is Fundum Alþingis frestað í nótt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

1923 - Laugavegurinn

Tvisvar hef ég farið Laugaveginn svonefnda. Þ.e.a.s. leiðina milli Landmannalauga og Þórsmerkur. Og þær eru með eftirminnilegustu ferðum sem ég hef farið. Um aðra þeirra ( líklega þá seinni ) skrifaði ég einhverntíma óralanga (5 eða 6 véritaðar síður) ferðasögu sem ég fann í rusli hjá mér um daginn. Nei, ég ætla ekki að þreyta hugsanlega lesendur með því að birta hana. Þeir sem hafa glæpst til þess að fara hingað inn vegna Laugavegsins eins geta hætt hér. Allt sem á eftir fer eru hugleiðingar um pólitík o.þ.h.

Fékk yfir 700 heimsóknir hingað í gær og líklega er það met. Þetta er nokkuð örugglega því að þakka að ég linka í mbl.is fréttir sem eru nokkuð vinsælar. Auðvitað vil ég að sem flestir lesi bloggið mitt en þetta er samt ekki það sem ég stílaði inná. Meðvirkandi faktor í þessari miklu aðsókn er líka óvenjuleg staða i stjórnmálum landsins og til úrslita mun víst hafa dregið í nótt. Fór samt fremur snemma að sofa og fylgdist ekki með því sem orðið var ljóst.

Held að úrslitin í kosningum í apríl í vor verði ekki í því nána sambandi við síðstu skoðanakannnanir sem oft hefur verið. Kannski er það bara ósköp venjuleg óskhyggja sem veldur því og svo eru þessar kosningar á margan hátt óvenjulegar. Hef alls ekki rýnt í tölur úr einstökum kjördæmun eins og ég gerði þó einu sinni. Tölvurnar eru farnar að gera þetta sífellt betur.

Sé framá að eftirlaunin og ellistyrkurinn verði að duga mér og okkur til viðurværis úr því að kemur fram á næsta sumar. Peningaleysi kann að hafa einhver áhrif á það hvað við borðum og hve mikið við notum bílinn, en vonandi verða áhrifin ekki meiri en það. Vitanlega komum við til með að þurfa að velta hverri krónu fyrir okkur en það er ekkert nýtt. Þannig hefur það alltaf verið. Vellystingar og gullát hafa bara verið fyrir þá sem duglegastir eru við að svíkja og stela. Þannig hefur það löngum verið. Valkosturinn á móti hefur hingað til verið algjör kommúnismi sem reynslan sýnir að er ekkert betri. Kapítaliska kerfið er opnara og frjálsara ( ef einhver munur er ) og séu settar hindranir á misnotkun þess getur það kerfi starfað ágætlega. Ég er samt eindregið þeirrar skoðunar að við eigum heldur að halla okkur að Skadinavíska modelinu en því bandaríska.

Með sjálfum mér hef ég oftast skipt stjórmálaöflum í hægri og vinstri flokka. Vitanlega hef ég kosið ýmist til hægri eða vinstri. ( Fer mest eftir því hvað er kallað hægri og hvað vinstri.) Getuleysi þeirra stjórnmálaafla sem hér hafa starfað á undanförnum kjörtímabilum hefur verið svo mikið að ég get ekki lengur varið það fyrir sjálfum mér að ganga þessum spilltu og skelfilegu eiginhagsmunaöflum á hönd. Það skiptir mig engu þó þau öfl sem ég kem til með að kjósa virðist á pappírnum ekki eiga mikla möguleika á að koma manni eða mönnum að. Atkvæði mitt er miklu betur hjá þeim komið, en gömlu valdaflokkunum.

Vegna þess að ég skynja að Internetið er það afl sem vex mjög að áhrifum þessi misserin og verndin og nafnleysið þar skiptir máli, er ég nokkuð ákveðinn í að kjósa píratana en ég mun eftir sem áður ekki starfa á neinn hátt fyrir þá og gagnrýna ákvarðandir þeirra ekki síður en annarra.

Einhverjir kalla þetta bloggstand mitt raus og það er eiginlega alveg rétt. Ég reyni samt að hafa þetta ekki of langt í hvert sinn, en auðvitað er þetta tómt raus í augum margra. Eiginlega er aldrei neitt bitastætt hérna. Það er að segja nægilega bitastætt í huga lesandans. Mér finnst það kannski bitastætt, en get alls ekki séð fyrir hvað aðrir hugsa.

Sumir ætla að hegna fjórflokknum með því að kjósa ekki, en í raun hjálpa þeir honum með því. Líka er, held ég, rangt að kjósa taktísk og óttast að atkvæði sitt falli ónotað til jarðar. Það er hugsanlega ímyndun. Þannig ónýtt atkvæði er mun betra en ónotað, finnst mér.

IMG 2885Tilbeiðsluhús.


mbl.is Uppselt á Laugaveginn í sumar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

1922 - Birgitta segir....

Stjórnmálaástandið er dálítið skrítið þessa dagana. Hræddur er ég um að Árna Páli þyki hann hafa leikið svolítið af sér með því að bjóða uppá þessar sögulegu sættir þegar allir aðrir voru í óða önn að gíra sig upp í kosningar. Árni Páll var nefnilega nýbúinn að ganga í gegnum slíkt og var svo feginn að það var yfirstaðið að hann hélt sennilega að allir aðrir hugsuðu líkt og hann.

Það er nánast óásættanlegt að fá bara að kjósa til alþingis á fjögurra ára fresti. Árlegar þjóðaratkvæðagreiðslur um mikilvæg mál ( ekki bara bjór og þessháttar ) gætu bætt hér svolítið úr. Sveitarstjórnarkosningar og forsetakosningar eru hálfgert ómark. Ólafur Ragnar hefur þó nýverið tekið uppá því að gera forsetakosningar eftirtekarverðari en venjulega. Nú styttist semsagt til alþingiskosninga og því er ekki að neita að Framsókn virðist ætla að ná ágætum árangri þar. Auðvitað má þakka ríkisstjórninni fyrir það, en þó held ég að hún hafi reiknað með að Sjálfstæðisflokkurinn fengi mest af því fylgi sem afgangs yrði eftir misheppnaða vinstri stjórn.

Konan mín segir stundum þegar hún segir mér eitthvað „Ekki blogga um þetta.“ Og ég held að ég geri það ekki. Kannski er það helsti veikleikinn við bloggið hjá mér að ég skrifa bara um það sem mér finnst merkilegt. Og meira að segja ekki nema um sumt. Fjölskyldumál og einkamál reyni ég að leiða hjá mér. Enda held ég að fáir hafi mikinn áhuga á því. Lesendum mínum er samt að fjölga, sýnist mér. Líklega stafar það að mestu leyti af því að ég linka í Moggafréttir (sem mér finnst ekki mjög merkilegar) og auglýsi bloggið þar að auki á fésbókinni. Gamalmennablogg er þetta kannski kallað, en það er ekkert endilega neikvætt.

Stundum reyni ég að vera fyndinn, en stundum er ég grafalvarlegur þegar ég blogga. Auðvitað held ég að allir sjái hvort heldur er, en samt er oft vissara að gera ráð fyrir að það fattist illa. Reyni jafnvel stundum að gera grín að sjálfum mér, en viðurkenni fúslega að ég er enginn Þórbergur þegar kemur að því.

Sigurður G. Guðjónsson, sem eitt sinn var stjórnandi á Stöð 2 gerir í blaðagrein ráð fyrir að Framsókn og Sjálfstæðisflokkur myndi stjórn að kosningunum í vor afstöðnum. Ráðherralisti hans er svona:

Forsætisráðherra: Sigmundur Davíð Gunnlaugsson B.
Utanríkisráðherra: Bjarni Benediktsson D.
Fjármálaráðherra: Frosti Sigurjónsson B.
Innanríkisráðherra: Vigdís Hauksdóttir B.
Atvinnuvegaráðherra: Einar Kristinn Guðfinnsson D.
Mennta- og menningarmálaráðherra: Hanna Birna Kristjánsdóttir D.
Velferðarráðherra: Sigrún Magnúsdóttir B.
Umhverfisráðherra: Eygló Harðardóttir B.

Þetta gengur nú ekki alveg upp hjá honum því mér sýnist skiptingin vera 5:3 og hún er ólíkleg. Hins vegar er sennilegt að B fengi forseta þingsins og báðir flokkar hafa svosem fleiri ráðherraefni.

Svo er alls ekki víst að það verði B og D sem mynda næstu ríkisstjórn. Kosningarnar sjálfar eru eftir.

Einn skrifaði í athugasemdadálkinn hjá mér við síðasta blogg (athugasemd við athugasemd hmm) og las sennilega ekki bloggið áður. Ég skrifaði einmitt svolítið um Norður-Kóreu og gerði það viljandi að linka í þá frétt. Aðsóknin fór bara svolítið úr böndunum, en ég get ekki gert að því.

Eftir því sem Birgitta Jónsdóttir segir á fésbókinni er búið að semja um þinglok. Sennilega stendur þingfundur samt eitthvað framá nótt því ýmis mál þarf að klára. Gaman verður að vita hver áhrif þinglokanna verða á skoðanakannanir. Alls ekki er víst að þau áhrif komi fram alveg strax. Sjálfur get ég bara ítrekað það sem ég hef áður sagt hér á blogginu. Ég mun ekki undir nokkrum kringumstæðum ljá fjórflokknum eða aftaníossum þeirra mitt atkvæði. Píratana eða Lýðræðisvaktina finnst mér mun áhugaverðara að kjósa. Dögun kemur einnig til greina. Endurnýjun á Alþingi þyrfti að verða sem allra mest. Það er ekki nóg með að ríkisstjórnin hafi með öllu brugðist, alþingi hefur einnig gert það.

IMG 2884Köngull.


mbl.is Birgitta segir samkomulagi náð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

1921 - Íris Erlingsdóttir

Nú er ég búinn að finna aðferðina. Gá hvaða frétt er nýjust á mbl.is og skrifa smáklausu um það mál og linka síðan í fréttina. Kannski enda ég með að verða eins vinsæll og Páll Vilhjálmsson. Er ég þá kannski kominn í vinnu hjá Davíð frænda?  Hugsanlega get ég farið að kalla mig ofurbloggara. Hver veit nema ég fari bráðum að setja aðsóknartölurnar út fyrir ramma. Það er eiginlega það eina sem ég kann almennilega á varðandi stjórnborðið. Er alltaf hálfhræddur við að breyta nokkru þar.

Fyrst þegar ég sá ( þónokkru fyrir aldamót - í kvikmynd – minnir mig) að Norður-Kóreumenn voru orðnir aðalóvinir Bandaríkjanna fannst mér það fyndið. Það voru þeir gerðir þrátt fyrir að vera algerir ómerkingar á heimsvísu. Kveikjan að allsherjar kjarnorkustríði er samt ekkert fyndin. Ekki er þó víst að allt sé satt og rétt sem sagt er um Norður-Kóreu á Vesturlöndum. Tortíming mannkyns getur orðið með margskonar hætti. Trúlegt er samt að hún verði einhverntíma. Hef enga trú á að Kínverjar leyfi Norður-Kóreumönnum að ganga of langt hernaðarlega. Áhrif Kínverja á gang heimsmála eru að aukast og munu gera það enn frekar í framtíðinni. Sú framtíð er þó talsvert undan og eiginlega er sú spurning hvort núverandi stjórnarfar þar geti haldist til langframa langmerkilegasta spurningin í heimspólitíkinni.

Lífið er orðið of hættulaust. Gallinn er sá að það er ekkert hættulegt að lifa lengur. Þessvegna er það sem fimmtugir kallar finna uppá því að ganga á Everest. Það er ekki nógu hættulegt að tóra bara. Annars öfunda ég þá. Skil bara ekki hvernig þeir hafa efni á þessu. Þetta er alveg rándýrt sport. Það er hægt að halda kostnaðinum niðri ef maður fer aldrei hærra en Helgafell við Hafnarfjörð, en maður fer ekki á Everest nema með dýrasta og fínasta útbúnað í farteskinu.

Íris Erlingsdóttir skrifar grein um Sigmund Davíð í DV sem hún kallar „Rukkum Sigmund um Icesave kostnaðinn“, http://www.dv.is/blogg/iris-erlingsdottir/2013/3/26/rukkum-igmund-um-iceave-kostnadinn/ og vandar honum ekki kveðjurnar þar. Mér finnst hún taka fullmikið uppí sig í þessari grein, en hún er samt athyglisverð. Á sínum tíma var ég fylgjandi því að samið yrði um Icesave. Einkum fannst mér og finnst enn að það að fara með málið fyrir dómstól ESA hafi borið vitni um happdrættishugarfar Íslendinga. Ég batt samt vonir við að ekki yrði mikið deilt um úrslit þess máls eftirá. Að því leyti til finnst mér grein Írisar ómálefnaleg.

Er samt sammála henni um það að Sigmundur sé óttalegur „lukkuriddari“ og fylgi Framsóknar sé að stórum hluta til byggt á Icesave-misskilningi. Það er samt ekkert verra en annnað fylgi. Það að finnast fylgi annarra flokka byggjast á fávisku er merki um þann veikleika sem fylgir íslensku flokkakerfi. Það hefur átt alltof auðvelt með að tryggja sig í sessi. Raunverulega hafa önnur öfl enga möguleika. Fjórflokkurinn hefur allsstaðar hreiðrað um sig. Kannski mun hann samt fá einhverja ráðningu í næstu þingkosningum og hugsanlegt er að hann bæti ráð sitt eitthvað. Sú ráðning mun samt ekki verða umtalsverð því eins og venjulega kemur andstæðingum kerfisins illa saman.

IMG 2879Reitir.


mbl.is Hótar að ráðast á Bandaríkin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

1920 - Guðmundar og Geirfinnsmál

Guðmundar og Geirfinnsmálin eru komin á dagskrá einu sinni enn. Mér finnst satt að segja alveg nóg komið. Allir virðast vera sannfærðir um að niðurstöður þessarar nýjustu nefndar séu réttar. Hversvega ætti þá að halda áfram? Með hvað að markmiði? Aðferðirnar sem beitt var hafa verið rækilega fordæmdar. Engin hætta er á þær verði endurteknar. Hversvegna ætti þá að halda málunum áfram?

Kannski dregur til tíðinda í pólitíkinni seinna í kvöld. Það er búið að fresta fundi á alþingi hvað eftir annað.

„Bjarni opnar á Evrópumálin“ sá ég í fyrirsögn í einhverju blaði. Nennti samt ekki að lesa þá grein sem ég held að hafi snúist um kosningafund hjá Sjálfstæðismönnum. Þetta er sennilega það sem á ensku er kallað „damage control“. Hann er líklega að reyna að minnka það tjón sem landsfundurinn hefur hugsanlega valdið hafi einhverjir tekið alvarlega þær ályktanir sem þar voru samþykktar.

Önnur fyrirsögn sem ég sá einhvers staðar var á þá leið að nú væri byrjað að innheimta gjald (200 kr.) fyrir að fá að fara inná hverasvæðið í Hveragerði. Ekki var það nú þannig í gamla daga. Hefði sannarlega munað um það ef ég hefði fengið 200 krónur í hvert skipti sem ég hef farið inná hverasvæðið þar. Man vel eftir þegar Eiríkur blindi og Sigga á Hótelinu voru að koma með túristahópa að borholunni þar og setja karbít í hana. (Eiríkur) Mest gaman var að sjá túristana hlaupa skíthrædda í allar áttir þegar holan fór að gjósa. Mamma varð alltaf öskureið ef vindáttin var þannig að gufan fór yfir þvottasnúruna heima.

Fyrst þegar ég kom að Gullfossi var enginn þar og allsengin mannvirki af nokkru tagi. Göngustígur var samt niður að fossinum og malarborin bílastæði skammt frá árgljúfrinu. Malbik eða olíumöl þekktist þá ekki utan Reykjavíkur. Las ágæta lýsingu eftir Ármann Jakobsson um daginn á því hvernig umhorfs var við Gullfoss áður fyrr. Nú skilst mér að komi þangað mörg hundruð manns á hverjum degi og húsum fjölgi þar stöðugt. Þegar forsætisráðherra Kína var á ferð fyrir nokkrum árum fékk hann ekki að skoða Kerið í Grímsnesi og var í staðinn sýnt hverasvæðið í Hveragerði.

Jón Ármann Héðinsson fyrrverandi þingmaður Alþýðuflokksins er hættur að láta eins og hálfviti. Einu sinni var ég með þessa sótt líka. Helst þurfti ég að komast á nýtt fjall í hverjum mánuði. Fjall sem ég hefði ekki komið á áður. Svo urðu fjöllinn svolítið erfið. (Og fækkaði líka a.m.k. þessum óklifnu.) Þá tók ég uppá því að ganga milli Reykjavíkur og Hveragerðis. Hef gert það nokkrum sinnum. Er hættur því líka enda orðinn rúmlega sjötugur. Kannski ég byrji bara á þessu aftur. Jón Ármann er 86 ára að ég held.

IMG 2874Bárujárn.


mbl.is Undirgefin og föst í lygavef
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

1919 - 19:19 (Á Lynghálsi)

Þetta blogg er númer 1919. Man að fréttatíminn á Stöð 2 var í byrjun alltaf kallaður 19:19. Byrjaði líka klukkan 19 mínútur yfir sjö. Fannst ágæt kenningin um að þeir sem sömdu þetta hefðu kannski haldið að á eftir nítján-nítján kæmi nítján-títján. Man líka eftir stríðinu við RUV útaf fréttatímanum,vegna þess ég gerði dagskrárplanið þá og þurfti t.d. að taka tillit til lengdar lógó-sins, því allt þurfti að passa.

Veit ekki hvort ég held áfram þessu linkunarstandi, þó getur það verið. Virðist gefast vel, en auðvitað er bloggið með þessu gert að einskonar athugasemd við frétt. Þar með er maður víst orðinn „virkur í athugasemdum“ sem er á margan hátt eitt mesta skammaryrðið þessa dagana. Þetta með að auglýsa beint á fésbókinni er samt ágæt hugmynd.

Heyrði áðan sungið með talsverðri tilfinningu (Kannski á Útvarpi Sögu) „Við viljum stjórnarskrá.“ Minnti mig á gamla tíma. „Sóleyjarkvæði“ eftir Jóhannes úr Kötlum var sungið víða. Það var stórkostlegt kvæði. Veit ekki hve mikil áhrif það hafði samt. Mér finnst þjóðremba ekkert betri þó hún sé í formi ríms og stuðla. Auk þess voru allt aðrir tímar þegar það var samið. Nýja stjórnarskrá vil ég þó og trúi að það sé útaf hræðslu (við kjósendur) sem þingmenn vilja ekki taka hana til atkvæðagreiðslu.

Umræðan um auðævi lífeyrissjóðanna er umræða sem verður að taka. Hún var tekin á hinum Norðurlöndunum fyrir nokkrum áratugum og við gætum sem best reynt að herma eftir þeim. Sömu eða svipuðum lífskjörum náum við þó líklega aldrei. Ömurlegt hlutskipti er samt að vera taglhnýtingur Bandaríkjanna. Verðtryggingin er bara einn hluti af þeim kynslóðareikningi sem á sér stað í gegnum lífeyrissjóðakerfið og sæmileg sátt þarf að ríkja um milli kynslóðanna. Málin eru margflókin.

Minnir að ég hafi skrifað um það í gær að ríkisstjórnin hafi greinilega tapað í áróðursstríðinu sem óhjákvæmilega er háð allt kjörtímabilið. Á alþingi finnst mér þetta einkum hafa komið fram í því að í stað þess að mildast við undanlátssemi ríkisstjórnarflokkanna hefur stjórnarandstaðan magnast í andstöðu sinni þangað til svo er nú komið að henni þykir sjálfsagt að stjórna að fullu. Með öðrum orðum, ég er algjörlega búinn að gefast upp á fjórflokknum. Fulltrúum hans er alls ekki viðbjargandi og munu verja klíkuskapinn og spillinguna fram í rauðan dauðann.

Sýndist í frétt í sjónvarpinu áðan að framboðin séu eitthvað undir tuttugu. Kannski eru einhverjir bókstafir semsagt lausir ennþá. Held samt að flokkarnir á þingi verði ekki svona margir. Kannski uppundir tíu eða svo. Hvernig segir maður sig annars úr eins manns þingflokki? Þetta er bara dæmi um vandamál sem ég að velta fyrir mér nákvæmlega núna.

Þetta blogg er næstum eingöngu um pólitík. Hvernig stendur eiginlega á því? Mér finnst hún ekkert sérlega merkileg. Fjölbreytt er hún samt einmitt núna. Ekki er hægt að neita því. Það verður fjör að fara að kjósa í vor. Eiginlega er það synd að hafa ekki svona eina eða tvær þjóðaratkvæðagreiðslur samhliða. En við endum samt í sósíalísku ESB. Já, þetta eru allt laumukommar.  

IMG 2872Lækur.


mbl.is Langi-Jón fannst á Lynghálsi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

1918 - Kýpur

Prófaði eina nýjung varðandi bloggið í morgun. Linkaði í frétt um Jóhönnu Sigurðardóttir og ætla að athuga hvort það er eitthvað betra en ekki. (Semsagt að linka.)

Já, ég er ekki frá því að fleiri lesi snilldina með þessu. Þá er það semsagt tvennt sem ég þarf alltaf að muna þegar ég set upp blogg. Finna hæfilegan link á mbl.is og auglýsa bloggið á fésbókinni (tvisvar). Já, einmitt það. Man núna að ég ætlaði að auglýsa tvisvar á fésbókinni en hef víst gleymt því undanfarið.

Nú ætla ég að fara að hlusta á hálftíma hálfvitanna í sjónvarpinu. Það er eitt það skemmtilegasta þar. Sérstaklega ef Ragnheiður Ásta tekur bjöllusóló.

Eru Íslendingar sinnulausir um eigin hag? Mér finnst ansi margir vera það ef rétt reynist að hleypa eigi Framsóknar- og Sjálfstæðismönnum að kjötkötlunum aftur. Hef enga trú á að þeir flokkar hafi breyst nógu mikið. Núverandi stjórnvöldum hefur mistekist margt. Einkum hefur þeim orðið lítið ágengt í áróðursstríðinu. Það stríð skiptir talsverðu máli. T.d. er greinilegt að Bandaríkjamenn og Ísraelsmenn hafa tapað áróðursstríðinu í heimsmálunum, ef bara er horft til Evrópu og miðausturlanda. Á heimavígstöðvum kann þó að vera að vígstaðan sé alls ekki eins erfið. Kannski er það hún sem skiptir mestu máli.

Ein matvörukeðjan hefur fundið uppá slagorðinu: „Kræsingar og kostakjör“. Ég skil þetta þannig að kræsingar (góður matur) geti ekki verið á kostakjörum og kostakjörin geti ekki átt við kræsingar. Kannski á að skilja þetta á einhvern annan veg, en mér finnst það ekki liggja í augum uppi.

Kýpur er á barmi örvæntingar og íslenskir ESB-andstæðingar fagna mjög. Vel má hugsa sér að bankarnir á Kýpur ( því gríska) fari á hausinn, en Kýpurbúar fá áreiðanlega ekki 100% gengisfellingu í hausinn líka. Búast má við að lágar bankainnistæður fáist að fullu greiddar, en kannski ekki allt rússagullið. Man enn hvað Kanaríeyjabúum fannst um bankahrunið hér.

Landlægt er hér að rugla saman gríska og tyrkneska hluta Kýpur. Á smáþjóðaleikum sem haldnir voru hér á Íslandi fyrir fáeinum árum var vitlaus fáni dreginn að húni og íþróttamennirnir hneyksluðust mjög. Dannebrog hvað?

Sko til! Íslendingar geta bara unnið útileiki í knattspyrnu. Eftir 14:2 leikinn í Kaupmannahöfn var ég farinn að efast um það. Man vel eftir þeim leik. Held að Sigurður Sigurðsson hafi lýst honum eftirá og hann hafi verið sýndur allur í sjónvarpinu. Gott ef Sigurður var ekki greinilega drukkinn við að lýsa þeim leik. Skiljanlegt. Annars hefur áhugi minn á knattspyrnu og íþróttum yfirleitt minnkað mikið með aldrinum. Hafði heilmikinn áhuga á þessu öllusaman áður fyrr. Eftir Hrunið má eiginlega segja að pólitíkin hafi komið í staðinn.

„Shaken baby syndrome“ er ekki til segja sumir. Atburðir af þessu tagi eru yfirleitt sorglegri en orð fá lýst. Man vel eftir bresku barnfóstrunni sem kærð var útaf slíku máli í Bandaríkjunum. Oft er undarlegt hvaða mál verða áberandi í heimsfréttunum. Mislíkar oft við fyrirsagnir og myndir í innlendum fjölmiðlum. DV virðist t.d. oft reyna að selja fáein blöð útá það eitt að hafa fyrirsagnirnar nógu krassandi og láta fólk halda að atburðirnir hafi gerst á næsta götuhorni.

Flestar af mínum minningum eru með einhverjum hætti bundnar fólki. Þar af leiðir að oft er þægilegra að skrifa um slíkt þegar langt er liðið frá því sem lýst er. Minningarnar tengjast líka frekar orðum og textum en lögum. Hef oft heyrt að tiltekin lög minna fólk á ýmislegt. Þannig er ég ekki. Samt sem áður er það undarlega lítið sem maður man. Kannski er réttast að segja sem betur fer. Endurminningabækur held ég að séu oft mikill skáldskapur. Oft taka höfundar það fram að ekki megi treysta því um of sem skrifað er. Minnið er líka brigðult með afbrigðum. Ýmislegt sem maður heldur að sé alveg öruggt er kannski mesta vitleysa. Hvernig ætli standi á því?

IMG 2869Undirgöng.


mbl.is Kýpurdeilan rædd í Brussel
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband