Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2018

2795 - 800 manns deyðu

Á sínum tíma fjallaði ég í bloggi mínu um mál Snorra í Betel. Hann var rekinn úr einhverri kennarastöðu á Akureyri fyrir ummæli sem hann lét falla á bloggi sínu. Ef ég man rétt fór hann í mál við Akureyrarbæ og sigraði. Fékk væntanlega bætur fyrir ólögmæta uppsögn. Svipað mál gagnvart Háskólanum í Reykjavík virðist vera í uppsiglingu núna. Þar lét einhver kennari niðrandi orð falla um kvenfólk á lokaðri fésbókarsíðu. Væntanlega sigrar hann auðveldlega í því máli. Ekki er þar með sagt að fallist verði á allar kröfur hans.

Lokaður hópur á fésbók er ekki vitund lokaður. Því hefði þessi maður átt að gera sér fulla grein fyrir. Hins vegar held ég að HR hefði þurft að sýna óyggjandi fram á að skoðanir hans hafi haft áhrif á störf hans fyrir skólann. Held að það hafi ekki verið gert og þessvegna sé uppsögnin ólögmæt. Geri mér fulla grein fyrir því að þetta snertir mjög viðkvæmt mál, en lög eru lög og þeim ber að fylgja. Hvort þarna er um að ræða opinberan starfsmann eða ekki,  getur hæglega orðið útgönguleið fyrir dóminn, ef löngun er til að dæma í samræmi við pólitíska rétthugsun.

Auðvitað les ég alltaf það sem Þorsteinn Skjóldal frændi konunnar minnar skrifar á fésbókina og rekur á mínar fjörur. Sjaldan kommenta ég og jafnvel læka ekki nema stundum. Hann er sko í alvöru fyndinn. Það sem honum dettur í hug er alveg merkilegt. Kannski er þó merkilegast að hann skuli koma þessu á þrykk svona auðveldlega. Þetta er svosem ein leið til þess að takast á við undarlegheit lífsins. Láta bara eins og þetta sé allt saman misheppnaður draumur. Af hverju ætti maður að taka lífið alvarlega? Ég bara spyr.

Enginn vafi er á því lengur að Wowair er að fara á hausinn. Hvort Icelandair græðir nokkuð á því er annað mál. Kannski gera þeir það og kannski ekki. Farþegunum verður að bjarga.

Trump Bandaríkjaforseti skiptir sífellt minna máli. Flestir eru farnir að læra á hann og fjölmiðlastríð hans. Það er miklu frekar Pútín sem menn verða að vara sig á. Trump er hálfvængbrotinn núna því hann, eða réttara sagt Republikanaflokkurinn, hefur ekki lengur meirihluta í báðum deildum þingsins. Búast má við einhverjum fjörbrotum hjá honum á næstunni því nýja þingið kemur saman eftir áramót.

Hlustaði um daginn á Útvarpsþátt um Jim Jones og þá sem drukku eitrið. Minnist líka ótrúlegra frétta af ferjunni Estoniu þar sem um 800 manns drukknuðu á einu bretti. Vera Illugadóttir er að verða minn uppáhaldssagnfræðingur. Hún kann sko á dramatíkina.

DV og fleiri hafa birt skandalafréttir um alþingismenn, þar sem þeir láta sér ýmislegt miður fallegt um munn fara. Trúlegast þykir mér að einhver viðstaddra hafi tekið þetta upp á símann sinn og síðan hafi verið brotist inní hann eða einhverjum afhent upptakan. Tæknin er orðin ótrúleg og Öskjuhlíðin heillar. Hver er eiginlega sá seki? Sá sem sagði, sá sem tók upp, sá sem braust inn eða brást trausti. Hugsanlega sá sem birti opinberlega. Þetta er vandamál.

IMG 7479Einhver mynd.


2794 - Ameríska systemið

Hvers vegna var það sem ameríska systemið var fundið upp? Þeir vildu nefnilega ekki hafa kóng, sem öllu réði. Innst í hugskoti margra Bandaríkjamanna er það samt líklega markverðasta skýringin á því fylgi sem Trump þó hefur, að nú vilja þeir kóng. Trump er nógu frekur og stjórnsamur til að koma að miklu leyti í staðinn fyrir alvaldan kóng. Þó held ég ekki að svo verði. Hugsanlega verður Putín kóngur eða keisari í Rússlandi með tímanum, en mér finnst ólíklegt að Bandaríkjamenn gangi svo langt. Segja má að Trump njóti líka þeirrar bylgju flóttamannaótta og föðurlandsrembings sem nú fer um heiminn. Hæst ber þá bylgju sennilega í BREXIT og máttleysi ESB. Á sínum tíma kostaði það mikið að halda ríkjum Bandaríkjanna saman. Ekkert bendir til að svo verði með ESB, enda eru þar fjölmörg tungumál töluð og lítill skilningur þjóða á milli. Hægt vaxandi fer hann þó.

Næst á eftir Bretlandi er líklegast að Austurríki fylgi brexitlega á eftir. Síðan hugsanlega Ungverjaland og jafnvel fleiri. Tyrkir gætu sem best hætt að sækjast eftir inngöngu. Veit ekki með EES. Íslendingar líta alltaf svo stórt á sig. Eins og þeir skipti einhverju máli. Norðmenn eru lítið eitt skárri.

Vopnfirðingar vilja að Ratcliffe gefi þeim sundlaug. Þetta segir Fréttablaðið a.m.k. og kannski er það rétt. Líka getur vel verið að þetta sé bölvuð vitleysa. Að mörgu leyti væri þetta klassísk aðferð til að fá samþykki og stuðning fjöldans. Kannski hefur bara einhverjum vopnfirðingi nú eða blaðamanni á Fréttablaðinu dottið þetta í hug. Enginn er borinn fyrir þessu minnir mig og ekki ætla ég að mæla með þessari aðferð til að kveða niður gagnrýnisraddir. Reyndar les ég bara fyrirsagnir og aðallega á útsíðum. Legg svo útaf þeim með mínum hætti eins og tíðkast á fésbókinni. Kannski er það alveg rétt að jarðakaupin séu bara gerð til þess að vernda villta laxastofna. Sá tilgangur getur samt breyst á einu augnabliki. Hvað veit ég?

Samkvæmt frétt í fréttablaðinu stendur til að byggja hér á Akranesi einingahús frá Lettlandi. Held að Byko sé eitthvað blandað í þau mál. Timburhús hljóta það að vera og ég man vel eftir því að einhverntíma á sjöunda áratug síðustu aldar var ég að vinna hjá Hannesi Þorsteinssyni og m.a. að reyna að selja svona hús. Mikill áhugi var þá á innfluttum einingahúsum frá Finnlandi sem Hannes hafði umboð fyrir, en ekki varð úr neinum kaupum þá.

Annars ætti ég að vera að skrifa um hjúkrunarfræðinga eða fjárlög núna.  Ef menn eru ekki arfavitlausir útí þá sem voga sér að kalla hjúkrunarfræðinga hjúkrunarkonur, þá geta þeir a.m.k. þráttað um reikningsaðferðir við fjárlagafrumvörp. Ég bara nenni því ekki. Þetta gleymist svo fljótt. Undarlegt að fólk með fullu viti skuli láta svona. Maður gæti haldið að kosningar verði á morgun.

Alltaf er ég jafnsvartsýnn og neikvæður. Það er bara svo fátt sem tekur því að vera jákvæður útaf. Kannski eru menntamál það markverðasta í heiminum. Unga kyslóðin mun óhjákvæmilega taka við. Ef við gætum þess ekki að mennta hana sómasamlega getum við eins hætt þessu öllu saman. Til hvers er lífið ef engar framfarir verða? Hvort sem okkur líkar betur eða verr er framtíðin í þeirra höndum, en ekki okkar gamlingjanna.

IMG 7483Einhver mynd.


2793 - Ýmislegt um Trump og Mueller

Það var í maí árið 2017 sem Mueller fyrrverandi forstjóri FBI var skipaður sem sérstakur saksóknari eða rannsakandi varðandi afskipti Rússa af forsetakosningunum í Bandaríkjunum árið 2016. Sessions sem þá var dómsmálaráðherra sagði sig frá þessari rannsókn og lét næstráðanda sínum Rod Rosenstein eftir að skipa í þessa stöðu. Hann skipaði Robert Swan Mueller III í það embætti. Síðan var það ekki fyrr en núna nýlega, eftir kosningarnar þar í landi sem Trump mannaði sig uppí að reka Sessions. Hann hefur ekki þorað að reka Rosenstein enn, þó hann hafi ekki látið hann taka við af Sessions.

Trump hefur á margan hátt gegnið nokkuð vel í innanríkismálum. Hvað utanríkismálin varðar hefur hann gert hvert axarskaftið eftir annað. A.m.k. vill pressan sem ávallt er Trump andsnúin svo vera láta. Samt hefur hann sloppið furðuvel frá ýmsu þar, þó flestir vestrænir leiðtogar séu honum verulega andsnúnir. Það er helst að Macron Frakklandsforseti hafi verið eitthvað að sleikja sig upp við hann. Einræðisherrar um allan heim eru Trumpistar miklir.

Öfgafullur þjóðernisrembingur er í nokkurri sókn víða um heim. Brexit er afsprengi hans. Vissulega á Evrópusambandið víða í talsverðum vandræðum, en hvort Trumpisminn er rétta svarið við þeim vanda öllum saman er ekki víst. Víða í Evrópu er hægt að benda á að ESB hafi gert mikil mistök. Við Íslendingar höfum þó getað sótt ýmsar lagfæringar þangað á okkar málum. Andstaða Sjálfstæðisflokksins við ESB-inngöngu er alls ekki sannfærandi því þar á kapítalisminn talsvert skjól. Sá ismi hefur í gegnum tíðina valdið Bandaríkjunum miklu tjóni. Efnahagslega hefur Bandaríkjamönnum þó gengið vel, en Trumpisminn og einangrunarstefna sú sem hann fylgir mun fyrr eða síðar valda því að forusta þeirra þar mun taka enda.

Læt ég nú hugleiðingum mínum um alþjóðastjórnmál lokið í bili og hyggst taka upp léttara hjal. Fyrir nokkru var svo að sjá sem næstum þrjúhundruð heimsóknir hafi verið á mitt heimasvæði. Slíkt er alltof mikið. 1 til 2 hundruð er miklu nær lagi. Haldi heimsókir á mitt bloggsvæði áfram að aukast þýðir það bara eitt. Ég verð að fara að vanda mig enn meira við bloggskrifin og gera ráð fyrir að verða fyrir allskyns hremmingum.

Auðvitað eru þetta öfugmæli. Að sjálfsögðu er ég jafnmikill klikk-safnari og flestir aðrir. Ég nota bara þá aðferð að þykjast vera á móti öllu klikki og fésbókinni þar að auki. Þó ég hafi einu sinni haft tölvutækni talsvert á valdi mínu, eru þeir dagar löngu liðnir og núna skil ég eiginlega ekkert í sambandi við fésbókina eða símann minn. Ég er bara geðvont gamalmenni, sem hefur flest á hornum sér. Kannski ég fari bara að hætta að blogga að þessu sinni.

geirogingibjorgEinhver mynd.


2792 - Tæknin sem tætir allt í sundur

Eiríkur Rögnvaldsson professor emeritus er á móti því að stjórnvöld séu að skipta sér of mikið af nafngiftum manna. Samt vill hann setja einhver almenn viðmið eins og til dæmis að unnt sé að skrifa nafnið með latneskum bókstöfum eins og við erum vönust hér á landi. Alveg er ég sammála honum um þetta og óttast ekki að hreinum og klárum ónefnum fari fjölgandi þó þessari reglu væri fylgt. Þarflaust ætti að vera með öllu að stunda kyngreiningar með nöfnum. Samt er það alveg ótrúlegt hve mikil ónefni fólk getur valið afkvæmum sínum. Einkum þó fræga fólkið, sumt a.m.k., því það vill endilega vekja sem mesta athygli.

Þó fésbókin og aðrir félagslegir miðlar auðveldi á ýmsan hátt samskipti fólks, þá eru þeir um leið hættulegir. Fyrir fáeinum árum fór ég í ferðalag með fyrirtækinu Bændaferðum og í undirbúningnum fékk ég í pósti tölvuútprentun með nöfnum og heimilisföngum allra sem í ferðalagið ætluðu að fara. Einnig var tiltekið að mig minnir hvaða dagsetningar um væri að ræða. Ekki efast ég um að þetta hefur verið gert af góðum hug. Samt hefði með svolitlum kvikindisskap verið hægt að líta á þetta sem einskonar aðstoð við hugsanlega innbrotsþjófa.

Ef maður vill fá nýjustu kjaftasögurnar beint í æð þá er réttast að fara á eirikurjonsson.is . Þar er allt það safaríkasta og er það ekki það sem allir vilja? Skynsamlegast er samt að grjóthalda kjafti sjálfur, annars gæti maður lent í hakkavélinni.

Margir hneykslast mikið á fréttaflutningi ríkisútvarpsins. Auðvitað er hann vinstri sinnaður og dregur taum rétttrúnaðarins á fésbókinni. Satt að segja erum við hjónin dálitið upptekin af því að hlusta og horfa á fréttaflutning sjónvarps í rauntíma, sem mér skilst að sé alls ekki algengt. Mikil bót var þó að geta horft á fréttirnar þar hvenær sem er.

Alls ekki er það samt svo að við trúum öllu sem þar er fram borið. Fréttir eru útum allt. Og allir vilja fá sem flest klikk. Við horfum heilmikið á Internetfréttir og eiginlega er ég a.m.k. hálfhneykslaður á því stundum hve trúgjarnt og illa upplýst fjölmiðlafók virðist vera. Í mínum huga hafa allir eða flestallir fjölmiðlar einhverskonar einkunn og eftir því fer hve vel ég trúi þeim. Í þeirri flokkun eru stórblöð eins og New York Times ofarlega en Fésbókin og DV aftur á móti neðarlega. Verst þykir mér hve margir málsmetandi menn hér á landi eru uppteknir af því að verja flokkinn sinn.

Fyrir nokkru bloggaði ég um lífsreglurnar þrjár og sagðist þá ætla að gera betri grein síðar fyrir tækninni, sem allt er að drepa. Sannleikurinn er sá að tölvutæknin og svonefnd nanótækni er að fara framúr okkur mannfólkinu. A.m.k virðist það vera svo hér á Íslandi. Alls ekki virðist fólk gera sér grein fyrir hvernig tölvur og Internetið virka. Eða hvernin alþjóðleg fyrirtæki reyna sífellt með auglýsingum að slá ryki í augu okkar. Sú kynslóð sem er að vaxa upp heldur greinilega að tæknin og samskipti fólks hljóti að hafa alltaf verið eins og nú. Annars getur vel verið að þetta sé bara svolítið nýtískuleg útgáfa af því sem ætíð hefur verið haldið fram: Unga kynslóðin er ómöguleg. Þau eru svo heimsk og vita ekki neitt. Þessu hefur mjög oft verið haldið fram og er sjálfsagt ekkert réttara núna en verið hefur.

Að okkur íslendingum skyldi hafa tekist að komast þetta langt á þeim tíu árum sem liðið hafa frá Hruninu er í rauninni stórmerkilegt. Ferðamennirnir björguðu okkur. Líklega liggja þó allmargir óbættir hjá garði ennþá og Hrunið varð þess valdandi að allstór hluti þjóðarinnar var hlunnfarinn mjög. Beinlínis er hægt að segja að stolið hafi verið frá þeim. Löglega þó því misyndismennirnir voru ekki síst í röðum þeirra sem stjórnuðu . Þó er eins og við höfum lítið lært. Vel getur verið að flest fari hér á vonarvöl aftur og það jafnvel fljótlega.  

IMG 7593Einhver mynd.


2791 - Fjörbrot fjölmiðlanna

Mér finnst það í sannleika helvíti hart
að hafa ekki jörð til að ganga á.      

Af einhverjum ástæðum er mér þetta gamla vísubrot ofarlega í huga akkúrat núna. Veit svosem ekki hver orti þetta. Finnst það líka hart að síminn minn skuli ekki taka mark á plástruðum putta. Ég á ekki við að hann vanti fingraförin til að sannfæra sjálfan sig um að maður eigi að hafa leyfi til notkunar. Heldur er ekki hægt að ýta á nokkurn stað á skjánum.

Ljóskerið á Tösku logar ekki.

Að mörgu leyti má líta svo á að núverandi ástand í fjölmiðlamálum heimsins sé ekki komið til að vera. Eiginlega er stórundarlegt að mál skuli hafa þróast á þennan veg. Auglýsingar fjölþjóðlegra fyrirtækja í gegnum allskyns álitsgjafa eru svosem ekkert skárri. Hreðjatak fjölmiðla á almenningi er eiginlega slíkt að það hlýtur að enda með ósköpum. Ástæðan fyrir því að ég segi þetta er sú að enginn vill borga mér fyrir að blogga svona þindarlaust. Þó finnst mér að ég sé gáfaðasti og besti bloggarinn í öllum heiminum.

Um daginn hlustaði ég til dæmis og horfði á Egil Helgason í Kiljunni. Þar talaði hann meðal annars við rithöfundinn og norrænufræðinginn Bergsvein Birgisson. Hann samdi t.d. söguna um Geirmund heljarskinn (ekki Valtýsson). Daginn eftir átti ég erindi á bókasafnið og tók þar meðal annars tvær bækur eftir þennan höfund að láni. Það voru bækurnar Handbók um hugarfar kúa og Geirmundar saga heljarskinns, sem höfundur kallar Íslenzkt fornrit. Þessi um beljurnar var bara ósköp venjuleg skáldsaga. Af hverju beljur eru svona vinsælar í nöfnum bóka um þessar mundir er mér meira og minna hulin ráðgáta.

En snúum okkur að Geirmundar sögu heljarskinns. Auðvitað byrjaði ég þar á formálanum eins og lög gera ráð fyrir. Oft er það svo að formálar og eftirmálar eru athyglisverðustu hlutar hverrar bókar. Að þessi formáli væri tæpar sjötíu blaðsíður að lengd fældi mig ekki vitund frá honum. Þessi formáli var um margt athyglisverður. T.d. fyrir þá sök að þar beitir höfundurinn þekkingu sinni á fornbókmenntum mjög ákveðið til að sannfæra vantrúaða um að þarna sé um raunverulega Íslendingasögu að ræða. Svo er þó ekki. Ég verð samt að viðurkenna að það lá svo sannarlega við að ég sannfærðist.

Þegar að sögunni sjálfri kom féll mér allur ketill í eld. Þarna var greinilega um að ræða heldur groddalegar lýsingar á hinu og þessu og þó málfar væri fyrnt vel var ekki hægt að komast hjá því að efast um tilurð þessarar sögu. Ég fór því á Netið og kynnti mér umsagnir um bók þessa. Þar sannfærðist ég um að þetta er ekki raunveruleg Íslendingasaga og þar að auki komst ég að ýmsu um þennan rithöfund.

Eiginlega er þetta gamla sagan um sögulegar skáldsögur og hverju skal trúa. Höfundar, sumir hverjir að minnst kosti, liggja á því lúalagi að gera engan greinarmun á því hvað er satt og hvað er logið. Best er að trúa engu. Falsfréttir eru fréttir dagsins.

Í gamla daga, þegar klámsögur voru sjaldgæfar, mátti oft sjá að Bósa saga og Herrauðs var langvinsælust allra fornsagna og mest lesin. Sjálfur hafði ég ekki minni áhuga á henni en aðrir. Einnig man ég vel eftir því að Jóhannes úr Kötlum var víst að þýða bækur Agnars Mykle á íslensku. Söngurinn um roðasteininn var þó aldrei gefinn út og er áreiðanlega til einhversstaðar sagan af þeim ósköpum öllum.  

Andlitssöfnun fer nú fram á vegum fésbókarhópsins „Samtök kvenna um nýja stjórnarskrá“. Sagt er að í þeim samtökum séu meira en 2300 konur. Ekki er mikil furða þó íhaldssömum og gömlum körlum bregði nokkuð við að sjá þetta. „Samtök karla um nýja stjórnarskrá“ held ég aftur á móti að finnist hvergi.

IMG 7594Einhver mynd.


2790 - Trump einu sinni enn

Um daginn, sennilega á vopnahlésdaginn, heyrði ég í Guðna forseta í einhverjum miðlinum. Mér fannst hann nota málið vitlaust í tveimur tilfellum. Því miður man ég allsekki hvað var þar um að ræða. Sennilega hefur þetta verið hin mesta vitleysa hjá mér. Gamli besserwisserahátturinn afturgenginn. Satt að segja hef ég enga trú á því að téður Guðni hafi talað vitlaust. Til að bjarga sjálfum mér gæti ég svosem haldið því fram að eitthvað sé umdeilanlegt.

Held að ég hafi í síðasta bloggi talað um kaffið sem ógeðsdrykk. Er að hugsa um að standa við það og útskýra mál mitt svolítið. Á sama hátt og það var töluvert átak að venja sig á sínum tíma á sígarettur voru mín fyrstu viðbrögð við kaffi að það væri hræðilega vont á bragðið. Líkt og með tóbakið má búast við því að ekki sé auðvelt að venja sig af kaffiþambinu. Það eru nefnilega áhrifin sem maður sennilega sækist eftir. Auðvitað er kaffið tiltölulega meinlaust sem eiturlyf. Eða það telur maður sér a.m.k. trú um.

Þar að auki er óbein kaffidrykkja svotil óþekkt. Kannski fer það samt svo á endanum að kaffið fer sömu leið og tóbakið. Hvað á þá að bera á borð fyrir gesti? Ekki hætta þeir með öllu að koma. Og þó, eiginlega verður ekki eftir neinu að slægjast. Sykraðar smákökur og brauð með áleggi úr dýraríkinu þýðir ekkert að bjóða á þessum Vegan-tímum.

Vitanlega má halda því fram að það sé hálfgerður dónaskapur að neita sér um kaffi, sem haldið er að manni. Í eina tíð voru það bara skrítnustu og sérkennilegustu karlar og kerlingar sem vildu heldur heitt vatn með mjólkursopa og strásykri útí en hressandi og heilnæmt kaffi. Þessu man ég samt vel eftir. Nútildags er vel hægt að biðja fremur um te en kaffi. Kannski er það ekki eins eitrað og kannski er munurinn bara sá sami og á sígarettum og pípu. Man að einhvern tíma taldi maður sér jafnvel trú um að pípureykingar væru hollar. Kannski væri hægt að losna við mestu hugsanlegu óhollustuna af tedrykkju með því að drekka bara ávaxtate.

Allt öðru máli gegnir um mjólkurdrykkjuna. Mest er þetta vani. Þó er mjólk svosem góð, ekki er því að neita. Fyrst maður gat vanið sig af ropvatnsdrykkjunni ætti manni ekki að verða skotaskuld úr því að hætta mjólkurdrykkjunni. Kemur ekki árans skotaskuldin enn einu sinni eins og skrattinn úr sauðarleggnum. Skulda Skotar svona mikið eða á maður kannski að skjóta allar skuldir niður? Eða sópa þeim útí skot? Skil þetta bara allsekki, og hvað hefur þetta með mjólkurdrykkju að gera? Best að hætta áður en þetta fer útí tóma vitleysu.

Held að síðasta (þriðja) atriðið í lífsreglunum sem ég gat um í síðasta bloggi hafi fjallað um tæknina, sem allt er að drepa. Um hana má margt segja. Sennilega er best að láta þá umfjöllun bíða næsta bloggs.

Í Bandaríkjunum hamast menn við að telja atkvæði. Samt eru úrslitin löngu ljós. Trump tapaði og getur illa að sætta sig við það. Honum hefði verið nær að láta ekki alltaf eins og fáviti. Meirihluti bandaríkjamanna kann ekki að meta svonalagað. Kannski tilkynnir hann fljótlega að hann sækist ekki eftir endurkjöri árið 2020. Þó hann hafi mikið yndi af því að koma á óvart, finnst honum líka gott að ráða og stjórna, svo þetta er fremur ólíklegt. Repúblikanaflokkurinn verður eins og stefnulaust rekald ef hann hættir.

IMG 7604Einhver mynd.


2789 - Lífsreglur

Til að láta ekki hanka sig á neinu er yfirleitt best að segja sem fæst. Þessu hef ég reynt að fara eftir. Fyrir vikið er ég að sumum álitinn supergáfaður, öðrum samt ekki. Þeir sem segja fátt eru af sumum álitnir svona gáfaðir. Rétt er kannski, að þeir segja færri vitleysur en aðrir. Annað læt ég liggja á milli hluta. Þetta má líka orða þannig: Fæst orð hafa minnsta ábyrgð. Ef ég bloggaði ekki og segði aldrei neitt, ja þá væri ég sennilega gáfaðri en ég þó er. Þetta átti að vera illskiljanlegt og er það kannski.

Hlaupandi úr einu í annað
það er lífsins saga.
Ekkert er lengur bannað
þetta er eins og baga,
sem þyrfti svolítið að laga.
(Er þetta kannski fimmskeytla?)

Ætlast er til þess að maður (bloggandi maður) hafi skoðun á öllum fjandanum, eins og maður sé einhver Trump. Langbest er að hafa ekki nokkra skoðun, en það er erfitt. Maður kemur sér kannski upp frumlegri skoðun með ærnum heilabrotum, sem svo reynist bara tóm vitleysa. Hvað á þá að gera? Ein leiðin er að skipta um skoðun. Það gera samt engir ótilneyddir.

Í anda rithöfundarins mikla, Þórbergs Þórðarsonar er ég að hugsa um að koma mér upp fáeinum, nánar tiltekið þremur, lífsreglum. Þær eru:

Í fyrsta lagi: Kaffi er ógeðsdrykkur.
Í öðru lagi: Mjólk er bara fyrir börn. Aðrir drykkir eru betri. Blávatn þó best.
Í þriðja lagi: Tæknin er að drepa mennskuna.

Í næstu bloggum mun ég reyna að útskýra þetta betur. Verst er að hingað til hef ég alls ekki farið eftir þessu. Aðalvandamálið er að finna heppilegan tíma til að láta þetta koma til framkvæmda. Sumir kynnu að segja að það væri seint í rassinn gripið að komast að þessu á sjötugasta og sjöunda aldursári, en betra er seint en aldrei, eins og segir í einhverju spekiriti.

Í fyrsta lagi: Allt er þríeint. Þannig er það bara og því verður ekki breytt.
Í öðru lagi: Allt er sannleikur í trúmálum.
Í þriðja lagi: Guð er dauður.

Aðrir hafa komist að þessu á undan mér og þessvegna er það ekki vitund frumlegt. Í lífsreglunum hef ég forðast að taka afstöðu í heimsmálum og pólitík almennt, því þar vil ég geta hagað seglum eftir vindi. Auðvitað er allt þríeint þar eins og annarsstaðar. Þessvegna er það ágætt að geta farið eftir því hvernig vindurinn blæs hverju sinni.

Í fyrsta lagi: Loftslagsmál fjalla um veru mannkynsins á Jörðinni.
Í öðru lagi: Mannréttindi, þar með talinn Feminismi, um næstum allt hitt.
Í þriðja lagi: Og læknavísindi um heilbrigði.

Læt ég svo þessu rugli lokið að sinni.

IMG 7614Einhver mynd.


2788 - Stundar af öllu efli...

Einhverju sinni var ort.

Stundar af öllu efli
útvarpið málvöndun,
breytir það skafli í skefli,
skatnar fá um það grun

að fréttahraflið sé hrefli,
holan í kviðinn nefli,
allt sé að ganga af gefli,
glæst ert þú nýsköpun.

Þetta var held ég vegna einhverra mismæla í fréttatíma ríkisútvarpsins. Ekki hef ég hugmynd um, frekar en fyrri daginn, eftir hvern þetta er. Allavega er það ekki eftir mig, þó ég vildi það gjarnan, því þetta er ansi lipurlega gert.

Eiginlega er það ekki af neinni sérstakri ástæðu sem ég birti þetta. Held að þetta hafi á sínum tíma, og kannski seinna líka, verið birt í Morgunblaðinu þó Fjólupabbi hafi kannski verið hættur þá.

Er Repúblikanaflokkurinn í Bandaríkjunum orðinn Trump-flokkurinn. Sumir virðast telja að svo sé. Enginn vafi er á því að flokkurinn er með öllu hættur að setja sig upp á móti því sem Trump vill. Demókratar malda svolítið í móinn, en í öllu sem máli skiptir er ekki að sjá annað en farið sé almennt að vilja Trumps. Að nokkru leyti er þetta vegna þess að hann hefur sannað það að stuðningur hans kemur sér afar vel fyrir frambjóðendur flokksins. Þessvegna fylgja þeir honum í stóru sem smáu.

Svo kann að virðast sem öldungardeildarþingmenn Repúblikanaflokksins ætli að setja sig á móti brottrekstri Sessions úr Dómsmálaráðherrastöðunni, en svo er ekki. Trump kemst áreiðalega upp með þetta þó Sessions hafi á ýmsan hátt komið fram málum sem Trump lætur sér annt um. Hugsanlegt er að tapið í fulltrúadeildinni hafi haft meiri áhrif á Trump en hann vill vera láta. Afleiðing þess kann að verða sú að hann fari sér hægt við að losna við Mueller og rannsókn hans þó hann hafi í langan tíma haft allt á hornum sér varðandi þessa rannsókn.

Auðvitað má færa rök fyrir því að vegna sigurs Demókrata í fulltrúadeild þingsins hafi möguleikar Trumps á endurkjöri árið 2020 aukist til muna. Samt sem áður er vel hugsanlegt að Demókratar í fulltrúadeildinni valdi honum ýmsum vandræðum næstu vikur og mánuði. Ekki er annað að sjá en viðsjár milli stjórnmálaflokkanna í USA fari vaxandi.

IMG 7673Einhver mynd.


2787 - Steve Wozniak

Sagt er að u.þ.b. tíu þúsund manns eða fleiri hafi orðið fyrir því í Hruninu og eftirmálum þess að heimilin hafi verið seld ofan af þeim. Þetta var sannarlega illa gert og í rauninni glæpsamlegt. Engin furða er þó þeir hópar sem orðið hafa fyrir einhverju svipuðu heimti núna leiðréttinu. Í því ljósi verður að skoða kröfur verkalýðsfélaganna. Sú aukna misskipting sem núverandi og fyrri ríkisstjórnir hafa staðið fyrir verður alls ekki liðin. Auðvitað er það bæði rétt og sjálfsagt að verkalýðsfélögin gangi þar fram fyrir skjöldu.

Stjórnmálamenn fengu tækfæri til að leiðrétta þetta svolítið þegar laun þeirra og annarra ráðamanna voru í krafti úrskurðar svonefnds kjararáðs hækkuð mjög verulega. Forseti Íslands vildi ekki taka við þessari hækkun, en þingmenn allir þáðu þetta þakksamlega og misstu þarmeð tækifærið til að koma til móts við þá sem farið hafði verið illa með í Hruninu svokallaða. Þetta mun verða til þess að ekki seinna en eftir næstu kosningar mun fjórflokkurinn svokallaði hverfa af sjónarsviðinu.

Því miður bendir ekkert til þess að við fáum eitthvað betra Alþingi en verið hefur. Samt er hægt að líta á þetta sem einskonar byrjun. Kannski fáum við líka ríkisstjórn sem ekki verður vantreyst frá byrjun.

Ráðamenn Íslands hafa áður verið rassskelltir og það eru einmitt kosningar og verkföll sem hægt er að nota til þess. Vitanlega fer þeim fækkandi sem muna eftir slíkum atburðum en það minnkar ekkert líkurnar á því að þessir atburðir endurtaki sig. Bylting öreiganna verður aldrei hér, en afnám þeirra svívirðilegu atburða sem Hrunið leiddi af sér eru svo sannarlega á næsta leiti. Mikið fé hefur í gegnum árin verið falið í skattaskjólum, en með nútímatækni er hægt að ná verulegum hluta þess til baka og færa það sínum upphaflegu eigendum. Kannski væri samt best að gefa alveg uppá nýtt.

Man vel eftir því að árið 1992 sá ég fyrsta teygjustökkið á Íslandi. Það var Tommi í Hard Rock sem stökk og það átti sér stað á bílaplaninu við Kringluna, en þar var Hard Rock upphaflega. Auðvitað var þetta fyrst og fremst aulýsingastunt hjá Tomma og sennilega man hann vel eftir því. Auglýst sem fyrsta teygjustökkið á Íslandi o.s.frv. Að númer 2 hafi síðan verið Steve Wozniak á ég hálfbágt með að trúa. Tommi segir það samt og kannski er það rétt. Ég man allavega eftir því að einhver útlendingur stökk fljótlega á eftir Tomma. Hvað hann hét eða heitir man ég hinsvegar ekki.

Nú eru kosningar um það bil að hefjast í Bandaríkjunum. Ekki hef í hyggju að vaka eftir úrslitum enda verða þau ekki kunn fyrr en nokkuð seint. Úrslit þessara kosninga kunna þó að verða söguleg í meira lagi. Trump forseti verður áreiðanlega stjörnuvitlaus ef hann eða réttara sagt Repúblikanaflokkurinn missir meirihluta sinn í fulltrúadeildinni eins og útlit er fyrir. Gleymum því samt ekki að fyrir aðeins tveimur árum síðan var allt útlit fyrir að Hillary Clinton yrði næsti forseti Bandaríkjanna.

IMG 7675Einhver mynd.


2786 - Þaulsetnir þjóðhöfðingjar

Segja má að komandi (á þriðjudaginn næstkomandi) kosningar í Bandaríkjunum séu einskonar vinsældakosning fyrir Trump forseta. Nú er fyrsta kjörtímabil hans nákvæmlega hálfnað og að því leyti eru þessar kosningar hálfgerð markleysa að engin leið er að losna við Trump í þessum kosningum. Demókratar gera sér þó vonir um að vinna meirihluta í fulltrúadeildinni þar sem kosið er um alla fulltrúana. Með því móti gætu þeir gert Trump svolítið erfiðara fyrir á seinni hluta kjörtímabilsins. Aftur á móti eru litlar sem engar líkur á að þeim takist að hnekkja meirihluta Repúblikana í öldungadeildinni og sennilega vinna þeir enga stórsigra í þeim ríkjum þar sem kosið er um ríkisstjóra. Annars er Trump svo mikið ólíkindatól að hugsanlegt er að Repúblikanar vinni aftur í fulltrúadeildinni og verði líka með meirihluta þar eins og þeir hafa verið undanfarin tvö ár.

Þaulsetnir þjóðhöfðingjar. Allskyns lista fæ ég oft í tölvufréttunum mínum. Fæstir eru þeir forvitnilegir en þó eru undantekningar þar á. Fyrir fáeinum dögum fékk ég lista yfir 12 þaulsetna þjóðhöfðingja. Nei, Ólafur Ragnar var ekki þar á meðal. Helmingurinn var einhverjir árans soldánar sem ég hef aldrei heyrt nefnda áður. Hinn helminginn kannaðist ég við. Þar er efst á blaði Elísabet önnur Englandsdrottning en hún hefur víst ríkt í 66 ár. Númer tvö var Margrét önnur Þórhildur Danadrottning, sem sögð er hafa ríkt í 46 ár. Semsagt einum 20 árum skemur en Elísabet. Báðum hefur þó reynst vel að vera númer tvö af nöfnum sínum á þjóðhöfðingjastóli.

Aðrir á þessum lista sem ég kannaðist við voru: Carl Gústaf sextándi Svíakóngur sem verið hefur við völd í ein 45 ár. Akihito Japanskeisari sem ríkt hefur í 29 ár, Hans-Adam æðsti maður í Lichtenstein í 28 ár og Haraldur fimmti Noregskonungur í 27 ár. Þarna er semsagt aðeins að jafnast valdatíminn. Læt ég svo lokið þessari yfirreið.

Nú eru menn að mestu hættir að tala um braggann og Orkuveituna. Þessi mál eru við það að gleymast og menn eru farnir að tala um ósanngjarnar kröfur verkalýðsfélaganna. Ekki finnst mér þær vera ósanngjarnar ef litið er til þess hvernig stjórnendur bæði fyrirtækja og ríkisins höguðu sér í Hruninu og aðdraganda þess. Vissulega eru kröfurnar háar, en þeir sem minnst mega sín hafa hingað til verið látnir bera þyngstu byrðarnar vegna Hrunsins. Eina vopn þeirra smáu er samtakamátturinn. Andstæðingar þeirra geta valið úr vopnabúri sínu það sem þeir halda að sé áhrifaríkast. Oftast hefur það verið verðbólgan. Hún er auðveld í framkvæmd, en skilar sér dálitið misjafnlega. Stundum brennir hún verst þá sem fyrir henni standa.

Einu sinni orti ég vísu. Reyndar hef ég talsvert oft gert það. Þessi vísa var þó sérstæð að því leyti að mig minnir að hún hafi eitthvað tengst Hruninu (með stórum staf). Sennilega er hún því u.þ.b. tíu ára gömul. Þó ég mundi ekki allar mínar gömlu vísur man ég að þessi var svona:

Hér var milljón tonnum týnt
í torráðinni gátu.
Þjóðinni var svarið sýnt.
Sægreifarnir átu.

IMG 7680Einhver mynd.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband