Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2016

2429 - Ófærð

Ég hef haldið því fram að söguþráðurinn í „Ófærð“ hafi verið fremur ósennilegur og illa gerður. Auðvitað er engin goðgá að ætlast til að ég röstyðji það aðeins. Ef bara er minnst á síðasta þáttinn þá voru það einkum tvö atriði sem ekki gengu alveg upp að mínu áliti. Annað var það að mennirnir tveir sem lokaðir voru inni í frystigeymslunni töluðu eins og dauði þeirra sakir kulda væri yfirvofandi næstu mínúturnar, þó var enginn vafi á því að þeim yrði bjargað mjög fljótlega. Hitt atriðið var að til að komast út þurfti bara að teygja sig í reykskynjara og þá opnaðist allt. Heldur simpilt trikk. Auk þess sem reykskynjarinn hefði átt að vera mun ofar. Svo má minnast á atvikið með opnu þyrludyrnar. Svissunin á milli Seyðisfjarðar og Siglufjarðar truflaði mig ekkert, þó hef ég á báða staðina komið.

Öðrum atriðum, sem flest trufluðu bara staðkunnuga, man ég ekki eftir í svipinn. Þau voru samt óþægilega mörg. Útlendingum gæti þó þótt talsvert til seríunnar koma því aðstæður voru um margt óvenjulegar og flest atriði sem snertu kvikmyndatöku, leik og hljóð voru mjög góð. Miklu betri en venjulega er í íslenskum myndum. Meira hef ég eiginlega ekki að segja um þessa miniseríu sem vonandi selst vel á alþjóðlegum markaði. Tungumálið skiptir engu máli.

Tvö eru Skálafellin í landnámi Igólfs. Annað er við endann á Esjunni og þangað held ég að liggi vegur. Þar var líka í eina tíð og er kannski enn loftnetsbúnaður frá þeim tíma þegar Internetið og Örbyljusambandið var ekki til. Eða a.m.k. þekkt af mjög fáum Íslendingum. Já, og þar eru víst skíðabrekkur og jafnvel skíðalyfta þó þetta fjall komi ekkert við sögu hjá mér og ég hafi aldrei uppá það komið. Er nefnilega á móti fjöllum sem hafa veg uppá topp. Hitt Skálafellið er fjallið sem maður keyrir framhjá þegar maður fer yfir Hellisheiðina. Altsvo aðalhellisheiðina en ekki þessa litlu og fáförnu fyrir austan. Þar fórst einu sinni flugvél en það er allt önnur saga.

Já, ég var að tala um Ingólf Arnarson sem af sumum (jafnvel mörgum) er talinn fyrsti landnámsmaðurinn. Auðvitað er það tóm vitleysa því Náttfari sá sem fékk sér gistingu á Hótel Húsavík hefur vitanlega verið á undan. Kannski gisti hann ekki á Hótel Húsavík þegar betur er að gáð, því það hefur sennilega ekki verið til þá. Þó einhver Náttfari hafi bælt sig (skriðið í bælið) í Náttfaravík bendir nafnið að vísu til heldur vafasams uppruna. Því ætla ég sem Sunnlendingur að halda mig við Ingólf.

Oft hef ég uppá síðarnefnda Skálafellið komið og sagan sem ég var að hugsa um að segja hér er einmitt af einni slíkri ferð. Ekki var ég einsamall í þeirri ferð, sennilega hefur Bjössi bróðir verið með mér í för. Þetta var að vetri til og allt á kafi í snjó. Ekki fundum við flugvélarflakið þó við vissum næsta nákvæmlega hvar það átti að vera. Kenndum við snjónum að sjálfsögðu um það.

Þó þetta fjall láti ekki mikið yfir sér er það fremur illkleift í miklum snjó. Á toppinn vildum við samt fara því ekki eru hærri fjöll í næsta nágrenni. Þegar við nálguðumst toppinn verulega sáum við að vélsleði nokkur komst þangað upp hinum megin frá og þótti okkur lítið til þeirrar fjallgöngu koma. Vélsleðinn eða réttara sagt ökumaður hans fór samstundis til baka sömu leið og við vitum engin deili á honum. Við gengum samt á toppinn en auðvitað var þessi fjallganga hálfónýt á eftir.

WP 20160219 10 02 18 ProFrá Akranesi.


2428 - Brexit

Að búa til orðið brexit ber vitni um að íslenskan er ekki alveg vonlaus. Annars er þetta líklega alþjóðlegt orð. Ég skil það þannig að það tákni útgöngu Breta úr Evrópusambandinu. Og sennilega er það rétt hjá mér. Verst að það verður varla hægt að nota það lengi því mér segir svo hugur um að Bretar vilji ekkert fara. Einhverjir vona það samt og víst er að ESB mun breytast mikið ef svo fer.

Alþjóðastjórnmál eru að mestu leyti fyrir ofan minn skilning þó þau séu vissulega á meðal áhugamála minna. Þó ég spái áframhaldandi veru Stóra-Bretlands í ESB er ekkert víst að svo verði. Ég er svosem alveg vanur því að hafa rangt fyrir mér í öllum spádómum. En er það ekki árangur á vissan hátt? Mér finnst það.

Undarlegur þessi áhugi flestra fyrir Þvottahúsi Ríkisspítalanna og Reykjavíkurdætrum. Eða ætti ég kannsi að segja Hveragerðisdóttur. Man svolítið eftir pabba hennar Ágústu Evu en ekki mikið. Eldborgin fannst okkur krökkunum þó að væri nánast fyrir utan þorpið. Gott samt að hafa íbúðarhús svona nálæt réttunum. Horfði á byrjunina á ósköpunum hjá Rvíkurdætrum á fésbókinni en var ekki með hljóðið á. Þegar ég sá að búast mátti við 5 mínútum eða rúmlega því af þessu, hætti ég að horfa og fór að gera eitthvað annað.

Sennilega er ég búinn að skrifa meira en nóg um Donald Trump. Ætla samt að halda svolítið árfram með það. Ekki þarf mikinn spámann til að spá því að fulltrúar stóru flokkanna í forsetakosningunum í Bandaríkjunum í nóvember verði Hillary Clinton og Donald Trump. Ekki veit ég gjörla hvað skoðanakannanir sýna um þessar mundir um þá hugsanlegu baráttu, en ég veit nákvæmlega að lítið sem ekkert er að marka slíkar skoðanakannanir. Öll kosningabaráttan er eftir og ég geri fastlega ráð fyrir því að Hillary sigri auðveldlega í þeim slag. Ástæðan er einfaldlega sú að Donald er alltof öfgafullur í baráttu sinni og hann á einkum sigra sína hingað til að þakka því að fjölmiðlar hafa mjög haldið á lofti hans helstu firrum og þessvegna er hann vel þekktur eða eigum við að segja alræmdur.

Þó ég reyni eftir mætti að vera jákvæður á ég greinilega í miklum erfiðleikum með það. Það er svo auðvelt að gagnrýna allt og alla en hrósyrði eru fremur hjákátleg nema hjá þeim einum sem gjörþekkja málin. Vissulega gæti ég reynt að hrósa veðrinu, en sennilega er það ekki nærri allsstaðar eins gott og hérna á Akranesi þessa stundina. Með öðru eyranu er ég að hlusta á Edduverðlaunaafheninguna en á sama tíma er ég að horfa hér útum gluggann og sé ekki betur en snjórinn og slabbið að mestu horfið.

WP 20160219 09 55 11 ProAkraneshöllin og Akrafjall.


2427 - Donald Trump (einu sinni enn)

Donald Trump er óttalega dónalegur og þar að auki sennilega alveg trompaður. Það er glósa sem áður fyrr var gjarnan notuð um þá sem álitnir voru geðveikir. Oft voru þeir líka kallaðir hálfvitar, en það er Trump allsekki. Hann er alveg greinilega með „fulde fem“, ef ekki rúmlega það.

Annars eru Donald Trump og Jónas Kristjánsson talsvert líkir. Annar ruglar til hægri en hinn ruglar til vinstri. Sameiginlegur snertiflötur eru þó vesalings flóttamennirnir og múslimahræðslan. Trump er samt hættulegri því hann býður sig fram til valdamesta embættis hins frjálsa heims. Sú alda sem nú rís um mestallan heiminn fyrirlítur stjórnmál og telur sig geta leyst allan vanda með einföldum „do it yourself“ lausnum. Því miður er það ekki svo og alda af þessu tagi getur hæglega breyst í ógnarstjórn.

Kostirnir við stjórnun landa eru bara tveir. Einveldi og lýðræði. Því miður hefur lýðræðið þann ókost að það kemur óorði á stjórnmálin. Enginn hópur fær allar sínar óskir uppfylltar og allir eru óánægðir og kenna lýðræðinu eða a.m.k þeirri tegund þess sem algengust er á svæðinu um alltsaman. Á endanum kemst einræðið á og allir sem óánægðir eru með það eru drepnir. Þannig er auðvitað best að losna við þá sem eru með uppsteit. Og sjá, enginn þorir að segja neitt.

Annar ókostur við lýðræðið er að þar þurfa menn sífellt að tala saman. Reyna að finna þá leið sem flestir eru minnst óánægðir með. Óánægðir samt. Í einræði þarf ekkert að tala. Það er bara einn súpergáfaður sem ræður. Ef hann slysast til þess að vera í mótsögn við sjálfan sig þarf hann bara að drepa svolítið fleiri. Drápunum fjölgar alltaf smámsaman og til eru þeir sem telja þetta augljósan galla á einræðinu.

Auðvitað getur einræðið fallið um sjálft sig ef of margir eru drepnir. Þannig hefur farið fyrir mörgum. Lausnin er sú að drepa bara hæfilega marga en á því hafa margir klikkað. Drápin hafa líka tilhneigingu til að fara úr böndunum. Lýðræðið sem þá tekur við er oft meingallað því hóparnir sem voru í forgangi í einræðinu muna vel hvernig þeir höfðu það og reyna að stuðla með leynd að því að líkt fyrirkomulag komist á aftur.

En hættum nú þessum stjórnmálaáróðri. Tökum upp léttara hjal þar sem engir eru drepnir og ekki níðst á neinum. Er slíkt hjal til? Allra vinsælasta sjónvarpsefnið er þar sem einn er lagður í einelti og þvingaður til að hætta í leiknum. Að lokum stendur bara einn eftir og þá er tilganginum náð. Búið að lítillækka alla hina. Gaman getur auðvitað líka verið græskulaust. Það er bara ekki alveg eins vinsælt.

Þetta með léttara hjalið er oftast nær tóm vitleysa. Til hvers ættu þeir sem sífellt hafa allt á hornum sér að taka upp léttara hjal? Er ekki nóg að hjala sífellt og mala um það sem miður fer? Hefur það annras nokkurn tilgang að láta svona? Er þetta ekki bara aðferð til að koma öðrum í vont skap?

WP 20160219 09 50 27 ProLangisandur í hálku.


2426 - Apple vs. FBI

Sjálfstæðismenn telja sér óhætt að vera á móti öllum fjáranum. Til dæmis er ráðherra sá sem um viðskiptamál sér alveg á móti frumvarpi Karls Garðarssonar um að banna kennitöluflakk. Svona heimska á eftir að draga dilk á eftir sér. Ekki er víst að Ragnheiður Elín fái lengi að vera ráðherra eftir þetta. Varla eru allir sjálfstæðismenn svona vitlausir.

Fyrir margt löngu las ég bók sem mig minnir að hafi heitið Sandhóla-Pétur. Ætli það hafi ekki verið ein af fyrstu bókunum sem ég las algjörlega upp á eigin spýtur. Kannski var hún ættuð af bókasafninu. A.m.k. áttum við hana ekki. Þar var mikið talað um að organisera ýmsa hluti og það þýddi beinlínis að stela þeim. Sömuleiðis var mikið talað um sjálfsala en ég hafði að sjálfsögðu enga hugmynd um hvernig þeir voru. Enda voru þeir ekki til á Íslandi á þeim tíma. Mér finnst næstum óþarfi að geta þess að þessi bók gerðist í Damörku. Að mestu leyti í Kaupmannahöfn minnir mig. A.m.k. voru sjálfsalarir þar og það sem í þeim var „organiserað“ af miklum móð.

Aðra bók las ég þónokkru seinna sem einnig gerðist í Danmörku. Sú hét eða heitir: Hetjur heimavistarskólans. Það sem mér þótti minnisstæðast úr þeirri bók var barátta söguhetjunnar við ljón sem slapp frá einhverjum sirkusi eða þess háttar. Báðar þessar bækur hafa sennilega haft talsverð áhrif á mig. Annars mundi ég varla muna eftir þeim. Fyrstu bækurnar sem maður les hafa sennilega djúpstæð áhrif á mann þó maður geri sér e.t.v. ekki grein fyrir því. Sömuleiðis geta dramatískir atburðir sem maður verður vitni að haft mikil áhrif. Ekki upplifa samt allir dramatíska atburði. Sjáfur man ég vel efir því þegar húsið heima brann en þá mun ég hafa verið níu ára gamall.

Man mjög vel eftir bók sem ég las þegar ég var að verða tvítugur að mig minnnir: Sú heitir Veröld sem er eftir Stefan Zweig. Einkum er mér minnisstætt hve margt var þar gáfulega sagt og hve marga líkt hugsandi félaga söguhetjan átti. Um líkt leyti las ég líka flestöll bindin í ævisögu Guðmundar Gíslasonar Hagalín. Einnig las ég og fékk í jólagjöf á þessum árum bláu bækurnar svokölluðu og bækur um ævintýri Tom Swift.

Kannski ég ætti að fara að stunda það að lesa gömul blogg eftir sjálfan mig. Er eiginlega alveg viss um að mér mundi detta einhverjar fáránlegar minningar í hug. Mat mitt á því hvað megi blogga um kann vel að hafa breyst eitthvað. Fésbókin minnir mig reglulega á gömul blogg og í raun er ég alveg steinhissa á því stundum hvernig ég hef skrifað og um hvað. Fésbókin minnir mann þó varla á eldgömul blogg, því mér finnst ekkert óralangt síðan ég byrjaði að auglýsa bloggin mín þar.

Þetta Apple gegn FBI mál virðist ætla að verða að stórmáli. Apple neitar enn að gera bakdyr á snjallsímana sína en alríkislögreglan heimtar að þeir geri það vegna rannsóknar á fjöldamorðum sem framin voru í Californiu fyrir nokkru og hafa meira að segja fengið dómsúrskurð þar að lútandi. Eigendur símanna voru varaðir við því að ef þeir reyndu 10 sinnum að opna dulkóðunina með röngu lykilorði þá mundi síminn eyða öllu sem skrifað hefði verið með þeirri dulkóðun.

WP 20160218 09 00 01 ProEr þetta mengunarský?


2425 - Bessastaðir

Í sjónvarpsútsendingum frá alþingi hefur hver og einn sitt fangamark og þar er oftast hægt að sjá hverjir eiga að fá orðið næst. Þegar ég sá fyrst fangamarkið HHG varð mér undir eins hugsað til Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar en kannaðist þó ekkert við að hann væri kominn á þing. Varla hefði það samt átt að fara framhjá mér. Ég hinkraði því við og mikið létti mér þegar ég sá að það var Helgi Hrafn Gunnarsson sem tók til máls þegar ég átti allt eins von á Hólmsteininum þar. Annars er það svo einkennilegt með mig að ég ruglaði lengi vel saman pírötunum Helga Hrafni Gunnarssyni og Jóni Ólafssyni. Þó eru þeir ekkert líkir.

Eiginlega er ég búinn að búa til smálista yfir þá sem kom til greina í næsta forsetakjöri. Kannski einhver þeirra verði búsettur á Bessastöðum í árslok. Listinn er svona:

Andri Snær Magnason, Ástþór Magnússon, Baldur Þórhallsson, Bubbi Morthens, Davíð Oddsson, Egill Helgason, Einar Kárason, Guðni Ágústsson, Hrannar Pétursson, Kári Stefánsson, Ólafur Jóhann Ólafsson, Ólafur Þór Hauksson, Ómar Ragnarsson, Páll Óskar Hjálmtýsson, Stefán Jón Hafstein, Sturla Jónsson, Þorgrímur Þráinsson, Össur Skarphéðinsson, Elísabet Jökulsdóttir, Halla Tómasdóttir, Katrín Jakobsdóttir, Linda Pétursdóttir, Salvör Nordal og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.

Ekki man ég lengur hvað ég ætlaði að skrifa hér á eftir. Eitthvað var það held ég. En satt að segja er líklega svolítið hættulegt að birta þennan lista sem hér er fyrir ofan öðruvísi en strax, því hann gæti verið með öllu úreltur á morgun

WP 20160218 08 55 58 ProÍ ljósaskiptunum.


2424 - Stjórnarskráin

„Horfðu á sjónvarpið í snjalltækinu þínu“. Glymur í útvörpum og sjónvörpum um allt land þessa dagana. Hvers vegna í ósköpunum ætti maður að gera það? Er hægt að vera með sjónvarpssýki á hærra stigi? Stundum skilur maður aumingja auglýsendurna alls ekki. Annars er mér alveg sama í hvað peningunum er hent. Sérstaklega ef það er mér í hag.

Sennilega sameinar ekkert eins vel íhaldsöflin í landinu eins og að vera á móti öllum breytingum á stjórnarskránni. Þessvegna held ég að ekkert verði úr slíkum breytingum nú frekar en endranær. Þeir sem þykjast vilja breyta miklu munu eflaust svíkja á endanum eins og fyrri daginn.

Er aftur farinn að fara í smágönguferðir á morgnana. T.d. var í morgun (sunnudag) svolítill vindstekkingur og hálka á stöku stað. Fór í staðinn bara svolítið styttri leið en venjulega og var styttri tíma. Snjólétt er hér á Akranesi og víða alveg autt.

Heldur fækkar þeim sem taka þátt í kapphlaupinu um forsetaembættið í Bandaríkjunum og jafnframt aukast líkurinar á því á Donald Trump verði forsetaefni Repúblikana. Ef kosningarnar verða milli Trump og Clinton vonast ég að sjálfsögðu til að Clinton sigri. Úrslit í slíkum kosningum yrðu þó einkum prófsteinn á það hve hægrisinnaðir Bandaríkjamenn eru. Einnig gæti vaxandi andstaða við ríkjandi stjórnarfar ráðið úrslitum og þar ætti Trump að hafa vinninginn.

Að mörgu leyti stöndum við á herðunum á forfeðrum okkar. Ef þeir hefðu ekki haft það eins skítt og flest virðist benda til hefðum við það heldur ekki svona gott. Fannst þeim þeir hafa það mjög skítt? Held ekki. Höfum við það svona átakanlega gott? Um það má efast. Peningalega og efnahagslega kannski, en sálrænt séð sennilega ekki. Margur verður af aurum api. Líklega sannast það á okkur sem nú erum að drepast. Og ef til vill enn betur á þeim sem nú eru að vaxa úr grasi.

Aumingja Tinna. Hún klemmdi sig á millihurðinni hérna í gær sunnudag vegna þess að gegnumtrekkur myndaðist í húsinu. Ekki held að hún hafi slasast neitt alvarlega og ekki beinbrotnað við þetta, en afahjartað kipptist til þegar ég horfði á þetta gerast.

Nú er vetrarmyrkrið greinilega á undanhaldi. Í gær var t.d. að byrja að birta um áttaleytið. Hugsa sér. Það er hægt að telja það í vikum þangað til það verður bjart allan sólarhringinn. Og veðrið leikur við okkur þessa dagana þó ekki sé hægt að neita því að svolítið kalt er.

Ég segi það enn og hef sagt það áður: Framsóknarmenn eru ekki allir endilega svo slæmir. Það eru Sjálfstæðismenn og öfgahægrimenn sem eru hættulegir. Sumir án þess að gera sér nokkra grein fyrir því. En það er ekki von á góðu þegar þeir ráða jafnmiklu í ríkisstjórninni og raun ber vitni. Líklega er heldur ekki nokkur leið að fá Framsóknarmennina til að sjá villu síns vegar í núverandi ríkisstjórnarsamstarfi og ríkisstjórnin heldur eflaust áfram að gera axarsköft sín meðan þeir lúta stjórn Sigmundar Davíðs.

WP 20160217 12 38 29 ProBækur.


2423 - Hannes Þorsteinsson

Mér hefur dottið það í hug sem skýring á fylgisleysi Sjálfstæðisflokksins eftir Hrunið að augu margra kjósenda hafi loksins opnast fyrir því að það er ekkert sjálfsagt eða eðlilegt við það að sumir njóti hundrað eða þúsundfalds ríkidæmis umfram aðra bara í krafti ætternis síns. Þrátt fyrir fagurgalann er það nefnilega ljóst að Sjálfstæðisflokkurinn reynir ávallt að hygla þeim sem auðugir eru. (Verst að allir þykjast vera ríkir.) Það er heldur ekkert eðlilegt við laun bankastjóra t.d. og að bankamenn og örfáar stéttir aðrar sem alls ekki hafa þörf fyrir það fái að miða laun sín við útlönd. Einhver launamunur er samt eðlilegur og ég ætla mér ekki þá dul að segja til um hver hann ætti að vera.

Sem betur fer er margt sem aflaga fer í okkar þjóðfélagi. Ef svo væri ekki væri fésbókin t.d. alveg marklaus og bloggarar flestir hefðu ekkert til að skrifa um. Ég finn enga hvöt hjá mér til að tíunda hvað það er sem mér finnst að betur mætti fara. Vonandi kemur það svona smám saman í ljós. Líklega er það svo margt að ég kæmist aldrei yfir að telja það upp.

Ég er kominn uppá það að sækja Fréttablaðið á hverjum morgni nema sunnudagsmorgnum. Þetta geri ég vegna þess að það er ókeypis. Held að þessir andskotans auglýsendur séu ekkert ofgóðir til þess að borga mitt eintak. Sif Sigmars er að verða minn uppáhaldshöfundur þar og fer þessvegna bráðum að hætta, hugsa ég. Sumt er bara frekar gáfulegt hjá þessu blaði sem að mínum skilningi er einskonar nær útdauð risaeðla meðal fréttamiðla. Þessvegna les ég það. Alvörufréttir eru líka einkum á útsíðum og fremst í blaðinu. Sjaldan kemst ég yfir að fletta því öllu, enda óþarfi. Gott er samt að fá á þennan hátt helsu fréttir matreiddar. Hvort sú matreiðsla hentar mér verður svo bara að koma í ljós.

Einu sinni vann ég hjá Heildverslun Hannesar Þorsteinssonar. Hannes hafði að mig minnir áður unnið hjá Ludvig Storr. Það sem ég ætlaði að skrifa um hér er vísnagerð mín. Ath. þetta er viðvörun. Þeir sem engan áhuga hafa á þessháttar efni er hérmeð bent á sleppa þessari klausu. Þegar heildverslunin varð 20 ára bauð Hannes til fagnaðar úti í Skerjafirði. Á Shellvegi eitthvað minnir mig. Í lokin höfum við sennilega skrifað í gestabók eða eitthvað þessháttar og ég kannski skrifað þar vísu. Man bara seinni partinn. Hann var svona:
Heildverzlunar tvegga tuga
teiti munuð er.
Ekki veit ég hversvegna í fjáranum ég er að minnast á þetta. Einkum held ég að það sé til uppfyllingar og til að sýna hve frábær hagyrðingur (ekki) ég er. Er sérstaklega slæmur með það að hálfgleymdar vísur eru sífellt að skjóta upp kollinum uppá síðkastið (kannski vegna aldursins) og það er ágæt aðferð til að losna við þær að skrifa um þær og tilurð þeirra hér.

Nú, þetta er bara orðið sæmilega langt og tilbúið til að sendast út í eterinn. Þar að auki á ég orðið svolítið af myndum til skreytingar. Að vísu eru þær bara teknar á símann og ekkert sérstaklega góðar þessvegna.

WP 20160217 11 00 13 ProSólarupprás.


2422 - Birgitta og Sigmundur

Birgitta og Sigmundur rífast. Einhver sagði að Birgitta hefði lofað að sitja bara á alþingi í tvö kjörtímabil í mesta lagi. Ekki man ég eftir því, en ég man að Vigdís Finnbogadóttir sagðist (eða gaf ótvírætt í skyn) að hún yrði bara forseti í tvö kjörtímabil og stóð ekki við það.

Hvað pólitíkina og næstu kosningar snertir þá hugsa ég að Simmi haldi formennskunni í framsóknarflokknum og hífi jafnvel fylgið eitthvað aðeins upp þó varla nái hann öðru eins flugi og í síðustu kosningum. Aftur á móti eru hugsjónir (sé hægt að tala um slíkt) Bjarna Benediktssonar hættulegar sjálfstæði landsins enda er hann bara strengjabrúða Davíðs Oddssonar og Eimreiðarhópsins. Já, já. Hannes aðalvarðhundur er í honum held ég. Annars þekki ég ekki mikið til þar.

Auðvitað er Sigmundur óheppilegur sem forsætisráðherra þó Bjarni og Co. hafi leyft honum það enda fengu þeir næstum allt sem þeir vildu.

Látum þetta duga um stjórnmálin að þessu sinni. Eflaust eru ekki allir sammála mér enda er ég ekki að vonast til þess. Athugasemdir eru velkomnar.

Enginn endist til að blogga djöfulinn ráðalausan nema að hafa eitthvað að segja. Hef ég eitthvað að segja? Ekki finnst mér það. Aftur á móti hef ég gaman af að blogga. Hvort það gerir djöfulinn ráðlausan eða ekki veit ég ekkert um. Best af öllu þykir mér að blogga um hitt og þetta. Eiginlega er það fátt sem ég blogga ekki um. Eða það finnst mér a.m.k.

Nú er ég semsagt tekinn til við að blogga flesta daga. Engin vandræði eru að finna eitthvað til að blogga um. Það er svo einkennilegt að bloggefni er eitt af því sem vex eftir því sem meira er tekið af því. Ætla ekkert að fjölyrða um það sem gátan um þetta ætlast til að sagt sé.

Samkvæmt nýjustu fésbókarfréttum er búið að draga ansi marga út (á asnaeyrunum). Aldrei hefur samt frést af neinum sem hefur unnið til verðlauna í þeim aulýsingaútdrætti sem auglýstur er. Er bara verið að hjálpa til við ókeypis auglýsingar eða hvað? Dreifa þeim sem víðast og svoleiðis. Ég bara tek ekki þátt í þannig vitleysu.

Það hafa bara ekki verið kosningar í ég veit ekki hvað langan tíma. Eitthvað þesshátt þyrfti að vera á hverju ári eða svo. Kannski lagast þetta ekki fyrr en þjóðaratkvæðagreiðslum fjölgar. Það er ómögulegt að hafa bara eilífar skoðanakannanir og ekkert annað. Ég er eiginlega búinn að fá leið á þeim. Enda er ég sjaldan spurður um neitt. Annars held ég að þessi breyting á stjórnarskránni sem fjallar um 15 prósentin komist aldrei til framkvæmda. Til þess eru vesalings stjórnmálamennirnir of hræddir þó þeir tali digurbarkalega um 10 til 15 prósent við hátíðleg tækifæri.

WP 20160217 10 56 55 ProVið Langasand.


2421 - Borgunarplatið

Já, já. Það getur vel verið að það verði Sanders og Trump sem komi til með að berjast í sumar og haust um bandaríska forsetaembættið. Ég er einmitt talsvert hræddur um að þá hafi Trump flest trompin á hendi. Þó er það allsekki víst. Sanders gæti alveg eins sigrað. Hugsanlega eru Bandaríkjamenn mun vinstri sinnaðri nú en þegar McGovern tapaði fyrir Nixon árið 1972. Ef ég ætti að velja mér frambjóðendur þá yrðu það Rubio og Sanders. En ég er nú svo vinstri sinnaður að það er lítið að marka.

Máttur endurtekningarinnar er mikill. Margir foreldrar verða fyrst og fremst varir við þetta hjá börnum sínum þegar þau sýna sérstakan áhuga fyrir nauðaómerkilegum auglýsingum. Mér hefur dottið í hug að þessi máttur endurtekningarinnar fari uppeftir aldursstiganum á þann hátt að fyrr en varir verði þetta að áhuga unglingannna á popplögum hverskonar. Fleira blandast auðvitað inn í þetta s.s. minningar o.fl. Einnig virðist sumu ungu fólki þykja nauðsynlegt að fylla tómið sem umlykur það dagsdaglega með sem mestum hávaða og hvað er þá heppilegra en ærandi popplög?

Yfirleitt er það ekki sérstakt fréttaefni þó einhver eða einhverjir láti plata sig. Ef platið er mjög stórt getur samt verið öðru máli að gegna. Einhverntíma í fyrndinni lét ég plata mig til að flytja mín bankaviðskipti, sem ekki eru ákaflega mikil, til Landsbankans. Ekki var ég samt plataður um fjóra til sex milljarða eins og mér skilst að bankastjórn téðs banka hafi gert. Verst er sennilega að bankastjórnin átti ekkert í þessum milljörðum. Ekki er samt efast um að hún hafi haft lagalegan rétt til að láta plata sig. Ýmsir hafa samt látið í sér heyra útaf þessu, en kannski samsvarar þetta ekki nema svona 5000 venjulegum plötum.

Stundum er sagt að vísnagerð okkar Íslendinga rísi hæst í hestavísum, klámvísum og drykkjuvísum. Hestamaður er ég enginn. Við hitt hef ég stundum fengist en orðið svolítið afhuga með aldrinum. Vísnagerð er samt eitt af mínum áhugamálum. Víngerð var það einu sinni sömuleiðis. Einhverskonar samsláttur virðist hafa orðið hjá mér í þessu vísukorni. Kannski hefur vísnagerðinni þó fremur slegið saman við víndrykkju, en við því er erfitt að gera:

Yndislegt finnst ávallt mér
áfengt vín að smakka.
Brennivínið blessað er
Bakkusi að þakka.

Mikið er fjargviðrast útaf lélegri málfræðikunnáttu þeirra sem mest hafa sig í frammi á bloggi, samskiptamiðlum o.þ.h. Fjölmiðlun öll er, fyrir tilverknað netsins, mjög að breytast. Ein af breytingunum er sú að miklu fleiri tjá sig en áður var. Ef óheflað orðbragð kemst uppá yfirborðið við það er ekkert við því að segja. Orðaval það sem elsta kynslóðin hefur vanist er ekkert endilega það besta. Hugsanlega er of mikið lagt uppúr því að allir eða sem allra flestir geti lesið sem elstan texta.

WP 20160217 10 51 45 SmartSnjór.


2420 - Er Trump hættulegur?

Já, ég held að Donald Trump sé beinlínis hættulegur. Það er allsekki óhugsandi að hann verði næsti forseti Bandaríkjanna og þar með einhver valdamesti maður heims og með fingurinn á atómgikknum. Hann er af mörgum vanmetinn en gæti samt náð langt. Vissulega ætti hann ekki að verða neinskonar einvaldur en gæti samt haft talsverð áhrif á gang heimsmála. T.d. er ekki óhugsandi að ný heimskreppa riði fljótlega yfir taki Bandaríkin upp þá einangrunarstefnu sem hann virðist boða. Einnig er ekki hægt að horfa framhjá því að fyrir hans tilstuðlan gæti þjóðremba og stríðsglamur farið vaxandi í heiminum. Kalda stríðið virðist vera að skella á aftur án þess að hægt sé þó að kenna honum um það.

Bandaríska forsetakjörið og undirbúningur þess er afar spennandi. Margt óvænt getur gerst og gerist í því sambandi. T.d. getur andlát hæstaréttardómarans þar nýlega haft talsverð áhrif.

Gangur heimsmála er mér hugleikinn þó ég viti allsekki meira en flestir aðrir um þau mál. Íslensk stjórnmál eru heldur lítilfjörleg í samanburðinum þó auðvitað hafi þau á ýmsan hátt mikil áhrif á hag þeirra sem þetta lesa.

Stundum dettur mér í hug að aðalstarfið hjá blaðamönnum DV sé að lesa misgáfulegar athugasemdir á fésbókinni. Það kemur svosem fyrir mig líka. Stundum svara menn fyrir sig þar og nýlega las ég langan svarhala um bílalagningar á bílastæðum. Yfirleitt var þetta fremur illa skrifað. Samt vottaði fyrir nýjungum í orðavali. Sumt var þar alveg ágætt og ég er ekki frá því að sumar orðmyndirnar eigi sér langa lífdaga fyrir höndum. T.d. er greinilega skárra að vera hurðaður en urðaður.

Einkennilegt er af íhaldsmönnum að halda því fram að þjóðfélagslegt ástand og réttlæti hafi ekkert með dómsúrskurði að gera. Ef ætíð væri hægt að finna lög um nákvæmlega þau atriði sem til úrskurðar eru, væru dómstólar alveg óþarfir. Allir lögfræðingar vita þó að því aðeins er réttlætanlegt að leita úrskurðar æðstu dómstóla að vafi leiki á um lagalegar forsendur. Að gera sér alls ekki grein fyrir slíku ber vott um lélega lögfræðikunnáttu.

Einhverntíma skrifaði ég heilmikið um „Sögu Akraness“. Í því máli hafði ég mest af mínu viti frá Hörpu Hreinsdóttur en hún skrifaði, eða bloggaði réttara sagt, heilmikið um þetta mál allt á sínum tíma. Nú stendur víst til að farga afganginum af þessum bókum og ef einhverjir skyldu vilja fræðast meira um þetta mál þá er þeim bent á að fara á http://ruv.is/frett/saga-akranesbaejar-i-og-ii-a-leid-a-haugana

WP 20160129 10 37 56 ProRafmagnstengingar.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband