Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2015

2281 - Handbolti o.fl.

Mestan part eru fjölmiðlar (og ekki síður blogg) marklaust þvaður. Sama er að segja um blessaða fésbókina, en þó þekki ég ekki nema afmarkaðan hluta hennar. Vel getur verið að einhvers staðar í afkimum fésbókarinnar fari fram markverð umræða. Hún er samt vel falin. Óinnvígðir fá ekki inngöngu þar.

Sviptingar í fjölmiðlun eru sennilega meiri nú en oftast áður. Í sjálfu sér eru allir (í gegnum fésbókina eða annað) fréttamenn. Alvöru fjölmiðlar, sem vilja og þurfa að selja sínar afurðir, eiga í harðri baráttu við óskapnaðinn sem viðgengst í netheimum.

Fjölmiðlar og handboltasérfræðingar hafa haft hátt í gagnrýni sinni á heimsmeistaramótið í Katar. Aðalgagnrýnisefnin sýnast mér vera peningar og dómarar. Þessi gagnrýni þykir mér heldur lítið marktæk. Peningar hafa alltaf ráðið öllu (eða a.m.k. mestu) í nær öllum íþróttum. Og þó Katarar vilji gera vel við sína íþróttamenn er það ekkert meira en aðrir gera og Íslendingar mundu gera ef þeir gætu. Handbolti er ekki spor merkilegri „per se“ en hver önnur boltaíþrótt.

Gagnrýnin á dómarana snýst fyrst og fremst um matsatriði eins og brottvísanir og í öðru lagi á lengd sóknaraðgerða. Um þetta er tvennt að segja. Handbolti er fyrst og síðast hnoð og slagsmál á miðjunni og ætlast er til að dómarar fylgist með öllu og framfylgi reglum sem sífellt er verið að breyta. Um lengd sóknaraðgerða er það að segja að óskiljanlegt er að í handboltanum skuli ekki hafa verið tekin upp skotklukka eins og er í körfuboltanum. Í mínum augum á lengd sóknaraðgerða annaðhvort að vera ótakmörkuð eða háð skotklukku. Keppnisíþróttir eru hvort eð er að verða þrælar tækninnar.

Allsekki er fráleitt að birta eða birtuleysi hafi áhrif á skapgerð fólks. Fyrir skammdegið um háveturinn fáum við næstum ótakmarkaða birtu á vorin. Hitinn og sólskinið á sumrin er kannski ekki eins og við viljum helst, en ekki er hægt að mótmæla því að auðveldara er að klæða af sér kulda en hita. Engin tilviljum er að framfarir mannkynsins hafa mestar orðið á mörkum hita og kulda. Stöðugur hiti er kannski engu betri en stöðugur kuldi. Breytingar á veðri eru undirstaða alls. Sjálfur hata ég hverskyns úrkomu, en veit samt að hún er nauðsynleg öllu lífi.

Líklega dugir ekki öllu lengur að mótmæla hnatthlýnun. Óþarfi er samt að samsinna öllum þeim heimsendaspám sem yfir oss dynja. Ævinlega hefur mannkyninu tekist að leiðrétta kúrsinn, sem óneitanlega er orðinn ansi hlykkjóttur.

Mér finnst norðurljós hundómerkileg. Samt er það svo að útlendingum finnst þetta merkilegra en flest annað. Alveg er mér sama. Íslenskir ljósmyndarar virðast flestir hafa fengið norðurljósabakteríuna. Gangur himintugla finnst mér þó mjög athyglisverður. Man hve undrandi ég var þegar ég sem unglingur sá í fyrsta skipti tunglin í kringum Júpíter. Auðvitað er það svo að mikil ljósmengun gerir alla himinsýn erfiðari. Halastjörnur finnst mér mjög merkilegar. Einkum ef þær sjást vel með berum augum.

Húsaleiga er útúr öllu korti hér á landi. Jafnframt er ungu fólki nánast gert ómögulegt að eignast húsnæði. Stefnan hér hefur lengi verið sú að allir þurfi að eiga sitt húsnæði. Þessvegna er leigumarkaðurinn afskaplega óburðugur. Líklegt er að afleiðingin verði sú að ungt fólk flytji í stórum stíl til annarra landa, því þar eru tækifærin. Tungumálaerfiðleikar fara minnkandi vegna aukinnar menntunar og næstum öll samskipti eru sífellt að verða auðveldari og auðveldari. Veldur þar einkum stóraukin tæknikunnátta. Ef Ísland á ekki að drabbast niður og standa nágrannaþjóðunum langt að baki, er nauðsynlegt að breyta húsnæðisstefnu þeirri sem hér hefur verið fylgt. Litlar ódýrar íbúðir eru nauðsyn.

WP 20150102 12 17 57 ProHin fjögur fræknu.


2280 - Um fésbókina o.fl. einu sinni enn

Mér finnst það nokkuð seint að þyrla um pólitísku moldviðri núna útaf bönkunum sem lánardrottnar þeirra fengu. Víglundur Þorsteinsson og fleiri halda því samt fram. Nær væri að kæra þetta til dómstóla. Fyrrverandi ríkisstjórn hefur samt ekki með öllu hreinan skjöld í þessu máli. Hugsanlegt er að afslátturinn hafi verið meiri en nauðsynlegt var. Um það er þó erfitt að fullyrða svona löngu eftirá. Kerfið allt hefði vel getað farið alveg á hliðina, ef ekki hefði verið reynt að bjarga því. Auðvelt er að koma eftirá og segja að gera hefði átt hlutina allt öðru vísi.

Núverandi ríkisstjórn hefur gert margt vel. Því er ekki að neita að ýmislegt í þjóðlífinu hefur farið betur en búast mátti við. Hverju það er að þakka er endalaust hægt að deila um. Að mörgu má þó enn finna. Og það er svikalaust gert af andstæðingum núverandi ríkisstjórnar. Ástæðulaust er samt að ætla að stuðningsmenn hennar hugsi bara um að klekkja á almenningi. Svo er einfaldlega ekki. Stjórnmáladeilur geta verið illvígar. Ástæðulaust er þó að láta þær kljúfa fjölskyldur. Vissulega er miklu fleira sem sameinar okkur Íslendinga en það sem sundrar. Óþarfi er að saka pólitíska andstæðinga sína um landráð og allt það versta sem hægt er að hugsa sér.

Eiginlega er þetta alveg nóg í bili af pólitík. Eða það finnst mér. Lífið er svo margt annað þó hún sé mikilvæg í margra augum. Veðrið er t.d. afleitt núna um þessar mundir. Sífelldir umhleypingar. Og myrkrið meira en þörf er á. Er ekki viss um að veðrið sé svo miklu betra í Noregi og Danmörku. Kostirnir við að búa á Íslandi eru umtalsverðir.

Því sem deilt er á fésbókinni er stundum óskiljanlegt með öllu, því blessuð bókin sníður í burtu (a.m.k. stundum) fyrirsagnir og tilvitnanir. Mér finnst oft sem óskiljanleiki facebook sé slíkur að flest sem þar er sagt sé hið mesta rugl. Samt get ég ekki hætt að fara þangað. Margir hafa reynt að fara í fésbókarbindindi, en það tekst yfirleitt ekki vel. Kannski er bloggið bara fyrir gamalmenni og fésbókin fyrir þá sem eru svolítið yngri. (Eða vilja sýnast það.) Kannski twitterinn henti þeim sem eru enn yngri en fésbóklingarnir og svo eru unglingarnir víst með eitthvað allt annað. Grun hef ég um að sumir læki allt sem þeir sjá, a.m.k. eru vinsældir víða mældar í lækum og youtube-skoðunum, eftir því sem haldið er fram.

WP 20150102 12 17 22 ProÍ Fossvogi.


2279 - Víglundarmálið og ýmislegt fleira

Ég á erfitt með að stilla mig um að vera með stjórnmálalegar vangaveltur. Auðvitað er ekki meira að marka þær hjá mér en öðrum. Ég reyni samt eins og ég get að vera hlutlaus í þeim málum sem augljóslega eru flokkspólitísk. Annars má segja að stjórnmálaflokkarnir reyni af fremsta megni að slá eign sinni á alla umræðu í þjóðfélaginu.

Augljóslega hefur Hrunið sem slíkt valdið mikilli gerjun í íslenskum stjórnmálum. Sú vinstri sveifla sem hér hefur orðið er samt greinilega alþjóðlegt fyrirbæri. Viðsjár milli hins vestræna heims og annarra hluta hans fara þó vaxandi.

Víglundarmálið er án efa stórt ef miðað er við þær fjárhæðir sem nefndar eru. Að ætla sér að koma öllum þeim ávirðingum sem Víglundur nefnir á einn mann er að líkindum óframkvæmanlegt. Um flest eða allt sem nefnt er í skýrslunni hefur verið fjallað ítarlega áður og á margan hátt er hægt að álíta að lekamálið svokallaða verði með tímanum afdrifaríkara fyrir stjórnmálastarfsemi í landinu. Kannski er Víglundarmálið bara smjörklípa í öðru veldi.

Afsögn Hönnu Birnu Kristjánsdóttur og framkoma hennar getur haft talsverð áhrif á næstu kosningar. Þó er það alls ekki víst. Að hún telji sig alsaklausa ennþá hjálpar þó varla flokkum að komast yfir þetta áfall. Líklegast er að úrslit næstu kosninga verði lík þeim síðustu. Ólíklegt er þó að framsóknarflokkurinn nái jafn hagstæðum úrslitum og þá. Ekkert bendir til að sjálfstæðisflokkurinn sé að ná fyrri styrk né samfylkingin. Vinstri grænir hafa enn á sér kommastimpilinn og þessvegna er líklegast að nýir flokkar auki fremur fylgi sitt en minnki. Ekki er að sjá að tveggja flokka kerfi sé neitt að nálgast.

Assgoti hvað myrkrið er mikið á morgnana um þessar mundir. Ég (og við bæði) vöknum yfirleitt fremur snemma og þurfum að bíða eftir að birti í eilífðartíma. Held að það sé ekki orðið amennilega bjart fyrr en um ellefuleytið. Hugsanlega lengist dagurinn bara í annan endann núna. Morgnarnir verða kannski ekki bjartir fyrr en seinna. Dagarnir fara meira og minna í það að bíða fyrst eftir birtunni og svo eftir kvöldfréttunum í sjónvarpinu, en þá er orðið dimmt aftur. Helst að alþingi, fésbókin og afkomendurnir geti haft ofan af fyrir okkur þess á milli.

Ég hef svosem lent í því að bloggið mitt er misnotað í auglýsingaskyni. Ekkert er við því að gera og ef ég ætla á annað borð að hafa athugasemdakerfið mitt opið fyrir hvern sem er má alltaf búast við þessu. Kannski hefur fésbókin forðað mér frá fleiri uppákomum af þessu tagi. Mér finnst heimsóknum á bloggið mitt hafa fækkað eilítið aftur, en þær náðu svolitlu flugi um jólaleytið. Kannski eru umhleypingarnir í veðrinu og hinn skammi birtutími bara svona þreytandi.  

WP 20150102 11 44 56 ProTrjágrein.


2278 - Löngu skeiðarnar

Allegorían um löngu skeiðarnar, sem Caritas samtökin birta sem teiknimynd t.d. hér https://www.youtube.com/watch?v=qhU5JEd-XRo  er svosem ágæt og sýnir vel að auðsöfnun er í rauninni einskisverð. Mun betra er að reyna að láta gott af sér leiða. En er ekki hugsanlegt að pólitískir andstæðingar hugsi einmitt á svipaðan hátt? Það finnst mér. Stjórnmálin láta fólk oft hugsa of mikið um eigin hag og gleyma því að samstaðan er alltaf best. Að spila í rétta liðinu, stjórnmálalega séð, er aðalmarkmið alltof margra. T.d. virðast sjálfstæðismenn álíta umhverfissinna hættulega og vice versa.

Svo ég haldi mig við pólitíkina þá virðist mér sem framsóknarmenn viti þessa stundina  ekki í hvorn fótinn þeir eigi að stíga. Þann vinstri eða þann hægri. Þeir reyna sjálfsagt að ráða bót á því fyrir næstu kosningar.

Þó svo virðist sem allar helstu stofnanir ríkisins, aðrar en innanríkisráðuneytið sjálft, hafi staðið sig sæmilega í svokölluðu lekamáli en ekki er hægt að treysta því að svo verði alltaf. Lærdómur sá sem einkum verður dreginn af þessu máli er sá að stjórnmálaflokkar munu reyna að verja sitt fólk fram í rauðan dauðann. Alþingi sem stofnun og sérstaklega stjórnmálaflokkarnir flækjast að mestu leyti fyrir framförum. Flokkspólitík hverskonar hlýtur að líða stórkostlega fyrir þetta, og er það maklegt. Verðmæti DV fer hugsanlega vaxandi.

Kannski tekur Víglundar-málið við af lekamálinu, en erfitt er að líta öðruvísi á það mál en sem pólitískt upphlaup. Tímasetningin er a.m.k. vafasöm. Steingrímur Jóhann er samt enginn engill og vel er hugsanlegt að allegórían um löngu skeiðarnar eigi við hann.

Hef tekið eftir því að margt í sambandi við hina svokölluðu „zombie-trú“ sem Bandaríkjamenn eru helteknir af, á sér samsvörun í hinni gömlu íslensku draugatrú. Nútímalegt með afbrigðum þykir flest sem amerískt er, einkum hátíðisdagar. Veit ekki nema „zombie-trúin“ sé að ná einhverri fótfestu hér á landi. Íslenskan og allt sem íslenskt er, er greinilega á undanhaldi. Flest amerískt og einkum bandarískt er í miklum uppgangi.

Einu sinni þegar ég var unglingur í Hveragerði fór ég ásamt einhverjum fleiri strákum í reiðhjólaferð og henni lauk ekki fyrr en við Skíðaskálann. Á bakaleiðinni niður Kamba slitnaði keðjan á hjólinu mínu reyndar, en það er önnur saga. Á þessum tíma voru tómar gosflöskur úr gleri þónokkuð mikils virði og lágu með vissu millibili við vegarkantinn. Við vorum alltaf dregnir lengra og lengra af flöskuófétunum. Viðkvæðið var: „Hjólum útað næstu flösku og svo ekki lengra.“ Því datt mér þetta í hug að um daginn þegar ég var á venjubundinni morgungöngu minni í Fossvogsdalnum og þá voru gulu blettirnir í snjónum, eftir hundana, með vissu millbili við gangstíginn.

WP 20150102 11 40 16 ProLandspítali.


2277 - Að festast í fésbókinni

Er að lesa bók eftir Halldóru Thoroddsen. Hún er ágæt og heitir „90 sýni úr minni mínu“. Eitt orð notaði hún sem ég man að mamma notaði oft, en ég heyri afar sjaldan núorðið. Það var orðið „glænepjulegur“. Af einhverjum ástæðum eru frásagnir úr bókinni mér miseftirminnilegar. Ein er þegar hún keyrði aftan á bílinn hans pabba síns og hann kom sallarólegur útúr honum og sagði: „Var þetta nú ekki óþarfi Dóra mín?“ Og „skammastu þín ekkert fyrir það Sigurður Thoroddsen að láta loga á heilli ljósaperu fyrir þig einan?“

Mikið er talað um misskiptingu auðs þessa dagana. Hana er hægt að reikna á ótal vegu og ég hef grun um að fremur sé talað þar um einkaeign en sameiginlega. Mestu máli finnst mér skipta hvort ástandið að þessu leyti (miðað við samskonar útreikninga) breytist mikið og á hvern veginn þá. Hef á tilfinningunni að hér á Vesturlöndum a.m.k. safnist auðurinn á sífellt færri hendur. Því eru þó takmörk sett hve lengi slík þróun getur staðið og rétt er að standa sem fastast gegn slíku. Sagan segir okkur þó að það öfuga við einhverja misskiptingu er illframkvæmanlegt.

Jens Guð fjölyrðir nokkuð um skipulagsslys og birtir myndir af slíku. Gatnakerfið hér í gamla Kópavogi er þesskonar slys en ratar samt ekki á myndirnar hjá Jens. Einhvers staðar hef ég heyrt að til standi að flytja þá hugmynd út. Kannski væri hægt að telja einhverjum trú um að voða sniðugt væri að hafa göturnar svona. Háhýsin í Skuggahverfinu eru hugsanlega annað slys af svipuðum toga. Maður sem bjó þar einu sinni sagði mér að vindurinn ýlfraði oft svo hátt þar að enginn friður væri.

Jónas Kristjánsson talar um eitraða lífeyrissjóði og að sumu leyti hefur hann alveg rétt fyrir sér þar. Laun þurfa þó ekkert að vera sérstaklega há til þess að borgi sig sæmilega að greiða í þá, þó ríkið hirði óbeint stærstan hluta þeirra greiðslna. Snilld auðliðsins felst í því að telja nógu mörgum trú um að skárra sé að vera þræll kerfisins en að fara alveg í hundana.

Ofhitnun Jarðar er áreiðanlega staðreynd. Að hún sé af mannavöldum er afar líklegt og afkomendur okkar munu gjalda þess í framtíðinni. Þó er hægt að hugga sig við það að yfirleitt finnast leiðir útúr þeim ógöngum sem mannkynið lendir í. Mannfall í stríðum fer jafnvel minnkandi.

Ef maður léti eftir sér að skoða alla þá linka sem aðrir telja athyglisverða á fésbókinni, gerði maður lítið annað. Auðvitað getur verið að ég eigi of marga fésbókarvini og að þeir finni alltaf eitthvað athyglisvert. Þá eru þeir sennilega of margir, eða hvað?
Að festast í fésbókinni
furðar mig ekki neitt.
Ýmsir þar lokast inni
og allt verður soldið feitt.

WP 20150101 14 48 52 ProBónus.


2276 - Eru slys fyndin?

Nú á tímum videómynda af öllum fjandanum þykir þeim sem horfa sér til óbóta á Youtube, fyndnar fjölskyldumyndir og annað þessháttar það eflaust. Þeim sem lenda í slysum og aðstandendum þeirra finnst það þó áreiðanlega ekki. Flugslysið á Akureyri þykir óheyrilega fyndið hjá sumum. Sama er um önnur slys að segja og allskonar hrekki. Hrekkirnir geta reyndar verið meinfyndnir, en eru það allsekki alltaf. Ef áhorfendur sjá bara einhvern brandara útúr svonalöguðu, en geta ekki með neinu móti sett sig í spor þeirra sem fyrir því verða, er til lítils að birta það. Þýðingarlaust er sennilega líka að berjast á móti því. Samhengið skiptir öllu. Ófarir annarra eru í eðli sínu enginn brandari.

Einhvers staðar sá ég því haldið fram að um 20 prósent Íslendinga væru rasistar.  Mér finnst það engu máli skipta. Það sem mér finnst skipta máli er hvaða áhrif svona lagað, ef satt er, hefur á kosningahegðun almennings. Óhugnanlega margir láta hræra í skoðunum sínum með innihaldslitlum loforðum. Það er ljóst að öfgar af öllu tagi bæði til vinstri og hægri á hinu pólitíska litrófi fara vaxandi. Smáflokkum fjölgar á þingi. Gott ef það er ekki helsti gallinn á lýðræðinu. Auðvitað er ég samt ekki að mæla fjórflokknum bót og samtrygginu þeirra sem honum vilja tilheyra. Miðjumoðið er skást. Öfgunum þarf að berjast gegn.

Utanríkisráðherra segir að fyrrverandi ríkisstjórn hafi mistekist að koma ESB-umsókninni í höfn en samt haft til þess heilt kjörtímabil. Skyldi honum nokkuð mistakast á heilu kjörtímabili að koma uppsögninni í gegn. Ég er sammála Þorvaldi Gylfasyni um það að með uppsögn væri eingöngu um töf og skemmdarverk að ræða. Meira að segja Bjarni Ben. lofaði þjóðaratkvæðagreiðslu um það sem Gunnar Bragi segir nú að sé óframkvæmanlegt.

Andskotans bakkflaut er þetta allt í kringum mann alla daga. Það endar með því að allir hætta að taka mark á þessu, eins og þetta er nú sniðug uppfinning. Sama er að segja um þjófavörnina á bílum. Oftast er hún til bölvunar, en kannski hefur hún fælingarmátt.

Mogginn (mbl.is) þykist nú fá fleiri klikk en bæði dv.is og visir.is. Þýðir þetta að Mogginn sé klikkaðri en hin blöðin? Kannski. Mér finnst þetta ekki skipta neinu meginmáli. Fátt er jafn hverfult og klikkin. Sumir fésbókarar virðast klikka á allt sem hægt er að mýslast á. Kannski ætti ég að segja puttast á. Þumalputtakynslóðina kalla sumir þá kynslóð, sem nú er að vaxa úr grasi. Það hlýtur að vera með hliðsjón af símunum. Ætli næsta kynslóð verði ekki bendifingurskynslóðin, eða bara pot-kynslóðin.

Ég hef gaman af skák og biðst ekkert afsökunar á því. Samt get ég fremur lítið í þeirri göfugu íþrótt, en kíki samt stundum á „Skákhornið“. Nú bregður svo við að Gúgli kannast lítt við slíkt horn og segir bara:  „Lýsing á þessum niðurstöðum er ekki tiltæk vegna robots.txt á síðunni“. Að vísu komst ég á síðuna með öðrum ráðum, þó Gúgli hafi verið eitthvað á móti mér, en þetta er að mörgu leyti ekki nógu gott. Kannski er Gúgli frændi bara í því þessa dagana að stríða mönnum. Þetta er ein tilkynningin sem ég fékk þaðan alveg nýlega:

You’ve gone incognito

Pages you view in incognito tabs won’t stick around in your browser’s history, cookie store, or search history after you’ve closed all of your incognito tabs. Any files you download or bookmarks you create will be kept. Learn more about incognito browsing

Going incognito doesn’t hide your browsing from your employer, your internet service provider, or the websites you visit.

 

WP 20150101 14 35 03 ProTré og runnar.


2275 - Bókstafstrú er barnaleg

Sumir virðast setja sér það markmið að skrifa svo eða svo oft á dag á vegginn sinn á fésbókinni. Þ.e.a.s. ef þeir hafa ekkert annað þarfara að gera. Sjálfur reyni ég, ef ekki er um neitt annað aðkallandi að ræða, að skrifa nokkrar klausur í  bloggskjalið mitt daglega. Það er mikill kostur (finnst mér) að þurfa ekki að láta það frá sér fara alveg strax. Ég vil gjarnan hafa tíma til að lesa það yfir og breyta því jafnvel og bæta seinna meir eða sleppa. Satt að segja finnst mér sumt af því sem á fésbókina (og bloggið líka og fjölmiðlana) er sett vera full vanhugsað og lítið lesið yfir. Ritað mál hefur margt framyfir það talaða. Fréttatengt efni er ekki alfa og omega alls. Ýmislegt annað getur skipt máli. Þó er hægt að fá leið á krúttlegum kettlingum og jafnvel fáklæddu fólki og hrekkjum.

Bókstafstrú er barnaleg. Biblían, Kóraninn og aðrar trúarbækur voru skrifaðar inní sinn samtíma og eru ekkert merkilegri en aðrar bækur.  Innst inni eru bækur heldur ekkert sérlega merkilegar, myndir (hreyfi- eða kyrr-) heldur ekki. Það sama verður varla um hugmyndir og siðferði sagt, en ritað mál og myndir reyna auðvitað að miðla slíku.

Aðfinnslur eru yfirleitt skaðlegar. Með þeim er verið að ætlast til að allir (eða flestir) séu eins. Ekkert er fjær sanni. Hver mannvera (já og reyndar hver og ein lifandi vera) er heill heimur út af fyrir sig. Að sjálfsögðu breytist hugsunarhátturinn þó í tímans rás og skoðanir þroskast og afstaðan mildast. Hugsanlegt er að margir þeirra sem hæst hafa séu eingöngu skemmra komnir á þroskabrautinni en aðrir.

Minnir fastlega að ég hafi minnst á bótakröfu á hendur Valitors á Íslandi. Þetta gæti orðið hið fróðlegasta dómsmál. Þarna er hugsanlegt að takist á tveir helstu stjörnulögfræðingar landsins þeir Sigurður G. Guðjónsson og Sveinn Andri Sveinsson. Best væri auðvitað að þeir myndu bara slást opinberlega, en ekki er víst að af því verði.

Sennilega var Björgvin Sigurðsson lúsheppinn með að svo snemma komst upp um fjárdráttinn hjá honum. Gat meira að segja kennt öðrum (alkóhólismanum) um. Skýringar hans og yfirlýsingar um endurgreiðslur eru að engu hafandi. Fjárdráttur var þetta og ekkert annað. Skrýtið að fyrrverandi ráðherra skyldi leggjast svona lágt. Þeir sem einu sinni venjast á að hafa mikið fé handa á milli, finnst að þeir þurfi alltaf að hafa það.

Í rauninni er auðvitað nóg að skrifa um. En ég verð leiður á að skrifa langt mál um sama efni. Eflaust verða hugsanlegir lesendur ekki síður leiðir á að lesa langlokur um eitthvað sem þeir hafa kannski lítinn áhuga á. Samt er það svo að flestir leiðast út í að skrifa alltof langt mál um tiltölulega einfalda og auðskilda hluti. En fréttaskrif eru samt vinsæl hjá mörgum. Skyldi það ekki vera vegna þess að stutta formið er sífellt að vinna á. Flestir eru á móti því að hugsa lengi um sama hlutinn. Þó er það eina leiðin til að ná góðum tökum á efninu.

WP 20150101 14 27 24 ProStoltur ljósgjafi.


2274 - Súðavík

Nú er mikið rætt um snjóflóðið í Súðavík og er það að vonum. Mig minnir að það hafi verið seinna sama árið (1995) sem snjóflóðið féll á Flateyri. Þá var Internetið ekki nærri eins útbreitt og nú er. Við lýði var einhverskonar póstlisti sem hét Ísland-list. Man að ég endursagði í stuttu máli jafnóðum helstu fréttir úr útvarpi og setti á þennan lista. Auðvitað var fjöldi Íslendinga við nám í útlöndum og þyrsti í fréttir af þessum ægilegu atburðum.

Já, ég er gamall blogghundur og hef fylgst með blogginu frá því fyrir eða um aldamót. Byrjaði samt ekki sjálfur að blogga fyrr en Moggabloggið kom til sögunnar. Hef haldið mig þar síðan. Ætli það hafi ekki verið svona um 2006. Tölurnar segja að ég hafi bloggað talsvert oft og ekki rengi ég það.

Finnst sumir fjölyrða of mikið um trúmál. Vel má efast um að kirkjan þurfi fremur á peningum að halda en margir aðrir. Trúað fólk er þó oftast gott fólk. Útlendingahatur og Múslimaótti sem mig minnir að ég hafi minnst á í síðasta bloggi er alls ekki meiri þess á meðal en annarra. Þeir sem eru andstæðrar skoðunar við mig í ýmsum efnum, bæði trúmálum og öðrum, eru ekkert verra fólk fyrir það. Skoðanir er hægt að undirbyggja með ýmsum hætti. Ég hef skoðanir á mörgum hlutum og finnst oft að mestu máli skipti hvernig þær eru látnar í ljós, fremur en hverjar þær eru. Þó eru sumar skoðanir verri en aðrar, jafnvel afleitar. Trúarskoðanir held ég að séu yfirleitt ekki þar á meðal. Öfgafólk ýmiss konar reynir samt oft að fela sig á bakvið trúarskoðanir og reynir að sá fræjum illinda milli trúarhópa.

Dótturdóttir Nóbelsskáldsins hélt því fram um daginn að tjáningarfrelsið væri heilagt, en dró svo í land í nýrri og óralangri færslu, sem mig minnir að hafi verið í Kjarnanum. Það er svo margt sem heilagt er. Mest fer það að sjálfsögðu eftir trúarskoðunum hvers og eins. Ekki finnst mér frelsið vera sérstaklega heilagt. Síst af öllu tjáningarfrelsið. Vel má misnota það eins og annað frelsi. Og er óspart gert. Kannski er fjórfrelsið best. Það er a.m.k. betra en fjórflokkurinn.

Fulltrúar Wikileaks hafa krafist gjaldþrotaskipta yfir „Valitor“ sem ég held að sé það fyrirtæki sem sér um „Visa“ hér á landi. Hugsanlegt er að hegðun Valitors hafi haft áhrif á starfsemi Wikileaks og stór alþjóðleg fyrirtæki á borð við Visa eru vön að hafa sitt fram. Ef til vill hefur Wikileaks ekki bolmagn til að ganga til orrustu við Visa. Dómstólar eru hræðilega hægfara fyrirbrigði. Kvarnir réttlætisins mala hægt en mala örugglega.

Mér finnst hægri skálmin á náttbuxunum mínum vera styttri en sú vinstri. Allt okkar líf byggist á tilfinningum um ýmsa hluti. Svo er kannski ekkert að marka þá tilfinningu. Samt finnst mér þetta. Mér finnst líka að Íslendingar eigi lítið erindi á heimsmeistaramótið í Katar. Samt kem ég til með að fylgjast með leikjunum þar eins og aðrir Íslendingar. Svona er þetta bara.

WP 20150101 14 26 34 ProTrjágöng.


2273 - Kjarninn og Herðubreið

Eiginlega gæti hvaða málsgrein hérna sem er verið sjálfstætt veggjakrot á fésbókinni. Ég er bara svo mikið á móti henni að ég rembist enn við að blogga. Auðvitað eru samt næstum allir hættir þessari vitleysu. Fúttið er mest í að deila öllum fjandanum en leggja lítið til málanna sjálfur. Mest gaman virðist vera að deila með öðrum myndum og myndböndum. Verst er að því hefur flestu verið margdeilt áður.

RUV hefur líklega reiknað með því að Svíaleikurinn í Katar mundi vinnast og þessvegna haft fremur rúman tíma fyrir hann. Annars var þetta alltaf leikur sem mikil hætta var á að tapaðist. Og nú er hið árlega handboltaæði semsé að grípa þjóðina. Verst er að hið almenna fréttaefni verður alveg útundan. En kannski er það bara ágætt. Snjórinn, kuldinn og myrkrið gleymist í eitt augnablik.

Nú er ég orðinn alveg sæmilega birgur af snjómyndum og get haldið áfram að blogga þessvegna. Mesta furða hvað þessi sími tekur góðar myndir þó ekki sé um neitt flass að ræða á svona ódýrri græju. Caledosinn er samt ennþá uppáhaldsappið mitt.

Merkilegt hve fésbókarskrif eins þingmannsræfils geta valdið miklu uppnámi. Já, ég á við múslimaskrif Ásmundar. Furðumargir taka þátt í þeirri auglýsingastarfsemi. Útlendingahatrið og múslimahræðslan er til staðar hér á landi eins og annarsstaðar. Um það þarf ekki að efast. Og svo má búast við að útlandaráðherrann leggi fram viðræðuslitafrumvarpið aftur. Þó Bjarni Ben. beri sig mannalega núna er ekki víst að hann verði eins borubrattur ef klofningur blasir enn og aftur við sjálfstæðismönnum. Það má semsagt búast við spennandi tímum í pólitíkinni núna á útmánuðum. (Þorri, Góa og Einmánuður = útmánuðir – ætli það sé ekki hugsað þannig að veturinn sé á útleið?)

Pósturinn auglýsir nú grimmt pakkaflutning og póstbox. Þess er vandlega gætt að minnast ekki á verð. Ef tekst að sannfæra mig um að þetta sé á sanngjörnu verði er hugsanlegt að ég prófi þetta. Annars varla. Já, það minnir mig á að ég á eftir að ganga frá leiðréttingunni svonefndu. Framsókn kýs ég þó ekki.

Já og Björgvin Sigurðsson, fyrrverandi ráðherra er víst á leiðinni með að verða ritstjóri Herðubreiðar vil hliðina á Karli Th. Birgissyni. Sennilega heldur hann ennþá að hans bíði framtíð í pólitík. Ég er ekki viss um að það sé rétt, en hugsanlegt er það. Áskrift að netfjölmiðli gengur reyndar einfaldlega ekki. Sjálfur tek ég Kjarnann framyfir Herðubreið einmitt af þeim sökum.

Nú sýnist mér að þetta blogg sé orðið nógu langt til að setja upp.

WP 20141227 15 08 46 ProAkrafjall, er það ekki?


2272 - RUV

Sennilega læra flestir íslenskir unglingar að drekka með því að fá sér bjór og að sumu leyti er það svosem ágætt. Eflaust finnst þeim þó að hann sé óttalega vondur á bragðið, sem hann óneitanlega er. Það þarf nefnilega heilmikið magn af bjór til að verða ofurölvi, en þegar ég lærði að drekka þá var Séníver hæstmóðins og einu sinni tók ég óvart gúlsopa af 75% vodka (sem var vinsælt að smygla og fékkst allsekki í Ríkinu). Bjórlíkið var ekki komið í tísku og enn síður búið að leyfa bjórinn sjálfan þá. Auk þess að vera vondur á bragðið er bjórinn hræðilega dýr hér á Íslandi, en ódýr víðast annars staðar.

Á fésbókinni er það helst að gerast að Anna í Holti dreifir grimmt auglýsingum um týnda ketti og hunda og Sævar Bjarnason reynir að rífa skákina upp þar með stanslausum skákskrifum. Auk þess sem mikið er skrifað í Borgarnesbókina. Húrra fyrir fésbókinni. Kannski hún sé að batna. Það eru næstum allir þar.

Stundum (oft) finnst mér fésbókin samt haga sér afskaplega undarlega. Einu sinni safnaði ég fésbókarvinum og eignaðist þónokkur hundruð slíkra. Síðan hef ég ekki haft mikinn frið fyrir afmælistilkynningum. Frekar marklausar yrðu hamingjuóskir með slíkt ef ég sendi margar á dag. Sumum vil ég þó gjarnan óska til hamingju með afmælið, en nú orðið er mjög undir hælinn lagt hvort ég fæ tilkynningar um slíkt. Menn eru að mestu hættir að vera tölvunarfræðingar og verða í staðinn í mesta lagi fésbókarfræðingar. Það finnst mér heldur snautlegt.

Bloggið er hinsvegar á niðurleið. Sérstaklega Moggabloggið, sem vitanlega er ekkert annað en glorifíserað kommentakerfi, Vel má samt nota það sem venjulegt bloggkerfi án nokkurra áhyggna af uppitíma. Ágætt er líka að auglýsa bloggin á fésbókinni og það geri ég. Alveg er það merkilegt að Gúgli sjálfur skuli taka blogg framyfir fésbók. A.m.k. safnar hann ekki saman neinu þaðan sem ég hef orðið var við.

105,7 kg. er ég núna, segir vigtin. Henni verð ég víst að trúa þó mér finnist hún svolítið mislynd. Enginn vafi er á að ég ætla mér undir 105 og jafnvel 100 kíló. Síðan er sennilega best að hætta þessu streði og reyna bara að halda sér á sæmilegu svæði. Líkamsræktin (gönguferðirnar) skilar sér hinsvegar ágætlega. Og bráðum fer að birta. Fuglarnir halda það a.m.k. Það heyri ég á þeim.

Ólafur (bölvar og ragnar) Grímsson er ekki ómissandi sem forseti. Hann heldur það líklega sjálfur, og kannski ræður hann því hvort og hvenær hann hættir þessu stórasta embætti landsins. Auðvitað ætti forsætisráðherra að vera stærstur, en Ólafur sjálfur virðist ekki álíka það. Sennilega hefur hann ekki fattað hve stórt þetta Parísarmál var, annars hefði hann örugglega skroppið. Á sínum tíma kaus ég hann samt og það var ekki bara vegna fyrrum framsóknarmennsku hans. Ef forsetar eru (fyrrverandi) pólitíkusar, þá er nokkuð öruggt að þeir hafa verið flokkaflakkarar.

Deilan um RUV er að mestu hin klassiska deila um keisarans skegg. Ef allt í einu á að fara að reka RUV eins og alvöru fyrirtæki þá er það að sjálfsögðu fallít. Það hefur bara aldrei verið gert. Alltaf hefur verið til siðs að horfa framhjá vanda lífeyrisskuldbindinga í framtíðinni og þeim útgjöldum sem skapast hafa af þeim kastala sem byggður var á sínum tíma í Efstaleitinu. Reksturinn sjálfur hefur verið nokkurn veginn í járnum um margra ára skeið. Auðvitað væri hagstætt að hætta þessum feluleik og taka upp nýja siði. Það er bara svo erfitt. Spá mín er að ráðist verði á vandann að hluta en að mestu haldið áfram í gamla farinu. Annars er ágætis greining á vanda RUV á Kjarnanum. (kjarninn.is)

WP 20141227 10 36 44 ProBlokkir.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband