Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2016

2506 - Houdini

Þegar ég unglingur eða krakki sem var víst um miðja síðustu öld, las ég og átti af einhverjum ástæðum ævisögu Houdinis. Þessi ævisaga er mér ákaflega minnisstæð og ekki er ég frá því að andúð mín á hverskonar miðlum og hjátrú sé frá þeirri bók komin. Þessvegna var það sem ég fór (alveg óvart) að horfa á sjónvarpið eftir fréttirnar síðastliðið sunnudagskvöld. Auðvitað hafa verið gerðar fjölmargar kvikmyndir um meistara Houdini. Held að þessi miniseria sem nú er verið að sýna hjá RUV sé fremur nýleg. Ekki fannst mér samt sögunni vera fylgt nema að litlu leyti en kannski lagast það í seinni hlutanum. Sem ég hef reyndar ekki hugmynd um hvenær verður sýndur. Ekkert var minnst á miðla í þessum fyrri hluta, heldur eingöngu töfrabrögð, undankomuleiðir, njósnir og þess háttar og ef ekki verður minnst á handanheimsandstöðu hans heldur í seinni hlutanum missi ég alla trú á þessari mynd, sem þó virðist vera fremur vönduð að allri gerð.

Frægðin er ekki alltaf dans á rósum. Lítið bara á Ryan Lochte. Svolítið frægur Bandarískur sundmaður, en svo varð hann bara frægur að endemum, og það útá lítilsháttar skreyti, sem hefði verið lítið mál hjá flestum öðrum. Eða hvað er ekki hægt að segja um Hope Solo, Tiger Woods, Mariu Sharapovu, Rondu Rousey og Lance Armstrong?. Með einu vanhugsuðu kommenti getur frægðarsólin hnigið til viðar eins og t.d. hjá Hope Solo. Úps. Er þetta allt saman íþróttafólk? Ætli það gildi ekki líka um aðra? Kannski hættir Kim Jong Un eða Justin Bieber allt í einu að vera frægir. Hvað veit ég. Gjörsamlega ófrægur maðurinn. Er ekki Paris Hilton öllum gleymd?

Sunnudaginn 26. september verða væntanlega fyrstu kappræðurnar milli frambjóðendanna í Bandarísku forsetakosningunum. Þar fá þeir einir aðgang sem fá meira en 15% atkvæða í skoðanakönnunum. Það er ekki alveg öruggt að það verði bara Donald Trump og Hillary Clinton sem þar eigast við. Nýjasta skoðanakönnunin segir að Clinton hafi 43% Trump 38% Gary Johnson 11% og Jill Stein 3%. Johnson er nú sagður róa að því öllum árum að komast upp í 15%. Annars er það furða hve mikla athygli forsetakosningarnar í Bandaríkjunum vekja núna hérna á Íslandi. Ekki veit ég gjörla hvað veldur, en pólitískur áhugi virðist fara vaxandi útaf hverju sem það er. Kannski er það Internetið sem þessu veldur.

Man eftir að á sinni tíð var ég í svokölluðum kvikmyndaklúbbi á Bifröst. Man líka að einhverntíma sýndum við kvikmynd (frá Upplýsingaþjónustu Bandaríkjanna) um sjónvarpseinvígi þeirra Kennedys og Nixons (1960) og ekki þótti það merkileg kvikmynd. Samt var það sjónvarpseinvígi á margan hátt athyglisvert og áhugi minn á Bandarískum stjórnmálum hefur aldrei sofnað alveg síðan þá.

IMG 4096Einhver mynd.


2505 - Pólitík o.fl.

Nú er ég að verða óstöðvandi í blogginu. Fésbókin finnst mér vera meira svona eins og kjaftæði yfir kaffibolla. Kannski er bloggið ekkert betra. Ég er bara vanari því. En eins og kunnugt er þá ku vera erfitt að kenna gömlum hundi að sitja. Úr því að ég er einu sinni búinn að tileinka mér aðferðina við að blogga þá er afleiðingin sú að ég get ekki hætt, eða á a.m.k. erfitt með það. Þar að auki hef ég fremur gaman af því að skrifa (hugsa upphátt) og úr því að einhverjir lesa þetta er óþarfi að hætta. Af því að Moggabloggið er með þeim ósköpum gert að enn þarf að borga fyrir plássið (a.m.k. veit ég ekki betur) þá er ég að mestu hættur að setja myndir og þvíumlíkt þangað, en nota í staðinn fésbókina fyrir þessháttar.

Alveg er ég hissa á öllu því sem sett er á fésbókina. Þó sé ég sennilega minnst af því. Þar sjá menn bara það sem þeir vilja sjá og hafa lítinn áhuga á öðru. Með tímanum verður þetta einskonar þöggun því ef farið er útfyrir það sem almennt er talið normal þá er ráðist miskunnarlaust á þann sem það gerir. Rétthugsunin er næstum yfirþyrmandi. Kostirnir við fésbókina eru samt margir, en pólitískt séð ímynda ég mér að hún sé stórhættuleg. Hvers kyns fordómar og einsýni vaða þar uppi. Fjölmiðlarnir stíla inná þetta. Sá sem best kann á þjóðfélagslegu miðlana vinnur. Eiginlega er ekki óhætt að hafa skoðun á neinu.

Áfram held ég að fjalla um pólitík, þó mér þyki heldur lítið til þeirrar tíkur koma. Kosningar er sagt að halda eigi í október næstkomandi. Þessvegna er ekki furða þó flokkar vilji halda prófkjör eða eitthvað þessháttar. Einhverjum vandræðum virðist blessuð Samfylkingin þó eiga í hér á Vesturlandi. Í fréttum var frá því skýrt að þrír mundu taka þátt í prófkjöri hreyfingarinnar hérna og að fyrstu fjögur sætin skyldu vera bindandi. Skýring hlýtur að vera til. Upplagt er þó að gera grín að þessu.

Aðalatriðið í umgengni sinni við fésbókina er að skrifa sem minnst. Ég reyni að lifa eftir því að skrifa sem minnst á fésbókina en blogga sem allra mest. Örugglega hentar það ekki öllum og er það vel. Að sjá eftir því sem maður setur hugsunarlaust á fésbókina er vísasti vegurinn til að verða óhamingjusamur. Er hamingjan þá fólgin í því að blogga sem allra mest? Nei, hún er fólgin í því að láta ekki óáranina í heiminum hafa of mikil áhrif á sig.

Fastasti punktinn í tilverunni er að hafa hádegisfréttirnar í útvarpinu klukkan tuttugu mínútur yfir tólf. Þessar hádegisfréttir voru víst eitt sinn aðalfréttatími dagsins. Mér er nær að halda að þannig hafi það verið á Íslandi allar götur frá því að útvarpið hóf göngu sína, sem mér er fortalið að hafi átt sér stað árið 1930. Ekki man ég eftir því og ekki man ég heldur eftir hádegisfréttatímanum á öðrum tíma en þessum. Annars virðist dagurinn ekki byrja hjá sumum fyrr en um hádegið.

Eiginlega er engin furða þó fólki finnist allt ganga á afturfótunum í veröldinni. Mannfólkinu fjölgar og hraðinn eykst. Tækninni fer fram og fjölmiðlunum fjölgar. Internetið yfirgnæfir allt og fær fólk til að halda að það sé þátttakendur í allskyns atburðum. Fréttaflutningur er slíkur að engu er eyrt. Alltaf er nóg til að óskapast yfir. Ríkidæmi yfirstéttarinnar er orðið slíkt að meira verk er að eyða tekjunum en afla þeirra.

IMG 4170Einhver mynd.


2504 - Mjór er mikils vísir

Einn versti ókosturinn við Reykjavík er æðibunugangurinn á öllum. Hér á Akranesi er borin virðing fyrir gangandi vegfarendum og oftast ekið hægt. Bíll við bíl langtímum saman þekkist ekki. Annaðhvort eru alltof fáar götur í Reykjavík eða of margir bílar. Þriðja skýringin sem mér dettur í hug núna á meðan ég skrifa þetta er að ég sé alltaf á aðalumferðargötunum þegar ég fer til Reykjavíkur. Engar slíkar eru hér á Akranesi. Það er helst að þeir sem eru á reiðhjólum séu stundum að flýta sér.

Hvað pólitíkina varðar þá eru það einkum stjórnarskrármál sem valda mér áhyggjum. Hjá þingmönnum virðist alls ekki vera grundvöllur til þess að láta sverfa til stáls í þeim málum. Kannski er það bara vel skiljanlegt. Mikilvægasta ákvæðið í þeim drögum sem mikið verða rædd á næstu vikum er að mínum skilningi ákvæðið um þjóðaratkvæðagreiðslur. Hugsanlega breytist þá hið þingbundna lýðræði sem við höfum lengi búið við í beint lýðræði. Ef hið þingbundna lýðræði breytist í beint lýðræði missa þingmenn e.t.v. þau endanlegu völd sem þeir hafa hingað til haft. Kannski er það þessvegna sem þeir eiga mjög erfitt með að koma sér saman um breytt fyrirkomulag.

Mér hefur skilist að stjórnarandstaðan muni ekki vilja þá útgáfu stjórnarskrárbreytinga sem nefnd sem skipuð var kom sér saman um. Í mínum huga er það sama og að segja: „Ef ég fæ ekki allt sem ég vil, vil ég ekkert.“ Slíkt er í mínum augum óþolandi frekjugangur. Samt mun ég að líkindum kjósa Píratana eins og síðast ef kosningar verða í októberlok eins og boðað hefur verið.

Annars á áreiðanlega mikið eftir að ræða um stjórnmál á næstu vikum. Flestir vilja þó komast hjá því að ræða alvarleg mál og fimbulfamba bara um einskisverð málefni eins og Nígeríubréfið um spítalann í Mosfellsbæ. Fésbókar-ræksnið er eiginlega ekki lesandi um þessar mundir og á bara eftir að versna fram að kosningum.

Megrunin gengur bara vel. Vigtin hélt því fram að ég væri bara 118,0 kg síðast þegar ég talaði við hana. Þetta er nú sennilega einhver vitleysa en svo er á það að líta að fyrstu kílóin í öllum megrunarkúrum eru auðveldust og þau síðustu erfiðust. Komst aldrei niður fyrir 100 kg síðast þegar ég reyndi.

IMG 4116Einhver mynd.


2503 - Charles Ponzi

Eitthvað fór nú myndbirtingin í handaskolum hjá mér í síðasta bloggi. Sennilega hef ég bara gleymt að stækka hana. Lesendur ættu alveg að geta það sjálfir. Minnir að þetta sé gömul mynd. Þær nýjustu set ég fremur á fésbókina núorðið.

Nú eru Ólympíuleikarnir blessunarlega afstaðnir svo aftur er hægt að snúa sér að jarðskjálftum og annarri óáran. Hvað mig snertir er eftirminnilegasta atvikið frá nýafstöðnum Ólympíuleikum úrslitin í 400 metra hlaupi kvenna þar sem Bahamastúlkan Shaunae Miller kastaði sér fram til að vinna bandarísku stúlkuna Allyson Felix og auðvitað var Jamaicamaðurinn Bolt eftirminnilegur en við því var að búast. Þetta með Bahamastúlkuna kann að vera vegna þess að tengdadóttir mín er frá Bahamaeyjum. Þó Bahamabúar séu álíka margir og Íslendingar eru amerísk áhrif þar ennþá meiri en hér.

Mikið er þessa dagana rætt um slæman aðbúnað í íslenskum flugvélum. Í öllu því fjaðrafoki sem af þessu hefur sprottið hefur ekki mér vitanlega verið minnst á aumingja farþegana. Þeir mega svosem sitja í eiturlofti og allskonar án þess að nokkur hafi áhyggjur af því. Annars er mér nær að halda að meira sé úr þessu gert en efni standa til.

Þegar ég var ungur var til eitthvað sem hét alþjóðlegt svarmerki. Já, menn skrifðuðu raunverulega bréf og settu þau í póst eftir að hafa greitt burðargjald. Ekki er mér kunnugt um að neinir aðrir en bankar og aðrar stofnanir viðhafi þessa aðferð nútildags. Maður að nafni Charles Ponzi sá að með því að nota sér þessi svokölluðu alþjóðlegu svarmerki mátti græða fé. Með því að kaupa þau þar sem burðargjald var lágt, en selja þau síðan þar sem burðargjald var hátt mátti auka hagnað. Þegar aðferðin þróaðist hjá Ponza þurfti ekki frímerki eða svarmerki til og nóg var að millifæra peningana. Með þessu móti er Ponzi talinn hafa grætt allt að 20 milljónum dollara, sem auðvitað eru smápeningar samanborðið við nútímasvindl. Þetta gerðist víst um 1920 og fjármálasvindl er síðan gjarnan kennt við Ponza greyið.

IMG 4272Einhver mynd.


2502 - Megrun boðuð

Sennilega eru Norðlendingar mikið fyrir hljómmikil nöfn einsog t.d. Svalbarðströnd og Svarvaðardalur. Aftur á móti virðast Sunnlengingar meira fyrir skrítin nöfn og má þar t.d. nefna Apavatn og Látalæti. Annars treysti ég mér ekki til að fjölyrða mikið um nöfn því alltaf má finna undantekningar.

Segið að pressan, og ég á við hina alþjóðlegu og einkum amerísku pressu en ekki hina aumlegu íslensku, sé valdalaus. Fyrir fáum mánuðum síðan, bjó sú pressa til forsetaframbjóðandann Donald Trump. Nú hamast þessi sama pressa við að eyðileggja hann. Og sennilega mun henni takast það. Gallinn er bara sá að einn stríðsæsingamaðurinn tekur við af öðrum þar sem Hillary Clinton er. Kannski tekst pressunni að etja mönnum útí þriðju heimsstyrjöldina. Það ris sem augljóst er í þjóðernisrembingi hverskonar um allan heim er pressunni að kenna. Ekkert þýðir að segja að hún fari bara eftir því sem fólk vill heyra og segi bara frá því sem satt er. Sannleikurinn er allsenginn fasti sem hægt er að henda fyrir lýðinn. Heldur er sá sannleikur sem pressan ber á borð eingöngu sá sannleikur sem hún sér og hefur ákeðið að sé sá eini rétti. Vinstri pressan virðist samt vera máttugri en sú hægri um þessar mundir.

Pressan er samt sem áður ómissandi. Tilraunir þær sem Píratar og fleiri þykjast hafa verið að gera til beins lýðræðis, eru dæmdar til að mistakast og hvað er þá eftir? Algjört stjórnleysi. Ómenguð dystópía.

Það er engin furða þó kjósendur séu í vafa um hvern kjósa skuli. Allir ljúga þeir eins og þeir eru langir til þessi stjórnmálamenn, en hvernig eigum við, vesælir kjósendur að gera greinarmun á því hvaða lygar eru mest skaðlegar og hverjar minnst. Eiginlega er sami rassinn undir þessu öllu saman.

Á forsíðu Fréttablaðsins sagði einhver nýlega að lögleiðing fínkiefna væri ómöguleg á Íslandi. Sér er nú hver ómöguleikinn. Verð ég að segja. Ef það mögulegt annars staðar hlýtur það að vera mögulegt á Íslandi líka. Annað er ómögulegt. Er ég nú sjálfur dottinn í ómöguleikann. Þetta er sennilega smitandi. Þessvegna væri líklega ráð að forðast ómöguleikann. Það er nefnilega allt mögulegt. Ekkert nýtt undir sólinni. O.s.frv.

Er ég eiginlega hættur að blogga? Man ekki betur en það sé ansi langt síðan ég hef gert slíkt. Hér með reyni ég að bæta úr því. Bloggiddi blogg. Minnir að ég hafi notar þessa aðferð áður og hún hafi ekki gefist vel.

Það er aðfaranótt 24. ágúst núna og ég er andvaka sem aldrei fyrr. Undanfarið hef ég bara drukkið vatn og að sjálfsögðu farið á klósettið þegar ég hef vaknað á nóttunni. Sem gerist næstum daglega, eða á ég að segja nóttlega. Einhvern vegin er ég meira glaðvakandi núna og eftir að hafa vigtað mig (120,1 kg.) er ég ákveðinn í að megra mig. Fyrst er ég samt að hugsa um að fá mér eitthvað og ljúka við þetta blessaða blogg, sem ég hef alltof lengi ætlað að klára.

IMG 4305Einhver mynd.


2501 - Jæja, nú verða kosningar á morgun

Jæja, nú verða kosningar á morgun. Ætli það sé ekki þetta sem Bjarni er að stefna að? Það væri nú ekki ónýtt, ef hann gæti verið eini maðurinn sem vissi (svona viku) fyrirfram að kosningar mundu verða. Öllum öðrum yrði haldið í óvissu um þetta atriði. Sem auðvitað er smáatriði í samanburði við öll málin sem ljúka á.

Einfaldasta skýringin á stóra kosningadagsetningarmálinu er sú að stjórnarandstaðan hafi einfaldlega látið Bjarna Ben. snúa á sig. Með því að lofa kosningum var hann að kaupa sér frið frá stjórnarandstöðinni. Ekki á ég von á því að endirinn verði í líkingu við það sem ég boðaði í byrjun þessa bloggs. Samt sem áður er Bjarni þarna með ágætis vopn í höndunum.

Sá áðan á randi mínu um bæinn skilti nokkurt hvar á stóð. „Stillholt“. Þá varð þetta til:

Í Stillholti eru stillur miklar
og stillt er allt sem stilla þarf.
Stilltir jafnvel stærðarhnyklar
svo stilliþörfin mikla hvarf.

Sumir mundu kalla þetta vísukorn. En ég geri það ekki. Þó þarna séu bæði rím og stuðlar þá eru þeir á tilviljanakenndum og jafnvel vitlausum stöðum. Ég mundi fremur vilja kalla þetta samsetning. Hrynjandina er hægt að ráða við og þá bjargast talsvert mikið. Annars er það afar misjafnt hvað verður mér að yrkisefni. Þetta er nú samt með því ómerkilegasta.

Nú er verslunarmannahelgin um garð gengin og farið að halla sumri. Enginn var drepinn og fáum nauðgað svo vel var sloppið. Annars er þessi þjóðhátíðarsótt farin að nálgast hámarkið. Satt að segja er engin hemja hvernig fólk hagar sér. Eru allir orðnir vitlausir, eða hvað? Já, já sumir hafa alltaf allt á hornum sér, en er það ekki svolítið spes að fréttirnar frá þessari svokölluðu þjóðhátíð snúist bara um það hve mörgum er nauðgað?

Eiginlega er ég orðinn hundleiður á þessari sífelldu bloggsótt, en samt get ég ekki hætt. Hvað ætti ég svosem þá að gera? Ekki get ég stofnað netmiðil bara sisvona. Sumir virðast þó geta það. Eða halda að þeir geti það. Bara fá einhverja til að lofa að skrifa öðru hvoru og presto. Miðillinn er kominn. Er þetta virkilega svona einfalt? Sumir mundu segja að Kjarninn og Stundin séu orðnir aldraðir miðlar. Sumir lesa þá samt sem áður. Þessvegna eru þeir netmiðlar en vafasamt er með hina alla.

IMG 4354Einhver mynd.


2500 - Jónína Hjartardóttir

Er ég virkilega búinn að blogga tvöþúsundogfimmhundruð sinnum? Líklega er það rétt. Man ekki eftir að hafa gert vitleysu í númerasetningunni. Einu sinni, jú. Og þá var ég minntur á að leiðrétta það. Nú er þeim óðum að fækka sem kommenta á bloggið mitt. Einu sinni voru þeir talsvert margir. Nú er fésbókin tekin við. Merkilegt hve mikið er kjaftað þar. Virkir í athugasemdum virðast vera talsvert margir.

Hlustaði með öðru eyranu á útvarpið rétt áðan. Auðvitað var verið að tala um þjóðhátíðina í Vestmannaeyjum. „Og þar var fullt af fólki sem var ekki undir áhrifum áfengis“, sagði kona nokkur. Auðvitað er ekki hægt að gera ráð fyrir því að fimm ára krakkar séu fullir, en áfengi er haldið að fólki á þjóðhátíð og þeir litnir hornauga sem ófullir eru. Ég sný ekki til baka með það. Vitað er að drukkið fólk eyðir meiru í allskyns vitleysu og út á það gera Vestmannaeyingar. Annars er þjóðhátíðin í Vestmannaeyjum aðallega frábrugðin öðrum útihátíðum að því leyti að hún er fjölmennari. PR-vise hefur vel tekist til þar.

Undarlegt þetta með minnið. Maður man gjarnan eftir algjörlega þýðingarlausum hlutum en á kannski í erfiðleikum með giftingardaginn sinn. Man eftir því að einhverntíma í dýrafræðitíma (líklega) skrifað Jónína nokkur Hjartardóttir að hrafninn gerði sér gjarnan hreiður úr „víródrasli“ (ekki vír og drasli) og kennarinn (sem ég man ekki hver var) var mjög hrifinn af þessum rithætti. Af hverju ég man þetta frekar en margt annað úr skólanum skil ég ekki. Og að ég skuli muna eftir því að það var Jónína Hjartardóttir sem bjó til þennan rithátt skil ég heldur ekki. En svona er þetta. Maður ræður engu (eða litlu) um það hvað maður man og verður bara að sætta sig við það. Svo er minnið svikult líka. Þó maður haldi að maður muni einnhvað alveg með vissu, kann það að vera tóm vitleysa.

Nú er Guðni orðinn forseti. Ekki ber á öðru. Ekki hafði ég aldur til að kjósa þegar Ásgeir sigraði séra Bjarna, en síðan þá hef ég ávallt kosið sigurvegara í forsetakosningum. Held að Guðni hafi alla burði til að verða farsæll forseti. Að þau forsetahjónin skyldu velja lag til flutnings við embættistökuna eftir Bergþóru Árnadóttur við texta eftir Laufeyju Jakobsdóttur sýnir betur en margt annað tengsl þeirra við Hveragerði.

Ég er að hugsa um að hætta að birta gamlar myndir á eftir bloggunum mínum. Í bili að minnsta kosti. Nú er ég farinn að geta tekið sæmilegar myndir á símann minn. Og þar sem ég á eitthvað eftir af því sem Moggabloggsmenn seldu mér dýrum dómum á sínum tíma þá er ég að hugsa um að skutla nokkrum myndum uppá tölvuna þeirra. Kannski fylgja ekki nýjar myndir þessu bloggi, en fljótlega hugsa ég að það verði.

IMG 4801Einhver mynd.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband