Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2018

2681 - Ráðist gegn reikningsaðferðum

Hef verið að athuga að undanförnu hve margir halda áfram nútildax að blogga hér á Moggablogginu. Þeir eru furðumargir. Það finnst mér merkilegt. Kannski hentar fésbókin þeim ekki. Kannski skrifa þeir heilmikið þar einnig. Ég hef bara ekki athugað það. Þetta er samt með merkilegri rannsóknarverkefnum sem ég hef fengist við undarfarna daga. Tvennt finnst mér athyglisverðast. Þeir sem vinsælastir eru þar blogga mjög oft. Jafnvel oft á dag. Og þeir sem nýlega hafa byrjað að blogga þar nota flestir bloggið eins og sennilega hefur verið ætlast til í upphafi. Þ.e.a.s. með því að gera athugasemdir við það sem skrifað er á mbl.is.

Get ekki að því gert að mér finnst þessir votlendissjóðir og þessháttar sem verið er að stofna út um allar trissur vera óþarflega neikvæðir. Jafnvel að þeir séu einkum að ráðast gegn því hvernig hnatthlýnun er reiknuð út. Mér finnst að „endurheimt votlendis“ sem oft er talað um eigi ekki að vera forgangsmál úr því sem komið er. Vel getur samt verið að mýrarflákar séu æskilegir frá einhverjum sjónarmiðum. Aðallega held ég að það séu samt fuglar sem hugsa þannig. Ef þeir hugsa þá nokkuð um þessa hluti. Mér vitanlega er alls óvíst að þeir komi aftur. Stígvélaframleiðendur munu þó eflaust gleðjast ef takast mætti að auka verulega við mýrar á landinu. Annars nenni ég ekki að velta þessum hlutum neitt afskaplega mikið fyrir mér. Finnst samt einhvern vegin að það mætti draga úr hnatthlýnun með jákvæðari aðferðum en þeim að hamra sífellt á því hvað menn hafi verið vitlausir hér áður fyrr.

Þó snjórinn sé yfirleitt bölvaður er ekki hægt að neita því að í frosti og snjóföl eru göngustígar ekki nærri eins hálir og stundum ella. Auðvitað er samt best að þeir séu þurrir og snjólausir en það er sennilega til of mikils mælst á svona norðlægum slóðum. Snjólétt er samt hér á Akranesi. Ekki get ég neitað því. Krakkar, fréttastofur og kannski einhverjir skíðamenn líka, vilja samt hafa sem mestan snjó. Erfitt er að gera öllum til hæfis bæði fyrir veðurguði og aðra. Þurrir gangstígar og lítil hálka er samt það sem ég óska mér helst. Hitastigið skiptir minna máli.

Eitt af því sem Katrín Jakobsdóttir talaði um við ríkisstjórnarmyndunina var að umræðuhefðin á Alþingi Íslendinga þyrfti að batna og unnið yrði að því að svo yrði gert. Ég hlustaði á upphaf þingfundar í dag og get ekki séð að hún hafi batnað rassgat. Enn er það svo að þingmenn virðast flestir líta á þingstörfin sem send eru út yfir saklausan almenning sem einskonar kappræður sem snúist aðallega um það að gera lítið úr andstæðingum sínum. Tvö lið takast þarna á og þjóðarhagur skiptir litlu máli. Herfangið „ræðustóll“ skiptir öllu.

IMG 0363Einhver mynd.


2680 - Skrefamælingar o.fl.

Þú og einn til viðbótar í viðbót. Segir fésbókin. Þetta finnst mér vera tátólógía hin mesta og óþarfi vera að tvítaka þetta. Og er ég dálítið hissa á að þeir íslenskufræðingar sem hljóta að standa að þessari bók bókanna skuli ekki koma auga á þetta.

Annars er það helst af mér að frétta að ég er ekki dauður ennþá. Afar lítið hef ég þó bloggað að undanförnu og stafar það annars vegar af því að ég er alveg óstjórnlega latur þegar ég vil það við hafa. Einnig var ég í hálfan mánuð á Kanaríeyjun í einskonar fríi frá öllu tölvu- fésbókar- og bloggtengdu, en afskipti af slíkum málum eru einkum það sem ég geri núorðið. Fyrir utan að klæða mig og hátta auk þess að éta eins og svín.

Kannski segi ég seinna frá þessari ferð minni hér á bloggvöllum. Einkum fer það sem ég sá og heyrði þar samt í reynslubankann og í rauninni er ekki frá mörgu að segja. Íslendingar voru þarna mjög fáir (sem betur fer) og ekki var þetta á ensku ströndinni svokölluðu þó þetta hafi verið á Gran Canary. Maturinn þarna var mjög góður og mikill og aðstaða öll frábær.

Í allmörg ár hef ég notað í símanum mínum forritið Caledos runner til að segja mér hvað tímanum líður og hve langt ég hef farið. Auk þess get ég eftirá séð nákvæmlega hvaða leið ég hef farið. Nú er komið í ljós að með upplýsingum frá forritum af þessu tagi (einkum eru nefnd forritin Fitbit og Jawbone) má fylgjast með ýmsu, því þau eru notuð af mörgum. T.d. gaf bandaríski herinn allmörgum hermönnum Fitbit til að berjast gegn offitu. Nota má upplýsingar frá þessum forritum, sem eru aðgengilegar öllum (eða voru a.m.k.) til þess að finna leynilegar herstöðvar og hvar hermenn gjarnan safnast saman. Skrefamælar eru nefnilega í mörgum þessara tækja og ekki taka allir tækin af sér þegar þeir eru ekki að æfa sig.

Sumir kunna að telja að upplýsingar af þessu tagi séu jákvæðar en aðrir að þær séu neikvæðar. Ég ætla ekki að dæma um það, en mér þóttu þessar upplýsingar athyglisverðar og sýna vel hve tæknin getur verið margslungin.

Ætli ég hafi þetta ekki bara í styttra lagi að þessu sinni.

IMG 0376Einhver mynd.


2679 - Ömmi frændi

Ögmundur Jónasson, eða Ömmi frændi eins og hann er stundum kallaður, skrifar bréf í Fréttablaðið til stuðnings biskupnum. Kannski er ekki vanþörf á því. Einkennilegt hlýtur það að teljast að einbeita kröftum sínum að einum (kven)manni á þann hátt sem gert hefur verið. Fjölmiðlar hafa beitt sér dálítið í þessu máli og ekki er hægt að segja að þetta sé hluti af „MeToo“ byltingunni sem víða er minnst á þessa dagana. Skopmyndir af Katrínu Jakobsdóttur með augun sem undirskálar geta hinsvegar talist vera það.

Þessa klásúlu hér fyrir ofan setti ég á fésbókina því ég vildi ekki taka þá áhættu að láta þetta verða úrelt með öllu. Ekki stóð á viðbrögðum og satt að segja er ég orðinn hræddur um að bloggið sé að verða svolítið úrelt þing hér á Íslandi í samanburði við fésbókina. „Twittið“ og aðra samskiptamiðla hef ég hingað til látið afskiptalausa, en fésbókin með alla sína „útúrdúra“ virðist þjóna mörgum ágætlega. Það er samt andstætt öllum mínum prinsippum að takmarka á einhvern hátt það sem ég skrifa. Það á að vera opið öllum einsog það hefur alltaf verið.

Eins og ég óttaðist þá hefur heimsóknum á bloggið mitt fækkað mjög mikið og hratt síðan ég skrifaði síðast. Líklega er best að bæta úr því. Eiginlega eru þessi skrif heldur lítilvæg, þó ég vilji gjarnan gera betur. Eitthvað skrifað ég líka á fésbókina útaf Reyni Leóssyni og sjónvarpsmyndinni um hann. Umræðan um þá mynd var talsverð. Eitthvert fébókarstuð var á mér þann daginn því mig minnir að ég hafi kommentað víðar.

Mér sýnist að núverandi dómsmálaráðherra landsins ætli að þrjóskast við og hver veit nema hún geri það jafnlengi og Hanna Birna. Á endanum er ég þó hræddur um að hún neyðist til að segja af sér og spurningin í mínum huga er hvern eða hverja hún ætli að taka með sér. Auðvitað þverneitar hún öllu í upphafi, alveg eins og Hanna Birna gerði.

Donald Trump gæti alveg staðið þessa árás Bannons af sér og handið áfram í koddaslagnum og uppnefningastríðinu við Kim Jong-un eða hvað í ósköpunum hann heitir nú aftur einræðisherrann í Norður-Kóreu. Kjarnorkustyrjöld sýnist mér vera ansi fjarlægur möguleiki. Heimssyrjöld, með hugsanlegri útrýmingu heimsins eins og við þekkjum hann, ennþá fjarlægari.

Þó þetta ár byrji með talsverðum kuldum á norðurslóðum held ég að hugsanlega sé allsekki of mikið gert úr hnatthlýnun þeirri sem beðið er eftir. Vísindaheimurinn virðist vera að taka við sér hvað þetta snertir og mengun sú sem alltof víða hefur viðgengist á undanförnum árum er á greinilegu undanhaldi.

IMG 0262Einhver mynd.


2678 - Hvað boðar nýárs blessuð sól?

 

Nú árið er liðið í aldanna skaut og aldrei það kemur til baka. Hvað borðar nýárs blessuð sól? Hún boðar náttúrunnar jól. Já, skáldin hafa sagt flest það sem segja þarf. Mér fannst ræða forsetans áðan ekkert sérstök. Eiginlega bara samansafn af fögrum orðum. Bar keim af því sem stjórnmálamenn eru sífellt að segja og allir eru hættir að taka mark á. Katrín Jakobsdóttir er sá stjórnmálamaður íslenskur, sem flestir einblína á þessa stundina. Rís hún undir því? Um það má efast.

Í gær var gamlársdagur og þó ég sé gamall orðinn þá finnst mér húllumhæið og sprengingarnar vera í meira lagi á þeim degi. Um morguninn fór ég í mína venjulegu morgungöngu. Snemma mundi einhver segja. Mér fannst það ekki. Þó var ekkert farið að birta. Klukkan samt orðin hálfátta eða meira. Reyndar var þetta fyrsta morgunganga mín síðan um jól. Enda hef ég verið hálfslappur, jafnvel veikur síðan þá. Tíðindalaust var á þessari göngu enda ætlaði ég ekkert að skrifa um hana.

Einn er sá maður sem ég virði talsvert. Þ.e.a.s. það sem hann skrifar. Það er Karl Th. Birgisson ritstjóri Herðubreiðar. Einn er líka sá maður sem ég ber heldur litla virðingu fyrir að þessu leyti, þó hann þykist yfirleitt  vera rökfastur í meira lagi. Sá heitir Jón Steinar Gunnlaugsson. Karl Th. Birgisson fjallar einmitt um hann í grein á Herðubreið sem ég las nýlega.

Að mínum dómi er það helsti ljóður á ráði Karls Th. Birgissonar að hann vill stundum fá greitt fyrir greinar sínar á Herðubreið. Ég er gamall Internethundur og hef vanist því að allt sé ókeypis sem almennilegt er þar. Svo langt geng ég í þessari minni sérvisku, að ég les helst ekki aðrar bækur en þær sem ég fæ ókeypis á kyndlinum mínum. Samt er ég orðinn svo gamall að ég fæ allar þær bækur sem ég kæri mig um á bókasafninu án þess að borga fyrir það. Get líka lesið ýmislegt á Stundinni þó þar sé ætlast til að fá greitt fyrir skrifin.

Auðvitað skil ég það mætavel að Karl Th. vilji fá greitt fyrir það sem hann gerir. Held samt að hann geti fengið greitt fyrir ýmislegt annað en það sem hann skrifar á Internetið. Það er líka ókeypis allt annað sem á Herðubreið er, þannig að mér finnst þetta óþarfi hinn mesti.

Á komandi ári ætla ég að halda áfram að blogga hvort sem lesendum líkar betur eða verr. Óneitanlega lifi ég talsvert fyrir fyrirsagnir í bandarískum blöðum. Heimsmálin eru mér talsvert hugleikin og Trump bandaríkjaforseti þar með. Útgáfa Moggans mun halda áfram og þessvegna mun ég halda áfram að blogga þar þrátt fyrir þau íhaldssömu viðhorf sem þar ríkja. Önnur nýársheit mun ég sennilega ekki gera. Þó er líklegt að þeir tímar sem við lifum núna verði seinna meir álitnir merkilegir. Ekkert stöðvar tímans þunga nið. Sagði skáldið.

IMG 0264Einhver mynd.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband