Bloggfærslur mánaðarins, desember 2009

912 - Icesave

Þá er Icesave frá. Eða að minnsta kosti komið til forsetans. Líkur eru á að strax á morgun (eða réttara sagt fyrir hádegi á eftir) muni reyna á hann.

Eftirminnilegast frá þingfundinum sem sjónvarpað var í kvöld er saga Þráins Bertelssonar um skítugu nærbuxurnar hans Stórólfs.

Margir þurftu að gera grein fyrir atkvæði sínu í sjónvarpsútsendingu þessari enda býðst sjaldan tækifæri til að ávarpa svo marga. Eini maðurinn sem gerði það á þann hátt að áhrif hefði á mig var Róbert Marshall.


911 - Pælingar

Að sumu leyti hef ég orðið íhaldssamari með aldrinum. Ekki þó að öllu leyti og til dæmis finnst mér stefnur og ismar miklu fremur breytast en mínar skoðanir. Skil til dæmis vel þá sem halda því fram að kapítalisminn nútildags sé eiginlega eins og sósíalismi án réttlætis. Það er markaðurinn sem stjórnar framleiðslutækjunum í kapítalískum kerfum en misvitrir og oft misheppnaðir menn í sósíalískum. Meðan ekki komast þar brjálaðir fjöldamorðingjar til valda tekur sósíalisminn þó á margan hátt kapítalismanum fram. 

Þar er blessaður hagvöxturinn ekki dýrkaður á sama hátt og í markaðsdrifnum kerfum en bara eitthvað annað. Jöfnuður meiri þó velmegun dragist gjarnan aftur úr í sósíalískum ríkjum. Við því er ekkert að gera. Peningar eru ekki allt. Kreppur þekkjast ekki í sósíalismanum en stöðnun getur verið hrikaleg. Stefna sem inniheldur það besta úr báðum kerfum er að komast á legg.

Syntesan ESB er von margra. Mun betri en sósíalisminn í Sovétríkjunum og snöggtum skárri en kapítalisminn í Bandaríkjunum. Þjóðríkið er á undanhaldi og ekki lengur almenn trú á því að ríki skuli vera sem flest. Bandalög um tiltekin málefni er dagskipunin.

ESB er öflugasta viðskiptabandalagið í heiminum um þessar mundir og engin goðgá að tengjast því sterkari böndum en verið hefur. Allt frá þáttöku okkar Íslendinga í EES með Viðeyjarstjórninni forðum höfum við Íslendingar í raun verið að æfa okkur fyrir inngöngu í ESB. Fengið óheftan eða lítt heftan aðgang að mörkuðum bandalagsins og notið margs af gæðum þess, en sloppið að mestu við ókostina.


910 - DOS-fjarskinn, Icesave o.fl.

Af einhverjum ástæðum er ég dálítið fastur í þeirri hugmynd að skráarnöfn eigi ekki að vera meira en 8 stafa löng. Þannig var það í DOS-fjarskanum en á alls ekki við lengur. Það er betra að hafa skráarnöfn sem allra lengst. Þá er til dæmis betra að leita að þeim og oft hægt að sjá um hvað skrárnar eru án þess að opna þær. Endingin er sem áður oftast þrír stafir að ég held og forritum gjarnan kennt að leita að vissum endingum. Algengustu orðin í auglýsingum fyrir þessi jól fannst mér vera "punktur is" en það er önnur saga.

Hef hingað til trassað að setja mínar færslur í flokka. Af því væri samt augljós ávinningur. Sérstaklega hvað þær færslur varðar sem sérstakar eru. Oft skrifa ég hinsvegar í sömu færslunni um ýmislegt. Þær færslur mætti til dæmis setja í einskonar ruslflokk en þær færslur sem ljóslega væru endurminningar eða fjölluðu um sérstök málefni ætti hiklaust að flokka. Þetta er ég loksins að sjá skýrt núna. Kannski læt ég komandi áramót verða tímamótin í þessu efni. Fari semsagt að flokka sum bloggin mín.

Umræður eru hafnar um Icesave-málið á Alþingi. Líkindin með því og fjölmiðlafrumvarpinu frá árinu 2004 eru alltaf að verða skýrari og skýrari í mínum huga. Hef hlustað nokkuð á umræður þær sem um þetta hafa verið á Alþingi. Burtséð frá efnisatriðum málsins eða málanna er núverandi stjórnarandstaða að reyna af fremsta megni að koma ríkisstjórninni frá.

Sú var einnig raunin í fjölmiðlafrumvarpinu. Þáverandi stjórnarandstaða gerði það sem hún gat til að koma ríkisstjórninni frá og naut meira að segja til þess stuðnings forsetans á lokastigum málsins. Þáverandi ríkisstjórn tókst þó að standa árás stjórnarandstöðunnar af sér og sú mun einnig verða raunin nú. Við búum einfaldlega við fulltrúalýðræði en ekki beint lýðræði. Hin raunverulega valdatilfærsla (ef um hana er að ræða) á sér stað í þingkosningum.


909 - Samstöðu er þörf

Við Íslendingar þurfum sterkan leiðtoga sem mögulega getur leitt okkur út úr núverandi erfiðleikum. Ekki er að sjá að hann sé meðal þeirra sem nú fjasa um stjórnmál dagsins. 

Grátlegt er að öll mál skuli verða pólitísk þegar útlitið er eins slæmt og augljóslega er núna. Hafi einhverntíma verið þörf samstöðu til að komast yfir erfiðleika er það nú. Þegar Íslenska Lýðveldið var stofnað var mikil samstaða um það. Framan af voru þó margir sem vildu fara mun hægar í sakirnar. Þeir voru kallaðir lögskilnaðarmenn.

Nú er ríkisstjórnin ákveðin í að koma Icesave-málinu áfram og fátt virðist geta komið í veg fyrir það. Þetta mál hefur skipt þjóðinni í fylkingar með eindregnari hætti en lengi hefur verið.

Þetta mál er svo stórt að flokkapólitík má ekki eyðileggja það. Það er líka svo lítill hluti þess heildarvanda sem við er að glíma að ekki er rétt að allir hlutir kristallist í því.

Þeir sem því spá að hér sé allt á leið til ömurleikans með landflótta, þjóðargjaldþroti, skömmtun á lífsnauðsynjum og öllu því versta sem hægt er að hugsa sér hafa örugglega rangt fyrir sér. Líka þeir sem segja að hér sé nánast allt í lagi. Lífskjörin muni um nokkurra ára skeið versna svolítið en síðan muni allt verða í lagi.

Hverju á fólk að trúa? Lausn mála felst ekki í því að styðja blint þann stjórnmálaflokk sem hver og einn er vanur. Lausnin felst í samstöðu. Til þess að hún náist þurfa allir að slá af sínum ýtrustu kröfum. Það gera stjórnmálaflokkarnir ekki.

Stefna ríkisstjórnarinnar er lykilatriði. Ekki er samt rétt að berjast með öllum ráðum gegn því sem hún ætlar sér. Heldur ekki að styðja allt sem þaðan kemur. Ef til vill er þjóðstjórn lausnin en vandséð er hvernig hún getur komist á. Valdið er hjá Alþingi en ekki er að sjá að þaðan komi nein lausn.


908 - Eiður Smári

Mál Eiðs Smára Guðjohnsen gegn DV er áhugavert. Er Eiður svo þekktur að hann þurfi að sætta sig við minnkað persónufrelsi eins og margir aðrir eða er DV að ganga alltof langt í að upplýsa okkur um fjárfestingarstarfsemi hans. Hvernig á að meta hvenær fólk þarf að sætta sig við hverskyns umfjöllun í fjölmiðlum? Og hvernig eru fjölmiðlar skilgreindir? Sannleikurinn í málinu skiptir engu máli. 

Fleiri mál af þessum toga munu koma fyrir dómstóla á næstunni. Bubbi vann sitt mál ef ég man rétt og setti fjölmiðlum dálítið þröngar skorður. Ný löggjöf í þessum efnum er kannski á leiðinni. Ekki veitir af. Erum við bloggarar að taka einhverja áhættu með því að fjalla um viðkvæm mál? Veit það ekki og er alveg sama. Hugsa bara um sjálfan mig eins og flestir aðrir. Ekki er ég í því að ýfa fjaðrir fræga fólksins. Hef samt lúmskt gaman af því að aðrir geri það.

Nafnleysi er nauðsyn þó sumir vilji afnema það með öllu. Ef í hart fer verður samt að vera hægt að upplýsa hver skrifaði hvað, eða a.m.k. hver ber ábyrgð á hverju. Að allir geti alltaf vitað hver skrifaði hvað er óþarfi nema í algjöru lögregluríki þar sem stóri bróðir veit allt og hefur vit fyrir öllum.

Ein er þjóð í afneitun
aum er hennar líðan.
Eftir banka affelgun
eltir Davíð síðan.

Þetta er pólitísk vísa sem kom til mín alveg óforvarendis. Auðvitað ættu lokaorðin í síðustu ljóðlínunni ekki að vera í þessari röð, en rímið heimtar að svo sé. Svo getur Davíð alveg verið síður mín vegna.

bokBesta jólabókin

Án þess að við vissum tók dóttir okkar tók sig til og safnaði saman af Netinu vísum eftir okkur hjónakornin og myndum eftir mömmu sína og setti saman í bók. Þetta er að mínum dómi besta og eftirminnilegasta jólabókin. Var bara gefin út í tveimur eintökum svo ekki verður hún metsölubók. Þessa bók fengum við síðan í jólagjöf.

Gleymdi að geta þess þegar ég fjallaði um foreldra mína og jólagjafainnpökkun þeirra að þau notuðu að sjálfsögðu jólapappír frá fyrra ári eða fyrri árum. Áður fyrr tíðkaðist nefnilega að endurnýta jólapappír ef mögulegt var og mér blöskrar stundum hve miklu magni af úrvals jólapappír er hent nútildags um hver jól.


907 - Jólablogg um Icesave o.fl.

Jólablogg minnir á jólaglögg. Eru menn hættir að drekka á jólunum? Einu sinni, fyrir allar kringlur og smáralindir og þessháttar, var til siðs að vera blindfullur á Þorláksmessu. Allt var stútfullt af fólki í miðbænum sem þá var aðallega Lækjartorg og Austurstræti. Þar flugu kínverjar og púðurkerlingar um allt og margir voru að minnsta kosti hífaðir. Svo kom jólaglöggin eða var það jólaglöggið? Óviss um kynferðið. Nú er það bara skatan skelfilega. Ekki veit ég af hverju í ósköpunum fólk er að pína sig til að éta þennan óþverra. 

Einu sinni þegar ég bjó á Lynghaganum var ég svo fullur þegar ég kom af skrifstofunni hjá Hannesi Þorsteinssyni uppúr hádeginu á aðfangadag að ég sá varla Suðurgötuna. Þá tíðkaðist það víða að vera að sulla í víni rétt áður en hátíðin gekk í garð. Líklega er það minna núna. Mestmegnis drukkinn bjór og það þarf svo mikið af honum til að verða almennilega fullur.

Sagt er í detox-auglýsingum frá Jónínu Ben. að Chad Keilen sé viðurkenndur ristilskolari. Mér býður við þessu. Ekki vildi ég vera viðurkenndur ristilskolari. Vonandi fær hann sæmilega borgað fyrir þessi ósköp.

Icesave-málið er nú ekki beinlínis jólalegt. Mikið hefur verið talað um að mark eigi að taka á öllum fyrirvörum Alþingis frá því í sumar og ekki megi hvika frá þeim. Hefði ekki verið athugandi að þing Breta og Hollendinga hefðu ákveðið þetta?

Eins og ég lít á þetta mál þá álitu Bretar og Hollendingar að samþykkt Alþingis frá því í sumar væri tilboð um áframhaldandi viðræður. Að mínu viti höfðu þeir þrjár leiðir. 1. Samþykkja allt sem Alþingi sagði. 2. Neita því með öllu og fara aftur á byrjunarreit. 3. Halda viðræðum áfram eins og þeir gerðu.

Hætt er við að samningaviðræður tækju langan tíma ef Alþingi breytti sínu samningstilboði einu sinni til tvisvar á ári. Bretar og Hollendingar gætu jafnvel misst þolinmæðina að lokum.

Gegn því að taka tillit til þjóðarframleiðslu við ákvörðun afborgana og að viðurkenna flestallt annað sem Aþingi fór fram á fengu Bretar og Hollendingar vextina færða út fyrir sviga og varla trúi ég að almennt hafi verið reiknað með að skuldin bara hyrfi þegar ríkisábyrgð lyki ef eitthvað yrði eftir þá.


906 - Jólin

Þegar mamma og pabbi lokuðu sig inni í stofu og fóru að pakka inn jólagjöfunum var spenningurinn slíkur að tilgangslaust var að reyna að hugsa um annað. Þegar því var lokið voru pakkarnir settir inní stofuskáp. Ekki kom til greina að reyna að skoða pakkana eða þreifa á þeim. Það var bannað og ekki að vita hverjar afleiðingarnar yrðu af slíku athæfi. Síðustu dagna fyrir jól reyndum við krakkarnir alltaf að hlýða því sem okkur var fyrirskipað því reiði fullorðna fólksins var hættuleg á þessum tíma. 

Þegar pabbi tók sig til og raðaði tugum kerta á stólkoll úr eldhúsinu og kveikti á þeim öllum í einu voru jólin komin í raun og veru. Kertin voru mislit og þó þau væru mjó voru þau fjölmörg. Birtan af þeim var svo mikil að mér er það ennþá minnisstætt.

Borðað var inni í stofu sem annars var ekki gert. Stofuborðið stækkað um helming og lærið hesthúsað í flýti. (Eða var það hryggur - man það bara ekki) Biðin eftir jólagjöfunm var samt alltaf nokkuð löng. Þegar búið var taka af borðinu, minnka það og raða jólagjöfunum á það var hægt að hefjast handa. Það yngsta okkar sem þó kunni að lesa var jafnan látið útdeila pökkunum.

Samanburðarfræðin voru stunduð grimmt þegar búið var að opna pakkana. Auðvitað fengum við yfirleitt ekki þau leikföng sem við höfðum mænt sem mest á niðri í kaupfélagi en við bjuggumst hvort eð er ekki við því. Ánægð vorum við þó að sjálfsögðu.

Það skyggði þó dálítið á ánægjuna að ekki vorum við fyrr farin að skoða gjafirnar almennilega en kominn var tími til að fara niður á hótel í jólamessuna. Þvílíkur óþarfi. Upplagt hefði verið að notfæra sér kirkjuleysið í Hveragerði á þessum tíma og sleppa þessu alveg. En nei. Maður var rifinn frá jólagjöfunum og drifinn niður á hótel til að hlusta á einhverja messu sem ekki var einu sinni í kirkju.

Svo þegar heim var komið var brátt kominn svefntími en auðvitað fóru gjafirnar ekkert og jólin voru næstum öll eftir þó aðfangadagskvöldið nýttist ekki til fulls.


905 - Aðfangadagsbylurinn 1974 (eða var það 1971)

Held að þetta hafi verið árið 1974 en samkvæmt athugasemdum í fyrra er ekki öruggt að svo sé - hugsanlega var þetta 1971. Svo er þetta endurnýting. Birti þessa frásögn um jólin í fyrra. Aðvörun lokið. 

Ólafsvíkurrútan fór á aðfangadagsmorgun úr höfuðborginni áleiðis til Ólafsvíkur. Veðrið í Reykjavík var sæmilegt en fór versnandi. Þegar komið var vestur á Mýrar var veðrið orðið mjög slæmt. Að lokum var ekki hægt að halda áfram lengur. Var rútan föst í marga klukkutíma en að lokum tókst að snúa henni við og komast um kvöldið til baka til Borgarness.

Ég var ekki í rútunni og veit lítið um hvernig þetta ferðalag gekk fyrir sig. Eflaust hefur það verið sögulegt.

Á þessum tíma var ég verslunarstjóri við útibú Kaupfélags Borgfirðinga að Vegamótum í Miklaholstshreppi og sá einnig um rekstur veitingahússins sem þar var. Vegamót eru á sunnanverðu Snæfellsnesi þar sem vegurinn skiptist. Annars vegar var farið um Kerlingarskarð yfir í Helgafellssveit og þaðan til Stykkishólms en hinsvegar vestur Staðarsveit og yfir Fróðárheiði til Ólafsvíkur. Í stað þess að fara yfir Fróðárheiði til Ólafsvíkur mátti auðvitað komast þangað með því að fara fyrir jökul. Nú er svokölluð Vatnaleið farin í stað leiðarinnar um Kerlingarskarð.

Að Vegamótum komu þennan dag tveir menn á vel útbúnum jeppa suður yfir skarðið í veg fyrir rútuna frá Reykjavík. Annar þeirra var bóndinn á Þingvöllum í Helgafellssveit en ekki man ég hver hinn var. Þeir ætluðu að sækja farþega sem von var á með rútunni að sunnan. Þeir komu að Vegamótum um hádegisbilið og þá var veður skaplegt en fór hríðversnandi og loks bárust fréttir um að rútan hefði snúið við og kæmist engan vegin lengra. Þá fóru þeir Helgfellingar að huga að heimferð en komust hvorki lönd né strönd því veðrið var orðið arfavitlaust. Svo svartur var bylurinn að jeppinn sem þeir Helgafellssveitarmenn höfðu lagt rétt hjá veitingahúsinu sást ekki þaðan nema öðru hvoru.

Að því kom að lokað skyldi og áttu þeir félagar ekki um annað að velja en að koma með mér heim í jólamat því veðrið bannaði ferðalög með öllu. Starfsfólk í veitingahúsinu sem var úr sveitinni í kring hafði komist heim til sín við illan leik nokkru áður en lokað var.

Borðuðum við svo jólamatinn í besta yfirlæti og síðan voru pakkar upp teknir að venju. Óalgengt var og er eflaust enn að vera með óvænta matargesti á aðfangadagskvöld.

Um tíuleytið um kvöldið batnaði veðrið talsvert á stuttum tíma og héldu þeim Helgfellingum þá engin bönd. Þeir fóru undireins að athuga hvernig færðin væri á heiðinni. Komu fljótlega aftur og sögðu að eftir því sem þeir best gætu séð væri aðeins einn skafl ofarlega í Seljafellinu. Töldu þeir að mögulegt væri að moka sig í gegnum hann og komast síðan yfir skarðið og í Helgafellssveitina.

Konan mín, Áslaug Benediktsdóttir,  útbjó nesti handa þeim því þeir vildu ólmir freista þess að komast af stað áleiðis heim þó við teldum það óráð því veðrið gæti hæglega versnað aftur. Umtalað var að þeir létu vita daginn eftir hvernig gengið hefði. Vitað var að þó þeir þyrftu að moka mun meir en þeir héldu mundu þeir að minnsta kosti komast í sæluhúsið efst í Kerlingarskarðinu.

Skömmu eftir hádegi á jóladag var hringt til mín og ég látinn vita hvernig gengið hefði. Snjóskaflar í Seljafellinu höfðu verið mun meiri og erfiðari en þeir hugðu. Að lokum urðu þeir að yfirgefa bílinn og héldu gangandi í sæluhúsið.

Þá var veðrið orðið ágætt og þegar þeir höfðu gert sér gott af nestinu ákváðu þeir að halda áfram gangandi niður í Helgafellssveit. Gengu þeir alla jólanóttina og komu ekki til bæja fyrr en komið var undir hádegi á jóladag. Bíllinn var síðan sóttur nokkrum dögum seinna þegar skarðið var opnað.

Þessi aðfangadagsbylur var með þeim hörðustu sem komu meðan ég var á Vegamótum hvað veðurhæð snerti og var ósjaldan til hans vitnað til samanburðar. Snjór var hinsvegar oft meiri. -


904 - Um gróðurhúsalofttegundir, krimma o.fl.

Nú er ég víst opinberlega orðinn loftslags-afneitari og mengunarvinur. Finnst þó sjálfum að Mengunarlöndin öll sýni fátækum þróunarlöndum fádæma yfirgang með því að ætla að banna þeim að menga eftir að hafa sjálf spúð sínum skít útum allt öldum saman.

Hnatthlýnunin er samt ekkert gamanmál. Alveg án tillit til þess hvort hlýnun í heiminum er af mannavöldum eða ekki væri okkur sæmra að umgangast náttúruna með meiri virðingu en við höfum gert. Við erum nefnilega með jörðina að láni frá afkomendum okkar en eigum hana ekki.

Endur fyrir löngu hafði ég mikið dálæti á krimmum. Íslenskar sögur af því tagi þekktust næstum ekki þá. Agatha Christie var í nokkru uppáhaldi. Var samt óánægður með þann vana hennar að leysa málin oft í lokin með upplýsingum sem ekki höfðu komið fram í bókinni.

Ellery Queen var betri að því leyti. Hann (eða réttara sagt þeir, því það voru víst tveir frændur sem skrifuðu bækurnar) passaði sig alltaf á því að láta allt koma fram sem máli skipti. Stundum var þó erfitt að átta sig á fyrirfram hvað það var sem úrslitum réði.

Svo komu Sjöwall og Wahlöö og þá breyttist allt. Krimmarnir urðu ekki bara leynilögreglugátur heldur miklu meira en það. Raunverulegur skáldskapur, þjóðfélagsádeila og ýmislegt annað. Jafnvel fyndnir og skemmtilegir.

Sjálfstæðismenn og framsóknarmenn sýna mikið lýðskrum í sambandi við Icesave málið. Allir ráðamenn þeirra gera sér örugglega grein fyrir því að ekki verður hjá því komist að borga Icesave-skuldirnar.

Samt halda þeir leiknum áfram. Ástæðan hlýtur að vera sú að þeim sýnist að útá þetta fái þeir atkvæði. Að þjóðin geti mögulega hagnast á því að draga þetta mál lengur er með öllu óhugsandi. Þeir sem áður heimtuðu lögfræðiálit afneita þeim nú af miklum krafti.


903 - Rjúpnaveiðar

Ég er ekki mikill veiðimaður. Allra síst skotveiðimaður. Reyndi slíkt samt einu sinni fyrir margt löngu. Þá var ég útibússtjóri í Kaupfélagi Árnesinga í Hveragerði. Keypti mér 22 calibera riffil og fékk byssuleyfi. Til að fá það leyfi þurfti ég læknisvottorð og lítið annað. Magnús læknir var fljótur að afgreiða það og sagði bara: „Já, enmitt. Þú sérð vel og heyrir vel er það ekki?" Skrifaði svo vottorðið og með það fór ég á sýsluskrifstofuna á Selfossi og þar með var það búið.

Þá var að ná sér í rjúpurnar. Einhverjir héldu því fram að betra væri að nota haglabyssur en riffla í rjúpnaskytterí en ég komst fljótt að því að riffillinn hentaði ágætlega því ef maður gætti þess að skjóta frekar ofan við þær en neðan við, þá flugu þær ekki alltaf upp og þá gat maður bara skotið aftur. Jafnvel aftur og aftur.

Var einn þegar ég fór fyrst. Þá fór ég upp í Reykjafjall og gekk hörmulega að hitta kvikindin þó ég passaði mig á að skjóta frekar yfir þær en undir. Held ég hafi enga hitt og komið rjúpulaus til baka.

Næsta ferð var með Mára Mikk. Hann var líka með riffil og slysaðist til að særa
eina rjúpu og náði henni á hlaupum. Kunni ekki að sálga henni og setti hausinn á henni með annarri hendinni fyrir framan byssuhlaupið og hleypti af.

Í þeirri ferð man ég eftir einni sem flaug ekki upp þegar ég skaut í námunda við hana heldur tók til fótanna og faldi sig á bak við stein. Ég var ekki viss en sýndist ég sjá eitthvað hvítt koma upp fyrir steininn. Skaut á það uppá von og óvon og aldrei þessu vant hitti ég beint í mark. Þetta var semsagt hausinn á rjúpunni sem tættist allur upp við þetta.

Eitt sinn man ég líka eftir mér með Herði mági ofarlega í Skálafelli (syðra) og þar hafði mér tekist að plaffa eina niður án þess að drepa hana alveg. Reyndi að snúa hana úr hálsliðnum en kunni það ekki. Sneri bara og sneri en ekkert gerðist. Hörður sýndi mér svo hvernig átti að gera og síðan kann ég að snúa rjúpu úr hálsliðnum þó aldrei hafi reynt á þá kunnáttu mína.

Þegar leið að jólum voru tvær rjúpur að velli lagðar og jólamaturinn klár. Þær voru svo hengdar upp með mikilli viðhöfn og étnar á jólunum. Síðan höfum við samt af einhverjum ástæðum ekki haft rjúpur í jólamatinn.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband