694- Málfar í bloggheimum og fjallabíllinn fagurgrænn

Mjög lengi hefur verið deilt um hvort keppa eigi í fegurð. Femínistar hafa reyndar sérstaklega haft dálæti á að traðka niður þetta form á keppni og sagt hana niðurlægjandi fyrir konur og skaði ímynd kvenna að flestu leyti. Samt sem áður þrátt fyrir þessa umræðu tekur fjöldi kvenna þátt í slíkum keppnum og hefur áhuga á þeim tækifærum sem opnast með því.

Svona tekur Stefán Friðrik Stefánsson til orða á blogginu sínu vinsæla. Mér finnst þessi texti bölvað klúður og það finnst mér texti Stefáns oft vera. Kannski skrifar hann of mikið. Sjálfur mundi ég orða þetta einhvern vegin svona:

Lengi hefur verið deilt um hvort keppa eigi í fegurð. Femínistar hafa sérstaklega traðkað niður þetta keppnisform og sagt það niðurlægjandi fyrir konur og skaða ímynd þeirra. Samt tekur fjöldi kvenna þátt í þessu og hefur áhuga á þeim tækifærum sem opnast.

Auðveldara er að gefa heilræðin en halda þau. Kannski skrifa ég einmitt of mikið sjálfur og dett stundum í svona þrugl. Þykist samt vera betur skrifandi en Stefán. Hann kippir sér eflaust ekki upp víð smágagnrýni og því nafngreini ég hann hér. Málfarsgagnrýni verður svo marklaus ef dæmi eru ekki tekin og ekki dugir að taka það allra versta.

Þar að auki skrifaði ég eitt sinn athugasemd á bloggið hans sem hann birti ekki. Það var aðfinnsla um málfar sem Stefán leiðrétti þó.

Málfarsgagnrýni er í tísku í bloggheimum núna. Eiður Guðnason er afkastamikill í henni og tínir margt til. Fleiri láta gjarnan ljós sitt skína og þeirra á meðal ég. Alltaf má gera betur og liðin er sú tíð þegar ekki mátti orðinu halla varðandi málfar þeirra sem skrifuðu á Netið. Ástæðulaust er þó að þegja bara af ótta við að geðjast ekki þeim kröfuhörðustu. Enginn hæstiréttur er til varðandi málfar og stafsetningu.

Af því að þetta er tæpast nógu langt (eftir mínum eigin stöðlum) bætti ég svolitlu við. Svona er það.

Ég þaut niður Kringlumýrarbrautina á mínum fjallabíl og allt að Sæbrautinni. Eftir henni fór ég svo á bílastæðið við Tollhúsið. Það var reyndar fullt en ég fann pláss á gangstétt þar nálægt og þaut á byltingarfundinn. Pottarnir og pönnurnar urðu eftir heima en við því var ekkert að gera. Einmana sleif gægðist þó uppúr frakkavasanum. Ég skundaði á Austurvöll í snatri og þar var Hörður byrjaður að rífa sig.

„Eruð þið á móti ríkisstjórninni?" spurði Hörður.

„Já." Hrópaði mannfjöldinn og hristi sig í kuldanum.

„Eruð þið á móti Davíð Oddssyni?" hrópaði Hörður.

„Já." Hrópaði mannfjöldinn og stappaði niður fótunum.

„Eruð þið á móti öllum?" spurði Hörður.

„Já." Hrópaði mannfjöldinn og lamdi næsta mann með sleif.

„Eruð þið á móti sleifum?" hrópaði Hörður.

„Já." Hrópaði mannfjöldinn og kastaði sleifunum upp í loftið.

Þetta er víst það sem kallað er sleifarlag nútildags og eftir því stjórnar Jóhanna.

Nútíma sleifarlagi fylgir líka að kalla á alþjóðagjaldeyrissjóðinn sér til hjálpar en ekki Guð almáttugan. Svo er að samþykkja allt sem sá brúni segir og klappa fyrir kommissörunum í Brussel. Ef kosið er rétt og Gunnari tryggður áframhaldandi konungdómur í Kópavogi getur þetta ekki klikkað.

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Heimir Tómasson

Góður

Heimir Tómasson, 24.5.2009 kl. 06:19

2 Smámynd: Óskar Þorkelsson

:) Stefán er með þann ljóð á sínu bloggi að hann ritskoðar það og þegar hann hafi þráast við að birta nokkur svör frá mér hef ég tekið þann pól í hæðina að vera ekkert að lesa bloggið hans.. enda er það oftast nær endurskrifuð frétt úr mogganum..

Gunnar Birgisson er gamall íhalds mafíukall.. 

Óskar Þorkelsson, 24.5.2009 kl. 10:15

3 Smámynd: Eiður Svanberg Guðnason

Þakka þér  góðan pistil, Sæmundur.

Eiður Svanberg Guðnason, 24.5.2009 kl. 12:08

4 Smámynd: Sæmundur Bjarnason

Takk Heimir og Eiður. Pistillinn er ágætur þykir mér sð sjálfsögðu. Hann er samt misjafn. Fyrri hlutinn er alvara en sá síðari tilbúningur og vitleysa. Mér finnst munurinn liggja í augum uppi en gerir hann það?

Óskar. Stefán og Gunnar eru bara eins og þeir eru. Ekki breyti ég þeim.

Sæmundur Bjarnason, 24.5.2009 kl. 14:40

5 identicon

   Sleifasagan er skemmtileg!

Ég vil bæta einu við:  "Eruð þið á móti Bubba?!"  "JÁÁÁÁÁÁÁÁ!!!"

Malína 24.5.2009 kl. 22:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband