Bloggfærslur mánaðarins, október 2008

495. - Hann er ekki hótinu betri en hinar mörgæsirnar

Líst ekkert illa á að halda mótmælafund á laugardaginn kemur. Veit þó ekki hvort ég kemst þangað.

Dæmi frá útlöndum sýna að reglulegir mótmælafundir eru það eina sem dugir á vanhæf stjórnvöld. Ef sífellt fleiri og fleiri koma á fundina hrökklast þessir vitleysingar frá völdum fyrr eða seinna. Fundirnir eiga eingöngu að fjalla um það að nú sé nóg komið. Við látum ekki bjóða okkur hvað sem er. Mín vegna má vel gera hróp að Davíð Oddssyni. Hann er ekki hótinu betri en hinar mörgæsirnar.

Auðvitað verða ekki allir sammála um þetta og kannski verða unnin skemmdarverk á þessu með því að reyna að rugla fólk í ríminu. Ef fundirnir falla niður eða sífellt færri koma á þá er auðvitað til einskis barist en það ætti að vera óhætt að reyna þó hinn efnahagslegi veruleiki sé kannski ekki farinn að bíta nógu marga nú þegar.

Margir hafa sagt að það þurfi að setja ríkisstjórnina af, reka þingið heim, tjarga útrásarbesefana o.s.frv. En hver á að gera það? Ekki verður það gert að frumkvæði ríkisstjórnarinnar. Kostar það þá ekki byltingu? Er einhver ástæða til að forðast hana? Eina ástæðan sem ég sé er sú að Íslendingar vilja flest til vinna að komast hjá mannskæðum óeirðum. Þar að auki er óvíst að byltingarsinnum kæmi saman um leiðir.

Undarlegt með hann Sigurð Þór Guðjónsson. Hann er búinn að loka blogginu sínu og ansar ekki beiðni minni um að fá lykilorð. Hann er samt ennþá bloggvinur minn og er ennþá að blogga. Til dæmis fékk ég eftirfarandi upphaf að færslu hjá honum um daginn:

Efnisyfirlit yfir veðurfærslur 27.10.2008 | 20:32

Hér er efnisyfirlit yfir helstu færslur um veður á þessari bloggsíðu. Með því að smella á viðkomandi línu komast menn beint inn á þá færslu. Þetta eru allar hinar meiriháttar færslur, til dæmis um hlýjustu og köldustu mánuði, mesta hita og kulda í þeim...


494. - Það einfaldar hlutina að persónugera þá. Ég vil síður missa Láru Hönnu úr blogginu en Davíð úr seðlabankanum

Margir tala um hve Lára Hanna sé beinskeytt í pólitíkinni eftir að hún fór að einbeita sér að henni. Mér finnst það ágætt. Hún var það líka í náttúruverndinni meðan áhugi  hennar lá einkum þar. Mér finnst samt að fólk megi láta aðra um stjórnmálin ef því sýnist svo. Að tala um það sem einhvern löst á  Sjálfstæðismönnum að þeir séu flokkshollir og foringjahollir er út í bláinn. Allt getur samt gengið út í öfgar. 

Að mótmæla með því að beina mótmælunum að einum manni er ekkert endilega nein vitleysa. Einhvers staðar verður að byrja. Reiði fólks beinist alls ekki eingöngu að Davíð Oddssyni þó vinir hans og stuðningsmenn vilji láta líta svo út. Aðrir sem ábyrgð bera á þeim ósköpum sem nú dynja yfir ættu bara að passa sig. Röðin kemur að þeim þó seinna verði.

Það er með ólíkindum hve bloggið er orðið pólitískt. Mér sýnist Moggabloggið bólgna út í sífellu. Mogginn sjálfur er þó sagður á hausnum. Á blogginu fær fólk útrás og þar er hægt að láta flest flakka. Sumir misstíga sig þó þar og virðast halda að það sé til bóta að vera sem orðljótastur. Svo er ekki.

Einstefna getur samt verið ágæt. Lára Hanna leggur greinilega mikla vinnu í að láta sitt framlag líta þannig út að eftir sé tekið. Ekki lasta ég það. Vinstri menn vara sig samt oft ekki á því hve auðvelt er að finna að öllu og vera á móti því. Það dugar ekki að vera bara á móti. Eitthvað annað og betra verður að koma í staðinn.

Íslenskir fjölmiðlar eru afskaplega staðnaðir og lítilsigldir. Salvör Gissurardóttir tekur góðar rispur og tekur þeim fram að flestu leyti. Fjölmiðlafólk þarf að skilja að það á að þjóna fólkinu en ekki stjórnvöldum og húsbændum sínum og eigendum fjölmiðlanna. Einn fyrrverandi ritstjóri tekur því flestu fram. Það er Jónas Kristjánsson sem er góður þó hann sé óhóflega dómgjarn. Lítill vafi er á að Netið er að taka yfir sem sá fjölmiðill sem mestu máli skiptir og óneitanlega stendur bloggið þar framarlega þó mjög sé í tísku að hafa horn í síðu þess.


493. - Syndin er lævís og lipur og lætur ei standa á sér

Bjöggarnir eru í algjörri afneitun og Lautenant Valgerður (Bubbi) vitnar. Þeir gerðu ekkert rangt og eru bara óvenju góðir gæjar og vita af því sjálfir.

Allur þessi gróði sem alls staðar kom í ljós og var mest áberandi á öllu nýju og fersku var gerður úr gervipeningum sem bankamenn bjuggu til úr alls kyns undarlegu pappírsrusli. Seldu hver öðrum sama hlutinn aftur og aftur og alltaf dýrari og dýrari. Eftirá er ekkert erfitt að sjá hvers kyns vitleysa þetta allt saman var. Ef menn hefðu kunnað sér hóf hefði þetta getað gengið miklu lengur en það gerði.

Nú er það okkar helsta huggun að aðrir séu hugsanlega í skítnum líka.

Uppúr 1968 var nokkurs konar mini-kreppa hér á Íslandi. Þá var það sem síldin hætti með öllu að veiðast, verðfall varð á þorski og atvinnuleysi jókst. Margir tóku sig upp og fluttu til útlanda. Til dæmis Svíþjóðar og Ástralíu.

Og allir (flestir) komu þeir aftur
og enginn þeirra dó.

Þá voru það semsagt alvöruhlutir sem brugðust. Nú eru það þykjustuhlutir sem fjúka út um gluggann. Ekki var auðvelt að kenna stjórnmálamönnum um aflabrest en þeir ásamt útrásarvíkingunum bera fulla ábyrgð á núverandi ástandi.

Árið 1970 fluttist ég vestur á Snæfellsnes og gerðist útibússtjóri hjá Kaupfélagi Borgfirðinga á Vegamótum. Ég hafði þó ágæta vinnu á þessum árum, var verslunarstjóri hjá Silla og Valda en leist samt vel á að flytjast út á land.

Mér er minnisstætt að á þessum árum fór það að tíðkast að senda fólki sníkjugíróseðla til að plata peninga af því fyrir öllum andskotanum. Gömul kona úr sveitinni kom oft í verslunina hjá mér og ég heyrði það á tali hennar að henni fannst að hún þyrfti helst að borga þetta allt. Nútímafólk á þeim árum lærði fljótlega að henda þessu drasli.

Oft heyri ég betur niðurlag auglýsinga en byrjun. Niðurlag einnar auglýsingar sem ég hef heyrt nokkuð oft að undanförnu fjallar um að eitthvert tiltekið fæðubótarefni sé gott fyrir liðverki í Noregi og Svíþjóð. Hmm. Eiginlega hef ég meiri áhyggjur af íslenskum liðverkjum.


492. - Eru Íslendingar einhverju bættari þó einn ráðherraræfill verði rekinn?

Skiljanlega reynir breski fjármálaráðherrann að verjast eftir mætti en verður eflaust í síðasta lagi setur af í næstu uppstokkun bresku ríkisstjórnarinnar. Viðureign okkar við Breta er þó einkum PR styrjöld og snýst um ímynd Íslendinga og orðspor ásamt því hvað valdamenn bæði breskir og aðrir telja sér óhætt að gera okkur án þess að skaðast sjálfir. Brottrekstrar ráðherra og hugsanleg málaferli skipta mun minna máli í raun.

Horfði áðan á upptöku af Silfri Egils frá í gær. Ýmislegt áhugavert koma þar fram. Viðtalið við þann sem stýrir penna á vald.org en ég man ómögulega hvað heitir var upplýsandi og studdi á vissan hátt það sem ég hélt fram á mínu bloggi um daginn. Ehemm. Þar sagði ég eitthvað á þá leið að bankaævintýrið allt saman bæði hér á Íslandi og annars staðar væri einn risastór svindlpíramídi.

Guðmundur Magnússon talaði um Nýja Ísland ( bókina sína ) og þar var margt áhugavert. Fyrir mér hófst hrunadansinn (svona eftirá séð) þegar ég hætti hjá Kaupfélaginu í Borgarnesi og tók til starfa hjá Stöð 2 árið 1986. Mér er minnisstæð sú bjartsýni og fyrirhyggjuleysi sem gegnsýrði þjóðfélagið á þeim tíma.

Allt var þetta samt sjálfsagt og eðlilegt. Það var bara ég sem var svona afturhaldssamur og forpokaður. Á þessum tíma og í mörg ár eftir það var alls ekki hægt að sjá að hið nýja Ísland mundi nokkurntíma hrynja. Þeir sem eru súpergáfaðir segja þó núna að öllum hefði átt að vera orðið það ljóst í síðasta lagi árið 2007 að allt væri að fara til fjandans.

Nýfrjálshyggjan tröllreið öllu. Allt átti að vera frjálst. Ekkert mátti banna. Allt þetta gamla sem reynst hafði okkur sæmilega var nú orðið ómögulegt og úr sér gengið. En svo bregðast krosstré sem önnur tré og nú er frjálshyggjan eins og við þekktum hana farin sömu leið og kommúnisminn.

Með tímanum aðskiljast sauðir og hafrar bæði hér á Moggablogginu og annars staðar. Að ég skyldi lenda meðal hafranna var á sínum tíma dálítið óvænt og ekki hafragrautnum að þakka sem ég útbý mér stundum í örbylgjuofninum. Nú er bara að láta ekki deigan síga og reyna að halda sér í hafraflokknum. Mér hefur lengi fundist að besta ráðið til þess sé að blogga daglega og helst hæfilega mikið í einu. Þetta er yfirleitt ekki erfitt og oft fljótlegt.


491. - Íslenskt þjóðfélag tók ótrúlega miklum breytingum því við gátum útvegað peningana."

"Því við gátum útvegað peningana" hefur Hildur Helga Sigurðardóttir eftir Björgólfi Guðmundssyni á sínu bloggi og vitnar þar í viðtal við hann í Morgunblaðinu. Það kæmi mér ekkert á óvart þó útrásarvíkingarnir upp til hópa álíti sig vera sérstaka velgerðarmenn íslensks þjóðfélags. Viðtöl af þessu tagi les ég ekki.

Nenni annars ekki að fabúlera um banka og fjármál. Finnst líka flest skemmtilegra. Get þó sagt að ég sé ekki hvernig Darlingurinn hans Brúns getur átt sér viðreisnar von ef hann lýgur eins liðugt og útlit er fyrir.

Ætli það verði samt ekki breskir fjölmiðlar sem grilla hann frekar en reiðir Íslendingar. Breska pressan kann tökin á óheiðarlegum pólitíkusum. Líklegt er að langdregin málaferli um icesafe reikningana verði Bretum meira í hag en Íslendingum.

Eitthvað kom hundahreinsun við sögu í bloggheimum um daginn. Ég man alltaf hvað ég vorkenndi Pésa greyinu þegar ég fór með hann í hundahreinsum í fyrsta skipti.

Þá hafði nokkrum árum áður verið byggt sérstakt hús ekki langt frá Hrísdal sem ætlað var fyrir hundahreinsunina. Það var einmitt Diddi í Hrísdal sem sá um hundahreinsunina í hreppnum. (Miklaholtshreppi)

Hreinsunin fór þannig fram að stungið var einhverri ormahreinsunartöflu ofan í hundana með þartilgerðum bláum plaststaut sem reyndar var ætlaður fyrir ormalyfsgjöf í rollur. Síðan voru þeir lokaðir inni í búrum í einhvern ákveðinn klukkustundafjölda. Líklega 12 eða svo.

Mig minnir að Diddi hafi haft einhvern sér til aðstoðar við þetta ( hugsanlega Ársæl á Lágafelli ) og man að mér fannst þeir ansi harðhentir þegar plaststautnum var stungið af afli upp í ginið á hundunum. Innilokunin fór líka illa í ræflana og mátti vel heyra það og ég er ekkert viss um að hundum líði neitt vel eftir hundahreinsun.

Horfði áðan á viðtal Evu Maríu við Ólaf Stefánsson. Fannst flest af því sem hann sagði vera stjórnlausar heimspekilegar pælingar. Samt var margt mjög áhugavert og hann kann ágætlega að orða hugsanir sínar. Ég las  bloggið hans á sínum tíma reglulega og þessar pælingar hans komu mér ekkert á óvart.

 

490. - Að koma fram í Silfrinu er líklega nokkurs virði

Ekki fór ég í mótmælin sem boðuð voru fyrir viku. Fannst Dr. Gunni þó gerast afturhaldssamari og silfursæknari en ég átti von á þegar hann dissaði mótmælendur þó hann hefði lagt nafn sitt við hégómann. Svo er að skilja að til standi að mótmæla á laugardögum framvegis og lögreglan virðist ætla að halda sig við það að jafnan taki um 500 manns þátt í svona mótmælum.

Ráðamenn eru komnir með lífverði. Miklir menn erum við Hrólfur minn. Sennilega veitir útrásarvíkingum ekki af lífvörðum næst þegar þeir voga sér hingað upp á skerið. Annars virðist orðið útrásarvíkingur vera að verða einskonar blótsyrði í málinu. Merkilegt.

Ég man þá tíð hér á Íslandi að fáránlegt hefði verið að minnast á lífverði. Eitt sinn rakst ég ( já, bókstaflega ) á Bjarna Benediktsson í mannþrönginni í Austurstræti á hátíðahöldunum 17. júní. Þetta var þegar hann var forsætisráðherra.

Um helgina þegar mest gekk á í fundahöldum og þess háttar í Ráðherrabústaðnum sat ég að tafli í Rimaskóla eins og margir aðrir. Þar fór þá fram fyrri hluti deildakeppni Íslands í skák. Föstudaginn áður hafði ég komið að Glitni við Kirkjusand og þar gekk mikið á. Ekki datt mér í hug að mánudagurinn á eftir yrði mánudagurinn svarti 6. október.

Í framtíðinni verður október 2008 frægur í sögunni. Þá helltist fjármálaóreiða undanfarinna ára yfir okkur Íslendinga of miklum ofsa. Þegar nóvember kemur er alls ekki víst að nokkur möguleiki verði að gera sér grein fyrir hvað allt þetta þýðir. Sú tíð kemur samt örugglega.

Södd þjóð gerir aldrei byltingu. Þetta segir Arnþór Helgason og ber Stefán Jónsson fréttamann fyrir því. Sonur Stefáns er Erfðagreiningar-Kári. Nú er sagt að Íslensk Erfðagreining sé að flytjast úr landi (eða fara á hausinn - man ekki hvort). Það þykja smámunir. Öðruvísi mér áður brá.

Hvenær rennur bannið við nornaveiðum út? Oft er talað um að kjósendur séu fljótir að gleyma. Í þetta sinn held ég að gleymskan geti orðið erfið. Samt held ég að til bóta væri að kjósa fljótlega. Engin ástæða er að bíða með það til 2011.

Nú fer að ljúka heimsmeistaraeinvíginu í skák milli Kramniks og Anands og benda allar líkur til að Anand vinni það sannfærandi. Skyldi vera að komast á friður um þessi mál? Ég hef ekki fylgst með undanfarið en allar götur síðan Kasparov og Short slitu sig frá FIDE forðum hafa þessi mál öll verið í óttalegu limbói.

 

489. - Jón grindamígur - bóka það

Þetta gerðist á Húsavík fyrir margt löngu. Jakob Hafstein var þar sýslumaður. Einhverju sinni sáu þeir Jakob og skrifari hans til bónda nokkurs sem veltist um blindfullur og pissaði auk þess utan í grindverkið um lóð sýslumannsins.

"Jón grindamígur - bóka það" varð sýslumanni að orði.

Nokkru seinna fékk nefndur bóndi bréf frá sýslumannsembættinu. Ekki segir neitt frá efni þess en utanáskriftin var:

Jón bóndi og grindamígur Jónsson
Grund

Bóndi varð æfur við þetta og næst þegar hann kom til Húsavíkur sneri hann sér beint til sýslumanns til að klaga þetta.

Dvaldist þeim nokkuð á skrifstofu sýslumanns en bónda var auðsjáanlega létt að fundinum loknum.

Skrifari sýslumanns spurði hvernig málinu hefði lyktað.

"Já það." sagði sýslumaður. "Okkur kom saman um að breyta orðinu grindamígur í stakketpisser."

Nú er sjálf meirafíflskenningin farin veg allrar veraldar. Ekki sé ég eftir henni og aldrei notaði ég mér hana. Hún er samt sú hagfræðikenning sem útrásarvíkingarnir græddu hvað mest á. Í matadorfylliríi eins og hér hefur ríkt er lengi hægt að haldast á floti ef sífellt finnast meiri fífl. Að því hlaut samt að koma að fleiri fyndust ekki. Bankaævintýrið í heiminum öllum var í rauninni bara einn risastór svindlpíramídi.

Ég hef alveg frá 1972 verið þeirrar skoðunar þó ég hafi ekki haft mjög hátt um hana að við ættum að ganga í EU þó ekki væri nema til tryggingar ef illa færi. Ég átti samt frekar von á aflabresti eða eldgosum en svona móðuharðindum af mannavöldum. Hvað um það, í súpunni sitjum við og reynum nú bara að bjarga okkur eins og best gengur. Stjórnmálamönnum og útrásarvíkingum hugsum við auðvitað þegjandi þörfina.

Sigurður Þór Guðjónsson (nimbus.blog.is) hefur nú læst bloggi sínu. Mér finnst það ósniðugt en kannski hefur hann ástæðu til þess. Seinna meir kann að vera að ég sæki um aðgang að síðunni.

 

488. - Út og suður með Gísla Einarssyni eða Friðriki Páli Jónssyni

Sjónvarpsþættirnir hans Gísla eru ágætir og viðmælendur hans yfirleitt mjög áhugaverðir en ég ætlaði að fjalla hér um bók með þessu nafni sem út kom árið 1983. Útgefandi var Svart á hvítu.

Í þessari bók eru 20 ferðaþættir og hún er tekin saman af Friðriki Páli Jónssyni. Ein er sú frásögn í þessari bók sem ætið hefur heillað mig mjög. Það er frásögn Guðmundar Arnlaugssonar rektors við Hamrahlíðarskóla af ferð skáklandsliðsins íslenska til Buenos Aires í Argentínu á Ólympíuskákmótið sem þar var haldið árið 1939.

Bestu skákmenn landsins á þessum tíma voru Baldur Möller, Ásmundur Ásgeirsson, Eggert Gilfer, Einar Þorvaldsson og Jón Guðmundsson. Eggert Gilfer gat ekki farið í þessa ferð og Guðmundur Arnlaugsson var fenginn í hans stað. Hann var þá við nám í Kaupmannahöfn og hafði staðið sig mjög vel þar í skák meðan á náminu stóð en lítið teflt heima á Íslandi. Honum stóð til boða að tefla fyrir hönd Dana en auðvitað vildi hann frekar tefla fyrir Ísland.

Argentínska skáksambandið bauð öllum þátttakendum frá Evrópu fríar ferðir frá Antwerpen og uppihald meðan á mótinu stæði. Þetta var mikið kostaboð og notfærðu sér það margir.

Ekki var flugferðum fyrir að fara á þessum tíma og komst íslenska skáklandsliðið með fragtskipi til Antwerpen. Þar fluttu þeir sig yfir í stórt og glæsilegt farþegaskip sem sigldi með þá til Buenos Aires.

Keppendur á þessu móti voru frá 27 löndum. Í forkeppninni var teflt í fjórum riðlum og efstu þjóðir þar tefldu síðan í A-flokki en hinar í B-flokki. Íslendingar lentu í B-flokki eftir harða rimmu við Dani sem komust í A-flokk og urðu þar neðstir. Til að gera langa sögu stutta þá sigruðu Íslendingar í B-flokki og hlutu að launum bikarinn fagra sem nefndur er Copa Argentina og enn er til á Íslandi. Verðlaun fyrir sigur í A-flokki voru farandgripur sem kenndur er við Hamilton Russell.

Íslendingarnir byrjuðu vel, slökuðu síðan svolítið á og í síðustu umferðinni tefldu þeir við Kanadamenn sem voru þá með einn vinning umfram þá og í efsta sæti. Ísland vann Kanada með 2,5 gegn 1.5 í síðustu umferðinni og þar með voru þjóðirnar jafnar í efsta sæti en Íslendingum dæmdur sigurinn því þeir höfðu unnið Kanadamenn.

Jón Guðmundsson vann allar sínar skákir í keppninni tíu að tölu og fékk verðlaun fyrir. Guðmundur stóð sig líka mjög vel og fékk verðlaun fyrir sína frammistöðu.

Heimsstyrjöldin síðari braust út meðan á mótinu stóð og heimferð skákmannanna varð mjög ævintýraleg en ekki er tækifæri til að rekja það hér.

 

487. - Á að stefna á eina níðvísu á nef hvert eins og forðum?

Svo segir í Heimskringlu:
"Það var í lögum haft á Íslandi að yrkja skyldi um Danakonung níðvísu fyrir nef hvert er á var landinu en sú var sök til að skip það er íslenskir menn áttu braut í Danmörk en Danir tóku upp fé allt og kölluðu vogrek og réð fyrir bryti konungs er Birgir hét. Var níð ort um þá báða."

Þetta var upphaf hins íslenska skjaldarmerkis. Haraldur Gormsson danakonungur bað fjölkunnugan mann að fara til Íslands og hefna níðvísnanna. Fór hann í hvalslíki en þá komu landvættirnir við sögu og vörnuðu honum landtöku.

Já, já. Menn eru reiðir. Og reiðin beinist ekki síst að Gordon Brown og jafnvel líka að bresku þjóðinni allri. Í dag hafa gengið ýmis skjöl manna milli. Meðal annars tvær vísur sem sýna þetta. Af því þetta er vísnaþáttur ætla ég að láta þær fljóta með:

Hlakka ég til að bregða Brown
svo brók hann væti
og finna hann í fjöru í Down-
ing-fokking-stræti.
Þingið gránar - þokuskán
þræðir ána, up and down.
Læðist clown um Londontown,
líkist smánin Gordon Brown.

Auðvitað er það ansi mikill biti fyrir eina þjóð þegar allir stærstu bankarnir fara á hausinn samtímis. Eða eru látnir fara á hausinn. Ég hef samt mestan áhuga á að vita hvað gera megi ráð fyrir að þetta allt saman setji okkur mörg ár til baka í lífskjörum. Ég er svo bjartsýnn að ég geri ekki ráð fyrir mjög mörgum. Ég hef núorðið líka svo takmarkað sjálfstraust að ég geri tæpast ráð fyrir að mín ráð í þessu efni muni skipta sköpum. Þessvegna ætla ég sem minnst að reyna að ráða framúr kreppunni á mínu bloggi. Þeir sem ákveðnir eru í að yfirgefa landið gera það. Líklega mun ég samt ekki fara.

Í blogginu mun ég reyna að halda mig við annað en kreppuna. Af mörgu er að taka. Ég gæti reynt við lausavísur. Af þeim kann ég mikið og svo er hægt að finna hér og þar einhver ósköp. Málið er að velja bara þær bestu og vona að öðrum líki það val bærilega.

Sumum kann að koma það á óvart en stórskáld eins og Einar Benediktsson lagði sig niður við að yrkja ferskeytlur. Hér eru nokkur dæmi um það:

Í gleði og sút hef ég gildi tvenn,
til gagns menn mig elta til skaða mín njóta
um hæðir ég þýt um hálsa ég renn,
til höfða ég stíg, en er bundinn til fóta.

Þarna er Einar að yrkja um orðið bjór. Þetta er nú eiginlega bara venjuleg gátuvísa en ágætlega gerð. Margir kannast eflaust við vísuna en hún er ekkert verri fyrir það.

Hringalind er hjá' onum.
Hann af girnd er brenndur.
Meyjaryndið á'onum
eins og tindur stendur.

Þetta er nú hálfgerð klámvísa og varla samboðin stórskáldi eins og Einari. Þetta er þó hringhenda enda yrkir Einar helst ekki ódýrari ferskeytlur.

Gengi er valt, þá fé er falt
fagna skalt í hljóði.
Hitt kom alltaf hundraðfalt
sem hjartað galt úr sjóði.

Þessi er aftur mun betri og á eiginlega ágætlega við núna á þessum síðustu og verstu tímum. Þetta sýnist mér vera oddhenda og ekki er sú næsta ódýrari.

Láttu smátt en hyggðu hátt
heilsa kátt ef áttu bágt,
leik ei grátt við minni mátt
mæltu fátt og hlæðu lágt.

Þessi finnst mér alveg stórfín og nú held ég að ég muni ekki fleiri vísur eftir Einar Benediktsson í bili.

Ég man vel eftir Kristjáni frá Djúpalæk þegar hann átti heima í Hveragerði. Þar vann hann allskyns verkamannavinnu en sérhæfði sig þó í mála hús að utan og var hraðvirkur og vandvirkur við það.

Þegar Kristján flutti til Akureyrar var einn bílstjóri sem ók flutningabíl frá Stefni sífellt að ámálga það við hann að yrkja vísu um bílastöðina. Kristjáni leiddist þófið og reyndi lengi að koma sér hjá þessu. Á endanum lét hann þó tilleiðast og kom með þessa vísu:

Vörubílastöðin Stefnir
stendur polli hjá.
Ökufantar illa gefnir
aka henni frá.

Sagt er að hann hafi ekki verið beðinn um að yrkja fleiri vísur um þetta fyrirtæki.

Hér koma tvær gátuvísur. Í þeirri fyrri er verið að yrkja um Seljalandsfoss en í þeirri síðari um svipu.

Að kom ég þar elfan hörð
á var hlaupum fljótum.
Undir vatni en ofan á jörð,
arka ég þurrum fótum.

Ég er ei nema skaft og skott,
skrautlega búin stundum.
Engri skepnu geri gott
en geng í lið með hundum.

Og ein lítil braghenda sem ég veit engin deili á.

Dúsu sýgur, drullar og mígur undir.
Þykir snótum þráskælinn.
Þú ert ljótur nafni minn.

Og úr því að farið er að tala um braghendur þá koma mér skyndilega í hug tvær fremur blautlegar. Sagt er að Bólu-Hjálmar hafi gert þá fyrri:

Hér er fjós og hér er ljósið inni.
Mjaltadrósir munu þar
með lókadósir gulrauðar

Þá á Vatnsenda-Rósa að hafa svarað:

Orðsnillingur og hans glingur líka.
Á sinn fingur fallegan
færir hringinn gulrauðan.


486. - Aðdragandi helfararinnar

They came first for the Communists,
  and I didn´t speak up because I wasn´t a Communist. 

Then they came for the Jews,
  and I didn´t speak up because I wasn´t a Jew.

Then they came for the trade unionists,
  and I didn´t speak up because I wasn´t a trade unionist.

Then they came for the Catholics,
  and I didn´t speak up because I was a Protestant.

Then they came for me,
  and by that time no one was left to speak up.

Þetta ljóð er sagt vera eftir Martin Niemöller og er áreiðanlega með kunnustu ljóðum veraldar. Vitanlega er verið að tala þarna um nasistana í þýskalandi. Varla þarf að segja nokkrum það. Samt er það svo að þjóðernishyggja á borð við þá sem Hitler aðhylltist virðist eiga talsverðu fylgi að fagna víða og jafnvel hér á landi.

Að fjölmiðlar skuli öðru hvoru bæta því við í fréttir að brotamenn séu af erlendu bergi brotnir ber einfaldlega vott um þjóðernisrembing og jafnvel rasisma.

Væri það föst venja hjá fjölmiðlum að geta um þjóðerni og uppruna allra misyndismanna sem minnst væri á mundi auðvitað vera erfitt að finna að þessu en ekki er annað að sjá en þarna sé eingöngu um geðþóttaákvarðanir að ræða og að fjölmiðlarnir vilji með þessu ýta undir dómgirni fólks og þjóðernisandúð.

"Hungary in danger of becoming another Iceland"
Sagt er að einhvern vegin svona hljómi fyrirsögn í erlendu blaði. Fyrir þá sem skilja ensku sæmilega segir þetta allt sem segja þarf.

Satt að segja er líklegt að við Íslendingar séum á stuttum tíma orðnir allt öðru vísi en við vorum í augum umheimsins. En skiptir það nokkru máli? Sjálf vitum við að við erum alveg eins og við höfum alltaf verið. Er ekki bara ágætt að geta nú loksins yfirgefið endanlega þessa Matador-vitleysu alla saman.

 

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband