Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2007

107. blogg

Árið 1970 gaus í Heklu.

Reyndar var gosið ekki í toppi Heklu eins og venjulegast er í gosum þar, heldur var þetta í hlíðum Heklu, svokölluðum Skjólkvíum.

Ég man ekki hve lengi gosið stóð en við Áslaug og strákarnir vorum í heimsókn hjá Ingu og Herði meðan á gosinu stóð. Ákveðið var að fara að gosinu og skoða herlegheitin.

Hörður átti Landrover jeppa þegar þetta var og á honum var farið. Ég geri fastlega ráð fyrir að krakkarnir þeirra hafi líka verið með í för.

Þetta varð talsvert söguleg ferð. Ekki var lögreglan eða neinir aðrir að flækjast fyrir okkur. Allir sem áhuga höfðu á gátu farið að gosinu og eins nálægt því og þeir vildu. Þetta notfærðum við okkur út í æsar og fórum miklu nær gosinu en líkur eru á að okkur hefði annars verið leyft.

Þegar við komum þarna að var hraunrennslið búið að hálffylla lítið dalverpi. Bíllinn komst nokkuð auðveldlega að því svæði þar sem hraunið hafði runnið inn í dalverpið og virku gígarnir sem þá voru tveir voru varla meira en í svona eitt til tvöhundruð metra fjarlægð frá staðnum þar sem við vorum.

Þegar komið var að hraunjaðrinum skammt frá gígunum voru allir drifnir út úr bílnum. Ekki er nokkur vegur að lýsa því með orðum hvernig var að koma svona nálægt raunverulegu eldgosi. Örugglega er ekki hægt að lýsa því með myndum heldur. Öll skilningarvitin voru undirlögð. Hljóðin voru t.d. engu lík og jörðin titraði undir fótum okkar. Lyktin lá yfir öllu og sjónin var óviðjafnanleg.

Gígarnir vöktu að vonum mestu athyglina. Úr þeim slettist bráðið hraun hátt í loft upp og greinilega bættist sífellt við hraunið. Samt var allt með friði og spekt þarna og ekki mikill æsingur í fólki. Nokkrir tugir manna höfðu safnast saman til að horfa á þetta sjónarspil. Krakkarnir sem voru með okkur í bílnum voru dauðhrædd við allan djöfulganginn (undirganginn, lyktina og hljóðið) og á myndum má sjá að þau eru hálfgrátandi eftir að hafa verið rifin út úr bílnum.

Ég man eftir að hafa gengið spölkorn út á hraunið þarna við lítinn fögnuð sumra í hópnum, enda var það ekki skynsamlegt. Hraunið var kannski ekki mjög heitt efst, en ef litið var niður mátti hvarvetna sjá glitta í bráðinn hraunmassa.

Þarna á brúninni var talsverður hópur bíla af ýmsum gerðum. Nokkrir ákváðu að fara niður í dalverpið og þeirra á meðal Hörður. Dalbotninn var sléttur og harður og þar mátti keyra þónokkur hundruð metra meðfram hraunjaðrinum.

Síðan ókum við svotil alveg að hrauninu þar sem það vall fram seigfljótandi að neðanverðu en svart og gráleitt og að verulegu leyti storkið að ofan. Eftir því sem neðri hluti hraunjaðarins vall fram hrundi efri hluti hans ofan á og kom jafnan svolítið á eftir.

Við ákváðum nú að fara alveg að hraunjaðrinum með skóflu sem var í bílnum og ná okkur í smábita af glóandi hrauni. Líklega var það ég sem var ákafastur í þessu. Ég man vel eftir því að hitinn frá hrauninu var svo mikill að mig logsveið í andlitið. Til þess að komast nægilega vel að hrauninu með skófluna fékk ég lánaða húfu hjá Ingibjörgu og skýldi með henni þeim hluta höfuðsins sem að hrauninu sneri. Með þessu móti tókst mér að ná smáslettu af bráðnu hrauni á skófluna en það breyttist fljótlega í heldur ljótan hraunmola sem ég held að samt hafi verið settur inn í bíl.

Á einum stað í dalverpinu var svolítið drullusvað og ég man að við töluðum um að ekki væri skemmtilegt að festa sig þarna. Þegar við komum til baka var jeppi einn samt einmitt búinn að festa sig þarna. Verið var að reyna að ná bílnum upp og greinilega nokkur æsingur í fólki, því þeir sem fóru út að ýta fengu gjarnan drullubað mikið því bílstjórninn gaf hraustlega í.

Hörður var með kaðal í Landróvernum og bauðst til að draga bílinn upp. Því var vel tekið og gekk það vel. Þegar þetta var vorum við á heimleið en stoppuðum samt uppi á brúninni á dalverpinu og biðum þess að hraunið færi yfir staðinn þar sem bíllinn sat fastur. Það gerðist 20 mínútum eftir að við drógum hann upp.


106. blogg

Ég sé að margir bloggarar skrifa gjarnan mun styttra mál en ég og eru alls ekki jafnfastir í fortíðinni.

Málæði mitt er reyndar með ólíkindum og getur varla haldist til eilífðarnóns. Einhvern tíma tekur þetta enda. En er á meðan er. Meðan ég hef gaman af að skrifa held ég því eflaust áfram.

Ég hef stundum verið að velta því fyrir mér hvort ég ætti ekki að stefna á að myndskreyta bloggið mitt. Einu sinni þóttist ég vera ágætur myndasmiður. Mér finnst bara að myndskreyting sé dálítið mikið vesen. Ég mundi ekki nenna að vera alltaf með myndir. Sumir stunda það greinilega að safna saman furðulegum myndum af netinu og setja þær á bloggið sitt. Ég býst frekar við því að ég mundi einskorða mig við eigin myndir.

Í gær rakst ég á áhugavert og skemmtilegt blogg á Moggablogginu. Það er eftir Gest Gunnarsson. Ég man vel eftir Gesti síðan ég vann á Stöð 2. Þá var hann að mig minnir mest við gerð sviðsmynda og ýmiss konar aðstoð við þáttagerð.

Hann kallar sjálfan sig í blogginu forstjóra Ritverkamiðstöðvarinnar þá sjaldan hann víkur frá því að skrifa endurminningar sínar. Sumt af þessu held ég að hann hafi verið búinn að skrifa áður, en búti það svo niður og setji í smáskömmtum á bloggið.

Ég hef ekki hugmynd um hvað eða hvar þessi Ritverkamiðstöð er og Gúgli virðist ekki kannast við hana. Kannski er hún bara hugarfóstur Gests.

Hann er lærður pípulagningamaður en hefur lagt gjörva hönd á margt annað um dagana og er sagt frá sumu af því á blogginu.

Meðal annars er þetta af blogginu hans:

=====================

Á morgnana mættum við í olíustöð Olíufélagsins sem var úti á flugvelli og fengum lista yfir biluð kynditæki sem við svo gerðum við. Mikið tengdist þetta frostinu því að í olíunni var vax sem storknaði í frosti og þá drapst á fýringunni.

Ef einhver truflun varð á eldinum sló öryggi út og þurfti maður oft ekki að gera annað en setja það inn aftur. Allur þessi búnaður var svo fullkominn að lítill möguleiki var á að kviknað gæti í þess vegna og hefi ég aldrei getað skilið hvernig olíukynditæki gat kveikt í sumarbústað forsætisráðherrans á Þingvöllum. 

 ========================

Þetta er allt gott og blessað. En mér finnst þetta síðasta ekki passa alveg. Ég veit að vísu ekki neitt um brunann á Þingvöllum, en man mjög vel eftir honum. Ég veit samt af eigin reynslu að olíukynditæki geta kveikt í. Þar sem eldur er þar getur kviknað í hvort sem öryggisbúnaður er mikill eða lítill. Þessu kynntist ég vel á Vegamótum. Þegar ég kom þangað fyrst var brennari í búðinni og veitingahúsinu en sjálfrennandi olía í íbúðarhúsinu.

Í íbúðarhúsinu rann olían bara inn í ketilinn í gegnum skammtara sem stjórnaði því hvort mikil eða lítil og olía rann inn í ketilinn og þarmeð hve mikill eldurinn var eftir að kveikt hafði verið í olíunni. Þessi aðferð er á margan hátt varasöm og gæti ég sagt margar sögur frá þeim málum og geri kannski seinna.

Brennararnir eru mun betri en þeim fylgir sá ókostur að ef rafmagnið fer þá fer hitinn líka. Á þessum árum (uppúr 1970) var rafmagnsleysi nokkuð algengt a.m.k. á þessum slóðum.

Ég gæti vel trúað að einn af leyndardómum þess að vera vinsæll á blogginu sé að blogga reglulega. Líklega er það þess vegna sem ég hef bloggað svona mikið að undanförnu. Nei annars, mér er víst alveg sama hvort margir eða fáir lesa þetta.

Einhver var að bollaleggja um það um daginn að vinsældir bloggs mætti betur marka af fjölda athugasemda en fjölda heimsókna. Þessu er ég alls ekki sammála og satt að segja vorkenni ég þeim (ef þeir eru einhverjir) sem fá fleiri athugasemdir en heimsóknir.

Áhugavert innlegg frá Salvöru Gissurardóttur sá ég alveg nýlega þar sem hún ræðir um það hvernig Morgunblaðið stjórnar umræðunni á Moggablogginu. Ráðlegg þessum örfáu lesendum mínum að fylgjast með skrifum Salvarar, hún veit svo sannarlega sínu viti.


105. blogg

Árný Filippusdóttir á Hverabökkum kallaði mig alltaf "litla frænda". Ég man að mér leiddist það.

Seinna þegar ég vann í Kaupfélaginu bauð hún okkur Bjarna eitt sinn að smakka á hrosshaus sem hún sagðist vera búin að sjóða í marga klukkutíma. Ekki leist okkur vel á það.

Mig minnir að það hafi verið Árný á kvennaskólanum sem hringdi í margar konur í Hveragerði og þar á meðal Magðalenu handavinnukennara og sagði: "Er þikkþakk á þinni. Það er nefnilega ekkert þikkþakk á minni." Flestir sögðu sikk sakk og skrifuðu það jafnvel zik zak og það þótti góður kostur að hafa slíkt á saumavélum.

Gestur á Hæli var eitt sinn við messu á Eyrarbakka. Tveir prestar predikuðu. Gestur var spurður hvernig honum hefðu líkað predikanir prestanna. Hann svaraði með vísu:

Annar lapskáss bar á borð

og beinakex fyrir náðarorð.

Hinn gaf okkur harðan fisk

og hangikjöt á silfurdisk.

Sumir hafa verið haldnir þeim misskilningi að að bærinn sem Gestur er kenndur við heiti Hæli. Svo er auðvitað alls ekki. Hann heitir Hæll.

Falleg bæjarnöfn að mínu mati eru t.d. Kúskerpi og Þverspyrna. Auðvitað eru ekki allir sammála mér um það. Kúskerpi er fyrir norðan því ég man eftir að hafa séð skilti með því nafni við veginn eitt sinn þegar ég fór til Akureyrar. Ef til vill hefur sá bær verið skírður upp eins og margir aðrir sem heita sjaldgæfum nöfnum. Bærinn Snússa var t.d. skírður upp og nefndur Ásatún. Sagt er að bærinn Tittlingastaðir hafi verið skírður Smáfuglastaðir. Sjálfur er ég ættaður frá bænum Látalæti í Landssveit.

 

Einu sinni gistu 70 manns hjá okkur á Vegamótum yfir nótt og í dag hefði það hugsanlega þótt fréttnæmt en þótti ekki þá. Þá var hríðarbylur og veðurútlit ekki gott, en rúturnar til Ólafsvíkur og Stykkishólms komust við illan leik að Vegamótum. Í annað skipti skall á ofsaveður eftir hádegi á aðfangadag og rúturnar komust ekki einu sinni að Vegamótum en sneru við skammt frá Borgarnesi. Tveir menn höfðu komið úr Helgafellssveitinni til að taka á móti fólki sem var væntanlegt að sunnan. Þeir gistu hjá okkur um kvöldið en þegar veður batnaði skyndilega um nóttina fóru þeir af stað heimleiðis en þurftu þegar til kom að ganga mestalla leiðina. Það þótti fréttnæmt og birtist frétt um það í DV eða Vísi.

Eitt sinn man ég eftir því að rafmagnslaust var í viku á Vegamótum og sveitunum í kring. Ekki þótti það sérstakt tiltökumál og allir gátu bjargað sér einhvern vegin. Frost var þó og mér er minnisstætt að ég hafði mestar áhyggjur af að frysi í klósettunum og setti frostlög í þau. Það var að ég held í þessari viku sem ferðafólk af Keflavíkurflugvelli kom í heimsókn og gisti hjá okkur í eina eða tvær nætur því bíllinn þeirra var bilaður. Hann hafði bilað á Fróðárheiði og verið skilinn þar eftir í eina eða tvær nætur. Þau hituðu meðal annars poka einn lítinn á prímusi og eftir sprengingar og læti í pokanum margfaldaðist hann að stærð og þegar hann var opnaður var hann fullur af poppkorni. Strákarnir mínir og systkinin í Holti störðu opinmynnt á þetta og fannst það jafnast á við dýrindis galdra.

Annars var það merkilegt með bilun þessa glæsilega jeppa sem ferðafólkið frá Keflavíkurflugvelli var á, að þó allt virtist í lagi og fjöldi manna hefði skoðað bílinn vildi hann alls ekki fara í gang. Viðgerðarmenn frá Rafveitunni komu að Vegamótum, en þangað hafði bíllinn verið dreginn. Einn í þeim hópi hafði orð á sér meðal félaganna að vera lunkinn við bílvélar. Hann hlustaði þegar reynt var að starta bílnum í gang og kíkti ofan í húddið og spurði svo hvort ekki væri naglalakk að finna á staðnum. Jú, það fannst og hann málaði með því yfir örlitla rifu á kveikjuhamrninum sem varla sást með berum augum og bíllinn rauk í gang á næsta starti.

Í vikulanga rafmagnsleysinu var stanslaust rok á austan næstum alla vikuna. Það var oft gaman að fylgjast með Rafveitumönnum þegar þeir voru að viðgerðum. Eitt sinn fylgdist ég með tveimur slíkum fara upp í tvöfaldan staur sem var skammt frá Vegamótum. Hlutverk annars var greinilega fyrst og fremst að fylgjast með að allt gengi vel fyrir sig hjá hinum við klifrið upp í staurinn. Hins vegar var rokið svo mikið að þegar hann horfði upp til að gá hvernig hinum gengi átti hann í miklum vandræðum með að halda jafnvægi og þeytast ekki í burtu. Það var eiginlega ekki fyrr en hann fann upp á því þjóðráði að leggjast endilangur á bakið á jörðina að þetta fór að ganga vel hjá honum.


104. blogg

(framhald)

Síðasta blogg mitt var um kjör Vigdísar Finnbogadóttur árið 1980. Skal nú fram haldið því karlagrobbi.

Síðasta bloggi lauk með frægri ræðu minni í Borgarnesi. Hún var semsagt ekki lengri en þetta. Þegar henni lauk kvað við kröftugt lófatak og þó ég segi sjálfur frá þá held ég bara að mitt ávarp hafi verið það besta sem þarna var flutt.

Ástæðan fyrir því að ég gat birt ræðuna orðrétta hér var sú að nokkrum dögum eftir fundinn var komið að máli við mig og ég beðinn að leyfa birtingu ræðunnar í Morgunblaðinu. Ég samþykkti það og þar var hún svo birt þann 26. júní. Að vísu sem innsend grein og engin grein gerð fyrir því að þarna var um ávarp að ræða. Blaðagreinar og ræður eru ekki alveg það sama en kannski stendur þetta alveg undir því að vera kallað blaðagrein.

Eins og flestir vita þá er hægt að skoða mikinn fjölda tímarita á íslensku, færeysku og grænlensku með þvi að fara á timarit.is. Þessi vefsíða er mjög góð og nánast furðulegt hve sæmilega hnitmiðuð leit tekur stuttan tíma. Auk þess er líka oft fróðlegt að blaða í blöðum og tímaritum. Síðast þegar ég vissi voru samt flest tímaritin þarna nokkuð gömul. Þó ekki öll, ég man t.d. ekki betur en Lesbók Morgunblaðsins sé þarna eins og hún leggur sig fram til 2000 a.m.k. Svo er vel líklegt að smátt og smátt bætist efni við.

Þegar ég fer að íhuga málið betur sýnist mér að ræðuhandritinu hafi eitthvað verið breytt. T.d. er útilokað að lokasetningin hafi verið nákvæmlega svona hjá mér á fundinum en að segja á sunnudaginn kemur getur vel hafa verið rétt þegar hún birtist í Morgunblaðinu 26. júní.

Seinna frétti ég að eftir fundinn hafi staðið til að bjóða öllum sem ávörp fluttu til einhvers konar samsætis með Vigdísi. Ég fannst þá ekki enda hafði ég farið í afmælisveislu strax og fundinum lauk. Sú afmælisveisla var á frumlegum stað eða í gangamannakofa (sem var nú reyndar alls enginn kofi) í Hítardal. Sem betur fer var hægt að komast þangað alla leið á bílum.

Ekki man ég mikið eftir þessari afmælisveislu sem mig minnir að væri haldin vegna afmælis Ingólfs á Flesjustöðum eða hugsanlega Jóns bróður hans í Mýrdal. Áreiðanlega var drukkið eitthvað af brennivíni þarna og ég man að Sveinn Kristinsson frá Dröngum, sem þá var að ég held skólastjóri í Laugagerði var þarna.

Mér er vera Sveins þarna minnisstæð vegna þess að við minntumst eitthvað á væntanlegt forsetakjör og ég man ekki betur en Sveinn hafi verið stuðningsmaður Vigdísar. Annar hvor okkar tók svona til orða man ég mjög greinilega. „Heldurðu að stelpan hafi þetta ekki?" Hinn tók að sjálfsögðu undir þetta. Þarna var karlremban semsagt óforvarendis komin uppá yfirborðið.

Mig minnir að það hafi verið daginn eftir Vigdísarfundinn sem 17. júní var haldinn hátíðlegur með hefðbundnum hætti í Skallagrímsgarðinum í Borgarnesi. Meðan á skemmtiatriðum stóð í garðinum varð Halldór E. Sigurðsson fyrrverandi ráðherra á vegi mínum. Hann var þarna á ferð ásamt einhverju fólki sem ég man ekki eftir að hafa þekkt. Hann heilsaði mér og sagði eitthvað á þessa leið: „Mér er sagt að þú hafi messað vel á fundinum í gærkvöldi." Ekki man ég eftir að ég hafi getað svarað þessu af nokkru viti, en mig minnir að Halldór hafi verið einn af fáum stjórnmálamönnum sem var eindreginn stuðnigsmaður Vigdísar í forsetakjörinu.

Að lokinni skemmtuninni í Skallagrímsgarði var haldið á Íþróttavöllinn sem þá var austan við Borgarbrautina á móti Esso-stöðinni og við hliðina á húsinu sem einu sinni var prentsmiðja og síðan eitthvað annað og vel getur verið að sé ekki lengur uppistandandi.

Ekki man ég vel eftir nema einu af þeim skemmtiatriðum sem fram fóru á íþróttavellinum. Það var að fulltrúar allra þeirra sem í framboði voru í forsetakjörinu tóku þátt í vítaspyrnukeppni. Þar var ég fulltrúi Vigdísar og ég man bara eftir einum öðrum af þátttakendunum. Það var Guðjón Yngvi Stefánsson framkvæmdastjóri Sambands Sveitarfélaga á Vesturlandi, hann var fulltrúi Péturs Thorsteinssonar. Guðjón þekkti ég síðan ég var að alast upp í Hveragerði. Hann er sonur Stefáns hreppstjóra sem þar bjó örskammt frá Bláfelli. Guðjón er nokkrum árum eldri en ég og ég þekkti flesta eða alla bræður hans og sá yngsti þeirra var bekkjarbróðir minn.

Ekki man ég nákvæmlega hvernig vítaspyrnukeppnin fór fram en ég man vel að ég sigraði glæsilega í henni. Gætti mín bara á því að skjóta nokkuð fast og að hitta á markið, en það tókst ekki öllum. Guðjón var reyndar miklu betri knattspyrnumaður en ég. Var á sínum tíma sjálfsagður í úrvalslið Hveragerðis og mikill markaskorari. Var samt aldrei mjög góður skallamaður, en markheppinn með afbrigðum. Mig minnir að á unglingsárum hafi heyrnarleysi hrjáð Guðjón og hann hafi gengist undir uppskurði á höfði útaf því og að það hve erfitt hann átti uppdráttar sem skallamaður í knattspyrnu hafi tengst því.


103. blogg

Fyrir forsetakjörið árið 1980 héldu stuðningsmenn Vigdísar Finnbogadóttur í Borgarfirði fund í samkomuhúsinu í Borgarnesi.

Anna Ólafsdóttir kom að máli við mig nokkru fyrir fundinn og spurði mig hvort ég væri fáanlegur til að flytja ávarp á fundinum fyrir hönd Borgnesinga. Auðvitað gat ég ekki neitað því.

Mér var nokkur ráðgáta hvers vegna ég varð fyrir valinu hjá stuðningsmannahópnum til að flytja ávarp fyrir hönd Borgnesinga. Ég var alls ekki yfirlýstur stuðningsmaður Vigdísar og hafði ekki tekið neinn þátt í undirbúningi fundarins. Ég átti satt að segja alls ekki von á þessu. Þegar ég spurði Önnu um þetta sagði hún að það væri vegna ræðu sem ég hefði flutt á 1. maí hátíð í bænum fyrir nokkru.

Þegar við fluttum til Borgarness árið 1978 var ég fljótlega kosinn formaður Verzlunarmannafélags Borgarness og þegar kom að því að skipuleggja dagskrá 1. maí hátíðahalda stéttarfélaganna árið eftir lenti ég í því samkvæmt einhverri útilokunaraðferð að halda aðalræðuna á hátíðinni.

Ég man nú ekki eftir þessari ræðu í smáatriðum en í henni minntist ég á að það væri verkalýðshreyfingunni og öllum verkalýðsfélögum í landinu til stórskammar að hafa ekki fyrir löngu komið á launajafnrétti karla og kvenna. Það væri alls ekki nóg að lög væru til um slíkt, ef allir vissu að skipulega væri farið í kringum þau lög.

Hófst svo fundurinn. Það er að segja framboðsfundurinn.

Ávörp fluttu fulltrúar hreppa úr Borgarfirðinum og flutti ég ávarp fyrir hönd Borgnesinga. Það var svona: (Já, ég kann að leita á timarit.is)

 

Í þriðja sinn göngum við nú til forsetakjörs og kjósum nýjan forseta lýðveldisins. Þó forseti Íslands sé í raun nær valdalaus skiptir miklu máli hver til starfsins velst.

Í kosningunum nú er brotið blað þar sem einn frambjóðendanna er kona. Þetta tækifæri eigum við Íslendingar ekki að láta ónotað, en sýna í verki jafnréttishugsjón okkar og stíga með því stórt skref í áttina að réttlátara þjóðfélagi.

Mannkostir Vigdísar Finnbogadóttur gera valið líka auðvelt, því þeir eru slíkir að jafnvel hörðustu andstæðingar hennar draga ekki í efa að hún standi hinum frambjóðendunum a.m.k. jafnfætis.

Því heyrist mjög á lofti haldið í þessari kosningabaráttu að óheppilegt sé að einhleypingur sitji á forsetastóli. Vitaskuld er þetta hin mesta fásinna.

Mörg dæmi eru í sögunni um makalausa þjóðhöfðingja og engin dæmi þekki ég um að þjóðhöfðingjar þurfi að leggja niður völd, missi þeir maka sinn eða skilji við hann. Einnig er það réttlætismál að fólki sé ekki útskúfað fyrir það eitt að kjósa að vera ógift.

"Stjórnarfarslegt reynsluleysi" er glósa sem reynt er að nota til að koma höggi á Vigdísi Finnbogadóttur. Fyrir 12 árum hafnaði þjóðin því með öllu að slíkt væri ljóður á ráði forsetaframbjóðanda.

Vigdís Finnbogadóttir minntist á skák og stöðu drottningarinnar á skákborðinu í útvarpsávarpi sínu 15. júní. Í 14 alda sögu skáklistarinnar hefur staða drottningarinnar ekki ávallt verið sú sem hún er í dag Áður fyrr var hún veikasti maðurinn að peðunum einum undanskildum. En það eru meira en 500 ár síðan hún fékk sína núverandi stöðu sem sterkasti maðurinn á borðinu.

Er ekki löngu kominn tími til að konur fái sinn réttláta sess á skákborði lífsins?

Ef við líkjum jafnréttisbaráttu kvenna við stöðu á skákborði, sjáum við strax að kjör Vigdísar Finnbogadóttur í embætti forseta Íslands er sterkur leikur.

Undanfarna áratugi hefur mikið áunnist í jafnréttisbaráttunni og konur hafa aldrei staðið nær því en nú að jafna taflið. Þess vegna má líkja því við hinn versta fingurbrjót í skák ef við nú berum ekki gæfu til að nýta þetta einstæða tækifæri til að bæta stöðu kvenna.

Gætum þess því í kosningunum á sunnudaginn kemur að leika ekki af okkur drottningunni.

(framhald seinna)


102. blogg

Ég held að upphafleg meining þeirra Moggabloggsmanna með bloggvinakerfinu hafi verið sú að menn byndust samtökum um að lesa blogg hvers annars. Ég hef reynt að gera þetta og lesa blogg bloggvina minna. Gallinn er einkum sá að það eru svo mörg önnur blogg áhugaverð líka.

Ég er hræddur um að þeir séu ekki margir sem reyna að gera sér það að reglu að lesa það sem bloggvinir þeirra hafa fram að færa. Til þess virðast bloggvinir flestra vera of margir. Einu sinni var sagt frá því hér á Moggablogginu að einhver væri kominn með hátt á annað hundrað bloggvini en þó ekki byrjaður að blogga. Þetta sannreyndi ég að var rétt.

En hversvegna í ósköpunum eru menn þá að safna bloggvinum? margir eru með myndir af þeim og þá getur þetta orðið óralöng runa. Það virðist þó ekki þurfa að hafa myndirnar og með því að hafa þær ekki verður lengdin viðráðanlegri.

Einu sinni fyrir margt löngu eignaðist ég bókina „Íslenskir málshættir". Í henni er mikill fjöldi málshátta en af einhverjum ástæðum lærði ég tvo slíka og man vel eftir þeim. Þeir voru svona: „Snælega snuggir, sögðu Finnar. Áttu andra fala." Ég er ekki viss um að allir skilji orðin í þessum málshætti. Snælega snuggir þýðir einfaldlega að það sé útlit fyrir snjókomu. Andrar eru skíði. Seinni málshátturinn er mun skiljanlegri en hann er svona: „Eigi skal bogna sagði karl og skeit standandi."

Anna í Holti skrifaði á sínu bloggi um daginn um smergelsöguna miklu svo mér ætti að vera óhætt að setja hér mína útgáfu af henni.

Já, þetta byrjaði allt með því að Einar í Holti setti ryksugumótor við gamalt smergel. Þó ég sé ekki rafmagnsfróður þá skilst mér að ryksugumótorar séu þeirrar náttúru að auka sífellt hraðann ef þeir mæta ekki mótstöðu. Venjulega er mótstaðan fólgin í loftinu sem ryksugan dælir í gegnum sig. Smergelið leitaðist hins vegar vegna þyngdar sinnar við að snúast sem hraðast.  Smergelmótorar á hinn bóginn og margir aðrir rafmótorar eru gerðir til þess að snúast á ákveðnum hraða.

Nú, nú. Smergelið snérist og snérist með sífellt auknum hraða þangað til smergelsteinninn þoldi ekki við lengur, losnaði af og yfirgaf smergelið á miklum hraða. Einar missti framan af öðrum þumalfingrinum og við lá að fleiri slys yrði. Eitt brotið af smergelsteininum virtist vegar hafa farið beina leið upp um þakið á verkstæðnu.

Ég man nú ekki eftir að hafa séð önnur verksummerki eftir þetta ævintýri en þumalfingursleysið á Einari og gatið á þakinu sem var allstórt og brotið gæti svosem hafa farið á braut um jörðu.

Svo er það frjálsíþróttamótið á Breiðabliki þar sem Erlendur í Dal fékk kringluna í hausinn.

Þegar mótið var haldið var ég að vinna í búðinni á Vegamótum. Sigurþór í Lynghaga og einhver maður með honum komu glaðhlakkalegir til mín og báðu mig að vigta nákvæmlega svarta kringlu sem þeir höfðu meðferðis. Venjulega eru kringlur þær sem notaðar eru á íþróttamótum ekki svartar heldur með viðarlit. Maðurinn sem var með Sigurþóri átti þessa forláta kringlu sjálfur. Þeir sögðu að rétt væri að vigta hana nákvæmlega því hvorki meira né minna en Íslandsmet hefði verið sett með henni fyrir stuttu síðan.

Ég man að kringlan reyndist eitthvað lítilsháttar þyngri en það sem þeir sögðu að væri lágmarksþyngd karlakringlu samkvæmt reglugerðum og voru þeir ánægðir með það.

Það var svo ekki fyrr en seinna, sem ég frétti af því að Elli hefði fengið þessa sömu kringlu í hausinn á mótinu. Annars man ég að það var hávaðrok þegar þetta var, enda svífur kringla sem kastað er á móti vindi þeim mun lengra sem rokið er meira. Engar reglur eru til um mótvind bara um meðvind.


101. blogg

Ef ég mundi lesa allt sem á mínar fjörur rekur og áhugavert getur talist mundi ég ekki gera margt annað, varla hafa tíma til þess að sofa.

Fangaráðið er því að finnast sem flest lesefni ekki mjög áhugavert. Þetta ráð hef ég notað lengi og er t.d. að mestu hættur að lesa dagblöðin og steinhættur að kaupa svoleiðis rugl. Tímarit kaupi ég yfirleitt aldrei. Tek þau stöku sinnum að láni á bókasöfnum en finnst þó varla taka því. Samt sem áður safnast alltaf að manni bækur og annað lesefni í stórum stíl. Á bókasafnið fer ég reglulega, bæði Bókasafn Kópavogs og Borgarbókasafnið. Í seinni tíð er ég þó farinn að taka færri bækur að láni hverju sinni en áður. Með því móti verða sektargreiðslur lægri ef ég gleymi að skila í tíma, sem auðvitað kemur fyrir.

Fór í gær í bókaskipið og endaði með að kaupa nokkrar bækur þar. Eyddi þó ekki nema 3600 krónum. Ein bókin var svo stór að hún er hiklaust með stærstu bókum heimilisins. Geographica heitir hún eða eitthvað þessháttar. Mér finnst tilbreyting að fara á bókamarkað sem þennan. Þarna er fullt af bókum sem maður hefur aldrei séð áður, en í Perlunni finnst mér að maður sé alltaf að skoða sömu bækurnar ár eftir ár. Þar eru bækur að vísu flestar á íslensku, en þarna voru þær næstum allar á ensku.

Strákur í Hveragerði var aldrei kallaður annað en Jón bensín. Af hverju hann var kallaður það hef ég ekki hugmynd um. Eitt sinn þegar einhverjir strákar voru að rífast og kljást sagði Jón: "Verið ekki að akneytast þetta." Ég skildi þetta ósköp vel, en man að margir viðstaddir könnuðust alls ekki við sögnina "að akneytast." Mamma Jóns var ljósmóðir. Gott ef hún hét ekki Herdís.

Mamma notaði oft sagnirnar að mævængja og stígstappa sem gátu haft dálítið svipaða og ákaflega augljósa merkingu. Ég held þó að þær séu ekki í orðabókum. Mamma sagði líka alltaf kvittering en ekki kvittun og það þótti mér skrýtið.

Mamma saumaði yfirleitt öll föt á okkur. Ég veit svosem ekki með vissu hvort þannig var hjá mörgum öðrum, en ég man að mér þótti mikil upphefð í því þegar ég fékk í fyrsta sinn að fara í skólann í skyrtu sem keypt hafði verið í búð.

Ég man líka eftir því þegar ég fékk í fyrsta sinn síðbuxur sem voru keyptar í búð og gott ef það voru ekki fyrstu síðbuxurnar sem ég eignaðist. Á sama tíma var mér gefin lítil greiða sem var eins og byssa í laginu. Hún var gerð úr hörðu plasti og brotnaði  fljótlega mér til mikillar sorgar, þegar ég var að veltast um á túninu heima.

Mamma var ein af þeim sem hiklaust var hægt að segja um að félli aldrei verk úr hendi. Ég man einu sinni eftir að hafa séð hana lesa í bók. Þá bók hafði ég keypt á bókamarkaði og gefið henni. Þetta var bókin „Þúsund ára sveitaþorp" eftir Árna Óla, en sú bók er um Þykkvabæ og þaðan var mamma.

Kannski hef ég keypt þessa bók í Listamannaskálanum. Þar man ég fyrst eftir þeim árlegu bókamörkuðum sem enn eru haldnir við miklar vinsældir. Já, ég er víst að verða svona gamall. Ég man líka eftir því þegar brennivínsflaskan kostaði 170 krónur gamlar.

Nú rignir og kartöflugrösin í Þykkvabæ eru víst fallin. Heyrt hef ég um mann sem fluttist á suðlægari slóðir og sagði eitthvað á þessa leið þegar hann hafði verið þar um tíma: „Það er alltaf sama andskotans blíðan, sólskin dag eftir dag. Engin tilbreyting í veðrinu." Kannski Bjarni geti bráðum farið að segja eitthvað svipað. Ég held samt að kuldi og frost muni heimsækja okkur hér á Íslandi þegar veturinn skellur á.

Kannski ætti maður að fara að hvíla sig á þessu bloggi. Þetta verður smátt og smátt að ávana og á endanum getur maður eflaust talið sjálfum sér trú um að þetta sé það sem lesendurnir vilja. Vel getur þó verið að það séu einkum ættingjar sem skoða þetta blogg og hlaupi einmitt yfir þessar árans hugleiðingar.

Þó ég lesi jafnan heilmikið af bloggum er því ekki að leyna að mun skemmtilegra er að skrifa þau. Einkum þegar maður er búinn að skrifa meira en 100 stykki.

Anna í Holti biður um fleiri sögur frá Vegamótum og vel getur verið að þær komi seinna. A.m.k. man ég eftir ýmsu þaðan.


100. blogg

 

Frá Vegamótum

 

Einar í Holti átti það til að drekka svolítið. Einu sinni var mikið að gera þegar rútan kom og henti Haukur Helga bara inn á borð í búðinni pökkum sem áttu að fara á Vegamót. Þar á meðal var pakki til Einars í Holti. Nokkru seinna kom Einar að ná í pakkann sinn, en þá var hann horfinn. Þetta kom sér mjög illa því þarna var um að ræða brennivín og aumingja Einar sá nú fram á algjöran þurrk. Eftir mikið vesen, jaml og fuður kom svo í ljós að Valdi í Dal, sjálfur lögregluforinginn, hafði tekið pakkann til að færa Einari, en hætt við að láta hann fá flöskuna, þegar hann sá að Erlendur bróðir hans var í heimsókn hjá honum. Þetta skilja náttúrlega ekki aðrir en þeir sem þekktu þessa menn.

Á einhverju bloggi var um daginn verið að ræða hve misjafnt getur verið hve fólk er hátt til hnésins eins og kallað er. Mér er minnisstætt að ég tók einhvern tíma eftir því á Vegamótum að þau sátu hlið við hlið uppi í borðstofu Jón Kristinn og Erna á Eiðhúsum. Þar sem þau sátu var Erna nokkrum tugum sentimetra hærri en Jón, enda talsvert eldri ef ég man rétt. Þegar þau aftur á móti stóðu upp voru þau nokkurn vegin jafnhá. Skrítið.

Bjössi bróðir var í heimsókn á Vegamótum og hafði verið bensíntittur hjá mér sumarið áður og þekkti marga. Til skýringar er víst nauðsynlegt að taka fram að þetta var fyrir meira en þrjátíu árum. Þar að auki er Bjössi miklu yngri en ég. Eiginlega örverpið í fjölskyldunni. Nema einhver var að spyrja hann hvað hann gerði núna. Bjössi svaraði: „Ja, ég er nú á Elliheimilinu" og allir fóru að skellihlægja.

Gunnar Ásgeirsson stórkaupmaður og Volvo-umboðsmaður með meiru kom að Vegamótum eitt sinn þegar hann var umdæmisstjóri Lionshreyfingarinnar á Íslandi og vakti máls á því að nauðsynlega þyrfti að stofna Lionsklúbb á þessu svæði. Ekki tók ég mikið undir það, en þvertók þó ekki fyrir að ég mundi taka þátt ef af þessu yrði. Ekki er að orðlengja það að Gunnari tókst að fá nógu marga menn til að heita þátttöku til að úr þessu varð og klúbburinn var nefndur Lionsklúbbur Hnappdæla. Móðurklúbbur hans var Lionsklúbbur Borgarness og okkar fyrsta samkoma sem nefnd var stofnskrárhátíð eða eitthvað þess háttar var haldin í Borgarnesi. Þegar að því kom að halda reglulega fundi sem mig minnir að hafi verið a.m.k. mánaðarlega var verra með húsnæði. Gamla samkomuhúsið í Dalsmynni var þó sæmilega miðsvæðis og þar voru fundir gjarnan haldnir. Stundum gleymdist að hita húsið upp fyrir fundina og á sumum fundunum voru menn skelfilega kuldalegir. Ég hugsa að það hafi verið sjón að sjá okkur í kuldaúlpum í hörkufrosti með sultardropa á nefinu sitjandi við eitt lélegt langborð og vera að þykjast halda Lionsfund. Eflaust var þetta kaldasti Lionsklúbbur í heimi. Haukur á Snorrastöðum bróðir Friðjóns sparisjóðsstjóra í Borgarnesi minnir mig að hafi verið fyrsti formaður klúbbsins.

Halla Guðmundsdóttir frá Hlemmiskeiði á Skeiðum kona Svans í Dalsmynni og kennari við skólann í Laugagerði vildi ganga í klúbbinn hjá okkur. Eiginlega var búið að binda það fastmælum að hún myndi sækja um inngöngu og stjórnin samþykkja það. Ég held að Ingólfur á Flesjustöðum hafi þá verið orðinn formaður klúbbsins. Af einhverjum ástæðum varð ekki úr þessu. Á þessum árum voru svokallaðir Lionessuklúbbar ekki til og við vildum með þessari gjörð leggja áherslu á jafnrétti kynjanna. Mér hefur alltaf þótt karlrembuþátturinn í starfi klúbba eins og Lions og Kiwanis vera þeirra ljótasti blettur. Ég held meira að segja að Rotary séu skárri.

Það var Séra Árni í Söðulsholti sem stóð fyrir því að ég var skipaður prófdómari við Laugagerðisskóla. Kannski er það einhver mesta virðingarstaða sem ég hef haft um æfina. Ég man vel eftir því að eitt af mínum allra fyrstu verkefnum var að vera viðstaddur lestrarpróf hjá einhverjum bekk, hugsanlega 6. bekk. Ég man eftir tveimur stelpum sem voru í þessum bekk. Það voru þær systurnar Erna og Hrönn Þorgrímsdætur frá Eiðhúsum, báðar fluglæsar þegar þetta var og einhverjar þær bestu í bekknum í lestri.

Björgvin bróðir minn var kennari við Laugagerðisskóla þegar þetta var. Hann kom stundum í heimsókn á Vegamót. Ég man eftir að hann gaf eitt sinn strákunum mínum sitthvorn Wrigleys tyggjópakkann. Flestir hefðu látið sér nægja að gefa þeim eina plötu hvorum, en ekki Björgvin. Ég hugsa að strákarnir hafi haft mikið álit á honum fyrir þessa rausn sína.

Eitt sinn sátum við Erling á Eiðhúsum í herbergi því í gamla húsinu sem seinna varð ráðskonuherbergi og tefldum hraðskákir. Þegar klukkan var orðin ansi margt ætlaði Erling að halda heimleiðis á sínum vörubíl, en þá var hríðin svo svört að varla sá út úr augum. Við settumst þá bara inn aftur og héldum áfram að tefla í nokkra klukkutíma í viðbót og að því loknu var verðrið orðið skaplegra.


99. blogg

Á Reykjum II

 

Í garðyrkjustöð Garðyrkjuskóla ríkisins að Reykjum í Ölfusi var Guðjón Pálsson verkstjóri. Óli Valur Hansson vann þar líka, en stjórnaði ekki verkum, að ég held. Í stöðinni var talsverður fjöldi gróðurhúsa á þessum tíma.

Fyrir utan stóra húsið sem svo var kallað og núllið þá voru þau í númeraröð upp í svona 18 eða 20 að mig minnir og svo bananahúsið sem var nokkuð stórt hús og ferningslagað, sem var mjög óvenjulegt með gróðurhús. Enn er nánast greypt í huga mér hvernig húsunum var fyrirkomið á lóðinni sem garðyrkjustöðin stóð á.

Í bananahúsinu voru, eins og nafnið bendir til, ræktaðir bananar. Þeir voru þó aðeins í rúmlega hálfu húsinu. Hinn hlutinn var notaður undir ýmislegt. Ég man t.d. eftir gúrkum þar.

Eitt sinn vann ég við að "sjóða" í þeim hluta bananahússins sem ekki voru bananar í. Að "sjóða" var að væta moldina vel með sjóðandi heitu vatni og auk þess að vökva með eiturblöndu. Auðvitað voru engar plöntur í þessum hluta hússins meðan á suðunni stóð. Ég man að eitrið var blandað í tvöhundruð lítra tunnu sem stóð þar hjá á einhverskonar búkkum og saman við vatnið í henni var sett lítið eitt úr mæliglasi af eitrinu "Bladan". Ég var ekki með hanska eða neitt þegar ég sullaðist með eitrið og seinna var mér sagt að þetta væri mjög sterkt eitur. Líklega myndu unglingar í dag ekki vera látnir vinna með eitur af þessu tagi.

Bananarnir í bananahúsinu fengu sjaldan að þroskast í friði. Það var alltof mikil freisting að stela sér fáeinum stykkjum. Yfirleitt voru bananarnir þarna fremur litlir og ég man að stundum stakk maður einum eða tveimur í vasann þegar maður þurfti að fara á klósettið uppi í Byggingu.

Fyrir utan nemendur af Garðyrkjuskólanum unnum við nokkrir unglingar úr Hveragerði þarna. Oft var mikið fjör og læti og þó vinnan væri stundum erfið var hún aldrei leiðinleg.

Ég man að við vorum einhverju sinni að vinna í húsinu nr. 16 eða 17. Ég man bara að það var í fyrsta húsinu austan við nellikkuhúsið. Áslaug Káradóttir (dóttir Kára Tryggvasonar kennara og húsvarðar við Barna og Miðskólann í Hveragerði) spurði mig hvernig mér hefði gengið á einhverju tilteknu prófi í skólanum. "Ágætlega," sagði ég. "Nema ég kunni ekki helvítis sálminn." Þetta sagði ég í mesta sakleysi, en Áslaug og einhverjir fleiri sem þarna voru að vinna hneyksluðust mikið á orðalaginu hjá mér. Að tala um "helvítis sálminn" væri bara hreinlega guðlast.

Gústi var rúmir tveir metrar á hæð. Nemandi við garðyrkjuskólann. Ég man eftir honum við útplöntun á salati skammt frá húsunum númer fimm og sex. Bograndi yfir beðinu með fæturna nokkurn vegin fyrirhafnarlaust sitt hvoru megin við það segir hann: "Já, ég segi nú bara það, að það er betra að vera stór garðyrkjumaður en lítill garðyrkjumaður."

Bjöllur nokkrar fundust í steinseljubeði í húsunum númer 10 og 11. Silakeppir sögðu menn að þær hétu og væru þær hættulausar með öllu. Seinna hélt svo einhver því fram að bjöllur þessar hétu ranabjöllur og væru stórhættulegar öllum gróðri.

Smalli var dökkhærður og talsvert loðinn á löppunum. Hann langaði hinsvegar til að verða eins góður íþróttamaður og Óli Unnsteins sem var ljóshærður og ekki áberandi loðinn á löppunum. Smalli rakaði á sér lappirnar til að líkjast Óla sem mest.

Ólafur Unnsteinsson var ágætur íþróttamaður og varð seinna þjálfari í frjálsum íþróttum, en dó langt um aldur fram. Af einhverjum ástæðum eru þeir bræður hann, Grétar og Reynir mér hugstæðari en margir aðrir.

Þegar við vorum að tína tómata urðum við alltaf græn á höndunum og þau óhreinindi þvoðust ekki auðveldlega í burtu. Aldrei datt okkur þó í hug að nota hanska. Reynir Pálsson var vanur að setja plástur á allar smáskeinur og skurfur á höndunum á sér áður en hann byrjaði að tína tómata. Kannski var hann bara að spæla Guðjón með því að eyða plástrinum frá honum.


98. blogg

 Gleymdi USB-lyklinum mínum heima og þar er Word-skjal með ýmsum minnisatriðum sem að gagni gætu komið við bloggskrifin. Þessi  minnisatriði snúa einkum að endurminningum og þess háttar.

Eitthvað ætti mér samt að leggjast til. Einn aðalkosturinn við bloggið er að hér er hægt að láta móðann mása án þess að nokkur geti gripið fram í fyrir  manni.

Á árum áður varð skógræktaráróður ætíð hvað háværastur þegar Vigdís stakk hríslu í mold. Mér hefur þó alltaf fundist meiri þörf fyrir almenna landgræðslu en skógrækt, en það er víst minni kolefnisjöfnun í henni og minna fyrir stórfyrirtækin að græða á.

Það er kannski útaf þessu sem mér finnst ein eftirminnilegasta vísan úr deilunni miklu um fjölmiðlalögin sem tröllreið þjóðinni árið 2004 vera þessi:

Vanhæfur kom hann að verkinu.

Vigdís plantaði lerkinu.

Bónus hann á

einsog hvert barn má sjá.

Það er mynd af honum í merkinu.

Samt var ég nú eiginlega meiri stuðningsmaður ÓRG en Davíðs í þessu máli. Önnur ljóðlínan er auðvitað alveg útúr kú, en lyftir samt þessari limru í mínum augum.

Frjótæknar held ég að sæðingamenn séu yfirleitt kallaðir núorðið. Mér dettur í hug vísan fræga: Hér áður þurfti bóndinn að borga fyrir kúna / ef bola þurfti að sækja, en nú er þetta breytt. / Því það er komið úrvalslið frá Ameríku núna / sem ólmir vilja gera þetta fyrir ekki neitt.

Þegar ég var á Vegamótum voru þeir Hjörtur á Fossi og Jóhannes á Furubrekku frjótæknar fyrir allt Snæfellsnesið (að ég held) og komu oft við á Vegamótum. Einu sinni sagði Hjörtur mér frá því að þegar hann mundi setjast í helga steininn margfræga gæti hann vel hugsað sér að setjast að á Vegamótum og þar væri langlíklegasti staðurinn fyrir þéttbýlismyndun á sunnanverðu nesinu. Eiginlega er ég alveg sammála honum.

Dætur Jóhannesar á Furubrekku unnu hjá mér á Vegamótum hver á eftir annarri. Ég man einkum eftir Láru, Unu og Ingunni. Kannski voru þær fleiri og syni átti hann eflaust líka.

 

Áslaug, Benni og Hafdís fóru í gærkvöldi í bókaskipið og keyptu sér fáeinar bækur. Ég hef orðið var við, að sumir halda að eingöngu séu guðsorðabækur til sölu í þessu skipi og það hélt ég eiginlega fyrst og líklega hefur fjölmiðlum skilist það einnig. Svo er þó alls ekki. Þarna eru allskonar bækur til sölu og ekki er útilokað að ég fari þangað á næstunni.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband