Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2014

2160 - Úr minningargreinum o.fl.

Lestur minningargreina er þjóðarsport íslendinga og allir þekkja lestur dánartilkynninga í Ríkisútvarpinu. Hér birtist stutt samantekt með tilvitnunum í minningargreinar sem hugsanlega hefðu þurft frekari yfirlestur.

 „Gönguferðin þeirra varð styttri en menn vonuðu. Banvænn sjúkdómur beið hennar bak við stein og sló hana fljótt til jarðar.“

„Hún hafði það sterka skapgerð að smá rigningarsuddi setti hana ekki úr jafnvægi.“

„Hann var sannur Íslendingur og dó á 17. júní.“

„Þrátt fyrir góða greind gekk hún aldrei í kvenfélag.“

„Það er löngu vitað mál að bestu og skemmtilegustu vinina eignast maður í lúðrasveitum.“

„Hann skrapp úr vinnunni til að fara í þrekpróf hjá Hjartavernd, en kom þaðan liðið lík.“

„Ég bið þann sem lífið gaf að hugga, styrkja og bæta aðstandendum skaðann.“

„Tók hann fráfall konu sinnar mjög nærri sér vegna barnanna.“

„Þar voru m.a. Ásta Gunnarsdóttir og Guðríður Bjarnadóttir frá Folafæti. Enda þótt Ásta væri þá hálfslæm í fæti lék hún við hvern sinni fingur.“

„Sigríður lést þennan dag kl 16. Sigríður hafði ætlað að eyða deginum í annað.“

„Í dag kveðjum við kæran samstarfsmann og félaga. Hann tók sér tveggja daga frí til að kveðja þennan heim.“

„Og má segja að hún setti ekki svo skál af tvíbökum á borð að ekki stafaði af því mýkt og listfengi.“

„Orð þessi eru skrifuð til að bera hinum látna kveðju og þakkir frá tengdafólki hans og ekki síður frá tengdamóður hans þótt nú nálgist 20.árið frá fráfalli hennar.“

„Hún bjó manni sínum gott heimili og ól honum 9 hraust börn, þar af tvö á sjómannadaginn.“

„Ágústa giftist ekki og eignaðist ekki börn í venjulegum skilningi þess orðs.“

„Á þessum fjölbreytta lífstíl sínum kynntist Jóhann mörgum mönnum af ýmsum þjóðernum, þ.á.m. Indjánum og Kínverjum. Hann lærði tungumál þeirra að minna eða meira leyti, einkum ensku og norðurlandamálin.“

“Persónulega, góði vinur, þakka ég og konan mín þér fyrir innileg samskipti á umliðnum árum. Guð varðveiti þig. Vertu sæll, ég kem bráðum.”

“Bréf barst að heiman, það færði mér fréttina: Nonni frændi er dáinn. Það hlýtur að hafa verið gott að vera kind í fjárhúsunum hans Nonna frænda.”

“Drottinn minn gefðu dánum ró og hinum líkin sem lifa.”

“Nú á morgun, þegar Jónas tekur tösku sína fulla af góðum fyrirbænum og þakklæti og hefur sig til flugs af brautinni, rísum við samstarfsmenn úr sætum og veifum til hans og þökkum samverustundirnar.”

“Þeir sem guðirnir elska deyja ungir. Þessi orð koma mér í huga þegar ég minnist afa. Hann var 93 ára þegar hann lést.“

Svo er hér eitt gullkorn til viðbótar, sem pennaglöp ollu:

„Hann giftist eftirlifandi eiginkonu sinni og átu þau tvö börn.“

Ekki er neinn vafi á því að Guðni Ágústsson hefur valdið framboði framsóknarmann í Reykjavík miklum skaða með því að hætta við framboð sem flestir reiknuðu með að væri frágengið. Mér finnst líka að með hverjum deginum verði ólíklegra að sjálfstæðisflokkurinn klofni. Annars er pólitíkin heldur leiðinleg þessa dagana. Flestir virðast bíða eftir úrslitum bæjarstjórnarkosninganna þó ólíklegt sé að þær breyti nokkru. Óþörfustu þjónar alþýðunnar (alþingismenn) eru víst ennþá í páskafríi. Örugglega reyna þeir eftir mætti að gera allt vitlaust þegar þeir fara af stað. 

Sagt er að útgerðin muni ganga illa á næsta ári, sé miðað við undanfarin ár, og því sé nauðsynlegt að lækka veiðigjöld verulega. Einhvern vegin finnst mér þetta ekki nógu trúverðugt. Kannski hefur heimsmarkaðsverð á einhverri fisktegund lækkað verulega og hugsanlega er þetta byggt á einhverjum útreikningum, en mér finnst ekki að stjórnmálamenn þurfi að hlaupa til útaf þessu.

Ómar Ragnarsson segir íslensk yfirvöld hafa alla tíð stundað umfangsmikil mannréttindabrot með því að fylgjast vel með einstaklingum. Sennilega er það alveg rétt. En lagafyrirmæli um slíkt eru oft mjög óljós. Yfivöld víla ekki fyrir sér að slá eign sinni á hentungar jarðir og allskyns eignir ef líkur eru á að komast megi upp með slíkt. Ásgautsstaðamálið er gott dæmi um það. Ef ítrustu lagafyrirmælum væri þar fylgt þyrftu eigendur a.m.k. fjögurra til fimm húsa að láta rífa þau og sveitarfélagið Árborg yrði þá örugglega skaðabótaskylt. Löggiltir eigendur jarðarinnar yrðu kannski ekki mikið betur settir á eftir og bæjarstjórn Árborgar treystir á að til slíkra skaðabóta komi ekki. Svo getur þó vel farið og eru dómafordæmi fyrir slíku. Greiðsla fyrir ólöglega notkun jarðarinna um langan tíma kemur einnig til greina. Bæjarstjórn Selfoss fór ekki vel útúr svonefndu Votmúlamáli á sinni tíð. Vera kann að þetta mál sé ekki eins umfangsmikið og það var og ekki heldur sé hægt að líkja því við Vatnsendamálið fræga í Kópavogi hvað umfang snertir. Öll þessi mál eru þó a.m.k. skoðunar verð. Eftir að gjafsókn í málum var felld niður vegna þess að hún var of dýr fyrir ríkið horfa fátæklingar mjög til embættis Umboðsmanns Alþingis um leiðréttingu sinna mála gagnvart yfirvöldum. Í þessu máli er það kannski besti kosturinn.

IMG 0346Brúsapallur af minni gerðinni.


2159 - Kalda stríðið endurvakið

Bloggskrif þar sem vaðið er úr einu í annað virðast henta mér nokkuð vel. Að sumu leyti finnst mér ég vera að skrifa fyrir lesendur mína og það sem þeir vilja helst sjá. Samt meina ég alveg það sem ég skrifa. Hef bara enga þolinmæði til að skrifa langt mál um eitt og sama efnið. Yfirleitt er ég búinn að skrifa það sem ég vil segja áður en varir. Orðhengilsháttur á þó vel við mig og auðvitað gæti ég skrifað langt mál um lítið efni. Með æfingunni hefur það orðið mér auðvelt að láta móðann mása skriflega. Minningabrotum reyni ég í seinni tíð að sáldra samanvið heimspeki, pólitík og fréttagraut. Hugsun mín er sú að fæla sem fæsta frá og þessvegna vil ég ekki einbeita mér að neinu.

Það er svolítið hastarlegt fyrir óbreytta borgara í Úkraínu að þurfa að sæta því að seinni hálfleikur kalda stríðsins skuli hefjast þar. Þegar Sovétríkin féllu um 1990 sællar minningar var það ekki endilega sigur fyrir Kapítalismann þó margir hafi túlkað það þannig. Næstu áratugina verða það einkum USA, ESB og Kína sem geta gælt við stórveldisdrauma. Pútín vill koma Rússum í þann hóp og honum er alveg sama þó einhverjir tapi á því. Hingað til hefur þráteflið í Palestínu og Ísrael nægt mönnum, en svo er víst ekki lengur.

Sá eina feita og loðna býflugu á sumardaginn fyrsta í sumarbústaðahverfinu við Úthlíð í Biskupstungum. Þetta er sú fyrsta sem ég sé þetta vorið. Þær eiga víst ekki að geta flogið en gera það samt. Kannski koma fleiri í ljós fljótlega ef hlýindin haldast. Sumardagurinn fyrsti stendur kannski undir nafni í þetta sinn.

Því hefur verið haldið fram (Jón Björnsson) að greindarvísitala fólks lækki um 10 til 15 stig við það að verða ríkt. Þetta finnst mér trúlegt, eða hittó. Auðvitað er gott fyrir okkur sem ekki erum rík að hugga okkur við eitthvað. Allar vísitölur eru húmbúkk. Greindarvísitölur ekki síst. Það er engin leið að smíða svo gott greindarpróf að það mæli rétt allskonar greind hjá öllum. Suma greind hjá sumum væri nær lagi.

Nú man ég allt í einu eftir því að ég ætlaði að skrifa eitthvað um rafbækur. Þær eru á margan hátt áhugamál mitt númer eitt. Ég ætti eiginlega að vera sæmilega kvalifíseraður til þess eftir að hafa staðið að mestu leyti fyrir stofnun Netútgáfunnar á sínum tíma. Einnig hef ég að líkindum verið fyrsti ritstjóri raf-tímarits á landinu. Sjá Rafritið. Þetta er víst urlið: http://snerpa.is/net/rafrit/raf.htm . Nei, eiginlega var Rafritið ekki fyrsta raftímaritið heldur fréttabréf PC-tölvuklúbbsins, en það var heldur ómerkilegur samsetningum og líklega hvergi að finna á Internetinu. Jæja, þetta er víst nóg af sjálfhælni í bili. Skrifa kannski meira um rafbækur við tækifæri. Svo á ég víst eftir að fella fleiri palladóma um Moggabloggara. Þeir eru sumir ágætir. Of pólitískir samt fyrir minn smekk.

Og síðan er það Ásgautsstaðamálið, ekki má gleyma því. Kannski verður það á endanum bara betra að ég minnist ekkert á það hér í blogginu mínu. Það er alltaf verið að reyna að beina því á nýjar brautir.

IMG 0341Græni kallinn.


2158 - Þjóðremba og pólitík

Stundum finnst manni jafnvel að þjóðremdustu menn haldi að ekkert hafi gerst í heiminum áður en Ísland byggðist. Mér finnst það undarlegt í meira lagi. Mál það sem flestir álíta að víkingar hafi talað líkist einna mest íslensku af núlifandi málum. Auðvitað er það einkum vegna þess hve fáir, smáir og einangraðir við vorum öldum saman sem málið varðveittist svona vel. Að öðru leyti voru víkingarnir ekkert sérstaklega íslenskir þó líklega hafi ríkt víkingamenning hér á tímum þjóðveldisins. Ekki veit ég af hverju iðnbyltingin svokallaða sneiddi næstum alveg hjá Íslandi. Einhverjar skýringar hljóta að vera á því.

Þeim Sigmundi og Bjarna var treyst til þess að koma útgerðinni til aðstoðar. Steingrímur hafði að vísu gert það, en með „hangandi hendi“ og það var eins og hann vildi í raun eitthvað allt annað. Auðvitað var ekki ætlast til að þeir fóstbræður Simmi og Bjarni glutruðu fylgi sínu svo fljótt sem raun virðist vera. Vitanlega er það ekki létt verk að láta þrælana vera ánægða meðan svindlað er á þeim. Því var samt trúað að þeir gætu þetta. 

Sjálfur var ég orðinn þrítugur þegar ég fór í fyrsta sinn til útlanda. Afastelpan mín, hún Tinna, er ekki nema fjögurra ára, en hún er samt í Ameríku í annað sinn núna. Þetta finnst mér undirstrika vel þann mun sem er á kynslóðum þeim sem þetta land byggja. Þegar við, konan mín og ég, fórum í fyrsta sinn til útlanda var það með Gullfossi sáluga. Fyrsti viðkomustaður var Dublin. Ég man að skipið lagðist að bryggju talsverðan spöl frá miðborginni og við tókum leigubíl þangað og bílstjóri hans skildi okkur eftir á umferðareyju beint á móti pósthúsinu. Nokkrar akreinar fullar af bílum voru í hvora átt og við vorum dálitla stund að átta okkur á hvernig við ættum að komast yfir. Höfðum semsagt aldrei séð aðra eins breiðgötu. Við fórum á pósthúsið frekar en ekkert og furðuðum okkur mikið á allskyns minnismerkjum þar.

Mér finnst það mikil grunnhyggni hjá Agli Helgasyni að kenna netverjum um hringsnúning Guðna Ágústssonar. Framsókn er í vandræðum í Reykjavík. Guðni hefur aukið þau vandræði. Samt er það ekki bara honum að kenna. Þetta á sér langa sögu. Óvinsældir ríkisstjórnarinnar eru sennilega meiri á höfuðborgarsvæðinu en úti á landi. Að öllu jöfnu ættu vandræði Framsóknarflokksins í Reykjavík einkum að koma Sjálfstæðisflokknum til góða. Ekki er víst að svo verði nú.

Talað er um að bókasöfn vilji gjarnan fá að lána út rafbækur. Hingað til hef ég álitið að hættan á kópíeringu væri of mikil til að líkur væru á slíku. Svo þarf þó ekki að vera. T.d. væri hægt að hugsa sér að bækurnar væru á heimasíðu sem erfitt eða nær ógerlegt væri að kópíera. Einnig er hugsanlegt að skrár sem dánlódaðar væru eyddu sér sjálfar að ákveðnum tíma liðnum. Hvernig sem á málið er litið væri þetta til mikilla þæginda fyrir viðskiptavini safnanna. Tæknilega er svosem ekkert þessu til fyrirstöðu. Bókasöfn lána nú þegar hljóðbækur. Sú þjónusta held ég að fari mjög vaxandi.

Einhver gáfumaður hélt því fram opinberlega að matvælaverð væri alltof lágt hér á landi og þessvegna væri svona miklu hent af mat. Að menn skuli stunda nám til að komast að svona heimskulegum niðurstöðum er yfirgengilegt. Einhverjir netverjar mótmæltu þessu og telja laun þessa snillings augljóslega alltof há. Að dómi sumra pólitískra skribenta eru þeir þar með farnir að dreifa óhróðri og allskonar skít um hann.

Eiður Guðnason bendir á að málfari í auglýsingum sé oft verulega ábótavant. Þessu hef ég sjálfur tekið eftir og finnst að auglýsendur hjá stórum fyrirtækjum hafi enga afsökun. Ríkisfjölmiðlar og auglýsingastofur ættu að kappkosta mun betur en nú er að vanda málfar sitt. Einhverjum verður að vera hægt að treysta. Orðabókum er auðvelt með hjálp netsins að fletta upp í. Kennsla í því ætti að vera í hverjum skóla. Óþarfi er að kenna skrift og gæti hún sem best fallið inn í teikningu. Handskrifaður texti heyrir brátt sögunni til. Þó er ekki hægt að afskrifa hann í einu vetfangi.

Líklega er við engan sérstakan að sakast um það hve Ásgautsstaðamálið gengur hægt. Sú leið blasir á margan hátt við að fara í einkamál við Árborg og/eða sýslumannsembættið á Selfossi, en það er hugsanlega bæði dýrt og óvissa um hvenær þeir peningar skila sér aftur. Nýjar leiðir er þó nauðsynlegt að kanna. Fjölmiðlar vilja ekki sinna þessu og heldur ekki pólitíkin. Það er svo borðleggjandi og auðvelt að sanna að yfirvöld hafa þverbrotið lög með háttalagi sínu í þessu máli að farvegur þarf nauðsynlega að finnast fyrir það. Fræðast má meira um þetta mál í bloggi mínu frá 10. desember s.l. og auk þess liggja allar upplýsingar um það fyrir í opinberum skjölum.

IMG 0332Og enn er mótmælt.


2157 - Unglingabækur

Hver er galdur rithöfundarins? Það er að láta lesandann skilja sig. Allt það óskiljanlega bull sem nútildags er skrifað skilur höfundurinn kannski sínum skilningi, en hugasanlegt er að lesandinn skilji það alls ekki. Já, en lesendurnir eru misjafnir. Sumir skilja allan fjandann, en sumir skilja ekki neitt. Það er einmitt galdurinn. Að skrifa þannig að sem flestir skilji.

Ég mundi verða foj við ef ég hefði lagt mig fram um að skrifa bók og svo væri hún kölluð unglingabók í niðrunarskyni eingöngu. Þetta þurfti Vilborg systir hans Bjössa að sætta sig við. Þegar hún vann uppi á Stöð 2 hjálpaði ég henni við að prenta út handrit af „Korku“ sem hún kallaði fyrstu bókina sína þá. Minnir að hún hafi verið nefnd eitthvað annað þegar hún kom út. Í einhverjum lista sem ég sá seinna var hún kölluð unglingabók og flokkuð samkvæmt því. Hver er munurinn á unglingabók og fullorðinsbók? Er það bara snobbmunur? Það finnst mér. Kannski eru hlutir útskýrðir aðeins betur í unglingabók (young adults) annars held ég að það fari einkum eftir skapi flokkunarmeistarans þá stundina hvort bók lendir í því að vera kölluð unglingabók eða fullorðins.

Mér finnst skipta svolitlu máli hver verður niðurstaðan af fyrstu skoðanakönnuninni sem gerð verður eftir framboð Guðna Ágústssonar. Þó eru víst ekki öll kurl komin til grafar í því máli. Annars eru sveitarstjórnarkosningarnar í maí ekkert sérlega áhugaverðar. Getur verið að framsókn og nýji sjallaflokkurinn sameinist? Þetta er bara hugmynd sem ég fékk svona óforvarendis. Kannski Doddson taki bara Simma uppí til sín.

Ef ég ætti að sálgreina nokkra Moggabloggara væri það einhvernvegin svona: Best að hafa sjálfan sig fremstan svo það valdi engum misskilningini. Mér finnst ég vera fjölbreyttur og blogga um allt mögulegt og ómögulegt. Hugsanlega mest um stjórnmál og blogg. Kannski er ég líkastur Jens Guði, nema hvað hann er miklu fyndnari, betur að sér um tónlistarmál og skreytir mál sitt oft með myndum sem hann finnur víðsvegar um netið, en ég læt mér aftur á móti mínar eigin myndir duga, þó lélegar séu.

Jens Guð er alveg ómetanlegur. Sögur hans, bæði af Lullu frænku og ýmsum öðrum eru óviðjafnanlegar.

Páll Vilhjálmsson er undarlegur bloggari. Hann bloggar stutt og oft og bara um eitt ákveðið málefni, en nær umtalsverðum vinsældum samt. Vitanlega les ég ekki blogg allra Moggabloggara, en stórhausana er ég farinn að kannast við flesta.

Ómar Ragnarsson er á margan hátt hinn dæmigerði besservisser í hópi bloggara. Flest veit hann betur en aðrir og hefur alltaf rétt fyrir sér. Kannski er hann bara svona fróður og hefur lagt allar umtalsverðar fréttir á minnið. Kannski bara svona fljótur að gúgla.

Jón Valur Jensson skrifar og skrifar en gafst samt upp á guðfræðinni og hefur nú sett sér það markmið að forða íslendingum frá því að ganga í ESB, jafnvel þó það kosti hann tíu blogg á hverjum einasta degi. Skyldi einhver lesa öll þessi ósköp?

Villi í Köben lítur á sjálfan sig sem umboðsmann Ísraelsstjórnar og hefur oft rétt fyrir sér. Skrifar vel.

Nú sé ég að blaðið er að verða búið og ég á hvort eð er eftir að minnast á Ásgautsstaði og að Björn Bjarnason er of hátíðlegur fyrir minn smekk. Aðrir verða að bíða.

IMG 0264Byggingarsvæði.


2156 - Óli Andrésar

Ekki þarf nú mikið til. Fréttirnar, ef fréttir skyldi kalla, nú um páskana hafa einkum snúist um það hvort Guðni ætli eða ætli ekki. Mér finnst heimskulegt að láta framsóknaraumingjana alltaf ráða umræðunni.

„Betra er blátt en ekkert.“ Þetta var málshátturinn í einu páskaegginu sem hér var opnað. Sem betur fer er ég ekki Reykvíkingur. En ef ég ætti einungis um það tvennt að velja að kjósa Íhaldið eða Framsókn, þá mundi ég sennilega breyta þessum málshætti lítilsháttar og segja að blátt væri skárra en grænt.

Óli Andrésar í Borgarnesi (var sannfærður kommúnisti – tók samt veðurskeytin á hverjum morgni og ekki mátti trufla hann við það) sagðist vera að hugsa um að kjósa Sjálfstæðisflokkinn beint í næstu kosningum því alltaf endaði hann í stjórn. Þegar ég var í Borgarnesi voru Óli Andrésar og Maddi æðstu menn í Vatikaninu. Einhverju sinni var Guðni Ágústsson þar á ferð í kosningaundirbúningi að boða framsóknarfræði. Ekki sótti hann gull í greipar þeirra Vatikanmanna.

Margar sögur eru til um Óla. Man eftir einni eða tveim. Einhverju sinni ætluðu þau hjónakornin í berjamó á sunnudegi. Óli tiltók klukkan hvað væri best að leggja af stað. Settist svo útí sinn Bronkójeppa nokkru fyrir þann tíma. Þegar réttur tími var kominn ók hann af stað. Konan hans var þá eitthvað að stússa við nesti eða ílát undir berin og missti því af brottförinni. Sagan er víst ekki lengri.

Svo er sagt að þau hafi einu sinni ætlað að fara „hringinn“ sem kallað var. Þegar komið var til Egilsstaða sá Óli fram á að bensínpeningarnir mundu ekki duga alla leiðina svo hann sneri við.

Páskarnir eru helgislepjutímar. Gleði-sneyðslan er þó alveg óþörf. Óþarfi er líka að amast við trúrækni. Hún er öllum holl. Hvort sem trúað er á Guð, Jesú eða eitthvað annað. Jafnvel ekki neitt. Umfram allt samt ekki yfirstéttina.

Nú er kommúnisminn kominn upp í mér. Ég get bara ekkert að þessu gert. Vorið kemur samt.

Hér að framan minntist ég á yfirstéttina sem mergsogið hefur almenning hér á landi. Þá komu Ásgautsstaðir að sjálfsögðu upp í hugann. Nú er ég búinn að minnast á þá svo hægt væri að senda þetta blogg út í eterinn þess vegna.

IMG 0260Skriðið til skemmtunar.


2155 - Páskar

Nú er semsagt kominn laugardagurinn langi (hehe) og ég hef ekki sett upp blogg síðan á mánudaginn. Eitthvað verður að gera í þessu.

Sýnist að margir bloggarar leggi áherslu á að fjalla bara um eitt málefni í hverju bloggi. Þetta hef ég aldrei getað vanið mig á. Til þess þyrfti ég að blogga oft á dag. Geturðu þá ekki bara skrifað á fésbókina eins og svo margir aðrir? Jú, auðvitað gæti ég það, en tvennt mælir á móti því. Í fyrsta lagi kann ég voðalega lítið á hana og þar að auki yrðu þessi blessuð blogg mín sennilega lesin af ennþá færri ef ég gerði það. Vitanlega veit ég það samt ekki, en íhaldssemi mín er slík að ég held tryggð við Moggabloggið þrátt fyrir allt. Vitanlega er þetta samt bara safn af athugasemdum. Þar er ég semsagt virkur.

Skammstafanir geta flækst fyrir. T.d. held ég að ÖSE þýði Öryggis- og Samvinnustofnun Evrópu. Mest ruglandi er að sumar skammstafanir eins og t.d. NATO eru á ensku en ekki íslensku. Engin furða þó Simma sé uppsigað við þær. Hvernig á t.d. að vita að IMF og AGS er í sumra huga nákvæmlega það sama.

Af hverju kalla Íslendingar sig Íslendinga? Er það ekki bara eitthvert rómantískt rugl? Eiginlega væri miklu sniðugra að heita Grænlendingur. Svo er norski fáninn mun smartari en sá íslenski. Annars er ég orðinn svo vanur því að vera kallaður Íslendingur að ég er hættur að kippa mér upp við það. Hvað er íslensk þjóðremba? Íslensk kjötsúpa sem hellt er yfir hausinn á Björk og Sigurrósu. Já, vel á minnst. Mamma mín hét Sigurrós. Alltaf kölluð samt Rósa. Í mesta lagi Rósa á Bláfelli. Var einmitt að hugsa um það áðan að sniðugt væri að búa til vef sem héti „blafell.is“ en þá er náttúrlega eitthvert smáhótel á Austurlandi búið að stela því léni. Snjallt hjá pabba samt að skíra húsið Bláfell. Þá var nefnilega ekki búið að finna upp götuheiti og húsnúmer. A.m.k. ekki í Hveragerði.

Eiginlega er bara ágætt að skrifa einhverja árans dellu. Kannski verður það snilld með tímanum. Af hverju er snjórinn hvítur? Já, þetta er víst einskonar páskahugleiðing. Svona rugl eins og þetta ætti betur heima á fésbókinni, en svona virðulegu bloggi eins og Moggabloggið þykist a.m.k. stundum vera. „Beautiful nonsense“ var bull eins og þetta einu sinni kallað. Einhver Burrougs sem þó var ekki höfundur Tarsanbókanna og Henry Miller sem var mest krassandi og klámfengnasti rithöfundur sem ég komst í kynni við á unglingsárunum voru skrifaðir fyrir því. Klaus Rifbjerg var líka ágætur, en hélt víst að hann væri alvöru-rithöfundur.

Eftir því sem maður eldist og hefur frá meiru að segja, segir maður minna, en skrifar þeim mun meira. Þannig er það með mig. Mér finnst ég alltaf þurfa að vera að skrifa. Útrás fyrir það fæ ég hér á blogginu mínu. Sumir (margir) fá þá útrás á fésbókinni. Afleiðingin er sú (finnst mér) að hún er óskapnaður sem engin leið er að botna í. Bloggið hefur þó enda en reyndar enga byrjun frekar en fésbókin.

Og svo eru það Ásgautsstaðir. Bráðum verð ég sennilega að taka upp það ráð að hafa niðurlagið alltaf eins. Minna á hvenær ég byrjaði á þessari vitleysu (10. des s.l.) og hvenær ég hætti þessu. (Ekki enn).

IMG 0258

Fjöldi af boltum.


2154 - Land er ekki hægt að eiga

Mér er vel ljóst að orðið „hægt“ sem þarna er, getur haft tvenns konar merkingu: Auðvelt og mögulegt. Seinni merkingin er nútildags miklu algengari og ég meina þetta þannig.

Einn mest notaði „frasinn“ sem náttúruverndarfólk notar er um það að við „eigum“ ekki landið heldur séum aðeins með það í láni frá afkomendum okkar. Það eru margir áratugir síðan ég heyrði þetta fyrst, en það er vissulega mikill sannleikur í þessu fólginn.

Atburðirnir við Geysi hafa mikla pólitíska þýðingu. Skiptingin vinstri og hægri er að miklu leyti að verða úrelt. Fyrst og fremst má segja að hún snúist um mikil eða lítil afskipti ríkisins af atvinnumálum. Skiptingin er miklu fremur núna eftir eignarréttarhugmyndum, mengun og mannréttindum. Stjórnmál hafa alltaf verið flókin. „Elítan“ hefur ætíð reynt að halda „pöplinum“ sem mest frá þeim. Nú á tímum Internetsins og snjallsímanna er það orðið erfiðara en áður. Óvíst er t.d. að yfirvöldum hér á Íslandi takist endalaust að stela frá almenningi eins og tíðkast hefur.

Land er ekki mögulegt að eiga. Eigarrétturinn að öðru leyti getur heldur ekki verið undantekningalaus. Hægt er að segja að Bandaríki Norður-Ameríku séu heimkynni einka-eignarréttarins. Þar í landi var hart tekist á um réttindi svarta minnihlutans á áratugunum eftir miðja síðustu öld. Viðurkennt var að lokum að „svokallaðir eigendur“ þjónustufyrirtækja gætu ekki neitað viðskiptavinum um þjónustu á grundvelli litarháttar og ríkjum bæri skylda til að leggja niður allan rasisma.

Það er skárra að vera vanmetinn en ofmetinn. Best er auðvitað að vera rétt metinn. Að vísu er ekki alltaf kostur á því og alltaf hætta á að mat annarra á manni hallist í aðra hvora áttina. Mjög vafasamt er að láta mat annarra ráða of miklu. Með því að kunna svolítið á tölvur og gúgl er auðvelt að þykjast miklu gáfaðri en maður er. Allir geta sýnst afburðagáfaðir bara ef þeir kunna að koma fyrir sig orði. Vegna ofurvalds menntunar og orðkyngi breyttust áherslur dálítið og farið var að reyna að skara framúr líkamlega og útlitslega og dýrkunin á líkamanum og útlitinu hófst. Tískusveiflur og íþróttir urðu mál málanna. A.m.k. í huga sumra. Reyndar er orðtakið „fögur sál í fögrum líkama“ haft eftir forn-Grikkjum, ef ég man rétt. Orðskviðir ljúga þó oft.

Oft hefur verið sagt að líf mannsins sé þrotlaus leit að einhverju nýju. Djöfulgangurinn í bíómyndum og fjallgöngum ber þessu glöggt vitni. Útivera tekur þó flestu fram og íslensk útivera er ólík flestri annarri. Þar kemur til hættan (eða hættuleysið), mannfæðin, einangrunin, fjölbreytileikinn og veðrið. Gönguferðir mínar á fimmtugs og sextugsaldri um Laugaveg, Kjöl, Fimmvörðuháls, Hornstrandir og víðar eru mér miklu eftirminnilegri en utanferðir til ýmissa landa um svipað leyti og fyrr. Hræddastur er ég þó um að gönguferðir nútildags séu orðnar miklu útlandalegri en áður var.

Já, og svo á ég Ásgautsstaði alveg eftir. Þann 10. desember s.l minnir mig að ég hafi gert talsverða grein fyrir þessu máli og minnst á það í öllum mínum bloggum síðan. Nenni ómögulega að fara að rekja það alltsaman núna.

IMG 0254Stokkið af tilfinningu. 


2153 - Tvær pizzur

Og sú fyrri í desember næstkomandi. Hin kannski aldrei. Andstæðingar aumingja Sigmundar Davíðs halda því fram að skuldaleiðrétting hans sé ekki meira virði, þó hún sé heimsmet.

Þó Simmi sé slæmur þá held ég að hann sé ekki svo slæmur.

Ég trúi því semsagt að þetta séu ýkjur einar og því til sannindamerki er ég búinn að ákveða að fá mér ÞRJÁR pizzur. Jafnvel strax í janúar.

ESB-umsóknin var gölluð. Einkum voru svik VG í því sambandi áberandi, því margir sem kusu þá gerðu það einmitt vegna andstöðu þeirra við sambandið. Þó umsóknin hafi verið gölluð, að því leyti að ekki var neitt öruggt með stuðning þjóðarinnar við hana, er það ekki næg ástæða til að slíta viðræðunum fyrirvaralaust. Þetta er mál sem þjóðin öll á að fá að ráða. Asnalegt væri samt að kjósa núna um það hvort halda skuli viðræðunum áfram. Eðlilegast er einfaldlega að láta málið malla fram að næstu kosningum, eins og mér sýnist að ætli að verða ofaná. Um hvað á að kjósa að þeim loknum? Ekki verða þær kosningar eingöngu um ESB-aðildina. En koma tímar, koma ráð.

Geysis ævintýrið verður alltaf skemmtilegra og skemmtilegra. Ekki bregst Ástþór þó hann sé í einhverskonar banni hjá sjónvörpunum. Það var sniðugt hjá honum að taka bara skiltin hjá þeim að Geysi og fara með á Þingvöll þar sem hann tók uppá því að rukka saklausa túrista fyrir að vera að flækjast þar. Hugmyndaríkur er hann. Ekki verður það af honum skafið.

--------------------------------------------

Ímyndað leikrit, sem kannski hefur gerst hjá stóru símafyrirtæki á Íslandi dagsins í dag.

Forstjórinn: (heldur á excel-skjali sem hann hefur greinilega verið að stúdera.) hér stendur að áætlaðar tekjur okkar á næsta ári verði 942 milljónir.

Bókarablók sem greinilega er skíthrædd við náðugan forstjórann: Já.

F: En kostnaðurinn 300 milljónum meiri.

BB: Já. Það lítur þannig út.

F: Við verðum þá að hækka tekjurnar.

BB: Ja, það mætti náttúrlega reyna að minn.......... (Talið deyr út því F. er frekar ógnvekjandi.)

F: Mér sýnist að notendur okkar þjónustu séu um 30 þúsund og áskriftarleiðirnar 80.

BB: Já, það er alveg rétt.

F: Og gert sé ráð fyrir að eyða 150 milljónum í auglýsingar.

BB: Já.

F: Þá er verkefnið að finna út hvaða áskriftarleiðir er best að auglýsa, svo hala megi inn þessar 300 milljónir. Kannski þarf að hætta við einhverjar ódýrar leiðir. Allt verður að athuga.

BB: Já, herra. Ég skal vinda mér í það. Liggur ekki á þessu?

F: Jú.

--------------------------------------------

Íslendingar hafa nú loksins samið og flutt alvöru óperu. Ég á reyndar bágt með að skilja hvers vegna nauðsynlegt er að leikendur bresti í söng og finnst sálarlíf þeirra ekkert skiljanlegra fyrir vikið. Tónlistin skýrir eflaust margt fyrir sumum í því sambandi, en hún gerir lítið fyrir mig.

Jæja, hvað um það. Efnið er að vísu dálítið margþvælt en fjallar að sjálfsögðu um Ragnheiði biskupsdóttur sem Daði Halldórsson í Steinsholti fór uppá um árið (eða fór hún á hann?)

Daði Halldórsson átti dóttur sem Ingibjörg hét og sonur hennar hét að sjálfsögðu Daði. Sá Daði átti son sem Guðni hét. Guðni átti son sem Jón hét. Sá Jón átti dóttur sem Þorbjörg hét og var móðir Jórunnar ömmu minnar. Annars fer því fjarri að ég sé vel að mér í ættfræði, en Íslendingabók fullyrðir þetta og ekki efast ég um það guðspjall.

Nú var ég næstum búinn að gleyma Ásgautsstöðum, en það reddaðist á síðustu stundu.

IMG 0253Bekkirnir bíða vorsins.


2152 - Áróður hefur áhrif

Týnd er æra, töpuð sál
tungl veður í skýjum.
Sunnefunnar sýpur skál
sýslumaður Wium.

Sumar vísur eru þannig að maður lærir þær samstundis. Þessi vísa er þeirrar gerðar. Alveg er ég viss um að ég hef bara lesið hana einu sinni. Reyndar man ég ákaflega lítið um Sunnefumálin svokölluðu. Eflaust mætti þó gúgla ýmislegt um þau og þykjast gáfaður. Held að Sunnefa þessi hafi verið ákærð fyrir að eignast barn með bróður sínum. Meira veit ég ekki um þau mál en vísuna kann ég og er nokkuð viss um að hún er lítið afbökuð. Í þessari vísu er ýmislegt sem bendir til þess að þó Sunnefumálin hafi ugglaust verið þeim Sunnefu og bróður hennar erfið, hefur talsvert verið horft á óþægindi valdsmanna af þessu.

Sagt er að Páll Ólafsson hafi með einni vísu komið í veg fyrir að þegnskylduvinnu yrði komið á hér á Íslandi. Vísan er svona:

Ó, hve margur yrði sæll
og elska mundi föðurlandið heitt.
Mætti hann vera í mánuð þræll.
og moka skít fyrir ekki neitt.

Þessi vísa er greinilega af gerðinni sem ég nefndi. Einnig varð vísa um Þostein sýslumann í Dalasýslu sem komst á flug við lát hans mjög fræg. Hún er svona:  

Fallega Þorsteinns flugið tók
fór um himna kliður.
En Lykla-Pétur lífsins bók
læsti í skyndi niður.

Kannski er þessi vísa ósanngjörn í garð Þorsteins, en það er greinilega hún sem lifir en bókasöfnun hans síður. Held samt að hún hafi verið mjög merkileg.

Alls kyns áróður er nú stundaður af miklu kappi. Fésbók er undirlögð af þessu og auglýsingum allskonar. Fimmaurabrandarar fjúka þar líka um ýmist í myndum, hreyfimyndum eða texta og lyftir það áreiðanlega geði einhverra.

Stjórnmálaáróðurinn hefur sennilega aldrei verið verri. Best er að láta hann eiga sig að mestu, en erfitt er að forðast hann. Ef grannt er skoðað er öll viðleitni pólitísk og alls staðar smjúga stjórnmálin inn. 

Ekki er samt allur áróður pólitískur. Áróður gegn þunglyndi er t.d. mjög áberandi núna. Einn af mínum helstu gúrúum í bloggskrifum er Harpa Hreinsdóttir. Lengi vel las ég blogg hennar með mikilli athygli og geri jafnvel enn í dag. Lærði margt og sníkjubloggaði þar stundum, en var kannski ekki meðal þeirra verstu sem það stunduðu. Hún er líka fésbókarsnillingur, eða virðist vera það. Ég er aftur á móti „analfabeti“ þegar kemur að fésbókinni, þó ég kunni vel að uppnefna hana. Harpa benti nýlega á grein þar sem rætt var um ráð við þunglyndi. Þrátt fyrir ágæt ráð þar svo sem að minnka kaffidrykkju og sykurát, var í lokin sagt: Hvernig líður líkamanum í dag?

Það er þessi áhersla á líkamann og útlitið sem er helsta ástæða þunglyndis i dag að því er ég held. Það dugar skammt að hafa ótakmarkað álit á sinni andlegu getu, ef samanburður, kvíði og ófullnægjukennd stafar mest af líkamanum og útlitinu.

Þegar ég var unglingur var það talsverð útilega að skreppa upp í Reykjadal og jafnvel alla leið í skátaskálann í Klambragili. Seinna meir fauk hann nú í burtu og nú er svo komið að varla er hægt að þverfóta þar fyrir túrhestum ýmisskonar. Í gestabókinni í þessum skála fann ég eitt sinn þessa vísu:

Harðna tekur tíðarfar
Theresía spáir byl.
Hver sem verður tittlings var
veiti honum skjól og yl.

Sennilega hefur þessi vísa haft meiri áhrif á mig en ég hef gert mér grein fyrir. Það eru bæði gæði vísunnar og tvíræðni orðanna sem höfðu mikil áhrif á mig. Man ekki hvort það var um þetta leyti eða síðar sem ég lærði í skólanum undir handleiðslu eftirminnilegra kennara þau grundvallaratriði bragfræði sem hafa fylgt mér síðan.

Ásgautsstaðmálið er orðið mitt mottó í lokin og ég er ekkert að hugsa um að hætta því.

IMG 0227Trampólín með unga.


2151 - Túristi braust inn í ísskáp

Skil ekki sjálfur hvernig ég endist til þess að blogga þetta sí og æ án þess að hafa nokkuð sérstakt að segja. Kannski er þetta einhver skrifþörf, en meðan augljóst er að einhverjir lesa þetta (fáir þó) mun ég halda áfram. Þeir sem leiðir eru orðnir á þessu rausi mínu og vilja fá eitthvað bitastæðara og meira krassandi verða bara að fara eitthvað annað.

Síðasta vika hefur að mestu farið framhjá mér hvað stjórnmál og fréttir áhrærir og þar verð ég að kenna barnabarni mínu um. Þegar maður er kominn á minn aldur og lendir í því að fá barnabarn í heimsókn og gistingu í þónokkra daga þá er ekki um það að ræða að gera margt annað en að sinna þvílíkum orkubolta. Tek það fram að ég er ekki að kvarta.

Túristi braust inn í ísskáp á Siglufirði og svo voru starfsmenn Reykjavíkurborgar að reyna um daginn að brjótast inn í hús (mig minnir í Vesturbænum). Þetta var fullyrt á fésbókinni og þaðan rataði það víst í blöð eða jafnvel dagblöð. Reyndist síðan vera hin mesta vitleysa eins og margt sem á fésbókinni lendir. Þetta segir mér bara að fésbókarræfillinn er að verða of stór hluti í tilveru einhverra. Vonandi samt ekki minni. Ég reyni nefnilega að láta bloggið trompa fésbókina ef ég get. Er þá ekki blessað bloggið að verða alltof stór þáttur í minni tilveru? Jú, kannski og reyndar Internetið allt. Reyni samt að standa upp frá tölvunni öðru hvoru. Og svo eru það barnabörnin sem heimta sitt.

Síðast þegar ég skrapp í Hveragerði (nei, reyndar næstsíðast) ætluðu veðurguðirnir vitlausir að verða. Nú verður maður líklega að reikna með páskahreti fyrst Bjössi býður í súpu á föstudaginn langa. Það held ég endilega að hann geri. Jú, það passar. Ég hringdi í hann áðan og föstudagurinn langi er alveg frátekinn fyrir okkur systkinin.

Það er upplögð leið til mótmæla að gera það bara á laugardögum og helst þarf veðrið að vera sæmilega gott. Það er að vísu svo núna að hægt er að velja um að skreppa að Geysi eða fara niður á Austurvöll. Ég er ekki að grínast neitt og þeir sem standa fyrir þessu eiga heiður skilinn. Hugsanlega getur þetta haft áhrif og að amast við þessu er einfaldlega að setja sig upp á móti Búsáhaldabyltingunni sjálfri. Það er allsekki nóg að kjósa í alþingiskosningum á fjögurra ára fresti og hafa svo einstaka þjóðaratkvæðagreiðslur þess á milli ef yfirvöldum (eða forsetanum) þóknast. Bæjarstjórnarkosningar og forsetakosningar eru bara nokkurs konar skoðanakannanir, dýrar að vísu en afar ófullnægjandi. Fjöldi fólks vill greinilega hafa meira að segja um sín eigin málefni en nú er.

Varðandi Ásgautsstaði vil ég aðeins segja þetta núna. Einsog þeir örfáu sem lesa bloggið mitt reglulega geta hæglega séð hafa viðbrögð (í athugsemdum við bloggið) við áskorun minni til ýmissa aðila varðandi þetta mál lítinn árangur borið. Óskar Helgi Helgason er næstum því sá eini sem sýnt hefur þessu máli einhvern verulegan áhuga. Hann hefur sjálfur haldið úti Moggabloggi og gerir enn. Einnig hefur hann verið útilokaður þaðan, ef ég man rétt. Síðan var hann endurreistur, en ég þekki málið alls ekki út í hörgul. „Svarthamar“ nefnir hann bloggskrifin og þó ég lesi þau ekki oft veit ég að þau eru sérkennileg og málfar hans einnig. Hann virðist þó fylgjast vel með því sem ég skrifa um Ásgautsstaði og hefur að ég held hagsmuna að gæta sem tengjast því máli. En nú er ég semsagt að hugsa um að hætta og fara að sofa.

IMG 0219Köngull. 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband