Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2020

2922 - Vilborg Davíðsdóttir

Nú er Coronavírusinn loksins kominn. Annars gengur hann víst undir ýmsum nöfnum. Covin-19 veiran, Wuhan veiran, Kínalífselexírinn, nei fyrirgefið, Kínavírusinn er það víst. Eða eitthvað annað. Sumir kalla þetta flensu, bara að hún sé mun svæsnari en þessi venjulega. Svo gerir hún (veiran) sér heilmikinn mannamun. Þ.e.a.s. hún leggst mjög misþungt á menn, að sagt er. Auðvitað eru gamalmenni og ungbörn í mestri hættu og margt má um þennan veiruskratta segja. Mér finns hann (vírusinn) óttalega leiðinlegt umræðuefni og mun héðan í frá forðast að minnast á hann.

Ef reynt er að rýna í fréttir fjölmiðla þá virðiast þeir gera sem mest úr hverskyns óáran. Ef ekki hefði komið til Covid-19 veiran og yfirfullar ruslatunnur hefðu fréttir allar verið mun fjölbreyttari. Þessvegna er það ekki nema gott ef bloggarar geta talað um eitthvað annað.

Vísnagerð, bókmenntir og listir hverskonar, jafnvel tækni, eru mun merkilegra umræðuefni, en umgangspestir þó hættulegar séu. Horfði í kvöld á Gettu Betur og var mest hissa á því, að einhverjir héldu í alvöru að Urriðafoss væri Goðafoss. Annars er mesta furða hvað þessir krakkar eru vel að sér. Svo er þetta ekki eintómur páfagaukalærdómur því margir af þessum þátttakendum ná býsna langt á ýmsum öðrum sviðum. Vitaskuld er þetta rjóminn úr viðkomandi skólum og vinsældir þáttarins byggjast mikið á því. Ef ég á að finna eitthvað að þessum þáttum, eins og mín er von og vísa, væri það að stundum skyrpa krakkarnir óskiljanlegum svörum útúr sér í hraðaspurningunum og of mikið er af aukaatriðum og of lítið af spurningum almennt séð í þáttunum.

Stundum er talað um það sem unglingabækur ef hlutirnir eru útskýrðir rækilega. Ég er samt ekki að tala um svokallaðar hrútskýringar. Einhver ákveður að þessi og þessi bók skuli kölluð unglingabók af því að hlutirnir eru útskýrðir nokkuð vel og ekki hlaupið fram og aftur í tímanum eins og tíðkast mjög í fullorðinsbókum. Man vel eftir því að einu sinni þegar Vilborg Davíðsdóttir vann á fréttastofu Stöðvar Tvö kom hún til mín og bað mig að prenta út fyrir sig sögu sem hún kallaði Korku. Kannski hefur Björn bróðir hennar bent henni á mig.

Hvað um það, ég stalst til þess að prenta eintak fyrir sjálfan mig og las bókina og þótti hún nokkuð góð. Nafnið minnir mig að hafi verið tilkomið vegna nafnsins á aðalpersónunni, sem ég held að hafi verið þrælastelpa frá Írlandi milli tektar og tvítugs. Seinna held ég að þessi saga og viðbót við hana hafi verið gefin út undir nafninu „Við Urðarbrunn“ og ég man að ég var svolítið ósáttur við að hún skyldi vera kölluð unglingabók. Fannst hún allsekki vera það og eiga fullt erindi við fullorðna.

„Ég ætla ekki að biðja Guð oftar“, tautaði gamla konan fyrir munni sér þar sem hún stóð í fjörunni og frétti að efnilegur sonarsonur sinn hefði farist í sjóslysi. Af einhverjum ástæðum er þessi setning ótrúlega mögnuð í einfaldleik sínum.

IMG 6293Einhver mynd.


2921 - Skjólkvíar

Mér er alveg sama þó Þorsteinn Siglaugsson sé dálítið mikið hægri sinnaður. Hann les þó bloggið mitt og þreytist ekki mjög á því að kommenta þar og leiðrétta. Sennilega er hann mér að mestu leyti sammála um fésbókarfóbíuna og hver veit nema bloggaðdáendum sé að fjölga á kostnað téðrar bókar. Sumir eru samt á móti Moggablogginu. Ég man sérstaklega eftir því að Stefán Pálsson sagnfræðingur fann því flest til foráttu og spáði illa fyrir því. Ég las nefnilega reglulega bloggið hans í eina tið. Bloggsetrið, sem hann notaði og ég man ekki lengur hvað hét, var alltaf að bila. Auðvitað er Moggabloggið ekkert annað en „glorifíserað“ kommentakerfi. Kostur þess er hinsvegar að það er öllum opið og klikkar aldrei. Einfalt í notkun og talsvert mikið notað. Ég hef sérstakt yndi af því að vera á móti því sem Moggaskriflið vill vera láta, en nota samt Moggabloggið mikið. Ekki finn ég fyrir neinu ósamræmi í því.

Kannski kemur Wuhan veiran til með að heimsækja okkur og kannski ekki. Ekki er ástæða til neinnar ofsahræðslu, þó auðvitað sé annað en skemmtilegt að takast á við svonalagað. Einhverntíma, jafnvel áður en mjög langt um líður, yfirgefur hún okkur. Það gerir flugviskubitið og loftslagsváin hinsvegar ekki. Líka getur verið að eldgos á næstunni valdi okkur miklum vandræðum. Ekki dugir þó að láta hugfallast. Áfram verðum við að lifa í þessu landi. Ef tekið er það skásta úr stefnuskrám flokkanna er vel hægt að hugsa sér að Ísland verði fyrirmyndarríki. Verkföll eru bara spennandi, fyrir alla nema þá sem í þeim lenda. Kannski eru þau meira smitandi en Covid-19 veiran.

Eftir því sem óveðrunum fjölgar verður meira spennandi að bíða eftir vorinu. Eiginlega finnst mér að þessi vetur sé búinn að vera nógu harður og vel mætti fara að vora svolítið.

Þegar Skjólkvíagosið, sem kannski er ekki hægt að flokka með „venjulegum“ Heklugosum var svotil í hámarki fórum við tvær fjölskyldur á Landroverjeppanum hans Harðar að skoða það. Þegar við komum þangað var dálitið dalverpi að fyllast af hrauni og inná hrauninu voru einir tveir gígar á fullu við að spýta glóandi hrauni upp í loftið. Þarna var talsverður mannfjöldi og engin stjórn á neinu. Lyktin og hávaðinn líktist engu öðru og ferðin hefði verið vel þess virði að fara hana þó við hefðum ekki haft annað uppúr henni en þetta.

Krakkarnir þorðu varla út vegna hávaðans aðallega held ég. Sjálfur réðist ég á seigfljótandi hraunstrauminn vopnaður stunguskóflu. Ekki var nokkur vegur fyrir mig að komast nógu nálægt hraunstraumnum til að geta mokað með skóflunni glóandi hrauni nema fá húfufrollu eina lánaða hjá Ingibjörgu systir til að hlífa höfðinu með (aðallega kinninni) fyrir hitanum. Það gerði ég og tókst að ná svolitlu hrauni á skófluna, en ekki var auðvelt að móta það á nokkurn hátt, því það var svo fljótt að storkna.

Við fórum meðal annars gangandi nokkuð útá hraunið í áttina að gígunum og sáum undir fótum okkar glóandi hraunkviku. Ekki leist okkur vel á að fara langt útá það með þessu móti, enda svolítið hættulegt kannski. Líklega vorum við ákafari en aðrir viðstaddir í athugunum okkar á hrauninu.

Síðan fórum við í gönguferð meðfram haunjaðrinum og var vel heitt á annarri hliðinni. Fljótlega komum við að bíl sem hafði fest sig, en Hörður gat dregið hann upp. 20 mínútum síðar var hraunið komið yfir þann stað. Já, við tókum tímann. Fleira frásagnarvert held ég að hafi ekki gerst í þessari ferð, en eftirminnileg var hún.

IMG 6304Einhver mynd.


2920 - Covid-19

2920 – Covid-19

Fréttir hinna hefðbundnu fjölmiðla snúast varla um nokkuð annað en Wuhan eða Covid-19 veiruna eða vírusinn. (Sumir skilja ekkert nema ensku núorðið). Áherslan er þó lögð á ranga þætti hjá flestum fjölmiðlum. Dánartíðnin er „ekki nema“ á milli 2 og 4 %. Auðvitað er það mikið en við suma faraldra er hún miklu hærri, allt uppí 50% eða meir. Nokkrar milljónir manna látast árlega vegna hinnar venjulegu flensu sem oftast á sér upptök í Asíu. Dánartíðnin þar er þó næstum því 1% og engir virðast kippa sér upp við það.

Áhrif veirunnar eða öllu heldur tilrauna til að hefta útbreiðslu hennar geta hæglega orðið til þess að víðast hvar hægir mikið á hagvexti. Það getur aftur haft mikil áhrif á kosningar bæði í Bandaríkjunum og annarsstaðar. Árangur demókrata í Bandaríkjunum gæti sem hægast orðið mun meiri en nú er gert ráð fyrir. Hver veit nema vinstri sinnaður frambjóðandi gæti sigrast á hinum sjálfumglaða og stórgallaða Trump.

Svokallað flugviskubit er okkur Íslendingum mjög hugleikið, sömuleiðis að sjálfsögðu drepsóttir og faraldrar hverskonar. Kannski frestast flugviskubitið svolítið útaf þess öllu saman og ekki mundi ég gráta það. Salan á upprunavottorðunum er af sama meiði og flugviskubitið, því iðnaðurinn og fyrirtækin yfirleitt eru langt á eftir almenningi hvað varðar náttúruna og loftslagið. Á næstu árum má hiklaust búast við því að almenningur a.m.k. sá almenningur sem býr í hinum vestræna heimi muni í vaxandi mæli snúast gegn alþjóðafyrirtækjum sem virða yfirleitt engin mörk og sjá ekkert nema eigin gróða.

Er það annars ekki svo að útlitið skipti meira máli en innlitið. Ef maður á að kommenta eitthvað á útlit þeirra demókrata, sem vilja takast á við Dónald sjálfan í haust og tóku þátt í kappræðunum í Suður-Karólínufylki í gær er þar fyrst til að taka að kallarnir voru allir í jarðarfararmúnderingu. Þar með eru þeir afgreiddir í einni svipan. Hjá Warren er það rauði jakkinn sem er orðinn hennar einkennisbúningur og Klobuchar var í kjól eins og venjulega. New York Times lýsti yfir stuðningi við þær stöllur um daginn. Það þýðir kannski ekkert sérstakt, en veldur því m.a. að NYT getur ekki beitt sér eins mikið í pólitík dagsins eins og t.d. Washingon Post. Þeir eru einfaldlega ekki marktækir.

Man vel eftir þessu sem minnst var á í fréttum í dag. Að sagt var frá Heklugosi áður en það hófst. Sjálfur fór ég ekki að skoða það. Enda hafði ég farið uppá Land á að giska 10 árum fyrr til að horfa á smágos í Heklu. Auk þess hafði ég fylgst vandlega með Skjólkvíagosinu svonefnda sem mig minnir að hafi veri um 1970. Þá höfðum við farið uppeftir og lent í ýmsum ævintýrum, sem ég segi kannski frá seinna.

Man að mér fannst mikið til þeirra vísinda koma sem gátu sagt fyrir um náttúrhamfarir á þennan hátt. Neita því ekki að mér finnst að í sambandi við geimferðir og náttúruhamfarir hafi ekki orðið eins miklar framfarir og ég hefði reiknað með. Eflaust eru eðlilegar skýringar á því.

Einhver mynd.IMG 6306


2919 - Þú verður að vera í skóm í vinnunni

Held ég hafi einhverntíma sagt það í þessu bloggi að mitt aðaláhugamál nú um stundir séu bandarísk stjórnmál. Fyrirsagnirnar á msn.com lít ég yfirleitt á og netflakkið þar á eftir er ákaflega tilviljanakennt. Músarholusjónarmiðin sem fram koma í íslenskri stjórnmálabaráttu og fjölmiðlum sem um þau fjalla eru mér lítt að skapi, þó er íslenskt mál mér talsvert áhugamál. Hvorugu þessu sinni ég eins og vert væri enda er ég introvert og líður best í einrúmi.

Hvað um það. Greinilegt er á öllu að í bandarískum stjórnmálum er Bernie Sanders að ganga í endurnýjun lífdaga þó gamall sé. Hingað til hef ég verið hallari undir Elizabeth Warren en það er hugsanlega að breytast. Líklega er hún í þann veginn að tapa fyrir Sanders þó hún sé vissulega vinstri sinnuð líka. Demokrataflokkurinn mun þurfa að ákveða á næstunni hvort miðjustefna eða vinstri stefna er vænlegri til að sigra Trump. Hingað til hefur vinstri sinnuð stefna ekki verið vænleg til árangurs í Bandaríkjunum. Sjálfur man ég vel eftir Georg McGovern. Hann reyndist alltof vinstrisinnaður fyrir Bandaríkjamenn. Ef Sanders sigrar í forkosningunum, má búast við átakamiklum kosningum í haust. Bandarískt þjóðlíf er allsekki einsog það var á dögum McGoverns.

Það eru einkum þrjú mál sem fylgismenn Sanders benda á. Þau eru: 1) Ójöfn tekjuskipting, 2) Dýrt og óréttlátt heilbrigðiskerfi og 3) Loftslagsmál. Um öll þessi mál má margt segja og verður vafalaust gert á næstunni. Hin íhaldssama stefna sem Trump hefur starfað eftir getur leitt til mikillar einangrunarstefnu og veikt varanlega trú manna á forystu Bandaríkjanna í mörgum málum, en einkum þó í hernaðar- og öryggismálum.

Annars eru alheimsstjórnmál svo margflókin nú á dögum deyjandi kommúnisma að fáum eða jafnvel engum er ætlandi að hafa þann skilning sem til þarf á þeim málum. Að því leyti má segja að stjórnmál nútímans líkist trúmálum æ meira.

Eitthvað minnir mig að ég hafi verið ásamt einhverjum öðrum að ræða um sokka, Alþingi og Bjarna Benediktsson fyrir nokkru. Nú sé ég að Björn Leví hefur skrifað í Moggann grein sem hann nefnir „Þú verður að vera í skóm í vinnunni“. Gallinn við Moggasnepilinn er að hann er seldur og ég get ekki fengið mig til þess að vera áskrifandi að honum. Í framhaldi af spekúlasjónum varðandi fótabúnað Björns Leví hefði mig alveg langað til að lesa þessa grein en get það sennilega ekki. Þó hef ég kosið Píratana frá því ég fékk tækifæri til þess og mun sennilega halda því áfram þrátt fyrir þetta. Ekki geri ég ráð fyrir að Björn Leví leggist svo lágt að lesa þetta blogg og þessvegna er þetta jarm alveg marklaust hjá mér. Ekki finnst mér ég geta gengið lengra en að hafa fyrirsögnina um þetta.

IMG 6307Einhver mynd.


2918 - "Kalak"

Fésbókarfræðin eru mér meira og minna hulin. Sumir virðast hafa sérmenntað sig í þessum fræðum og geta gert þar allan fjandann. Sumt af því sem er hvað flóknast þar skil ég bara allsekki. Mun hentugra að halda bara áfram að blogga. Þar er ég á heimavelli. Á það jafnvel til að hnoða saman vísu, ef einhver lætur svo lítið að ljóða á mig.

Um þessar mundir er ég að lesa bókina „Kalak“ eftir Kim Leine. Gefin út af nafna mínum árið 2018. Merkileg bók. Og ég sem les aldrei skáldsögur. Svona bækur eru víst oft kallaðar skáldævisögur. Mér finnst ekki að neinu máli skipti hvort það er satt eða logið sem þar er sagt frá. Höfundurinn hefur frá ýmsu að segja og oft er mesta furða hvað hann kemur miklu fyrir á fáum síðum. Rómantískar náttúrulýsingar eru sjaldan of langar og oft kemst höfundurinn vel að orði. Gott ef bókin er ekki þar að auki nokkuð vel þýdd. Hefði samt gjarnan viljað lesa hana á dönsku.

Nú er ég búinn að venja mig á að blogga miklu meira en ég hef gert að undanförnu. Kannski hefur „Intemittent fasting“ breytt mér að þessu leyti. Sumun vafalaust til mikils angurs, en vonandi er eihverjum sem líkar þetta betur. Ekki hefur lesendum mínum fækkað við þetta, eftir því sem Moggabloggsteljarinn heldur fram. Svo fæ ég líka einstöku sinnum áskoranir um að halda áfam að blogga. Ekki held ég samt að nota megi þessi blogg mín til tímasetningar á ýmsum atburðum í lífi mínu. T.d. komu krakkarnir o.fl. um síðustu helgi til að mála stofuna hérna. Áslaug var eitthvað að myndast við að hjálpa þeim, en ég er orðinn alveg ónýtur til slíks. Um síðastliðin áramót fékk Áslaug sér líka vinnustofu með öðrum niðri á Ægisbraut og málar þar núna af miklum móð. (Held ég)

Hef gaman (og vonandi gott) af að fara út að ganga á næstum því hverjum morgni. Sama hvernig veðrið er. Eins gott að það er virkilega snjólétt hér á Skaganum. Venjulega spyr ég símann minn hvernig veðrið sé áður en ég hugsa mér til hreyfings og fer ekki út ef mikil hætta er á hálku og roki. Mikil úrkoma (einkum rigning) leiðist mér líka. Hitastig skiptir mig litlu, enda auðvelt að klæða kulda af sér. Nú er líka farið að birta mun fyrr en verið hefur. Myrkrið finnst mér samt ekki skipta miklu máli heldur, nema hvað hálkublettir sjást mun verr þá.

Nú á dögum farsímans er það aðalspurningin hvort maður á að gefa sig á vald fjöldans og fara að pota í farsímann sinn eins og allir aðrir. Svo er líka hægt að neita því og gera bara það sem manni sýnist. Mér sýnist að láta farsímann og fésbókina sem mest eiga sig. Ekki vera að berjast við að vera öðruvísi en maður er. Ég er einrænn og verð bara að sætta mig við það. Hef þar að auki enga sérstaka hæfileika. Mínir hæfileikar voru kannski einhverntíma einhvers virði, en eru það ekki lengur. Nútildax snýst allt um að kunna sem best á fasímann sinn og pota í hann ef manni leiðist. Að koma t.d. inná læknabiðstofu nú um stundir er satt að segja þrúgandi. Allir eru niðursokknir í farsímana sína og geta greinilega hvorki né vilja sinna neinu öðru. Mér er svosem sama, en tek samt ekki farsímann minn fram heldur stari út í loftið eins og þar sé eitthvað að finna eða sjá.

IMG 6317Einhver mynd.


2917 - "Intermittent fasting"

Ekki bregst mér það. Alltaf skal ég vera í stuði til að skrifa meira þegar ég hef nýlega lokið mér af. Þ.e.a.s. ég hef nýlega Moggabloggað svolítið. Nú er fimmtudagsmorgunn hinn tuttugasti febrúar tvöþúsundogtuttugu. Þó ég sé í ágætis skrifstuði núna, hef ég satt að segja ekkert til að skrifa um. Helst að ég gæti sagt eitthvað frá „Intermittent fasting“. Já, þetta er enska og þýðir eiginlega að fasta svolítið eða öðru hvoru. Þetta hef ég stundað að mestu leyti svo að segja frá síðustu áramótum. Þetta virðist henta mér alveg sæmilega. Samt er það hálfómögulegt sem megrunaraðferð, en mér líður að mörgu leyti nokkuð vel með þetta. Kannski hefur það breytt mér verulega. Best að lýsa þessu svolítið.

Þetta er allsekki fundið upp af mér. Hefur verið stundað frá aldaöðli. Miklu einfaldara en allar þessar kalóríutalningar, margslungnu megrunaraðferðir og mataræðiskúrar sem höfða ekki til mín. Já, ég var alltof feitur. Búinn að koma mér upp sæmilegri ístru eins og einhverntíma hefði verið sagt. Vel yfir 120 kíló, en þó aldrei farið yfir 130 slík. Á tímabilinu frá svona klukkan átta á kvöldin og til hádegis daginn eftir borða ég alls ekki neitt. Drekk þó kjötsoð og kaffi en ekki í mjög miklu magni. Upphaflega fannst mér að ég þyrfti að bæta mér þetta upp með því að éta hraustlega um hádegið á hverjum degi. Þetta hefur þó smám saman rjátlast af mér og nú borða ég eins og ég er vanur þessa átta tíma sem ég hef til þess.

Eiginlega er ekkert meira um þetta að segja. Örugglega hentar þetta ekki öllum. Mér gengur þó ágætlega að neita mér um næringu þessar fyrirskipuðu klukkustundir. Það sem gerir mér þetta erfiðara en þyrfi að vera er að ég verð oft andvaka á nóttunni. Þá er stundum erfitt að stilla sig um að fá sér eitthvað. Það er samt komið upp í vana hjá mér og er ekkert óyfirstíganlegt vandamál.

Allskyns matarkúrar eru mjög vinsælir um þessar mundir. Ekki er ég þess umkominn að ráðleggja neinum neitt í þessum efnum, en ef menn (og konur) treysta sér til að vera svo að segja matarlaus verulegan hluta hvers sólarhrings er alls ekki vitlaust að prófa þessa aðferð. Auðvitað má sem best hafa klukkustundirnar hvernig sem vera skal. Hægt er vitanlega líka að lengja eða stytta tímabilin eða lengja eftir þörfum o.s.frv.

Í stað þess að fara út að ganga niður að Langasandi eða eitthvað fór ég að hlusta á hálftíma halvitanna í sjónvarpinu. Ég er nefnilega skíthræddur við hálku (datt í gær). Björn Leví virðist hafa einstakt lag á að pirra Bjarna Ben. Í stað þess að svara honum efnislega fór Bjarni bara í fýlu (eða kleinu) og fór að tala um mislita sokka og þessháttar. Ja, stjórnmálin hér á landi og virðing alþingis er greinlega komin langt niður.

Nú er þetta orðið hið sæmilegasta blogg svo það er best að hætta.

IMG 6327Einhver mynd.


2916 - Borgarblaðið

Eiginlega eru heimsóknir á bloggið mitt dálítið fleiri núna en verið hefur undanfarið. Ég er líka farinn að skrifa miklu oftar og meira. Eitt vekur athygli mína. Ef ég skoða heimsóknafjöldann þá eru gestirnir talsvert fleiri en IP-tölurnar. Þannig var það ekki. Þessar tölur fylgdust nokkurn vegin að. Skyldi þetta vera vegna þess að einhverjir fari oftar en einu sinni á dag inná bloggið mitt. Þetta blogg er nú að mínum dómi ekki SVO merkilegt.  

Ég var víst búinn að lofa að segja einhverjar fleiri sögur af Eiríki blinda. Hann og Sigga voru meðal föstu punktanna hjá okkur krökkunum. Stundum (ekki mjög oft samt) komu hópar af ferðamönnum á Hótelið. Meðal annars var þeim sýnd gufuhola ein afar merkileg skammt frá símstöðinni. Eiríkur á Hótelinu setti karbít í holuna eftir að hafa þreifað eftir gatinu. Þá var það eins og við manninn mælt að drunur miklar heyrðust og sjóðheit gufa kom upp úr holunni með miklum krafti og í fyrstunni virtist opið á holunni vera alltof lítið fyrir alla þessa orku. Ferðamennirnir hlupu sem mest þeir máttu í burtu og misstu af aðalsjóinu, en við krakkarnir ferðuðust um þorpið á eftir og tíndum upp karbítmola hér og þar, sem vel mátti nota í dósasprengingar eftir að skyrpt hafði verið á þá. Þessar tiktúrur hjá Siggu og Eiríki voru ekki vinsælar hjá þeim sem áttu þvott á snúrum þegar gosið hófst.

Allir hafa frá einhverju að segja. Jafnvel ég, sem þó hef lifað afskaplega rólegu, innantómu og tilbreytingarlausu lífi. Það er bara að finna það og koma orðum að því. Hvað orðavaðalinn snertir hef ég langa og mikla æfingu í því að koma fyrir mig orði í rituðu máli. Ég skrifaði nefnilega einhver kynstur af dagbókum í eina tíð. Sennilega koma þær ekki í leitirnar fyrr en eftir að ég er dauður. Það er eins gott, því ég á alveg eins von á því að þar komi fram allskyns fordómar, svínsháttur og misskilningur. Kannski verða þær einhvers virði sem heimildir um löngu liðna tíð eftir svona 2-300 ár. Núorðið passa ég mig á að segja ekki annað hér á Moggablogginu, en það sem viðurkennt er.

Fyrir utan Eirík á hótelinu og Bjarna í Kaupfélaginu voru margir skemmtilegir karlar í Hveragerði á þessum tíma. T.d. kennararnir við skólann og þeir sem voru í Taflfélaginu. Maður lifandi, hvað ég gæti skrifað mikið um þá og marga fleiri eins og t.d Kristján í Gamla Reykjafossi og Ragnar í Nýja Reykjafossi. Eiginlega þyrfti að gera þessum karakterum skil í góðri skáldsögu. Ekki get ég skrifað hana. Því er nú verr og miður.

Man að þegar ég var í Borgarnesi gáfum við Ásþór sálfræðingur og Sigurjón Gunnarsson út Borgarblaðið (það er víst ekki á tímarit.is frekar en önnur héraðsfréttablöð). Fyrir jólin sendu sumir bókaútgefendur okkur bækur sínar. Ein hét eða heitir líklega enn: „Mannlíf undir Kömbum“. Ég skrifaði einskonar ritdóm um hana án þess að rífa sellofaninn utan af henni. Man að þeir Ásþór og Sigurjón voru dálítið hissa á því. Já, þetta er karlagrobb. Menn verða víst oft svona með aldrinum.

IMG 6344Einhver mynd.


2915 - Karlagrobb

Úr því ég er byrjaður að skrifa karlagrobbsögur af sjálfum mér er kannski bara best að halda því áfram. Ekki er að sjá að lesendum mínum fækki verulega við það. Hugleiðingar mínar um alþjóðastjórnmál eða þá íslensk músarholustjórnmál eru sennilega lítils virði, þó ég vilji alls ekki meina að þau séu röng. Held að ég sé númer tuttugogeitthvað á vinsældalista Moggabloggsins nú um stundir. Ef mér tekst að halda mér innan við 50 þar þýðir það að ég get í færri smellum fylgst með því hvar ég er í röðinni, en það geri ég nokkuð oft.

Hef alveg sætt mig við það að deyja á sóttarsæng, en ekki af slysförum. Það er óneitanlega meiri reisn yfir því að deyja í slysförum. Lítill vandi ætti að vera fyrir skyldmenni og afkomendur að setja hulu hetjuskapar yfir slíkan dauðdaga. Oft hef ég velt því fyrir mér hvað ég muni hugsa um þegar ég veit fyrir víst að ég muni deyja fljótlega. Kannski fæ ég ekkert að vita það og held fram í rauðan dauðann að ég muni lifa, eins og ég hef alltaf gert til þessa. Ekki fær maður þó að velja sér dauðdaga og satt að segja mundi ég helst vilja komast lífs af úr slysförum. En nóg um það. Nú er ég að verða áttræður svo ég má sennilega alveg skrifa svona. Annars tíðkast það hér á landi og sennilega viðar að láta eins og dauðinn sé ekki til. Auðvitað deyja allir, annars væri ekkert spennandi að lifa. Sumir tala að vísu um að lifa lífinu lifandi, en meina ekkert sérstakt með því. Oft hef ég ætlað að skrifa einhverjar krassandi minningar en orðið að hætta við það vegna þess að hugsalega gætu aðrir gert það betur. Áður en ég dey þarf ég samt að koma ýmsu frá mér. Kannski er ég ekkert skrýtnari en aðrir, þó undarlegur sé.

Skrifaði eitthvað um Eirík á Hótelinu í síðasta bloggi. Bjarni í Kaupfélaginu var líka eftirminnilegur. Marga fleiri gæti ég nefnt, en eihvernvegin finnst mér að saman hafi safnast undarlegir menn (og konur, sem líka eru menn, bara kvenmenn – þetta var svona smáaukainnskot til heiðurs Sigurði Hreiðari, sem aldrei þreytist á að halda þessu fram). Nú, ég var víst eitthvað að tala um undarlega Hvergerðinga. Bjarni í Kaupfélaginu var svo sannarlega undarlegur. Man að ég kom einhverju sinni heim til hans og þá sá ég útbúnað, sem ég öfundaði hann mikið af. Hann hafði lagt í og drakk „skrugguna“ óblandaða (nennti semsagt ekki að breyta henni í landa) „Skrugguna“ hafði hann í 60 lítra kút upp á háalofti og hafði síðan slöngu niður þannig að hann gat hvenær sem var fengið sér sopa af miðinum. Margar fleiri sögur gæti ég sagt af honum, því ég varð þeirrar gæfu aðnjótandi að kynnast honum vel. Þessar sögur ætla ég að geyma mér þangað til seinna en segja í staðinn frá öðrum. T.d. Skafta Jósefssyni garðyrkjumanni, sem var talsverður pípureykingamaður, hafði t.d. átt sömu pípuna í ein 30 ár og ekki þurft að skipta nema 7 sinnum um haus og 8 sinnum um munnstykki.

Siggi Árna var formaður Verkalýðsfélagsins og margar sögur gengu af honum. Hann kom á fót fyrstu leirböðunum í Hveragerði og var mikill aðdáandi sovétskipulagsins. Fékk sér m.a. rússajeppa og sagt er að hann hafi byrjað á því að skrúfa dekkin undan honum og fara með þau inn í stofu og hleypa þar loftinu úr þeim. „Júððneskt loft, júððneskt loft“, á hann að hafa sagt þá. Sigurður var nefnilega svolítið smámælur og söguna átti að segja með eftirhermusniði.

IMG 6347Einhver mynd.


2914 - Eiríkur blindi

Ég hef alveg misst af einhverju persónuleikaprófi, sem Kári Stefánsson er sagður hafa dreift í nafni Íslenskrar Erfðagreiningar. Nú er ég orðinn svolítið forvitinn og langar að vita hvernig þetta próf hafi verið. Sennilega fer ég ekki nógu oft á fésbókarfjárann eða les hann ekki eða kynni mér hann nægilega vel. Að sumu leyti kann þetta að sjálfsögðu að vera kostur, en mér finnst það vera galli.

Það er ekki nóg með að mér finnist öll tónlist vera fyrst og fremst hávaði, heldur er ég ekki alveg sjúr á mismuninum á rödduðun hljóðum og órödduðum. Ekki þýðir að spyrja Gúgla að þessu því hann virðist ekki vita það. Eða a.m.k. á hann í einhverjum erfiðleikum með að segja frá því. Ástæðan fyrir því að ég er að velta þessu fyrir mér er eftirfarandi vísa:

Skólapiltar fara á fjöll
og faðma heimasætur.
Ungar stúlkur elska böll
einkanlega um nætur.

Það var Helgi Ágústsson sem lengi var hreppstjóri á Selfossi og forstöðumaður pantanadeildar Kaupfélags Árnesinga sem kenndi mér þessa vísu einu sinni í fyrndinni. Ég veit ekki hvort ellin í þessari vísu eiga að vera rödduð eða órödduð. Eflaust gæti Eiríkur Rögnvaldsson (bróðir hennar Nönnu – sem sumir kannast eflaust betur við) frætt mig um þetta. En ekki þýðir að fást um það. Varla les hann bloggið mitt og á þarafleiðandi erfitt með að svara þessu. Af einhverjum ástæðum man ég greinilega eftir því að Helgi kenndi mér þessa vísu og gætti þess vandlega að Guðrún sem vann í pantanadeildinni þá, yrði ekki vör við þetta. Skrifað hana fyrir mig á Framsóknargrænan miða sem ég hugsanlega á einhversstaðar í drasli hjá mér.

Einhver eftirminnilegast karakter æskuára minna í Hveragerði var Eiríkur blindi Bjarnason á Hótelinu. Einu sinni sá ég hann sparka óvart í stóran stein sem varð á vegi hans. Auðvitað leiddi Sigga hann þá eins og vanalega, en eftir þetta efaðist ég aldrei um blindu hans þó sumir hafi e.t.v. gert það því hann var ótrúlega góður að greina hljóð. Einu sinni reiddist hann mér alvarlega. Þá var ég útibússtjóri í Kaupfélaginu í verkfalli sem verslunarmenn fóru í, en þeir voru mjög óvanir því. Eirík vantaði sementspoka og fannst alveg sjálfsagt að hann fengi slíkt afgreitt þó verkfall væri. Ég þverneitaði aftur á móti að verða við slíkri beiðni.

Ævinlega er það svo að ég er í besta bloggstuðinu strax eftir að ég hef sett upp blogg. Þetta skrifað ég t.d. síðastliðinn þriðjudagsmorgunn skömmu eftir að ég hafði lokið við og sett upp á Moggabloggið eitt slíkt. Alveg er það merkilegt hvað allir (nema ég) eru sjálfmiðaðir í þessum bloggskrifum sínum. Kannski er það best.

IMG 6350Einhver mynd.


2913 - Er þetta Dagsbrúnarverkfall?

Forkosningarnar í Bandaríkjunum eru að verða svolítið spennandi. Líklegt er að stefna Bernie Sanders sé einum of vinstrisinnuð fyrir Bandaríkjamenn. Ef hugsanlegir frambjóðendur eru flokkaðir eftir stefnumálum frá hægri til vinstri má gera ráð fyrir að sú flokkun sé eitthvað að á þessa leið: Bloomberg, Biden, Steyer, Buttigieg, Klobuchar, Warren og Sanders. Man ekki eftir fleirum í svipinn. Auðvitað má flokka þennan hóp eftir ýmsu öðru. T.d. peningum, aldri eða líkum á því að sigra Trump. Allt þetta gæti síðan farið eftir persónum eða tíma.

Enginn vafi er á því að Bandaríkin standa fremst allra þjóða í rannsóknum og þróun hverskonar (læknavísindi og tækni). Ef samskonar stefna ríkir í þeim málum og fylgt hefur verið að undaförnu (Trump-stjórnin), mun sú forysta minnka og að lokum lenda hjá Asíuþjóðum (einkum Kína). Engin furða er því þó baráttan við Huawei sé hatrömm. Meðan Bandaríkin halda forystu sinni í mannréttindamálum og lýðræði eru samt ekki mikil líkindi til að Kína nái forystu á því sviði. Þvert á móti er við því að búast að þvingun sú og ofbeldið, sem þar er beitt í pólitískum efnum muni fyrr eða síðar springa í andlitið á stjórnvöldum þar um slóðir. Einangrunarstefna sú sem Trump fylgir mun þó tefja fyrir þeirri þróun og valda miklum skaða í verslun milli landa.

Auðsöfnun sú og ranglæti sem viðgengst gjarnan í hinum kapítaliska heimi þarf að minnka mjög verulega. Stjórnmálalega er það svo að að Skandinavíska módelið er okkur á Norðurlöndunum að sjálfsögðu hugleikið mjög. Hvort það leysir mesta vandamálið sem steðjar að heiminum um þessar mundir má efast um. Þó er enginn vafi á því að tilraun sú sem segja má að sé hafin á Norðurlöndum til þess að ráðast gegn loftslagsvánni er líklegri til árangurs en sú hægri öfgastefna sem víða hefur skotið upp kollinum í heiminum í dag, gjarnan íklædd föðurlandsást og þjóðernisrembingi.

Ekki er alveg víst að full meining fylgi því sem bloggað er með skáletri. Má maður ekki tala um hug sér, eða hvað? Skáldsögur eru lygasögur. Sumir neita staðreyndum.

Ég vona svo sannarlega að Eflingarverkfallið verði sem lengst og áhrifamest. Annað hvort væri það nú. Ætli þetta verði ekki einskonar Dagsbrúnarverkfall? Einu sinni munaði aðeins um þau. Það er orðið langt síðan við höfum haft almennilegt verkfall. Mesta hættan er á að samið verði of fljótt, jafnvel fljótlega. Einhver von er samt til þess að þetta verkfall verði með gamla laginu, þ.e.a.s. að slegist verði pínulítið og verfallsvarslan lendi í ýmsu frásagnarverðu. Annars er flest að verða frásagnarvert í þessari gúrkutíð sem verið hefur undanfarið. Það má ekki hundur pissa án þess að sagt sé frá því bæði í sjónvarpi og útvarpi, svo maður tali nú ekki um félagslegu og félagsfælnu miðlana sem mér skilst að séu fjölmargir. Að vísu höfum við haft svolítið óstöðugt veðurfar undanfarið og hver veit nema drepsóttin sem herjar á óverðuga komi hingað á endanum.

IMG 6385Einhver mynd.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband