Bloggfærslur mánaðarins, október 2010

1186 - Stjórnlagaþing III

Stjórnlagaþing eða stjórnlagaþing ekki, það er spurningin. Flestir hafa eitthvað að segja um kosningafyrirkomulag og annað í sambandi við væntanlegt stjórnlagaþing. Það er ágætt. Finnst samt fáir vera alfarið á móti því og góðar óskir almennings eru því sannarlega mikilvægar.

Listi yfir nöfn frambjóðenda og tölur þær sem þeim hefur verið úthlutað er nú víða birtur. Kosningin verður eflaust nokkuð flókin og seinleg. Þó spái ég því að ekki muni margir kjósa 25 manns heldur öllu færri. Atkvæðið er samt illa nýtt ef mjög fáir eru kosnir. Kynna þarf allt fyrirkomulag kosningarinnar vel og ekki tel ég ástæðu til að óttast að framkvæmdin fari í handaskolum.

Talsvert verk er að lesa lista þann yfir sem birtur hefur verið og ráðlegt er að koma sér upp smálista yfir þá sem manni finnst koma til greina að kjósa. Það ætla ég að gera. Þann lista mun ég síðan nota þegar ég geri endanlegan lista yfir númer þeirra sem ég ætla að kjósa.

Jæja, nú er ég búinn að lesa listann yfir. Á honum eru þónokkuð margir sem ég kannast eitthvað við en gríðarlega marga vantar samt á listann. Við því er ekkert að gera. Á stuttlistanum mínum eru 19 nöfn. Væntanlega mun þeim fjölga eitthvað og svo er að skrifa hjá sér tölurnar. Beinn undirbúningur minn undir þessar afdrifaríku kosningar verður kannski ekki öllu meiri. Þó mun ég hugleiða málið ítarlega og kannski blogga talsvert um það. Sjáum til.

IMG 3560Könglar.


1185 - Moggaskrifli og matargjafir

Svanur Gísli Þorkelsson biður um útskýringu á orðinu Tintron. Hana á ég ekki til. Þetta orð virðist mjög vandskýrt og eftir því sem ég veit best veit á það sér enga hliðstæðu í öðrum landshlutum. Björgunarsveit með sama nafni starfar eða starfaði á svæðinu en mig grunar að menn þar viti lítið um uppruna nafnsins og sveitin sé einfaldlega nefnd eftir hellinum. Örnefnanafngiftir eru þó alltaf athyglisverðar og á Vísindavefnum hefur verið um mál þetta fjallað.

Margir hafa horn í síðu Moggaritstjórans fræga og svo virðist sem enn og aftur ætli honum að takast að vefja sjálfstæðismönnum um fingur sér. Að sjálfstæðismenn skuli hlaupa fram og aftur vegna allra pólitískra frétta sem Davíð þóknast að birta í Moggaskriflinu er í besta falli skemmtilegt en getur á endanum orðið sjálfstæðismönnnum mjög til trafala. Auðvitað er alltaf einhver fótur fyrir þeim fréttum sem þar birtast en áherslurnar og það hvað birt er virðist alltaf þjóna Davíð ágætlega og hans skoðunum.

Matargjafir þær sem hér tíðkast hjá Mæðrastyrksnefnd, Fjölskylduhjálp og Þjóðkirkjunni eru til háborinnar skammar öllum þeim sem ættu auðveldlega að geta gert betur. Það fólk sem hefur ríkisborgararétt hér á Íslandi á rétt á því að fá að borða og það á ekki að þurfa að betla sér mat með þessum hætti. Auðvitað er alltaf hætta á að einhverjir misnoti sér það sem ókeypis er. Það má samt ekki verða til þess að öðrum sé refsað í stórum stíl. Það svindl sem hugsanlega fer fram með þeim hætti að óverðugir fái matargjafir er svo lítið að það hefur enga þýðingu.

Hver skyldi skoðun fólks á fésbókinni vera? Eru þær umræður sem þar fara fram á einhvern hátt markverðar? Í fljótu bragði sýnist mér að þær komi einkum að haldi þannig, að komi fram góðar hugmyndir eða vel orðaðar þar, þá dreifast þær fljótt og víða ef einhverjir koma þeim á framfæri og endurvarpa þeim. Það sama má auðvitað um bloggið segja en þar fer lesendum og þátttakendum líklega talsvert fækkandi.

Margt er skrýtið í sambandi við Evrópusambandsandstöðuna. Þar gengur ekki hnífurinn á milli harðra hægrisinnaðra AMX-ara og vinstri grænna stofukomma. Þar sameinast í andanum Davíð stríðsmaður og Steingrímur Jóhann. Samt tókst heilagri Jóhönnu að lauma aðildarumsókn að EBS í gegn og þrátt fyrir góðan vilja margra til að ónýta þann gjörning virðist það ætla að mistakast.

IMG 3549Njólaskógur í Fossvoginum.


1184 - Stjórnlagaþing II

Margt bendir til þess að stjórnlagaþing það sem væntanlega verður haldið í byrjun næsta árs verði einstæður atburður í stjórnmálasögu landsins. Þessvegna er einboðið að vanda umgjörð þess alla og kosningar til þess eins mikið og kostur er. Úrtöluraddir heyrast þó auðvitað og sumir segja að sjálfsagt sé að semja nýja stjórnarskrá en bara ekki núna.

Á margan hátt finnst mér samt að rétta tækifærið sé núna. Þegar núverandi stjórnarskrá tók gildi við lýðveldisstofnunina árið 1944 stóð til að endurskoða hana fljótlega. Það hefur ekki verið gert ennþá nema að litlu leyti. Engin þörf er að fresta þessu einu sinni enn.

Ekki er víst að nauðsynlegt sé að endurnýja stjórnarskrána að öllu leyti þó margir kaflar hennar þarfnist endurskoðunar. Eflaust er hægt að nota suma kafla skrárinnar áfram lítið eða ekkert breytta. Vafalaust verða margir kaflar hennar þó endurskoðaðir rækilega. Hægt er að byggja á því starfi sem unnið hefur verið hingað til þó ekki hafi tekist að ljúka neinu umtalsverðu varðandi endurskoðunina til þessa.

Langhættast er við að svo hart verði deilt á þinginu að ekkert verði úr neinni endurskoðun. Gott ef sáttfýsi og samstarfsvilji verða ekki afdrifaríkustu og áhrifamestu eiginleikar væntanlegra þingfulltrúa. Mikilvægast er að á þingið veljist sá þverskurður samfélagsins sem Alþingi hefur jafnan átt að vera. Kannski eru það einkum stjórnmálaflokkarnir sem hafa eyðilagt þann möguleika. Kosningafyrirkomulag hefur líka jafnan verið með þeim hætti að lítt hefur verið hægt að taka mark á úrslitum kosninga.

Um daginn birti ég frásögn af ferð í Tintron. Lét þess getið að hann væri einskonar vasaútgáfa af hellinum fræga við Þríhjúka. Í kvöld var ýtarleg umfjöllun um Þríhjúkahellinn í kastljósi sjónvarpsins. Dettur óneitanlega í hug að hugmyndin að þeirri umfjöllun sé frá mér komin. Einkum vegna þess að ég hef orðið var við svipað áður í minni miklu sjálfhverfu. Hvarflar þó ekki að mér að þetta skipi máli. Sama hvaðan góðar hugmyndir koma.

Íslensk málnefnd hefur ályktað um ásókn ensku í íslensku háskólasamfélagi. Þar kemur fram að útbreiðsla enskunnar er þar mikil og sum námskeið eru eingöngu kennd á ensku og 80% doktorsritgerða eru á ensku. Þessi þróun er ískyggileg svo ekki sé meira sagt. Hugsanlega mun ég skrifa meira um þetta seinna

IMG 3544Nærmynd af mósaík.


1183 - Kosningar og fleira

Fésbókin veldur mér oft umhugsun. Ég er búinn að koma mér upp meira en 200 fésbókarvinum og það var ekki erfitt en afleiðingin er sú að innleggin skruna svo hratt framhjá að ég missi af mörgum þeirra því ég held ekki beinlínis til þar. Nenni heldur ekki að eltast við þau. Búinn að uppgötva að ég á einn alnafna á fésbókinni og að við eigum eina 4 sameininlega vini.

Fór að skoða upplýsingarnar um mig á þessari frægu Facebook. Þar stendur meðal annars: Dálæti og áhugamál: Invita Island, Gunnar Grímsson á stjórnlagaþing, G.J.hús, Samtök lánþega, Opin kerfi, Hrafninn, ljósberinn photography, Málræktarklúbburinn.

Sumt af þessu kannast ég við en annað ekki. Verið getur að þarna sé um einhvern samslátt að ræða. Get eflaust breytt þessu og geri kannski einhverntíma seinna.

Þó ég hafi átt heima í Borgarnesi í ein átta ár og sé sæmilega kunnugur þar og í Borgarfirðinum hefur mér alltaf fundist vegakerfið í Borgarfjarðardölunum vera svolítið ruglandi og skrítið. Því sama hef ég heyrt haldið fram um vegakerfið á Suðurlandi. Þar er þó ólíku saman að jafna því þar er mun auðveldara að átta sig á hlutunum enda er næsta auðvelt að skilja það kerfi ef maður þekkir helstu brýr á stóránum þar. Þetta finnst mér að minnsta kosti en ég er fæddur og uppalinn á Suðurlandi svo kannski er ekki alveg að marka þetta.

Ætli það sé ekki óttinn við kosningar sem kemur í veg fyrir að Vinstri grænir hlaupi endanlega út undan sér. Það gæti nefnilega farið svo að þeir hljóti ekki jafnmikið fylgi í næstu kosningum og þeir fengu síðast. Sumir kjósendur virðast nefnilega vera farnir að hugsa. Fjórflokkurinn gæti verið að missa tökin á tilverunni. Vel getur það haft afgerandi áhrif hvað útúr stjórnlagaþinginu kemur. Varla verður það fyrr en eftir að því er lokið sem farið verður alvarlega að hugsa um kosningar.

IMG 3540Ýmislegt í gróðurhúsi.


1182 - Stjórnlagaþing og ESB

Er lítið farinn að velta fyrir mér hverja ég á að kjósa til stjórnlagaþings. Þó er kominn tími til þess. Ekki er nóg að finna 25 frambjóðendur sem manni líkar við heldur þarf að raða þeim líka. Ekki er ráð nema í tíma sé tekið. Auðvitað er hægt að mæta á kjörstað og kjósa bara einn eða fáeina en ég er að hugsa um að nýta minn rétt til fullnustu.

Menn geta reynt að finna komandi stjórnlagaþingi allt til foráttu og gera það margir. Samt er það svo að þetta er á allan hátt einstæður viðburður. Alþingi hefur hingað til reynst ófært um að sinna því verkefni að semja nýja stjórnarskrá fyrir landið enda vandséð að alþingismönnum komi það meira við en öðrum.

Mér finnst að úr því að verið er að kjósa á svona þing eigi að gera það af fullum heilindum. Ekki láta annarleg sjónarmið trufla sig. Auðvitað er ekki útilokað að kjósa þá sem starfað hafa í stjórnmálaflokkum eða öðrum þrýstihópum en gjalda ber mikinn varhug við áhrifum flokkanna á þinginu. Ég mun einungis kjósa þá sem ég geri ráð fyrir að hlusti lítið á flokksmaskínur.

Kosning þessi kann að hafa áhrif í þá átt að deilur magnist milli manna en líka mun umræða um grundvallaratriði áreiðanlega aukast að mun. Hætt er við að umræður um ákveðin efni svo sem trúmál muni yfirskyggja önnur en hjá því verður ekki komist.

Undarlegt að enn skuli menn halda því fram að eðlilegt sé að hætta aðildarviðræðum við ESB. Það er auðvitað skoðun út af fyrir sig að ekki henti Íslendingum að gerast aðilar að bandalaginu. En að ekki megi ræða við fulltrúa þess er of langt gengið.

Hugsanlegt er að viðræðurnar fari fram á einhvern þann hátt sem dregur fremur taum ESB en Íslendinga. Þann taumdrátt þarf þá að ræða en ekki fara bara í fýlu og hrista hausinn. Að aðildarandstæðingar skuli í stórum stíl halda fram svo illa grunduðum skoðunum er að eyðileggja málstað þeirra en svo virtist sem hann nyti meirihlutafylgis kjósenda.

Eftir því sem fram kom í sjónvarpsfréttum í kvöld er auðvelt að fylgjast með þeim sem eru að fésbókast á „public" netum. Ekki er ég hissa á því og lít í rauninni svo á að Internetið sem slíkt sé alls ekki öruggt. Ef menn þurfa endilega að vera með eitthvert leynilegt stúss þar mega þeir alltaf búast við að verða þefaðir uppi.

IMG 3539Kaupmannahafnarmenning í Kópavogi.


1181 - Viðeyjarskákmót

Nú er farið að líða á mánudaginn og ég ekki búinn að láta mér detta neitt í hug til að skrifa um og setja á bloggið mitt í kvöld. Ætli ég sleppi þessu bara ekki í þetta sinn. Sjáum samt til. Eitthvað gæti komið.

Tefldi á Viðeyjarskákmóti um helgina. Gekk bærilega. Fékk 4,5 vinninga í 9 skákum. Því skyldi ég ekki skrifa um skák fyrst hún er það sem ég hef einna mestan áhuga á. Tefli t.d. oft ca. 30-40 bréfskákir í einu á Netinu. Er reyndar orðið alveg sama þó ég tapi en það hefur ekki alltaf verið þannig.

Svokallaðir Lewis taflmenn eru meðal helstu dýrgripa British Museum. Taldir gerðir í Noregi á 12. öld, en Guðmundur G. Þórarinsson hefur nýlega komið fram með þá tilgátu að þeir séu gerðir á Íslandi. Lauslega var getið um þetta í sjónvarpinu fyrir nokkru, ef ég man rétt. Margt fleira má eflaust um þetta segja.

Skákmótið í Viðey var helgað þessum merku taflmönnum og myndir af þeim og eftirmyndir prýddu sali. Skrifað hefur verið um þetta mót á skak.is og Einar S. Einarsson hefur birt margar myndir frá mótinu og linkað er í þær úr fréttinni.

Eftirminnilegastar eru mér auðvitað mínar eigin skákir. Einni skák tapaði ég í endatafli eftir að hafa verið kominn með kolunnið og í annað skipti pattaði ég andstæðing minn með mikið af liði yfir.

Ekki þýðir samt að fást um það. Bæði hef ég eflaust verið heppinn stundum og ef ég hefði unnið í þessi skipti hefði ég bara fengið erfiðari andstæðinga.

Hrifnastur var ég af forriti því sem stjórnaði mótinu og reiknaði alla hluti út. Man vel hve mikið verk og flókið pörun í Monrad mótum gat verið hér áður fyrr.

Samkvæmt fréttum sem ég hef lesið er mál níumenninganna sem svo er kallað enn að velkjast í dómskerfinu. Sé ekki betur en Forseti Alþingis og ríkisstjórnin skammist sín heil ósköp fyrir þetta mál. Treysta sér samt ekki til að láta það niður falla og minnkun þeirra mun með tímanum aðeins aukast. Skrýtið að þessir aðilar skuli ekki sjá það.

IMG 3538Aðgangur bannaður.


1180 - 500 frambjóðendur

Bráðum koma fljúgandi til mín upplýsingar um frambjóðendurna fimm hundruð. Annað hvort verður það af Netinu eða þær munu koma til mín fyir tilverknað póstþjónustunnar. 

Þá tekur við einn erfiðasti hluti stjórnlagaþingskosninganna. Það er að ákveða hverjir 25 fá mín atkvæði. Skilst að sá sem ég set efst á listann fái heilt atkvæði en sá í 25. sæti fái tuttugasta og fimmta hluta úr atkvæði og aðrir tilsvarandi. Þetta gerir talninguna svolítið flókna og tafsama en væntanlega sjá tölvur um þann hluta og ekki vorkenni ég þeim.

Mér fannst talsvert um vinalæti á Moggablogginu þegar það var uppá sitt besta en á fésbókinni tekur þetta út yfir allan þjófabálk. Sennilega er það mest vegna þess að ég tók uppá því að safna fésbókarvinum að nú gengur ekki á öðru en tilkynningum um vinskap fólks. Veit ekki hvernig þetta endar. Best þætti mér auðvitað að allir væru bara vinir allra en það er víst ekki nógu gott.

Til að gleðja alla og sérstaklega sjálfan mig er ég að hugsa um að hafa þetta stutt núna og fara snemma að sofa. Hér var fjölmennt í kvöld. Étin steikt lifur og fiskisúpa. Gulrótarkaka í eftirmat. Jamm og já. Mestallur dagurinn fór í aðdrætti og matseld enda stórfjölskyldan orðin rúmlega 10 manns. Gerðum líka fjórar lifrar að ágætis fæðu sem dugar vel með því að breyta þeim í lifrarpylsur.

Íslensk fjallanöfn eru oft sérkennileg. Var að lesa í bók um fjallið Fanntófell á Vesturlandi. Það finnst mér einkennilegt nafn. Á svipuðum slóðum er fjallið Stélbrattur. Það finnst mér líka skrýtið fjallsnafn. Auðvitað er það svo að þegar menn hafa vanist fjallsnafni hættir þeim að finnast það skrýtið. Býst t.d. við að fáum Mývetningum þyki fjallsnafnið Vindbelgur einkennilegt. Það finnst mér þó.

IMG 3537Laufblað á asfalti eða olíumöl.


1179 - Nafnleynd og fleira

Les lítið blogg þessa dagana en eflaust snýst umræðan þar einkum um stjórnlagaþing. Þessvegna er ég að hugsa um að fjölyrða ekki um það nú þó merkilegt sé. Margir reyna að tala það niður en ég er ekki í þeim hópi. 

Hef verið að spekúlera í þessu með Egil Helgason og Hannes Hólmstein Gissurarson. Egill hefur ásakað Hannes um að skrifa undir ýmsum nöfnum og vice versa. Ef mér fyndist ég hafa svo margt að segja að ég þyrfti að skrifa undir ýmsum nöfnum þá mundi ég gera það. Held samt að það borgi sig ekki og yfirsýnin bili fyrr eða síðar.

Auðvitað getur verið að mönnum þyki betra að koma ýmsum söguburði á flot undir öðrum nöfnum en sínu eigin, en þá verður bara að taka því. Ef ég þyrfti á einhverju slíku að halda væri ég skíthræddur um að tilbúna nafnið fengi ekki eins marga lesendur og ég sjálfur. Viðhorf þetta kann þó að vera allt annað hjá supervinsælum pennum eins og Agli og Hannesi.

Auðvelt ætti að vera að koma hvers kyns söguburði á flot á fésbókinni. Að minnsta kosti ef maður er nógu vinsæll þar. Enginn vandi er að skrifa þannig að ekki sé hægt að hanka mann. Kannski er ég bara hugarfóstur einhvers Egils eða Hannesar. Hvað veit ég?

Þegar spilað var á spil í gamla daga var aðallega spiluð vist sem var eiginlega alveg eins og félagsvist nema þar var aldrei tromp heldur ýmist spilað grand eða nóló. Forhandargrand jafnvel. Stundum var spilaður manni (kaupamanni t.d.) en hann var eiginlega þriggja manna spil og þar með óæðri. Bridge kunnu fáir. Á aðfangadagskvöld mátti ekki spila en um áramótin alveg útí eitt. Á sumrin mátti ekki spila og ég held bara aldrei í þeim mánuðum þar sem R-ið vantaði.

Oft var sagt þegar spilað var: „Helvítis roðhænsni eru þetta." Þá áttu menn að sjálfsögðu við að spilin væru léleg. Léleg spil voru líka kallaðir hundar. Aldrei höfðu menn orð á því ef þeir fengu góð spil á hendina. Kannski er þetta svona ennþá. Ég spila bara svo sjaldan. En hvað eru roðhænsni eiginlega? Merkingin fer eflaust eftir því hverju fólk hefur vanist. Neikvætt er það allavega.

Vitlaus og vambarlaus, galinn og garnalaus o.s.frv. var líka oft sagt í gamla daga. Þetta var eflaust fyrst og fremst útaf stuðlunum en mér finnst samt alltaf að þessi orð eigi saman.

Þegar ég blogga finnst mér ég ekki vera bundinn neinu eða neinum og það er góð tilfinning. Öðrum finnst ég kannski vera handbendi annarra. Ég held það oft um aðra. Kannski er ég handbendi allra sem ég er sammála.

Fylgist nokkuð með því sem skrifað er um WikiLeaks. Verð að trúa að mestu því sem aðrir fjölmiðlar skrifa um það sem þar er að finna því skjölin á WikiLeaks eru svo mörg og yfirgripsmikil að ég treysti mér ekki til að kynna mér þau almennilega. Augljóst er samt að þeir hafa oft staðið sig vel og verið trúverðugir. Viðurkenni samt þann möguleika að þeim geti skjátlast. Barátta stjórnvalda við þá er sjaldan trúverðug.

IMG 3520Rótarhnyðja dauðans.


1178 - Skák og stjórnlagaþing

Skilst að vesalingum þeim sem bjóða sig fram til þjónustu á stjórnlagaþinginu sé úthlutað 700 slögum (með bilum) til að koma boðskap sínum á framfæri í kynningarefni því sem dreift verður. Þetta er ekki langt. Ætli hvert og eitt blogg hjá mér sé ekki meira en 700 slög. Þegar búið verður að margfalda þetta með 500 held ég samt að þetta verði svo langt að enginn nenni að lesa ósköpin. Mogginn setur engin svona takmörk á okkur stórhausana. Við megum rausa eins mikið og okkur lystir og reyndar allir Moggabloggarar. Sumir gera það líka svikalaust.

Margt má um trúboð í skólum segja. Sumir rífast um slíkt núna af mikilli hind. Umræða sem þessi blossar alltaf upp öðru hvoru og meðan ríkiskirkja er við lýði má alltaf búast við því. Það er langt frá því að ég sé sérfræðingur í þessum málum þó ég hafi einhverntíma verið formaður foreldrafélags. Auðvitað drap ég það foreldrafélag og hélt aldrei fundi í því en það er önnur saga. Ef einu trúfélagi er veitt sérstök aðstaða í skólastarfi í andstöðu við einhvern hluta foreldra þeirra barna sem aðstöðunnar eiga að njóta finnst mér að stjórnendur skólans eigi að stöðva slíkt og gæta jafnræðis. Samanburður við íþróttafélög er ekki sannfærandi. Auðvelt er um þetta að tala en verið getur að erfiðara sé í að komast. Ef trúfrelsi á að ríkja í landinu ber að virða það.

Dreymdi í nótt sem leið að ég væri að stjórna hraðskákmóti. Mér þótti ég vera á ferðalagi með fjölda fólks og við þurftum að bíða heillengi. Vorum í einhverjum sal þar sem fullt var af töflum og klukkum og ég tók að mér að stjórna hraðskákmóti. Umferðatöflur fann ég en erfiðlega gekk með stjórnina. Vissi aldrei almennilega hverjir voru með og hverjir ekki. Þekkti ekki alla. Útlendingar voru þarna og ég óviss á framburði nafnanna og stafsetningu. Menn að hætta og bætast við og allt í rugli. Áhorfendur voru allmargir og teflendur gjarnan á meðal þeirra. Krakkar voru þarna fjölmargir og fólk að reyna að skemmta þeim með allskyns dóti.Varð á endanum öskureiður út af sífelldum truflunum og reyndi að reka mestu truflanavaldana út. Eftir 2 eða 3 umferðir var allt í tómri vitleysu og þá vaknaði ég sem betur fór því annars hefði ég verið í meiriháttar vandræðum. Fékk mér kaffi og svefntöflu, settist aðeins við tölvuna, og fór svo aftur að sofa.

Ástæðan fyrir þessu var eflaust sú að ég var búinn að skrá mig á hraðskákmót úti í Viðey. Þangað fór ég svo eftir hádegi og þar gekk stjórn mótsins mun betur enda kom ég þar hvergi nærri. Taflmennskan hjá mér var alveg sæmileg og ég held að ég hafi fengið 50% vinninga. Meðal keppenda voru margir fyrrverandi Íslandsmeistarar og mótið var bara fyrir eldri borgara og líklega fyrsta alvarlega skákmótið sem haldið er í Viðey.

IMG 3518Bær hjá húsi.


1177 - Arnarker

Þegar ég skrifaði um Tintron-ferðina um daginn komu fleiri hellaferðir upp í hugann. Ég var nefnilega einu sinni með hálfgerða helladellu. Hjá Benna var hún algerð held ég. Hann átti bókina Hraunhellar á Íslandi og þekkti út í hörgul það sem skrifað hafði verið um einstaka hella. 

Það hefur verið einhverntíma nálægt 1990 sem okkur hugkvæmdist að fara í ferðalag í hellinn Arnarker sem er í Leitarhrauni skammt austan við Selvogsheiði og ekki langt frá bænum Hlíðarenda í Ölfusi. Eflaust hefur Benni verið með í ferðinni þangað og Bjarni einnig. Hafdís var það líka og að sjálfsögðu Bjössi bróðir. Sennilega hafa fleiri verið með í ferðinni en ég get ekki munað það og engin er ljósmyndin til að styðjast við.

Bjössa hafði verið sagt hvar hellinn væri að finna en enginn í leiðangrinum hafði komið í hann áður. Þegar þetta var sást hvergi slóði og enginn var stiginn niður í hellinn eins og nú er.

Ekki er að orðlengja það að hellinn fundum við fljótlega og var það líklega talsvert afrek. Við okkur blasti skyndilega í móanum jarðfall mikið. Hrunið hafði úr loftinu á hellinum og var ekki annað að sjá en hann lægi bæði upp í Ölfus og útí Selvog. Bjössi dró nú fram kaðla sína og jummara og gengum við frá öllu sem tryggilegast og hófum við svo að renna okkur niður. Það gekk vel og eftir nokkra stund stóðum við öll á botni jarðfallsins eftir að hafa sigið mjúklega talsvert margar mannhæðir niður á við.

Hófst þá hellakönnunin sjálf. Fyrst fórum við í suðvestur og hafði okkur verið sagt að þar mætti komast þónokkuð langt með hægu móti en síðan vandaðist málið. Það reyndist rétt vera og komumst við ekki ýkja langt inn eftir hellinum þar (kannski 4-500 metra) þrátt fyrir góðan vilja. Snerum við þá við og héldum í hina áttina. Þar varð fljótlega fyrir okkur svell allstórt og grýlukertamyndanir margar og sérkennilegar. Ekki komumst við þó nema mjög stutt í þá áttina og urðum frá að hverfa.

Nú var uppferðin ein eftir og gekk hún ótrúlega vel. Þetta var nokkru fyrir Tintronferðina og hafði ég nógan kraft í uppferðina og tókst meira að segja ágætlega að vega mig uppá brúnina. Forugur varð ég þó allmjög því ekki varð komist hjá freklegri snertingu við fósturjörðina.

IMG 3497Laufblað.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband