Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2016

2457 - Forsetar Bandaríkjanna o.fl.

OK. Simmi vildi ganga hart að kröfuhöfum, enda hafði hann komið fjölskylduauðnum vel fyrir í skattaskjóli. Bjarni var tregur, enda allsekki búinn að gera það sem hann átti að gera og sumu, eins og t.d. Borgunarmálinu, hafði hann klúðrað rækilega. Samkomulag tókst þó á endanum. Aðalatriði þess samkomulags var að segja alls ekki hverjir hinir raunverulegu kröfuhafar væru. Auðvelt er samt að giska á það. Það voru allir þeir ræningjar sem höfðu orðið höndum seinni við að koma sínu illa fengna fé í öruggt skjól. Sumir þeirra höfðu hagað sér svo aumingjalega að þeir höfðu jafnvel tapað fjármunum í hruninu.

Það eru svo margir sem gera sér grein fyrir þessu að ríkisstjórnin þyrfi að fara frá sem fyrst. Hún ætlar samt að þrjóskast við því Bjarni á eftir að redda ýmsu sem hann á að gera. Ekkert sérstakt bendir til þess að staðið verði við loforðið um kosningar. Haust er líka svo loðið og teygjanlegt hugtak. Auðvitað er spursmál hvort svokölluð stjórnarandstaða sé nokkuð betri. Allavega var síðastliðin stjórn það tæpast.

Fésbókin já. Frekjan og afskiptasemin í þessu forriti ríður ekki við einteyming. Greinilega er stórhættulegt að gefa því of mikil völd yfir sjálfum sér. Ég hef svosem ekki neitt sérstakt í huga. Notkunin á þessum fjanda er bara komin út yfir allan þjófabálk. Kannski nota ég það heldur ekki eins og flestir aðrir. Sumir held ég að noti það helst ekki.

Nú er reynt eftir mætti að græða á þeim sem áhuga hafa á fótbolta. Ekki ætla ég samt að gerast áskrifandi að EM fyrir 6.900 krónur. Ef hægt er að plata nægilega marga græða áreiðanlega einhverjir. Tíu þúsund sinnum 6.900 eru 69 milljónir. Fyrir þá upphæð, má auk þess að borga fyrir fáeinar auglýsingar, kaupa ýmislegt. Leikir íslenska landsliðsins og úrslitaleikurinn hljóta samt að vera ókeypis. Fleiri leiki hef ég engan áhuga á að sjá í beinni útsendingu. Man vel hve merkilegar beinar sjónvarpsútsendingar þóttu í eina tíð. Nú eru þetta bara farartæki fyrir gróðapunga.

Alveg síðan ég var í svokölluðum kvikmyndaklúbbi á Bifröst um 1960 hef ég haft svolítinn áhuga á bandarískum stjórnmálum. Einkum forsetakosningum. Man eftir að við sýndum kvikmynd um viðureign Kennedys og Nixons og allar götur síðan hef ég fylgst nægilega vel með því sem þar gerist til að geta talið upp þá forseta sem hafa verið síðan. En það eru: Kennedy – Johnson – Nixon – Ford - Carter – Reagan – Bush eldri – Clinton – Bush yngri – Obama. Einnig man ég vel eftir Eisenhower.

Vel getur verið að nú sé það bundið í lög að forsetar Bandaríkjann megi ekki sitja í embætti nema tvö kjörtímabil. Franklín Delano Roosevelt sat þó lengur því hann var fyrst kjörinn að ég held 1932 og var forseti þar til hann lést í styrjaldarlok og það var Truman (varaforseti hans og forveri Eisenhowers) sem tók ákvörðunina um Hiroshima og Nagasaki.

WP 20160217 11 00 13 ProEinhver mynd


2456 - Guðni Th., Andri Snær og Ólafur Ragnar

Þeir sem hætta skyndilega núna og eru í áhrifastöðum hljóta að fá á sig Tortóla stimpilinn. Athyglisvert er að RUVið styður ekki núverandi ríkisstjórn eins og það hefur oftast gert. Ríkismennirnir reka þessvegna upp ramakvein. Annars er það athyglisvert að fjölmiðlar flestir eru á sömu línu og RUVið, nema auðvitað Mogginn sem sér ekkert nema útgerðarauðvaldið og Davíð Oddsson. Og eitthvað var DV að spangóla.

Fáir efast samt um að núverandi ríkisstjórn hafi margt gott gert. Jafnvel hörðustu andstæðingar hennar efast ekki um það í hjarta sínu. Furðuvel hefur gengið að koma landinu á réttan kjöl eftir hrunáfallið. En það er ekki nóg. Illvirkin og mistökin eru svo mörg og margvísleg að þau skyggja alveg á hin hugsanlega góðu verk. Auk þess eru kjósendur mun betur upplýstir núna en verið hefur. Enda er það hverjum manni ljóst að ríkisstjórnarflokkarnir munu tapa stórlega fylgi í næstu alþingiskosningum. Þessvegna mun hún sitja eins lengi og hún mögulega treystir sér til. Afgerandi og traustverðar skoðanakannanir eða æsilegustu mótmælaaðgerðir kunna að flýta kosningum eitthvað. Fjórflokkurinn allur mun þó sennilega tapa rækilega eins og skoðanakannanir hafa spáð allt kjörtímabilið. Varla breytist það. Skysamlegast hefði verið fyrir ríkisstjórnina að segja af sér áður en Sigmundur hrökklaðist frá.

Annars er íslensk pólitík ekkert spennandi núna. Eftir að tókst að koma Sigmundi Davíð frá eru menn þreyttir og móðir. Ríkisstjórnin notar þetta með dagsetninguna sem vopn í baráttunni við stjórnarandstöðuna. Þó má búast við að þingkosningar verði í haust og fyrir mig og mína þýðir það líklega að við verðum að fara til Kópavogs að kjósa. Vegna þess að flutingstilkynningin misfórst.

Donald Trump og Hillary Clinton eru nokkuð viss um að fá útnefningu flokka sinna í bandarísku forsetakosningunum og aðalspurningin er þá sú hvort stuðningsmenn Bernie Sanders verði svo reiðir að þeir muni sitja heima. Þannig gætu kosningarnar orðið tvísýnar. Annars ætti sigur Hillary að vera auðveldur.

Ef Guðni Th. ætlar sér í framboð gegn Ólafi Ragnari þarf hann að fara að ákveða sig. Satt að segja er ég farinn að halda að hann ætli ekki að gera það. Þá er Ólafur Ragar svotil öruggur um sigur. Guðni Th. hefði hinsvegar vel getað unnið hann. En ef hann þorir ekki er ekkert við því að gera. Andri Snær vinnur hann varla en saman hefðu þeir náð af honum talsverðu magni atkvæða.

IMG 2366Einhver mynd.


2455 - The nasty effect

Getur verið að það herði andstæðinga vinstri elíturnar hér á landi, ef þeim finnst stjórnmálaleg gagnrýni hennar fara yfir strikið? Bandaríkjamenn kalla slíkt gjarnan „the nasty effect“ og hafa einkum velt því fyrir sér hvort það skýri vinsældir Donalds Trump að einhverju leyti.

Af hverju er alltaf talað um „fuglasöng“ og „mávagarg“? Einnig er mér ekki grunlaust um að oftar sé talað um „svanasöng“ en „álftagarg“. Á margan hátt eru þetta ágæt dæmi um blæbrigði málsins. Eitthvað væri að þeim mönnum sem töluðu um „mávasöng og svanagarg“. Kannski það væru bara útlendingar. Annars er það einmitt útlendingahatrið sem ég ætlaði mér að tala um hér og nú.

Á Íslandi þykir ekki fínt að vera framsóknarmaður. Þó eru þeir einna fremstir í þjóðar-rembingnum. Af hverju í ósköpunum hefur enginn stjórnmálaflokkur tekið fordómafulla fólkið, flóttamannahatarana og hælisleitanda-andstæðingana upp á sína arma? Ef miðað er við hin Norðurlöndin ætti að vera hægt að fá a.m.k. 10 til 15 prósent atkvæða með því einu að höfða til þessa fjölmenna hóps.

Ekki eru Íslendingar betri en aðrir. Flokkakerfið er bara öðruvísi. Þessi hópur hefur lent utangarðs. Nú hillir samt undir að framsóknarflokkurinn reyni að helga sér þetta fólk og þannig að fara nærri því að halda kjörfylgi sínu þó forsætisráðherra þeirra hafi hrökklast frá völdum.

Þó allir séu í raun sammála um að hægri og vinstri séu úrelt skilgreiningaratriði get ég eiginlega ekki leynt því að með þessu er ég fyrst og fremst að tala um últra-hægrið. Er það vegna þess að ég vilji gjarnan teljast til vinstri elítunnar? Kannski er það svo. A.m.k. hugnast mér ekki boðskapur sjálfstæðisflokksins. Mér finnst ég alltaf sjá í gegnum áróður þeirra glitta í ríka fólkið og hjól atvinnulífsins. Mér finnst jafnvel að „eitthvað annað“ sé skárra en „stóriðjudraumurinn“ og álvera-aðdáunin.

Annars finnst mér þetta nógu stór skammtur um stjórnmála ástandið í bili svo ég ætla að reyna að snúa mér að einhverju öðru. Á bara svo erfitt með það. Kannski er það vegna „ólgutímanna“ sem Ólafur Ragnar talar um. Eða er það bara vegna vegna þess að ég vil gjarnan teljast til „góða fólksins“, sem ekki ætti að vera svo erfitt að verja.

Nú er ég að verða búinn með skammtinn minn og segja má að hann hafi eingöngu verið speglasjónir um stjórnmálaástandið. Kannski er það svona skrítið um þessar mundir eða ég orðinn svona hallur undir það. Finn a.m.k. ekkert annað til að skrifa um. Og svo eru myndirnar víst búnar. Ég held að ég hafi gleymt að geta þess að ef myndirnar mínar þykja óskýrar, má prófa að klikka á þær og stækka þær svolítið.

IMG 2311Einhver mynd.


2454 - Það er þetta með forsetakosningarnar

Hvernig eru forsetar kosnir? Hefði ég kannski átt að segja Ólafar? Stundum eru það stjórnmálamenn. (Eins og ÓRG.) Stundum ekki. (T.d. Kristján Eldjárn) Skilst að Guðni Th. sé sagnfræðingur og prófessor. Ekki ætti það að verða honum til trafala. Ólafur var stjórnmálafræðingur og prófessor. En Vigdís þó ekki. Aftur á móti hafði hún persónutöfra og kunni þar að auki frönsku.

Í rauninni ræður Ólafur næstum engu. Man vel eftir Ásgeiri Ásgeirssyni sem kom stundum í heimsókn til bróður síns á Helgafelli í Hveragerði. Gott ef Harold í Snorrahúsi gerðist ekki bílstjóri hjá honum. Virðulegur var Ásgeir. Ekki vantaði það. Útlendingar halda sumir að forseti Íslands ráði heilmiklu. Það finnst Ólafi gott. Honum finnst líka gaman að heyra sjálfan sig tala. Og alveg sérstaklega ef hann hefur ástæðu til að halda að áheyrendur séu fleiri en hjá einhverjum öðrum. Vitanlega má margt gott um Ólaf Ragnar Grímsson segja. Þó er hann ekki ómissandi.

Enn er áframhald á skrítum tímum hér á Ísa köldu landi. Ekki er nóg með að túrhestar séu að færa allt á kaf, heldur þarf maður bæði að hugsa um forsetakosningar og þingkosningar í sama andartakinu. Venjulega er svolítið bil á milli. Á endanum verða kosningar kannski þjóðaríþrótt okkar á svipaðan hátt og skrúðgöngur eru víst hjá Norður-Írum.

Næstu þingkosningar verða athyglisverðar og framboðin jafnvel líka. Vorkenni Pírötum svolítið að þurfa að passa sig á allskyns lukkuriddurum sem líklegt er að sæki á þá eins og mý á mykjuskán ef þeir halda áfram að koma svona vel út í skoðanakönnunum. Gömlu flokkarnir og afsprengi þeirra eiga sennilega í enn meiri vandræðum með að finna frambærilegt fólk í stað gömlu andlitanna sem enginn treystir lengur.

Ef það er virkilega rétt að skattayfirvöld ætli í framhaldi af Panama-pappírunum að fara að vera vond við verktaka, undirverktaka, ráðherra, borgarfulltrúa og jafnvel alþingismenn og fyrirtækjastjórnendur gæti maður allt eins búist við að skammirnar á fésbók fari minnkandi. Samt á ég nú ekki von á því. Virkir í athugasemdum hljóta bara að finna sér eitthvað annað til að bölsótast yfir. Nóg er eftir.

Einhverjir vitleysingar boða til mótmæla við heimili Bjarna Benediktssonar. Ég var að vinna hjá Securitas þegar mestu lætin voru hérna um árið. Man að ég var á einhverjum næturvöktum hjá heimilum Rannveigar Rist og Ólafar Nordal. Fannst það framúrskarandi asnalegt. Þó voru einhverjir að andskotast með rauða málningu um miðjar nætur á þessum tíma. Við heimili manna á ekki að mótmæla. Punktur.

Mótmælin á Austurvelli eru líka að verða marklaus að mestu. Alltof margir boða til mótmæla þar. Ef mómælendum fjölgar ekki frá degi til dags eða viku til viku er lítið mark á þeim tekið. Grjótkast og þess háttar er sem betur fer aflagt að mestu. Fyrir mér var toppurinn á búsáhaldabyltingunni þegar mótmælendur vörðu lögregluna við stjórnarráðshúsið.

WP 20160412 11 21 38 ProBlokk.


2453 - Forsetakosningar o.fl.

Margt bendir til að Guðni Th. sé sá sem helst getur velgt ÓRG undir uggum í komandi forsetakosningum. Hver veit nema þær verði spennandi? Ef Guðni gefur kost á sér sýnist mér að svo geti vel orðið. Auðvitað kaus ég Ólaf 1996 (og Vigdísi þar áður.) Svo kaus ég Þóru árið 2012 einkum vegna þess að mér þótti ÓRG vera búinn að vera nógu lengi. Ekki hefur það álit breyst og ég sé ekki betur en Guðni Th. sé vel frambærilegur í embættið. Vissulega hefur Ólafur talsvert forskot en þessi þaulseta hans getur líka orðið honum fjötur um fót. Að aðrir frambjóðendur en Ólafur séu svo margir þarf ekki að draga úr áhuga Guðna á embættinu, því vel getur farið svo að þeir frambjóðendur fái allir mjög fá atkvæði.

Að einhverjir aðrir en Guðni séu að hugsa um að fara fram er heldur ólíklegt. Einkum eftir blaðamannafundinn sem Ólafur hélt. Kannski voru bæði Össur Skarphéðinsson og Davíð Oddsson á þeim buxunum en ég hygg að þeir séu hættir við núna. Annars er tímasetning allt í þessu sambandi og ef Guðni lýsir yfir framboði fljótlega er varla von á öðrum. Ef Guðni hættir hins vegar við gæti stjórnmálalegur frami samt blasað við honum.

Er litmus-testið aðallega það núna hvort menn eru nefndir í Panamaskjölunum eða ekki? Kannski dugar að vera giftur einum slíkum. Þingmenn og stjórnmálamenn virtust fremur fáir eiga Tortóla-eignir og búið er að taka flesta þeirra í gegn, svo nú er best að snúa sér að öðrum. Aðeins úrvals fjölmiðlar fá víst aðgang að þessum Panamaskjölum hvernig sem ritstjóri DV hamast og lætur. Eftir því sem einhverjir segja er Jón Ásgeir og eiginkona hans títtnefnd í þessum skjölum. Eigum við ekki bara að bíða og sjá hvað kemur útúr þessu öllu? En fjölmiðlarnir vilja auðvitað smjatta sem mest á því. Ekki það að ég sé einhver sérstakur aðdáandi Jóns Ásgeirs. Hann, ásamt skylduliði sínu öllu, virðist samt hafa sloppið í sloppinn rétt fyrir hrun. Og rík eru þau. Hvaðan er það ríkidæmi komið? Af hverju skyldi það vera sem allir taka fram að skattar hafi verið borgaðir af peningum í Tortólum heimsins? Hugsa þeir ekki um neitt nema skatta? Er sjálfsagt að fara með alla peninga einhvern andskotann og segja svo að skattar hafi verið borgaðir af þeim?

Eitt er það sem ég hef aldrei gert en Moggabloggið býður samt uppá. Það er að flokka bloggin mín. Enda held ég að það sé erfitt. Ég er nefnilega með þeim ósköpum gerður að skrifa um allan fjárann í bloggunum mínum. Að vísu er ég frekar örlátur á greinaskilin og vel væri hægt að hugsa sér flokkun sem byggðist á málsgreinunum. Þá er þetta líka farið að verða talsvert mikið verk (a.m.k. svona eftir á) og mitt helsta lífsmottó er letin. Því ég nenni þessu barasta allsekki.

Ósköp er þetta fréttatengt allt saman hjá mér. Það vil ég einmitt helst ekki. Vil endilega að bloggin mín séu sem fjölbreyttust. Sumt sé fréttatengt og annað ekki. Verst hvað þetta er alltsaman fyrirsjáanlegt og sjálfsagt. Þegar ég slysast til að láta frá mér fara einhverjar skoðanir eru þær oftast svo sjálfsagðar og margþvældar að lítið sem ekkert gagn er að þeim. Þetta finnst mér allavega, en kannski ekki Jóni Vali Jenssyni.

WP 20160410 12 19 21 ProTrampolín.


2452 - Guðni Th

Greinilegt er að sumir (jafnvel flestir) þeirra sem höfðu í hyggju að bjóða sig fram til forseta lýðveldisins gerðu það einkum í auglýsingaskyni. Einn þeirra, Magnús Ingi Magnússon, lét þess beinlínis getið að hann mundi gefa hverjum þeim eitt stykki heitan hamborgara sem skrifaði á meðmælendalista sinn. Ódýr auglýsing það, því hann hefði hvenær sem er getað sagt að nógu margir meðmælendur væru komnir og hann væri hættur að gefa hamborgara. Kannski hefur það einkum verið sú hamborgaravæðing forsetaembættisins sem hefur farið í taugarnar á Ólafi Ragnari Grímssyni. Ekki hvarflar að mér að hann hafi ákveðið af illum hug að bjóða sig fram aftur. Hamborgaraforseti held ég hann vilji ekki vera.

Annars skil ég ekki ofsa þann sem gripið hefur vinstri menn marga útaf þessari ákvörðun ÓRG. Margir þeirra láta þetta fara óskaplega í taugarnar á sér en mér finnst þetta litlu máli skipta. Nema þá kannski í stóra samhenginu sem er greinilega það að valdastéttin vill halda sínu (með sínu lagi).

Prestar og sýslumenn ásamt öðrum valdsmönnum hafa löngum ráðið því hér sem þeir vilja. Meðan aðrar stéttir eru eins tvístraðar og dreifðar og raun ber vitni er ekki mikil von til að það breytist. Fyrir sakir breyttrar fjölmiðlunar ætti þó að vera auðveldara að sameina aðrar stéttir til að hrifsa völdin af valdastéttinni, en svo virðist ekki vera.

Þær þingkosningar sem boðaðar hafa verið næsta haust er líklegast að fari þannig að ÓRG fái lítið tækifæri til að láta ljós sitt skína. Ef til vill eru dagar forsetaembættisins taldir en þó eru allar líkur á að Ólafur verði ellidauður á Bessastöðum.

Þetta hamborgara- og forsetamál er með því ómerkilegasta sem þjóðin hefur deilt um. Stjórnarskrárdrögin sem einnig hefur verið deilt svolítið um eru mörgum sinnum merkilegri. Jafnvel aðild Íslands eða ekki að ESB er það. Þó virðast furðumargir vera óvenju æstir útaf þessu.

Reyndar er það svo, að því miður er þetta blogg ekki nærri eins merkilegt samt og afhamborgaravæðing forsetaembættisins sem ÓRG hefur einsett sér að berjast fyrir. Kannski fær hann ekki einu sinni frið til þess. Held samt að Guðni Th. fari ekki fram. En eftirspurn eftir honum á framboðslista hjá ýmsum flokkum hefur áreiðanlega stórakist við forsetaspeglasjónir hans.

WP 20160410 12 17 40 ProHundur.


2451 - ÓRG enn og aftur

Er nokkuð hægt að blogga núna án þess að minnast á ÓRG? Eiginlega hef ég enga skoðun á þessu síðasta útspili hans fyrr en ég veit hvaða kosti verður um að ræða í komandi forsetakosningum. Er í miklum vafa um hvort ég vilji hann frekar en Andra Snæ. Hinsvegar líst mér nokkuð vel á Guðna Th. og hugsa að ég mundi taka hann framyfir ÓRG. Annars er alltof snemmt að vera að velta þessu fyrir sér. Útkoma flokkanna í væntanlegum alþingiskosningum er miklu merkilegra viðfangsefni. ÓRG virðist ganga útfrá því að erfitt verði að mynda stjórn eftir næstu kosningar og þessvegna sé hann ómissandi. Ég er ekki á sömu skoðun.

ÓRG tekur talsverða áhættu með því að bjóða sig fram enn einu sinni. Gagnstætt því sem flestir halda (eða héldu í fyrstu) er ég sannfærður um að hans tími er liðinn. Það sem sagt verður um hann eftir slíkt tap, gæti orðið heldur slæmt. Fljótfærni kann að vera ástæðan fyrir þessu frumhlaupi.

Hvernig skyldi standa á því að í hvert skipti sem ég sest niður og ætla að horfa á sjónvarpið þá skuli vera þar þáttur um einhverja heimsfræga íslenska popphljómsveit sem ég hef aldrei heyrt minnst á. Auðvitað getur verið að þetta sé vegna þess að ég sé svona illa að mér um popp en sýnir sjónvarpið bókstaflega aldrei neitt annað en svona efni og svo náttúrlífsmyndir með David Attenborough. Jú, Egill Helga er með bókmenntaþátt á miðvikudögum og ég hef reynt að horfa á hann. Móðgaðist þó svolítið um daginn þegar Kiljuþátturinn sem ég ætlaði að fara að horfa á reyndist bara vera endursýning á gömlum þætti. Þetta var á hefðbundnum frumsýningartíma og vitanlega hefði átt að vera búið að vara mann við. Það var samt ekki gert. Margt er samt áhugaverðara en blessað sjónvarpið og eiginlega er það orðið alveg úrelt, nema þá helst fréttirnar.

Ég er svolítið hissa á því hve leiðitamir þessir ungu þingmenn stjórnarflokkanna eru. Augljóst hlýtur að vera öllum að fulltrúar gamla tímans ráða því sem þeir vilja í stjórnarflokkunum og Bessastaðabóndinn er óneitanlega farinn svolítið að eldast. Á virkilega að halda áfram með ríkramannadekrið sem eru ær og kýr Bjarna Benediktssonar og hann taldi Framsóknarflokkinn á að styðja og féllst meira að segja á forsætisráðherratign Sigmundar Davíðs. Kannski er samt réttara að kalla Sigmund Davíð fósturson ÓRG eins og ég sá einhversstaðar haldið fram. Það getur líka verið að öldungaráðið í hinum síminnkandi Sjálfstæðisflokki hafi sagt Bjarna að haga sér eins og hann gerir.

Til öryggis lít ég yfileitt á tímamótaþáttinn í Fréttablaðinu. Flest tímamótin eru að vísu andlát, en það eru einmitt þau sem ég lít á. Ég er nefnilega kominn á þann aldur að vel gæti verið að ég kannaðist við einhverja þar.

WP 20160402 09 15 06 ProGangstígar.


2450 - Föstudagsblogg

Föstudagsblogg eru nauðsynleg, því þá lesa flestir vitleysuna úr manni. Þessvegna var það sem ég flýtti mér allt hvað af tók að setja á blað eitthvað sem ég hélt að væri frumlegt á föstudaginn var og ekki brást mér það að lesendur urðu allmargir. Annars er það ekkert keppikefli að ná á sitt vald sem flestum lesendum. Og ekki hefur maður hugmynd um hverskonar lesendur láta svo lítið að lesa bloggið manns. Jafnvel ekki hvort allar heimsóknirnar þýða lestur og hversu skilningsmikill sá lestur hugsanlega er. Óvissan er semsagt heilmikil.

Eitt blogg á dag kemur heilsunni í lag. Ætti kannski að vera þarna annan hvorn eða þriðja hvern dag?

„Bloggið er betra.“
„Betra en hvað?“
„Bókin fés.“
„Virkilega?“
„Virðist mér.“

En af hverju ertu alltaf að hallmæla fésbókinni og uppnefna hana.

Kært barn hefur mörg nöfn. Mér hefur virst að „Facebook“ gangi undir ýmsum nöfnum bæði á fésbók og bloggi.

Það getur vel verið. En er hún nokkuð verri fyrir það?

Kannski ekki. Hún er sjálfsagt ágæt til síns brúks eins og margt fleira.

En af hverju ertu að blogga hér á Moggablogginu? Gerirðu þér ekki grein fyrir því að með því færðu á þig íhaldsstimpil?

Mér er alveg sama um það. Aðrir en þeir sem telja sig hafa eitthvert gagn af þessu bloggi (eða eru skyldir mér) lesa það varla.

En ég var bara að tala um stimplunina.

Já, já. Mér er alveg sama samt. Ef einhverjir halda að mér finnist ég þurfa að vera sammála Moggafjandanum þess vegna, þá verður bara að hafa það. Mér finnst ég allsekki þurfa þess.

Tveir menn (a.m.k.) af þeim sem ég hef þekkt um ævina voru ákaflega veikir fyrir amerískum drekum og bensínhákum (bílum). En það voru (og eru) þeir Indriði G. Þorsteinsson og Eiríkur Jónsson fjölmiðlafígúra. Að öðru leyti held ég að þeir séu ekkert líkir og ég er alveg viss um að fleiri eru veikir fyrir amerískum drekum. Það var til siðs í eina tíð (líklega svona 1950 – 1980) að hafa ameríski bíla sem stærsta, þyngsta og sterkasta, m.a. af því að bensínið í henni Ameríku kostaði næstum ekki neitt þá og svo vilja Kanarnir alltaf vera stærstir og mestir. (Sennilega er það útaf einhverskonar minnimáttarkennd).

WP 20160316 10 52 49 ProSementsverksmiðjan.


2449 - Össur Skarphéðinsson

Ef ekki koma fleiri í framboð til forseta (sumum finnst þeir þegar vera orðnir of margir) gæti þetta snúist upp í einvígi á milli Andra Snæs og Guðna Th. Ég vil helst ekki trúa því að Ástþór eigi séns. Hinir eru flestir eitthvað gallaðir finnst mér. Kannski er þetta tóm vitleysa, en akkúrat núna finnst mér þetta. Þó getur vel verið að ýmislegt eigi eftir að ske í sambandi við þessar forsetakosningar. Ekki er að sjá að við fáum alþingiskosningar fyrr en næsta haust svo sennilega er best að einbeita sér að þessum forsetakosningum. Og það er einmitt það sem ég held að fjölmiðlarnir geri núna í framhaldinu. Það er að verða ástæðulaust að bíða öllu lengur, Össur minn.

Annars hef ég ekki meira um þetta að segja í bili, en býst við blaðamannafundum um helgina.

Sem dæmi um hve sjálfmiðaður ég er mætti nefna að ég hef, einmitt núna, meiri áhyggjur af því að ég á sennilega ekki fleiri nýlegar og sæmilegar bloggmyndir tilbúnar, en áhyggjur mína um það hver verður næsti forseti eru. Þar af leiðandi verð ég sennilega að setja gamla mynd með þessu bloggi. Auðvitað er lítið hægt að segja um það fyrr en framboðsfrestur er liðinn hvernig baráttan kemur til með að verða um þetta virðulega forsetaembætti. Það sakar samt ekki að spá og spekúlega. Kveikjan að þessum spekúlasjónum mínum var fésbókarinnlegg Sigurðar Þórs sem ég veit að er mótfallinn Andra Snæ.

Hvort er ég bloggari eða ljósmyndari? Mér finnst meira gaman að skrifa og ljósmyndir eru listgrein sem ég skil eiginlega ekki. Heimspeki er satt að segja sú vísindagrein sem ég dáist hvað mest að. Sérstaklega finnst mér aðdáunarvert hve heimspekingar eiga oft auðvelt með að rökstyðja skoðanir sem eru alveg útúr kú.

Auk alls annars eru miklar líkur á að þessar kenningar mínar séu ónýtar orðnar. T.d. með því að Guðni Th. bjóði sig allsekkert fram. Hvað þá Össur. Andri Snær er þegar búinn að ná talsverðu forskoti.

IMG 1747Einhver mynd.


2448 - Einar Guðfinnsson

„Hann danglar aldrei í bjölluna fyrr en þrjár mínútur yfir.“
„Hver er það?“
„Nú auðvitað hann Einar.“
„Hvaða Einar?“
„Æ, hann þarna bjöllusauðurinn frá Bolungarvík.“
„Og hver er það?“
„Held hann sé forseti alþingis, eða eitthvað svoleiðis.“

Hverjir skyldu það vera sem græða á öllum Tortóla-peningunum? Ekki gera þessar fáu hræður sem þar búa það. Og hverjir þá? Auðvitað Cameron og allir hinir Breta-greifarnir. Já og City of London eða hvað þeir kalla það. Þykjast vera peningamiðstöð heimsins og eru samt skíthræddir við ESB. Það á líka eftir að koma eftirminnilega í ljós í þjóðaratkvæðagreiðslunni sem verður í júní ef ég man rétt. Bretland er ein allsherjar aflandseyja þó þeir þykist vera eitthvað annað. Peningarnir fara alltaf þangað á endanum.

Til að missa af sem minnstu á fésbókarræflinum þyrfi maður líklega að vera í einum hundrað hópum þar. Held að ég sé í innan við tuttugu. Sennilega er það alltof lítið. Það finnst fésbókarfólkinu líka, því nú hvetur það mann til að stofna sem flesta hópa. Annars finnst mér auglýsingarnar vera farnar að tröllríða öllu á fésbókinni.

Listin að skrifa svo mörgum líki er að skrifa meira en manni sjálfum líkar. Annars skiptist fólk gjarnan í tvo hópa: þá sem vilja lesa bækur og aðrar langlokur og svo hina sem langar að lesa stuttar greinar um það sem það hefur áhuga á. Auðvitað blandast þetta saman á margan hátt.

Að hafa nöfn í fyrirsögninni er fjári gott. Margir halda að þá hljóti að vera eitthvað bitastætt í blogginu, en það er bara sjaldnast tilfellið hjá mér. Samt sem áður held ég áfram að blogga eins og vitlaus maður. Kannski er ég bara svona vitlaus.

Stjórnmálin eru svo skrítin þessa dagana að ég þvæ hendur mínar. Ég verð bara að segja það. Kosningar eða ekki kosningar. Mér er bara alveg sama. Stjórnarflokkana mun ég ekki kjósa undir neinum kringumstæðum. Svipað er að segja um forsetakosningarnar: Sennilega er Andri Snær einna skástur af þeim sem þegar hafa látið í ljósi áhuga, en þeir eru víst nokkuð margir. Eitthvað gæti samt bæst við. Verst að flutningstilkynningin mín misfórst eitthvað svo ég verð líklega að kjósa í Kópavogi og fá bara cirka hálft atkvæði miðað við það sem Akurnesingar fá. Annars er það nokkuð gott hjá Sturlu Jónssyni að segjast vera búinn að fá þrjú þúsund undirskriftir en fá ekki að skila þeim.

Í Danmörku minnir mig að það hafi verið sett lög sem bönnuðu ráðherrum að ljúga. Gott ef það reyndist ekki bara vel.

WP 20160316 10 40 11 ProLaufblað.

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband