Bloggfærslur mánaðarins, júní 2020

2977 - Úrslitin

Úrslit forsetakosninganna voru svipuð og búist var við. Samt er ekki hægt að álíta að kosningarnar hafi verið með öllu þýðingarlausar. Guðmundur sjálfur bjóst alls ekki við að sigra. Hvað þær þúsundir kjósenda sem þó kusu hann voru að hugsa er ekki gott að segja. Sennilega hafa þeir flestir, eða jafnvel allir, gert sér ljósa grein fyrir því að sigurlíkur hans voru engar.

Komið er í ljós að Covid-19 veiran grasseraði í næstum tvo mánuði um heimsbyggðina án þess að gripið væri til nokkurra varna. Þetta stafaði einkum af þeirri trú manna (vísindamenn meðtaldir) að einkennalausir gætu alls ekki smitað aðra. Þessi trú reyndist ekki rétt. Þessvegna má leiða líkum að því að þessi trú hafi orðið til þess að heimsfaraldur varð. Nú velta menn því einkum fyrir sér hve lengi hægt sé að gera ráð fyrir að veira þessi dreifi sér. Kannski er hún komin til að vera. Bóluefni finnst gegn henni á endanum. Hætt er samt við að það verði einkum ríkari hluti heimsins sem nýtur góðs af því.

Kannski ætti ég ekki að leggja neina áherslu á að hafa þetta innlegg lengra. Fæst orð bera minnsta ábyrgð er sagt. Sennilega er það alveg rétt. Ég á samt erfitt með að láta svona stuttaralegt blogg frá mér fara. Þar kemur til áralöng þjálfum mín í að skrifa. Sennilega er sama í hverju menn vilja skara framúr, þjálfun og ástundun er nauðsynleg. En skara ég framúr í því að blogga? Ekki veit eg það, svo ofboðslega gjörla. Kannski er það svo að með allri þessari þjálfun hef ég komið mér upp talsverðu forskoti fram yfir flesta aðra.

IMG 5777Einhver mynd.


2976 - Forsetakosningar

Mér skilst að um næstu helgi verði forsetakosningar. Mér finnst þó afar stutt síðan við kusum okkur forseta síðast. Að sumu leyti eru þessar kosningar óþarfar. Guðni vinnur þetta mjög augljóslega og mjög auðveldlega. Samt er það svo að sitjandi forsetar eiga ekki sjálfsagðan rétt á því að vera forsetar áfram, þó þeir vilji. Sennilega vilja flestir t.d. (ja, Íslendingar a.m.k.) að Trump bandaríkjaforseti tapi kosningunum sem verða þar í haust. Kannski er það að einhverju leyti vegna þess að allflestir fjölmiðlar virðast vera á móti honum. Það er samt allsekki aðalástæðan. Hún er sú að hugsunarháttur allmargra Bandaríkjamanna er gjörólíkur okkar Íslendinga og Evrópubúa yfirleitt.

Kosningabaráttan fyrir forsetakosningarnar um næstu helgi hefur mestan part farið framhjá mér. Meðal annars held ég að það sé vegna þess að stjórnmálaflokkar, nema kannski Miðflokkurinn svonefndi, hafa leitt þær algjörlega hjá sér. Ekki er eðlilegt að gera forsetakosningar allt í einu pólitískar og lofa miklum breytingum. Það hefur samt annar frambjóðandinn svikalaust gert. Þessvegna m.a. má búast við því að hann tapi stórt. Á ýmsan hátt gæti Guðmundur Franklín samt sennilega orðið ágætur forseti, en hann tekur greinilega snarvitlausan pól í hæðina. Þetta eru ekki pólitískar kosningar, þó hann vildi vitanlega gjarnan að svo væri.

Flest það sem gerist í bandarískum stjórnmálum þessa dagana virðist vera Trump forseta mótdrægt. Vitanlega er það engin furða. Hann hefur hagað sér eins og asni undanfarið. Sennilega hefur honum fundist að fótunum væri kippt undan sér, þegar hagvöxturinn stöðvaðist. Hann er umfram allt fulltrúi hans. Sú gerviveröld er honum mikilvægari en allt sem lífsanda dregur. Sjálfan sig tekur hann væntanlega út fyrir sviga samt.

Kosningar og pólitík allskonar virðast vera mínar ær og kýr. Að minnsta kosti skrifa ég mest um þau fyrirbrigði. Það er mikilvægt að hafa skoðanir á slíku. Ekki ætlast ég þó til að lesendur mínir séu ætið sammála mér. Fjarri fer því. Samt finnst mér það hreinsandi að láta það á blað sem ég hugsa um þau mál. Auðvitað gæti ég skrifað um ýmislegt annað. A.m.k. finnst mér oft að áhugasvið mín séu ótrúlega fjölbreytt. Þó get ég ekki neitað því að með aldrinum hefur áhugamálum mínum fækkað nokkuð. Ennþá get ég samt skrifað um bækur og þessháttar, íþróttir, pólitík, trúmál, vísnagerð og margt fleira. Segja má ennfremur að Íslenskan sé eitt af mínum hugðarefnum. Ég er samt þeirrar skoðunar að þýðingarlaus með öllu sé sú aðfinnslu- og leiðréttingarárátta sem greinilega hrjáir suma.

Það er undarlegur siður hjá mér að vera sífellt að þessu bloggi án þess að hafa nokkuð að segja. Vonandi meiði ég samt fáa með þessum skrifum mínum.

IMG 5780Einhver mynd.


2975 - Eldhús

Miðflokksmenn stunda það að taka alþingi í gíslingu. Þeir gerðu það með orkupakka sem ég man ekki lengur númerið á síðastliðið vor. Og núna er það Borgarlínan sem lendir á milli tannanna á þeim. Mér finnst þeim koma það lítið við hvernig sveitarstjórnir kjósa að eyða sínum peningum. Margt þarfara ættu fulltrúar okkar á aþingi að hafa að sinna núna á þessum síðustu og verstu tímum.

Í stað fjögurra milljóna manna sem boðað var að hefðu áhuga á að koma á Tulsa-rall Tromparans komu þangað aðeins ríflega sex þúsund manns. Auðvitað er ekki hægt með nokkru móti að heimfæra þetta á kosningarnar í haust. Trump á þó greinilega í einhverjum vandræðum. Hann ætlar sér greinilega, með góðu eða illu, að tryggja sér fjögur ár í viðbót við stjórnvölinn. Ekki er víst að honum takist það. Útlit er samt fyrir að kosningarnar í haust verði spennandi mjög. Við bíðum í ofvæni.

Eldhúsdagur hljómar nú í útvarpi allra landsmanna og því miður kemur ekkert nýtt þar fram. Stjórnmálamenn eru fljótir að koma sér í rifrildisgírinn. Mest er ég hissa á hvað alþingismenn eru yfileitt illa að sér og grunnhyggnir. Á þessu eru þó auðvitað heiðarlegar undantekningar sem ég hirði ekki um að nefna. Sjálfur er ég eflaust ekki hótinu betri. Stjórnmál eru mannskemmandi.

Ofan í allt annað sem við höfum mátt þola á þessum vetri, væri að sjálfsögðu tilbreyting í því að fá eins og eitt smávegis eldgos. Þó ekki væri nema venjulegt túristagos. Náttúran hefur að undanförnu verið að hrista sig lítilsháttar, en ekki er víst að neitt verði úr neinu.

IMG 5785Einhver mynd


2974 - Tíbrá

Skil ekki hversvegna einhverjir virðast taka framboð Guðmundar Franklíns til forseta landsins alvarlega. Mér virðist það allsekki vera það. Hann megi sannarlega þakka fyrir ef hann fær meira en fimm prósent atkvæða. Sennilega verður hann undir því marki. Hinsvegar er því ekki að leyna að ég er á vissan hátt fylgjandi framboði hans. Staða Guðna verður til muna sterkari eftir þessa kosningu. Framhjá því verður ekki með neinu móti komist að lýðræði kostar. Þegar sækja þarf um leyfi tl einhverra stjórnvalda til þess að mega bjóða sig fram, þurfum við sannarlega að fara að vara okkur. Framboð Guðmundar er því allra góðra gjalda vert. Með því tryggir hann áframhaldandi lýðræði og sparar okkut með því stórfé.

Lauk nýlega við að lesa bókina „Tíbrá“ eftir Ármann Jakobsson. Í stuttu máli sagt þá varð ég fyrir talverðum vonbrigðum með þá bók. Hugsanlega lesendur þessarar umfjöllunar bið ég að athuga að ég er að mestu hættur að lesa krimma. Sá síðasti á undan þessum, og sá sem mér fannst eitthvað til koma, var að mig minnir „Flateyjargátan“. Var það annars ekki Viktor Arnar Ingólfsson sem samdi þá bók? Hvers vegna hætti hann?

Þetta með Viktor Arnar var eins og hver annar útúrdúr. Mér finnst ég skulda lesendum mínum að útskýra hversvegna ég varð fyrir vonbrigðum með bókina „Tíbrá“.

Ótrúverðugir bláþræðir eru í bókinni. Einkum framan af. Kannski lýsir það mér og bókinni talsvert að ég gafst upp á lestrinum þegar svona 20 til 30 blaðsíður voru eftir. Höfundurinn var þá önnum kafinn við að segja einhverja allt aðra sögu en hann hafði hingaðtil verið að segja. Að því er mér fannst bara til þess að útskýra (eða hrútskýra) allt aðra niðurstöðu en hann hafði boðað fram að þessu. Því miður held ég að höfundurinn eigi ekki mikla framtíð fyrir sér á þessu sviði. Hann virðist ekki kunna, frekar en Yrsa einföldustu reglur um persónusköpun og halda að krimmar séu góð leið til að koma eigin skoðunum á ýmsum málefnum á framfæri.

Hugsanlega er ég orðinn óþarflega fastur í þeirri aðferð sem Arnaldur notar. Þar er allt í nánast ópersónulegum skýrslustíl. Síðan Sjövall og Wahlö leið finnst mér engir nema kannski Arnaldur kunna að skrifa krimma.

Hugsanlega hefði þessi bók getað gengið sem venjuleg skáldsaga, en morðin tvö  gera þetta að krimma. Vissulega getur höfundurinn ekki gert að því. Í krimmum þurfa alltaf að vera morð eða aðrir stórglæpir. Með því að sleppa morðunum og stytta bókina um sextíu til sjötíu prósent hefði þetta sennilega getað orðið sæmilegasti sálfræðitryllir en þá hefðu alls ekki verið jafnmiklir peningar í spilinu.

IMG 5787Einhver mynd.


2973 - Ánamaðkar

Gerði eina smá örsögu áðan í miðri andvökunni og kannski ég láti hana bara flakka. Það er annars undarlegt með mig að þessar árans örsögur trufla mig mikið nú um stundir. Allt sem ég skrifa er þó einkum það sem lesendur minir (sem oft eru u.þ.b. 200 talsins) vilja sjá. Kannski vilja þeir ekki sjá þessar örsögur og þá hætti ég að skrifa þær að sjálfsögðu. Hef ég svo ekki þessi formálsorð fleiri.

- - - - - - - - - - - - - - - -

Einu sinni voru tveir ánamaðkar, sem hétu Jan og Jenna. Já, þetta voru strákur og stelpa. Engum sögum fer af þvi hvernin þeim áskotnuðust þessi nöfn. Nafngiftir eru alls ekki með sama sniði hjá ánamöðkum og öðrum. En nóg um það, við vitum þetta bara allsekki og við það verður að una. Reyndar skiptir litlu sem engu máli hvort nöfnin voru karlkyns eða kvenkyns því kynlíf ánamaðka er mjög frábrugðið því sem er hjá okkur mannfólkinu. En förum ekki nánar út í það.

Það var komið vor og moldin var ekki frosin lengur. Smám saman vöknuðu þau Jan og Jenna úr dvala sínum og fundu að regnvatnið seitlaði um allt. Þau leituðu til yfirborðsins eins og eðlisávísunin bauð þeim. Þessi eðlísávísun er frábrugðin venjulegum ávísunum að því leyti að hún er með öllu óskrifuð nema í DNA-ið hjá öllum ánamöðkum.

Apropos, eðlisávísun og DNA. Hún (eðlisávísunin altsvo) segir öllum ánamöðkum að passa sig á rigningunni, því að hún sé hættuleg. Drukknun geti verið afleiðing að of miklu vatnssulli.

Fljótlega komust þau í súldina. Framundan sér sáu þau gangstíg einn malbikaðan og fínan. Þangað fóru þau allshugar fegin, því þar virtist bleytan vera minni. En eins og allir vita þá forðast ánamaðkar rigningu eins og pestina, eða þ.e.a.s. Covid-19. Frá þeim að sjá í grasinu er malbikið hreinasta guðsblessun og þangað hröðuðu þau sér.

Ekki tók þar betra við því risi einn mikill og illúðlegur nálgaðist óðfluga. Þar var samt enga óða flugu að sjá heldur er bara tekið svona til orða í íslensku máli. Samkvæmt útreikningum einkaleyfaskrifstofu ánamaðafélagsins stefndi risi þessi beint á þau Jan og Jennu og samkvæmt nánari útreikningum sem þau fengu upplýsingar um gegnum snjallúrið sitt var útlit fyrir að hann mundi stíga á þau skötuhjúin í fyllingu tímans.

Sem hann og gerði og lýkur þar með þessari sorglegu sögu.

IMG 5789Einhver mynd.


2972 - Gísli gamli

2972 – Gísli gamli

Samdi eitt stykki örsögu áðan. Kannski ég láti hana flakka hérna. Þá losna ég við að finna eitthvað til að blogga um. Þess saga er afar stutt og fjallar eiginlega ekki um neitt. Eimitt þessvegna læt ég hana frá mér hérna. Er að hugsa um að sérhæfa mig í að skrifa örsögur um ekki neitt. Þetta hefur verið dálítið afskipt bókmenntagrein lengi, en hugsanlega er að verða breyting á því.

- - - - - - - - - - - - - - - - -

Gísli var pínulítið öfugur.

Bara svolítið.

Aðallega á mánudögum.

En þó hann væri svolitið öfugur var hann eiginlega ekkert öfugsnúinn.

Þvert á móti var hann hinn almennilegasti við alla sem hann þurfti að umgangast.

Nema náttúrulega Jóhannes.

Jóhannes og hann voru nefnillega óvinir. Þeir höfðu verið það alla tið.

Eða a.m.k. eins lengi og elstu menn mundu. Gallinn var bara sá að þeir Jóhannes og Gísli voru elstu menn í bænum og mundu ekki eftir neinu misjöfnu. Ekkert þýddi að spyrja þá hversvegna þeir væru óvinir því þeir voru fyrir löngu búnir að gleyma því.

Þegar Anna Sigga stakk uppá því að þeir hættu að vera óvinir og yrðu í þess stað vinir féllust þeir umyrðalaust á það.

En hver var Anna Sigga?

Ég held að hún hafi ekki verið neitt skyld þeim. Henni bara datt þetta svona í hug. Og var vön að láta allt flakka sem henni datt í hug. Þar að auki var hún dóttir prestsins í þorpinu.

Ég byrjaði á því að tala um að Gísli væri svolítið öfugur. Kannski ég haldi áfram með þann þráð.

Þessi frásögn um Önnu Siggu var hvort eð er ekkert spennandi eða skemmtileg.

Þessi öfuguggaháttur hjá Gísla kom einkum fram í því að hann horfði lengur og fastar á karlmenn en kvenfólk. Annað var það nú ekki.

Í þorpinu hans höfðu karlmenn alltaf horft meira á konur en karla. Þessi ónáttúra Gísla var afar undarleg því hann hafði aldrei kynnst öfugum karlmönnum. En hann var alltaf kallaður Gísli öfugi ef eiihvað þurfi að tala um hann.

Annars var hann ekki fyrir neinum og hafði aldrei verið við kvenmann kenndur, nú eða karlmann ef því væri að skipta.

Eiginlega þekkti hann engan nema Jóhannes kranabílstjóra, en hafði lengi verið óvinur hans. Þannig var þetta bara og ekkert meira um það að segja.

Einhver mynd.IMG 5790


2971 - Strætó

Búast má við að úrslit liggi ekki ljóst fyrir í Bandarísku forsetakosningunum í haust (3. nóvember) ef kosningarnar verða tiltölulega jafnar eins og alveg eins er hægt að reikna með. Ástæðan er sú meðal annars að útlit er fyrir að utankjörstaðaratkvæði verði óvenju mörg og tekið getur talsverðan tíma að telja þau. Jafnvel gætu dagar eða dagur liðið þar til ljóst verður hvor vinnur. Síðan má búast við ásökunum um svindl á báða bóga, svo þetta getur orðið ansi spennandi. Þetta minnir okkur sjálfsagt á kosningarnar árið 2000 (mig minnir allavega að það hafi verið það ár) þegar talið var aftur og aftur á Florida í kosningunum milli Gores´ og Bush og Hæstiréttur þurfti á endanum að skera úr.

Að fréttakvenmaður sjónvarpsins skyldi reka bullið í Bjarna Benediktssyni fjármálaráðherra ofan í hann þegar hann var að tala um Þorvald Gylfason, kom honum greinilega á óvart. Hann var þó tiltölulega fljótur að átta sig og lét venjulegan útúrsnúning duga eftir það. Venjulega ætlast hann til að fréttamenn séu ekki að fylgjast með því sem hann segir. Að Katrín forsætisráðherra skyldi svo á þingi forðast að gagnrýna fjármálaráðherrann, var nokkuð sem hægt var að reikna með og óþarfi þessvegna að fara með málið inná alþingi. Gott var samt að fá þetta mál skráð í Alþingistiðindi. Þar verður það um aldur og ævi Bjarna til háðungar.

Sumarið er greinlega komið og ekki nema fáeinir dagar þangað til daginn fer aftur að stytta. Sem betur fer tekur það talsverðan tíma og vel getur verið að sumarið verði bara nokkuð gott. Veturinn hefur verið mörgum erfiður. Þó ekkert á við 1918. Þá urðu landsmenn að sætta sig við spönsku veikina, Kötlugos og frostavetur, ljósi punkturinn var þó fullveldið.

Það er þægilegt að geta verið sem lengst að hlutunum. Ekkert jafnast t.d. á við það að geta verið hálftíma að ákveða hvort opnað skuli útá svalir eða ekki. Svo er líka ákaflega gott að gera verið lengi að hella uppá. Kaffið er samt nauðsynlegt að fá sér áður en alltof langt um líður. Eftir því sem árunum fjölgar verður þetta dýrmætara. Nú er svo komið að ég dreg það í lengstu lög að spyrja símann hve hitinn sé mikill útivið.

Í dag held ég að sé verið að breyta stórlega strætisvagnakerfinu í Hafnarfirði. Ég man vel eftir því að mörgum sinnum, afar mörgum sinnum, hefur strætisvagakerfinu í Reykjavík og á Höfðuðborgarsvæðinu verið breytt. Allaf hefur það verið gert til þess að gera kerfið einfaldara og auðskildara. Ekki hefur það alltaf tekist. Þetta kerfi ætti eiginlega að vera orðið afskaplega einfalt og auskiljanlegt núna, en er það víst ekki. Allur þorri manna veit af þessu og forðast þetta kerfi eftir megni. Forstöðumönnum þessa kerfis kom það verulega á óvart þegar skýrslur sýndu að Akureyringum hafði tekist, með því að fella fargjöld niður, að auka notkun kerfisins.

IMG 5793Einhver mynd.


2970 - Matur

2970 – Heimshlýnun og þessháttar

Ég hef verið að velta því fyrir mér hversvegna svona margir séu alltof feitir og helsta niðurstaðan sem ég hef komist að er sú að matur sé almennt alltof mikill og góður. Það sé helsta ástæðan fyrir fitunni sem hrjáir of stóran hluta fólks á Vesturlöndum. Ég er ekki nógu kunnugur utan Vesturlanda til að geta með nokkru móti gert mér grein fyrir ástandinu þar. Það sem ég læt frá mér fara hérna er kannski hin mesta vitleysa. Eiginlega byggast þessar skoðanir fyrst og fremst á fordómum, sem eru grasserandi um allt.

Áður fyrr átu menn aðallega til að lifa. Sívaxandi hópur fólks lifir núna fyrir það eitt að éta. Matreiðsluþættir eru vinsælasta efni sjónvarps. Kannski á eftir megrunar og matarferðalagsþáttum. Hvert sem litið er virðast matarauglýsingar vera mjög áberandi. Sennilega eru þær mest áberandi af öllum auglýsingum.

Meðan sá hópur fólks, sem lifir fyrir að éta, fer sístækkandi er engin von til þess að mannkynið léttist að nokkru marki. Megrunarþættirnir hafa engin áhrif, enda megrun erfið og föstur virðast lítil áhrif hafa. Ekki er hægt að gera mat verri en verið hefur. Fáir mundu sætta sig við það. Hvað er þá til ráða? Náttúran virðist telja að Covid-19 sé rétta svarið.

Áhrif þess faraldurs fara sennilega sífellt minnkandi. Hvað á þá að gera? Ekki dugir að segja fólki að éta minna, því það er alveg tilgangslaust. Eina vonin er að Jörðin hristi þennan ófögnuð af sér. Hvernig er hugsanlegt að hún geri það? T.d. með því að gera það sífellt erfiðara að éta svona mikinn og góðan mat. Líka er hugsamlegt að heimshlýnunin komi okkur til bjargar þar eins og á fleiri sviðum. Alltaf virðast finnast aðferðir til að auka matvælaframleiðslu, svo þetta er kannski eina ráðið.

IMG 5794Einhver mynd.


2969 - Hinn trompaði Trump

Þessar týpur sem allt vita, eða þykjast vita, og allt geta eru dálítið þreytandi til lengdar. Stundum er samt auðvelt að læra á þær og þá má fá þær án fyrirhafnar til að gera allan fjandann með því að fara rétt að þeim. Ef þær eru látnar komast upp með allt og ná of miklum völdum geta þær valdið talsverðum skaða. Frægasta dæmið um slíkt er Trump Bandaríkjaforseti. Hann hefur greinilega náð alltof miklum völdum og veldur gríðarlegum skaða. Auðvitað geta bandaríkjamenn sjálfum sér um kennt, að hafa kosið þetta gerpi til ábyrgðarstarfa. Samt verður að gera gott úr þessu og láta sem ekkert sé. Mistök af þessu tagi getur verið erfitt að leiðrétta, en í hinum vestræna heimi er slíkt samt gerlegt á fjögurra ára fresti. Það verður líka gert í haust. Verst er að sá sem tekur við er ekki mikill bógur þó hann sé að flestu leyti mun skárri en Trump. Annars skiptir stundum mestu máli í svona tilfellum hvernig nánustu aðstoðarmenn gerpisins haga sér.

Að fylla umhverfi sitt með áhugaverðu efni. Snýst fésbókin ekki aðallega um það? Fæstum tekst þetta almennilega, en þegar allt kemur saman má kannski segja að út úr því komi efni sem er áhugavert fyrir einhverja. Spurningin er bara hvar í fjandanum þeir eru. Sennilega halda þeir sig í mikilli fjarlægð. Afleiðingin verður yfirleitt sú að maður verður að leika þessa einhverja sjálfur og það er hundleiðinlegt. Er fésbókin þá hundleiðinleg? Það finnst kannski einhverjum, en flestir eru sífellt að leita. Verst að þeir vita ekki að hverju þeir eru að leita. Svona má fabúlera endalaust án þess að nokkuð komi útúr því.

Nú er ég farinn að liggja miklu meira fyrir í hjónarúminu, en ég áður gerði. Rúmið er líka miklu fullkomnara núna. Hægt að stilla það á marga vegu. Geimfarastillingin hugnast mér best. Þar fæ ég líka þessar geníölu hugmyndir alveg á færibandi. Ég nenni samt ekki nærri alltaf að koma þeim á blað þó þær eigi það vissulega skilið. Þyrfti að finna einhverja aðferð til þess að geta forðað þessum snjöllu hugsunum frá því að gleymast. Þarf semsagt að reyna að skrifa þó ég liggi útaf. Það gæti orðið erfitt. Allt má þó reyna.

Hvar eru takmörk mannlegrar snilli? Kannski felast þau í að koma sér sem oftast úr rúminu og að tölvunni. Mér hefur að minnsta kosti reynst það vel. Með því að afstilla geimfarastillinguna og flýta sér að tölvunni hefur mér tekist að forða margri snjallri hugsuninni frá gleymsku og dái. Þannin vil ég starfa. Með því stuðla ég að aukinni fjölbreytni í hugsunum homo sapiens sapiens.

Já, svona er hægt að halda lengi áfram. Er ekki bara best að hrósa sjálfum sér nógu mikið. Ekki gera aðrir það.

IMG 5800Einhver mynd.


2968 - Hægri og vinstri

Segway-hjólin svonefndu náðu ekki mikilli útbreiðslu, þrátt fyrir mikla fjölmiðaumfjöllun. Aftur á móti virðast rafknúnu hlaupahjólin ætla að gera það. A.m.k. hér á Íslandi. Kannski eru það einhvers konar einkaleyfi og verð sem ráða þessu. Ég er bara ekki kunnugur því. Ef þessi hlaupahjól ásamt reiðhjólum (hugsanlega rafknúnum) verða ráðandi á göngustígum og gangstéttum í nánustu framtíð gæti farið að verða hættulegt fyrir gangandi fólk (svo ég tali nú ekki um gamalt) að ferðast þar.

Einhver hélt því fram nýlega. Gott ef það var ekki sjálfur Franklín forsetaframbjóðandi (hvað eru mörg f í því?). Að 80% þjóðarinnar hafi verið fylgjandi orkupakkavitleysunni samkvæmt einhverri skoðanakönnum þó aðeins rúmlega 7 þúsund hafi verið tilbúin til að skrifa undir áskorun til forseta Íslands um að setja lög, sem um þennan orkupakka fjölluðu, í þjóðaratkvæðagreiðslu. Hefði gaman af að fá að vita meira um þá skoðanakönnun. Já, ég er að hugsa um að kjósa Guðna og á ekki von á að einhver lesanda minna vilji eða geti svarað þessu.

Í mínum huga er aðalmunurinn á hægri og vinstri mismunandi skoðanir á því hve mikil eða lítil  ríkisafskipti eigi að vera. Þessi skipting getur stundum verið til góðs, þó hún sé um margt úrelt. Afstaðan til ESB, heimshlýnunar, rasisma og margs annars getur verið mismunandi óháð þessari skiptingu og auðvitað margt annað. Einnig getur skipt miklu í hvaða átt þróun virðist stefna. Um þetta get ég ekki mikið fullyrt því ég ákvað fyrir löngu að skipta mér sem minnst af stjórnmálum. Við þetta tel ég mig hafa staðið að mestu leyti.

Þó Moggabloggið birti bæði blogg eftir Björn Bjarnason og Styrmi Gunnarsson er blogg þeirra ekki að finna í tölulegum upplýsingum Moggabloggsins. Ekki veit ég hvers vegna þetta er, en hef þá báða grunaðu um að vilja hafa þetta svona.

Ekkert heyrist frá Icelandair þessa dagana og er það dálítið skrítið miðað við þau læti sem þar voru til skamms tíma. Einhverjir koma til með að tapa verulegum peningum þar. Hvort það verða lífeyrissjóðirnir, starfsfólkið eða félagið sjálft liggur allsekki fyrir. Fréttastofur einbeita sér að fréttum um væntanlega skimun ferðalanga sem vissulega er flókið mál og fréttnæmt en fyrr má nú rota en dauðrota. Gott væri að vita hvernig allir þessir túristar verða fluttir til landsins ef engar flugvélar lenda á Keflavíkurflugvelli.

IMG 5809Einhver mynd.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband