Bloggfærslur mánaðarins, desember 2008

559. - Það er þetta með forsetamyndirnar. Já og kennitöluflakkið og Framsóknarflokkinn auðvitað

Ég hef verið að fylgjast svolítið með umræðum um forsetamyndirnar. Ástþór segist hafa leitað að þeim í klukkutíma á forseti.is án þess að finna þær. Hrannar Baldursson segist hafa fundið þær á einni sekúndu. Hvorttvegga er eflaust rétt en sýnir bara hvernig við hugsum oft eftir mismunandi brautum. Sjálfur reyni ég að fljóta ofan á og sýnast voða gáfaður en er þó óttalegur Ástþór inn við beinið.

Þetta á ekki aðallega við um tölvur heldur opinberast oft með áberandi hætti í tæknimálum ýmiss konar. Ég á til dæmis ekkert erfitt með að skilja hvernig það urðu tæknileg mistök hjá séra Árna Johnsen að stela nokkrum steinum og ýmsu fleiru. Þegar þetta kom upp var Árni bara að hugsa eftir alltöðrum brautum en spyrillinn.

Mest er ég hissa á að fjölmiðill eins og Eyjan.is sem líklega vill láta taka sig alvarlega skuli birta frétt um forsetamyndirnar eftir sögusögn einni. Gjörsamlega ófær vinnubrögð að mínum dómi.

Svo er ég líka upptekinn af því núna að stjórnendur Moggabloggsins (eða tölvuforrit á þeirra vegum) virðast álíta mig kennitöluflakkara og hafa skrifað mér bréf af því tilefni. Sigurður Þór var líka að skrifa um þetta og ekki par ánægður. Ég útskýrði þetta svolítið í kommenti hjá honum en er að hugsa um að endurtaka það.

Á sínum tíma skráði ég mig á Moggabloggið sem saemi.blog.is og notaði rétta kennitölu. Eitthvað misfórst það og ég skráði mig aftur. Þá var bæði skrásetningarnafnið og kennitalan komin í einhverja heilaga skrá svo ég gat ekki notað það. Kennitöluna hefði ég gjarnan viljað nota aftur en fékk ekki. Þá datt mér í hug að nota kennitölu konunnar minnar og bæta 7 við blogg-nafnið. Allt gekk vel við það en nú kemur þetta semsagt í hausinn á mér og ég hef víst bloggað á hennar ábyrgð allan tímann. Best að vinda bráðan bug að því að biðja Moggabloggs-stjórnendur að breyta þessu.

Bjarni frændi minn Harðarson tók eitt sinn svo til orða í Silfri Egils fyrir nokkrum árum að í grunninn væru allir sem um stjórnmál hugsa annaðhvort Framsóknarmenn eða Kratar. Þorvaldur Gylfason orðaði sömu hugsun í sama þætti einhvern vegin á þann veg að allir væru annaðhvort opingáttarmenn eða einangrunarsinnar.

Mér fannst þetta ágætlega orðað og álít sjálfan mig samkvæmt þessu frekar vera Krata og opingáttarmann en einangrunarsinnaðan Framsóknarmann. Nú ætlar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson víst að breyta öllum sem eru í Framsóknarflokknum í Krata. Kannski er ég bara að verða vinstrigrænn og misskil þetta allt saman.

 

558. - Hvað má birta á Moggablogginu?

Moggabloggið er skrýtin skepna. Í sumu eru stjórnendur þess siðavandari en guðhræddustu Bandaríkjamenn en annað leyfa þeir eins og ekkert sé. Þar á meðal hreinræktaðar snuff-myndir. Ég var að hugsa um að skoða myndbandið hans Jens Guðs en hætti við það. Eins fór mér á sínum tíma þegar afhausunarmyndband frá Írak fór eins og logi yfir akur á Netinu. Ætli það hafi ekki verið b2 sem birti hlekk á það. Aftur á móti horfði ég á Njarðvíkurmyndbandið á YouTube fyrir nokkru og það var alveg nóg fyrir mig.

Myndir sem á einhvern hátt er hægt að túlka sem kynferðislegar eru alveg bannaðar á Moggablogginu. Um daginn var einu bloggi lokað vegna umræðu um lát "Deep Throat" og birtingar á mynd sem hægt var að túlka sem kynferðislega þó ekki væri um hreina klámmynd að ræða. Það sást heldur ekki neitt sérstakt á myndinni og kannski treysti viðkomandi á það. Man ekki hver þetta var en Brjánn bloggvinur minn veit það örugglega því við vorum held ég eitthvað að athugasemdast á hans bloggi.

Aftur á móti virðist mega birta á Moggablogginu hverskonar klám sem er ef það er ekki myndrænt. Klámvísur hef ég séð þar verulega svæsnar en veit ekki til að það hafi haft nein eftirköst. Samt held ég að bloggum hafi verið lokað fyrir að birta ritað mál af röngu tagi. Auðvitað er það svo að stjórnendur bloggsins stjórna því á þann hátt sem þeim finnst henta. Við erum hér í boði þeirra og mér finnst þjónustan ágæt en stjórnunin stundum ansi tilviljanakennd.

Mér hefur skilist að samkvæmt einhverjum skilmálum séu bloggarar hér sjálfir ábyrgir fyrir öllu sem birtist á þeirra bloggi. Athugasemdum einnig. Ég minnist þess þó ekki að hafa undirritað neina skilmála en vera kann að ég hafi samþykkt þá með aðgerðarleysi eða óviljaklikki. Ég á erfitt með að sætta mig við þetta með athugasemdirnar. Ef einhver kommentar á mín bloggskrif og annaðhvort stuðar með því Moggabloggsguðina eða brýtur jafnvel lög þá geri ég ráð fyrir að ég sé ekki ábyrgur fyrir því nema sannað verði að ég hafi vitað af því og ekki gert neinn reka að því að losna við það.

 

557. Krafan verður líklega um kosningar

Með því að setja mér það að blogga bara einu sinni á dag og linka ekki í fréttir tekst mér að halda blogginu mínu skárra en það annars væri. Ef maður ætti að blogga um allt sem manni dettur í hug yrðu flestir fljótt leiðir. 

Ég sé allt benda til þess að mótmæli muni aukast á næsta ári. Sennilega verður beðið eftir landsfundum Sjálfstæðismanna og Framsóknarmanna og í ljós mun koma eftir þá, reikna ég fastlega með, að stjórnvöld ætli sér að sitja sem fastast og stefna að því að sem fæst breytist. 

Krafan í mótmælaaðgerðum eftir það verður einkum sú að efnt verði til kosninga sem fyrst. Ég get ekki séð hvernig stjórnvöld ætla sér að standa á móti því svo líklega gerði fólk rétt í því að fara að ákveða hvernig atkvæðinu verður varið. Hugsanleg og líkleg framboð fara eflaust líka að hugsa sér til hreyfings.

Um daginn skrifaði ég um fljúgandi kanínur. Í athugasemdum við þá færslu varð undarleg tros-umræða. Konan mín orti í framhaldi af því eftirfarandi vísu:

Trúlega öll á trosi
tórum við næstu ár.
Auðmjúk með bljúgu brosi
buguð sem húðarklár.

Þetta birti hún síðan á sínu bloggi (123.is/asben). Þar bloggar hún oft og alltaf stuttaralega. Oftast eða ævinlega fylgja blogginu myndir.  Vísa þessi  getur vel staðið ein og sér. Ég fékk leyfi til að birta hana á mínu bloggi því mér finnst hún ansi góð.


556. - Um Evrópusambandsaðild og bankahrunið mikla. Líka svolítið um Ástþór Magnússon sem sníkjubloggar hjá Villa í Köben

Evrópuumræðan blossar alltaf upp öðru hvoru. Gallinn er sá að beggja megin línunnar eru menn alltof fullyrðingasamir. Þeir sem aðildarviðræður styðja segja sumir að þeir sem fyrirfram hafi tekið afstöðu séu aðalvandamálið. Því er ég ekki sammála. Þetta mál er alltof stórt og of flókið til þess að hægt sé að reikna alla hluti út og þessvegna byggist afstaða margra að sjálfsögðu á einhvers konar trú eða skoðunum sem þeir hafa aflað sér á löngum tíma. Auðvitað er samt sjálfsagt að ræða málin sem ítarlegast.

Það sem fer mest í taugarnar á mér í Evrópuumræðunni er þetta sífellda landráðatal hjá andstæðingum aðildar. Þeir sem vilja aðild eru ekkert minni eða lélegri Íslendingar en aðrir. Það er hjákátlegt að vera með svona bull og alls ekki málefnalegt. Sem betur fer er svona öfgahjal betur til þess fallið að fæla fólk í burtu en laða að. Íslendingar munu alls ekki missa sjálfstæði sitt við aðild frekar en aðrir.

Það er miklu nær að tala um landráð hjá því fólki sem setti okkur vitandi vits á bólakaf í bankakreppunni. Uppsafnað vanhæfi kallar Stefán Jón Hafstein það í ágætri grein í Fréttablaðinu sem ég var að lesa í boði Láru Hönnu áðan.

Ég lít svo á að stuðningur við Evrópusambandið sé að mörgu leyti stjórnmálalegur. Það eru í rauninni kapítalisminn og sósíalisminn sem berjast um völdin í veröldinni og það er erfitt að vera hlutlaus í þeirri baráttu. Í mínum huga er Evrópusambandið fulltrúi sósíalismans og Bandaríki Norður-Ameríku fulltrúi kapítalismans. Aðrir eru svona beggja blands en halla sér þó gjarnan að öðrum aðilanum. Nýfrjálshyggjan hefur sannarlega riðið húsum hér á Íslandi undanfarin ár eða áratugi. Vinstri stefna mun líklega vinna talsvert á í næstu kosningum.

Umhverfisvernd af öllu tagi á eftir að skipta æ meira máli. Hið kapítalíska skipulag er í eðli sínu fjandsamlegt náttúruvernd. Það hefur hið sósíalíska líka verið að mörgu leyti fram að þessu. Þó eru vinstri menn yfirleitt hlynntari náttúrvernd en þeir hægrisinnuðu. Umhverfisvernd á sér betri möguleika innan sósíalska skipulagsins og það má segja að núverandi fjármálalegt kreppuástand sem er í heiminum öllum sé til marks um ófullkomleika hins kapítalska kerfis. Fjármálakreppan sem nú skekur heiminn er ekki síður áfall fyrir nýfrjálshyggjuna en fall stjórnvalda í Sovétríkunum sálugu var áfall fyrir kommúnismann.

Ég sé að Ástþór Magnússon Wium sníkjubloggar hjá Villa í Köben. Af hverju í ósköpunum er ég alltaf að lesa bloggið hans Villa meira og minna? Hann er bara svo andskoti vel skrifandi maðurinn. Skaði að hann skuli vera svona öfgasinnaður og mikill vinstrimanna og EU-hatari. Svo hef ég alltaf haft hálfgerðan ímugust á síonistum, veit ekki af hverju.


555. Fljúgandi kanínur í Akurey

Frá því er sagt í ferðabók Dufferins lávarðar sem hér var á ferð árið 1856 að þeir ferðalangar höfðu setið að sumbli hjá Trampe greifa lengi kvölds og brallað margt er þeim datt í hug að fara á báti út í Akurey. 

Ferðabók Dufferins var gefin út árið 1944 og eru þar margar góðar sögur. Sama er að segja um ýmsar aðrar ferðabækur um ferðir manna til Íslands bæði á nítjándu öld og fyrr. Fyrir efnaða Evrópubúa var það minna mál að fara til Íslands að sjá frumstætt fólk og einkennilegt mannlíf en margra fjarlægari staða.

En áfram með frásögnina um Dufferin og félaga. Þeir höfðu semsagt verið við drykkju hjá Trampe greifa og flækst víða um bæinn er þeir ákváðu að fara á báti út í Akurey.

Þegar út í eyna kom sáu þeir þar mikinn fjölda af kanínuholum og hvítar eyrnalausar kanínur með rauð trýni útum allt. Þeir reyndu að handsama þessi einkennilegu dýr en þá spruttu þeim vængir og þau flugu á brott. Þeir náðu þó að handsama fáein kvikindi í holum sínum og komust þá að því að kanínurnar voru í fuglslíki. Ekki höfðu þeir neina hugmynd um hvers konar skepnur þetta væru en líkur hafa verið leiddar að því að þarna hafi verið um lunda að ræða.

Lundatekja í Akurey skapaði góðar tekjur á þessum tíma og var um talsverð hlunnindi að ræða. Menn fóru gjarnan nokkrir saman út í eyna síðsumars og veiddu drjúgt af lundakofu sem öll var nýtt. Kjötið af henni þótti ágæt viðbót við einhæfan kost bæjarbúa sem auðvitað lifðu einkum á trosi.

Hvað var tros? Kynni einhver að spyrja. Einfaldast er að spyrja orðabókina en þar eru ýmsar skýringar. Algengast var þó að um ýmiss konar fiskúrgang væri að ræða og fisk sem ekki þótti nógu góður til að verka til útflutnings. Sjómenn máttu yfirleitt hirða slíkan fisk sjálfir og gera sér þann mat úr honum sem hægt var. Það var einkum þorskur sem náð hafði vissri stærð sem flattur var, saltaður og þurrkaður til útflutnings á þessum árum.


554. - Útsölur, Evrópumál, fréttablogg og fleira ójólalegt

Samkvæmt fréttum eru útsölur að byrja víða núna strax eftir jólin. Merkilegastar þóttu mér fréttirnar frá Bretlandi þar sem sagt var að Vefverslanir sumar hefðu hafið sínar útsölur strax klukkan 18 á aðfangadag!! 

Getur verið að við Íslendingar séum bara á undan öðrum í fjármálakreppunni og að hún sé að byrja að bíta fólk annars staðar líka. Sumir spá þannig. Kannski eru þeir Íslendingar sem segja það einkum að hugga sjálfa sig. 

Utanferðir fólks breytast eins og annað. Einu sinni var greint á milli sigldra manna og ósigldra. Í mínu ungdæmi hefði ekki verið erfitt að finna fólk sem aldrei hafði farið út fyrir landsteinana. Nú eru jafnvel ekki margir krakkar um fermingaraldur sem aldrei hafa til útlanda komið. Sjálfur fór ég í fyrsta sinn til útlanda um það leyti sem ég varð þrítugur og hef aldrei út fyrir Evrópu komið.

Mikið er óskapast útaf ákvörðun Moggabloggsmanna um að setja takmarkanir á fréttabloggun. Mér finnst bera svolítið á oftúlkun á því sem til stendur. Eins og ég hef skilið þetta mál er ekki verið að banna nafnlaus skrif heldur bara verið að banna þeim nafnlausu að linka í fréttir. Líka á víst að banna að þeir nafnlausu komist í úrvalsflokkinn sem ég held að alltaf sé að verða erfiðara og erfiðara að komast í. Hætt er við að þeir sem vekja vilja athygli á sínum skrifum geti ekki lengur skrifað undir dulnefni því ef mönnum tekst ekki að koma sér í mjúkinn hjá stjórnendum bloggsins er fréttalinkun helsta ráðið til athyglissóknar grunar mig.

Vissulega er hætta á því að þeir sem heldur vilja skrifa undir gælunöfnum og nafnleysi hrekist í burtu frá Moggablogginu með þessu. Þannig getur þetta orðið til þess að þeir sem síst skyldi fari héðan. Nafnlausir bloggarar hafa aldrei truflað mig neitt og ómálefnaleg komment hef ég sjaldan fengið. Helst finnst mér það hafa skeð ef mér hefur orðið á að minnast á Evrópumálin. Kannski verður þetta á endanum meira til bölvunar en blessunar. Bendi þeim sem áhuga hafa á þessu máli að lesa bloggið hans Brjáns (brjann.blog.is)


553. - Aðfangadagsbylurinn 1974

En það bar til um þessar mundir að boð kom frá Sérleyfisbílum Helga Péturssonar um að....

Nei annars. Ólafsvíkurrútan fór bara á aðfangadagsmorgun úr höfuðborginni áleiðis til Ólafsvíkur. Veðrið í Reykjavík var sæmilegt en fór versnandi. Þegar komið var vestur á Mýrar var veðrið orðið mjög slæmt. Að lokum var ekki hægt að halda áfram lengur. Var rútan föst í marga klukkutíma en að lokum tókst að snúa henni við og komast um kvöldið til baka til Borgarness.

Ég var ekki í rútunni og veit lítið um hvernig þetta ferðalag gekk fyrir sig. Eflaust hefur það verið sögulegt.

Á þessum árum var ég verslunarstjóri við útibú Kaupfélags Borgfirðinga að Vegamótum í Miklaholstshreppi og sá einnig um rekstur veitingahússins sem þar var. Vegamót eru á sunnanverðu Snæfellsnesi þar sem vegurinn skiptist. Annars vegar var farið um Kerlingarskarð yfir í Helgafellssveit og þaðan til Stykkishólms en hinsvegar vestur Staðarsveit og yfir Fróðárheiði til Ólafsvíkur. Í stað þess að fara yfir Fróðárheiði til Ólafsvíkur mátti auðvitað komast þangað með því að fara fyrir jökul. Nú er svokölluð Vatnaleið farin í stað leiðarinnar um Kerlingarskarð.

Að Vegamótum komu þennan dag tveir menn á vel útbúnum jeppa suður yfir skarðið í veg fyrir rútuna frá Reykjavík. Annar þeirra var bóndinn á Þingvöllum í Helgafellssveit en ekki man ég hver hinn var. Þeir ætluðu að sækja farþega sem von var á með rútunni að sunnan. Þeir komu að Vegamótum um hádegisbilið og þá var veður skaplegt en fór hríðversnandi og loks bárust fréttir um að rútan hefði snúið við og kæmist engan vegin lengra. Þá fóru þeir Helgfellingar að huga að heimferð en komust hvorki lönd né strönd því veðrið var orðið arfavitlaust. Svo svartur var bylurinn að jeppinn sem þeir Helgafellssveitarmenn höfðu lagt rétt hjá veitingahúsinu sást ekki þaðan nema öðru hvoru.

Að því kom að lokað skyldi og áttu þeir félagar ekki um annað að velja en að koma með mér heim í jólamat því veðrið bannaði ferðalög með öllu. Starfsfólk í veitingahúsinu sem var úr sveitinni í kring hafði komist heim til sín við illan leik nokkru áður en lokað var.

Borðuðum við svo jólamatinn í besta yfirlæti og síðan voru pakkar upp teknir að venju. Óalgengt var og er eflaust enn að vera með óvænta matargesti á aðfangadagskvöld.

Um tíuleytið um kvöldið batnaði veðrið talsvert á stuttum tíma og héldu þeim Helgfellingum þá engin bönd. Þeir fóru undireins að athuga hvernig færðin væri á heiðinni. Komu fljótlega aftur og sögðu að eftir því sem þeir best gætu séð væri aðeins einn skafl ofarlega í Seljafellinu. Töldu þeir að mögulegt væri að moka sig í gegnum hann og komast síðan yfir skarðið og í Helgafellssveitina.

Konan mín, Áslaug Benediktsdóttir,  útbjó nesti handa þeim því þeir vildu ólmir freista þess að komast af stað áleiðis heim þó við teldum það óráð því veðrið gæti hæglega versnað aftur. Umtalað var að þeir létu vita daginn eftir hvernig gengið hefði. Vitað var að þó þeir þyrftu að moka mun meir en þeir héldu mundu þeir að minnsta kosti komast í sæluhúsið efst í Kerlingarskarðinu.

Skömmu eftir hádegi á jóladag var hringt til mín og ég látinn vita hvernig gengið hefði. Snjóskaflar í Seljafellinu höfðu verið mun meiri og erfiðari en þeir hugðu. Að lokum urðu þeir að yfirgefa bílinn og héldu gangandi í sæluhúsið.

Þá var veðrið orðið ágætt og þegar þeir höfðu gert sér gott af nestinu ákváðu þeir að halda áfram gangandi niður í Helgafellssveit. Gengu þeir alla jólanóttina og komu ekki til bæja fyrr en komið var undir hádegi á jóladag. Bíllinn var síðan sóttur nokkrum dögum seinna þegar skarðið var opnað.

Þessi aðfangadagsbylur var með þeim hörðustu sem komu meðan ég var á Vegamótum hvað veðurhæð snerti og var ósjaldan til hans vitnað til samanburðar. Snjór var hinsvegar oft meiri.


552. - Um verðtryggingu og fleira. Jólasaga kemur kannski seinna

Á margan hátt er verðtrygging húsnæðislána að verða mál málanna. Þegar verðbólgan æðir áfram hækka húsnæðislánin. Verðtryggingin átti sennilega rétt á sér á sínum tíma og á kannski enn að einhverju leyti. Augljóslega er hún þó vitlaust reiknuð. Margt er inni í vísitölugrunninum sem ekki ætti að vera þar. Kannanir hagstofunnar á verðlagi eru heldur ekki yfir gagnrýni hafnar. 

Gefi menn sér hve miklir vextir séu og verðbólga getur vel verið að hægt sé að reikna dæmið verðtryggingunni í hag. Hins vegar er hún greinilega til bölvunar að því leyti sem hún er verðbólguhvetjandi.

Óðaverðbólgan sem hér var viðvarandi áður fyrr var kveðin niður á endanum með þjóðarsáttinni svonefndu. Í rauninni viðurkenndu launþegar þar að stöðugleiki væri æskilegur og tóku á sig byrðar til að ná honum. Nú er stöðugleikinn rokinn út í veður og vind og verðbólgan hægir líklega ekki á sér nema krónunni verði komið fyrir kattarnef og ýmislegt fleira gert. Þjóðarsátt með gamla laginu er varla í myndinni.

Annars er ég orðinn hundleiður á að skrifa um bankahrunið og svo eru margir aðrir mun betur til þess fallnir en ég.

Yfirleitt er ekki mjög slæmt veður um jól. Þó man ég eftir einni mikilli bylgusu sem kom einmitt á aðfangadag. Þetta hefur líklega verið árið 1974. Þá bjó ég á Vegamótum á sunnanverðu Snæfellsnesi og það gerði aftakaveður seinni partinn á aðfangadag.

Nú er morgunn aðfangadags og veðrið heldur hryssingslegt hér í Kópavogi. Rok og rigning en ég held að spáð sé að það lagist. Söguna um Aðfangadagsbylinn mikla reyni ég kannski að rifja upp um jólin. Hef ekki tíma til þess núna.

Gleðileg jól.


551. - Með aðstoð aumra Alþingismanna

Hannes Hólmsteinn og reyndar margir fleiri vilja rekja upphaf alls þess sem miður hefur farið að undanförnu til fjölmiðlafrumvarpsins sáluga. 

Þar er ég ekki á sama máli. Ef leita á að frumorsök núverandi bankakreppu sem lengst aftur þá vil ég rekja valdatöku útrásarklíkunnar til þess að samruni Bónus keðjunnar og Hagkaupa var leyfður á sínum tíma. Það var fráleit gjörð. Kannski var lagaramminn gallaður og stjórnvöldum að einhverju leyti vorkunn.

Þegar Davíð Oddsson reyndi síðan árið 2004 að lemja í gegn gallað fjölmiðlafrumvarp í andstöðu við þjóðina og útrásarvíkingana þá voru það bara lafhræddir Alþingismenn í ríkisstjórnarflokkunum sem gegndu honum og síðan hefur vegur Alþingis farið síminnkandi.

Eftir að Ólafur forseti neitaði að undirrita fjölmiðlalögin og Davíð og hans hirð ákváðu að leggja lögin ekki undir dóm þjóðarinnar eins og hefði átt að gera hefur stjórnskipun landsins verið hálflömuð. Geir og Solla reyna nú eins og þau geta að berja í brestina en alls ekki er víst að það takist og varla að þau séu hæf til þess.

Þegar farið verður að föndra við stjórnarskrána eins og gera þarf fyrir Evrópusamrunann, sem flestir sjá nú að er óhjákvæmilegur, væri best að breyta ýmsu öðru í leiðinni en líklega verður það ekki gert. Kjördæmaskipun, kosningafyrirkomulag og þess háttar er afleitt. Þegar verið er að breyta stjórnarskránni er oftast látið í veðri vaka að mikilvægast sé að ná samkomulagi milli flokka. Slíkt er fásinna.

Að taka skuldir þeirra ríku og gefa þær fátækum er vel að orði komist. Ekki er annað að sjá en það sé einmitt það sem ríkisstjórnin er að gera með aðstoð aumra Alþingismanna.


550. - Varaðu þig Valnastakkur, fallinn er hann Fjögramaki.

Á fyrri tímum er sagt að átján skólapiltar frá Hólum hafi lagst út og hafst við í Surtshelli. Af þeim er nokkur saga og er hún nefnd Hellismannasaga. Tvo kvenmenn höfðu þeir hjá sér og áttu börn með þeim en sagt er að þeim hafi verið drekkt. 

Sér til matar rændu þeir fé bænda, einkum Hvítsíðinga. Ekki fóru þeir leynt en vopnaðir voru þeir og ferðuðust jafnan margir saman. Byggðamenn hræddust þá og þorðu ekki á þá að ráðast.

Bóndasonurinn úr Kalmanstungu tók að sér að ráða niðurlögum Hellismanna. Hann fór til þeirra og vildi ganga í flokkinn og vera sem einn af þeim. Ekki leist þeim vel á það en tóku þó við honum um síðir.

Eftir langan tíma og miklar mannraunir tókst bóndasyni loks að komast til byggða meðan Hellismenn leituðu kinda og smöluðu saman. Söfnuðu byggðamenn liði og komu að Hellismönnum sofnandi í Vopnalág og tóku frá þeim vopn öll.

Valnastakkur hét foringi Hellismanna og reyndu byggðamenn að drepa hann fyrstan allra. Það mistókst því engin járn bitu á stakk þann úr sauðarvölum er hann hafði yfir sér. Höggið kom á þann mann sem næstur honum lá og tók af höfuðið. Þá vöknuðu Hellismenn og einn þeirra hrópaði. "Varaðu þig Valnastakkur, fallinn er hann Fjögramaki."

Fáir Hellismanna voru unnir í Vopnalág heldur tvístruðust þeir í allar áttir án þess að hafa vopn sín og byggðamenn unnu á þeim smám saman og eiga mörg örnefni uppruna sinn í því.

Einn Hellismanna hét Eiríkur og forðaði hann sér á handahlaupum upp undir jökul sem síðan fékk af honum nafn og er nefndur Eiríksjökull. Sagan segir að hann hafi komist undan byggðamönnum einn Hellismanna þó af honum hafi verið annar fóturinn eftir viðureignina við lið þeirra.

Að þessu loknu fóru byggðamenn í hellinn og vörðust konurnar tvær sem þar voru þeim vasklega lengi vel en máttu ekki við margnum.

Af afdrifum Eiríks og bóndasonarins úr Kalmanstungu eru misjafnar sögur og verða þær ekki raktar hér.

 

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband