Bloggfærslur mánaðarins, maí 2020

2965 - SpaceX og óeirðir

Svandís og Kári virðast hafa samið frið. Kannski hafa þau haft í huga klámvísuna frægu:

Loksins hefur storminn lægt
ljúfur saminn friður.
Yfirsængin hægt og hægt
hreyfist upp og niður.

Óeirðirnar í Bandaríkjunum núna snúast ekki um stjórnmál eða einstakar persónur. Um er að ræða langa sögu lögregluofbeldis gagnvart hörundsdökku fólki og rasisma sem grasserað hefur þar lengi. Allt frá því að óeirðirnar miklu urðu þar um 1967 hefur rasismi verið áberandi þar, þó ýmsir hafi haldið að hann færi minnkandi. Svo er þó greinilega ekki. Kannski þrífst hann einkum meðal lögreglunnar,sem er að sjálfsögðu vopnuð þar eins og algengast er annars staðar en hér á Íslandi.

Um þessar óeirðir í ríkasta og voldugasta ríki heimsins er ég ekki fær um að tjá mig mikið. Hörmulegar eru þær samt. Kannski á Covid-19 veiran einhvern hlut að máli. Atvinnuleysi meðal svartra Bandaríkjamann og allar tölur og skýrslur hafa sýnt það á undanförnum árum að kynþáttahyggja á þar miklu fylgi að fagna og kannski hefur óréttlætið komið enn betur í ljós í þeim þrengingum sem Bandaríkjamenn hafa mátt ganga í gegnum eins og flestar þjóðir aðrar að undanförnu.

Oft er það svo að hægri mönnum er einkum kennt um rasisma. Á sama hátt má segja að vinstri menn séu og hafi oft haft ansi barnalega trú á jafnrétti og jöfnuði öllum til handa. Jafnvel að þeir aðhyllist kommúnisma, sem greinilegt er að mannkynið er ekki fært um að tileinka sér, eins og grenilega kom fram í Sovétríkjunum sálugu. Þó má segja að óeirðir þessar sé alls ekki pólitískar og vandséð er hvort Repúblikanar eða Demókratar græða á þessu ástandi. Ef nauðsylegt reynist hinsvegar að fresta kosningum þar í haust er þó hægt að segja að Repúblikanar græði á þeim atburðum sem eru núna að gerast þar vegna þess að þeir viðhalda þá líklega völdum í Hvíta Húsinu lengur en ella.

Í öllu svartnættinu í Bandaríkjunum er samt ljós punktur. Það er giftusamlegt geimskot SpaceX í gærkvöldi. Efast ekki um að rækilega verður sagt frá þessu í öllum fjölmiðlum hérna á eftir þar sem þetta er í fyrsta skipti sem einkaframtakið stendur frammi fyrir svona nokkru.

IMG 5868Einhver mynd.


2964 - Grímur eða grímur ekki

Ef ég blogga um nafntogaðar persónur, eða pólitík, tala nú ekki um ef ég held líka fram einhverjum vafsömum skoðunum þá bregst það varla að fleiri koma inná mitt blogg en venjulega. Einkum á þetta við ef mér tekst að koma þessu að einhverju leyti til skila í fyrirsögninni. Einu sinni var ég með aðsóknartölur útvortis, öðru hvoru a.m.k. en nú eru þær bara innvortis. Þori ekki að reyna að breyta þessu því ég gæti gert einhverja bölvaða vitleysu.

Eiginlega er mér alveg sama hvort margir eða fáir lesa þetta blogg mitt. Auðvitað vil ég samt að sem flestir lesi það. Annars væri ég varla að þessu. Ólíkindalæti eru minn stíll enda ólst afi minn upp á Látalátum í Landsveit. Er vanur að gera lítið úr öllu. Jafnvel sjálfum mér. Vitanlega er mér þó ekki alls varnað.

Einkennilegt að á Íslandi skuli andlitsgrímur varla sjást nema á heilbrigðisstarfsfólki í þessum kórónufaraldri. Sennilega er þetta eingöngu vegna þess að Þórólfur er á móti þeim. Sumsstaðar í útlandinu eru þær beinlínis fyrirskipaðar og flestir virðast hafa mikla trú á þeim. Svona eru nú Þórólfsáhrifin mikil. Skaði að hann skuli ekki hafa boðið sig fram til forseta. Hann hefði getað flogið til Bessastaða á vinsældum sínum.

Annars eru forsetakosningarnar að verða mesta rifrildisefnið í flestum miðlum núna. Ekki er líklegt að Guðmundur Franklín fái meira en svona 5 prósent atkvæða í mesta lagi, hvað sem öllum gerviskoðanakönnunum líður. Afganginn fær Guðni að sjálfsögðu enda hefur hann staðið sig sæmilega.

Hefði samt viljað sjá Kára eða Þórólf í þessari kosningabaráttu frekar en Guðna og Guðmund, en við því verður ekki gert úr þessu. Hætt er við að kosningabaráttan verði fremur linkuleg að þessu sinni. Engin þeirra sem næstum því felldu Guðna fyrir 4 árum vilja reyna aftur og er það skaði. Sennilega hefði ekki veitt af einum sannfærðum loftslagssinna í þessa baráttu. Orkupakkinn dugar líklega skammt. Það eru allir búnir að fá leið á honum.

IMG 5881Einhver mynd.


2963 - Svandís og Kári

Svandís Svavarsdóttir ráðherra er á móti öllum einkarekstri í heilbrigðisgeiranum og hefur líklega ætlað sér að kenna Kára Stefánssyni og Íslenskri Erfðagreiningu lexíu í síðasta skemmtiþættinum hjá Víði, Þórólfi og Ölmu, sem hún fékk óvænt að taka þátt í.

Þetta gerði hún með því að minnast ekki á hann í þakkarræðu sinni og vekja þannig upp villidýrið í honum. Einnig sagðist hún reikna með því að hann og fyrirtæki hans hjálpaði til við skimunina sem áformað er að fara í án þess að tala við hann. Þannig mistókst henni hrapallega að kenna honum og þetta gæti jafnvel kostað hana vinnuna.

Ekki eykur hún vinsældir ríkisstjórnarinnar með þessu, en þríeykið blómstrar sem aldrei fyrr. Kári fór næstum því framúr sjálfum sér í kastljósþætti gærkvöldsins með því að neita með öllu að taka þátt í opnuninni á Keflavíkurflugvelli eða undirbúningi að því verkefni.

Íslenska sjónvarpið er á góðri leið með að leggja sjálft sig undir íþróttirnar aftur. Að viðhalda íþróttaþætti í fréttunum án þess að nokkrar íþróttir væri eiginlega um að ræða er sennilega einhvers konar met. Að sýna líka eldgamla íþróttakappleiki sem einu sinni voru í beinni útsendingu er ekkert annað en hrein snilld. Kannski hafa einhver íþróttafrík horft á þetta. Mest er ég hissa á að þetta efni skuli hafa verið geymt. Jæja, vídeóspólur eru víst orðnar svo ódýrar núna.

Alveg á eftir að sjá hve margir túristar láta sig hafa það að koma til Íslands að veirufaraldrinum loknum. Einhverjum verður sjálfsagt orðið svo brátt í brók að komast í flugferð að hugsanlega fær BB að blæða svona 50 til 60 milljónum á dag í tóma vitleysu. Áreiðanlega veifa flestir flugfarþegar einhverjum vottorðum við komuna, en vonandi verður ekkert mark tekið á slíkum pappírum.

Spacex Drekinn sem átti að fara með tvo geimfara í alþjóðlegu geimstöðina komst ekki á loft í gærkvöldi eins og til stóð. Reynt verður aftur á laugardaginn. Kannski að nú sé að renna upp nýtt skeið geimferða sem gaman verður að fylgjast með. Tunglferðirnar eru orðnar að svolítið gömlum sögum, þó ég muni vel eftir þeim. Kannski ég sé að verða gamall sjálfur. Ehemm.

IMG 5887Einhver mynd.


2962 - Brúarhlöð

Nú er kominn tími til að ég bloggi smá. Já, við fórum í Hveragerði og í sumarhúsahverfið við Úthlíð um síðustu helgi. Maður hagar sér næstum eins og Covid-19 veirusýkingin sé bara vondur draumur. Sennilega veldur þessi faraldur talsverðum eða miklum þrengingum í efnahagslegu tilliti hér á Íslandi eins og annarsstaðar. Held samt að það að við virðumst hafa unnið nokkuð góðan sigur í fyrstu lotunni komi til með að hjálpa okkur að lokum. Þó er allsekki víst að ferðamennirnir komi aftur þegar við viljum. Líka er eftir að sjá hvernig stóra Flugleiðamálið leysist.

Kannski þessi veirufaraldur verði okkur á endanum til góðs. Auðvitað koma allsekki allir til með að græða á þessu. Ekki einu sinni óbeint. Þeir sem voru svo vitlausir að byggja Hótel fyrir alla sína peninga og treysta á ríka túrista koma ef til vill til með að tapa á þessu öllu saman. Sama eða svipað er að segja um allstóran hluta þeirra sem missa atvinnuna.

Vitanlega er afleitt að vera undir náð og miskunn útlendra flugfélaga kominn. En það er líka slæmt að henda milljarðatugum í illa rekið flugfélag bara af því að það er ekki frá útlandinu. Að sjálfsögðu þarf að finna atvinnu fyrir allt það fólk sem missir hana ef Icelandair fer á hausinn, en kannski má nota milljarðatugina sem sparast við að styrkja ekki þetta vonlausa félag, til að finna góða atvinnu fyrir það fólk.

Eins og ég sagði áðan fórum við hjónin til Hveragerðis og gistum á Hótel Örk í tvær nætur. Hittum í Hveragerði ættingja og borðuðum fínan kvöldverð í Skyrgerðinni, sem einu sinni var Hótel Hveragerði. Allt var upppantað til slíkra nota hjá Örkinni föstudags- og laugardagskvöld svo kannski þurfa eigendur þess ekki að kvarta. Á laugardag fórum við uppað Úthlíð og síðan að Brúarhlöðum. Fremur fáir voru á ferðinni við Geysi, og kannski vantar þar útlenda túrista. Ennþá færri voru við Brúarhlöð eða réttara sagt engir, en kannski eru túristarnir ekki búnir að finna þann stað.

IMG 5891Einhver mynd.


2961 - Pólitík

Hernaðarhyggja byggist að einhverju leyti á viðteknum sannindum. Vinstri menn geta ekki með öllu hlaupið frá kommúnisma og stalíniskum skoðunum. Sú tilraun sem gerð var í Sovétríkunum sálugu mistókst hrapallega. Á sama hátt geta hægri menn ekki með öllu hlaupið frá einræðisherrum sem hafa myrt fólk hópum saman með stuðningi Bandaríkjamanna. Hverjum þykir sinn fugl fagur og ég neita því ekki að sú samblöndun kapítalisma og kommúnisma sem stunduð er eða hefur verið á Norðurlöndum hugnast mér að flestu leyfi betur en blindur ofsatrúnaður við einhverja ákveðna hugmyndafræði. Sérhvert mál er á sinn hátt einstakt og sérfræðingar eru ekki alltaf best til þess fallnir að taka ákvarðanir.

Já, skoðanir mínar eru kratískar í eðli sínu, eða það ímynda ég mér. Annars leiðist mér pólitískt argaþras, sem oft byggist á lítilli þekkingu. Ég get allt eins tekið undir sumar skoðanir öfgafullra hægri manna eins og sannfærðra sósíalista. Oft eru þeir ekki síður öfgafullir en hægri menn. Venjulega er ég „sammála síðasta ræðumanni“ eins vitlaust og það nú oft er.

Þetta með ræðumennskuna ræður alltof miklu í stjórnmálum yfirleitt. Lítum t.d. á Alþingi. Sumir sem þar eru hafa það eitt sér til ágætis að geta talað þindarlaust. Stundum segja þeir eiginlega ekki neitt. Stundum einhverja bölvaða vitleysu. Kannski hef ég það eitt mér til ágætis að geta skrifað þindarlaust. Ætti ég að semja eða setja lög væri við því að búast að þau yrðu ömurleg. Lýðræðið svokallaða er eiginlega ekki annað en meðaltal. Eru meðaltalsskoðanir eitthvað betri en aðrar? Ég bara veit það ekki. Framtíðin kemur alltaf á óvart. Lögfræðingar og hagfræðingar geta líka haft rangt fyrir sér.

IMG 5900Einhver mynd.


2960 - Allskyns meðöl

Nei, ég ætla helst ekkert að blogga núna. Er að reyna að draga úr því eins og mörgu öðru. Þó get ég varla stillt mig vegna þess að veðrið er mjög fallegt og ég er að hugsa um að fara út að labba. Fór samt í gær, en er að hugsa um að kannski hafi verið of mikið að segja „fitbitinu“ að ég stefndi að því að fara sex sinnum í viku í langa gönguferð. Kannski er líka alveg skítkalt.

Fékk um daginn ábendingu á netinu um svokallað Lactoferrin sem mér skilst að einhverjir noti við Covid-19 sem allir eru víst að berjast við. Gott ef það á ekki að styrkja ónæmiskerfið eða eitthvað þessháttar. Berið mig samt ekki fyrir þessu og gúglið það endilega. Held að þetta sé svokallað náttúrulyf og fáist í þessháttar verslunum undir nafninu Colostrum. Veit ekki meira um þetta og nota það ekki sjálfur. A.m.k. ekki ennþá. Er ákaflega skeptískur á allt svona, en satt að segja þá treysti ég þeim manni sem sendi mér þetta betur en mörgum öðrum.

Tel sjálfum mér samt trú um að ég þurfi ekkert á þessu að halda. Sagt er að Trump sjálfur taki reglulega hydroxyklórofin. Sennilega er það alveg rétt og hann hefur mælt mjög með þessu lyfi, sem kannski er hættulegt með einhverju ákveðnu og aukaverkanir af því eru víst talsverðar. Læt svo lokið þessu lyfjatali.

Annað í sambandi við vírusinn sem ég vildi gjarnan minnast á er hvað margt er skrítið í sambandi við andlitsgrímurnar. Meirihluti þeirra er án vafa næstum eða alveg gagnslaus. Þórólfur er á móti þeim og hér á Íslandi verður maður lítið sem ekkert var við þær. Tískustraumar eru farnir að gera vart við sig í sambandi við þær og margir reyna að græða á þeim. Þeir sömu og bönnuðu grímur með lögum fyrir stuttu krefjast þess nú að allir séu með grímur. Eitthvert gagn gera sumar þeirra, en fyrst og fremst eru þær nokkurs konar auglýsing um að sóttvarnarreglum sé hlýtt.

Fór áðan út að ganga og um svipað leyti fór sólskinið á bak við ský og hefur verið þar síðan. Ágætt veður er samt og ég fór 3,66 kílómetra og tók yfir 5000 skref og notaði á annað þúsund kalóríur. Allt þetta segir „fitbitið“ mér og margt fleira sem ég nenni ekki að telja upp. Kannski ætti ég að gera þetta blogg meira dagbókarkennt en ég hef gert hingað til.

IMG 5901Einhver mynd.


2959 - Introvert á eftirlaunum

Já, ég er introrvert og líður hálfilla í fjölmenni. Hvað er fjölmenni? Ég ákveð það bara eftir aðstæðum hverju sinni. Einhverntíma spurði Tinna Bjarnadóttir mig hvaða fóbíur ég hefði. Átti ekki von á að 9 ára krakkar spyrðu spurninga af þessu tagi. Datt helst í hug að ég hefði flugstöðvarfóbíu, sem ég veit ekki hvort er til. Ég stressast gjarnan upp við mikil læti og mikið fjölmenni. Aðalbreytingin á mínum högum við veiru-vitleysuna er sú að ég þvæ mér mun oftar um hendurnar en áður og spritta mig öðru hvoru. Einnig hef ég horft á þríeykið fræga á hverjum degi. Oft sleppt tvöfréttunum þeirra vegna.

Nú er ég að mestu hættur að setja á mig vettlinga eða eitthvað annað í hvert skipti sem ég snerti hurðarhún utan íbúðarinnar eða lyftuhnapp. Jafnvel fer ég öðru hvoru út í Bónus. Þar með má segja að ég sé laus undan ofurvaldi drepsóttarinnar. Auðvitað eru mér ljós efnahagsleg áhrif faraldursins, en meðan eftirlaunin og ellilaunin lækka ekki verulega og verðbólgan fer ekki á fleygiferð reikna ég með að fljóta ofaná.  Við hjónin eyðum fremur litlu og þar með þarf ég sennilega ekki að hafa miklar áhyggjur af afkomunni.

Spurningin sem þarf að fá bloggsvar við er hvort vænlegra er til árangurs þar og fjöldalesturs að vera sjálfhverfur eða sýnast ógnargáfaður og skrifa um alþjóðamál og þessháttar. Þykjast skilja allt. Jafnvel íslensk stjórnmál. Alþingismenn þykja mér ekki alveg nógu gáfaðir. Sumir eru það, en allsekki allir. Kannski er samt ekki hægt að ætlast til þess að þeir séu öðruvísi en pöpullinn. Flestir þeirra koma sæmilega fyrir sig orði. En er það nóg? Efast má um það.

Smáatriði eins og hvort Flugfélagið lifir eða deyr skiptir engu máli. Ríkisstjórnin ætti ekki að henda peningum í jafnvonlaust fyrirtæki. Ekki er nein ástæð til að ætla að þetta félag sé betra en önnur flugfélög. Ef þau flúgja ekki hingað er bara að taka því. Ferðamannabísness er ekki betri en aðrir. Öll eggin á ekki að setja í sömu körfu.

IMG 5903Einhver mynd.


2958 - Fésbókarvinir

Veirufaraldurinn er í lágmarki hér á Íslandi um þessar mundir. Réttast er aðvitað að reyna að notfæra sér það með einhverjum hætti. Verðbólgan gæti látið á sér kræla fljótlega og þá er best að vera búinn að eyða sínum peningum, ef einhverjir eru. Aldrei slíku vant er það kostur frekar en hitt að vera orðinn ellibelgur. Flugfélög og þessháttar óþarfi getur alveg farið á hausinn mín vegna. Atvinnuleysið sem af því gæti hlotist er þó vandamál. Miðað við erlenda umfjöllun er svo að skilja að andlitsgrímur eða andlitsgrímur ekki meðal almennings séu aðalatriðið í vírusvörnum. Eftir því sem Þórólfur segir skipta þær litlu og veita oft einungis falskt öryggi. Auk þess má segja að þær séu oftast illa gerðar og vitlaust notaðar. Mín skoðun er sú að margt eigi eftir að gerast í veirumálum meðal annars hér á Íslandi og þessvegna sé best að vera við öllu búinn. Veiran kemur aftur.

Faraldursfræðilega séð er veiruástandið í Bandaríkjunum ekki gott. Mest er það vegna þess að viðbrögð öll hafa þar orðið að pólitísku bitbeini. Þannig er það víða í heiminum. Þar sem viðbrögðin við kórónuveirunni hafa orðið stjórnmálunum að bráð hefur víða gengið illa að hemja útbreiðsluna. Í Bandaríkjunum eru það ríkisstjórarnir, sem eiga í orði kveðnu að ráða flestu sem þetta snertir, en alríkisstjórnin og Tromparinn sjálfur ráða að sjálfsögðu heilmiklu. Öll framkvæmd þessara mála er miklu flóknari hjá stórþjóðum en hjá þeim sem minni eru. Sennilega er það eitt það besta sem þessi ríkisstjórn okkar hefur gert, að láta þríeykið stjórna þessum veiruvörnum alfarið, en efnahagslegar afleiðingar eru á ríkisstjórnarinnar könnu og þar er rifist. Meðfærileiki og einsleitni þjóðarinnar hefur líka ráðið miklu.

Hjólafólkið er hættulegt. Fyrir okkur gamlingjana það er að segja. Sé skikkanlegum hraða haldið þarf það þó alls ekki svo að vera. Breidd gangstíga skiptir máli. Sömuleiðis veðrið. Allt skiptir máli. Bílaumferð á götum er einnig víða orðin svo mikil að til vandræða horfir. Um þetta mætti fjölyrða endalaust. Erum við lítil bílaþjóð í stóru landi?

Fésbókarvinir mínir eru alltof margir. Næstum þúsund. Hef ekkert við allt þetta að gera. Á tímabili sendi ég vinabeiðnir út um allt þar, en sé eftir því núna. Á örðu tímabili fékk ég heilmikið af vinabeiðnum frá útlendingum sem ég þekkt ekki nokkurn skapaðan hlut. Ef þeir höfðu marga sameiginlega vini með mér og ég kannaðist við þá vini, samþykkti ég þessa nýliða. Vandasamt er að hætta vinskap, þó eru alltaf sumir að hóta því. Má maður ekki skoða árans bókina þó maður læki lítið sem ekkert og forðist þátttöku í umræðum? Oft eru þær ekki sérlega markverðar.

IMG 5913Einhver mynd.


2957 - Bloggar

Er kominn á þá skoðun að heppilegra sé að blogga oft og lítið í stað þess að láta gamminn geysa og blogga sem allra lengst og besservisserast sem mest. Þ.e.a.s. ef maður vill að margir lesi bloggin. Svo er það náttúrulega skilgreiningaratriði hvað er „margir“. Stjórnmál og allskonar átök eru vinsæl í þessu tilliti, en margt fleira getur skipt máli. Stýringar miðla eru miklar og mikilvægar í þessu sambandi. Tölvur stýra þessu eins og flestu. Algrím eða algorithmar ráða því oft hvaða fréttir og skoðanir þú sérð. Kannski er þetta ekki beinlínis ritskoðun en það er erfitt að eiga við þetta.

Ekki er nóg að vera á móti Fésbók og Instagram. Áhrifin og afskiptasemin eru feikilega mikil bæði þar og annarsstaðar. Mikið er talað um falsfréttir og erfitt getur verið að ákveða hverjum skuli treyst. Vefmiðlar eru flestir einskonar skoðanayfirlýsingar þó reynt sé að láta fréttayfirbragð skína frá þeim. Fréttirnar eru valdar og skýrðar í bak og fyrir. Pólitískar fréttir eru afleitar. Oft skiptir meira máli að koma skoðunum skrifarans að, en að segja frá fréttinni sjálfri og ýmsum útúrdúrum hennar á sem hlutlausastan hátt.

Auðveldast af öllu er fyrir bloggara að hafa allt á hornum sér. Auðvelt er að finna ýmislegt sem hæglega gæti farið betur. Aðfinnslur útaf málfari eru mjög algengar. Sérfræðingar á því sviði eru legíó. Æðsta boðorð allra bloggara ætti að vera að vera skiljanleg(ur). Kyngreining tungumálsins er eitt atriði sem hafa þarf í huga. Auðvitað skiptir máli hvaða orð eru notuð. Flestum orðum fylgir löng saga. Hún kann að vera mismunandi eftir móttakanda.

IMG 5917Einhver mynd.


2956 - Trump og kosningarnar í haust

Trump Bandaríkjaforseti er mjög eða a.m.k. fremur óvinsæll meðal flestra þeirra sem ekki hafa kosningarétt í Bandaríkjum Norður-Ameríku. Sérstaklega virðist sumum þjóðarleiðtogun vera uppsigað við hann. Heimafólk hans, það er að segja Bandaríkjamenn eða nægilega stór hluti þeirra, kaus hann samt árið 2016. Munu þeir gera það aftur? Það er allsekki víst. Vinstri sinnað fólk á Vesturlöndum hefur reynt að halda því fram að hann hafi ekki fengið meirihluta atkvæða. Vissulega fékk hann færri atkvæði í heildina en Hillary Clinton. Kosningakerfið er þannig í Bandaríkjunum að hann var samt réttkjörinn forseti þar.

Yfirleitt er það tiltölulega auðvelt fyrir sitjandi forseta að tryggja sér endurkjör. Hann hefur gjarnan alla þræði í hendi sér. Mótframbjóðandinn þarf að koma honum frá. Oftast nær bera Bandaríkjamenn mikla virðingu fyrir forseta sínum og telja hann hafinn yfir pólitískt dægurþras. Varla er Trump eins ómögulegur forseti og Pressan vill hafa hann. Fyrstu ár hans á forsetastóli voru Bandaríkjunum mjög hagstæð efnahagslega og án efa hefur hann ætlað að notfæra sér það. Þar á bæ kjósa menn gjarnan með peningaveskinu. Frambjóðendur eyða líka vænum summum í auglýsingar.

Tvennt kemur samt til núna sem gerir kosningarnar í haust afar spennandi. Annað er að sjálfsögðu Covid-19 faraldurinn og afleiðingar hans. Hitt er að ef gert er ráð fyrir að fylgi þeirra sé í rauninni nokkuð jafnt er samt talsverður fjöldi fólks í báðum flokkum sem hatar báða frambjóðendur. Sá hópur kýs gjarnan að prófa eitthvað nýtt. Trump naut þess árið 2016, þá var Hillary álitin fulltrúi ríkjandi afla og auk þess fremur óvinsæl hjá sumum hópum. Hann nýtur þess samt allsekki núna.    

Allt útlit er fyrir að Joe Biden verði frambjóðandi Demókrata. Hann hefur lengi haft afskipti af stjórnmálum og var varaforseti hjá Barack Obama. Er allsekki óumdeildur og þar að auki gæti þriðji frambjóðandinn hugsanlega ruglað þessu öllu.

IMG 5928Einhver mynd.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband