Bloggfærslur mánaðarins, júní 2014

2185 - Líkið í lestinni

Ég er sammála Jónasi Kristjánssyni um það að Davíð Oddsson er orðinn dragbítur á alla starfsemi Sjálfstæðisflokksins. Gæti jafnvel hugsað mér að kjósa hann er ekki væri fyrir Davíð. Samt er hann skyldur mér, en förum ekki nánar út í það. Ekki get ég gert að því. Allt útlit er fyrir að Sjálfstæðisflokkurinn minnki og minnki. Kannski staðnæmist hann við fjórðungsfylgi, en þó er það ekki víst. Áður fyrr dreymdi suma sjálfstæðismenn um hreinan meirihluta. Slíkt er nú með öllu fyrir bí. Hann er öfgahægri flokkur og verður það um ókomna framtíð.

Hverjir eru ljósmyndarar?

-Allir sem taka nógu mikið af myndum.

Nú, hverjir eru þá listmálarar.

-Allir sem mála nóg af myndum.

Er það? Hverjir eru þá vitleysingar?

-Þeir sem eru nógu vitlausir til þess.

Jæja. Hverjir eru þá besservisserar?

-Þeir sem vita jafnmikið og Gúgli.

Eru það margir?

-Kannski.

Hverjir eru Gúgulvisserar?

-Nú rakstu mig á gat.

Það er lítill vandi að búa til endalaus franskbrauð af þessu tagi. Ekki er öll vitleysan eins.

-Nei, þá væri það engin vitleysa. Bölvuð vitleysa er þetta.

Já, auðvitað.

Fáninn er fávíslegur. Fallegur samt. Ferlega framsóknarlegur. Hvaða eff-sótt er þetta eiginlega? Veit það ekki. Sem táknmynd er hann misheppnaður. Þorskurinn væri betri. Auðvitað væri hann svolítið álappalegur, en við því er ekkert að gera. Listamenn ættu að keppast við að stílísera hann. Að fáninn tákni heiðan himinn, eld og ís er fáránleg eftiráskýring. Norðmenn hafa þó raðað litunum rétt. Skjaldarmerkið er afleitt líka. Sem betur fer lítið notað. Forsetann mætti leggja niður. Hann er úreltur.

Svona gæti ég haldið endalaust áfram. Að mörgu leyti er ég ómögulegur Íslendingur. Vil heldur teljast Evrópubúi, Vesturlandamaður, eða jafnvel Jarðarbúi. Af hverju getum við ekki bara haft eina ríkisstjórn. Það væri alveg kappnóg. Núverandi ríkisstjórnir gætu verið undirstjórnir, eða eitthvað.

Íslensk þjóðremba virðist eiga sér lítil eða engin takmörk. Guðbergur má ekki segja að Íslensk menning sé grunn án þess að allt verði vitlaust. Egill Helgason reynist vera með þjóðrembdustu mönnum. Jú, jú. Íslendingar skrifuðu frambærilegar skáldsögur á undan mörgum öðrum. Allflestir í heiminum vita þó hvað átt er við, þegar sagt er að einhver sé að berjast við vindmyllur. Örfáir Íslendingar vita það sama, ef einhverjum er líkt við Björn að baki Kára. Þannig er það bara og eins gott að horfast í augu við það.

IMG 0653Bauja.

IMG 0656Keðjur.


2184 - Óteljandi hringtorg

Langathyglisverðasta fréttin sem ég hef lesið á netinu undanfarna daga er um það að nú sé Gúgli karlinn farinn að gleyma. Það sem hann gleymir er þó sérvalið. Ekki er það svo að hann gleymi því sem honum var fyrst trúað fyrir. Nei, hann gleymir bara í samræmi við dómsúrskurði. Kannski kemur að því að einhver dómsúrskurður kemur um það að hann eigi að gleyma öllu. Þá verður illa komið fyrir ansi mörgum. Annars eru víst fleiri leitarvélar til þó ég noti aldrei annað en Gúgla. Þannig held ég að því sé varið með marga.

Til varnar Sókratesi. Eða var það Súartes.

Af hverju í ósköpunum er það verra en allt annað að höggva tönnunum í öxlina á andstæðingi sínum? Það má sparka í hann eftir kúnstarinnar reglum og láta hann finna fyrir því að takkarnir á fótboltaskónum séu beittir og hið hættulegasta vopn ef þeim er beitt rétt. Auðvitað er það svolítið ósívilíserað að bíta fólk, en ekkert síður í sjálfu sér að sparka í það. Jafnvel í hausinn á því. Það má skalla fólk í andlitið og nefbrjóta það og það er bara aðdáunarvert. Kallar í mesta lagi á gult spjald, en tennurnar má alls ekki nota því þá verður allt vitlaust. Og hendurnar má svosem nota í fótboltanum. Bara ekki til þess sem þær henta best til. Nefnilega til að gefa andstæðingnum á kjaftinn með þeim. Já, fótboltinn (ekki krasspynnan) er ofbeldisfull íþrótt og ofbeldinu má bara beita á viðurkenndan hátt. Annars er FÍFA að mæta. Aumingja dómarakvartettinn sem ekki sá þessi ósköp. En hið altsjáandi auga tækninnar missti ekki af þessu. Ónei. Fótboltinn stefnir að því að vera jafntæknivæddur og körfuboltinn. Verst verður sennilega þegar dómararnir sitja í hálftíma yfir græjunum og geta ekki komið sér saman um neitt. Kannski þeir fari bara að slást. Og svo meiddi kallgreyið sig í tönnunum sem eðlilegt var. Sennilega hefur hann lent á beini. Kontrólerað ofbeldi er það sem gerir fótboltann svona eftirtektarverðan. Ef farið er útfyrir kontrolrammann sem FÍFA hefur nokkuð á hreinu er hægt að eyðileggja fólk. Blaðamenn bíða með öndina í hálsinum eftir að fá tækifæri til þess.

„Hvað er óteljandi á Íslandi“?

„Hólarnir í Vatnsdal“.

„Já“.

„Vötnin á Arnarvatnsheiði“.

„Já“.

„Eyjarnar á Breiðafirði“.

„Já“.

„Hringtorgin í Mosó“.

„Ha? Hvað segirðu? Ég held að þau séu nú ekki óteljandi“.

„Ég hef samt aldrei náð að telja þau. Og finnst þau alltof mörg“.

Um daginn var ég viðstaddur tónleika hjá hljómsveitinni Famina Futura í Akranesvita. Ekki komust mjög margir áheyrendur þar fyrir, en tónleikarnir voru athyglisverðir fyrir margra hluta sakin. Í þessum vita er jafnframt málverkasýning konunnar minnar og ljósmyndasýning ljósmyndarafélags Akraness. Í júlí mun síðan Bjarni Þór Bjarnason halda þar málverkasýningu. Listviðburðir af ýmsu tagi hafa og verið þar í sumar og í fyrrasumar og ekki er sjáanlegt neitt lát á þeim. Má mikið vera ef mannvirki þau sem vitar eru nefndir eru ekki vannýtt húsnæði vítt og breitt um landið.

Nú er ég um það bil að komast í skrifstuð aftur eftir að hafa hvílt mig svolítið. Þeir sem fylgst hafa með mínum skrifum verða bara að taka því. Kannski hætti ég að mestu þessu svokallaða sumarfríi. Tíðarfarið getur þó ráðið heilmiklu um það. Skrif af öllu tagi eru auðveldari í rigningu en sólskini.

Er hugsanlegt að margir skoði alla þá dellu sem í boði er á fésbókinni. Ekki trúi ég því. Núorðið læt ég duga, þegar ég skrepp á bókina, að skoða hvort einhverjar nýjar rauðar tölur hafa komið í ljós hægra megin á síðunni og svo skruna ég niðureftir í samræmi við það sem ég nenni. Læt að mestu í friði það sem hneykslað  hefur gjörvallt Internetið því venjulega fylgir einhver böggull skammrifi.

IMG 0648Verið að mála.

IMG 0651Eru þetta brúsar?


2183 - ESB og USA

Vinsældir (jafnvel bloggara) geta verið varasamar. Vinsældir tákna yfirleitt áhrif, sem geta verið mikil eða lítil eftir atvikum og eðli máls. Stundum verða vinsældir að peningum og nær alltaf spilla þeir. Áhrif tákna oftast völd og öllum ætti að vera kunnugt að völd spilla  næstum alltaf. Algjör völd spilla algjörlega. Þannig er alls ekki útilokað að vinsældir spilli. T.d. er ég sannfærður um að vinsældir heimsmeistarakeppninnar í fótbolta spilla mörgu. Peningar þeir sem keppnin veltir koma sennilega sennilega einkum frá þeim sem síst mega við því að missa þá.

Er fólk sem talar við álfa haldið illum öndum? Ég veit það ekki, en mér finnst afsakanlegt þó álfarnir taki sér far til Vestmannaeyja fyrst verið er að flytja grjót þangað. Hinsvegar finnst mér taka útyfir allan þjófabálk þegar Stöð 2 (eða var það RUV) vill láta okkur trúa, að álfar séu að flækjast með flugvélum til Ameríku. Geta þeir bara ekki tekið sér far með ímynduninni eins og þeir eru vanir?

Ekki er mikill vafi á því að ESB-málið mun halda áfram að valda deilum. Fylgi við þá aðild mun eflaust sveiflast til og tímasetning getur því orðið mjög mikilvæg. Andstæðingar aðildar hafa undanfarið haft vinninginn. Margir álíta samt að þarna sé komið mál sem kemur til með að kljúfa þjóðina. Að andstæðingar aðildar hafi ekki látið kné fylgja kviði og knúið fram viðræðuslit strax og þeir komust til valda eftir umtalsverðan sigur í síðustu alþingiskosningum getur varla þýtt annað en innan raða þeirra sé málið mjög umdeilt og þýðing þess vanmetin. Ef ekki verður knúin fram þjóðaratkvæðagreiðsla um málið er líklegt að það flækist fyrir lengi enn. Ef takast mætti að ná samkomulagi um fyrirkomulag þjóðaratkvæðagreiðslu og tímasetningu hennar er hugsanlegt að mál þetta hætti í talsverðan tíma að hafa áhrif . Nóg er til að rífast um. Núverandi ríkisstjórn er búin að missa af lestinni varðandi þetta mál og alls ekki er víst að næsta stjórn taki það sömu tökum.

Jæja þá, ég skal skrifa smávegis um himstrakeppnina í fótbolta sem tröllríður öllu um þessar mundir. Auðvitað horfi ég stundum á þessi ósköp. Áhuginn er samt ekkert tiltakanlega mikill. Næst á eftir íslenska landsliðinu þykir mér mest gaman að sjá það enska. Ekki veit ég hvernig á því stendur, en mikill grundvallarmunur er á þessum áhuga. Þegar það íslenska leikur held ég að sjálfsögðu með því, en þegar það enska spilar, held ég ævinlega með andstæðingum þess. Ekki veit ég heldur hvernig á því stendur og grunur minn er sá, að íslenskir íþróttafréttamenn og fótboltaspekingar haldi ævinlega með því enska, nema auðvitað ef svo skyldi vilja til að þau léku hvort við annað, sem ég held að hafi ekki gerst.

Það þarf að virða Bandaríkjastjórn það til vorkunnar að þjóðir heims líta til hennar sem táknmyndar lýðræðis í heiminum. Völd hennar eru mikil og óhjákvæmilegt er að mistök,  jafnvel mjög afdrifarík, séu gerð. Smám saman er e.t.v. lýðræðið að breytast í einskonar auðræði og hin fjölþjóðlegu fyrirtæki á ýmsum sviðum eru farin að ráða of miklu. Þau hafa hugsanlega alltof mikil völd og áhrif á vissum sviðum og ekki er hægt að sjá að stefna þeirra sé önnur en sú að auka áhrif sín sem allra mest. Stefna ríkisstjórna getur verið allt önnur og þar kemur lýðræðið og mannréttindi við sögu. Svo virðist vera að Evrópusambandið, Bandaríkin og ýmis stórfyrirtæki séu að ná saman um ýmis viðskiptatengd málefni og það getur orðið mjög hættulegt. Nú þegar ráða hin fjölþjóðlegu fyrirtæki meiru á mörgum sviðum en nokkur ríkisstjórn og völd þeirra og áhrif víðs vegar um heiminn gætu verið varasöm í meira lagi. Fjölþjóðlegar nefndir og ráð allskonar munu þó e.t.v. hamla eitthvað á móti þessu.

Það getur vel verið að framsóknarmönnum finnist að sér vegið með þeirri umræðu um innflytjendamál sem nú á sér stað. Ég get þó ekkert gert að því, þó Eygló Harðardóttir sem hingað til hefur verið sá framsóknarráðherra sem ég hef borið hvað mest traust til, hafi fallið mjög í áliti hjá mér við það að styðja borgarfulltrúa framsóknar, jafnvel eftir kosningar.

Ég er svo gamaldags að ég skipti næstum öllum stjórnmálalegum skoðunum í hægri og vinstri. Ekki er það vegna þess að ég álíti þá skiptingu eitthvað betri en aðrar. Mjög margir skilja samt slíka skiptingu án verulegra útskýringa og svo er hún tiltölulega auðveld. Mér finnst vinstrisinnar vera miklu duglegri við skriftir bæði blogg, fésbók og netmiðla. Annað les ég ekki af stjórnmálalegu eða fréttatengdu efni. Þetta kann vel að vera vitleysa hjá mér. Enginn hefur líka hreinræktaðar vinstri eða hægri sinnaðar skoðanir. Mér finnst samt að þeir sem hafa að meirihluta vinstri sinnaðar skoðanir, vera betur máli farnir og skrifa betur en hinir. Líka hef ég þá trú að þeir séu fleiri. Allt kann þetta þó að stafa aðallega af því að ég er fremur vinstrisinnaður sjálfur og les sennilega miklu fremur efni eftir þá sem hafa svipaðar skoðanir og ég sjálfur.

Annars er ég eiginlega í einskonar sumarfríi, en get samt ekki látið alveg hjá líða að skrifa eitthvað.

IMG 0644Brú á skipi?

IMG 0647Geimför og tré?


2182 - Framsóknarflokkurinn

Hingað til hafa þeir eflaust verið einhverjir sem hafa talið framsóknarflokkinn trúverðugan. Það gerði ég einu sinni. Í eitt einasta skipti kaus ég hann samt. Fannst hann einhvern vegin eiga það skilið fyrir að hafa komið Samvinnuskólanum, sem ég fór í á sínum tíma, á fót og verndað Samvinnuhreyfinguna í pólitískum ólgusjó fyrri tíðar. Nú hlýtur þessum nytsömu sakleysingjum að fækka mikið  fyrir tilverknað Sveinu borgarstjórnarfulltrúa.

Björt framtíð með Marshallinn og Guðmund Steingrímsson (Hermannssonar) í broddi fylkingar tekur kannski við hlutverki framsóknar með að vera opinn flokkur í báða enda. Slíkur flokkur er nauðsynlegur og framsókn er búin að segja af sér og komin langt útá hægri kant.

Af sérstöku tilefni skal það tekið fram að Ólafur Þór Hauksson er ekki faðir Sverris Ólafssonar. Sverrir Ólafsson, prófessor og (með)dómari  er hinsvegar eins og allir hljóta að vita bróðir Ólafs í Samskipum og sonur Ólafs Sverrissonar fyrrverandi kaupfélagsstjóra í Borgarnesi. Systkini mín eru hinsvegar eins og allir hljóta að vita... nei annars, ég held að ég fari ekki nánar út í það. Þekkti Ólaf Sverrisson kaupfélagsstjóra ágætlega. Einu sinni sá ég hann samt saltvondan. Þá var hann búinn að bíða lengi í símanum eftir Friðjóni sparisjóðsstjóra og lagði á með svo miklum fyrirgangi að síminn næstum brotnaði. Yfirleitt var hann samt hvers mann hugljúfi og miklaðist aldrei útaf þeim völdum sem hann hafði.

Annars er ég víst kominn í sumarfrí og ætti ekki að vera að hamast við að skrifa. Get bara svo illa stillt mig. Einhverjir virðast líka vera svo langt leiddir að hafa áhuga á þessu rausi mínu.

IMG 0643Steinn.

IMG 0646Kaðalspotti.


2181 - Sumarfrí

Tvö heitustu málin um þessar mundir virðast vera múslimamoskan við Miklubraut og aðildin að ESB. Þar sem ég er að óathuguðu máli fremur hlynntur báðum málunum er mér víst sæmst að þegja. Óþarfi er að margir gaspri samtímis um þessi mál og þeir sem hæst hafa hljóta að hafa mikil áhrif eða a.m.k. halda það. Hvorugt á við um mig svo ég reyni að halda mig við annað. Af nógu er að taka.

Ég er svosem ekki mikið fyrir að fara á málverkasýningar, en samt getur verið að ég endi á einni eða tveimur slíkum fljótlega. Önnur þeirra er haldin í Hörpunni og hin í vitanum á Akranesi. Þó konan mín eigi verk á þeim báðum (öll á annarri) er það ekki eina ástæðan fyrir að ég minnist á þetta. Sumarið er komið og engin ástæða til þess að sitja við tölvuna og lesa mismunandi gáfuleg blogg. Upplagt að fara út og hreyfa sig eitthvað. Fésbókinni má líka alveg gefa frí í svona góðu veðri.

Istv á fésbók hefur loksins komist eitthvað áfram með kynningu á sér. Allavega var það núna rétt áðan sem ég varð var við að þau séu til. Auðvitað er alveg sjálfsagt að reyna að gera grín að mönnum og málefnum. Mest finnst mér samt til um að þau eru, að því er virðist, alveg ópólitísk í hugmyndum sínum. Svolítið eins og Baggalútur sem er bestur í textaskilaboðum. Nú má ég til með að líta á hann. Gott ef það eru ekki nokkrir dagar síðan ég fór þangað síðast. Æ, hver andskotinn, þeir eru í sumarfríi. Kannski ég fari bara í eitthvað svoleiðis líka.

IMG 0637Borgarspítalinn.

IMG 0639Við Hafnarfjarðarveg.


2180 - Sísí fríkar út

Margir héldu að vorið í Norður-Afríku væri til vitnis um að ástandið færi batnandi þar. Nú virðist það ætla að verða svipað vorinu í Prag á sínum Palach-tíma. Íslenska vorið gæti hinsvegar breyst í rigningarsumarið mikla. Já, ég er alltaf svo svartsýnn.

Eitt það besta við lífið er hversu fjölbreytt það er. Ekki á ég von á að margir lesi þessa ofsaspeki, en það gerir ekkert til. Það eru svo margir sem dettur eitthvað stórsniðugt í hug eða hafa áhuga á einhverju öðru. Sjálfur reyni ég að hafa áhuga á sem flestu, en það gengur illa. Stjórnmálin eru til dæmis öll að fara í vaskinn hjá mér. Sennilega er ég ekki nærri eins frjálslyndur eða vinstrisinnaður og ég hélt. Kannski hefur Sveina (framsóknar) komið slíkum rasískum hugmyndum inn hjá mér. Samt kaus ég ekki vitlaust, finnst mér. Tvær setningar sem ég nota mikið umlykja allt „finnst mér“ og „er fólk fífl?“, þetta eru setningarnar finnst mér.

Ég get ekki að því gert að „mér finnst“ framsóknarflokkurinn kominn ansi langt til hægri. Ef SDG reynir ekki að rétta stefnuna svolítið af kann illa að fara. Búast má við að framsóknarflokkurinn verði til hægri við þá sjálfstæðismenn sem eftir verða í þeim flokki þegar þeir frjálslyndustu þar verða búnir að þoka sér svolítið nær miðjunni. Styttist þá í öfga-þjóðernisstefnu.

Svo ég sleppi nú ekki fésbókarræflinum alveg, þá er það undarlegur andskoti að ef þú til dæmis rekst þar á eitthvað myndband eða annað sem þú hugsanlega hefur áhuga á að kíkja á þá bregst það varla, að til þess að fá að sjá viðkomadi myndband eða hvað það nú er þá þarftu að samþykkja að einhver óviðkomandi megi gera það sem honum sýnist við fésbókaraðganginn þinn. Skrifa fésbókarpóst í þínu nafni og svo framvegis. Þetta verður til þess að: a) enginn tekur fullt mark á fésbókarpósti og b) sómakært fólk forðast svona lagað. Vill semsagt ekki lenda á einhverjum lista sem dreift er hvar sem er, án þess að það fái nokkru um það ráðið og c) hugsanlega fær það líka einhvern óæskilega fjölpóst seinna meir. Langbest er að sleppa því algerlega að skoða þetta því  sennilega er það hundómerkilegt.

Samkvæmt „frétt“ á RUV núna áðan var þetta með börnin 800 (eða næstum því 800) á Írlandi svolítið orðum aukið. Það sem eftir stendur er að grafirnar voru illa (eða ekki) merktar. Kannski hefur það verið gert í sparnaðarskyni. Hvað veit ég? Svipað held ég að því kunni að vera varið með margar þrusufréttir sem rata athugasemdalaust í fjölmiðla. Ef einhver segir eitthvað er því undireins trúað. Svo held ég líka að fótósjoppið sé stundað af miklu kappi af fjölmörgum og sumir virðast trúa því að ljósmyndir sýni alltaf einhvern raunveruleika.

IMG 0632Sina og barrtré.

IMG 0634Hlið.


mbl.is Sisi sór embættiseið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

2179 - Að kosningum loknum

Segja má að þrennt hafi orðið framsóknarflokknum til bjargar í Reykjavík. Rasista-spilið, flugvöllurinn og Guðni Ágústsson. Ég fellst alveg á það með Ómari Ragnarssyni að sá flokkur hafi átt umræðuna fyrir kosningarnar og þess vegna unnið þann sigur sem hann óneitanlega vann.

Í alþingiskosningunum fyrir ári vann framsóknarflokkurinn þann sigur sem þar vannst vegna hins sama. Loforð Sigmundar Davíðs um leiðréttingu forsendubrests var það sem allir þurftu að tala um síðustu dagana fyrir kosningar. Tímasetningar og umræðuefni voru afar hagstæð flokknum þá. Sama var uppi á teningnum núna.

Menn velta því áreiðanlega fyrir sér hverju Simmi finnur uppá fyrir næstu kosningar. Framsóknarflokkurinn (og hann) virðast umfram allt hugsa um atkvæði. Smáatriði eins og málefni skipta engu máli. Atkvæðin eru allt.

Annars eru svo mikil læti útaf moskumálinu þessa dagana að ég þori ekki að minnast mikið á það eða kosningaúrslitin að öðru leyti, samt hef ég sterkar skoðanir á þeim málum öllum saman.

Eiginlega er ég með hálfgerða ritstíflu. Gerði ekki ráð fyrir að ég gæti fengið slíkt. Svo er óvenjumikið að gera hjá mér útaf mörgu o.s.frv. Reyni a.m.k. að afsaka skrifelsisleysið með því.

Þar að auki hef ég reynt að fylgjast með fésbókinni. Það er erfitt. Á margan hátt er ég þó farinn að sjá og skilja hverning fólk getur orðið svona hugfangið af henni og týnt sjálfu sér þar.

IMG 0606Fossvogur.

IMG 0607Hvað er hér á seyði? Er þetta einhver gildra.


2178 - Söngur eða skrækir

Fréttir eru ekkert annað en kostnaður. Þetta segir Eiríkur Jónsson. Og á við sjónvarpsfréttir. Gott ef hann var ekki að tala eitthvað um Rakel Þorbergsdóttur þar og ég held endilega að hann hafi haft þetta eftir einhverjum öðrum. Rétt er það. Að fólk skuli nú á tímum borga góða peninga fyrir fréttir er tímaskekkja mikil. Allt þetta er hægt að fá ókeypis á netinu. Auðvitað var Eiríkur bara að auglýsa sjálfan sig. Hjá honum eru fréttirnar (ómerkilegar stundum) ókeypis. Auglýsingarnar samt áreiðanlega ekki, en hann hefur fréttanef og þekkir marga.

Þeir sem blogga, skrifa í blöð eða fésbókast alvarlega,  pólitískt séð,  á kosningadegi halda líklega að þeir hafi áhrif. Best að passa sig á því að setja þetta ekki upp fyrr en í fyrsta lagi á sunnudaginn.

Fór í gönguferð í morgun (kosningadag ) í súldinni hér í Kópavogi og hlustaði á fuglasönginn. Annars er þetta bölvaðir skrækir, en fólk má kalla það fuglasöng fyrir mér. Mér finnst hávaðinn í kringum þessar kosningar líka hundleiðinlegur. Allir eru að gera það gott. Best á maður sjálfur. Að vera Íslendingur er ómetanlegt.

Var að enda við að lesa grein eftir Hörpu Hreinsdóttur um áunninn athyglisbrest. Sú grein var fróðleg mjög. Reyni sjálfur að hafa bloggin mín sem allra styst til að þeir sem þennan sjúkdóm hafa lesi þau kannski. Samt hef ég allar götur frá því að einhver sagði í mín eyru að Sigrún systir hefði „stuvsýki“ haft á mér vara gagnvart svona heimatilbúnum sjúkdómsgreiningum. Ég segi „lesi kannski“ því vel getur verið að þessi veiki sé að mestu ímynduð. Er ekki alltaf verið að tala um að ungdómurinn sé ómögulegur? Það minnir mig endilega. Sú tölvutækni sem tíðkaðist um 1960 (og sumt af kennslunni líka) kemur krökkunum ekki að neinu haldi þegar þau verða fullorðin. Sú tilfinning að breytingar gerist með sívaxandi hraða er kannski ímyndun líka. Vonandi. Stundum finnst mér það.

Nú er kosningadagurinn sjálfur liðinn og sunnudagurinn tekinn við. Pólitískum hugleiðingum get ég þó ekki alveg sleppt. Úrslit kosninganna þykja mér benda til þess að fjórflokkurinn lifi enn góðu lífi. Stjórnarflokkarnir tapa ekki eins miklu fylgi og margir héldu. Kannski er stjórnin bara sæmileg eftir allt saman. Stefnu framsóknar á ég þó erfitt með að sætta mig við og sjálfstæðisflokkurinn er e.t.v. að klofna.

IMG 0600Grafið fyrir grunni.

Svona geymir lúpínan rigningardropana.IMG 0604


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband