Bloggfærslur mánaðarins, október 2014

2241 - Draugabær

Nei, ég veit ekki af hverju þetta með myndirnar á blogginu er svona. Áður fyrr gat ég alltaf skipt um myndir á fésbókartilkynningunni, en núna get ég það ekki. Þetta er ekki af því að ég vilji alltaf hafa myndina af mér þarna, heldur finnst mér að fésbókin vilji þetta. Auðvitað kann það að vera vitleysa hjá mér og ef einhver veit betur má hann gjarnan láta mig vita.

„Hjálpið okkur að vernda bílana með því að skilja kerrurnar ekki eftir á planinu“. „Handmössum bílinn þinn mjúklega. Við kappkostum að láta honum líða vel. Hreinsum hann og þvoum útvortis sem innvortis“. Skilti og auglýsingar með hvatningarorðum í þessa veru blasa hvarvetna við. Bíllinn minn er bara járnahrúga og blikkbelja og aðgangurinn að sálinni í mér (ef hún er til) liggur ekki í gegnum bílinn. Einhverjir virðast samt halda það. Kannski er svo hjá sumum. Varla eru skiltamálarar og auglýsendur öðrum heimskari. Gæsalappafræði eru ekki minn tebolli. Ég er t.d. í vandræðum með að vita hvort punkturinn eða gæsalappirnar eigi að vera á undan. Svo veit ég líka að til eru margskonar gæsalappir.

Fréttir af draugahverfum á Reykjavíkursvæðinu eru vinsælar. Vel tekst þó að halda þeim utan við alla umfjöllum. Fæstir hafa séð ósköpin. Hringtorg hist og her með malbikuðum götum sem liggja ekki að nokkrum sköpuðum hlut. Slíkt sá ég á Mallorca fyrir óralöngu síðan og hélt að slíkt mundi aldrei fyrirfinnast á Íslandi. Þá var nefnilega alls ekki til siðs að malbika götur fyrr en búið var að búa alllengi við þær. Fáir hafa séð stóru blokkirnar með hundruðum íbúða en mjög fáa íbúa ef nokkra. Er ekki kominn tími til að sýna túristum þetta? Mér finnst þetta mun merkilegra en hverasvæðin sem greyin fara um á útbíuðum strigaskóm og láta teyma sig hvert sem er.

Og svo eru maurarnir búnir að hreiðra um sig á Lansanum. Mér finnst það jafnvel ískyggilegra en læknaverkfallið. Hingað til hefur það einkum verið eftirfarandi sem mér finnst Ísland hafa getað stært sig af dýrafræðilega séð. Engir maurar. Engar moskítóflugur. Engir kakkalakkar og engin (eða mjög fá) villidýr. Sonardóttir mín sem er 5 ára mundi sennilega bæta hættulegum kóngulóm við þessa upptalningu og til eru þeir sem eflaust mundu bæta snákum við.

Vatnsverksmiðjan hans Jóns Ólafssonar er við Hlíðarenda í Ölfusi. Rétt hjá Þorlákshöfn. Einu sinni var ég í hóp sem skoðaði þá verksmiðju. Það verð ég að segja að ég var imponeraður af aðferðunum til að tryggja hreinleika vatnins og geymsluþol. Ef ég á einhverntíma eftir að „kaupa“ vatn í flösku þá mun ég taka vatnið frá Jóni framyfir annað vatn.

IMG 1858Kranar í úrvali.


2240 - Við borgum ekki, við borgum ekki

Sigmundur Davíð vill að sjálfsögðu halda til streitu harðri stefnu sinni gagnvart útt-lendingum í þeirri von að hann geti aftur platað fólk til að kjósa sig. Bjarni Ben. er allt í einu orðinn besti vinur smælingjanna og vill semja um allan fjandann. Að mörgu leyti líst mér betur á stefnu Bjarna því við Íslendingar erum svo fáir og smáir að við verðum að sætta okkur við það sem milljónaþjóðirnar ákveða í gjaldeyris og peningamálum. Auðvitað vinnum við einstöku sinnum í happdrættinu, en deila má um hvort það hafi verið sérstakur happadráttur að fá SDG. Auðvitað var samt gott að fá þann úrskurð sem við fengum í Icesave-málinu, en á endanum getur verið að við þurfum að borga fyrir staffírugheitin.

Alltaf er ágætt að vera vitur eftirá. Ólafur Ragnar er meistari í eftiráspeki. Þegar ég (ásamt mörgum fleiri) kaus hann fyrir margt löngu var það einkum vegna hinnar alþjóðlegu reynslu sem hann óneitanlega hafði. Heimóttarskapurinn hefur aldrei borgað sig fyrir okkur Íslendinga. Við græddum á stríðinu þó flestir aðrir (einkum í Evrópu) töpuðu á því. Bandaríkjamenn eru undanskildir enda vilja ótrúlega margir hér á landi umfram allt líkjast þeim. Sú pólitík sem þar er rekin hentar okkur samt alls ekki. Sú kratíska hugsum sem gegnsýrt hefur Norðurlandapólitík til þessa er miklu heppilegri fyrir okkur.

Of mikill ákafi í pólitík er oftast til hins verra. Kannski er einmitt núna kominn tími uppgjörsins innan ríkisstjórnarinnar. Í Landsbakamálinu takast þeir augljóslega á Bjarni og Sigmundur. Mestar líkur eru á einhvers konar bræðingi þar sem báðir geta þóst hafa unnið. Raunverulegur sigur Sigmundar hlýtur þó að felast í því að ráðherrar framsóknar verði jafnmargir hinum. Þar sneri Bjarni á Sigmund þegar núverandi stjórn var sett á laggirnar.

Stutt blogg eru betri en löng. Þetta blogg er stutt og ég er að hugsa um að lengja það ekkert úr þessu. Um að gera að blogga nógu oft. Fólk heldur þá að maður fylgist með fréttum. Í sannleika sagt þá skrifa ég bara um það sem mér dettur í hug. Fréttir hafa lítil áhrif á það. Hvort margir eða fáir lesa bloggið mitt skiptir mig litlu máli. Til að fá sem flesta til að lesa spekina úr sér er þó best að vanda sig við fyrirsögnina. Hún skiptir mestu máli.

IMG 1856Fornminjar?


2239 - Betel

Akureyrarbær stefnir Snorra í Betel. Hætt er við að þessi frétt týnist í öllum hamagangnum í kringum byssur og þessháttar. Mér finnst þetta samt skipta verulegu máli. Þarna er tekist á um grundvallarmannréttindi. Það er langt frá því að ég aðhyllist biblíulegar skoðanir Snorra. Mér finnst samt að hann eigi að hafa málfrelsi (bloggfrelsi hygg ég að það hafi verið í þessu tilfelli.) Uppalendur barnanna í skólanum eiga auðvitað líka sinn rétt. Hvor rétturinn á að upphefja hinn? Mér finnst að réttur Snorra eigi að vega þyngra í þessu tilfelli og skólastjórinn, Akureyrarbær og uppalendur barnanna eigi að finna aðra leið í þessu máli en að reka Snorra.

Verðbólga er lítil um þessar mundir og flestir hlutir í efnahagsmálum þjóðarinnar jákvæðir mjög. Þessvegna er verkleysi ríkisstjórnarinnar illskiljanlegt. Eðlilegt er að forsvarsmenn stjórnarinnar rífist um hvernig Hrunið skuli gert upp. En það dugar ekki að láta húsið brenna á meðan. Læknar og margar aðrar stéttir tóku fúslega á sig auknar byrðar fyrst eftir Hrun. Nú er ekki hægt að skáka í því skjólinu lengur. Ríkisstjórnin kemst ekki upp með það endalaust að gera ekki neitt.

Tvenn verðlaun unnust á nýafstöðnu Norðurlandaþingi. Tvímælalaust er hægt að segja að bæði hafi unnist þrátt fyrir ríkisstjórnina fremur en vegna hennar. Svitaperlurnar á efri vör Illuga sýndu vel andstöðu núverandi stjórnar við kvikmyndir og sem betur fer stjórna Sjálfstæðismenn ekki lengur Reykjavík.

Pólitíska þrefið um þessar mundir snýst samt aðallega um byssur. Mér finnst lögfræðingurinn Gísli Tryggvason, þrátt fyrir alla sína speki, seilast um hurð til lokunnar í sambandi við þetta mál. Hann gefur sér að margar fullyrðingar sem fallið hafa í þessu máli hljóti að vera réttar. Lögreglan nýtur stuðnings almennings, ég bakka ekkert með það. Samt sem áður þarf að gjalda verulegan varhug við því að hún gerist ekki of umsvifamikil og auðvitað hefur hún ekki nærri alltaf rétt fyrir sér.

IMG 1832Brú yfir Varmá.


2238 - Margrét Tryggvadóttir

Sigkatlar á flugi. Þetta heyrðist mér þulurinn í sjónvarpinu segja áðan, en líklega var það misskilningur. Gosmálin eru svosem engin gamanmál. Einhvern vegin vantar samt alveg í mig ótta við eitrun og mengun af þessum völdum. Gott ef E-bólan er ekki mun ískyggilegri. Á margan hátt treystum við ansi mikið á hreinlæti og kunnáttu annarra. Þetta kemur einkum í ljós í baráttunni við hverskyns plágur. Kannski er munurinn á vestrænum þjóðfélögum annarsvegar og þeim sem minna eru þróuð hinsvegar hvað mestur í allskyns sóttvörnum. Vonum það að minnsta kosti.

Eitthvað eru nú lesendatölurnar að braggast, enda er ég farinn að blogga næstum daglega. Ekki veit ég samt hvort ég endist til þess lengi og auðvitað væri gaman að vera svolítið yngri en ég er. Ég fæ þó ekki breytt þeirri staðreynd að ég er fyrir rúmlega tveimur árum kominn á áttræðisaldur. Annars er aldur afstæður og ég finn það vel, að eftir að ég fór að nota reglulega „Caledos Runner“ í snjallsímanum mínum (sem ég fékk í afmælisgjöf fyrir stuttu) og fara í cirka klukkutíma kraftgöngu á næstum hverjum einasta morgni þá er ég eiginlega allt annar maður. Mér finnst lítið mál að skrifa (eða blogga) svona eina blaðsíðu á dag.

Annars má vel efast um hvort það sé rétt hjá manni að setja á blað allar (eða flestallar) hugmyndir sem maður fær. Væri ekki nær að spara þær og nota þegar tækifærin bjóðast. Nei, blogg á blaði (eða word-eftirlíkingu þess) er eitt af því sem ekki eyðist þó af sé tekið.

Ekki er ég enn búinn að lesa nema byrjunina á Útistöðum Margrétar Tryggvadóttur. Að mínum dómi er bókin alltof löng. Hún er þó ágætlega skrifuð eftir því sem ég best fæ séð og veitir eflaust dágóða innsýn í undarlega flokkadrætti Borgarahreyfingarinnar. Á sínum tíma las ég langa frásögn Margrétar af því hvers vegna hún studdi ekki Píratana hér í Kópavogi og var satt að segja ekki ákaflega imponeraður.

Jónas Kristjánsson segir að gallinn við Íslendinga sé gjarnan sá að þeir séu bara í einhverju liði pólitískt séð og samþykki allt sem þar er gert. Trúlega hefur hann mikið fyrir sér í því. Margrét vildi ekki ganga í Pírataliðið og auðvelt var að rökstyðja það. Sjálfur kaus ég Píratana og eins og sönnum Íslendingi sæmir þá er ég sammála næstum öllu sem þeir gera. End of story.

Auglýsendur keppast um þessar mundir við að auglýsa allskonar „taxfría“ vöru. Þetta er bara nýtt orð yfir það sem hingað til hefur verið kallað „afsláttur“.  Mér finnst þetta ömurlegt orð. Engum dettur held ég í hug að þeir sem auglýsa svona hafi ákveðið að svíkjast um að greiða skatt af vörunni, heldur sé hugsunin sú að upphæð afsláttarins eða minnkunin á álagningunni komi betur í ljós með þessu. Þetta grefur á vissan hátt undan eðlilegri skattheimtu og samneyslu, hugsanlega án þess að auglýsendurnir geri sér grein fyrir því. Að öllu samanlögðu fer þetta óttalega í taugarnar á mér.

Þeim fækkar óðfluga (ha, óð fluga?) sem láta svo lítið að blogga. Allir eru önnum kafnir við að læka og séra á fésbókinni. Sem betur fer er bloggið komið úr tísku, svo ég get einbeitt mér að því.

IMG 1831Steinaþró.


2237 - Geir Jón

Er þjóðsagan um kalda (og þar af leiðandi geislunarlausa) kjarnasamrunann ekki bara nútímaútgáfan af eilífðarvélinni margfrægu sem ýmsir hafa spreytt sig á að finna upp? Mig grunar það. Samt er erfitt um þetta að fullyrða því sumir þeirra sem við þetta fást eru alveg supergáfaðir og engin leið að koma þeim á óvart. Að minnsta kosti eru fjölmiðlungar mjög opnir fyrir þessu og trúa jafnheitt á þetta og eilífðarvélina forðum. Fyrrverandi besservisserar eins og ég efumst hinsvegar um allt.

Með nafnleysi á netinu eru flestir vegir færir. Gott er líka að hafa „alterego“. Kenna má því (þ.e. alteregóinu) um allt sem aflaga fer og misskilingi getur valdið. Leyndarhyggjan er líka ágæt en þar er jafnan talsverð hætta á mistökum. Berlega kom það t.d. í ljós í Geirjónsskýrslunni sem lögreglan var neydd til að senda frá sér um daginn. Þar skilst mér að yfirstrikun hafi mistekist herfilega. Best er auðvitað að eiga engin leyndarmál og hafa allt uppi á borðinu. Meinleysið er samt ekki einhlítt. T.d. er Bjarni Benediktsson líklegur til að hafa ýmsu að leyna þrátt fyrir engilhreina ásjónu. Tala nú ekki um Sigmund Davíð. Hann er bara að verða eins og hinn Davíðinn.

Sagt er að Geirjónsskýrslan sé illa skrifað plagg. Ekki get ég dæmt um það því ég hef ekki lesið hana. Kannski er Geir Jón illa gefinn, þó langur sé, en samt efast ég um það. Fengi ég hana (skýrsluna) í hendur (yfirstrikaða eða ekki) mundi ég eflaust glugga eitthvað í hana. Nafnið mitt er örugglega ekki í henni. Hæpið er að ég mundi lesa hana alla. Mér leiðast nefnilega langar skýrslur. Las aldrei neitt í Hrunskýrslunum frægu, þrátt fyrir mikið lofsorð.

Nú er ég að komast í bloggstuð aftur. Eiginlega er ekkert eins frískandi eins og að blogga djöfulinn ráðalausan. (Ég á ekki við Davíð Oddsson, þó hann sé ritstjóri á Moggaræflinum.) Að sumu leyti er bloggið mun skárra en fésbókin því það er engin leið að skilja hana. Kannski ég sendi þetta bara út í eterinn. Þetta er nú samt svo stutt blogg að ég tími eiginlega ekki að spandera nema einni mynd á það.

IMG 1824Er kviknað í þarna, eða hvað?


2236 - Kjaftæðið á Fésbókinni

Mér finnst ganga alltof mikið á í þjóðfélaginu útaf þessum byssum. Hvort sem þær eru 250 eða fleiri eða færri. Mér finnst aðalatriðið vera hvernig byssur eru notaðar og hvort þær eru notaðar. Ekki hve margar þær eru eða hver á þær. Því er þó ekki að neita að stjórnvöld hafa haldið áberandi illa á þessu máli og sú umræða sem orðið hefur gæti minnkað mjög þá velvild sem lögreglan hefur haft meðal almennings.

Svipað er að segja um margar nýlegar aðgerðir ríkisstjórnarinnar. Þær eru áberandi lélegar. Mér finnst sú niðurstaða sem varðandi slíkt fæst í skoðanakönnunum mjög eðlileg. Allar líkur eru samt á að sú ríkisstjórn sem nú situr haldi völdum fram að næstu kosningum. Þær verða líklega árið 2017. Árinu fyrr verða þó forsetakosningar sem vel geta orðið sérlega athyglisverðar. Ólafur Ragnar mun varla bjóða sig fram einu sinni enn. Þó er það aldrei að vita. Einkum og sér í lagi ef hans helsti mótframbjóðandi verður Jón Gnarr.

Ég fer ekki ofan af því að mér finnst norski fáninn fallegri en sá íslenski. Kannski er það einkum vegna þess að mér finnst rauði liturinnn miklu fallegri en sá blái. Samt sem áður er ég miklu meiri Íslendingur en Norðmaður og ég hef ekki í hyggju að flyta í þann sælureit á næstunni sem Noregur á víst að vera. Samt skil ég vel þá Íslendinga sem þangað hafa farið að undanförnu. Margt er neikvætt hér á skerinu og um margt hefur verið haldið mjög illa á málum hér. Íslendingur er ég þó og ekkert getur því breytt.

Fáninn sem tákn þykir mér einskis verður. Sama er að segja um skjaldarmerkið svokallaða og flest þau þjóðræknislegu tákn sem allir eiga að þekkja. Því skyldi maður fyllast einhvers konar lotninu frammi fyrir slíku?

Eiginlega ofbýður mér kjaftæðið og hringlandinn á fésbókinni. Lækin og séringarnar tröllríða þar öllu. Svo er í sífellu verið að breyta öllum fjandanum þar. Sumt er samt alls ekki vonlaust á fésbókinni. Til eru þeir sem reyna jafnvel að halda upp gáfulegum samræðum þar. En er bloggið nokkuð betra? Eftir að svona margir þurftu að tjá sig varð eitthvað undan að láta. Sennilega er það um það bil að verða úrelt að tjá sig í rituðu máli. Ljósmyndir og þó einkum það sem einu sinni var kallað „lifandi myndir“ en er nú bara kallað „videó“ uppá útlensku er um það bil að taka yfir. Talaða málið er bara notað manna á milli og sem hjálparmiðill fyrir videóið. Einstaka maður hlustar þó enn á útvarp.

Sá nýlega í Kjarnanum að árið 1950 hafi íbúar á Reykjavíkursvæðinu verið um 120 á hvern hektara. Árið 2005 var sambærileg tala komin niður í 36. Auðvitað er skiljanlegt að með bættum efnahag hafi fólk viljað hafa rýmra um sig en áður. Fátt sýnir þó betur en þessar tölur sturlunina sem ríkt hefur í byggingamálum á svæðinu. Einkum þó síðustu árin fyrir Hrun.

Annars held ég að ég fari bara að hætta þessu enda er helgin að verða búin. Sem betur fer lesa þetta fáir og þeir fáu sem það gera hafa varla mörgu að sinna. Þeir sem öðrum hnöppum hafa að hneppa mega ekki vera að því að lesa þessi ósköp.

Kannski fer ég bráðum að hætta að birta tvær ljósmyndir með hverju bloggi. Það er alveg nóg að hafa bara eina. Þar að auki eru þær ekkert séstaklega góðar og ég er næstum hættur að nenna að taka myndir. Sjáum samt til.

IMG 1821Hliðstólpi.

IMG 1764Ber við himinn.


2235 - Um byssur o.fl.

Ég er þeirrar skoðunar að Alþingi muni aldrei samþykkja nýja stjórnarskrá sem líkleg er til að draga úr valdi þess. Það er þó einmitt það sem meirihluti fólks sennilega vill og telur vera raunverulegt lýðræði.

Með lýðveldisstofnuninni á Þingvöllum árið 1944 var hins vegar ákveðið að hér skyldi vera þingbundið lýðræði. Með öðrum orðum fulltrúalýðræði.

Beint lýðræði er þó það sem margir virðast vilja og álíta líklega að sú tegund lýðræðis sem hér hefur ríkt í meira en 70 ár henti okkur Íslendingum alls ekki. Beint lýðræði væri hugsanlegt hér, einmitt vegna fámennis þjóðarinnar. Hjá milljónaþjóðum væri það eflaust óhugsandi.

Sé ekki frá því gengið að völd Alþingis haldist (að mestu a.m.k.) er lítil von til þess að það Alþingi sem nú situr samþykki þau stjórnarskrárdrög sem þar liggja fyrir. Ekki er hægt að ætlast til að núverandi stjórnvöld leggi lykkju á leið sína til að þóknast stjórnarandstöðunni að þessu leyti.

Vel getur samt verið að fyrir næstu alþingiskosningar verði þetta mál til umræðu.

Man ekki hvort ég hef skrifað um þetta áður og nenni ekki að gá að því. Ég hugsa að ég hafi sjaldan orðið eins hissa og þegar ég horfði á myndbandið af „The invisible gorilla“ í annað skipti. Þetta myndband er auðfundið á Youtube og þó ég linki ekki í það hér er mjög auðvelt að finna það þar og svo eru líka margar aðrar sjónhverfingamyndir þar. Ég sá nefnilega alls ekki górilluna í fyrsta sinn sem ég horfði á myndbandið og trúði því varla að hún hefði verið þarna. Man að ég hugsaði: „Eru sjónhverfingar þá virkilega svona einfaldar?“ Mæli hiklaust með að menn kynni sér þetta sjálfir á youtube og gæti þess að horfa vel á fyrri hluta myndbandsins og fara nákvæmlega eftir þeim fyrirmælum sem þar eru gefin.

Því er ekki að neita að t.d. Egill Helgason og Ómar Ragnarsson eru ansi duglegir við bloggið og gott ef þeir hafa ekki heilmikil áhrif. Jónas Kristjánsson er að sjálfsögðu mikið lesinn líka, en hann er ekki nærri eins orðvar og þeir hinir. Kannski er hann þessvegna áhrifaminni. Já, þeir eru afar duglegir og skrifa bara um pólitískt rifrildi og fréttir. DV stingur að vísu á mörgu kýlinu, en er samt mikið fyrir að skjóta fyrst og spyrja svo.

Allir stjórnmálaskribentar í dag eru uppteknir af byssumálinu. Hvernig er hægt að klúðra málum svona gersamlega? Mér finnst allir sem um þetta hafa fjallað hafa gert tómar vitleysur. Ég undanskil ekki þá sem deilt hafa á lögregluna. Lögreglan er ekki framlenging á ríkisstjórninni og ég geri alls ekki ráð fyrir að ríkisstjórnin sé svo skyni skroppin að láta á slíkt reyna. Traust milli lögreglu og almennings hefur verið fremur mikið hér á landi hingað til, en byssumálið getur hæglega skemmt slíkt.

IMG 1798Já, það er gott að hvíla sig eftir langt og strangt ferðalag.

IMG 1809Ágætt að vita að þetta er göngustígur, en ekki eitthvað allt annað.


2234 - Feminismi

Jú, ég er greinilega farinn að blogga miklu sjaldnar en áður. T.d. er ég alveg andvígur því að fjölyrða um byssueign lögreglunnar, þó margir hafi fengið krampa í gikkfingurinn undanfarna daga. Ekki dugir samt alveg að hætta. Sífellt fjölgar þeim sem „blogga“ á fésbókinni en það hef ég ekki lært nógu vel. Er líka orðið nokk sama hvort einhverjir eða engir lesa þessi ósköp hjá mér og held áfram að blogga hér á Moggablogginu. Ætli ég sé ekki búinn að vera hvað lengst allra hér.

Orð skipta máli. Því hefur verið haldið fram að „feminismi“ sé það sama og kynbundið jafnrétti. En feminismi er misheppnað orð. Það gekk miklu betur að innprenta þjóðinni að orðið samkynhneigð sé jákvætt og vel heppnað orð. Jafnvel útlensku orðin hommi og lesbía hafa fengið fremur jákvæða merkingu og árangur þeirra sem barist hafa fyrir réttri orðanotkum þar, má sjá í „gleðigöngunni“ svonefndu. Kynvilla heyrist varla nefnd á nafn núorðið. En að halda því fram að „feminismi“ sé það sama og kynbundið jafnrétti er vonlaust og brýtur í bága við viðurkenndar íslenskureglur. Andstæðingar hans hafa haldið því fram að ekki sé hægt að nota orð sem dregur svo augljóslega taum annars kynsins sem samheiti fyrir „kynbundið jafnrétti“ sem auðvitað er vandræðalegt orðalag og fram að þessu hefur það verið misnotað af stjórnmálaflokkum.

Andstæðingar „feminisma“ hafa á margan hátt rétt fyrir sér og hafa tínt til dæmi um að á karlmenn halli á ákveðnum sviðum. Jafnvel er það til að þeir haldi því fram að ekki sé hægt að snúa sér að kvenfólki fyrr en það hefur verið leiðrétt. Þeir sem vilja „kynbundið jafnrétti“ þurfa þó að forgangsraða. Yfirgangur karla gagnvart kvenfólki á næstum öllum sviðum stingur þó auðvitað mest í augun og ekkert er því til fyrirstöðu að byrja þar. Orðið „feminismi“ hefur þó ekki fengið þann jákvæða hljóm sem það ætti að hafa og kvenréttindi ekki heldur, hvernig sem á því stendur.

Auðvitað gengur raunverulegt jafnrétti til launa og yfirráða yfir eigin líkama grátlega seint hjá konum. Ég er þó svo gamall að ég man vel eftir því að verkalýðsfélög sömdu um sérstök laun fyrir kvenfólk, en hærri fyrir karlmenn. Til voru þeir sem héldu að fullum jöfnuði á því sviði og öðrum hefði verið náð þegar lagalegt jafnrétti náðist. Svo var þó alls ekki. Misréttið grasseraði áfram og gerir enn. Gott ef það versnar ekki, sem er hræðilegt. Sjálft orðið „feminismi“ stendur e.t.v. í vegi fyrir þeirri hugarfarsbreytingu sem nausynlegt er að verði. Auk þess gera sumir yfirlýstir feministar sér leik að því að egna andstæðinga sína til óhappaverka. Það er þó lítilvægt og mundi að mestu hverfa ef tækist að snúa hug þjóðarinnar til jákvæðs feminisma með réttu orðalagi og koma fyrir kattarnef hinum pólitíska stimpli sem „feminismi“ hefur óneitanlega fengið á sig.

Óskaplega eru þau mörg matarbloggin og uppskrifabækurnar sem skrifaðar eru og auglýstar. Lifir fólk bara fyrir mat? Sem betur fer er þetta næstum allt tómt bull og vel hægt að vera án þess. Sennilega er besta megrunarráðið einfaldlega að borða bara svolítið minna.

Bílafljótið brýst áfram, óstöðvandi með öllu.IMG 1777

IMG 1789Fossvogur.


2233 - 248 eða var það 243

Kannski eru stjórnmálaleg viðhorf mín kratískari en sumum finnst hæfilegt. Við því er ekkert að gera. Lífeyrismál eru mál málanna í dag. Þau eru margflókin. En það eru undanfarnar ríkisstjórnir sem hafa gert þau það. Mitt sjónarmið er að ríkið (þ.e. við öll) eigum að tryggja öllum lágmarkstekjur til að lifa af. Sú upphæð getur verið miðuð við 200 eða 2000 krónur per mann per máltíð í útgjöld til fæðu. Um það má eflaust rífast. Einnig um allar aðrar viðmiðanir. Síðan finnst mér ekki koma ríkinu nokkurn skapaðan hlut við hvort sumir hafa lífeyristekjur til viðbótar. Grunnurinn að slíku hlýtur að vera sanngjarnt og eðlilegt skattkerfi og að allflestir sætti sig við það. Mikið vantar á að svo sé hér á Íslandi. Sífellt er reynt að flækja og rugla málin sem mest.

Hvernig er eiginlega þessi tala (248 eða 243) tilkomin? Hver étur þetta upp eftir öðrum. Sumir láta eins og Bjarni Ben. hafi fundið þessa tölu upp. Ekki held ég að það sé rétt. Svo mikið er víst að hvergi (sem ég veit um) er hægt að kaupa efni í sæmilega máltíð fyrir þessa peninga. Sumum finnst ekki einu sinni mikið að borga 3 þúsund eða meira fyrir eina máltíð fyrir einn. Sums staðar er þó hægt að fá ágætis einsmanns máltíð fyrir innan við þúsund krónur. En til lengdar er það heldur leiðinlegt að fá sér alltaf það ódýrasta. Svo er spurningunni um það hve margar máltíðir sé rétt að borða á hverjum degi alveg ósvarað og hvort nóg sé að hugsa bara um efnið í máltíðina.

Matarskattur eða ekki matarskattur. Einu sinni var bara til söluskattur. Og hann var 3 prósent. Auðvitað fór hann hækkandi eins og annað og á endanum var virðisaukaskatturinn fundinn upp. Fyrst í stað átti hann að vera jafn á alla starfsemi og vörur, en svo var farið að heimta lægri prósentu á matvörur, sem auðvitað er eðlilegt. Vaskurinn á matvörur var þá lækkaður í 7 prósent og munaði mikið um það. Sú lækkun fór kannski ekki öll til neytenda, en ef matar-vaskurinn verður hækkaður í 12 prósent fer sú hækkurn áreiðanlega þangað.

Eiginlega er ég sammála pírötum með það að breytingin sem internetið getur valdið er ákaflega mikil. Þó þeir kalli sig sjóræningja er ekki þar með sagt að þeir styðji hvaða hegðun sem er á netinu. Ef bara er talað um höfundarréttarvarið efni er fljótlegt að sjá að eðlilegt gjald er það sem neytendur og framleiðendur koma sér saman um á endanum. Stjórnvöld  (sem alltaf eru mörgum skrefum á eftir öðrum í tæknilegum efnum) vilja helst setja lög um allt sem nöfnum tjáir að nefna. Hreint stjórnleysi væri samt jafnvel betri en hreinn kommúnismi eða lög um allt sem hægt er að hugsa sér. En sleppum því. Á internetinu er fátt hægt að banna og sé það reynt finna þeir sem vilja komast framhjá bönnunum alltaf leiðir til að gera það. Almenningur (allflestir a.m.k.) vill borga fyrir not á höfundarréttarvörðu efni og góðri þjónustu. Höfundarnir sjálfir eiga samt ekki alfarið að ráða því hve hátt það er. Hingað til hafa þeir þó með stuðningi stjórnvalda getað gert það að mestu.

Auðvitað er líka eðlilegast að þeir sem vilja nota .is endinguna á netinu hafi einhver tengsl við Ísland. Fyrst stjórn Isnic var látin í hendur einkafyrirtækis er nauðsynlegt að hafa lagarammann nothæfan. Það er hann þó ekki.

IMG 1747Laufblað.

IMG 1749Ófreskjan „Trjáklippir“.


2232 - Kaldur kjarnasamruni

Nú er komið nýtt „kaldasamrunamál“ á kreik. Í eitt skipti fyrir öll á að leysa orkumál heimsins. Efið sem þessu fylgir er ansi stórt. Ég get ómögulega fallist á þær skýringar sem gefnar hafa verið. En þeir sem áhuga hafa á þessum málum og þekkingu til að skilja þau, munu að sjálfsögðu fylgjast vel með. Ef það er rétt sem haldið er fram þarna, getur það hæglega umbylt heiminum öllum eins og við þekkjum hann. Hræddastur er ég samt um að þetta sé tóm vitleysa eða að svo margir muni stökkva á þennan vagn að hjá nýju hruni verði ekki komist. Ekki bara hér á Íslandi, heldur víða um lönd. Þegar álverið í Straumsvík var reist á sínum tíma var það á síðasta séns. Kjarnorkan var í þann veginn að taka yfir. Svo sögðu a.m.k. vísir menn.

Sjálfstæðismenn eru enn í þeirri afneitun að fyrir utan ógnina erlendis frá hafi það verið pólitískt plott sem kom hinni vonlausu Haarde-stjórn frá völdum. Sjálfstæðisflokkurinn hafði hamast við það árum saman að láta allt hér reka á reiðnum. Fyrst var treyst á framsóknarflokkinn en þegar hann gat ekki lengur halað inn nógu mörg atkvæði (Vantaði Sigmund Davíð – mundi einhver segja) þá var ákveðið að reyna við samfylkinguna. Jú, jú. Hún var til í að prófa og tilraunin var gerð. Því miður var samfylkingarfólkið engu betra en framsóknarliðið og áfram var Hrunið undirbúið.

Minnir að það hafi verið í síðasta bloggi sem ég var eitthvað að barma mér yfir því að ég tímdi ekki að kaupa bækur eða neitt annað sem ekki er hægt að éta eða gefa barnabörnunum. Margrét Rósa Sigurðardóttir hafði samband við mig á fésbókinni og bauðst til að lána mér bókina eftir Margréti Tryggvadóttir. Auðvitað þáði ég það með þökkum og þannig kom hún í veg fyrir að ég gæti haldið því fram að ég hefði aldrei neinn ávinning af bloggstarfseminni. Á bókasafninu hefði ég auðvitað getað pantað þessa bók, en það hefði væntanlega kostað.

Mér finnst í lagi að forsætisráðherra landsins láti eins og asni öðru hvoru, ef hann er eins og maður þess á milli. (Kannski er hann það þó ekki.) Sá ekki þáttinn á Stöð 2 þar sem hann var látinn kasta pílum í mynd af Jóhönnu Sigurðardóttur. Hef heldur aldrei séð þátt með Loga Eiðssyni. Man bara vel eftir pabba hans. Svona er ég nú gamall. Horfi stundum á „hraðfréttir“ og finnst Gunnar á Völlum og Benni oft meinfyndnir og finnst hraðfréttir (bæði nú og fyrr) það af og til einnig, og að ég sé ekki að svíkja aldur minn með því. Auðvitað er kjánalegt að láta peninga sem innheimtir eru af bláfátæku barnafólki jafnt og öðrum renna í svona vitleysu, og hugsun svipuð því varð frú Thatcher að falli á endanum, þrátt fyrir stríðsfrægð. Aftur á móti er ég búinn að fá nóg af spurningaþáttum og finnst þeir hundleiðinlegir, séstaklega auglýsingamennskan í lok þeirra.

IMG 1729Stríðsminjar? E.t.v. náðhús.

IMG 1736Byggt og búið.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband