Bloggfærslur mánaðarins, mars 2016

2441 - Um vaxtaokur og hrægamma

Þegar mikið er um að vera í pólitíkinni get ég ekki hamið mig og þarf sífellt að láta ljós mitt skína. Veit þó ekkert um hversu skært það er, en ekki fer hjá því að ég hafi skoðanir á mörgu. Oft eru þær að vísu rangar en mér finnst þær oftast skynsamlegar.

Ekki er sjáanlegt að það verði ríkisstjórninni að falli að hafa falið milljarðana sína í skattaskjólum erlendis. Sennilega er það lagalega (en e.t.v. ekki siðferðilega) alveg í lagi.

Fyrir utan vaxtaokrið sem óneitanlega er í boði ríkisstjórnarinnar og afsláttinn sem „hrægammarnir“ fengu og sumir segja að hafi verið 500 milljarðar eða meira er næsta lítið sem uppá þessa ríkisstjórn er hægt að klaga. Auðvitað verður hún að vera viðbúin því að fara frá eftir næstu kosningar og það væri gegn öllum lögmálum og viðmiðum ef þeir tveir flokkar sem með stjórn landsins hafa farið undanfarin ár fengu meirihluta aftur.

Einhver hlýtur ástæðan að vera fyrir því að velja heldur þá leið sem valin var í uppgjörinu við „hrægammana“. Ég held að meginástæðan fyrir því hafi verið sú að með henni er girt sæmilega fyrir lögsóknir af hálfu margnefnra gamma.

Mér finnst það líka alveg í andstöðu við fyrri stefnu stjórnarandstöðunnar að vera á móti tillögum stjórnarskárnefndarinnar eftir að hafa látið líklega næstum allt kjörtímabilið. Breytingar á gömlu stjórnarskránni komast ekki í gegn núna nema með stuðningi ríkisstjórnarinnar svo einfalt er málið. Það þýðir lítið að styðja bara drögin sem samþykkt voru í fyrndinni en vera á móti þeim breytingum sem boðaðar eru.

Á morgun verður mikið reynt að láta alla hlaupa apríl en ég er ekki viss um að einfalt sé að ljúga sennilega núna. Fréttirnar eru oft svo ótrúlegar. A.m.k. þær innlendu og stjórnmálalegu.

Allt er þetta blogg um pólitík og þessháttar þó vel mætti fjölyrða um tíðarfarið og margt sem því tengist. Sennilega (a.m.k. vonandi) er vorið á næsta leiti. Birtutíminn er sífellt að aukast og vonandi verður sumarið gott og gjöfult.

WP 20160309 10 08 52 ProFrostrósir.


2440 - Stjórnarskrá og þess háttar

Var að enda við að lesa langa grein um „hinn sjálfhverfa Trump“ eftir einhverja fremur háttsetta konu í Trump-liðinu. Er það ekki einmitt vandamálið með Sigmund okkar? Hann er óttalega sjálfhverfur. Getur ekkert gert vitlaust, biðst aldrei afsökunar og kennir alltaf einhverjum öðrum um.

Allir gera vitleysur. Sumir viðurkenna það bara aldrei. Þykjast alltaf vita best. Þannig er Trump að sögn. Er ekki Sigmundur svipaður? Setur heimsmet á daginn, grillar síðan á kvöldin og telur peninga. Nú er ég farinn að skálda ávirðingar á greyið, svo það er best að hætta.

Ofanritað setti ég á fésbókina líka og endurtek það semsagt hér. Mér þótti ómögulegt að bíða eftir næsta bloggi með þetta.

Nú er kominn miðvikudagur og sennilega set ég þetta blogg á sinn stað fljótlega.

Samkvæmt fréttum virðist Tortóla-málið sífellt vera að vinda uppá sig. Hvort og hvernig sem vantrauststillaga verður flutt þegar þing kemur saman eða ekki er augljóst að mikil gerjun er í stjórnmálum og hart verður deilt á næstu dögum.

Ég álít það ekki rétt hjá Svani Kristjánssyni að forseti Íslands geti samkvæmt gildandi stjórnarskrá rekið forsætisráðherra. Ef Bjarna og Simma tekst að hafa stjórn á þingmönnum flokka sinna sé ég ekki að lagalega sé hægt að koma í veg fyrir að stjórnin sitji áfram til næstu kosninga. Um þessi mál öll verður væntanlega kosið í forsetakosningunum í sumar. Ekki er hægt að útloka að ÓRG reyni að sitja eitt kjörtímabil í viðbót.

Hingað til hafa flestir sem um hryðjuverkin í Brussel hafa fjallað talið þau tilraun til að hræða íbúa landsins og jafnvel allrar Evrópu. Ég hef meðal annarra verið þessarar skoðunar. Annan tilgang hef ég einnig komið auga á. Hann er sá að reyna að flýta þeirri þróum sem sumir segjast sjá hjá ESB. En það er að líkjast Bandaríkjunum sem mest og þá einkum hvað snertir lögreglumál og öryggi allt. Því er allsekki að leyna að Belgísk yfirvöld hafa verið afskaplega afskiptalítil um mörg mál og kemur þar margt til t.d. tvískipting landsins eftir uppruna og tungumálum. Afleiðingin er sú að öfgamúslimar hafa náð að rotta sig saman þar og undirbúa allskyns hryðjuverk. Kannski stefnir af þeim sökum í einskonar FBI í ESB.

WP 20160305 13 24 11 ProÍ Rimaskóla.


2439 - Castró

Ég hef greinilega enga sérgáfu. Er t.d. alveg lokaður fyrir tónlist. Finnst hún mestmegnis vera hávaði. Sumir virðast alveg týna sjálfum sér í alls kyns smáatriðum í sambandi við tónlist, einkum popptónlist. Skil samt vel þá sem alltaf þurfa að hafa slíkan hávaða í kringum sig til að geta einbeitt sér. Sumir geta þó alveg hlustað á þögnina.

Hef talsverðan áhuga á skák. Er samt ekkert góður í henni. Finnst skák hvorki vera list né vísindi. Það er alveg nóg að hún sé íþrótt. Kannski er hún hjá þeim allra bestu íþrótt með listrænu og vísindalegu ívafi. Er alveg sammála Fischer um að byrjanastúderingar séu að eyðileggja skákina sem íþrótt. Í seinni tíð má vitanlega segja það sama um endataflsstúderingar með tölvum. Auðvitað hefur hún samt gildi fyrir rökhugsun og ýmislegt þessháttar. Alþjóðlegu reglurnar, iðkendafjöldinn og flækjustigið eru samt það sem lyftir henni upp fyrir öll önnur borðspil.

Fidel er ekki sammála bróður sínum Raúl Castro með Obama og Bandaríkin. Hann vill allsekki slá striki yfir það liðna og láta eins og það hafi bara ekki gerst. Sennilega mundi hann skrifa undir að Bandaríkin væru heimsveldi hins illa. Í Bandaríkjum Norður-Ameríku er íhaldssemi dyggð enda getur ekkert heimsveldi án hennar verið. Þegar Sigmundur setur heimsmet er það bara hlægilegt en ef Bandaríkin setja það er eins gott að vara sig. Þeir eru nefnilega miklu lengra komnir á heimsveldisbrautinni en Evrópusambandið. Auðvitað má efast um að „Þúsundáraríkið“ sé til. Slík heimsveldi hrynja alltaf innanfrá en ekki í átökum við önnur ríki.

Já, ég er eiginlega búinn að gefast upp á ESB eins og það kemur utanaðkomandi fyrir sjónir um þessar mundir. Vandamálin þar eru geigvænleg. Kannski þurfa þeir að fara í gegnum sitt þrælastríð til að geta orðið heimsveldi á borð við Bandaríkin. Vel getur verið að tungumálafjöldinn og menningaraldurinn séu aðalhindranirnar þar.

Ég er dálítið hræddur um að stjórnarandstaðan heykjist á því að flytja vantrauststillöguna á SDG. Eiginlega er hún búin að missa af strætisvagninum. Hefði að sjálfsögðu átt að gera það áður en haldið var í páskafrí. Ýmislegt er þó áreiðanlega í gerjun og greinileg er hræðsla fjölmiðla við málið. Vissulega verður talað meira um Tortóla en venjulega á næstunni, kannski einkum á Fésbók og öðrum samfélagsmiðlum, en vel getur verið að stjórnin standi þetta af sér. Bjarni Benediktsson gæti sem best fundið uppá því að styðja SDG og líklegast er að nógu margir sjálfstæðisþingmenn mundu fylga honum. Ef listi yfir þá sem innistæður áttu/eiga á Tortóla yrði birtur opinberlega gæti það samt breytt miklu.

WP 20160303 09 32 38 ProGamli og nýi tíminn.


2438 - Einkalíf gegn öryggi

Hryðjuverkin í Brussel hafa óhjákvæmilega vakið upp enn og aftur spurninguna um einkalíf gegn öryggi. Fullkomnu öryggi verður aldrei náð án þess að það komið niður á persónufrelsi og einkalífi. Fullkomnu persónufrelsi fyrir alla er heldur ekki hægt að ná. Reyndin verður alltaf einhverskonar jafnvægi þarna á milli. Fullkomin óvissa er um það hvort trúarbrögð skipta einhverju máli í þessu sambandi. Sama má segja um þjóðfélagslegt réttlæti. Bilið virðist geta verið ansi breitt áður en það hefur áhrif á hryðjuverk. Að sumu leyti er hægt að líta á hryðjuverk sem stríðsaðgerðir og öfugt. Vandamálin sem af þessu öllu leiðir eru síðan stjórnmálalegs eðlis.

Mbl.is segir að hálf milljón dollara samsvari 63 milljörðum króna. Ekki vissi ég að milljarðurinn væri orðinn svona lítill. Kannski þetta séu bara „Sigmundarmilljarðar“. Útaf þessu lagði Ómar Ragnarsson en hann leggur mikið uppúr því að linka á fréttir sem birtast á mbl.is. Þannig nær hann ofarlega á vinsældalista Moggabloggsins. Hann bloggar líka oft á dag og hefur satt að segja frá ýmsu að segja.

Mér finnst Tortólamálið hans Sigmundar Davíðs alls ekki snúast um lagaleg atriði, heldur eingöngu um traust. Jafnvel þó ýmislegt megi finna forsætisráðherranum til afsökunar stendur það óhaggað að ekki kom hann hreint fram við þjóðina. Engin þörf var á leynimakki í þessu tilfelli.

Fórum í heimsókn til Jóns á Velli un daginn og á eftir til Bjössa og Lísu í súpu og allskonar. Jón er núna á Hjúkrunarheimilinu (Elliheimilinu) Lundi á Hellu og bara með 9 tær. Þangað var ágætt að koma og ekki var annað að sjá en vel væri hugsað um vistmenn þar.

WP 20150320 10 26 48 ProGömul mynd að þessu sinni.


2437 - Bjarni bóksali

Bjarni frændi birtir á fésbókinni ágæta og fjörlega frásögn af sjálfum sér, Ésú, Djöflinum, KaríusiBaktusi sjálfum og ýmsum fleirum sem ég las með mikilli áfergju, rétt eftir að ég hafði, aldrei slíku vant, sérað smágrein eftir Atla Vilhelm bróður hans, sem ég hafði rétt áður lesið (á fésbókinni náttúrulega) en þar hafði hann hrósað grein eftir Njörð P. Njarðvík (sem reyndar er kvæntur frænku konunnar minnar), um væntanlegar forsetakosningar og vöntun frambjóðenda þar á „menningarlegri reisn“.

Nú vantar ekkert nema að ég mæli með því að Bjarni frændi og bóksali á Selfossi, fyrrverandi Alþingismaður, rithöfundur og hvaðeina, fari í forsetaframboð. Ég efast nefnilega ekkert um að þeir forsetaframbjóðendur sem hingað til eru komnir í ljós eða framboð hafi fengið ´fjölda áskorana´ eins og þeir segja stundum.

Þetta með „menningarlegu reisnina“ veit ég ekkert um en bækur hefur hann skrifað. Fyrnir að vísu mál sitt stundum að mér finnst. Er kannski ekki ´boðberi nýrra tíma´ að öllu leyti og einn af þeim fáu sem sagt hefur af sér þingmennsku áður en andstæðingum hans gafst ráðrúm til að krefjast þess. Auðvitað var hann einu sinni Framsóknarmaður en sú vitleysa er að mestu hrunin af honum.

Auðvitað er ég ekki að gera grín að Bjarna frænda þó hann eigi það til að gera grín að öðrum. Síst af öllu vil ég verða til slíkrar ósvinnu því hann er það mikill orðsins maður að hann gæti sem best sent það margfalt til baka.

Nú verð ég annað hvort að hætta við að birta þessi ósköp eða gera það strax. Eftir hádegi gæti forsetaframbjóðendum hafa fjölgað talsvert og margt af því sem hér er nefnt verið orðið úrelt með öllu.

WP 20160226 11 20 48 ProFrá Sementsverksmiðjunni.


2436 - Brussel o.fl.

Auðvitað er skást að þegja þegar gríðarlegir atburðir gerast. Ekki dreg ég úr alvarleika atburðanna í Brussel. Samt er það svo að augljóslega er verið að reyna að hræða almenning. Það er eini tilgangur hryðjuverka af þessu tagi. Látum þetta ekki koma okkur úr jafnvægi. Það er akkúrat það sem verið er að reyna. Norðmenn stóðu sig á margan hátt vel í eftirmálum Úteyjar, en að sjálfsögðu skiptir miklu máli hve atburðirnir í Brussel eru miklu nær okkur en það sem á gengur í Mið-Austurlöndum. Tyrklandi, Sýrlandi, Pakistan o.s.frv.

Þögn sjálfstæðisþingmanna um Tortólamálið nýja er satt að segja ærandi. Auðvitað er skiljanlegt að þeir vilji ekki úttala sig um málið án þess að gefa Sigmundi forsætis tækifæri til að útskýra sína hlið á málinu. Bjarni Benediktsson hefur e.t.v. þarna tækifæri til að endurheimta eitthvað af glötuðu fylgi Sjálfstæðisflokksins. Til þess þarf hann sennilega að lítillækka Sigmund Davíð sem mest án þess þó að sprengja stjórnina. Hugsanlegt er að hún standi þetta af sér. Framsóknarflokkurinn nær sér hinsvegar áreiðanlega ekki. Kannski hugsa menn bara málið fram yfir páska.

Held að Bandaríkjamenn séu allsekki tilbúnir til að kjósa Bernie Sanders. Sumt af því sem hann boðar minnir mjög á Skandinavíska módelið og sjálfur mundi ég fremur kjósa hann en Hillary Clinton. Hana mundi ég þó taka framyfir Donald Trump að sjálfsögðu og sennilega hvaða repúblikana sem væri. Til forseta í Bandaríkjunum bjóða sig venjulega allmargir fram en langmesta athygli vekja frambjóðendur stóru flokkanna enda líta útbreiddir fjölmiðlar varla við hinum, nema þeir séu þeim mun þekktari.

Svei mér ef ég myndi ekki velja annað hvort Þorgrím Þráinsson eða Ástþór Magnússon af þeim frambjóðendum sem fram eru komnir nú þegar til forseta Íslands. Sennilega bíða margir eftir því að einhver verulega þekktur maður sem nýtur almenns trausts bjóði sig fram. Vonandi á frambjóðendum eftir að fjölga eitthvað.

WP 20160226 11 32 32 ProVelkomin til Akraness.


2435 - SDG og RJF

Eins og mig minnir að ég hafi komið inná fyrr fæ ég oft hugmyndir um bloggið þegar ég er nýbúinn að senda efni þangað. Var síðast að skrifa um RJF og hefði kannski átt að halda áfram við það. Minnir að eitt af því sem mér þótti hvað merkilegast í þeirri bók hafi verið að Garðar sagði að Fischer hefði sagt (eða gefið í skyn) að hann sæi mikið eftir öllum þeim tíma sem hann hefði eytt í skákina. Líka vildi hann meina að hann hefði gengið alltof nærri sér í síðara einvíginu við Spassky. Held reyndar að að algengt sé að mörgum hætti til að ganga of nærri sér þegar aldurinn færist yfir.

Mér finnst merkilegt að fylgjast með Tortóla-umræðunni og að alþingismenn (eða –fólk) láti bjóða sér þá framkomu sem SDG sýnir þeim. Þó allt sem Sigmundur Davíð og Jóhannes útskýrari segja væri satt og rétt. Jafnvel tæmandi. (Sem ég efast reyndar um) skuldar hann alþingi skýringar á framkomu sinni og siðferðið í því að fjalla um „hrægammasjóði“ án þess að segja frá þessu Tortólamáli öllu er því a.m.k. umdeilanlegt. Búast má við fleiri uppljóstrunum fljótlega.

Virðingarröð skrifa. Er bloggið æðra fésbókarskrifum? Það finnst bloggurum áreiðanlega. En eru ekki bloggarar að verðfella skrif sín ef þeir skrifa of oft og of mikið? Það finnst mér? Þurfa bloggarar að hafa gott vit á því sem þeir blogga um og vera vel menntaðir? Það finnst mér ekki. Og þó. Í mínum huga skiptast skrif í fimm flokka.

Fyrst af öllu koma allskonar fésbókarskrif og þessháttar. Einnig ýmis atvinnuskrif. Um fésbókarskrifin þarf ég ekki að fjölyrða. Oft eru þau einskonar samtal. Merkileg eða ómerkileg eftir atvikum. Helsti munurinn, sem þó virðist vera óljós fyrir sumum, er að næstum allir eða a.m.k. fjölmargir geta lesið ósköpin og erfiðara er að neita að hafa skrifað eitthvað á þessháttar miðil en að hafa sagt það í tveggja eða fárra manna tali. Auðvitað eru þessi skrif oft um margt merkileg. Ef menn skrifa t.d. eitthvað bitastætt þar getur verið að fleiri lesi það en ef það er skrifað annars staðar. En búast má við að það týnist fljótlega. Þó er að sjálfsögðu hægt að gera það aðgengilegt fyrir þá sem að því leita. Annars er ég enginn fésbókarfræðingur og hef heldur neikvæða mynd af fyrirbærinu. Með atvinnuskrifum á ég við allskyns fjölmiðla- og fréttaskrif, sem oft eiga það sameiginlegt með fésbókarskrifunum að vera heldur óvönduð. Sum þeirra skrifa eru þó alveg ágæt. Auglýsingar allskonar gætu mín vegna verið þarna líka.

Bloggskrif eru yfirleitt svolítið vandaðri en þau sem upp hafa verið talin og ekki óskynsamlegt að hafa þau númer tvö. Jafnvel eru þau lesin yfir og lagfærð. Þegar best lætur geta þau verið einskonar bakþankar eða hálftímar hálfvitanna. Þó ég hafi allskyns skoðanir varðandi bloggskrif er ég ekki hlutlaus þar því ég hef stundað þau talsvert. Þessvegna er kannski best fyrir mig að segja sem fæst um þau. Moggablogg eru ekkert verri en önnur og draga ekkert endilega dám af birtingarstað.

Númer þrjú er svo hægt að hafa blaðagreinar og ýmislegt ritstjórnarefni. Oftast er það samhljóða og sammála birtingarstað og þarf samþykki ritstjóra eða ritstjórnar. Svipað má segja um ýmislegt fagefni. Lagagreinar ýmsar, frumvörp, álitsgerðir og ýmislegt þessháttar efni.

Númer fjögur gæti svo verið ritrýnt efni og bækur. Um það mætti auðvitað fjölyrða endalaust og ekki er það endilega merkilegt alltsaman. Kynningarefni um það og úrdrætti er þó oft vel þess virði að lesa og skoða.

WP 20160226 11 34 12 ProFallstykki.


2434 - Tromparinn í USA

Varðandi tromparann í US of A vil ég bara segja þetta: Hvort sem það er í Bandaríkjum Norður-Ameríku eða annars staðar (t.d. hér á landi), þá eru þeir sem HATA stjórnvöld þeir sem blakta í pólitíkinni. Hvort þetta hatur kemur frá vinstri eða hægri virðist ekki skipta máli. Það getur vel verið að ég sé að misskilja þetta alltsaman, en ég tel mig vinstri-sinnaðan eftir gamla kerfinu og HATA stefnu Donalds Trump. Mér finnst hann fordómafullur og stefna á þjóðrembu og misrétti af hæstu gráðu. Það getur vel verið að það sem hann segir NÚNA, hljómi vel í einhverra eyrum, en öfgafull hafa ummæli hans og gerðir allar verið hingað til. Ekki er útlit fyrir að stjórnendur Repúblikanaflokksins geti komið í veg fyrir framboð hans.

Eitthvað var ég að fimbulfamba um Tortóla um daginn ef ég man rétt. Ég var samt ekkert að tengja sjálfan forsætisráðherrann eða fjölskyldu hans við þá litlu eyju. Sennilega er bankakerfið þar svolítið skrítið í okkar augum. Löngum hefur það samt loðað við hana að þar væri skattaskjól. Í mínu ungdæmi var talað um að Sviss væri aðalskattaskjólið. Auðvitað er ekki rétt að bara þeir ríku geti komið peningunum sínum í skattaskjól. Eiginlega ætti að banna þau.

Tortólatengingin við SDG getur, þrátt fyrir alla lagakróka og flækjur, orðið til þess að minnka traustið á honum og komið sér illa fyrir Framsóknarflokkinn í næstu kosningum. Þingmenn þess flokks og einhverjir fleiri virðast samt enn treysta honum. Þingrof og kosningar eru ekkert nær en venjulega. Stjórnarflokkana greinir samt á um mörg mál.

Hér á Akranesi er veðrið bara ágætt. Kannski svolítill dumbungur en hvergi er snjó eða ísingu að sjá nema til fjalla og götur allar að þorna. Svei mér ef það er bara ekki að koma vor. Grasið er samt dálítið gulleitt ennþá. Birtan er sífellt að aukast og annað eftir því. Farfuglarir á leiðinni samkvæmt útvarpsfréttum og þar eru menn bara orðnir skáldlegir. Hnatthlýnunin lætur ekki að sér hæða. Bakslag gæti þó komið í þetta alltsaman ef veðrið hagar sér illa. Hugsanlega er sjálft Páskahretið enn eftir.

Sennilega eru mannréttindi og umhverfismál í víðum skiliningi mál málanna um þessar mundir. Hér á Íslandi finnst mér þó mestu skipta að fá nýja stjórnarskrá. Greinilega er sú gamla meingölluð á margan hátt. Hugsanlega eru þau drög að stjórnarskrá sem reynt var að koma í gegn á síðasta kjörtímabili líka gölluð. Þessvegna eru þær tillögur sem nú eru fluttar kannski örlítið betri en ekki neitt. Annars er alls ekki hægt að búast við því að tillögur sem allir flokkar á alþingi eru sammála um séu nokkurs virði í raun.

Var að lesa um daginn bók Garðars Sverrissonar um Bobby Fischer og á margan hátt er hún mjög áhrifarík. Þó frásögnin af dauðastríði Fischers láti örugglega fáa skákunnendur ósnortna sem bókina lesa er ekki hjá því komist að líta á hana, a.m.k. öðrum þræði, sem einskonar varnarrit höfundarins. En gagnvart hverjum er hann að verja sig? Eftir á finnst honum kannski að hann hefði getað gert meira fyrir hann. Víst er að margir af óvildarmönnum Garðars vildu hafa gagn af Fischer og dauða hans. Sennilega hef ég ekki lesið jafnmargar bækur um neinn einn mann og Robert James Fischer.

WP 20160226 11 14 11 ProSementsverksmiðjan.


2433 - Tortóla

Húsameistari ríkisins
tók handfylli sína af leir

og Bjarni sagði ókei

Hér er ég og ég heiti
Sigmundur Davíð.

Já, já. Þetta er rammstolið frá Steini. Er það samt ekki hrós útaf fyrir sig að stela svona blygðunarlaust?

Arðgreiðslur tryggingarfélaganna og Borgunarmálið eru í þann veginn að gleymast. Kannski er vorið á næsta leiti, að sumu leyti a.m.k. (Er ég kannski að gera ypsilonvillu hér?) og þessvegna nenna menn líklega ekki að rífast endalaust.

Eru Tortólabúar allir siðlausir? Bara bankakerfið þar kannski? E.t.v. allir Íslendingar sem eiga reikninga þar? Hugsanlega allir sem tengdir eru bankakerfinu á Tortóla? Er ekki til betri mælikvarði á siðleysi? Er hugsanlegt að siðleysið sé bara ekkert tengt Tortóla? Áreiðanlega eru ekki allir siðleysingjar með bankareikning á Tortóla. Ekki einu sinni þeir íslensku. Eru peningar og eignir upphaf og endir alls? Hverlags spurningar eru þetta eiginlega?

Vestrænt lýðræði og arabiska vorið. Af hverju skyldum við vera svona upptekin af því að koma hinu svokallaða vestræna lýðræði á um allt. Og hver er fulltrúi hins margnefnda Alþjóðasamfélags? Er hið vestræna lýðræði fólgið í því að láta alþjóðleg fyrirtæki ráða því sem þau vilja? Og fá að sitja uppi með öll vandamálin? Og skríða í duftinu fyrir peningaplokkinu? Af hverju skyldu frjálsbornir Íslendingar vera tilbúnir til að fara í kílómeterslanga biðröð og dveljast þar í heila nótt bara ef bandarísk matarkeðja segist ætla að gefa þeim 10 fremstu í biðröðinni agnarögn af því sem þeir stela af hinum?

Einu sinni í fyrndinni (man alveg eftir því samt) þóttu beinar sjónvarpsútsendingar merkilegar. Svo er ekki nú. Bein útsending frá lokakeppni fyrir Júróvisíón í öðru landi er fullmikið finnst mér. Takk samt fyrir að láta fréttirnar í friði. Kannski er ég bara svona ferkantaður og horfi aldrei á svonalagað, en er þetta ekki opinber tuðsíða Morgunblaðsins.

Einkennilegt þetta með stjórnarskrána. Þeir sem sögðu einu sinni að hún væri alveg ágæt, vilja endilega breyta henni núna. Aftur á móti eru þeir sem vildu umfram allt nýja alveg á móti öllum breytingum, jafnvel þó þær gangi í sömu átt. Stjórnmálamenn eru skrýtnustu skepnur jarðarinnar. Árni Páll er jafnmikill Júdas, þó hann safni skeggi.

WP 20160221 11 19 20 ProFrá Akranesi.


2432 - Væri ekki bara best að gera SDG að húsameistara ríkisins?

Samfélagið sefur yfirleitt og lætur allt yfir sig ganga. Þetta sagði einhver og þetta er sannkallað spakmæli og ég vildi að ég hefði sjálfur fundið það upp. En eru ekki öll ummæli stolin einhvers staðar frá. Man ekki betur en það hafi verið Davíð sjálfur Oddsson sem lét bók sem hann samdi heita „Stolið frá höfundi stafrófsins.“

Egill Bjarnason, frændi minn, taldi stjörnur og sannfærðist um að þar væri einhvers konar bólga. Þetta er með öllu óstolið.

Til stendur að rífast dálítið um stjórnarskrána annars vegar og Landsspítalann hinsvegar. Fyrir sérvitringana er síðan rifist dálítið um breidd skákborða. Líklega er samt rifist aðallega um borðin sem taflborðin eru á. Skákborðin sjálf held ég að séu samkvæmt stöðlum. Þó er þetta ekki alveg ljóst eftir fréttum að dæma.

Auðvitað má margt segja um stjórnarskrána og ég hef sagt það áður og segi enn að ég á ekki von á því að Alþingi (með stórum eða litlum staf) samþykki nokkurntíma að láta af hendi völd sín til svo illa skilgreinds aðila sem „Þjóðaratkvæðagreiðslur“ kallast. Þá er nú skárra að láta ÓRG hamast eins og naut í flagi.

Aðalspurningin varðandi bæði Landsspítalann og Stjórnarskrána er að hve miklu leyti á að láta venjulega flokkapólitík ráða í því efni. Ég þykist vera nokkurn veginn ópólitískur eins og margir fleiri og hef alltaf verið þeirrar skoðunar að þjóðaratkvæðagreiðslur ættu að vera alþingi (með litlum staf) æðri. Sömuleiðis að Landsspítalinn ætti að vera annars staðar en við Hringbraut og flugvöllurinn að fara fjandans (Hvassahrauns) til. Um þetta alltsaman má þó fabúlera endalaust. Stjórnmálin eru þarna eins og annars staðar til mikillar bölvunar.

Svo væri auðvitað hægt að semja langa og ítarlega grein um skákborðin og Héðinn Steingrímsson.

WP 20160221 11 00 50 ProSafnasvæðið á Akranesi.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband