Bloggfærslur mánaðarins, nóvember 2010

1216 - Leirgerður og Grútarbiblía

Nú ætla ég að reyna að hætta að hugsa eins mikið um pólitík og ég hef gert að undanförnu. Hún deprimerar mann bara. Hlutirnir fara sjaldan þar eins og maður vonast til og spáir. Ekki þýðir samt að láta hugfallast.

Það voru um 63 prósent sem kusu í Icesave-þjóðaratkvæðagreiðslunni síðastliðinn vetur og svipað hlutfall kjósenda sem sat heima í kosningunum um síðustu helgi. Er þetta tilviljun? Hvað segja talnaspekingar nú? Ekki var þetta sama fólkið. Samt eru þessar stærðir svo líkar að athygli vekur. Ég er bara ekki nógu vel gefinn til að skilja þetta.

Hvaðan skyldi hún koma þessi bloggnáttúra sem í mér virðist vera? Oft er ég að því kominn að gefast upp á þessum fjára. Er þetta það eina sem ég get gert betur en margir aðrir? Kannski. Þetta er allavega það sem ég nenni að gera um þessar mundir. Óskar Þorkelsson er alltaf að hrósa mér. Það heldur mér talsvert við efnið. Kannski meinar hann þetta. Hinsvegar vilja fáir rífast við mig hvernig sem á því stendur. Þó vil ég gjarnan rífast við fólk, en bara á mínum forsendum. Þessvegna blogga ég. Margir bloggarar eru svona.

Moggabloggsteljarinn segir mér að heimsóknir á bloggið mitt séu flesta daga á annað hundrað eða svo. Af því þykist ég sjá að þeir sem lesa bloggið mitt reglulega séu a.m.k. svo margir (sumir þeirra komi ekki í heimsókn daglega en séu reglulegir gestir engu að síður) .

Síðan ímynda ég mér að ég hafi með skrifum mínum einhver (eða talsverð) áhrif á skoðanir þessa hóps. Þessvegna vanda ég mig oft töluvert við þessi skrif. En sum blogg eru ákaflega óvönduð.

Fyrir nokkrum dögum skrifaði ég klausu um Marínómálið. Ég er enn sama sinnis með það. Mér finnst hann hafa heimskað sig á því að fara í megafýlu við það eitt að blaðamaður sagðist ætla að upplýsa hve mikið hann skuldaði. Veit ekki ennþá hve mikið það er og hef ekki áhuga á að vita það.

Leirgerður minnir mig að sé sálmabók og um hana held og að hafi m.a. verið ort: „Skáldskapur þinn er skothent klúður, skakksettum höfuðstöfum með." Gott ef eftirfarandi eða eitthvað á þá leið var ekki líka sagt um bókina: „Allt rekur sig á annars horn, eins og nautpening hendir vorn." Leirgerður hugsa ég samt að bókin hafi verið kölluð af því að hún hafi verið prentuð í Leirárgörðum. Eflaust hefur samt einhverjum fundist ljóðin óttalegur leirburður. Ekki eru ritdómar nú til dags í bundnu máli.

Grútarbiblía er útgáfa af biblíunni þar sem einhvers staðar stendur (líklega í fyrirsögn) harmagrútur í staðinn fyrir harmagrátur. Ekki má nú mikið.

Fyrir löngu var ég áskrifandi að Vikunni. Minnir að þar hafi einhverntíma verið grein um eyðslu frægs fólks gerð eftir upplýsingum þess sjálfs. Á þeim tíma var Ómar Ragnarsson flugmaður og skemmtikraftur með meiru ekki síður þekktur en nú. Man sérstaklega eftir því að að í innkaupum Ómars kom fram að hann keypti ákaflega mikið af kexi. Svo mikið að mér, sem alltaf hef kexglaður verið (jafnvel kexruglaður), ofbauð gjörsamlega. Veit ekki hvernig Ómar er kexlega séð núna en þá var hann allavega mjög kexsinnaður.

Las einhverntíma frásögn um mann sem tekinn var til fanga í smábæ í Bandaríkjunum fyrir minniháttar afbrot og stungið í steininn sem var í kjallara lögreglustöðvarinnar. Fangageymslan var lítið notuð og maðurinn gleymdist þar í hálfan mánuð. Var samt með lífsmarki þegar það uppgötvaðist. Hafði einhvern vegin komist í vætu.

IMG 3833Náttúran gerir allskyns tilraunir.


1215 - Að kosningum loknum

Léleg kjörsókn í stjórnlagaþingskosningunum er aðallega til marks um lítinn áhuga ungs fólks á stjórnmálum. Það getur vel orðið spennandi að fylgjast með því sem gerist á stjórnlagaþinginu og hvernig Alþingi muni fara með það sem þaðan kemur. Er strax farinn að hlakka til næstu alþingiskosninga. Samt er engan vegin ljóst hvenær þær verða eða hvernig og um hvað þær muni snúast. Það getur líka vel verið að þjóðaratkvæðagreiðslur verði fyrr.

Þeir sem heima sátu voru vissulega að styrkja atvinnupólitíkusana í sessi. Stjórnlagaþingið verður veikara en ella með svona lítið kjörfylgi og það eru vonbrigði hvernig þessar kosningar fóru kjörsóknarlega séð eins og sagt er á miður góðri Íslensku. Alveg er þó eftir að sjá hverjir verða kosnir og hvernig þeir standa sig.

Kjósendur höfnuðu langflestum þeirra mörgu frambjóðenda sem boðið var uppá. Við því er ekkert að gera og var að sjálfsögðu vitað. Persónukjör er bara svona og tíðkast samt víða um lönd. Búast má við að áhrif þrýstihópa, lobbyismi hverskonar og allavega mútustarfsemi muni aukast ef persónukjör verður tekið upp við alþingiskosningar. Kosturinn við það væri samt sá að leyndarhyggjan ætti að minnka. Hlutirnir gætu sem best færst meira uppá borðið og orðið sýnilegri.

Við það ætti fjölmiðlun öll að breytast og batna. En gerist þetta? Ég efast um það. Flokksmaskínurnar mala hægt en þær mala örugglega. Flokkarnir eru stofnanir sem búnar eru að koma sér vel fyrir, hafa mikil völd og kunna með þau að fara. Stundum flýr hæfileikafólk á náðir þeirra því með þeirra hjálp er oft hægt að ná langt. Undanfarið hafa þó flokkshestarnir haft vinninginn og hæfileikafólkið forðast flokkana.

IMG 3831Frosið vatn.


1214 - Kosningum lokið

Nú er hægt að fara að blogga um eitthvað annað en stjórnlagaþingið. Bíðum eftir úrslitunum. Kjörsóknin var dræm og þessvegna verður þingið ekki eins áhrifamikið og ella. Að því leyti sem líta má á kosningarnar sem einhvern stuðning við ríkisstjórnina má hún vel við una. Auðvitað er samt ekki rétt að gera það nema að litlu leyti. 

Það er að koma fram sem ég fór að óttast fljótlega eftir hrun. Fólk er sem óðast að koma sér fyrir í sínum gömlu pólitísku skotgröfum. Orð eins og til dæmis „forsendubrestur" og „greiðsluvilji" heyrðust varla fyrir hrun, en eru nú mjög í tísku. Gallinn er sá að hver og einn leggur þann skilning í þessi orð sem hentar honum og hans pólitísku sannfæringu best. Óhugnanlegt er að sjá á úrslitum skoðanakannana að fylgi fjórflokksins og hlutföllin þar hafa lítið breyst frá því fyrir hrun.

Alls ekki er samt útilokað að skoðanir fólks hafi breyst töluvert. Að mörgu leyti er trúlegt að sú breyting komi í ljós á boðuðu stjórnlagaþingi. Takist því þingi að verða sammála um verulegar breytingar á stjórnarskránni er ekki ólíklegt að Alþingi samþykki hana líka. Það kann að boða nýja tíma í íslensku stjórnmálalífi.

Þó mér sé að mörgu leyti illa við fésbókina get ég ekki stillt mig um að fara þangað öðru hvoru (oft á dag). Stundum tek ég dýfur og sendi vinabeiðnir á alla sem forritið stingur upp á og ég kannast eitthvað við. Svo fæ ég stundum vinaboð sem ég samþykki yfirleitt umhugsunarlaust. Þetta hefur í för með sér að fésbókarvinir mínir eru nú orðnir eitthvað á fjórða hundrað og það sem sagt er skrunar svo hratt framhjá að ég missi yfirleitt af því. Stundum hefði ég alveg verið til í að bæta athugasemd við en er yfirleitt svo lengi að hugsa að tækifærið fer framhjá mér. Svo hentar bloggið mér bara betur.

Salvör Kristjana (systir hans Hannesar) er alltaf að gera allskyns tilraunir. Nú mælir hún með að fólk noti posterous.com fyrir blogg og þessháttar. Er ekki of mikil bakhlutalykt af þessu bloggsetursnafni? Mér finnst Moggabloggið best. (Alltaf er hann bestur blái borðinn).

Marínó G. Njálsson fór alveg í baklás um daginn þegar DV ætlaði að birta upplýsingar um lánamál hans. Hvernig ætli staðan á því máli sé núna? Ég missti alveg af því að fá að vita hve mikið hann skuldar. Traust mitt á honum hefur samt minnkað töluvert við þessar ritstýringartilraunir hans.

Svo er það spurning spurninganna sem ég sá á einhverju bloggi um daginn: Hver á Moggann? Á Davíð Moggann eða á Mogginn Davíð? Er BjarniBen svona æstur alltaf af því hann er að reyna að koma sér í mjúkinn hjá Davíð? Ég bara spyr. Ég veit næstum ekki neitt. Og svo er allt að verða vitlaust útaf Gunnari í Krossinum. Þeir eru varasamir þessir guðsmenn.

IMG 3827Hér voru járnsmiðir, nei ég meina trésmiðir víst á ferð.


1213 - Augnablik í lífi þjóðar

Nú er hefjast mikilvægt augnablik í lífi íslenskrar þjóðar. Eins og allir hljóta að vita er nú að hefjast kosning til stjórnlagaþings. Vonandi gengur allt vel og vonum ennfremur að kjörsókn verði góð. Áróður og umtal hefur verið með talsvert öðrum hætti en algengast er að sé fyrir kosningar hér á landi. 

Ég mun ekki þreyta fólk með löngu bloggi að þessu sinni en hvet að sjálfsögðu alla til að drífa sig á kjörstað.

Fésbókin og aðrar samskiptasíður loga um þessar mundir af samsæriskenningum allskonar, en ég hef ákveðið að breyta lítið þeim lista sem ég kom mér upp snemma í þessari kosningabaráttu. Mér finnst flokkspólitískur fnykur af þeim samsæriskenningum sem ég hef heyrt.

IMG 3834Með glóandi glyrnur.


1212 - Saumaðu fyrir sumrunginn svo hann ekki lembi

Eitthvað hefur verið rætt undanfarið um geldingar grísa og sýnist þar sitt hverjum. Það sem hér er sagt að ofan er þó um heimalning af kindakyni og mér hefur alltaf fundist að um hrútlamb sé að ræða og saumaskapurinn hafi átt að koma í staðinn fyrir geldingu. Þetta getur samt verið einhver misskilningur hjá mér. Sumrungur er ekkert síður gimbur finnst mér. Bara að dýrið sé fætt að sumrinu en ekki um vorið.

Kannski er þetta byrjun á vísu eða eitthvað þessháttar. Kom bara upp í hugann þegar geldingarumræðan hófst í sjónvarpinu. Áreiðanlega hef ég heyrt þetta áður þó Gúgli kannist ekkert við þetta orðalag. Vel er hægt að líta á þetta sem fyrripart og kannski ég hafi þetta bara fyrir rímþraut sem vantar botninn á. Það eru sennilega allmargir hagyrðingar sem líta hingað stundum.

Fyrir utan það sem trekkir hér og ég hef áður minnst á, má sennilega telja vísurnar. Margir Íslendingar (kannski einkum af eldri kynslóðinni) eru gefnir fyrir vísur. Setja slíkt gjarnan saman sjálfir þó sjaldan sé því flíkað. Ég er orðinn því allvanur að setja vísukorn í athugasemdirnar hjá mér (og jafnvel víðar) og er, þó ég segi sjálfur frá, oft furðu fljótur að gera vísurnar. Þetta er æfing eins og svo margt annað. Að ég skuli endast til að blogga svona daglega er líka æfing.

Enn nálgast stjórnlagaþingið og enginn bilbugur er á neinum. Þó blindir séu að kæra framkvæmdina held ég að þeir vilji fátt frekar en að kosningin fari snurðulaust fram og á réttum tíma. Skiljanlegt er að þeir vilji taka þátt í herlegheitunum.

Sagt er að búast megi við að uppundir sjö af hverjum tíu muni greiða atkvæði í kosningunum á laugardaginn. Minna má það líka helst ekki vera. Algert fíaskó væri það ef færri en 50 af hundraði létu svo lítið að mæta á kjörstað. Mér þykir líklegast að kjörsóknin nái 85 prósentum. Byggi það ekki á neinu öðru en eigin bjartsýni.

Ég er nokkurn vegin búinn að ákveða hvernig ég ráðstafa mínu atkvæði. Ef til vill fer ég einu sinni enn yfir röðina á þeim frambjóðendum sem ég hyggst styðja. Kosningarnar verða spennandi. Á því er enginn vafi. Mest hlakka ég til að vita hver kjörsóknin verður. Upplýsingar um það ættu að liggja fyrir strax og kjörfundi lýkur. Úrslitin verða síðan ekki ljós fyrr en síðar. Meðal annars geri ég ráð fyrir að safna þurfi saman atkvæðaseðlum af öllu landinu á einn stað.

Sumir segja að það taki því varla að kjósa því ekki sé annað að sjá en að frambjóðendur allir vilji það sama. Svo er alls ekki og þar að auki verða þeir örugglega flestir að svíkja eitthvað af því sem þeir lofa. Þó þeir ætli sér marga góða hluti er ekki víst að efndirnar verði á pari. Til þess eru margar ástæður.

Það er auðvitað rétt að það sem frambjóðendur segja í sjálfskynningum sínum í útvarpinu og í rituðu máli er ósköp keimlíkt hvað öðru. Menn virðast mestmegnis vilja það sama og eru með svipaðar áherslur og mærðin er mikil. Ég nota frekar þær (kannski mislukkuðu) skoðanir sem ég hef haft á frambjóðendum til þessa, en það sem þeir segja núna til hátíðabrigða. Þetta verður auðvitað til þess að þjóðþekkt fólk lendir frekar á mínum lista en aðrir. Við því er lítið að gera. Ég lít á veruna á stjórnlagaþingi sem endasprett í langhlaupi en ekki spretthlaup.

Ég blogga fremur lítið um Hrunið og þess aðskiljanlegu náttúrur. Mest er það vegna þess að ég hef lítið vit á fjármálum. Auðvitað er hægt að reyna að Gúgla í sig svolítið vit en mér finnst skemmtilegra að skrifa um ýmislegt annað og er fljótari að því. Fréttabergmál vil ég síst af öllu vera. Mínar ær og kýr eru auðvitað Fésbókin og Bloggið sjálft enda skrifa ég mest um þau fyrirbrigði. Pólitík er ómögulegt að forðast með öllu enda er hún að mörgu leyti lífið sjálft.

Og í lokin fróðleiksmoli sem í augum okkar Íslendinga er kannski lítill en ekki í augum annarra. Lal Bahadur Srivastava Shastri varð forsætisráðherra Indlands eftir að Nehru dó árið 1964. Hann fæddist árið 1904 og dó árið 1966 eftir að hafa verið forsætisráðherra í innan við tvö ár. Þó drakk hann daglega eitt glas af hlandi úr sjálfum sér. Dauða hans bar að erlendis (miðað við Indland) og er það nokkuð einstakt.

IMG 3823Hér er kalt.


1211 - Stjórnlagaþing VII

Hún nálgast, hún nálgast, hún nálgast. Þessi kosning sem allir eru svo spenntir fyrir. A.m.k. ég. Mér finnst hún meira spennandi en nokkrar alþingiskosningar, meira spennandi en venjuleg þjóðaratkvæðagreiðsla getur nokkru sinni orðið, hvað þá prestskosningar. En er nokkuð að marka mig? Ég er einn af þeim sem hef talað Alþingi niður en þessa stjórnlagaþingskosningu upp. Er ég bara ekki þar með orðinn vanhæfur? 

Nú eru blindir og sjónskertir farnir að efast um að stjórnlagaþingskosningin sé lögmæt. Það finnst mér eðlilegt. Það er þetta með aðstoðina við útfyllingu kjörseðilsins sem skiptir mestu máli þar. Númerin koma kannski til hjálpar, en sem betur fer á ég ekki að skera úr um þetta. Svo eru þetta strangt til tekið bara kosningar til ráðgefandi þings og þannig séð ómark. En þetta er áhugavert.

Ef ég yrði kosinn til stjórnlagaþings, sem ég verð náttúrulega ekki því ég er ekki einu sinni í framboði, þá mundi ég taka Kristófer Má mér til fyrirmyndar og leggja ofuráherslu á að stjórnarskránni verði einungis breytt með sérstakri þjóðaratkvæðagreiðslu hverju sinni, en Alþingi sé ekki látið káklast í því, enda eru þeir sem þar sitja vanhæfir til þess.

En þingið verður að fá einhverja dúsu. Kannski væri hægt að leyfa minnihluta þingmanna að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu um ákveðin mál. Það ætti almenningur auðvitað að geta líka og jafnvel forsetinn einnig. Já, þetta er allt vandasamt.

Íslendingar segja: Blindur er bóklaus maður.
Færeyingar segja: Bundinn er bátlaus maður.
Hvorttveggja er rétt. Stuðlarnir ráða samt úrslitum þarna. Spakmæli þurfa helst að vera stuðluð. Þá eru þau meira rammandi og betra að muna þau.

Eitt er ákaflega jákvætt við fésbókina. Enginn er skilinn útundan. Allir fá vitleysuna beint í æð. Mér er nær að halda að það sé það eina jákvæða við fyrirbærið.

Bjarni Harðarson stjórnarmaður í Heimsýn, fyrrverandi þingmaður og núverandi blaðafulltrúi Jóns Bjarnasonar ráðherra gerir á sínu bloggi auglýsingu Heimssýnar til stjórnlagaþingsframbjóðenda að umtalsefni og er ekki nema sjálfsagt fyrir þá sem áhuga hafa á ESB aðild og stjórnlagaþingskosningum að auki að lesa það.

Ég tek eftir því að Axel Þór Kolbeinsson sem ég tel einlægan ESB-andstæðing hefur ekki svarað þeim og er líklega á móti tilraunum Heimssýnar til að hafa áhrif á kosningarnar.

Nú er ég orðinn svo syfjaður að bókstafirnir eru eins og festir uppá þráð og sveiflast fram og aftur og það er erfitt að stöðva þá. Að mestu tekst mér þó að halda mig á réttum stað og þar kemur bendillinn mér til hjálpar því hann er farinn að spekjast svolítið og hættur að flækjast um allt blaðið eins og hann er vanur. Sennilega syfjaður líka.

Hluti af því að verða syfjaður aftur, þegar maður verður andvaka um miðja nótt og drekkur tvo bolla af kaffi sér til sáluhjálpar, er að láta sér verða kalt. Þá er alveg sérstaklega eftirsóknarvert að fara aftur í bælið.

IMG 3804

Fyllibytta.


1210 - Stjórnlagaþing VI

Hin sögufræga stjórnlagaþingskosning nálgast óðfluga. Fésbókin er varla lesandi lengur og bloggið litlu betra. Þar er þó frekar hægt að forðast ósköpin finnst mér. Auðvitað koma allar þessar kynningar einhverjum til góða og óþarfi að vera að vorkenna sjálfum sér útaf fyrirferð kosninganna. Hefðbundnir fjölmiðlar vilja helst ekkert af þeim vita. Ríkisútvarpið var þvingað til að sinna þeim svolítið. 

Sögufrægu segi ég og meina það. Þjóðaratkvæðagreiðslan fyrir nokkru var auðvitað söguleg líka. Þar voru þó greidd atkvæði að mestu í tilgangsleysi og þar að auki í óþökk sumra stjórnmálaafla. Ekkert slíkt er til staðar nú og ég á von á að kjörsókn verði mikil. Flokkarnir eru orðnir verulega hræddir sýnist mér flest benda til. Hættan á því að allt fari í rifrildi og vitleysu á stjórnlagaþinginu sjálfu er þó vissulega fyrir hendi.

Kristján Óli Hjaltason sendi mér eftirfarandi áminningu. Auðvitað var ég búinn að taka eftir því að Baldur er í framboði og ætla að kjósa hann. Góð vísa er samt aldrei of oft kveðin:

„Eins og fram hefur komið þá er bekkjarbróðir okkar Baldur Óskarsson í framboði til Stjórnlagaþings.  Baldur sendi mér þennan pósti sem ég áframsendi til ykkar með hvatntingu að styðja Baldur en með því vitum við að "rödd okkar" verður á Stjórnlagaþingi."

„Þessi póstur" er svona:

„Ég hef ákveðið að bjóða mig fram til stjórnlagaþings. Með þessum pósti er ég að leita eftir  stuðningi  ykkar við framboðið með því að kjósa mig til þingsins.  Ég er sá eini úr hópi Bifrestinga sem útskrifuðust úr Samvinnuskólanum eins og hann var og hét sem býður sig fram. Hér er því tækifæri til að fá fulltrúa okkar hóps á hið merkilega þing. Ég vek athygli ykkar á að því ofar sem ég er á seðlinum ykkar, þeim mun þyngra vegur atkvæðið.  Með von um góðar undirtektir."

Mér finnst þessi fésbók vera algjörlega rugluð. Er stundum að reyna að skilja hana en þeim mun dýpra sem ég fer í stillingar og annað þessháttar því óskiljanlegri verður hún (bæði á ensku og íslensku). Svo sé ég ekki betur en sífellt sé verið að breyta henni. Annars er ég kannski bara svona vitlaus. Aðrir virðast geta skrifað allan fjandann þarna.

Bráðum getur fólk bara setið við tölvuna allan daginn og haft margfalt betri samskipti við ættingja og vini en nokkurntíma var mögulegt í kjötheimum. Meira að segja kaffið er betra þegar maður hellir sjálfur uppá svo tími kaffikerlinganna er eiginlega liðinn. Aumingja Ketilríður hennar Guðrúnar frá Lundi. Ekki hafði hún síma eða tölvu en komst þó af. Drapst að vísu fyrir rest en það gerum við víst öll.

Er ekki kominn tími til að segja allri þessari tölvuvitleysu stríð á hendur? Mér finnst það. Var einu sinni áskrifandi að blaði sem barðist gegn notkun tölva í skólastarfi og fann þeim ýmislegt til foráttu. Já, og auðvitað var því dreift á Internetinu, meira að segja á póstlista, svo gamalt er þetta mál.

IMG 3772Svanur á steini.


1209 - Enn eitt klámhöggið

Sagði í gær að fyrirsagnir trekktu mikið í bloggheimum. Það gerir klámið reyndar líka og öll fréttatengdu bloggin eða réttara sagt athugasemdirnar. Einu sinni hafði ég ógnargaman af að klæmast en það er liðin tíð. Kann samt býsnin öll af klámvísum. Gæti eflaust klæmst ennþá ef ég þyrfti.

Nú er ég búinn að koma mér upp allmörgum lesendum  (Moggabloggsteljarinn segir heimsóknir vera á annað hundrað eða fleiri flesta daga) og því get ég skrifað eitthvað misgáfulegt og þeir lesa það með þökkum. Þarf bara að gæta þess að hafa það ekki of langt svo þeir verði ekki leiðir og hætti að lesa ruglið úr mér.

Það er erfitt að vera svona alvarlegur alltaf. Því skyldi ég ekki stundum skrifa eitthvað sem er ekkert að marka. Geri það reyndar stundum en allir virðast halda að ég meini það sem ég skrifa. Sem er erfitt. Ef ég skrifa einhverja meiningarleysu er það talið skáldlegt. Er annars skáldlegt að láta eins og fífl?

Það er svolítið erfitt að blogga þessa dagana án þess að minnast á stjórnlagaþingið. Þó hef ég reynt það. Jafnvel minnst á Hrunið sem flestir (nema auðvitað Lára Hanna og Marínó G. Njálsson) eru alveg hættir að nenna að minnast á.

Veit ekki af hverju ég er svona langrækinn eins og ég er. Er ennþá fúll út í þá sem gerðu at í mér þegar ég pissaði á mig á bíóinu sem sýnt var í Hótel Hveragerði. Ætli ég hafi ekki verið svona fjögurra eða fimm ára. Var allavega ekki byrjaður í skóla. Man að ég sat á grænum járnstól og vatnið (hlandið) lak niður um gat á setunni sem kannski var einmitt haft þar með hliðsjón af svona löguðu. Verst að ég man ekkert hverjir það voru sem gerðu at í mér.

Gæsalappafræði. Word-forritinu er fátt ómögulegt. Eitt af því sem pirrar suma Word-notendur eru árans amerísku gæsalappirnar. Á íslensku eru gæsalappir einfaldlega svona „a". (Það er að segja 99 og 66, niðri og uppi.) Þetta er mjög auðvelt hjá mér. Þessar gæsalappir fylgja beinlínis Word-forritinu sem ég nota. Ég þarf bara að ýta á gæsalappatakkann fyrir ofan 2 eins og flestir gera og þær íslensku birtast. Eflaust hefur dóttir mín átt eitthvað við forritið. Hvað veit ég?

Nýlega sá ég einhversstaðar (andmenning.com - minnir mig) því lýst hvernig á að koma fyrir íslenskum gæsalöppum á F1 og F2 tökkunum og láta þær taka sér þar bólfestu. Þetta voru ein 17 skref og það talsvert flókin, kann mörgum að finnast. Það er samt ekki áhorfsmál að gera þetta fyrir þá sem eru á móti þeim amerísku og ekki eins heppnir og ég.

Annars held ég að þessar gæsalappir hjá mér aflagist eitthvað þegar ég sendi skrif með þeim á Moggabloggið. (Þar að auki kunna þær að haga sér öðru vísi í öðrum forritum.) Þessvegna nota ég þær eins lítið og ég get. Skrefin 17 eru líkast til betri að þessu leyti. Læt svo umfjöllun um gæsalappafræði lokið í bili, enda er ég ekki sérfræðingur.

Egill Helgason segir að í rauninni sé ekki nokkur vandi að gera byltingu. Allt sem þurfi að gera sé að fara í bankann og taka út alla sína peninga. Auðvitað þurfa allmargir að gera þetta í einu og Egill ber Eric Cantona fyrir þessari speki. Er Egill að hvetja til byltingar? Kannski. Ef nógu margir vilja byltingu verður bylting. Hvort hún byrjar með því að fólk tekur út peningana sína eða lemur með sleifum í potta og pönnur er ekki aðalatriðið heldur samstaðan. Það er hún sem venjulega bilar. Menn eru gjarnan ekki sammála um nærri allt, þó þeir séu sammála um sumt. Þannig er það bara.

IMG 3769Gömul áletrun á steini. Nei, ekki svo gömul!!


1208 - Nú veit ég hvað ég ætla að skrifa um

Fyrirsagnir og aftur fyrirsagnir. Það eru þær sem trekkja. Ég er viss um að þú lest þetta mest vegna þess að ég segi að þú sjáir ekki eftir því. Svona er ég nú klár. Þessa aðferð get ég að vísu ekki notað mjög oft. Kannski svona tvisvar til þrisvar með svolítið breyttu orðalagi. En kannski luma ég á fleiri aðferðum. Sjáum til.

Já, það má segja að þetta sé ofurlítið auðvaldsblogg. Hef áhyggjur af því að virðast hægrisinnaður mjög. Jú, ég blogga á Moggablogginu og er skyldur Davíð Oddssyni og Bjarna Harðarsyni. Það gerir mig ekki að hægrisinna. Bjarni er meira að segja í vinstri grænum og segist vera vinstrisinnaður. Skrifaði samt á sínum tíma í AMX og ekki ber það vinstrimennsku vitni.

Annars er mér alveg sama hvernig menn eru pólitískt séð. Það er innrætið sem skiptir máli. Pólitíkin er mestmegnis útvortis. 

Svo er margt sinnið sem skinnið. Og skinnin eru mörg. Eins mörg og fólkið sem í þeim er. Og fleiri eru með skinn. Hvar endar þetta? Ég er alltaf á kafi í málsháttum. Reyni að misskilja þá ef hægt er. Oft má saltkjöt liggja. Svo var það hún Bára á Brekkustígnum. Eða var það Brávallagatan? Allavega var það hún Edda Björgvins.

Undarlegt með þessa ESB-umræðu. Það kemst ekki hnífurinn á milli últrahægrisinna og sannfærðra Stalínista þegar kemur að henni. Þá ná þeir saman sem aldrei fyrr. Ekki það að ég haldi að þeir hafi rétt fyrir sér. Held að það sé bara betra að vera einhvers staðar á milli. Og ekkert hættulegt.

Hilmar Þór Hafsteinsson kveður um blogghunda sem eru eins og svín, í athugasemdum við síðasta blogg mitt. Kannski á hann við mig en Moggablogghunda líkar mér yfirleitt vel við. Mér finnst þeir ekkert meiri hundar en aðrir þó margir þeirra hafi kosið að breytast í Eyjuhunda eða eitthvað annað.

Ég er farinn að láta flest flakka á þessu bloggi mínu. Aðallega til að ná sæmilegri lengd á hverjum degi. Finnst að lesendur míni eigi það skilið en veit samt ekkert um hvort þeir kæra sig um það.

Ég fer alltaf svolítið í kross þegar ég sé og heyri minnst á spilið fimbulfamb. Það er nefnilega alveg fyrir hendi að kalla bloggið mitt fimbulfamb. Í hugum flestra er það samt eitthvað neikvætt (eða óskiljanlegt) og auðvitað vil ég ekki að bloggið mitt sé það. Sjálfum finnst mér það jákvæðara en flest annað.

Ég sem ætlaði að skrifa um fyrirsagnir. Sé núna að það hefur alveg farist fyrir. Geri það bara seinna.

Hér gekk heilmikið á í dag. Stórfjölskyldusammenkomst þar sem jólaföndrað var af miklum móð.

Svo skilst mér að Einar Farestveit sé farinn í sveit.

IMG 3767Fossvogur.


1207 - Ofurlítið ofurblogg - a la Svanur Gísli

Hef svolitlar áhyggjur af því að ég er sennilega lítið að bæta mig sem bloggari. Verð að segja það (með grátstafinn í kverkunum og rödd Steingríms Hermannssonar, ef vill). Lesendum mínum fjölgar a.m.k. mjög lítið. Sjálfum finnst mér ég sífellt vera að skána. Kannski eru vinsældir bloggsins yfirhöfuð að minnka og bara gott hjá mér að halda nokkurn vegin sjó. 

Auðvitað fyndist mér eðlilegt að blogg mitt yrði sífellt vinsælla og vinsælla en get samt ekki annað en verið ánægður. Man vel eftir þeim tíma þegar ég var að berjast við að fá svona 10 til 20 lesendur á dag. En ég gafst ekki upp. Hélt mínu striki og böðlaðist áfram.

Það er engin furða þó Sigurður Þór láti vel af fésbókinni. Kalli hana jafnvel fasbók (prúð og frjálsleg í fasi, fram nú allir í röð). Það er sama hvað hann skrifar á vegginn sinn hann fær alltaf einhver viðbrögð. Loksins er ég búinn að fatta útaf hverju það er. Fésbókin hentar nefnilega ágætlega ef menn taka sérstöku ástfóstri við ákveðna veggi. Nú er ég farinn að skrifa á vegginn hjá Sigurði (öðru hvoru a.m.k.) og bið lesendur mína að athuga það.

Fyrir allmörgum árum las ég viðtal í einhverju blaði við Ólaf Þórðarson úr Ríó-tríói sem nú liggur þungt haldinn á Borgarspítalanum. Hann hafði þá ekki alls fyrir löngu misst konuna sína og sagði frá því hversu mikil áhrif það hefði haft á sig að halda henni í örmum sér þegar hún dó. Af einhverjum ástæðum sem hugsanlega eru að meira leyti frá skrásetjaranum komin en Ólafi sjálfum er þessi frásögn af dauðanum ein sterkasta minningin um hann sem ég á.

Mér er þessi frásögn eflaust minnisstæðari en ella vegna þess að ég var talsvert mikill aðdáandi Ríó-tríósins meðan það var og hét.

Allt (eða a.m.k. flest) á sér sínar eðlilegu skýringar jafnvel þó manni þyki þær með afbrigðum asnalegar í fyrstu. Hér dettur mér í hug málið með bókina hennar Jónínu Ben. Það getur alveg átt sér sínar eðlegu skýringar að reynt skuli að selja bókina hennar eingöngu og án skilaréttar á bensínsölustöðum en auðvitað býður það heim allskyns ódýrum bröndurum. Það er reyndar einhver önnur bók undir sömu sök seld minnir mig endilega, en get bara ómögulega munað í augnablikinu hver hún er. Þetta er nýjung í bóksölu og alveg hugsanlegt að hún gangi upp.

Man að á sínum tíma voru menn ekki par hrifnir af því að stórmarkaðarnir væru að selja jólabækurnar. Nú er þetta orðið næstum eðlilegt. Minnir að það hafi verið bókabúð Árbæjar (undir stjórn konu sem ég hafði unnið með og var listdansari) sem fann upp á því að bjóða hangikjöt með hverri bók og það þótti fjölmiðlum fyndið. Bóksala er samt ekkert endilega fyndin.

Ríkisútvarpið virðist hafa tekið sig svolítið á í sambandi við stjórnlagaþingið. Held að frambjóðendur flestir hafi sameinast um að átelja það fyrir að reyna að þegja þetta þing í hel.

Veit ekki hverjir geta verið fyrirfram á móti þessari tilraun enda viðurkenna það fáir. Samt sem áður er verið að reyna að telja fólki trú um að það sé svo flókið og viðurhlutamikið að nýta kosningarétt sinn að þessu sinni að best sé að sitja heima.

Það finnst mér rangt. Ég á mér ekki margar óskir heitari einmitt nú en að kjörsóknin um næstu helgi verði góð. Jafnvel mjög góð. Eiginlega finnst mér það skipta meira máli að kjörsóknin verði góð en það hverjir kosnir verða.

Það er engin ástæða til að sniðganga þessar kosningar og eiginlega engin afsökun fyrir því að kjósa ekki. Mér finnst að kjörsóknin ætti að vera meiri að þessu sinni en algengast er í alþingiskosningum og samkvæmt því sem ég las einhvers staðar þarf hún ekki að verða nema 62% til að ná eða fara fram úr þjóðaratkvæðagreiðslunni.

Ekki höfðu óánægðu VG-liðarnir erindi sem erfiði. Við því er lítið að gera fyrir þá, en mér finnst lítið leggjast fyrir þá kappa sem allt í einu láta núna eins og sigur hafi unnist en ekki auðmýkjandi tap.

IMG 3760Held að hér sé ekki bannað að taka myndir. A.m.k. er ég ekki hundur.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband