Bloggfærslur mánaðarins, janúar 2010

919 - Blogg og þó ekki blogg

Gekk ágætlega að setja á Moggabloggið pistilinn minn um daginn. Þessi verður ekki langur. Gott að hvíla sig á þessum ósköpum.

 

Heyri aðallega Haiti-fréttir þessa dagana. Icesave er orðið skelfing leiðinlegt. Spánverjinn sem ég hitti á Tirajana-götu um daginn súmmaði þetta eiginlega ágætlega upp þegar hann sagði:

„Heard they stole all your money"

Hann fór reyndar ekkert nánar útí hverjir þessir „they" voru enda er það eflaust álitamál hjá mörgum hverja beri að telja með þeim. Sameiginlegt hjá almenningi erlendis finnst mér vera að okkur Íslendingum er vorkennt að hafa lent í þessum andskotum sem stálu peningunum okkar.

Fréttir frá Íslandi eru þannig núna að fæst orð hafa minnsta ábyrgð. Eina sem öruggt virðist er að þjóðaratkvæðagreiðslan verður líklega haldin. Hvort ríkisstjórnin lafir, Alþingi kemur saman, skýrslan góða birtist einhverntíma eða ekki og önnur slík smáatriði fara bara einhvern veginn. Ég nenni varla að kommenta á þetta.


918 - Bara að láta vita að ég sé ekkert hættur að blogga

Já, ég hef ekki bloggað lengi. Enda er ekki margt um að fjalla. Kem bráðum úr fríi og þá blogga ég líklega meira. Kannski ekki þó. Kannski verð ég afhuga bloggveseninu eftir svona ítarlegt bloggfrí. Kemur bara í ljós. Er ekki á Netinu nema afar sjaldan um þessar mundir og nenni ekki að útbúa blogg þó það væri auðvelt.

Nokkrar hugsanir um Icesave eru enn á sveimi í kollinum á mér þó ég viti ekki almennilega hvar það mál er statt núna. Meðal íslenskra bloggara er það líklega enn mál málanna.

Lagalega séð.

Get ómögulega komið auga á annað en lagakrókar okkar séu einskis virði. Vel getur verið að efast megi um hvernig eigi að borga og reikna út vexti og þessháttar. Um það má eflaust lengi deila. Lagalega spurningin um hvort okkur beri að borga eða ekki hefur aldrei verið neitt vafamál í mínum huga. Mér finnst að okkur beri að borga. Þó allir séu á móti okkur og þó þeir vorkenni okkur kannski er allur réttur hjá andstæðingum okkar og hefur alltaf verið. Auðvitað kúga þeir sterkari þá veikari þegar þeir geta en það er þó aðalatrið í þessu máli. Með aðgerðum okkar og aðgerðarleysi höfum við bakað okkur ábyrgð. Meðal annars með því kjósa yfir okkur óhæfa stjórnendur.

Siðferðislega séð.

Þar finnst mér að endalaust megi deila. Sumum finnst eflaust siðferðislega rétt að við borgum en öðrum alls ekki. Mín siðferðislega tilfinning segir mér að við eigum að borga. Aðrir eru að sjálfsögðu á öðru máli og geta fært mörg og sannfærandi rök fyrir því.

Réttlæti.

Vitanlega er það hrikalega óréttlátt að við skulum þurfa að borga þetta. Réttlátast væri að mínu áliti að sá hluti skuldarinnar sem ekki næst af þeim sem stálu þessum peningum sannanlega yrði skipt jafnt milli skattborgara allra þjóðanna. Með því móti myndi ekki falla sérlega stór hluti á okkur Íslendinga. Jafnvel er hugsanlegt að réttlæta mætti að hlutur hvers Íslendings yrði stærri, jafnvel helmingi stærri, en hvers Breta og Holllendings.

Að svo mæltu er mínum afskiptum af þessu máli lokið. Ég er búinn að fá leið á því og sætti mig við það sem ofaná verður.

 

Þegar hætt verður að fjalla um þetta mál verður aðildin að ESB auðvitað mál málanna. Þar hef ég mótaðar skoðanir einnig en í bloggi er hægt að fjalla um ýmislegt annað og það hef ég hugsað mér að gera. Þessi pistill í pistlaleysi mínu er orðin nógu langur. Eiginlega of langur.


917 - Blaðamannafundur

Ég hef svosem fátt að segja. Mundi sjálfur fara á þennan blaðamannafund ef ég ætti eitthvert erindi. Kem líklega til með að horfa á hann í sjónvarpinu. 

Auðvitað getur forsetinn sagt annaðhvort já eða nei. Svo getur hann líka frestað málinu enn frekar eða komið með nýtt útspil. Það væri það óvæntasta.

Eins og ég hef áður útskýrt á mínu bloggi álít ég að forsetinn horfi fyrst og fremst á þetta mál frá sjónarhorni stjórnskipunar og möguleg eða líkleg áhrif ákvörðunarinnar á hana.


916 - Beðið eftir Bessastaðabóndanum

Ég vil gjarnan líta svo á að Icesave-málið snúist ekki fyrst og fremst um krónur og aura. Ekki heldur um hvort aðrar þjóðir beri virðingu fyrir okkur Íslendingum og vilji leyfa okkur að vera memm. Og ekki ræður það úrslitum um sjálfstæði okkar eða örlög ríkisstjórnarinnar. 

Það hvort Ólafur Ragnar Grímsson undirritar Ísbjargarlögin eða ekki getur samt haft áhrif á stjórnskipan okkar Íslendinga til langs tíma. Undirriti hann lögin er forsetaembættið marklaust og þýðingarlaust í stjórnmálalegu tilliti eins og það var áður en Ólafur varð forseti.

Sameiningartákn þjóðarinnar verður það þegar best lætur. Þannig er það víðast hvar er í löndunum í kringum okkur.  Konungar og forsetar eru þar einkum til skrauts. Framkvæmdavaldið er hjá þinginu og það fer einnig með löggjafarvald.

Neiti hann að undirrita lögin aukast áhrif forsetaembættisins. Hvort svo verður til langframa er óvíst. Þeir sem ákafast biðla til Ólafs nú um að undirrita ekki lögin munu ekki heldur kæra sig um nýtt og breytt stjórnskipulag. Að minnsta kosti á þetta við um stjórnmálaflokkana, þeim vantreysti ég alltaf. Beint lýðræði gæti að vísu skotið rótum þá og auknar líkur væru á stjórnlagaþingi og þjóðaratkvæðagreiðslur gætu orðið algengari en verið hefur.

Þjóðin mænir í ofvæni á Bessastaði þessa dagana. Ætli Grímssyni líki það ekki bara vel?

Hörmulegt er að ekki skuli hafa náðst samstaða um ríkisábyrgðina á Icesave-skuldunum.

Það er varla viðeigandi að vera að tala um ESB núna en ég ætla samt að gera það.

Ég er fylgjandi því að Íslendingar gangi í ESB. Hef lengi verið það og mun ekki breyta um skoðun svo auðveldlega. Niðurstaðan úr samningaviðræðunum um aðild sem væntanlega fara af stað bráðlega skiptir þó vissulega máli. Fæ reyndar ekki séð hvernig ríkisstjórnin ætlar að koma aðildarfrumvarpi gegnum þingið í andstöðu við Steingrím sjálfan.

Hugsanlega þarf ekki að treysta á þingmenn í sambandi við ESB. Kannski er hægt að senda niðurstöðuna úr samningaviðræðunum rakleitt í þjóðaratkvæðagreiðslu. Allmargir virðast telja að þjóðaratkvæðagreiðsla um aðild að ESB verði ekki haldin. Útilokað er að ríkisstjórnin telji sig geta komist upp með að sleppa henni.


915 - Fáein orð um mál málanna

Það er að æra óstöðugan að halda áfram að ræða Icesave hér. Samt ætla ég að minnast á tvennt.

Sé ekki betur en mbl.is og Morgunblaðið hafi skipað sér í sveit með þeim sem umfram allt vilja að Ólafur Ragnar fari eftir þeim áskorunum sem komið hafa fram og undirriti ekki lögin um Icesave-ríkisábyrgðina. Í fyrirsögn á mbl.is segir: „Fjórir stjórnarþingmenn skrifuðu undir." Síðan er viðtal við menn úr Indefense hópnum og sagt nánar frá þessu. Ekki er samt minnst á hverjir þessir 4 þingmenn eru og þessvegna er fréttin ekki nema hálfsögð.

Haft var eftir varaformanni fjárlaganefndar í fréttum á RUV að Ólafur hefði eins og aðrir haft tækifæri til að fylgjast með umræðum um þetta mál og því getað tekið afstöðu strax. Einnig ætti hann að ræða við aðra en talsmenn Indefense hópsins. Þetta finnst mér ómálefnalegt og talsverður auglýsingakeimur af þessu. Ólafur sér hluti sem þetta án þess að vera bent sérstaklega á það.

Ártalið 2010 leggst vel í mig. Einhver sagði að hann mundi áreiðanlega verða fljótur að venjast því að skrifa 2010 í stað 2009. Sem minnir mig á að áður fyrr var heilmikið mál að muna eftir því að skrifa rétt ártal. Nú sjá tölvur um þetta að mestu leyti. Annars er 2010 dálítið vísindaskáldsögulegt ártal.

Reyndar þótti mér árið 2000 alltaf vera í órafjarlægð þegar ég var í skóla. Miðað við þær hugmyndir sem fólk hafði um miðja tuttugustu öldina er mesta furða hve lítið hefur breyst.

Þegar strákarnir mínir fóru í fyrsta skipti til útlanda voru þeir mest hissa á því að göturnar skyldu vera svartar og húsin í útlandinu næstum því eins og húsin hér heima. Í þessu tilfelli var útlandið Glasgow í Skotlandi.

Hefði ég sem skólastrákur átt að spá hvernig Ísland yrði árið 2000 hefði sú spá verið alveg í skýjunum. Eftirá séð er kannski sú framför mest sem orðið hefur í lífskjörum almennt. Tækniframfarirnar eru í raun takmarkaðar að því leyti að hraðinn er afar mismunandi eftir greinum.

Þegar bóndi einn, sem hokrað hafði á einhverju smábýlinu frá því snemma á tuttugustu öld og framundir þá tuttugustu og fyrstu, var spurður að því í hverju allra mestu framfarinrnar hefðu verið fólgnar í hans búskapartíð svaraði hann:

„Það var nú þegar stígvélin komu."


914 - Ólafur Ragnar Grímsson

Menn rugla gjarnan saman forseta og forsetaembætti. Það er eðlilegt. Forsetar sitja venjulega svo lengi að tiltölulega fáir muna eftir öðrum en þeim sem forseti er hverju sinni og ef til vill þeim sem á undan var.

Ólafur Ragnar Grímsson á erfitt með að ákveða sig núna. Ekki vorkenni ég honum það. Hann kom sér sjálfur í þessa stöðu og virðist ekki vera ýkja vinsæll meðal þjóðarinnar.

Líklegast er að hann hagi sér á þann hátt sem pólitísk fortíð hans bendir til og skrifi undir lögin. Geri hann það er hann þar með orðinn áhrifalítill og tilgangslaus forseti. Embættinu er kannski bjargað um sinn en áhrifamáttur forsetans í stórmálum framtíðarinnar er stórlega skertur.

Áhrifaleysi hans sjálfs hefur lítið að segja. Hann mun ekki bjóða sig fram oftar og hefur litlu að tapa. Upphrópanir æsingamanna um borgarastyrjöld og aðrar kárínur eiga ekki mikinn hljómgrunn meðal þjóðarinnar og munu ekki rætast.

Neiti hann að skrifa undir mun hann verða vinsæll hjá mörgum þeirra sem hingað til hafa haft lítið álit á honum en vinátta þeirra mun ekki rista djúpt og þeir munu afneita honum við fyrsta tækifæri.

Líklega segir ríkisstjórnin af sér ef hann skrifar ekki undir. Það er þó alls ekki víst. Hún hefur mörg fleiri úrræði. Hætt er þó við að áfram verði deilt um þetta mál ef svo fer og á einhvern hátt verði hægt að kenna því um að ekki sé mikið gert í öðrum málum.

Alls ekki er fyrirséð hvort, hvenær eða hvernig þjóðaratkvæðagreiðsla muni fara fram ef undirskrift verður neitað. Sigmundi Davíð og Bjarna Benediktssyni mundi kannski líka vel að fiska í því grugguga vatni sem stjórnmálin gætu lent í. Hugsanlegt er að þeim tækist að mynda ríkisstjórn en líklegra er þó að kosningar yrðu fljótlega og þá gæti skipt máli hvar þingrofsrétturinn er. Samkvæmt venju ætti hann að vera hjá forsætisráðherra.

Örleikrit í einum þætti

Persónur: Hann og hún.
Staður og tími: Reykjavík vorra daga.

Hún kemur með konfektskál og otar að honum: Hérna. Fáðu þér konfektmola. Hún Una frænka sendi þetta og ég er að velta því fyrir mér hvort hún hafi búið þetta til sjálf eða keypt það.

Hann: Takk. (stingur einum mola upp í sig annars hugar)

Hún: Hvurslags er þetta maður. Þú átt að bíta í molann en ekki stinga honum upp í þig.
(Hugsar: Hann er eins og hungraður úlfur.)

Hann: Nú, það vissi ég ekki.
(Hugsar: Ekkert má nú. Maður fær ekki einu sinni að borða sitt konfekt eins og manni sýnist.)

Hún: Hvernig á ég þá að komast að því hvort hann er heimatilbúinn eða ekki?

Hann: Mér finnst hann verksmiðjulegur á bragðið.

Hún: Það er nú lítið að marka. Ég verð líklega að fá mér sjálf.

Hann: Já, gerðu það.

Tjaldið fellur.


913 - To blog or not to blog

Q: Af hverju bloggar fólk? 

A: Til að láta ljós sitt skína.

Q: Af hverju vill það láta ljós sitt skína?

A: Það veit ég ekki. Kannski hefur það bara gaman af að skrifa eða er svo miklir besservisserar að því finnst að allir ættu að vera á sömu skoðun og það.

Q: Ekki blogga allir besservisserar, er það?

A: Auðvitað ekki. Sumir þeirra kunna ekki einu sinni að skrifa.

Q: Blogga þá allir besservisserar sem kunna að skrifa?

A: Það held ég ekki.

Q: En eru allir bloggarar besservisserar?

A: Auðvitað ekki.

Q: Er bloggið framtíðin?

A: Annaðhvort það eða eitthvað í líkingu við það. Það er nýtt í veraldarsögunni að allir hafi jöfn tækifæri til að láta í sér heyra. Netið er það afl sem stjórnvöld allsstaðar óttast og reyna að setja hömlur á.

Q: Er bloggari dagsins þá hinn nýji Messías?

A: Á vissan hátt, já. Veröldin verður aldrei söm eftir að Netið opnaðist öllum. Það er erfiðara að setja fólk til hliðar og þegja það í hel.

Q: Hvernig er Moggabloggið frábrugðið öðrum bloggveitum?

A: Það leyfir öllum að blogga og hvetur þá til þess. Fjöldablogg með þeim hætti hefur ekki verið á Íslandi fyrr.

Q: Hefur þá ekki bloggurum fjölgað mikið?

A: Jú, vissulega.

Q: Kannski orðnir of margir?

A: Það held ég ekki.

Q: Enn að fjölga?

A: Það veit ég ekki.

Q: Margir líta niður á bloggið.

A: Já, ég veit það.

Q: Hvernig stendur á því?

A: Það gerir fréttafíklum erfiðara að fylgjast með. Hefðbundnir fjölmiðlar eru mjög á fallanda fæti. Bullið á blogginu er líka alveg óskaplega mikið.

Q: Vinsælustu Moggabloggararnir hafa margir horfið á braut að undanförnu.

A: Já, Þar hefur pólitíkin áhrif.

Q: En þú heldur áfram hér.

A: Já, ég vil ekki láta pólitík hafa áhrif á mitt blogg. Svo er líka mjög gott að blogga hér.

Q: Stjórnendur Moggabloggsins hafa verið ásakaðir um ofsóknir og hafa lokað sumum bloggum.

A: Þeir hafa alveg látið mig í friði. Það er eðlilegt að þeir vilji hafa einhverja stjórn á sínu vefsvæði. Vinsældir mbl.is tryggðu a.m.k. í upphafi talsverðan lestur á sumum bloggum. Seint verða allir sammála um það sem sagt er þar. Held samt að stjórnmál ráði ekki úrslitum hér.

Börn (og unglingar jafnvel líka) hafa feikigaman af öllu sprengiveseni, blysum og flugeldum. Fullorðnir síður. Held að margir sprengi aðallega fyrir krakkana sína og af því að aðrir gera það. Svo er það ágætisafsökun að menn séu að styrkja björgunarsveitirnar með þessu.

Tek í hendina á sjálfum mér um hver áramót og finnst ég spara hellings pening með því að taka ekki þátt í svona vitleysu. Fyrr má nú aldeilis fyrrvera djöfulgangurinn. Er samt ekki frá því að sprengjuæðið hafi staðið skemur yfir nú en þegar verst var á útrásartímanum.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband