Bloggfærslur mánaðarins, október 2017

2661 - Stólaleikurinn mikli

Jæja, þá eru kosningarnar blessunarlega afstaðnar. Hefst þá stólaleikurinn. Á fésbókinni spáði ég því að Katrín Jakobsdóttir mundi sennilega mynda næstu stjórn með Samfylkingunni, Pírötum og Framsóknarflokki og e.t.v. styðjast við Flokk fólksins eða Viðreisn. Nú er ég að mestu fallinn frá þeirri skoðun. Sennilega dreymir Sigurð Inga um að verða þriðja hjólið undir vagni Bjarna og Katrínar. Ekki er samt víst að þau nái saman en vafalaust verður samt reynt að útiloka Sigmund sem mest. Stjórnarmyndunarumboðið er að mestu þýðingarlaust, nema þá til að kanna hug Guðna forseta.

Það sem hér fer á eftir var ég að mestu búinn að skrifa fyrir kosningarnar en til að ná æskilegri lengd á bloggið læt ég það fljóta hér með.

Þó sumum þykji fyndið að tala um exemflokkinn hugsa ég að sá útúrsnúningur verði Sigmundi ekki til trafala. Undarlegt er þó í meira lagi hve margir virðast trúa fagurgala hans. Þetta með að gefa fólki það sem það á nú þegar minnir óþægilega á kennitölusöfnunina sem var einu sinni í tísku. Í Rússlandi skilst mér að þessi aðferð hafi verið reynd (ekki bara í sambandi við banka, heldur einnig ýmislegt annað) og ekki hafi tekist vel til þar.

Eiginlega er ég í mesta vafa um hvort ég eigi að kjósa Píratana eða Samfylkinguna. Þó sumir á blogginu eða fésbókinni tali mjög illa um báða þessa flokka hefur það engin áhrif á mig. Mér finnst þeir vera þeir einu sem til greina koma. Sumir litlu flokkanna gætu þó hentað mér sæmilega en ég tek talsvert mark á skoðanakönnunum og þær hafa viss áhrif á val mitt. En ákvörðum verður að taka. (Á endanum kaus ég Píratana – Ath. – þetta er seinni tíma viðbót.)

Ástæða er til að vona að einhverjir vakni á sunnudagsmorguninn næstkomandi þrátt fyrir að hugsanlega verði ekki útséð um úrslit kosninganna fyrr en talsvert er liðið á nóttina. Þetta segi ég vegna þess að við hjónakornin erum að hugsa um að hafa smáveislu fyrir afkomendur okkar og þeirra nánustu, en við erum bæði nýlega orðin 75 ára. Reyndar er það enginn sérstakur aldur en afsakanlegt er samt að hafa þetta þeim mun þéttara sem nær dregur öldinni.

Þessi veisla tókst ágætlega og

Þetta fann ég á flandri mínu um Internetið á sjálfan kosningadaginn: 

Árni talar einnig um samskipti katta og nagdýra en bogfrimilssýking er einfrumungur sem lifir í músum og breytir hegðun músarinnar, sýkt mús sækir í kattahland og er því að þvælast á svæði sem köttur sækir, kötturinn drepur músina og þá  berst bogfrimilssmitið þeirra á milli. Ef smit berst í mannfólk getur sú sýking valdið breytingu í hegðun fólks.
Konur verða glysgjarnari og lauslátari en karlar verða áhættusæknari og árásárgjarnari.

Árni þessi er sagður vera dýralæknir og ekki er hann sérstakur kattavinur en mér dettur í hug að hann sé Sigmundarvinur. Þetta er ekki sett fram til að fá fólk til að kjósa ekki exemflokkinn enda er kosningadagurinn liðinn.

IMG 0684Einhver mynd.


2660 - Delerað um allan fjandann

Þegar líður að kosningum verður sífellt erfiðara að komast hjá því að leiða hugann að þeim. Af hverju er Sjálfstæðisflokkurinn svona stór? Vinsælt er hjá andstæðingum hans að setja það í samband við gáfnafar stuðningsmannanna. Það held ég að sé alls ekki rétt og að samskonar spurningum sé vel hægt að velta fyrir sér í sambandi við Vinstri Græna og jafnvel fleiri. A.m.k. núna. Málefnin skipta ekki sköpum hjá öllum. Þó er hægt að gera ráð fyrir að þau hafi mismunandi áhrif á allskyns hópa. Stærð hópanna skiptir þá miklu máli. Vaninn gerir það líka. A.m.k. hjá þeim sem eldri eru.

Upphaflega spurningin hjá mér var sú að ég vildi vita af hverju Sjálfstæðisflokkurinn væri svona stór. Svar mitt við þeirri spurningu er á þá leið að þrátt fyrir allt og vegna vanans held ég að kjósendur hans álíti að flokkurinn sé skárri en flestir aðrir og þessvegna sé rétt að halda áfram að kjósa hann. Þetta held ég að sé stærsta ástæðan fyrir þessum ósköpum. Þar að auki er allra hluta vegna betra að vera í sigurliðinu og skv. skoðanakönnunum verður sá flokkur stærstur á þingi og heldur kannski völdum sínum.

Kannski verða breytingarnar alls ekki svo miklar í komandi kosningum. Litlu flokkarnir eiga samkvæmt skoðanakönnunum í verulegum erfiðleikum og ástæðan fyrir því að Björt Framtíð þurrkast sennilega út núna er líklega sú að kjósendur hennar hafa mögulega haldið að þeir væru að kjósa til vinstri í síðustu kosningum og eru núna að leiðrétta það.

Hvernig finnst ykkur alskeggið á David Letterman? Einu sinni var hann ofboðslega frægur. En ekki lengur. Fyndinn var hann og hafði sérstakan þátt í amríska sjónvarpinu á hverju kvöldi. Eitthvað yfir sex þúsund þáttum stjórnaði hann í það heila. Held að hann hafi tekið við af einhverjum sem var með daglegan þátt og farið framúr honum fyrir rest. Sennilega byrjaði hann ekki að safna skeggi fyrr en hann var hættur sem þáttarstjórnandi.

„Sjaldan lýgur almannarómur“, var einu sinni sagt og gott ef það þótti ekki nokkur sannleikur fólginn í því. Nú á tímum fésbókarinnar og við sífellda fækkun leyndarmála, er alls ekki víst að þetta eigi við í sama mæli og áður. A.m.k. vilja stjórnmálamenn eflaust alls ekki fallast á þetta. Þar eru líka hagsmunirnir greinilegir. Þegar blandast saman peningar og þessi svokallaði almannarómur, getur orðið til banvæn blanda sem mönnum eins og mér finnst hagstæðast að hafa sem minnst áhrif á og afskipti af. Tala nú ekki um ef pólitík blandast í allt saman.

„Svona eiga sýslumenn að vera“, var líka einu sinni sagt. Sennilega átti það að vera jákvætt en samt er ekki víst að það eigi við í dag. Mér finnst þessir sýslumenn yfirleitt vera til óþurftar þó einu sinni hafi þeir ásamt prestum verið þeir fulltrúar ríkisvaldsins sem flestir báru óttablandna virðinu fyrir. Ef þeir eru ekki að úthluta 53 milljónum krónum til misyndismanna sem helst vilja svindla sem mest á opinberum aðilum (semsagt okkur) eða seta lögbönn hist og her þá eru þeir að gefa undirmönnum sínum ordrur um að falsa gerninga sem þeir eiga að passa. Þetta segi ég afþví ég er nýbúinn að fá endurnýjað ökuskírteini hjá sýslumanninum hér á Akranesi og ekki getur hann tekið það til baka. Þessvegna er mér nefnilega óhætt að tala illa um þá.

Skelfing les ég vitlaust stundum. Mér sýndist ég sjá einhversstaðar í dagblaðsfyrirsögn að SA gagnrýndi harðlega sólkerfið. SA stendur væntanlega fyrir samtök atvinnulífsins og vafalaust eru þau ekki að gagnrýna sólkerfið heldur líklega eitthvað annað kerfi. T.d. skólakerfið.

IMG 0716Einhver mynd.


2659 - Áfengi og trúmál

Vísindin og tæknin hafa til þess fundið ráð
að taka upp ræður þingmanna á fínan segulþráð.

Var einu sinni kveðið. Gott ef þetta birtist ekki á sínum tíma í Speglinum sáluga. Um þetta má að sjálfsögðu margt segja. Gott ef ekki blogga líka.

Við erum sífellt að verða meiri og meiri þrælar tækninnar og á endanum mun hún drepa okkur öll. Þó það sé að vísu bannað að pissa á bakvið hurð, þá er ekki þar með sagt að fullorðna fólkið sé eins vitlaust og unglingarnir vilja vera láta. Börnin og unglingarnir eiga samt eftir að erfa landið og þó viss íhaldssemi sé kannski ágæt þá skulum við gera okkur grein fyrir því að einmitt með því að aðlaga skoðanir sínar svolítið að raunveruleikanum, þá munu þessar skoðanir móta framtíðina. Þetta er mín bjargfasta skoðun og ekkert fær henni breytt.  

Viss íhaldssemi og gamaldags hugsunarháttur, jafnvel fortíðarhyggja, er samt af því góða. Hugsanlega er flokkafjöldinn í komandi kosningum hraustleikamerki. Bara til þess að auðvelda stjórnmálfólki að flækja málin og gera sem best við sig og sína, er engin ástæða til þess að banna fólki að bjóða sig fram til þjónustu eða að moka peningum frá almenningi í þá sem komast yfir einhvern ákveðinn þröskuld í þessum málum. Fésbókarfólkið er ekkert verra en annað fólk. Með því að þykjast yfir fésbókina hafið heldur hin tegundin af góða fólkinu að það sé eitthvað betra. Allt er þetta tómur misskilningur. Jafnvel innhringjendur á Útvarpi Sögu meina vel og vilja í rauninni allt fyrir alla gera.

Vissu jafnvægi í völdum milli stjórnvalda og almennings er nauðsynlegt að halda. Í flestum löndum er það lýðræðið sem viðheldur þessu. Auðvelt er samt að ganga of langt í aðra hvora áttina og vissulega hefur það verið gert. Annars ætti ástandið í veröldinni ekki að koma mér mikið við því ég er á leiðinni útúr þessum heimi. Hvað tekur við er ómögulegt að vita. Ekki ætla ég mér þó þá dul að fara að ræða eilífðarmálin á þessu vesalings bloggi, svo það er sennilega við hæfi að taka upp léttara hjal.

Enn er rifist um það hvort hleypa eigi brennivíni í búðir. Að einkavæða áfengissölu er skilvirkasta leiðin til að auka áfengisneyslu. Tvískinnungur er líka slæmur í þessu tilviki sem öðrum. Eftir því sem víða er haldið fram er léttvín og fleira áfengi selt í búðum sem reknar eru í samkrulli við veitingastaði. Auðvitað er þetta gert túristanna vegna. Aðhlátur þeirra er afleitur. Ekki er samt með öllu hægt að komast hjá því að íslenskar fyllibyttur komist að þessu á endanum.

Margt og mikið er hægt um áfengismálin að segja. Flestir hafa mótaðar skoðanir á þeim málum ekki síður en eilífðarmálunum. Áfengið og fíkniefnin eru vandamál sem aldrei verður komist hjá að taka afstöðu til. Álit sitt að stjórnmálunum eru flestir tilbúnir að ræða en áfengismálin og eilífðarmálin fara ekki eftir flokkslínum. Peningar eru það sem hreyfir við flestum.

IMG 0743Einhver mynd.


2658 - Kosningar o.fl.

Mikið er fjasað um svissnesku leiðina svokölluðu í aðdraganda kosninganna. Hún á víst að vera allra meina bót. Hvernig er annars þessi svissneska leið? Mér skilst að hún snúist í aðalatriðum um það að þeir sem njóti hennar geti tekið út sinn lífeyrissparnað og sett hann í útborgun við íbúðar eða húsakaup. Hvort þetta verður til þess að eftirlaun lækka hjá öllum eða bara þeim sem gera þetta veit ég ekki. Svona málum er sífellt verið að breyta og alltaf er verið að leysa einhvern tiltekinn vanda. Einu sinni voru lífeyrissjóðirnir allra meina bók en líklega eru þeir það ekki lengur. Gott ef þeir og verðtryggingin eru ekki orðnir stærsta vandamálið. Ríkið hefur ekki getað stillt sig um að seilast í þá, þó þeir hafi upphaflega átt að vera alveg lausir við slíka afskiptasemi. Einu sinni var skyldusparnaður við lýði og hjálpaði mörgum að eignast sína fyrstu íbúð.

Mér finnst stjórnmálin vera alltof mikið hvít og svört. Það er alltaf hægt að finna fréttir sem styðja fremur en ganga gegn ákveðinni stjórnmálaskoðun. Andstæðingar einhverrar ákveðinnar skoðunar fá ekki eins mikla athygli oft eins of þeir ættu skilið. Í stað þess að sameinast um ákveðin grunngildi og halda þeim að lofti er stjórnmálafólk of upptekið af því að eyðileggja fyrir ímynduðum andstæðingum. Stjórnmál eru leiðinleg og fréttir oftast líka. Kjaftasögur geta hinsvegar verið stórskemmtilegar.

Það besta við lífeyrissjóðina hefur mér alltaf fundist vera tryggingarþáttur þeirra. Lítils virði er að eiga peninga í banka í ellinni, ef maður lifir svo lengur en maður hefur gert ráð fyrir. Auk þess er alltaf reynt að stela peningum í banka. Af ríkisstjórnum eða öðrum. Ef allt er reiknað til peninga er ellin lítils virði.

Af hverju verða allir svona æstir þegar kosningar eru yfirvofandi? Halda þeir að þeir hafi einhver áhrif? Geta svosem varið atkvæði sínu hvernig sem þeim dettur í hug, en er víst að áhrifin séu meiri? Margir virðast halda að lítið sé að marka skoðanakannanir og allt annað komi uppúr kjörkössunum. Svo er þó ekki. Mönnum gengur ágætlega að þegja. Annars er ekki hundur (eða hundrað) í hættunni þó við kjósum vitlaust. Sennilega getum við leiðrétt það eftir ár. Upplagt er að skipta um ríkisstjórn á eins árs fresti. Þær eru hvort eð er allar ónýtar. Ekki einu sinni ein-nota. Bjarna langar samt til að vera forsætis áfram. Ekki er víst að hann fái það samt. Kannski verður ekki mynduð ný ríkisstjórn fyrr en eftir marga mánuði.

Sjálfstæðismenn á Suðurlandi eru skrýtnir. Ekki nóg með það að vilja endilega kjósa Árna Johnsen á þing aftur eftir fangelsisdvölina (æran ósnertanlega). Mér sýnist sjálfur þingforsetinn hún Unnur Brá vera í fjórða sæti á listanum þeirra á eftir þremur köllum. Meira að segja langt á eftir Ásmundi sjálfum.

Nú er talið að skáldið Pablo Neruda sem var vinur og félagi Salvatore Allende fyrrum forseta Chile hafi ekki dáið úr krabbameini eins og látið var í veðri vaka. Heldur að eitrað hafi verið fyrir honum. Árið 2013 var víst lík hans grafið upp og tekið sýni úr því. Þetta með Neruda sá ég einhversstaðar á Netinu. Það var samt ekki fyrr en núna áðan sem ég gaf mér tíma til að lesa fyrirsagnirnar í Fréttablaðinu frá í gær. Þetta með helvítis aðkomufólkið á Akureyri sem á að fá sérstaka verðskrá er að mínu mati nákvælega sama fyrirbrigðið og flóttamannaandúðin sem Ásmundur og fleiri mikla fyrir sér.

IMG 0364Einhver mynd.


2657 - Enn um stjórnmál og kosningar (en ekki hvað?)

Sennilega er þetta Weinstein-mál mikilvægara en margir héldu. Ég hafði t.d. ekki frétt neitt af völdum hans og áhrifum, enda er ég enginn sérstakur Hollywood aðdáandi. Af hverju risu engir upp þegar Trump var í raun og veru afhjúpaður sem nokkurskonar Weinstein? Kannski Weinstein sé Demókrati og hægt sé að kenna Trump um þetta eins og flest annað sem miður fer.

Sennilega er ég um það bil að ná því að verða orðlagður „gamalmennabloggari“ Það virðist vera sama hvaða vitleysu ég set hingað inn, lesendur skipta hundruðum. Ekki get ég að þessu gert, en með þessu móti get ég líklega sannfært marga um að ég er ekki alveg að verða „alshæmernum“ að bráð eins og sumir sem aldraðir eru. Samt er það svo að kosningar þær sem yfirvofandi eru heilla mig ekkert sérstaklega. Lögbönn og annar æsingur skiptir þar engu máli.

Ríkisstjórn sú sem nú er á síðasta snúningi gerði mér svosem ekkert, en hún hefði að sjálfsögðu getað verið ýmsum hagstæðari. Eiginlega er mér svosem sama hvort stjórn sú sem tekur bráðlega við (vonandi) verður til hægri eða vinstri. Sennilega kýs ég samt frekar til vinstri. Jafvel píratana eins og ég hef gert að undanförnu.

Mér virðist að tap Sjálfstæðisflokksins verði allmikið að þessu sinni og VG verði talsvert stærri en hann að loknum boðuðum kosningum. A.m.k. virðist sú vera þróunin í skoðanakönnunum, sem oft er talsvert að marka. Samfylkingin er einnig á talsverðri siglingu.

Fyrir mér skiptir mestu máli hver þróunin í stjórnmálum til tiltölulega langs tíma er. Auðvitað eru þeim tímar sem við lifum á mikið breyttir frá því sem var þegar ég var upp mitt besta. Mér finnst hægri stefnan snúast mest um að nálgast Bandaríkin sem mest. Vinstri stefna hér á landi finnst mér hins vegar stefna í sömu eða svipaða átt og Norðurlöndin og Evrópa yfirleitt stefnir meira í. Sú pólitíska stefna hugnast mér að flestu leyti betur. Líklega hefur Jón Baldvin komið þeirri hugsun inn hjá mér. Sennilega er ég krati í mínu innsta eðli, jafnvel hægri krati. Veit það eiginlega ekki.

Hef ekki náð því ennþá að blogga á fésbókinni eins og sumir gera. Þó hef ég svosem reynt það, en gallinn er sá að ég skil hana ekki almennilega. Sumt sem þar fer fram er greinilega fyrir ofan (eða neðan) minn skilning. Enda er hann ekki lengur sá sami og áður var.

Ef engin stjórnmál væri um að ræða og engin fésbók til, yrði ég líklega að hætta að blogga því þá hefði ég ekkert til að agnúast útí. Ég er bara svona. Breytist kannski með tímanum, en ekki verulega.

IMG 0748Einhver mynd.


2656 - Um feðraveldið o.fl.

Er feðraveldið eitthvað að bila? Eftir Hollywood fréttum að dæma gæti svo verið. Þetta Weinstein-mál er eflaust partur af því. Það hefur lengi verið vitað að ætlast væri til þess að konur (frægar leikkonur sem aðrar) svæfu hjá yfirmönnum sínum til að komast eitthvað áfram. Líklega hefur þetta viðgendist í meira mæli í Hollywood en víðast annarsstaðar. Mér finnst ekki að íslenskir fjölmiðlar þurfi að velta sér uppúr þessu máli þó þeir bandarísku geri það. En safaríkustu kjaftasögurnar hafa löngum snúist um hver sofi hjá hverjum o.s.frv. Kannski er jafnréttið hjá okkur Íslendingum komið lengra en hjá sumum öðrum.

Sagt er að konur séu konum verstar þegar kemur að feðraveldismálum. En að karlar þurfi endilega að vera feministar til að fría sig frá feðraveldinu finnst mér fulllangt gengið. Að vera hvítur miðaldra karlmaður hefur löngum verið vinsælt skammaryrði hjá sumum (jafnvel allmörgum) Bandaríkjamönnum og að horfa á allt í veröldinni með kynjagleraugum finnst mér rangt. Það er ekki svo að allt í veröldinni stjórnist að kyhvötinni einni saman, þó hún sé vissulega sterk hjá mörgum.

Ef þú ættir heima í Norður-Kóreu væri líklega höfuðglæpur að ruglast á Kimilsung, Kinjongil og Kimjongun. Hvað óvini þeirra snertir, virðist beinlínis ætlast til að þeir ruglist á þessu Kim-tali öllu saman. Myndasíða er til á internetinu sem heitir: Kim-Jong-Un horfir á hitt og þetta (kimjongunlookingatthings.com) og þar má sjá hinn ástæla leiðtoga líta á ýmsa hluti. Heilaþvotturinn virðist vera ansi almennur í þessu lokaða ríki og ég veit að sjálfsögðu minnst um það. Óvinir ríkisins eru alltumkring.

Ef maður gæti alltaf séð hvað aðrir eru að hugsa um, er ég hræddur um að ýmislegt miður fallegt mundi koma í ljós. Sumt gæti þó jafnvel verið fallegra en maður ætti von á. Engin leið er að fullyrða nokkuð um það. Vel má samt gera ráð fyrir því að það sem menn (og konur) láta frá sér fara í rituðu eða töluðu máli sé í sæmilegu samræmi við hugmyndir annarra um viðkomandi. Í pólitík er þetta þó dálítið beggja blands því oft verða menn að tala (eða rita) þvert um hug sér til að þóknast þeim sem valdið hafa (eða þykjast hafa). Tryggileg spilling og þöggun finnst stjórnendum gulls ígildi. Þeir sem hingað til hafa ekki komist til metorða í sínum flokkum hyllast oft til þess að stökkva á næsta vagn. Þó held ég að Gandri hafi e.t.v. verið í alvöru tregur til að fara í framboð. Þó er ekki víst að hann verði neitt betri en aðrir þegar á reynir.

Eiginlega er Steingrímur Jóhann að verða eilífur augnakarl í íslenskum stjórnmálum. Sennilega er hann að bíða eftir því að verða gerður að sendiherra einhversstaðar, en kannski er hann búinn að missa af strætisvagninum hvað það snertir. Á sínum tíma vildi hann frekar vera stór fiskur í lítilli tjörn en lítill fiskur í stórri tjörn. Nú er litla tjörnin orðin stærri en sú stóra var áður og þá getur hann ekki hætt. Katrín (með flírulega brosið sitt) Jakobsdóttir er kannski ágætur formaður en hún yrði að mínu áliti langtum betri ef hún losaði sig við Steingrím. Kannski er ekkert síður flokkseigendafélag hjá VG en öðrum. Álit mitt á píratanum Helga Hrafni fer sívaxandi. Sennilega gat hann ekki lengur starfað með Birgittu og hætti þessvegna í fyrra. Annars nenni ég ekki að eyða tímanum í að velta fyrir mér íslenskum stjórnmálum og læt þetta duga. En neikvæður er ég og stjórnmálin ósköp þreytandi.

IMG 0790Einhver mynd.


2655 - Svo lengist lærið sem lífið

Auðvitað veit ég ósköp vel að þetta er bara afbökun á þeim gamla og góða málshætti: svo lengi lærir sem lifir. Ég er nú orðinn 75 ára og skammast mín ekkert fyrir að ég skuli enn vera að læra eitthvað nýtt. T.d. er ég mjög upptekinn af því nú um þessar mundir að hugsanlega hafi líkamsklukkan svonefnda meiri áhrif en ég hef hingað til haldið. Allar mannverur eru líklega þannig gerðar að við dagsbirtu eru þær best upplagðar.

Hér á norðurslóðum berjumst við fyrir því að börn og unglingar taka meira mark á vélrænum klukkum en líkamlegum og tekst það sæmilega. Þegar ellin sækir að eykst þörfin fyrir að fylgja birtunni. Þetta finn ég t.d. á því að ég vil fremur fara út að ganga eftir að birtir og það veldur sífelldum breytingum. Þar að auki eru þessi áhrif sennilega mjög mismunandi eftir einstaklingum.

Í dag er föstudagur þrettándi og þó ég hafi fengið tímarit Öryrkjabandalagsins í pósthólfið mitt (eða okkar eins og Áslaug mundi vilja segja) í gær, er ég bara nokkuð brattur.

Sennilega blogga ég alltof mikið þessa dagana. Það er varla hægt að reikna með því að nokkur endist til að lesa alla þessa dellu. Sennilega ætti ég að stefna að því að skrifa mun minna. En það er erfitt að ráða við sig þegar lesendurnir skipta mörgum hundruðum á næstum hverjum einasta degi. Kannski er þetta ekki einu sinni mér að kenna. Kannski get ég bara kennt lesendum mínum um þessi ósköp.

Annars eru kosningar yfivofandi svo pólitísku skrifin er feiknamikil þessa dagana og varla nokkur sem nennir að lesa það allt.

Helena og Benni komu í heimsókn um síðustu helgi. Fyrirferðin í Helenu er orðin talsvert mikil og Benni var ekki lengi að setja hurðirnar á Billy-bókaskápinn og nú er búið að setja ýmislegt dót í hann. Hann er bara býsna flottur. Altsvo bókaskápurinn og Benni reyndar líka.

Undarleg sérviska hjá manni einsog Matthíasi Johannessen að skrifa þannig að hann sleppir orðabilinu ef hann setur punkt eða kommu. Já ég var um daginn að glugga í dagbókarskrifin dauðhreinsuðu og úreltu hjá honum á Netinu. Þá held ég nú að bloggið og fésbókin séu betri. Þar er þó hægt að ganga úrfrá því að skrifin séu nýleg, en ekki bara uppþornaðar heimildir.

IMG 0813Einhver mynd.


2654 - Um væntanlegar kosningar

Ég neita því ekki að ég les einstöku sinnum bloggið hans Páls Vilhjálmssonar. Aftur á móti hef ég aldrei lagst svo lágt að skrifa athugasemd þar. Geri ekki ráð fyrir að hann lesi mitt blogg. Las t.d. rasistabloggið hans um Jesú og Co. um daginn og blöskraði hið rasíska innihald bloggsins. Haldið er fram að þessi maður sé kennari að atvinnu, en það getur ekki verið. Honum mundi aldrei líðast að halda öðru eins fram, ef svo væri.

Ekki er að sjá annað en sumir geri ráð fyrir samstjórn Vinstri Grænna, Pírata og Samfylkingar eftir næstu kosningar. Sumir eru jafnvel farnir að setja saman óskaríkisstjórnir í samræmi við það. Mönnum kemur þó ekki saman um hvort Steingrímur Jóhann eigi að vera í þeirri ríkisstjórn eða ekki. Að mínum dómi er hann dinósár sem nauðsynlegt er að losna við. Hann er búinn að vera við lýði alltof lengi. Ágætur ræðumaður samt. Að sumu leyti er hægt að segja að hann hafi bjargað okkur útúr Hruninu, en líka er hægt að segja að hann hafi selt sálu sína og sé ímynd þeirrar fyrirgreiðslupólitíkur og spillingar sem margir vilja losna við.

Áður en Bjarni Ben. getur reiknað með því að allir öfgahægrimennirnir kjósi hann, verður hann að sýns okkur hve þjóðlegur hann er með því að sannfæra okkur um að hann sé eins listfengur í laufabrauðsskurði og í kökuskreytingum. Þetta held ég að Bjarni verði að gera til að koma í veg fyrir ofannefnda ríkisstjórn. Það dugir ekki að reyna að hræða kjósendur með óljósu tali um einhverja vinstri stjórn.

Fyrir utan fjölþjóðafyrirtækin sem stjórna flesum ríkisstjórnum heimsins held ég að það sé ofurvald peninganna sem er hættulegast veru okkar á þessari jörð. Eins og er getum við ekki farið neitt annað. Sá möguleiki kann þó að opnast fyrr en varir og barnabörn okkar eða næsti ættliður á eftir þeim verður sennilega tilbúinn til að fara út í geiminn og reyna fyrir sér þar.

Að mörgu leyti haga íslenskir fjölmiðlar sér eins og aðrir slíkir. Amerískir miðlar eru enn að velta sér uppúr skotárásinni í Las Vegas. Þeir íslensku haga sér svipað ef eitthvað bitastætt að þeirra mati á sér stað hérlendis. Gallinn er bara sá að forhollin eru svo lítil hér að blessuðum blaðamönnunum dettur fátt í hug og gera svo margar vitleysur að þeir verða alltaf eftirbátar heimsblaðanna þegar stóratburðir gerast. T.d. er mest af því sem skrifað er um Norður-Kóreu hráar þýðingar úr amrískum fjölmiðlum. Verst að ekki er fremur þýtt úr vönduðum blöðum en óvönduðum.

IMG 0870Einhver mynd.


2653 - Jón Gunnarsson gerir grein

Einhvern greinargerðarfjára las ég nýlega á netinu. Eitt var það í þessari greinargerð sem stakk mig óþægilega. Þar stóð meðal annars: „Innheimta veggjalda hefjist um svipað leyti og framkvæmdir hefjist.

Þetta finnst mér alveg fráleitt. Eigum við semsagt að fara að borga veggjöld í staðinn fyrir loforð og lygi stjórnmálamanna. Að mínum dómi verður þetta til þess eins að vegabæturnar verða aldrei framkvæmdar. Í fyrsta lagi finnst mér koma til greina að borga veggjald þegar búið er að leggja veginn. Alls ekki fyrr, undir neinum kringumstæðum. Ekki gerðum við það varðandi Hvalfjarðargöngin.

Eins og vanalega í undirbúningi kosninga er reynt að koma höggi á Bjarna Benediktsson. Kannski tekst það í þetta sinn. Afrek Bjarna er einkum það að þó hann hafi staðið fyrir fækkun kjósenda flokksins um 50% eða meira og flokksbrot hafi klofið sig frá honum hefur honum tekist að halda væntanlegum formannsframbjóðendum í hæfilegri fjarlægð. Við stjórn landsins og eigin mála hefur honum hinsvegar gengið afleitlega. Formennska hans í flokknum er samt ekki í neinni hættu. Annars eru þetta að sumu leyti forvitnilegar kosningar. Einkum vegna flokkafjöldans.  

Stjórnmálamenn vinna greinilega eftir spakmælinu: „Ef þú ert dauður þá ertu ekki veikur lengur.“ Læt ég svo lokið kosningaspeglasjónum að þessu sinni.

Eiginlega er ekkert farið að kólna að ráði þó talsvert sé komið fram í október. Satt að segja blöskrar mér samt hvað fésbókin er notuð og misnotuð í þessum fjandans kosningaaðdraganda. Ætli sé ekki best að fara bara í fésbókarbindindi framyfir kosningar. Sem betur fer er bloggið komið það mikið úr tísku að hér er næstum því óhætt að vera.

Annars er sennilega best að senda þetta bara rakleitt út í eterinn. Þetta er nefnilega uppfullt af kosningaspekúlasjónum. Eins og versta fésbókarinnlegg. Eru allir búnir að gleyma Trump, eða hvað?

IMG 0893Einhver mynd.

 


2652 - Um kökuskreytingar

Sumar vísur eru þannig gerðar að þær taka sér bólfestu strax í hugskoti manns og fara ekkert þaðan. Svo dúkka þær upp þegar minnst vonum varir. Þannig er það t.d. með þessa:

Dalahalur háu nærri fjalli
hreinn og beinn í háttum var
hlýr og skýr í spjalli.

Þetta minnir mig að hafi verið ort um Sveinbjörn Beinteinsson. Ég var svo heppinn að kynnast honum smávegis. Bjarna Valtý þekkti ég hinsvegar vel. Þeir voru kunningjar og líklega Sölvar Helgasynir okkar tíma á margan hátt. Látum svo útrætt um þá.

Kosningar fara misjafnlega í menn. Ég minnist þess að hafa einu sinni á kosningadagsmorgni hitt Helga á Hrafnkelsstöðum. Hann gat auðvitað ekki um annað en kosningar hugsað, en mér hefur alltaf hálfleiðst þær. Í óspurðum fréttum sagði hann mér að þetta væri í fyrsta skipti á ævinni sem hann væri á kosningadag í Reykjavík. Biðum báðir eftir strætó á Lynghaganum þegar þetta var.

Bjarni Ben. er sagður ansi lunkinn við að skreyta kökur. Kannski hann leggi það bara fyrir sig. Mér finnst þó líklegra að hann stundi annars konar skreytni. Finnst hann hafa gert það. Stundum lýgur hann með þögninni. Sú lygi er ekki barnanna best. Stundum leggur hann áherslu á það sem kemur honum og Sjálfgræðisflokknum best, en þegir þunnu hljóði um annað.

Finnst það svolítið gráglettið að halda því fram að Sjallar og VG séu andstæðir pólar um flest. Finnst þeir eimitt vera sammála um ákaflega margt. Samstarf þeirra er það versta sem gæti komið fyrir íslenska þjóð að loknum kosningum. Það yrði sú mesta íhaldsstjórn sem sögur fara af. Ekkert er betur fallið til þess að tryggja áframhaldandi þjófnaði íhalds og hagsmunaaflanna.

Frelsið sem fylgir því að vera hættur að vinna er svosem ágætt. Maður þarf þá ekki að óttast að manni verði sagt upp vinnunni. Mikið má eflaust ganga á áður en maður verður sviftur þeirri hungurlús sem elli og eftirlaun kallast. Mín tilfinning er sú að þó sé hægt að komast af á þeirri hungurlús ef ekki þarf að borga neina húsaleigu eða þessháttar. Hart er það engu að síður að hafa stritað allt sitt líf til þess eins að komast af í ellinni.

Hvað er það sem hefur ekkert skott og enga fætur en fer þó með ofsahraða yfir land og sjó?
- Nú, auðvitað vindur sem er að flýta sér.

Auðvitað voru það mistök hjá spænsku ríkisstjórninni að taka svona hart á katalónum. Þetta er auðvelt að sjá eftirá. Tækifærið til að leiðrétta þessi mistök var heldur ekki notað. Það hefði kóngsi getað notfært sér. Hann hefði getað slegið sér verulega upp ef hann hefði ekki verið svona grimmur og ósveiganlegur. Nú er þetta orðið að stórmáli, sem hefði verið vel verið hægt að koma í veg fyrir með venjulegu snakki.

IMG 0900Einhver mynd.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband