Bloggfærslur mánaðarins, ágúst 2022

3147 - Blogg

Einu sinni bloggaði ég daglega. Ekki veit ég hvernig ég fór að því. Staðreynd er engu að síður að það gerði ég. Þó ég hafi bloggað áður í dag er ekki þar með sagt að ég hafi eitthvað að segja núna.

Hörður er dáinn og fimmtudaginn 11. ágúst næstkomandi mun ég væntanlega fara til Hveragerðis. Einhverntíma mun röðin sjálfsagt koma að mér, en hugsum sem minnst um það.

Ég gæti náttúrulega vísað í gömul blogg eins og sumir gera. Það væri samt hálfgert svindl. Einhver af þessum rúmlega þrjúþúsund bloggum mínum hljóta þó að vera sæmileg.

Nú orðið hugsa ég mest um að hafa bloggin sem styst. Áður reyndi maður að hafa bloggin löng og ítarleg. Lesefni allt er orðið svo mikið á netinu, að engum er ætlandi að lesa það allt. Ekki einu sinni það athyglisverðasta.

Það er þar sem svokallaðir „social media“ koma inn. Allt skal vera sem allra styst. Attention spanið er orðið svo stutt hjá flestum að langlokur henta ekki. Sumir (margir) reyna eftir megi að segja sem mest í sem fæstum orðum. Orðin eru oft fá, en um innleggin að öðru leyti er best að lesendur segi sem mest. Sjálfsagt er að nota slettur mikið. A.m.k ef maður er sæmilega sannfærður um að skiljast. Auðvitað skrifar hver og einn fyrir sinn lesendahóp, sem getur verið stór eða lítill eftir atvikum.

Nú get ég sem best sagt Amen eftir efninu, eins og séra Sigvaldi forðum.

IMG 3886Einhver mynd.


3146 - Úrelt hegðun

Sé að ég hef sett sömu myndina á tvö síðustu blogg. Ég sæki alltaf þessar myndir á Moggabloggið og hef tekið þær allar sjálfur, svo ég þarf ekkert að hugsa um höfundarrétt. Talan sem er á undan fyrirsögn allra minna blogga er hlaupandi raðtala þeirra blogga sem ég hef sett á Moggabloggið. Komið hefur fyrir að ég ruglist í því en venjulega er það með því fyrsta sem ég geri þegar ég undirbý næsta blogg. Myndirnar rugla mig frekar því þær sæki ég á Moggabloggið um leið og ég set upp nýtt blogg og endurbirti þær þar. Bloggin sjálf skrifa ég í word og afrita þau svo með ctrl-c og ctrl-v.

Þetta er nú um það. Ég veit ekki hvað ég ætti að blogga um næst. Kettlingurinn sem ég sagði frá um daginn er hér ennþá, en hverfur sennilega á braut í þessari viku. Ekki er víst að ég bloggi meira fyrr en seinni partinn í Ágúst.

Margir eru óstjórnlega gáfaðir þegar rætt er um stríðið í Ukrainu og afleiðingar þess, en ég ætla ekki að hætta mér í þann söng. Auðvitað eru margir sem þekkja betur til í því efni en ég. Ekki er samt víst að þeir sem mest skrifa um þau mál séu þeir sem mest vit hafa á þeim.

Þetta er ágústinnleggið mitt ef ekki reynist verða breyting á blogghegðun minni. Vissulega eru blogg úrelt, en það er ég nú að verða líka.

IMG 3937Einhver mynd.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband