Bloggfærslur mánaðarins, desember 2017

2677 - Hægri söngurinn í Sirrý

Satt að segja er ég trúaðri á það að einhverjir hafi í alvöru gaman af að sprengja flugelda og kosta því til sem þarf og þeir geta talið sér trú um að sé gott verk, en að einhverjir hafi raunverulega ánægju af að borða skötu. Hvorugt hugnast mér. Eiginlega varð ég hálfhneykslaður eitt sinn þegar ég spurðu syni mína hvort þeim þætti meira gaman á gamlárskvöldi en aðfangadagskvöldi. Þeir nefndu nefnilega gamlárskvöld að mig minnir. Kannski hefur það verið nær í tíma og minnisstæðara þessvegna. Annars hef ég ekkert á móti skoteldum en finnst blóðugt að borga stórfé fyrir þennan óþarfa.

Mér finnst að þetta tvennt hafi í gegnum tíðina sparað mér ómældar fjárhæðir. Samt var ég í eina tíð haldinn þeirri firru að ég þyrfti að skjóta upp rakettum eins og aðrir. Aldrei hefur mér þó fundist að ég þyrfti að borða skötu á Þorláksmessu. Er það ekki í raun sjálfspynding af verstu sort? Með því að borða skötu á Þorláksmessu finnst mér fólk vera að búa sér til afsökun fyrir því að borða eins og svín á jólunum að öðru leyti.

Hægri söngurinn í Sirrý. Bakþankar Fréttablaðsins eru venjulega fullir af „selvfölgeligheder“ eins og danskurinn segir. Í laugardagsblaðinu, sem er líklega það síðasta á árinu, bregður þó öðruvísi við. Sirrý Hallgrímsdóttir talar þar einkum og nær eigöngu um Pírata, sem henni er greinilega meinilla við og skorar á þá og aðra að hætta að skrattast í stjórnarskránni sem hún segir alveg ágæta. Einkennilega neikvæð.

Klásúluna hér á undan setti ég á fésbókarsíðuna mína því ég veit ekki nema það dragist úr hömlu að senda þetta blogg út í eterinn og ekki vildi ég láta hjá líða að koma þessu að.

Á árinu sem er að líða máttum við sjá á eftir ýmsum stjörnum eins og gengur. Nóg held ég þó að sé eftir af þeim. Þessar eru að ég held flestallar bandarískar og mér er engin launung á því að ég tíndi þær upp úr grein sem ég fann á netinu: Helmut Khol, Roger Moore, Jerry Lewis, Chuck Berry, Carry Fisher, Fats Domino, John Hurt, Hugh Hefner og Harry Dean Stanton. Eflaust muna aðrir einkum eftir öðrum, en þetta voru þau nöfn sem ég kannaðist vel við.

Ég sný ekki til baka með það að ég álít Trump bandaríkjaforseta fyrst og fremst einangrunarsinna. Hann nýtur mjög lítils stuðnings utan bandaríkjanna. Leiðtogar flestra lýðræðisríka treysta honum illa og flestir útbreiddir fjölmiðlar eru mjög á móti honum. Ef republikanaflokknum gengur sæmilega í kosningum næsta haust er samt alls ekki að vita nema hann sækist eftir endurkjöri. Rússarannsóknin gæti farið út um þúfur og það mundi styrkja hann mjög. Fylgi hans innan bandaríkjanna er talsvert.

Nú um jól og áramót hefur mikið farið fyrir hugheilum kveðjum. Ef það er ekki tekið fram gæti þá skeð að kveðjurnar væru til dæmis hughálfar? Semsagt bara plat. Þetta er umhugsunarefni.

IMG 0265Einhver mynd.


2676 - Bókaskattur

Nú er kominn þriðji í jólum. Búinn að vera hálflasinn alla jólahátíðina. Sennilega hef ég verið að byrja að veikjast á aðfangadagskvöld. Aðallega er þetta kvefpest og ég er ekki lystarlaus og ekki með mikinn hita. Nefrennsli og hálsbólga fylgir þessu og ég veit ekki hvort mér er að batna eða versna. Ef þetta er flensan þá finnst mér hún lengi á leiðinni. Það að ég hef döngun í mér til að blogga er þó góðs viti. Hvernig sem á því stendur eru fleiri núna sem lesa bloggið mitt en vant er.

Það er eðli mannskepnunnar að hugsa mest um eigin hag. Að mörgu leyti má segja að lífið sjálft byggist á þessu. Hver ætti svosem að þekkja okkur og langanir okkar betur en við sjálf. Lífsförunauturinn getur í mesta lagi reynt að setja sig í sporin, en aldrei getur hann greint hugsanir okkar og þrár að öllu leyti. Af hverju er ég að skrifa þetta? Jú, eftir því sem lífið lengist, færist gröfin nær.

En svolítið er nú dapurlegt að vera að hugsa um þetta á sjálfri jólahátíðinni. Hvenær á annars að hugsa um svonalagað? Ekki veit ég það og vil ekki vita. Finnst samt að Íslendingar séu afar lokaðir fyrir öllu þannig löguðu. Dauðann er búið að úthýsa úr þjóðlífinu. Einhverjir græða á því og aðrir tapa eins og gengur. Trúmál í víðum skilningi er þó áhugamál margra. Þökkum Guði (þó ég trúi ekki á hann – eða hana) fyrir að á Íslandi skuli ekki vera einræði. Eiginlega búum við Íslendingar við svo mikið lýðræði og efnalega velsæld að við erum hiklaust meðal heppnustu þjóða í veröldinni. Heimóttskapur okkar og fáfræði er því umhugsunarefni.

Í Danmörku skilst mér að sett hafi verið í lög að ráðherrar megi ekki ljúga. Þeir mega semsagt ekki ljúga að þingmönnum. Annars mega þeir auðvitað ljúga eins og þeir eru langir til. Engin slík lög eru víst hér á ísa köldu landi, enda er slíkt ekki stundað hér nema í miklu hófi. Að hagræða sannleikanum, neita að svara eða afvegaleiða viðmælendur er allt annar hlutur. Óhætt er líka að vera á móti því sem fyrir skemmstu var mælt með enda er bókaskattur allt annað en bókaskattur, eins og allir vita.

IMG 0267Einhver mynd.


2675 - Nóló

Nú er aðfangadagur jóla liðinn. Í gamla daga voru jólin eiginlega búin þegar aðfangadagskvöldi var lokið. Aðalatriðið þegar maður var krakki voru að sjálfsögðu gjafirnar. Ekki voru þær nærri því eins ríkulegar og nútildags. Man að mér þótti það mikill óþarfi að fara til messu strax og búið var að taka upp gjafirnar.

Af einhverjum ástæðum eru bækurnar um Tom Swift mér minnisstæðastar af jólagjöfunum. Held að það hafi verið Sigrún systir mín sem gaf mér þær reglulega um hver jól. „Blámenn og villidýr“, „Hetjur heimavistarskólans“ og „Bókin um manninn“ eru líka eftirminnilegar bækur frá þessum tíma. Ekki svo að skilja að ég hafi fengið þær allar í jólagjöf eins og Tom Swift bækurnar, en þær höfðu veruleg áhrif á bernsku mína ásamt með fjölda annarra bóka að sjálfsögðu. Það var ekki fyrr en seinna sem matur, ýmsir jólasiðir og ýmislegt þessháttar fóru að hafa talsverð áhrif líka.

Held að það hafi verið skömmu fyrir síðustu aldamót sem ég las bók eða frásögn af konu sem fór í ferðalag með öðru fólki og hafði með sér hund. Hundinn kallaði hún því sérstaka nafni: „Sælla er að gefa en þiggja.“ Af hverju hún nefndi hundinn þessu alkunna spakmæli var samferðafólki hennar mikil ráðgáta.

Um svipað leyti fór ég sjálfur í langa gönguferð um Hornstrandir og í minningunni fléttast þessir atburðir á einhvern óskiljanlegan hátt saman. Held jafnvel að þar hafi verið hundur með í för. Um þessi jól finnst mér að ég hafi jafnvel öðlast nýjan skilning á þessari sögu um hundinn.

Allt sem er andstætt Donald Trump Bandaríkjaforseta eða því sem hann þykist vita, segir hann að séu „fake news“. Kannski er hann sjálfur bara gervitromp og að engu hafandi, a.m.k. ekki í öllum spilasögnum. Kannski kann hann ekki einu sinni félagsvist. Kim í Norður-Kóreu gæti jafnvel verið betri en hann í nóló.

Skrýtin jólahugleiðing atarna. En ég er bara svona og get ekkert að því gert.

IMG 0302Einhver mynd.


2674 - Kvennó

Eitt af því allra mikilvægasta sem ellin kennir manni, er að ofgera sér ekki. Maður vill kannski og ætlar að gera allan fjandann, en svo verður kannski minna úr aðgerðum. Best er að hvíla sig sem rækilegast og gera jafnvel minna en þeir sem næst manni standa ætlast til.

Fésbókin er furðuleg
og feikilega spennó.
þar arka þeir sinn æviveg
sem ekki fóru í Kvennó.

Þetta bjó ég til um daginn og setti, að mig minnir á Boðnarmjöð á fésbókinni. Jólakveðjurnar þar og í útvarpinu eru alla að drepa. Allt þetta umstang um fésbókina pirrar mig. Líklega er það fyrst og fremst vegna þess að ég skil hana allsekki. Að sumu leyti finnst mér betra að tala um hana sem persónu. Afskiptasemin þar er á pari við besservisseraháttinn hjá henni blessaðri.

Fór um daginn í heimsókn til fóta-aðgerðafræðings. Það var á ýmsan hátt athyglisverð upplifum. Held ég hafi aldrei gert slíkt áður. Hafa fæturnir áhrif á heilann? Það er heila spurningin. Eða kannski heilaspurningin. Endalaust er hægt að leika sér að orðum. Sumir gera það alveg svikalaust.

Andvökur eru svosem ekki allra. Stundum eru þær þó nauðsylegar til þess að koma jafnvægi á hugarstarfsemina. T.d. á ég stundum í mestu vandræðum með að tjá mig í tali. Skrif eiga betur við mig. Sumir tjá sig í ljósmyndum eða öðrum listum, jafnvel tónlist, en hana skil ég reyndar allsekki.

Einhverntíma setti ég þetta saman og þótti nokkuð gott:

Nú eru jólin að gagna í garð
gaman er núna að lifa.
Af einhverjum lítt kunnum ástæðum varð
enginn mér fyrri að skrifa.
Þetta sem kalla má svolítinn sálm
sumum þó finnist það vera tómt fálm.

Auðvitað er þetta ekkert sérlega jólalegt, en ég hef það mér til afsökunar að ekki eru alveg komin Jól (með stórum staf) þegar þetta er skrifað

Auk þess legg ég til að kjararáði verði falið að ákveða launakjör fanga og bætur öryrkja. Ellimóðu vesalingarnir, sem hljóta að vera nauðalíkir mér, geta átt sig. Geri mér alveg ljóst að þetta er ekkert frumlegt, en einskonar gagnrýni á störf kjararáðs er mjög í tísku um þessar mundir.

IMG 0307Einhver mynd.


2673 - "MeToo"

Sennilega er þetta „MeToo“ mál stærra en flestir (karlmenn) gera sér grein fyrir. Þetta með feðraveldið er ekki neinn orðaleikur. Heldur bláköld alvara. Karlmenn hafa kúgað konur í aldaraðir. Undanfarin ár og áratugi hefur, a.m.k. hér á Vesturlöndum, miðað nokkuð í réttlætisátt og við karlmenn, það er að segja þeir sem ekki eru sekir um að viðhalda þessu, höfum getað huggað okkur við það að kannski sé hægfara þróun best. Kvenfólki finnst það greinilega ekki og við því er ekkert að segja.

Í framtíðinni gæti árið 2017 orðið það ár sem konur (og karlar) minnast sem ársins þegar feðraveldinu var veitt „MeToo“-sárið hræðilega. Vonum það.

Ef maður hefði ekki tölvuna og Internetið til að hugga sig við þegar maður verður óvænt virkilega andvaka þá veit ég ekki hvernig andlega líðanin yrði. Áður fyrr hefur fólk kannski notað bækur á svipaðan hátt. Það versta við þessar andvökur hjá mér er að þær eiga sér einkum og kannski eingöngu stað af hugrænum ástæðum. Heilinn er kannski eitthvað að bila. Kannski liði mér betur ef ég gæti kennt einhverju öðru um. Svo undarlegt sem það er þá er kaffi einhvert besta svefnmeðalið sem ég þekki. Imovan eða Stillnoct vil ég helst ekki taka. Ekki frekar en verkjatöflur. Hinsvegar er ég veikur fyrir plástrum eins og krakkarnir og vil helst setja þá sem víðast.

Aldraðir, sumir a.m.k., hafa lítið annað fyrir stafni á daginn en að fylgjast með fréttum, veðri, tónlist eða öðrum ósköpum. Leiðinlegt er að fréttir virðast vera næstum því óþrjótandi og mest fer það eftir fésbókaráhuga og stjórnmálaskoðunum hvaða fréttir er mest hlustað eða horft á. Sumir lesa helst blogg eða eitthvað þessháttar og sem betur fer hafa sumir (fáeinir) gaman af að skrifa slíkt. Fésbókin er aftur á móti... Æ, ég nenni ekki að fara að fjasa um hana einu sinni enn. Held svei mér þá að Morgunblaðið sé skárra. Læt samt duga að lesa mbl.is stöku sinnum. Það er að segja þegar allt um þrýtur. Það ryðst þó ekki inná mann saklausan eins og dévaffið gerir.

Stundum skrifa ég oft. Stundum sjaldan. Eiginlega er engin regla á þessu. Skrifa að því er mér finnst sjálfum líka oftast nær á þann hátt að ég er ekki eingöngu að bregðast við fréttum. Stundum dettur mér jafnvel eitthvað frumlegt í hug. Ekki er það þó algegnt. Best er að hafa bloggin stutt. Þá eru meir líkur á að þau séu lesin til enda. Kannski þetta sé bara að verða nógu langt að þessu sinni.

Auðvitað á Sigríður Andersen að víkja sæti sem ráðherra. Það er einfaldlega ekki boðleg röksemd í siðferðilegum efnum að halda því fram að einhver annar hafi áður lent í svipuðum málum og þá hafi hitt og þetta verið gert. Við verðum að gera ráð fyrir að siðferðilega sé um framfarir að ræða. Annars heldur bilið milli þings og þjóðar áfram að aukast. Punktur og basta. (eða pasta.)

IMG 0328Einhver mynd.


2672 - Flugvirkjaverkfallið o.fl.

Ef AlfaZero er jafn gáfuð tölva og fréttskeyti vilja vera láta, sem auðvitað gæti vel verið,  (skák er ekki nein geimvísindi) væri þá ekki upplagt að láta hana búa til fáeinar bitcoin-krónur. Þær eru víst í háu verði núna og erfitt að búa þær til, eftir því sem sagt er. Annars ætti ekki að vera vandamál að fá henni vandamál til að leysa, svona þegar hún er búin að afgreiða skákina. Annars gæti verið að þessi tölva (eða algoritminn sem stjórnar henni) boði heilmikil tíðindi í AI eða artifical intelligence.

Í Virginiuríki í Bandaríkjunum er bannað að bölva. Þar eru sektir við því að gerast sekur um slíkt á almannafæri. Það er lagt að jöfnu við að vera drukkinn á samskonar færi. Auðvitað er þetta lítið notað ákvæði og Hæstiréttur Bandaríkjanna hefur dæmt að það fari í bága við tjáningarfrelsið, sem tryggt á að vera í stjórnarskránni. Samt er það stundum notað til að réttlæta viðveru og afskipti lögreglu. Það er einkenni valdasækinna þjóðfélaga að vilja binda sem flest í lög og lögfesta það sem þykir sjáfsagt á þeim tíma sem það er ákveðið. Slíkt er vel hægt að misnota og hefur oft verið gert. Þetta með bölvið og ragnið er gott dæmi um það. Auðvitað er óþarfi að binda slíkt í lög. Sá sem gengur í berhögg við almennt siðferði er yfirleitt sjálfum sér verstur.

Í fyrrinótt dreymdi mig Nicolas Cage hinn bandaríska stórleikara. Ekki hef ég neina hugmynd um hversvegna mig dreymdi hann. Mér fannst hann vera pínulítill, varla meira en svona 15 til 20 sentimetra langur. og að ég tæki hann upp og henti honum úr vegi. Eftirá varð mér svo ljóst að þetta gat þýtt semband við annan heim, og allskyns vitleysu dreymdi mig svo í sambandi við það.

Varðandi verkfall það sem stendur yfir þegar þetta er skrifað vil ég bara segja það, að ég skil mætavel það sjónarmið að lítil og fámenn stéttarfélög eigi ekki að geta kúgað stór fyrirtæki og mikinn fjölda manna. Hins vegar finnst mér að seljendur vinnu eigi ekki sjálfkrafa að eiga minni rétt en seljendur varnings og sérfræðilegrar þjónustu. Mér finnst Bandaríkjamenn hafa gegið full-langt í síðarnefnu áttina og Skandinavíska módelið þjóna þessu sjónarmiði betur. Helst vil ég komast hjá því að taka auðvelda afstöðu með öðrum aðilanum í yfirstandandi deilu.

IMG 0343Einhver mynd.


2671 - Fiskur undir steini

Einu sinni höfðu allir greiðuna í rassvasanum. Og þótti fínt. Nú nota engir rassvasana orðið. Samt eru þeir þarna. Jú, einstaka gamalmenni setur veskið sitt og jafnvel greiðuna líka í rassvasann. Hvers eiga rassvasarnir að gjalda? Einu sinni var sagt að í Sahara gengu menn með uppbrot á buxunum af því að það rignir svo mikið í London. Kannski er þetta satt. A.m.k. er máttur tískunnar mikill. Hverjir búa hana til? Nauðsynlegt er að fylgjast eitthvað með tískunni. Þó ekki væri nema til þess að vera á móti henni. Mér finnst poppvælið vera búið að vera ansi lengi í tísku. Kannski hafa einhverjir þörf fyrir það. Til dæmis hefur mér stundum verið hugsað til þess að sennilega mundu þeir, sem þykjast vera að flytja þætti í útvarpið og þessvegna sjónvarpið, verða varir við það ef poppgaulið hyrfi. Segi bara svona. Hefur stundum orðið hugsað til þess að líklega eru þeir til sem þykir þetta merkilegra en flest annað.

Samkvæmt því sem Fréttablaðið segir, er það svo, að flestallir þingmenn hafa í mínum huga og eflaust flestra annarra, næstum tvær milljónir króna á mánuði í laun. Samt geta þeir ekki unnið vinnuna sína og virðing alþingis fer sífellt minnkandi. Ríkisstjórn og framkvæmdavald (þ.e.a.s. ráðuneytisstjórar og ígildi þeirra) veður samt yfir þá og gerir sem því sýnist. Helvítis pakkið. Ég get bara ekki sagt annað. Aumingjarnir sem ekki fá milljónir á mánuði geta bara étið það sem úti frýs.

„Þú getur keypt þér næstum hvað sem er fyrir aukakrónur“. Eitthvað þessu líkt dynur á manni sýnkt og heilagt. Af hverju í ósköpunum ætti ekki að vera hægt að kaupa hvað sem er fyrir aukakrónur? Er það einhver sérstakur gjaldmiðill, eða hvað? Hvaða andskotans gjaldmiðill er það? Ég sé hann hvergi skráðan. Skilst að Landsbankinn standi fyrir þessum ósköpum.

Ætlaði að kaupa fisk í Krónunni hér á Akranesi, en ekkert slíkt var til. Sennilega hafa Skagamenn aldrei heyrt minnst á svo afbrigðilega fæðutegund. Hélt samt að hér hefði í eina tíð verið veiddur og jafnvel verkaður fiskur.

Skelfileg neikvæðni er þetta alltaf. Er ekki hægt að gleðjast pínulítið, þó ekki væri nema í tilefni af jólunum? Gallarnir við bloggið og ekki síður fésbókina er þetta sífellda nöldur. Er það samt ekki einmitt útaf þessu sífellda nöldri, sem allt virðist tosast svolítið áfram. Ef enginn mundi finna að neinu þá mundu sennilega margir (jafnvel flestir) halda að allt væri í lagi. Svo verður samt vonandi aldrei.

Rætt hefur verið um að fá aldrað fólk til kennslu á leikskólum. Margt gæti verið jákvætt við það. Mér dettur þó hug að vel gæti það orðið til þess að erfiðara en ella gæti orðið að bæta kjör leiskólakennara og hugsanlega kennara yfirleitt og allsekki ætti að stuðla að því. Ég mundi eflaust teljast aldraður og í dag fór ég í fyrsta sinn í strætó á milli Akraness og Reykjavíkur. Þegar ég ætlaði að borga (fullt verð að sjálfsögðu) vildi vagnsjórinn ekki leyfa mér að borga 880 krónur eins og ég ætlaði, heldur aðeins 420 krónur. Gott ef þetta er ekki í fyrsta sinn sem ég er dæmdur umsvifalaust aumingja-afsláttar-verður á þennan hátt. Hvað snertir kennslu á leikskólum held ég að ég gæti eflaust kennt 1-5 ára börnum ýmislegt, væri mér sagt hvað leggja bæri áherslu á.

Hvað ríkisstjórnina snertir hef ég eiginlega enga skoðun á henni. Ekki er að sjá annað en svokallaður stjórnarsáttmáli sé að mestu marklaust plagg. Stefnuræða forsætisráðherra sömuleiðis. Ég bíð bara eftir að Katrín geri eitthvað sem ég get annaðhvort verið á móti eða ekki.

IMG 0356Einhver mynd.


2670 - Frjálslyndi o.fl.

Ég sagði það víst í síðustu færslu að ríkisstjórnin færi vel af stað. Það staðfestist í skoðanakönnun sem ég var að enda við að lesa um, þar sem ríkisstjórnin fær að mig minnir 78% stuðning. Mest er það að sjálfsögðu útá loforð og þessháttar vitleysu. Er ekki verulega bjartsýnn á að þessi ríkisstjórn verði hagstæðari mér og mínum líkum en vant er. Það að hækka frítekjumarkið í hundrað þúsund í stað fimmtíu kemur mér ekki að neinu gagni. Áfram mun Tryggingastofnunin stela af mér fjármunum sem fyrr og ríkisstjórnin segist ætla að athuga málið. Kannski verður það gert, en ég á ekki von á að neitt komi útúr því. Ríkinu kemur það ekki hundaskít við í rauninni þó mér hafi tekist á langri ævi að öngla saman svolitlum peningum í lífeyrissjóð. Lífeyrissjóðirnir eru uppspretta alls ills eins og allir vita.

Hvað nær frjálslyndi okkar langt? Að mínu viti hefur ekki að ráði reynt á það ennþá. Mega t.d. systur giftast, en bræður, og kannski systkini líka? Ef karlar mega giftast er þá nokkur ástæða til að amast við bræðrabrúðkaupum. Einu sinni var talað um blóðskömm, en er nokkur ástæða til þess lengur. Mega systkini ekki eigast, eða hvað? Og má þá ekki alveg eins giftast hundinum sínum ef út í það er farið? Og gæti hundurinn ekki giftst kettinum? Er nokkur ástæða til takmarkana? Er ekki giftingin sjálf mannanna verk og þessvegna engum takmörkunum háð? Ég er bara að spögúlera.

Öðruvísi saga er heillandi. Sjálfur er ég hugsa um að skrifa sögu um það hvernig farið hefði ef Ísland hefði ekki fundist fyrr en á tuttugustu öldinni. Fyrst við hlupum yfir aldirnar frá 1400 til 1900, munar okkur þá nokkuð um að hlaupa yfir fáeinar í viðbót? Rolluskjáturnar sem hefðu komið með Gullfossi til landsins hefðu kannski verið alla tuttugustu öldina að éta okkur útá gaddinn. Og hvernig hefði minnka- og laxavitleysan farið með okkur. Svo ekki sé nú talað um sjálft Hrunið. Möguleikarnir eru ótæmandi. Ætli sé ekki best að fara strax að undirbúa þetta?

Kannast hlustendur við orðin: Ylríki, Spiljaðar, Fuglanes, Svanalæk, Luxustanga, Selgufur, Bognabrest og Úlpuberg? Nei, ég bjóst svosem ekki við því. Hérna er ráðningin: Varmaland, Ásbrún, Haukatunga, Álfavatn, Munaðarnes, Kópareykir, Svignaskarð og Stakkhamar. Mér skilst að þetta séu allt saman bæir á Vesturlandi. Lítið er ungs manns gaman mætti kannski segja. Að öðru leyti en því að ég er alsekkert ungur lengur. Samt uni ég mér við svonalagað. Það er að segja þegar ég verð andvaka. Eins og núna. Glaðvaknaði áðan, næstum því með andfælum og þó var klukkan ekki einu sinni orðin tvö. Eins og alltaf fór ég að sofa um ellefuleytið, en það dugð semsagt ekki til.

IMG 0364Einhver mynd.


2669 - Loksins

Nei, ég er ekki hættur að blogga. Viðurkenni samt að dálítið langt er um liðið síðan ég bloggaði síðast. En nú skal bætt úr því. Veit ekki af hverju ég hef svona lengi trassað að skrifa. Hugsanlega hef ég valdið einhverjum aðdáendum mínum (hmm ég meina þetta satt að segja) hugarangri með þessu. Sé svo biðst ég margfaldlega afsökunar á því. Sennilega vilja ekki allir trúa því að ég sé með öllu hættur þessari vitleysu. Ég fæ nefnilega allt upp í 12 heimsóknir á dag þó ég skrifi ekki neitt. Eiginlega hugsa ég helst að það hafi verið vandræðin með ríkisstjórnarmyndunina, sem hafi valdið þessu.

Apropos ríkisstjórnin. Nýja ríkisstjórnin, sem e.t.v. verður í framtíðinni kölluð „Katrínar-stjórnin“ fer bara að mörgu leyti nokkuð vel af stað. Held að e.t.v. verði hún ekki eins óvinsæl og sú sem hún tók við af. Sú stjórn keppti beinlínis við Donald Trump í óvinsældum. Umdeilanlegt hlýtur þó að vera hvort ástæða sé til að leiða BB einu sinni enn til valda.

Er ekki frá því að Steinunn Valdís Óskarsdóttir hafi flutt #metoo byltinguna yfir á nýtt stig. Lengur verður vart komist hjá því að fá einhver svör frá karlmönnunum sem valtað hafa yfir kvenfólk á öllum sviðum hingað til.

Hún segir að nafngreindir menn hafi skorað á aðra að fara heim til hennar og nauðga henni. Sá sem ég hef eingöngu séð nafngreindan af þessum mönnum er Gilzenegger eða hvernig sem sá óskapnaður er skrifaður. Ekki á ég þó von á að hann láti til sín heyra.

Sjálfur vann ég hjá Securitas þegar þetta var og var marga nóttina á verði við heimili frægðarfólks. Mér finnst að þjóðfélagið hafi aldrei gefið leyfi til þess að heimili fólks eigi að vera mótmælum háð vegna starfa viðkomandi.

Á þessum tíma reyndu mótmælendur hvað eftir annað að fremja hermdarverk í skjóli nætur við heimili fólks. Slíkt finnst mér að eigi að fordæma með öllu. Siðmenntað fólk gerir ekki slíkt.

Lendi Trump Bandaríkjaforseti einhverntíma í vandræðum vegna tísts síns á Twitter á alveg eftir að sanna að hann hafi skrifað tístið sjálfur og ég hugsa að hann reiði sig á að það verði ekki hægt. Hann getur sem best haldið því fram að einhver annar hafi skrifað viðkomandi tíst. Held reyndar að Nixon hafi hugsað eitthvað svipað á sínum „Watergate-dögum“. Það er svosem alltönnur saga, en ég er sífellt að leika mér að allskonar hugsanlegum líkindum milli þessara tveggja manna. Ekki er því að neita að margt er líkt með þeim.

Allt er nú orðið að fréttum. Christina Keeler er sögð látin 75 ára gömul. Ég man vel eftir Keeler-hneykslinu og eflaust gera flestir jafnaldrar mínir það líka. Ekki vissi ég samt að Profumo-hjásvæfan sjálf væri í þeim hópi, en það hefur semsagt líklega verið. Ekki ætla ég samt að rifja það mál upp, enda er það löngu orðið verkefni sagnfræðinga.

IMG 0399Einhver mynd.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband