Bloggfærslur mánaðarins, mars 2013

1917 - Jóhanna Sigurðardóttir

Sagt er að Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra muni flytja þingsályktunartillögu um slit alþingis nú fljótlega. Mér finnst samt að stjórnmálin öll séu svo óljós um þessar mundir að það er ekki fyrr en alþingismenn eru hættir öllu þrasi og ljóst er orðið hverjir bjóða fram í komandi þingkosningum, sem ég get almennilega farið að velta því fyrir mér hvað ég eigi að kjósa. Öruggt er samt að ég mun engan af fjórflokkunum svonefdu kjósa og líklega ekki Bjarta framtíð heldur. Eins og ég hef áður sagt eru Píratarnir líklegastir, og koma vel til greina ásamt Lýðræðisvaktinni og Dögun. Ég hef samt bara eitt atkvæði og ólíklegt er að það skipti nokkru máli. Þannig má samt ekki hugsa og vel getur verið að einhverjir hugsi um þessi mál á svipaðan hátt og ég.

Kannski er ég ekki einn um að vantreysta fésbókinni. (Umfram Moggabloggið.) Sá ekki betur áðan en sjálf Birgitta Jónsdóttir (og Bergþórudóttir) væri farin að efast um fullkomleika fésbókarinnar. Yfirleitt reyni ég að læka sem allra minnst og fer aldrei í fésbókarleiki. Yfirleitt er fésbókin stórhættuleg. Á ekki von á að allir komi nú hlaupandi og skrái sig á Moggabloggið – frekar á Wordpress. Einhverntíma hlýtur fésbókartímanum samt að ljúka. Mest er ég hissa á að fésbókaróvinirnir virðast vera sárafáir.

Af hverju dettur alþjóðlegum stórfyrirtækjum í hug að koma hingað til Íslands? Jú, bæði er orkuverðið afar hagstætt og svo er tiltölulega auðvelt að plata sveitamanninn. Þó einn og einn maður með fullu viti slæðist öðru hvoru í sjónvarpið er það ekkert hættulegt ef bæði er búið að útbúa belti og axlabönd í samningum svo allt sé nú löglegt. Ekki dettur mér í hug eitt andartak að Steingrímur og Katrín Júl. séu eitthvað skárri en Valgerður og Halldór.

Það er ágætt að blogga sem mest því með því rifjast ýmislegt upp fyrir manni og eftir því sem maður skrifar meira er auðveldara að koma orðum að hlutunum. Á endanum verð ég kannski farinn að segja blogglesendum mínum fleira en nokkrum öðrum. (Þetta segi ég nú bara til að þeir, sem hingað hafa farið og lesið, hætti því ekki.)

Ha ha. Var ekki alveg viss um hvort ég hefði klárað með réttum hætti (að mati rsk.is) skattframtalið mitt og fann því upp aðferð til að gá að því. Sótti semsagt um frest en fékk þá meldingu um að viðkomandi væri búinn að skila og frestur yrði ekki veittur. 

Margt er mannanna bloggið
og misjafnt drukkið groggið.
En ekki er því að leyna
að það fór um Svein og meyna.

Eiginlega er þetta samsafn af hortittum svokölluðum og ekki einu sinni stuðlaðir almennilega. Mér datt þetta svona í hug í framhaldi af því að upp í hugann kom byrjun á eldgamalli heimsósómavísu: Margt er mannann bölið og misjafnt drukkið ölið.

Nú er ég að hugsa um að prófa nýja leið við dreifingu á þessu bloggi. Það er að tengja þetta blogg við frétt á Moggablogginu og svo að auglýsa það líka á fésbókinni. Fjölyrði ekki um það meira.

IMG 2858Stóll með tilheyrandi.


mbl.is Þingfundi slitið og nýr boðaður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

1916 - Nesjavellir

Umræða um skattaskjól og lögleg undanskot fjölþjóðlegra stórfyrirtækja frá skattheimtu hefur verið allmikil að undanförnu. Þetta er ekki nýtt og sérstakar deildir hjá flestum stórfyrirtækjum sjá um að finna heppilegustu og vænlegustu leiðirnar til að greiða eins litla skatta og mögulegt er. Heilmikið hugmyndaflug og mannvit er oft fólgið í þeim aðferðum. Með þessu er ekki aðeins það land þar sem starfsemin fer fram svikið um sinn eðlilega skatt heldur er skapað með þessu forskot fyrir stórfyrirtækið gagnvart þeim fyrirtækjum sem minni eru og starfa kannski bara í einu landi eða mjög fáum.

Ef til vill er það alvarlegasti hluti málsins. Alþjóðlegu stórfyrirtækin stjórna að miklu leyti heiminum í dag og hafa áhrif á lagasetningu bæði hjá stórum þjóðum og smáum. Þó margskyns hópar berjist gegn þeim af alefli hefur það lítil áhrif því stuðningsmenn fyrirtækjanna eru bæði betur að sér og margfalt fleiri. Þurfa oft á tíðum að hugsa um atvinnu sína og eru mótsnúnir þeim sem andmæla aðferðunum.

Vissulega má kalla þetta þrælahald nútímans þó allt aðrar aðferðir séu stundaðar nú en fyrir öldum síðan. „Þrælarnir“ hafa það sumir ágætt peningalega og alþjóðlegu fyrirtækin eru oft það stór að þau eiga erfitt með að ljúga eftirá og þó erfitt sé að ná upplýsingum þaðan tekst það stundum og þá blasir gjarnan ófögur mynd við.

Völd pólitíkusa eru sífellt að minnka og völd hverskyns þrýstihópa aukast stöðugt. Fjölþjóðlegu fyrirtækin ráða löggjöf í heiminum að mestu leyti, en þingmenn ekki, þó þeir haldi það e.t.v. Almenningsálitinu ráða allskyns þrýstihópar og því ráða þeir gjarnan með því að kunna sem best á internetið og semja forrit fyrir það. Sennilega gera fæstir sér grein fyrir veru sinni í þrýstihóp. Mér finnst ég t.d. ekki vera í neinum. Einhverjir kynnu samt að álíta að svo sé og ekki get ég gert að því.

„Akureyringar loka þjóðveginum“ kallast grein á Smugunni. Það á víst að vera einhverskonar svar við umræðunni um flugvöllinn í Vatnsmýrinni. Mér finnst greinin ekkert sérlega fyndin. Hingað til hafa bæjafélög sóst eftir því að hafa hringveginn sem næst sér. Man ennþá eftir skaðabótunum sem Ingólfur á Hellu (sem e.t.v. var samgöngumálaráðherra þá) fékk fyrir kaupfélagið Þór afþví að þjóðvegurinn var fluttur frá bænum. Hvergerðingar fengu einnig smábeygju fyrir neðan Kambana með því að rövla svolítið. Blönduósingar mega ekki til þess hugsa að hringvegurinn verði styttur umtalsvert því þá má búast við því að þjóðvegasjoppurnar þeirra missi spón úr aski sínum. Ef hægt væri að fara með hringveginn dálítið langt frá Akureyri væri það eflaust mjög þjóðhagslega hagkvæmt.

Einhverntíma þegar ég vann á Stöð 2 fórum við í gönguferð frá Nesjavöllum til Hveragerðis. Líklega var það að minni tillögu því ég hafði farið þessa leið áður. Skömmu eftir að við fórum frá Nesjavöllum (fórum þangað bílandi að sjálfsögðu) datt kona ein í ferðinni og fótbrotnaði. Einn úr hópnum hljóp þá að Nesjavöllum eftir hjálp. Hann kom fljótlega aftur og sagði að þyrla mundi koma fljótlega og sækja konuna. Þá var ráðslagað um hvað gera skyldi. Úr varð að ég varð eftir hjá fótbrotnu konunni. (M.a. vegna þess að ég hafði farið þessa leið áður.)

Skömmu síðar kom þyrlan og björgunarsveitarmenn eftir konunni og mér var boðið far í bæinn. En ég þáði það ekki heldur hljóp á eftir hópnum og náði honum að mig minnir við hverasvæðið á Ölkelduhálsi. Kannski var ég ekki einsamall hjá fótbrotnu konunni en allavega var ég sá eini sem hélt áfram til Hveragerðis eftir að þyrlan kom.

Þegar við komum til baka fórum við af einhverri ástæðu öll uppá Stöð 2. Þar var Eiríkur Hjálmarsson (sem nú er blaðafulltrúi Orkuveitunnar) að koma út af fréttastofunni og við sögðum honum ferðasöguna í stuttu máli. Man að ég sá að hann velti fyrir sér hvort ástæða væri til að gera sjónvarpsfrétt um málið. En það var ekki gert.

IMG 2855Falleg skófla.


1915 - Edison, Tesla og Houdini

Lítil spurning er að Árni Páll hefur leikið alvarlega af sér. Það er eins og hann hafi lagt alla sína orku í að telja Katrínu Jakobsdóttur á sitt mál. Hefði hann (eða þau öll) fengið stuðning Framsóknar við auðlindaákvæðið og Sjálfstæðismanna við ýmis önnur ákvæði nýju stjórnarskrárinnar auk þess að ræða betur við sína flokka, og lagt fram tvö mál, er ekki víst að mál væru komin í þann hnút sem þau virðast vera í núna. Annars hef ég þá trú að þessi mál leysist. Undarlegt hjá þeim að halda að nóg væri að undirrita eitthvað og allir mundu hlýða eins og var á dögum Davíðs og Dóra.

Tilraununum með Árna Pál og Bjarna Benediktsson lýkur sennilega fljótlega eftir næstu kosningar. Hanna Birna tekur þá við af Bjarna. Það er nokkuð augljóst. Sé ekki hver getur tekið við af Árna Páli. Ekki er víst að Samfylkingin eigi neinn góðan kost þar og liðist einfaldlega í sundur. Katrín Júlíusdóttir gæti þó komið til greina. Vel getur verið að Katrín Jakobsdóttir spjari sig hjá Vinstri grænum. Leiðinlegt held ég þó að sé fyrir hana að hafa Steingrím sífellt vokandi yfir sér.

Ég er tortrygginn að eðlisfari. Jafnvel mjög tortrygginn. Svo tortrygginn er ég þó ekki í pólitík að ég hræðist mjög að semja við þjóðir sem líkastar eru okkur um þjóðlíf allt og menningu. Margir eru það samt og vilja reyna í staðinn að semja við þjóðir sem lengst í burtu eru og ólíkastar okkur um alla hluti.

Sá áðan smáhluta af sakamálaþætti í sjónvarpinu – nennti ekki að standa upp. Castle held ég hann heiti. Geri yfirleitt lítið af slíku. Rifjaðist upp fyrir mér og ég skildi allt í einu hvað er einkennandi fyrir þann óraunveruleika sem einkennir þannig þætti. Fólkið talar alltof hratt. Þau eru á glæpavettvangi (fjöldi fólks) og koma með gáfulegar athugasemdir (rosalega gáfulegar virðist vera) svo hratt að næsti maður á undan nær varla að klára sína replikku. Kvikmyndir eru oft betri. Skárri leikur. Leiðinlegar samt. Ritað mál er best. Er vanastur því. Þá getur maður látið hugann reika, en er ekki í viðjum leikstjórans.

Já, ég er búinn að skila skattframtalinu, eða það held ég a.m.k. Var fljótlegt. Fyrst fór ég á rsk.is og sagðist hafa týnt lyklinum frá skattstjóra. Fór síðan í heimabankann minn og fann lykilinn þar og fór aftur á rsk.is vopnaður lyklinum og þurfti tvisvar að tilgreina hann. Í seinna skiptið í lokin þegar ég var búinn að samþykkja allt. Skora á alla að draga þetta ekki. Vona bara að ég hafi ekki verið lokkaður í einhverja árans gildru. Sú var tíðin að skattframtal hvers árs var mikill höfuðverkur. Svo er ekki núna sem betur fer. Finnst hampaminnst að játa öllu ef tölurnar eru ekki alveg útúr kú.

Las nýlega ævisögu Harrys Houdinis á kyndlinum mínum. Man að ég las einhverntíma í fyrndinni ævisögu hans (eða sjálfsævsögu) og hreifst mjög af henni. Sennilega hefur sú bók haft talsverð áhrif á mig. T.d. hef ég aldrei getað litið á miðla nema sem algjöra svikara eftir lestur þeirrar bókar. Nú er ég að lesa þar (í kyndlinum) ágrip af sögu Tómasar Alva Edisons og Nicola Tesla. Það er eitt og sama fyrirtækið sem gefur þessar bækur út og hefur gefið út mikinn fjölda ævisagna og annarra rafbóka. David Rivers Editors minnir mig að það heiti.

Skelfilegur ófriður er alltaf í símanum útaf þessum eilífu tilboðum sem maður er að fá þar, án þess að hafa beðið um þau. Kannski hef ég samt gert það óvart, enda er sending SMS smáskilaboða að verða viðurkennd markaðsaðferð – hlýtur að vera. (Hræðileg þó.) Get varla á heilum (eða hálfum) mér tekið fyrir að hafa samþykkt þessi ósköp.

IMG 2849Blokkir við Skúlagötu.


1914 - Sáttin mikla

Þrennt er það núorðið sem segja má að einkenni mitt blogg. Fyrst er að nefna númeringuna. Á því má t.d. þekkja það á blogg-gáttinni og er áreiðanlega gert. Í öðru lagi er yfirleitt a.m.k. ein mynd sem fylgir hverju bloggi frá mér. Sú mynd er reyndar ekki í neinu samræmi við efni bloggsins en ég er bara búinn að venja mig á þetta. Oftast eru myndirnar mjög nýlegar. Í þriðja lagi er lengdin. Bloggin mín eru oftast nokkurn vegin jafnlöng nútildags og fjallað er um hitt og þetta, aðallega þó „hitt“. Það er ekki mjög interessant að fjalla um „þetta“ svo ég er að hugsa um að reyna að finna eitthvað nýtt.

Sú vitleysa sem flestir gera í sambandi við blogg er að reyna að láta þau líkjast blaðagrein. Það er ekki rétt, því eðli þeirra er allt annað. Pláss er fyrir allt í bloggi, en málalengingar finnst mér vera með öllu óþarfar þar. Fésbókin kemur í staðinn fyrir óformlegt spjall þar sem aðeins er sögð ein setning í einu. Margir kunna vel við það, en mér finnst það vera eins og kaffispjall eða símtal þar sem allir (eða sumir) mega hlusta á. Dálítið líkt sveitasímanum í gamla daga. Hentar mér bara ekki. Er gamall besservisser, sem einu sinni þóttist vita allt.

Samskipti fólks hafa breyst verulega með útbreiðslu internetsins. Stjórnmálamenn og ráðamenn flestir virðast alls ekki hafa gert sér grein fyrir þessu. Afleiðingin nú verður sú að Píratarnir munu ná fótfestu á alþingi og ekki láta hana af hendi. Meirihluta munu þeir þó allsekki ná og fjórflokkurinn (hugsanlega með útibúinu Bjartri framtíð) mun mynda ríkisstjórn landsins. (Hvernig veit ég ekki.) Lýðræðisvaktin svonefnda mun hugsanlega einnig fá mann (eða menn) kjörna á alþing í vor en þeir munu ekki taka þátt í stjórn landsins.

Mjög er nú rætt um fiffin Framsóknar. Víst eru þau skrýtin sum og minna á burtköllun eiturlyfja og 90 eða 100 prósent húsnæðislán. Sjálfum er mér efst í huga mynd af Halldóri (sennilega úr spaugstofunni) þar sem hann kemur til Davíðs og segir: „Össur segir að ég geti vel fengið að vera forsætis ef ég verð með honum.“ Davíð: „Nú, jæja. Við getum svosem verið forsætis til skiptis. Ég skal bara leyfa þér að vera forsætis seinni hluta kjörtímabilsins. Hvað segirðu um það?“ Halldór (allshugar feginn) „Jú, mér líst bara vel á það. Það er miklu skemmtilegra að vera með þér. Og svo borgar þú líka betur. Það er eitthvað svo leiðinlegt að vera með Össuri eftir að ég kom Steingrími frá.“

En ef þessi fiff duga til að auka fylgið umtalsvert þá eru þau fullgild í mínum huga og ekkert verri en önnur. Séu menn eitthvað að fjargviðrast útaf þessum fiffum geta þeir bara notað eitthvað álíka sjálfir.

Ég er nú búinn að pólitískast svo mikið á þessu bloggi mínu að ég verð eiginlega að upplýsa hvað mér finnst koma helst til greina að kjósa. Já, ég er í alvöru að hugsa um að kjósa Píratana. Það kann þó að breytast þegar fleiri kurl koma til grafar, en þetta er það sem mér er efst í huga akkúrat núna.

Mikið er rætt um sátt þessa dagana. Var sátt um Kárahnjúka? Var sátt um bankagjöfina? Var sátt um að fara í stríð við Írak? Ekki held ég að það hafi verið. Hinsvegar kann alveg að vera að Davíð og Halldór hafi verið síðustu mennirnir sem höfðu algera stjórn á þingmönnum sinna flokka. Ekki er víst að þeir tímar komi nokkurntíma aftur. Kannski skildi þremenningaklíkan (Katrín, Árni Páll og Guðmundur) það ekki og hélt að framsókn og sjallar mundu koma hlaupandi ef svolítið væri slakað á klónni.

IMG 2823Vélar.


1913 - Mannlíf

Jú, ekki ber á öðru. Mannlíf er ókeypis á netinu. Ekki er samt öruggt að það verði lengi. Búinn að fletta nýjasta tölublaðinu frá þessu ári og lesa viðtal við Stefán Jón Hafstein. Það var Einar Kárason sem tók það eins og viðtalið við Margeir Pétursson sem ég sagði frá um daginn að mig minnir. Það er einfaldast að fara á birtingur.is eða á Moggablogið hans Ómars Ragnarssonar til að skoða þetta. Annars var linkurinn sem ég notaði þessi: http://issuu.com/birtingur/docs/mannlif1tbl2013x?mode=window&viewMode=doublePage og auðvitað má vel nota hann.

Það stefnir í að flest blöð komi á netið, en satt að segja á ég varla von á því að íslensk blöð verði til langframa ókeypis. Einu sinni fór ég oft á http://www.salon.com/ en er að mestu hættur því núna. Annars er þetta ágætis blað og áreiðanlega er http://www.time.com/time/ ekkert verra. Best er að sjálfsögðu að lesa bara bloggið mitt. Það má ég náttúrulega ekki auglýsa, en geri samt á fésbókinni.

Heldur er leiðinlegt þetta sífellda fjas á alþingi. Augljóst er að þjóðin vill fá að ráða sínum málum meira sjálf en tíðkast hefur. Alþingi hefur brugðist henni. Ríkisstjórnin að sumu leyti líka. Hrunið hefur farið illa með hana og hún veit eiginlega ekki sitt rjúkandi ráð. Ekki er samt fullvíst að öruggur meirihluti sé fyrir því að taka upp nýja stjórnarskrá sem er nákvæmlega eins og sú sem verið er að ræða um núna á þinginu. Einhvern vegin verður samt að ljúka þessu og það verður áreiðanlega gert. Líklega kem ég ekki til með að hafa nein áhrif á hvernig farið verður að því, en margir eru þeir samt sem virðast halda áhrif sín mikil. Hvernig þjóðin hugsar, stjórnarfarslega séð, kemur líklega í ljós í kosningunum í vor.

Fór á bókasafnið í dag og fékk þar m.a. nýlegan Skírni og eina grein er ég búinn að lesa þar. Hún var náttúrulega eftir Einar Kárason og þar vill hann meina að Njála hljóti að vera eftir Sturlu Þórðarson. Rök hans fyrir því eru nokkuð sannfærandi. Hann vitnar svolítið í Helga á Hrafnkelsstöðum og ég man eftir að hafa hitt Helga eitt sinn á strætóstoppi fyrir utan Lynghaga 17. Þá sagði hann mér það í óspurðum fréttum að þetta væri í fyrsta sinn sem hann væri í Reykjavík á kosningadag.

Með tímanum hættir maður alveg að muna hvern grefilinn maður setti á bloggið sitt og er jafnvel farinn að óttast að sumir, sem hugsanlegt er lesi allt sem maður setur þar, séu farnir að þekkja mann of vel. Sá ótti er þó vonandi ástæðulaus því maður getur ansi lengi huggað sig við það að einhverjir hljóti að vera verri en maður sjálfur.

Það er beinlínis líklegt að það dragi dilk á eftir sér fyrir fréttamenn 365 að bjóða Jóni Ásgeiri byrginn. Hann er ekki vanur að láta aðra eiga neitt hjá sér. Losar sig við menn „alveg hægri vinstri“ svo notað sé auglýsingamálfar og sannar með því að fátt er auðveldara en að fá menn til að segja upp vinnu. Hann getur þó ekki losað sig við mig, því ég er nefnilega ekki í neinni vinnu – ha – ha. Bíð bara eftir að drepast eins og fleiri á mínum aldri og rísla mér við bloggskrif á meðan.

Þingfundur á að hefjast núna klukkan hálfellefu og líklegast er að haldið verði áfram þar sem frá var horfið í gær. Við málþófsréttinum verður ekki hróflað. Þó þingmenn séu í hjarta sínu sammála um að hrófla heldur ekki við stjórnarskránni (því hún tryggir völd þeirra eins og nú er) má búast við að þeir þurfi að verja þá afstöðu fyrir kjósendum. Tími þeirra núna fer einkum í að hugsa upp ráð til þess.

IMG 2822Ómarktækt skilti.


1912 - Capablanca

Smelludólgar eru þeir kallaðir, sem skrifa fréttir í vefmiðlana og velja fyrirsagnir á þær. Með þessu er nokkuð hægt að stjórna því hve margir smella á viðkomandi frétt og eftir því fer auglýsingaverðið. Aðalmetnaður blaðamanna snýst semsagt um smelli. Ekki hvort lesið er, þó það geri samt eflaust flestir sem smella á fréttina. Nema ef fréttin væri alveg útúr kú miðað við fyrirsögnina. Auðvitað geta síðan blaðamennirnir sjálfir reynt að hafa áhrif á smellingafjöldann og jafnvel búið til róbóta eða öpp sem gera það sjálfvirkt, en ekki er fullvíst að það hafi þau áhrif sem vænst er. Bloggarar gera þetta líka. (a.m.k. ég því ég lít reglulega á smellingarnar þó engin séu verðlaunin. Þar (á vinsældalista Moggabloggsins) hendist maður líka eins og jó-jó upp og niður. Ekkert er stórt og ekkert er smátt án samanburðar við annað.

Tveir af mestu meisturum skáklistarinnar eru tvímælalaust þeir Robert James Fischer og José Raúl Capablanca. Báðir voru þeir hreinir og tærir og með næstum óbrigðult stöðumat. Báðir lögðu þeir sig nokkuð í líma við að kynna ný afbrigði af skák. Fischer með sínu „Fischer-randomi eða 960-skák“ og svo auðvitað með nýju skákklukkunni (með „incrementunum“) sem segja má að hafi sigrað heiminn á stuttum tíma. Ég ætla ekki að ræða hérna um Fischer-random, heldur nýjung þá sem Capablanca vildi koma á, því þó ég hafi að sjálfsögðu fyrst heyrt hennar getið fyrir löngu síðan vissi ég ekki fyrr en nokkurn vegin nýlega hvernig henni var háttað í smáatriðum. Þannig held ég að hafi verið með marga skákunnendur.

Capablanca lagði semsagt til að skákborðið yrði stækkað í 8x10 reiti, mönnum fjölgað um tvo hjá hvorum aðila og peðum fyrir framan þá. Nýju mennirnir áttu að heita erkibiskup (archbishop) og kanslari (chancellor) og áttu að sameina annars vegar gang riddara og biskups og hinsvegar hróks og riddara. (Segja má að drottningin í venjulegu tafli sameini gang hróks og biskups.) Koma átti þeim fyrir milli biskups og riddara á báðum vængjum og hjá báðum aðilum.

Þetta held ég að hafi verið nokkurnvegin það sem flestir skákunnendur vissu um þessa tilllögu heimsmeistarans Capablanca og að ég hafi alls ekki verið einn um það. En auðvitað er margt fleira sem hangir á spýtunni og ég ætla nú að minnast á það. Ef bloggið á ekki að verða óhæfilega langt verður það þó fremur stuttaralegt.

Rétt er að byrja á því að merkja lóðréttu raðirnar með stöfunum A-J (i og j eru þó svo líkir stafir að hugsanlega þyrfti að endurskoða það) Ég er bara að lýsa mönnum hvíts, þeir svörtu eru auðvitað alveg eins. Drottningarmegin og á C-röðinni væri þá Erkibiskupinn og hann mætti fara aftur og fram um borðið á sama hátt og riddari eða biskup. Athyglisvert er að hann mundi vera eini maðinn sem gæti mátað kóng andstæðingsins upp á eigin spýtur. Kóngurinn þyrfti þá að vera í horninu og Erkibiskupinn skáhallt frá honum með einn reit á milli.

Á H-röðinni væri síðan kanslarinn. (Ath. að allir aðrir menn skákborðsins væru á sínum venjulegu reitum.) Hann mætti hreyfa sig um allt, en mætti bara fara um eins og hann væri hrókur eða riddari. Nýju mennirnir væru þannig alltaf í upphafi skákar á milli biskups og riddara.

Fjarlægðin milli óvinaherjanna væri sú sama og venjulega því raðirnar (A-J) væru aðeins átta reitir á hæð þó þær væru tíu talsins. Óneitanlega yrði skákin mun flóknari við þetta og ekki er mér kunnugt um að margir hafi prófað þessa tegund skákar.

Þó Capablanca hafi verið Kúbumaður er nokkuð greinilegt að hann sótti þess hugmynd að miklu leyti til enska skákmeistarans Henry‘s Bird því hann hafði nokkru áður talað fyrir þeirri hugmynd að taka upp líka skák og Capablanca mælti með. Nöfn nýju mannanna voru þó önnur og uppröðunin sömuleiðis.

IMG 2821Eldiviður.


1911 - Stjórnmál o.fl.

Furðumargir á fésbók virðast halda að sóðalegt og dónalegt orðbragð sé eitthvert sérstakt stílbragð sem valdi því að orð þeirra hafi meiri vigt en ella og að með því ávinni þeir sér virðingu annarra. Kannski ávinna þeir sér stundarvirðingu og aðdáun einhverra sem hugsa á líkan veg. Annars er óþarfi að vera að fjölyrða um þetta, orðbragðið dæmir sig sjálft. Með kurteislegu hjali er svosem hægt að gera hvað skoðanir sem er, hversu fáfengilegar, andfélagslegar eða glæpsamlegar sem þær eru, eftirbreytniverðar í augnablik. Þegar tangarhaldi höfundar sleppir og hugsun tekur við hjá lesandanum er samt hætt við að því augnabliki ljúki.

Að sumu leyti er það galli hve margir eru teknir uppá því að skrifa um allan fjárann á fésbókina og víðar. Samt er rangt að fordæma þann nýja sið eða gera hann hlægilegan með aðfinnslum. Eiður Guðnason fer næstum yfir strikið með smásmugulegum leiðréttingum og á stundum vafasömum orðskýringum. Virða má þó Eiði það til vorkunnar að hann einbeitir sér að útbreiddum fjölmiðlum. Strangar kröfur til allra eru einfaldlega fordæmanlegar. Segja má að þær séu argasti fasismi. Einn af aðalkostum Internetbyltingarinnar, sem margir þekkja og virða, er einmitt sá að mun fleiri en áður taka þátt í allskyns skoðanaskiptum þar. Það er ekki nema heilbrigt og þá breytingu á alls ekki að reyna að losna við.

Pólitíkin er stórfurðuleg um þessar mundir. Óvíst er með öllu, sýnist mér, hvernig og hvenær alþingi lýkur. Helsta kosningamálið gæti orðið stjórnarskrárbreytingar og það gæti aftur valdið því að minna verði að marka þær skoðanakannanir sem undanfarið hafa verið birtar. Þeir flokkar sem á einhvern hátt véla um það mál á síðusu metrunum (erfitt að komast hjá því) hljóta að bera einhverja ábyrgð á því hvernig því verður hent í kjósendur, því hent þangað verður því.

Á margan hátt finnst mér Hrunið hafa verið svo einstæður atburður að vel sé réttlætanlegt að endurskoða stjórnarskrána vandlega og stjórnarfarið allt í framhaldi af því. Mér finnst ekkert sérstök meðmæli með þeirri gömlu að hún sé bara gömul. Get ekki séð að hún hafi valdið því að neinu leyti samt og alls ekki komið í veg fyrir það.

Það er hálfilla gert að gera ræðustól alþingis að einskonar útibúi frá Morfís. Svo virðast þessir vesalingar halda að þeir séu að gera eitthvert gagn. Satt að segja er það furðulegt (ef rétt er hjá Jónasi) að ekki skuli vera hægt að fá 9 þingmenn til að flytja dagskrártillögu um að hætta þessari málþófsvitleysu og gera eitthvað af viti. Já, ég hef sagt það áður að ég sé meðmæltur því að kjósa um stjórnarskrána núna áður en þingmenn fara í páskafrí. (Og endanlegt frí – sumir a.m.k.)

IMG 2818Blóm.


1910 - Vikan

Já, ég er þeirrar skoðunar að samþykkja eigi stjórnarskrána eins og frumvarpið er núna og setja með því pressu á næsta þing um að gera það sama. Það getur vel verið að nýtilegar greinar séu í þeirri gömlu, en það er alveg ástæðulaus íhaldssemi að halda dauðahaldi í hana bara vegna þess að hugsanlegt sé að sú nýja sé að einhverju leyti gölluð. Sé ekki tekin áhætta er ekkert hægt að vinna. Í mesta lagi er hægt að forðast eitthvað.

Held að ég sleppi því alveg að reyna að koma bloggi upp á morgun, föstudag. Snemma morguns ætti það þó að vera hægt. Kannski dregst það samt eitthvað framá föstudagsmorguninn að ég sendi þetta út í etherinn. (Ljósvaki heitir það víst á íslensku – einu sinni héldu menn að ljósið gæti ekki ferðast nema eitthvert efni bæri það áfram – eins og hljóðið.) Samt eru föstudagarnir oft bestu dagarnir, bæði fyrir blogg og annað. Ætti ég að gera upp á milli daga yrði vinsældaröðin einhvern vegin svona: Föstudagur, laugardagur, sunnudagur, fimmtudagur, miðvikudagur, þriðjudagur og mánudagur. Samt er það nú svo að á rúmhelgu dögunum (er það orðalag nokkuð dautt?) gerast hlutirnir. Helgarnar eru frekar stund milli stríða. Föstudagurinn bestur vegna þess að þá er öll helgin framundan.

Birtan er óðum að aukast og vorið nálgast hröðum skrefum. Vona að páskahretið, sem hlýtur að koma, verði ekki alvarlegt. Súpa (og kannski eitthvað fleira) verður hjá Bjössa á föstudaginn langa og veðrið má ekki vera of slæmt ef við eigum að komast í hana. Svo fæ ég væntanlega að vita bráðum hvort ég fæ sumarbústaðinn í ágúst sem ég sótti um hjá Eflingu. Hef aldrei skipt við það félag áður.

Bloggin hans Ármanns Jakobssonar eru að verða uppáhaldið hjá mér. Sum eru samt óttalega áreysluleg en önnur alveg feikilega góð. Jens Guð er líka góður. Sömuleiðis Jónas Kristjánsson þó því fari fjarri að ég sé alltaf sammála honum. Margt annað fyrir utan valdar fréttir er ástæða til að lesa en ef ég á að halda þessu sífelldu skrifum áfram dugir ekki að lesa of mikið. Það er greinilega auðvelt að ánetjast netinu. Er þetta kannski tátólógía að tala um að ánetjast netinu?

Ég finn fyrir því að mér veitti ekki af að skrifa eitthvað fleira en þetta árans blogg. Vissulega skrifa ég stundum annað, en það er þá aðallega fyrir sjálfan mig og ekki markvert. Skrifnáttúra mín er óðum að aukast. Ekki vil ég gera blogg þessi of löng. Auðvelt væri það þó, því nú er ég búinn að fá æfingu í endalausum skrifum. Er t.d. búinn að sjá það að til þess að lesa langar greinar (svo ég tali nú ekki um bækur) þurfa þær að vera um áhugavert efni. Það er engin von til þess að aðrir hafi sömu áhugamál og ég og með því að skrifa eins og ég geri,  um hitt og þetta fer ekki hjá því að sumt er óáhugavert fyrir marga.

Mér gengur alveg furðanlega að hrista stjórnmálin af mér. Það er svo margt annað til í veröldinni að ekki dugir að eyða ótakmörkuðum tíma í þetta vesen. Auðvitað er áhugavert að fylgjast með pólitíkinni. Ég held að áhugi fólks á þessu fyrirbrigði hafi aukist mikið með Hruninu. Það er nú samt búið að fjasa svo mikið um þessa blessaða útrásarvíkinga að ég er orðinn hundleiður á því. Man eftir kynningu á Bifröst þar sem flugfélagið Hundleiðir var kynnt. En það er nú önnur saga.

Auðvitað sætta blessuð börnin sig bærilega við stríðsástand og hvers kyns óáran því þau þekkja ekkert annað. Samt er meðferðin á þeim, þó hún líti sæmilega úr á yfirborðinu, hreinasta nauðgun, og engar líkur fyrir þau að fá nokkurntíma að upplifa að sem við köllum „eðlilega bernsku“. Það er alls ekki nema eðlilegt að hjálparstarfsmenn líti fyrst til þeirra. Samt er fullorðna fólkinu líka vorkunn. Þau eru flest saklaus og þó þau hafi neyðst til að styðja rangan aðila, er með engu móti hægt að lá þeim það. Veit vel að þessi klausa er fremur illa komin innan um allan hálfkæringinn í þessu bloggi. En svona er þetta bara. Það er ekki hægt að vera góður og uppörvandi alltaf.

IMG 2812Hér stóð bær.


1909 - 4 - 8 - 5 og sjö

4 – 8 – 5 og sjö
14 – 12 og níu.
11 – 13 eitt og tvö
18 – 6 og 10.

Þetta er fræg tölustafavísa og ég tek fram að ég samdi hana alls ekki. Sonur minn brilleraði einu sinni í skóla með því að kannast við þessa vísu. Útkoman (ef allar tölurnar eru lagðar saman) er stórt hundrað eða 120 eins og allir þeir sem fornum fróðleik unna, hljóta að vita.

Einhverntíma las ég bók sem hét (og heitir sjálfsagt enn) „Dýrðlegt fjöldasjálfsmorð“ Hún var eftir finnskan höfund. Sennilega hef ég lesið hana á íslensku (örugglega ekki á finnsku) því nafnið er sennilega rétt hjá mér. Nenni samt ekki að spyrja Gúgla.

Efnið var að tveir menn hittust einhversstaðar í Finlandi og voru báðir á leiðinni til að fremja sjálfsmorð. Fóru samt að tala saman og datt í hug að auglýsa eftir fólki í fjöldasjálfsmorð. Gerðu það og fengu í framhaldinu rútu sem var fyllt af líkt þenkjandi fólki og svo var leitað að góðum stað. Leikurinn barst til Norður-Noregs og þaðan til Þýskalands og mig minnir að þetta hafi allt farið í handaskolum fyrir rest.

Þessi bók er eftirminnilega eins og margar finnskar bækur (skyldu Finnar vera líkir okkur?). Dettur stundum í hug fjöldafullnæging frekar en fjöldasjálfsmorð þegar ég horfi á endalok íþróttakappleikja í sjónvarpinu.

Það Deja Vu sem ég man best eftir, tengist páfadauða. Kannski þarf að útskýra fyrir einhverjum hvað Deja Vu er. Endurupplifun væri kannski hægt að nefna það á íslensku. Í svefnrofunum á Hótel Esju heyrði ég í útvarpinu sagt frá því að páfinn væri dauður og nú yrði að kjósa nýjan. Ég var alveg sannfærður um að ég hefði heyrt þetta skömmu áður undir sömu kringumstæðum. Seinna kom svo í ljós að þetta var allt páfanum að kenna. Hann hafði tekið uppá því að drepast stuttu eftir að hann var kjörinn páfi. Dagsetningu væri hægt að finna eða tala við páfafróðan mann en raunverulegt Deja Vu var þetta semsagt ekki.

Á svipuðum tíma man ég eftir að Bresnév eða einhver Sovétleiðtogi drapst skyndilega. Á fundi með einhverjum spáði ég um hver mundi taka við af honum og nefndi eina rússneska nafnið sem ég mundi eftir í svipinn. Það var nafnið Andropov. Mikil var undrun mín, þegar hann fékk svo djobbið.

Í skólanum í gamla daga hætti mér til að rugla saman ánum á Norð-Austurlandi. (Jökulsá á Fjöllum, Jökulsá í Dal og Lagarfljóti). Enda er ég Sunnlendingur, en ekki Austfirðingur. Finnst ekkert flókið varðandi Hvítá, Tungufljót, Brúará, Sog og Ölfusá. (Velti samt fyrir mér í eina tíð af hverju Jóni Gerreksyni var fleygt í Brúará en ekki Hvítá.) Bjó í Borgarnesi í þónokkur ár og á samt í miklum vandræðum við að greina á milli Borgarfjarðardalanna allra.

Þeir litlu flokkar sem kannski koma manni á þing í kosningunum í vor eru: Dögun, Píratar, Hægri grænir og Lýðræðisvaktin. (Já, nöfnin eru illa valin) Svo er það spurningin hvort Vinstri grænir, Björt framtíð og jafnvel Samfylkingin sjálf eru litlir flokkar. Gætu orðið það. Ef menn vilja fá Sjálfstæðismenn og Framsókn yfir sig aftur þá er ekkert við því að segja. Sú stjórnarandstaða sem þá tæki við völdum ætlar sér sennilega að hefja málþóf í æðra veldi.

Sagt er á Smugunni að Margrét Tryggvadóttir ætli að reyna að leika á Sigmund Davíð og Bjarna Ben með tillöguflutningi á alþingi. Bíðum og sjáum hvað setur. Efast um að öll kurl séu til grafar komin þar. Hef samt takmarkaðan áhuga á því sem gerist á alþingi. Finnst illa farið með tímann (sem sagður er af skornum skammti) þar.

IMG 2805Að byggja hús.


1908 - Under the Dome

Nú ætla ég að skrifa um bækur. Ég er nýbúinn að lesa bókina „Under the Dome“ eftir Stephen King. Þessi bók er einkum merkileg fyrir hugmyndina. Höfundurinn er óþægilega orðmargur en eflaust hentar það sumum og ekki er hægt að neita því að það er margt sem hann þarf að koma að.

Grunnhugmyndin er sú að einhverskonar hjálmur hvolfist skyndilega yfir lítið bæjarfélag í Bandaríkunum. Hjálmurinn er gegnsær og ómögulegt er að sjá hann, en sterkur mjög og engin leið að komast í gegnum hann. Forcefield eiginlega. Hann veldur að sjálfsögðu ýmiss konar vanda þegar hann hvolfist skyndilega yfir. En dagar og vikur líða án þess að hann fari í burtu og vera hans gefur höfundinum margskonar færi á að lýsa smábæjarlífinu.

Að því leyti líkist sagan „Peyton Place“ eða Sámsbæ sem var feykivinsæl bók fyrir löngu síðan. Heimspekilegar vangaveltur sem tengjast hjálminum gefa höfundinum tækifæri til að fjalla um lífið í þessum smábæ á margvíslegan hátt. Einnig eru tæknilegar og vísindalegar spurningar í þessu sambandi fyrirferðarmiklar og það er einkum í því sambandi sem ég er oft ósammála höfundinum. Hann fjallar þó um flestar þær hugsanlegu spurningar sem upp koma í þessu sambandi og hefur greinilega kynnt sér málin vel.

Fyrir allmörgum árum las ég bókina „The Stand“ eftir sama höfund. Sú bók fjallar um drepsótt sem herjar á allan heiminn en leggur þó ekki alla að velli, því fáeinir lifa af. Þónokkur fjöldi safnast saman í Denver í Colorado og í bókinni er lífinu þar lýst á sannfærandi hátt.

Stephen King hefur samið mikinn fjölda bóka og er einn vinsælasti höfundur Bandaríkjanna. Mér finnst þó þessar tvær bækur standa langfremst af þeim sem ég hef lesið eftir hann.

Sýnist að búið sé að slátra stjórnarskrárfrumvarpinu. Líklega á að samþykkja tillöguna frá þríeykinu (Katrínu, Guðmundi og Árna Páli) Hugsanlega á samt eftir að sannfæra einhverja stjórnarsinna um að það sé jafn-nauðsynlegt að samþykkja hana og að losa sig við stjórnarskrárfrumvarpið. En hvernig á þá að gera við kvótagreyið?

Miklar líkur held ég að séu á því að úrslit kosninganna í vor verði svipuð því sem skoðanakannanir sýna núna. Það er að segja: Útlit er fyrir talsverðan ávinning Framsóknar, tap Sjálfstæðisflokksins, allmikið tap ríkisstjórnarflokkanna og talsverðan fjölda smáflokka. Björt framtíð er líkleg til að fá nokkra þingmenn, sömuleiðis er líklegt að einhverjir smáflokkanna (kannski 2 – 4 ) fái þingmenn kjörna.

Afleiðingar þessara úrslita verða líklega einkum þær að Framsókn mun sennilega fara í ríkisstjórn, en hvort hún muni halla sér til vinstri eða hægri í leit að stuðningi til að ná meirihluta get ég ómögulega séð. (Fer kannski eftir því hve tap Sjálfstæðisflokksins verður mikið)

Í heildina vona ég þó að fjórflokkurinn tapi verulega. Hvað sjálfan mig varðar er líklegast að valið standi einkum á milli Bjartrar Framtíðar og Pírataflokksnins. Annars er þetta mín kosningaspá, en hún verður kannski lagfærð þegar nær dregur kosningum.

IMG 2737Auðvitað veit hún alltaf allt best.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband